Vatn
Vatn er talin ein mikilvægasta auðlind heims enda þrífst ekkert líf án vatns, hvorki menn, dýr né gróður. Ísland er ríkt af vatni, bæði yfirborðsvatni og grunnvatni. Vatnakerfi landsins er fjölbreytt en það er m.a. myndað úr köldum og tærum lindaám, lækjum með jarðhitavatni, jökulám og dragám.
Aðgangur að vatni er mikilvægur fyrir velferð íslensku þjóðarinnar og er nýting vatnsauðlindarinnar fjölbreytileg. Íslendingar búa svo vel að geta nýtt ómeðhöndlað vatn til drykkjar; það er ein mikilvægasta uppspretta orkuframleiðslu í landinu; það er nýtt til húshitunar og fóstrar vatnalífríki í ám og vötnum.
Markmið með lögum um stjórn vatnamála er m.a. að vernda vatn og vistkerfi þess þannig að það njóti heildstæðrar verndar. Lögin taka til yfirborðsvatns og grunnvatns ásamt árósavatni og strandsjó. Með stjórn vatnamála er stefnt að samræmdri stýringu vatnamála með sjálfbærri nýtingu á vötnum, strandsjó og grunnvatni að leiðarljósi.
Í lögum um stjórn vatnamála er mælt fyrir um gerð vatnaáætlunar sem felur í sér heildstæða stefnu stjórnvalda um verndun vatnsauðlindarinnar en hluti af henni er aðgerðaráætlun og vöktunaráætlun. Vatnaáætlun, aðgerðaráætlun og vöktunaráætlun gilda í sex ár í senn og eru þau tímabil almennt kölluð vatnahringir. Núgildandi vatnaáætlun gildir frá upphafi árs 2022 til loka árs 2027.
Sjá einnig:
Lög og reglugerðir
Gagnlegir tenglar
UMHVERFISMÁL
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.