Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti
Í tilefni af 20 ára afmæli umhverfisráðuneytisins 23. febrúar 2010 Sigríður Tómasdóttir í Brattholti var ákveðið að heiðra minningu Sigríðar Tómasdóttur í Brattholti með því að afhenda náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti einstaklingi sem hefur unnið markvert starf á sviði náttúruverndar.
Fyrstu tvö árin var viðurkenningin afhent á Degi umhverfisins sem haldinn er hátíðlegur 25. apríl ár hvert. Árið 2012 var ákveðið að flytja viðurkenninguna yfir á Dag íslenskrar náttúru, enda er íslensk náttúra í forgrunni við val á viðurkenningarhafa.
Sigríður Tómasdóttir, fæddist 24. febrúar 1871 í Brattholti. Sigríður var baráttukona og náttúruverndarsinni sem lagði á sig mikið erfiði í baráttu gegn virkjun Gullfoss. Hún var því brautryðjandi á sviði náttúruverndarmála hér á landi og hefur æ síðan verið íslenskum náttúruverndarsinnum fyrirmynd.
Fyrri viðurkenningarhafar
2023 - Kristinn Jónasson hlaut Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti fyrir störf sín fyrir Snæfellsjökulsþjóðgarð. Kristinn var virkur í baráttunni fyrir stofnun þjóðgarðsins og hefur eftir það verið ötull við að vekja Snæfellsjökulsþjóðgarð til vegs og virðingar. Meðal áherslumála Kristins er að auðvelda eigi fólki að ferðast um svæðið og kynnast því. Þá hefur Kristinn einnig verið ötull talsmaður þess að landsvæði Svæðisgarðsins Snæfellsness komist á skrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) yfir svonefnd MAB eða Maður og lífhvolfssvæði (e. Mand and Biosphere). Auk framlags til náttúruverndar á Snæfellsnesi hefur hann einnig talað fyrir því að auka eigi vernd viðkvæmrar náttúru vítt og breitt um landið, s.s. á hálendi Íslands.
2022 - Ómar Ragnarsson hlaut Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti fyrir þá athygli sem hann hefur vakið á mörgu náttúruperlum landsins, sem og fyrir baráttu sína fyrir náttúruvernd. Í gegnum fjölmiðlastörf sín hefur Ómar fært þjóðinni hvert náttúruundrið á fætur öðru, alla leið heim í stofu. Jafnt með Stikluþáttum sínum og öðrum myndum um náttúruvernd, sem og með fréttaefni. Þá hefur Ómar verið ötull við að vekja athygli á rafknúnum farartækjum hin síðari ár.
2021 - Ólafía Jakobsdóttir hlaut Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti fyrir framlag sitt til verndar íslenskrar náttúru, sérstaklega náttúru Skaftárhrepps. Í umsögn ráðherra kom fram „að í tíð sinni sem sveitarstjóri hafi Ólafía m.a. beitt sér fyrir því að koma á skipulagi og umhirðu í Friðlandinu í Lakagígum, einu viðkvæmasta svæði íslenskrar náttúru, og uppbyggingu annarra innviða til verndar náttúrunni í Skaftárhreppi.“ Ólafía hafi látið víða að sér kveða á vettvangi frjálsra félagasamtaka sem starfa að náttúru- og umhverfisvernd, m.a. þátttöku í endurreisn Náttúruverndarsamtaka Suðurlands og sem ein aðal driffjöðrin í stofnun Eldvatna — samtaka um náttúruvernd í Skaftárhreppi. Þá hafi Kirkjubæjarstofa, í tíð Ólafíu, lagt mikla áherslu á skráningu örnefna, fornra leiða og sagna úr Skaftárhreppi.
2020 - Kári Kristjánsson hlaut Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti árið 2020 fyrir að hafa undanfarna áratugi sinnt náttúruvernd með eldmóði og áhuga. Í umsögn ráðherra kemur fram að Kári hafi verið baráttumaður í stórum náttúruverndarmálum sem smáum og sé laginn við að smita aðra af virðingu fyrir landinu með orðum sínum og gjörðum. „Djúpt innsæi og skilningur á náttúrunni, menningu og sögu einkennir Kára í störfum hans og hann er einstökum hæfileikum gæddur til að miðla þekkingu sinni til annarra,“ segir í umsögninni. Þá hefur Kári þróað aðferð til að flytja til gamburmosaþembur og koma þeim fyrir þar sem álagssár og villustígar hafa myndast og þannig náð að loka ljótum sárum, einkum í kringum Lakagíga, einu viðkvæmasta svæði íslenskrar náttúru. Gestamóttaka sem stunduð er af landvörðum í Lakagígum er enn fremur úthugsað hugarfóstur Kára og aðferðarfræði sem smám saman er að breiðast út um allt land þar sem tekið er á móti hverjum einasta gesti og hann upplýstur um undur svæðisins, umgengnisreglur og verndargildi.
2019 - Jón Stefánsson hlaut Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti árið 2019 fyrir kennslustörf í þágu umhverfis og náttúru. Segir í umsögn ráðherra að Jón hafi skarað fram úr sem kennari „með sínum óþrjótandi áhuga á að nýta nærumhverfi barnanna – náttúruna á heimaslóðum þeirra – til kennslu, rannsókna og upplifunar.“ Þannig hafi nemendur í Hvolsskóla verið virkir þátttakendur í fjölda náttúrutengdra verkefna og fundið á eigin skinni hvernig náttúran breytist og bregst við athöfnum mannanna. Má þar nefna vistheimtarverkefni sem Hvolsskóli hefur tekið þátt í frá 2013 þar sem nemendurnir beita viðurkenndum rannsóknaraðferðum við að kanna áhrif og árangur ólíkra aðferða við landgræðslu; gróðursetningu trjáplantna við rætur Heklu og; mælingar sjöundubekkinga á hopi Sólheimajökuls sem staðið hafa yfir frá 2010 og vakið hafa hemsathygli. „Með elju sinni, ástríðu og hugmyndaauðgi hefur Jón haft ómetanleg áhrif á hundruð barna sem hafa verið svo lánsöm að hafa haft hann sem kennara,“ segir í umsögninni.
2018 - Sveinn Runólfsson hlaut Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti árið 2018 fyrir að hafa um áratuga skeið staðið í framvarðarsveit í baráttunni fyrir vernd og endurreisn vistkerfa landsins. Segir í rökstuðningi ráðherra að Sveinn hafi helgað líf sitt þeirri hugsjón sinni að græða landið og tryggja sjálfbæra nýtingu þess. „Ævistarf Sveins við vernd landkosta er afar fjölbreytt. Þegar það hófst var uppblástur og ofbeit í algleymingi og lítill skilningur á áhrifum beitar. Uppgræðslustarfið var erfitt á foksvæðunum og öllu fagnað sem gróið gat. Sveinn hefur verið óþreytandi í boðskap sínum, fræðslu og hvatningu, jafnt til stjórnvalda sem almennings. Hann hefur stuðlað að rannsóknum, fræðslu, stofnun landgræðslufélaga og fjölbreyttum samstarfsverkefnum með þátttöku bænda og almennings sem aukið hefur bæði landlæsi og afköst í landgræðslustarfinu.“
2017 - Sigþrúður Jónsdóttir hlaut Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti árið 2017 fyrir áralanga baráttu sína fyrir verndun Þjórsárvera. Segir í rökstuðningi ráðherra að Sigþrúður hafi helgað líf sitt verndun svæðisins og unnið markvisst að vitundarvakningu um einstæða náttúru þess. Hún hafi verið meðal stofnenda Áhugahóps um verndun Þjórsárvera, haldið baráttufundi gegn virkjunum í Þjórsá, safnað undirskriftum gegn virkjunum og leiðsagt fjölmörgum hópum í gönguferðum um Þjórsárver. Hún hafi varið tíma, orku og fjármunum í baráttuna svo gengið hafi nærri henni og fjölskyldu hennar. Líkt og Sigríður í Brattholti hafi hún verið rekin áfram af einlægri hugsjón og sannfæringu um mikilvægi þess að umgangast landið og náttúruna af varkárni og virðingu.
2016 - Handhafar Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti árið 2016 voru annars vegar hjónin Kolbrún Ulfsdóttir og Jóhannes Haraldsson á Hótel Rauðuskriðu í Aðaldal og hins vegar Stella Guðmundsdóttir í Heydal í Mjóafirði. Þau Kolbrún og Jóhannes komu Hótel Rauðuskriðu í gegn um strangt vottunarferli norræna Svansins fyrst íslenskra hótela. Síðar fékk það gullmerki Vakans, sem er umhverfis- og gæðavottunarkerfi ferðaþjónustunnar. Sterk hugsjón hefur drifið þau áfram og er litið til Rauðuskriðu sem fyrirmyndarfyrirtækis í ferðaþjónustu í sveitum, ekki bara á Íslandi heldur einnig í umhverfisstarfi hótela á norrænum vettvangi. Stella hlaut viðurkenninguna m.a. fyrir að hafa skapað náttúruvænt ferðaþjónustufyrirtæki á afskekktu svæði sem annars hefði verið hætt við að legðist í auðn. Þannig hefur hún stuðlað að því að dreifa álaginu sem af fjölgun ferðamanna hlýst með því að skapa og bjóða upp á nýjan áfangastað í íslenskri náttúru. Af nærgætni og virðingu fyrir umhverfinu hefur hún opnað augu ferðamanna fyrir undrum náttúrunnar í þessum ævintýradal.
2015 - Handhafar Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti árið 2015 voru annars vegar hjónin Björn Halldórsson og Elisabeth Hauge á Valþjófsstöðum í Öxarfirði og hins vegar Völundur Jóhannesson á Egilsstöðum. Björn og Elisabeth hlutu viðurkenninguna fyrir eljusemi, kraft og áhuga í landgræðslu og skógrækt við erfið ræktarskilyrði á svæði sem stendur fyrir opnu norðurhafi. Völundur hlaut viðurkenninguna fyrir einstakt ræktunarstarf á hálendi Íslands í 640 metra hæð auk þess sem hann hefur barist fyrir vernd hálendisins og sýnt framsýni í uppbyggingu á fjölförnum leiðum á hálendinu.
2014 - Handhafi Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti árið 2014 var Tómas Knútsson. Tómas stofnaði Bláa herinn, sem eru frjáls félagasamtök hafa starfað síðan árið 1995 að umhverfisvernd í hafinu. Þeir sem til þekkja vita að Tómas og aðrir í þessum þarfa og friðsama her hafa unnið brautryðjendastarf við hreinsun í höfnun landsins með óeigingjörnu sjálfboðastarfi. Má þar nefna að yfir 1200 tonn af rusli hafa verið hreinsuð úr náttúrunni og komið til endurvinnslu í þessu starfi. Slíkar tölur segja þó aðeins litla sögu um mikilvægi starfsins sem Tómas og Blái herinn hafa unnið. Það sem skiptir kannski mestu máli í þessu samhengi er að við Íslendingar vöknum til meðvitundar um að umgengni okkar um haf og strendur skiptir ekki síður máli en umgengni okkar á fastalandinu.
2013 - Handhafi Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti árið 2013 var Vigdís Finnbogadóttir. Hún hefur í gegn um tíðina lagt áherslu á landgræðslu, skógrækt og náttúruvernd og veitt þessum málefnum ómetanlegan stuðning með því að halda þeim á lofti á opinberum vettvangi. Hún hefur hvatt þjóð sína til að huga að uppeldislegu gildi þess að kenna börnum ræktun og að vernda náttúruna. Hún hefur líkt jarðyrkju við uppeldi barna og sagt að ræktun landsins sé nátengd mannyrkju. Þá lagði Vigdís í forsetatíð sinni mikla áherslu á að græða upp landið og gróðursetja tré. Skógræktarfélag Íslands stofnaði árið 1990, henni til heiðurs og gleði, Vinaskóg í landi Kárastaða við Þingvelli. Hún hefur sameinað þjóð sína, ýtt undir virðingu hennar fyrir íslenskri náttúru, tungu og menningu og þannig verið þjóðinni góður uppalandi.
2012 – Handhafi Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti árið 2012 var Hjörleifur Guttormsson. Hjörleifur hefur um áratuga skeið barist fyrir verndun náttúru Íslands. Hann átti frumkvæði að stofnun Náttúruverndarsamtaka Austurlands og var þar formaður um níu ára skeið. Hjörleifur hefur átt beina aðkomu að stofnun og þróun margra helstu þjóðgarða landsins og var m.a. hvatamaður að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Hann beitti sér með ýmsum hætti í þágu náttúruverndar sem þingmaður og m.a. á rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða rætur í þingsályktunartillögu hans. Hjörleifur hefur einnig látið til sín taka í umhverfis- og náttúruverndarmálum á alþjóðavettvangi og verið fulltrúi á helstu ráðstefnum um umhverfismál sem efnt hefur verið til á alþjóðavísu á undanförnum 40 árum.
2011 – Handhafi Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti árið 2011 var Þóra Ellen Þórhallsdóttir grasafræðingur. Þóra Ellen hefur unnið merkar rannsóknir á gróðri Íslands og miðlað þekkingu sinni, ekki bara til stúdenta, heldur til þjóðarinnar allrar með fyrirlestrum og fjölmiðlaþátttöku. Hún hefur verið óhrædd við að koma fram með vísindaleg rök til verndar náttúru Íslands og vinna hennar við landslagsmat hefur markað tímamót varðandi vernd náttúru hér á landi.
2010 – Handhafi Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti árið 2010 var Sigrún Helgadóttir. Sigrún hefur helgað starfskrafta sína umhverfismálum, ekki síst við að miðla fræðslu til barna og ungmenna en einnig hefur hún lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að auka skilning almennings á náttúru og umhverfi. Sigrún stýrði m.a. Grænfánaverkefni Landverndar, Skólum á grænni grein, um átta ára skeið. Hún hefur samið námsefni í umhverfisfræðum og er höfundur bókar um Jökulsárgljúfur, Dettifoss og Ásbyrgi en hún var fyrsti landvörður þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum. Þá hefur Sigrún starfað með ýmsum félögum að umhverfismálum og einnig komið þekkingu sinni á framfæri á vettvangi stjórnmálanna.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.