Ferðalög hinsegin fólks
Viðhorf gagnvart hinsegin fólki eru á mörgum stöðum í heiminum frábrugðin því sem við eigum að venjast á Íslandi. Réttindi hinsegin fólks eru víða ekki virt og samkynja sambönd og/eða samlífi brot samkvæmt lögum í um það bil einu af hverjum þremur ríkjum heims. Þá ber að athuga að þó svo að lög í viðkomandi ríki mismuni ekki hinsegin fólki með lögum þá er ekki gefið að réttindi hinsegin fólks séu tryggð eða að viðhorf í þeirra garð sé jákvætt.
Áður en haldið er af stað:
Kannið vel reglur, lagaumhverfi og viðhorf þess ríkis sem ferðast er til með tilliti til réttinda hinsegin fólks sem og almenn viðhorf þar í landi. Athugið vel að munur getur verið á milli héraða, lands- og/eða borgarhluta.
Gott er að skoða til dæmis heimskort ILGA (International Lesbian, Gay, Bisexual, Trans and Intersex Association). Athugið að heimskort ILGA gefur aðeins yfirsýn yfir lagaleg réttindi hinsegin fólks en þau endurspegla ekki alltaf ríkjandi viðhorf í garð hinsegin fólks.
Þá gæti verið gott að fá ráð á netsíðum, spjallsvæðum eða í hinsegin nethópum á staðnum. Íbúar á viðkomandi landsvæði hafa oft mestu þekkingu og reynslu á því hvernig hlutirnir eru í raun og veru. Athugið að almennar netsíður taka ekki alltaf tillit til þess hvernig hinseginleiki þinn birtist.
Athugið að sum hótel og þjónustuveitendur kunna að neita samkynja pörum að bóka herbergi eða veita þeim aðra þjónustu. Þá eru hótel í auknum mæli byrjuð að taka það fram ef þau bjóða samkynja pör velkomin.
Kannið hvort ríkið viðurkennir kynhlutlausa skráningu í vegabréfi eigi það við, jafnvel þó eingöngu sé millilent í ríkinu. Trans og kynsegin einstaklingar geta lent í vandræðum eða seinkunum á landamærum sé það sýnilega trans eða misræmi á milli útlits og þess kyns sem fram kemur í ferðaskilríki viðkomandi. Ef mynd ferðalangs á ferðaskilríki er ólík útliti hans í dag er mælt með að sækja um ný skilríki með nýrri mynd. Þetta getur einnig átt við um sís hinsegin fólk sem hefur breytt kyntjáningu sinni.
Hugið að því hvort skynsamlegt sé að taka með frekari gögn, til dæmis fæðingarvottorð, skjöl sem sanna forræði yfir börnum og leyfi til að ferðast með þau séu ekki báðir forráðamenn (ef við á) að ferðast. Mikilvægt er að fá vottun sýslumanns (lögbókandagerð) á slík skjöl til að auka trúverðugleika þeirra. Einnig getur þurft að fá Apostille-vottun á slík skjöl sem sýslumaður hefur vottað. Sjá nánar á eftirfarandi slóðum:
https://island.is/stadfesting-a-undirskrift-eda-loegbokandavottun
Gott er að vista símanúmer hjá sólarhrings neyðarvakt borgaraþjónustunnar (+354 545 0112), sendiráði eða ræðismanni Íslands á staðnum. Á vef utanríkisráðuneytisins er að finna upplýsingar um sendiráð og ræðismenn um allan heim.
Kannið hvort kaup á ferðatryggingu séu nauðsynleg. Slíkt á aðallega við þegar ferðast er utan EES og kortatryggingar ekki til staðar. Tryggingar íslensku kreditkortanna eru oft víðtækar.
Á meðan dvöl stendur:
Gætið varúðar og verið meðvituð um mögulegar áhættur. Jafnvel þó ríki séu tiltölulega jákvæð gagnvart hinsegin fólki og samkynja sambönd og/eða samlífi eða kynleiðrétting ekki brot samkvæmt lögum getur hinsegin fólk orðið fyrir áreiti eða ofbeldi.
Í einhverjum ríkjum hefur heyrst af skipulagðri fyrirsát í garð hinsegin fólks. Slíkt getur gerst til dæmis í gegnum stefnumótaforrit og á svæðum þar sem hinsegin fólk er gjarnt á að hittast. Gætið fyllstu varúðar ef hitta á fólk sem þið þekkið ekki eða lítið.
Ef þið lendið í vandræðum erlendis, verðið fyrir áreiti eða ofbeldi skal fyrst reyna að komast í öruggt skjól. Metið svo með tilliti til hvar þið eruð stödd hvort tilkynna skuli til yfirvalda eða leita til sérhæfðra samtaka eða fyrirtækja um réttindi hinsegin fólks til að fá frekari ráð og aðstoð.
Alltaf má leita til borgaraþjónustunnar sem getur gefið almennar leiðbeiningar, komið á sambandi við sendiráð eða ræðismann eigi það við og/eða aðstoðað við að finna lögfræðing og túlk. Borgaraþjónustan getur hinsvegar ekki haft áhrif á dómsmál í öðrum ríkjum, greitt fyrir lögfræðiaðstoð eða haft afskipti af lögmætri meðferð mála frammi fyrir viðeigandi stjórnvöldum.
Á meðan dvalið er í erlendu ríki gilda þau lög og reglur sem þar hafa verið sett. Því þarf að gæta varúðar ef umhverfið virðist óvinsamlegt. Þetta getur þýtt allt frá kynlífi til þess að sýna blíðuhót á almannafæri sem kann að varða þungum viðurlögum.
Ef ferðast á til svæða utan stærri borga er gott að kanna vel aðstæður fyrirfram þar sem viðhorf getur verið frábrugðið því sem þekkist á þéttbýlari svæðum. Á sumum stöðum eru ferðaskrifstofur sem sérhæfa sig í ferðum fyrir hinsegin fólk sem hægt er að leita til.
Gagnlegar vefsíður:
- International Lesbian, Gay, Bisexual, Trans and Intersex Association: veita upplýsingar um hinsegin réttindi víða um heim
- International Gay and Lesbian Travel Association: ferðaleiðbeiningar fyrir homma og lesbíur
- LGBTQ+ Travel Guide to Europe: ferðaleiðbeiningar fyrir hinsegin fólk á ferð um Evrópu
- Equaldex: wiki síða með upplýsingum um hinsegin réttindi eftir löndum
- ILGA World Database: tölfræði um lagaumhverfi fyrir hinsegin fólk víða um heim
- Harvard University Support for LGBTQ+ Travelers: Ferðaleiðbeiningar til hinsegin ferðalanga
- Human Dignity Trust: Heimskort sem sýnir hvar hinsegin fólk getur verið sótt til saka
- Hlekkir á ferðaviðvaranir helstu samstarfsríkja
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.