Hoppa yfir valmynd

Alþjóðamál

Virðing fyrir þjóðarétti og fjölþjóðasamvinna eru smáum herlausum ríkjum eins og Íslandi afar mikilvæg. Hlutverk utanríkisþjónustunnar er að viðhalda traustum alþjóðatengslum, gæta hagsmuna Íslands í hvívetna og tryggja að rödd Íslands heyrist á alþjóðavettvangi. Ýmsar skyldur felast í aðild Íslands að alþjóðasamningum, alþjóðlegu regluverki og dómstólum en jafnframt réttindi sem geta skipt miklu um þjóðarhag.

Utanríkisstefnan byggist á grundvallargildum um frið, lýðræði, mannréttindi, kynjajafnrétti og sjálfbæra þróun. Að undanförnu hefur verið vegið að fjölþjóðakerfinu sem reist er á þessum sömu gildum og skipa Ísland og Norðurlöndin sér í framvarðasveit þeirra ríkja sem standa vilja vörð um þann árangur sem náðst hefur.

Stjórnvöld láta mjög til sín taka á sviði mannréttinda og hafa í auknum mæli sett kynjajafnrétti og réttindi hinsegin fólks á oddinn í málafylgju á alþjóðavettvangi. Ísland var í fyrsta sinn kosið til fullrar aðildar að mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í júlí 2018 og sat þar til loka ársins 2020. Seta Íslands í ráðinu er eitt veigamesta hlutverk sem Ísland hefur gegnt á alþjóðavettvangi. Framganga Íslands vakti athygli sem sýndi að fámenn ríki geta haft afgerandi áhrif og jafnframt að íslenska utanríkisþjónustan ráði fyllilega við verkefni af þessum toga.

Í samræmi við stefnu stjórnvalda í loftlagsmálum og framgang heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna er aukin áhersla lögð á þátttöku á alþjóðavettvangi í auðlinda- og umhverfismálum. Í þeim málaflokkum fer saman mikilvægi þess að verja rétt Íslands til auðlindanýtingar með sjálfbærum hætti og ábyrg stefna í loftslagsmálum og umhverfisvernd. Vaxandi alþjóðleg eftirspurn er eftir því að Íslendingar miðli af þekkingu sinni og reynslu á sviði orkumála, sérstaklega hvað varðar jarðhitanýtingu.

Norðurskautsráðið er mikilvægasti samráðsvettvangurinn um málefni norðurslóða og hefur alþjóðapólitískt vægi formennskunnar aukist til muna á undanförnum árum. Ísland fór með formennsku í Norðurskautsráðinu 2019-2021 undir yfirskriftinni Saman til sjálfbærni þar sem áhersla var lögð á málefni hafsins, loftslagsmál og endurnýjanlega orku, og fólk og samfélög á norðurslóðum ásamt því að efla enn frekar starfsemi Norðurskautsráðsins. Aðildarríkin fara með formennskuhlutverk til skiptis tvö ár í senn og tóku Rússar við formennskukeflinu á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Reykjavík í maí 2021.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 18.7.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta