Hoppa yfir valmynd

Samtök

Hér eru nefnd þau helstu samtök sem vinna að innleiðingu rafrænna viðskipta og hafa bein áhrif á þróunina hér innan lands.

ICEPRO – Iceland Trade Procedures and e-Commerce

ICEPRO er hlutlaus vettvangur þar sem opinberum aðilum, einkafyrirtækjum og lausnaraðilum gefst tækifæri til að sitja við eitt borð, miðla af reynslu, setja stefnu, skilgreina ferli og sannreyna tækni. ICEPRO safnar þekkingu á þessu sviði, innanlands og utan, og miðlar henni til aðildarfyrirtækja í formi verkefnaþátttöku, ráðstefnuhalds og kynninga ýmiskonar. Nánari upplýsingar er að finna á vef ICEPRO icepro.is.

Staðlaráð Íslands 

Yfirlýsing FUT um stuðning við BII

FUT, fagstaðlaráð Staðlaráðs í upplýsingatækni, hefur lýst yfir stuðningi við skilgreiningum á tæknilegri grunngerð rafrænna viðskipta sem unnið er að í vinnuhópi evrópsku staðlasamtakanna CEN. Vinnuhópurinn gengur undir heitinu „Business Interoperability Interfaces on public procurement in Europe“, CEN/ISSS WS BII. FUT hyggst, í samstarfi við Icepro, stuðla að innleiðingu þeirra afurða vinnuhópsins sem falla að íslensku viðskiptalífi, nú fyrst með útgáfu tækniforskriftar fyrir rafrænan reikning á grunni skilgreiningar „Profile 4 - Basic Invoice Only“.

Staðlaráð Íslands er samstarfsráð þeirra sem hagsmuna hafa að gæta af stöðlun og er aðild að ráðinu öllum heimil. Staðlaráð starfar á grundvelli laga um staðla og Staðlaráð Íslands nr. 36/2003 og starfsreglna sem staðfestar eru af iðnaðarráðherra. Í 2. grein starfsreglna Staðlaráðs er nánar mælt fyrir um hlutverk Staðlaráðs og verkefni. Þar kemur fram að verkefni ráðsins nái m.a. til þess að stuðla að framgangi stöðlunar á Íslandi á þann hátt sem gagnlegt þykir, m.a. með fræðslu, upplýsingum, aðild að starfsemi sem tengist stöðlun og þjónustu á sviðum sem óskað kann að verða eftir og stjórn Staðlaráðs samþykkir.

Staðlaráði er ætlað að starfrækja miðstöð stöðlunarstarfs hérlendis, hvetja til hvers kyns samstarfs um stöðlun og vera fulltrúi fyrir Íslands hönd á erlendum vettvangi á sviði stöðlunar.

Samkvæmt 6. grein starfsreglna Staðlaráðs eru stofnanir þess m.a. fagstaðlaráð og tækninefndir. Einnig getur stjórn sett á stofn fagstjórnir á tilteknum sviðum og starfshópa eða nefndir um afmörkuð verkefni, enda starfrækt í samvinnu við hlutaðeigandi hagsmunaaðila.

Hlutverk fagstaðlaráða er að samræma og hafa frumkvæði að stöðlunarvinnu á sínu sviði. Rétt til þátttöku hafa allir þeir sem hagsmuna eiga að gæta af stöðlun og samræmingu á því sviði. Starfsemi fagstaðlaráðsins er m.a. fólgin í samræmingu, frumkvæði og umsjón með stöðlunarvinnu og öðrum verkefnum á fagsviðinu ásamt þátttöku í innlendu og erlendu samstarfi. Fagstaðlaráðið leggur fram tillögur til stjórnar Staðlaráðs um stofnun nefnda á sínu sviði, skipan þeirra og störf, eftir því sem áhugi er fyrir meðal hagsmunaaðila.

Staðlaráð er fulltrúi Íslands í alþjóðlegu staðlasamtökunum ISO og IEC og evrópsku staðlasamtökunum CEN, CENELEC og ETSI og þátttakandi í norrænu stöðlunarsamstarfi INSTA.

Nánar á stadlar.is.

FUT, fagstaðlaráð í upplýsingatækni

FUT, fagstaðlaráð í upplýsingatækni FUT, er samstarfsvettvangur hagsmunaaðila á sviði upplýsingatækni. Vettvangurinn er opinn öllum sem hafa áhuga á samræmingu í uppbyggingu og/eða nýtingu upplýsingatækni, með formlegum eða óformlegum hætti.

FUT hefur lýst yfir stuðningi við skilgreiningum á tæknilegri grunngerð rafrænna viðskipta sem unnið er að í vinnuhópi evrópsku staðlasamtakanna CEN. Vinnuhópurinn gengur undir heitinu „Business Interoperability Interfaces on public procurement in Europe“, CEN/ISSS WS BII. FUT hyggst, í samstarfi við Icepro, stuðla að innleiðingu þeirra afurða vinnuhópsins sem falla að íslensku viðskiptalífi, nú fyrst með útgáfu tækniforskriftar fyrir rafrænan reikning á grunni skilgreiningar „Profile 4 - Basic Invoice Only“.

Stuðningur framkvæmdaráðs FUT byggir á þeirri staðreynd að innan Evrópu er frumkvæði BII hópsins, sem að grunni til byggir á vinnu Northern European Subset, NES, leiðandi í mótun skilgreininga á grunnþáttum rafrænna opinberra innkaupa. Á fundi fulltrúa Evrópusambandsins, CEN, UN/CEFACT og OASIS 15. október 2008 kom fram að starf BII hópsins nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar og er séð sem mikilvægt framlag til þeirrar vinnu sem á sér stað innan UN/CEFACT.

Framkvæmdaráð FUT hvetur jafnframt hagsmunaaðila til þátttöku í evrópska PEPPOL-tilraunaverkefninu, eftir því sem kostur er. Verkefnið, sem er styrkt af ICT Policy Support Programme (ICT PSP) verkefnaáætlun Evrópusambandsins, snýst um þróa rafræn opinber innkaup þannig að þau megi verða hnökralaus og auðveld í framkvæmd fyrir lítil sem stór fyrirtæki sem bjóða opinberum aðilum vörur sínar og þjónustu. PEPPOL-verkefnið hyggst nýta sér tæknilegar skilgreiningar vinnuhóps CEN til uppbyggingar sinnar grunngerðar.

GS1 Ísland

Hlutverk GS1 Ísland er að vera leiðandi við að koma á og viðhalda alþjóðlegu kerfi til samskipta í viðskiptum og til að auðkenna vörur, þjónustu og staðsetningar. Kerfið skal nýtast sem flestum atvinnugreinum og grundvallast á alþjóðlega viðurkenndum stöðlum.

Markmiðið er að kerfið nýtist notendum, samstarfsaðilum og neytendum við að auka skilvirkni í vörustjórnun.

GS1 Ísland vinnur í samræmi við reglur alþjóðasamtaka GS1 í Brussel (GS1 Global) sem varð til við sameiningu EAN International og UCC. Samtökin eru aðili að GS1 Global og koma fram fyrir Íslands hönd gagnvart þeim. Eitt af því sem GS1 Ísland fæst við er að úthluta númerum til íslenskra notenda og viðhalda númerabanka í þeim tilgangi.

Erlend samtök

NES er samstarfsvettvangur Norðurlandaþjóðanna á sviði rafrænna innkaupa.

CEN (Comité Européen de Normalisation).

CEN Staðlastofnun Evrópu, nefnist á ensku: „European Committee for Standardization“.

CEN/BII Árið 2007 hóf störf vinnunefnd er nefnist CEN/BII (Business Interoperability Interfaces) sem mætti nefna „gagnvirkt viðskiptaviðmót“ á íslensku.

OASIS (Organization for the Advancement of Structured Information Standards).

OASIS samsteypan var stofnuð árið 1993 undir nafninu SGML (Standard General Markup Language). Stofnendur voru m.a. IBM, Microsoft, Oracle, SUN og fleiri.

UN/CEFACT (United Nations Centre for Trade Facilitation and Electronic Business).

UN/CEFACT er vettvangur viðskiptaliðkunar og samræmdra rafrænna viðskipta. UN/CEFACT styður verk sem miða að því að bæta verslun og viðskipti, jafnt hjá opinberum stofnunum sem einkafyrirtækjum.

SEPA (Single Euro Payment Area).

SEPA sameiginlegu greiðslusvæði Evrópu er ætlað að koma á skjótum og öruggum greiðslum hvarvetna í Evrópu.

ISO (International Organization for Standardization).

ISO er heimsins stærsti útgefandi alþjóðlegra staðla. ISO er net alþjóðlegra staðlastofnana 162 landa, ein stofnun í hverju landi.

W3C (World Wide Web (WWW) Consortium) Þróar vinnulýsingar, hugbúnað og tól til stuðnings Veraldarvefnum, þ.á m. XML.

NES (Northern European Subset) NES er samstarfsvettvangur Norðurlandaþjóðanna á sviði rafrænna innkaupa. Skammstöfun er skýrð svo: „Northern European“ því að stofnendurnir voru Norðurlöndin fimm ásamt Bretlandi og „subset“ því að byggt er á hlutmengi UBL (Universal Business Language).

Markmið NES-hópsins er að koma á fót sameiginlegum vettvangi fyrir rafræn innkaup, bæði innanlands og á milli landa. NES-hópurinn samræmir ýmsar gerðir skjala fyrir rafræn innkaup. Vinna NES er framlag til þróunar alþjóðlegra staðla fyrir rafræn innkaup.

Árið 2007 gaf NES-hópurinn út fyrstu útgáfu sína af skeytalýsingum, fyrir rafræna reikninga, pantanir og vörulista. Alls voru gefnar út 8 umgjarðir (profiles). ICEPRO gaf út handbók á íslensku í desember 2007. Nefndist hún „rafræn innkaup með XML“.

Fjársýsla ríkisins innleiddi umgjörð 4, rafræna reikninga og gat tekið á móti og sent reikninga með NES/UBL-verklaginu. Vinna NES-hópsins fluttist til CEN/BII – vinnunefndar CEN, Staðlastofnunar Evrópu (sjá það). NES studdi við þessa vinnu sem stýrihópur, en

Fjársýsla ríkisins og ICEPRO eru fulltrúar Íslands í NES-stýrihópnum, en íslenskar tækniforskriftir fyrir rafrænan reikning, pantanir og fleiri skjöl byggjast nú á vinnu CEN/BII1. 

CEN (Comité Européen de Normalisation)

CEN, Staðlastofnun Evrópu, nefnist á ensku: „European Committee for Standardization“. CEN greiðir fyrir viðskiptum með því að fjarlægja viðskiptahindranir evrópskra fyrirtækja og neytenda. CEN stuðlar að þróun evrópskra staðla og annarra tæknilýsinga.

Aðildarlönd ESB og EFTA vinna saman að staðlagerð þessari, alls 30 þjóðir. Á vettvangi CEN vinna um 60.000 sérfræðingar auk samtaka viðskipta og neytenda. Áhrif CEN ná til rúmlega 480 milljón manna.

CEN staðlar hafa sterka stöðu á meðal þátttökulandanna, en evrópustaðlar verða sífellt mikilvægari liður í því laga- og reglugerðaumhverfi sem við búum við. Geti löndin 30 sameinast um einn staðal í stað hinna ýmsu misvísandi staðla hvers lands, þá er hægt að koma vöru á markað með margfalt lægri tilkostnaði. Evrópustaðlar efla innri markað Evrópu og styrkja álfuna á heimsvísu.

Framkvæmdastjóri Staðlaráðs, Guðrún Rögnvaldardóttir, er varaforseti CEN.

CEN-CENELEC ICT Forum

CEN-CENELEC ICT Forum er samstarfsvettvangur evrópsku staðlasamtakanna CEN og rafstaðlasamtakanna CENELEC á sviði upplýsingatækni. Aðild að vettvangnum eiga 30 landsstaðlasamtök í Evrópu, þ.e. þau sem eru innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), samtök neytenda í Evrópu (ANEC), evrópsk samtök lítilla og meðalstórra fyrirtækja (NORMAPME), staðlasamtök Evrópu á fjarskiptasviði (ETSI) og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Vettvangurinn er sá staður þar sem litið er yfir þróun stöðlunar á upplýsingatæknisviði í Evrópu, ný verkefni rædd og áherslur ákveðnar.

Undir merkjum CEN-CENELEC ICT Forum starfa sérfræðingar að sammælum og stöðlun í undirnefndum, tækninefndum og vinnuhópum og gefa út staðla, tækniforskriftir og sammæli vinnunefnda (CWA , CEN Workshop Agreement).

CEN-CENELEC ICT Forum heyrir undir CEN BT (Technical Board). Framkvæmdastjóri Staðlaráðs, Guðrún Rögnvaldardóttir, er varaforseti Evrópsku staðlasamtakanna CEN. 

CEN/BII (Business Interoperability Interfaces)

Árið 2007 hóf störf vinnunefnd er nefnist CEN/BII (Business Interoperability Interfaces) sem mætti nefna „samstarfsskil viðskipta“. Markmið vinnunefndarinnar var að útvega þær tæknilýsingar sem þurfti til aukinnar samstarfshæfni í rafrænni verslun innan Evrópu. Upphaf vinnunefndarinnar var aðlögun NES og CODICE á UBL 2.0 skjölum að rafrænum innkaupum.

Í mars 2010 gaf CEN/BII1 vinnunefndin út CWA samþykktir fyrir rafræn innkaup.

Íslenskar tækniforskriftir fyrir rafræn skjöl byggja á þessari vinnu og eru í notkun enn í dag (2017).  

Vinnu CEN/BII-hópsins var samt ekki lokið. Önnur lota hófst skömmu eftir fyrstu útgáfuna, til að þróa ítarlegri leiðbeiningar, verkfæri og viðskiptaferla.

ICEPRO var gestgjafi 30 manna vinnufundar CEN/BII2 í júní 2012 og aftur 40 manna vinnufundar CEN/BII3 í maí 2015.

Afurðir vinnunefndarinnar kallast CWA (CEN Workshop Agreement) sem er útgáfa á rafrænum skjölum, viðskiptaferlum, leiðbeiningum og verkfærum fyrir rafræn innkaup.

CEN/BII-vinnunefndirnar hafa nú lokið sínu hlutverki, verklokin urðu í desember 2015: 

Í september 2014 stofnaði CEN tækninefnd nr. 434 um rafrænan reikning.

Það var gert vegna tilskipunar Evrópuþingsins nr. 2014/55/EU um samræmdan rafrænan reikning fyrir alla Evrópu, efnahagssvæðið þar með talið. 

Nefndin CEN/TC/434 skilaði verkinu í mars 2017, en Evrópulönd hafa 18 mánuði til að innleiða reikninginn samkvæmt staðlinum.

Í júní 2015 stofnaði CEN tækninefnd nr. 440 til að annast stöðlun á rafrænum innkaupum, bæði fyrir rafrænt útboð og rafræna verslun. Byggt er á vinnu CEN/BII, sem er komin í notkun á Íslandi sem og á Norðurlöndum. 

Áætluð verklok eru síðla árs 2018. ICEPRO fylgist með framvindu verksins.

PEPPOL (Pan-European Public eProcurement On-Line)

Markmið PEPPOL er að koma á fót samræmdum rafrænum innkaupum á meðal Evrópuþjóða. Sérhvert fyrirtæki í Evrópu – jafnt stórt sem lítið – á að geta átt rafræn samskipti við evrópskar stofnanir – í gegnum samfellt rafrænt innkaupaferli.

PEPPOL er stutt af tveim stuðningsáætlunum framkvæmdastjórnar ESB:

CIP – Competitiveness & Innovation Framework Programme og

ICT – Information and Communications Technology Policy Support Programme

Með vinnu PEPPOL verður til alhliða umhverfi byggt á þjóðlegum kerfum og innviðum, sem styðja rafræna innkaupakeðju frá upphafi til enda. Þannig eiga lítil sem stór fyrirtæki í Evrópu að geta gert rafræn innkaup hjá hvaða stjórnsýslustofnun sem er innan Evrópu.

Frumverkefni PEPPOL munu styðja við hvers konar fjármálaumsýslu á Evrópusvæðinu. Hægt verður að svara öllum útgefnum útboðum rafrænt og stýra öllu innkaupaferlinu frá innviðum einnar þjóðar til annarrar. Jafnframt leggur PEPPOL áherslu á virkjun og þátttöku lítilla og meðalstórra (SME) fyrirtækja í opinberum innkaupum.

OASIS (Organization for the Advancement of Structured Information Standards)

OASIS samsteypan var stofnuð árið 1993 undir nafninu SGML (Standard General Markup Language). Stofnendur voru m.a. IBM, Microsoft, Oracle, SUN og fleiri.

SGML er svokallaði ívafsmál og er grunnur málanna HTML og XML. OASIS samtökin eru ekki rekin í hagnaðarskyni og afurðir þeirra eru ókeypis.

OASIS og UN/CEFACT hófu samvinnu við ebXML staðalinn árið 1999. Tilgangurinn var að búa til hóp „rafrænna skrifstofuskjala“, sem leysa mundi EDIFACT-staðalinn af hólmi. ebXML-staðallinn leiddi af sér miklar væntingar á meðal EDIFACT-notenda.

Árið 2001 hófst vinnan við UBL og kom fyrsta útgáfa UBL 1.0 út árið 2004. UBL er safn 31 skeyta sem öll byggjast á XML ívafsmálinu. Þarna er að finna öll helstu skeytin sem notuð eru við rafræn innkaup.

UBL útgáfa 2.0 kom út í nóvember 2006. Nýja útgáfan sem hefur stærra gildissvið en sú eldri. Vinna NES-hópsins byggist á UBL 2.0. 

UN/CEFACT (United Nations Centre for Trade Facilitation and Electronic Business)

UN/CEFACT er vettvangur viðskiptaliðkunar og samræmdra rafrænna viðskipta. UN/CEFACT styður verk sem miða að því að bæta verslun og viðskipti, jafnt hjá opinberum stofnunum sem einkafyrirtækjum. Lögð er áhersla á að liðka fyrir þjóðlegum og alþjóðlegum viðskiptum með einföldun og samræmingu vinnuferla.

Á vefsíðu UN/CEFACT er að finna:

– Tilmæli um liðkun viðskipta (Trade Facilitation Recommendations)

– Staðla fyrir rafræn viðskipti (Electronic Business Standards)

– Tæknilýsingar (Technical Specifications)

UN/CEFACT hefur m.a. gefið út:

– Sniðlykil fyrir viðskiptaskjöl (UN Layout Key for Trade Documents)

– UN/EDIFACT, alþjóðlegan staðal fyrir skjalaskipti milli tölva (SMT)

– Fjölmörg tilmæli um liðkun viðskipta

– Drög að næstu kynslóð viðskiptaliðkunar ásamt stöðlum og tækjum fyrir rafræn viðskipti.

UN/CEFACT heyrir undir UN/ECE – United Nations Economic Commission for Europe, efnahagsnefnd Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu. Til stuðnings UN/CEFACT starfar skrifstofa í tengslum við UN/ECE og á milli funda starfa eftirfarandi fastir hópar:

FMG – Forum Management Group

TBG – Trade and Business Processes Group

LG – Legal Group

TMG – Techniques and Methodologies Group

ICG – Information Content Group

ATG – Applied Technologies

TBG hóparnir kanna þarfir hinna ýmsu viðskiptasviða og stuðla að bestu starfsvenjum og alþjóðlegum verkferlum í viðskiptum. UMM - „UN/CEFACT Modelling Methodology“ er notuð til stuðnings viðskiptaliðkun og rafrænum viðskiptalausnum. Hóparnir eru 19 talsins:

TBG1 – Supply Chain

TBG2 – Digital Paper

TBG3 – Transport & Logistics

TBG4 – Customs

TBG5 – Finance

TBG6 – Architecture, Engineering and Construction

TBG8 – Insurance

TBG9 – Travel, Tourism and Leisure

TBG10 – Healthcare

TBG12 – Accounting & Audit

TBG13 – Environmental

TBG14 – Business Process Analysis

TBG15 – International Trade Procedures

TBG16 – Entry Points

TBG17 – Core Component Harmonization

TBG18 – Agriculture

TBG19 – e-Government

Árið 1974 gaf UN/CEFACT út tilmæli nr. 4 um stofnun nefnda til að örva innleiðingu alþjóðlegra viðskiptaferla. ICEPRO er ein af rúmlega 50 PRO-nefndum UN/CEFACT og hefur unnið með þeim í rúman aldarfjórðung að útgáfu EDIFACT raunstaðla fyrir rafræn skjöl. ICEPRO hefur gefið út 27 íslensk EDIFACT-skjöl fyrir rafræn viðskipti á Íslandi, sjá vefsíðuna EDIFACT-staðlar.

UN/CEFACT fulltrúar hinna ýmsu landa nefnast HoD (Head of Delegation).

SEPA (Single Euro Payment Area)

SEPA sameiginlegu greiðslusvæði Evrópu er ætlað að koma á skjótum og öruggum greiðslum hvarvetna í Evrópu. Jafnt utanlands sem innan má nota debetkort til að inna af hendi greiðslu í evrum.

Verkefni þetta fer fram á vegum bankageira ESB og EFTA landanna, sem stofnuðu EPC (European Payments Council) árið 2002 vegna þessa. Markmiðið er eitt sameiginlegt greiðslusvæði um alla Evrópu. Verkið er stutt dyggilega af Seðlabanka Evrópu (ECB) og framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins (EC).

Rétt er að geta þess að í Evrópu er algengt að það taki tvo vinnudaga að flytja fé á milli banka. Hérlendis gerist það samdægurs. Ávinningur Íslendinga af SEPA yrði því einkum í milliríkjaviðskiptum.

ISO (International Organization for Standardization)

ISO er heimsins stærsti útgefandi alþjóðlegra staðla. ISO er net alþjóðlegra staðlastofnana 162 landa, ein stofnun í hverju landi. Aðalstöðvar ISO eru í Genf í Sviss. ISO eru frjáls félagasamtök sem brúa bil opinbera geirans og einkageirans.

Staðlaráð Íslands er aðili að ISO fyrir Íslands hönd. 

W3C (World Wide Web (WWW) Consortium)

Þróar vinnulýsingar, hugbúnað og tól til stuðnings Veraldarvefnum, þ.á m. XML.

„The World Wide Web Consortium (W3C) develops interoperable technologies (specifications, guidelines, software, and tools) to lead the Web to its full potential. W3C is a forum for information, commerce, communication, and collective understanding.“

Sjá einnig:

Rafræn viðskipti

Síðast uppfært: 10.1.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta