Grannríkjasamstarf
Í óstöðugum heimi verður svæðasamstarf æ mikilvægara. Norrænt samstarf er einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Sem ríkjahópur eiga Norðurlöndin sterka rödd á alþjóðavettvangi sem gerir þeim kleift að hafa umtalsverð áhrif. Samstarf Norðurlandanna er mikilvægur vettvangur, ríkin deila sömu gildum og eiga óformlegar og hreinskiptnar
viðræður þar sem skipst er á upplýsingum um svæðisbundin og alþjóðleg málefni. Samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna (NB8) er einnig þýðingarmikið fyrir öll ríkin. Meginmarkmið samstarfsins eru nánar viðræður um málefni sem eru öllum ríkjunum mikilvæg og aukin samvinna og tengsl. Ísland og Eystrasaltsríkin eiga ekki einungis í nánu samstarfi á vettvangi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, heldur líka innan vébanda Atlantshafsbandalagsins, Sameinuðu þjóðanna, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), Evrópuráðsins og Alþjóðabankans. Reglulegt samráð á sér einnig stað milli utanríkisráðherra NB8 ríkjanna og Visegrad-ríkjanna (Tékkland, Ungverjaland, Pólland og Slóvakía).
Annað svæðisbundið samstarf í Norður-Evrópu sem Ísland á aðild að og vert er að nefna eru Eystrasaltsráðið, Norðurskautsráðið, Norræna víddin, Vestnorræna samstarfið og Barentsráðið.
Norræn samvinna
Kjölfestan í samstarfi stjórnvalda er á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar. Alls er um að ræða samstarf 11 ráðherra og fagráðuneyta, auk ráðherrasamstarfs um stafræna væðingu. Norrænir fagráðherrar hittast venjulega 1-2 á ári til að ræða sameiginlega hagsmuni og viðfangsefni og þess á milli hittast embættismenn og ýmsir sérfræðinga- og vinnuhópar til að móta stefnu og undirbúa ákvarðanir ráðherranna. Samstarfsráðherrar Norðurlandanna bera ábyrgð á starfi Norrænu ráðherranefndarinnar í umboði norrænna forsætisráðherra, og skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn skapar umgjörð um samstarfið og veitir faglega aðstoð.
Utanríkisráðherrar Norðurlandanna funda einnig tvisvar á ári með utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna, einu sinni undir merkjum NB8-samstarfsins og í hitt skiptið með utanríkisráðherrum Visegrad-ríkjanna: Póllands, Slóvakíu, Tékklands og Ungverjalands, á hinum svokölluðu NB8-V4 fundum. Á fundum NB8 hefur meðal annars verið fjallað um samskiptin við Rússland og samstarf við Eystrasaltið, um orkuöryggi og netvarnir, og á fundum NB8-V4 er fjallað um svæðisbundið samstarf í breiðu samhengi, um Evrópumál, öryggismál og viðskiptasamstarf, og annað það sem efst er á baugi hverju sinni.
Efnahagssamvinna
Efnahags- og framfarastofnunin (e. Organization for Economic Co-operation and Development, OECD) í París hefur það markmið að bæta efnahagsþróun og hagvöxt, stuðla að bættum lífskjörum og vexti og þróun heimsviðskipta. Starf stofnunarinnar miðar að því að efla stefnumótun aðildarríkja sinna og vera vettvangur þar sem ríki geta borið saman stefnur og starfshætti, deilt reynslu sinni og leitað lausna á því hvernig skuli mæta sameiginlegum áskorunum. Stofnunin er leiðandi í tölfræðiúttektum og samanburðarrannsóknum og gefur út fjölda skýrslna ár hvert þar sem aðildarríkin og stefnumörkun þeirra á ólíkum sviðum er borin saman og árangur þeirra metinn.
Íslensk stjórnvöld hafa tekið virkan þátt í störfum OECD og nefnda stofnunarinnar um ríkisfjármál, skattamál, stjórnun efnahagsmála og opinbera stjórnsýslu. Ísland tekur einnig virkan þátt í nefndum OECD sem tengjast menntamálum, félagsmálum, umhverfismálum, viðskiptum og fjárfestingum, auk þróunarsamvinnunefndar OECD.
Pólitískt samstarf
Ísland er aðili að Barentsráðinu (e. Barents Euro-Arctic Council, BEAC) sem er samstarfsvettvangur Norðurlandanna fimm, Rússlands og Evrópusambandsins. Á vettvangi ráðsins er hugað að margvíslegu hagnýtu samstarfi um sameiginleg hagsmunamál á svæðinu, svo sem umhverfismál og ábyrga nýtingu auðlinda, ekki síst með hag frumbyggja að leiðarljósi.
Evrópuráðið er einn mikilvægasti vettvangur ríkja álfunnar til að stuðla að stöðugleika og friði, auk þess að vera vettvangur fyrir umræðu um mannréttindi og réttindi borgaranna.
Eystrasaltsráðið (Council of the Baltic Sea States, CBSS) hefur víðtækt verkefnasvið og innan þess fer fram margþætt efnislegt og faglegt samstarf aðildarríkjanna um málefni á borð við barnavernd, málefni ungmenna, aðgerðir gegn mansali, nýsköpun, sjálfbæra þróun og stjórnmálalegt samstarf. Ísland hefur innan Eystrasaltsráðsins lagt sérstaka áherslu á málefni barna, lýðræði og jafnréttismál og að auka samvinnu ráðsins við aðrar svæðisbundnar stofnanir með áherslu á hagnýta samvinnu.
Norðurskautsráðið hefur fest sig í sessi sem mikilvægasti samráðsvettvangurinn um málefni norðurslóða. Formennska í ráðinu er umfangsmikið verkefni og hefur alþjóðapólitískt vægi ráðsins aukist til muna á undanförnum árum. Tveggja ára formennskutímabili Íslands í Norðurskautsráðinu lauk með ráðherrafundi sem haldinn var í Reykjavík í maí 2021. Undir yfirskriftinni Saman til sjálfbærni á norðurslóðum var í formennskutíð Íslands lögð sérstök áhersla á málefni hafsins, loftslagsmál og endurnýjanlega orku, og fólk og samfélög á norðurslóðum. Ísland leitaðist einnig við að styrkja starfsemi Norðurskautsráðsins enn frekar, jafnt inn á við sem út á við.
Norðlæga víddin er samráðsvettvangur Evrópusambandsins, Íslands, Noregs og Rússlands um málefni Norðvestur-Evrópu. Innan Norðlægu víddarinnar eru rekin fjögur málefnasvið sem fjalla um lýðheilsu og félagslega velferð, samgöngur og flutninga, menningu og umhverfismál. Enn fremur eru rekin viðskiptaráð og upplýsingagátt um málefni víddarinnar.
Viðskiptamál
Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) (e. European Economic Area, EEA) kallar á öfluga hagsmunagæslu af hálfu íslenskra stjórnvalda, samráð við Alþingi og hagsmunaaðila og skilvirka vinnu bæði við undirbúning að upptöku löggjafar á sviði innri markaðarins í EES-samninginn, sem og við innleiðingu EES-reglna í íslenska löggjöf.
Með EES-samningnum er Ísland, ásamt hinum EFTA-ríkjunum innan EES, þátttakandi í innri markaði Evrópusambandsins (ESB). Með samningnum var komið á fót sameiginlegu efnahagssvæði sem byggir á frjálsum vöruflutningum, frjálsri för launafólks, frjálsri þjónustustarfsemi og staðfesturétti, ásamt frjálsum fjármagnshreyfingum (fjórþætta frelsið). EES-samningurinn byggir á svonefndu einsleitnimarkmiði en í því felst að hvarvetna innan EES eiga að gilda sömu reglur á þeim sviðum sem samningurinn nær yfir. Af þessu leiðir að þeim ríkjum sem eiga aðild að EES ber að innleiða í löggjöf sína þær reglur sem samþykktar hafa verið á vettvangi EES-samstarfsins.
Aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) árið 1970 hefur verið ein af meginstoðum utanríkisviðskiptastefnu Íslands og átt mikilvægan þátt í að tryggja hagsæld hér á landi. Aðildin að EFTA leiddi til þess að gerður var tvíhliða fríverslunarsamningur við Efnahagsbandalag Evrópu (EEC) árið 1972 jafnframt því sem Ísland gerðist aðili að EES-samningnum árið 1994. Í krafti aðildar sinnar að EFTA hefur Ísland gert 29 samninga við 40 ríki og landsvæði
Öryggis- og varnarmál
Alþjóðamál
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.