Hoppa yfir valmynd

Mannréttindi í utanríkisstefnu

Mannréttindi eru einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Í samræmi við 55. og 56. gr. stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna hafa aðildarríkin skuldbundið sig til aðgerða sem stuðla að og efla viðurkenningu á mannréttindum og grundvallarfrelsi án nokkurrar mismununar.

Rúm sjötíu ár eru nú liðin frá því mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt í desember 1948. Þrátt fyrir að mannréttindayfirlýsingin sé ekki bindandi þá hefur hún í áranna rás áunnið sér þann sess að vera gildandi þjóðaréttur og sá grunnur sem grundvallarmannréttindasamningar og yfirlýsingar alþjóðasamfélagsins byggir á. Í mannréttindayfirlýsingunni er að finna ákvæði um borgaraleg, efnahagsleg, félagsleg, menningarleg og stjórnmálaleg réttindi og hún er vegvísir alþjóðlegs mannréttindastarfs.

Ísland vinnur að vernd og eflingu mannréttinda í heiminum fyrst og fremst á vettvangi viðkomandi alþjóðastofnana. Þær eru helstar: Sameinuðu þjóðirnar (mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna í Genf, þriðja nefnd allsherjarþingsins í New York og nefnd Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna), Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) í Vínarborg og Evrópuráðið í Strassborg. Þannig er unnið að framgangi alþjóðlegra mannréttinda á ýmsum starfsstöðvum utanríkisþjónustunnar, aðallega þó við fastanefndir Íslands í Genf, New York og Strassborg, auk aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Það er til að mynda gert með þátttöku í að tryggja framkvæmd gildandi alþjóðasamninga á sviði mannréttinda; með þátttöku í gerð nýrra alþjóðasamninga og með þátttöku í ályktanagerð; skoðanaskiptum og grasrótarstarfi þar sem aðgerðir og stefnur alþjóðasamfélagsins eru mótaðar. Ísland tekur þátt í að vekja athygli alþjóðasamfélagsins á því ef virðingu fyrir mannréttindum er ábótavant, og mannréttindabrot eru jafnvel kerfisbundin, og leitar leiða til að sporna gegn slíku. Ísland ræðir ástand mannréttindamála á tvíhliða fundum jafnt sem fjölþjóðlegum og tekur virkan þátt í leit að leiðum til úrbóta þar sem þess gerist þörf.

Helstu áherslur Íslands:

  • jafnrétti kynjanna, útrýming á kynbundnu ofbeldi, heilsa og menntun kvenna og stúlkna, efnahagsleg valdefling kvenna og þátttaka karla og drengja í jafnréttismálum
  • mannréttindi hinsegin fólks
  • mannréttindi og velferð barna
  • málfrelsi og fjölmiðlafrelsi, öryggi blaðamanna og baráttufólks fyrir mannréttindum
  • bann við pyntingum, afnámi dauðarefsinga og aftökum án dóms og laga
  • að berjast gegn þvinguðum mannshvörfum og refsileysi
  • tengsl mannréttinda, friðar og öryggis og ábyrgð alþjóðasamfélagsins

Íslensk stjórnvöld vinna út frá því að mannréttindi séu algild, ríki hafi tekist á hendur mannréttindaskuldbindingar og að virðing fyrir mannréttindum geti ekki verið einkamál einstrakra þjóða. Langur vegur er hins vegar oft á milli orða og athafna og alvarleg mannréttindabrot eiga sér enn stað í mörgum ríkjum heims. Er það á ábyrgð alþjóðasamfélagsins að hvetja til þess að mannréttindi séu virt hvarvetna, í samræmi við alþjóðalög og skuldbindingar, og stuðla að umbótum.

Í dag er víðtækari skilningur en áður á samspili mannréttinda, sjálfbærrar þróunar og uppbyggingu friðar og öryggis og aukin áhersla lögð á tengingu og samspil milli mannréttinda, lýðræðisþróunar og réttarríkisins. Hagsmunir milli þessara þátta skarast oft og skapa þá áleitnar spurningar. Grundvallarstefna Íslands í mannréttindamálum nær til allra þátta utanríkisstefnunnar. Mannréttindi eru óaðskiljanleg utanríkisstefnu Íslands og samofin öllu alþjóðastarfi landsins. Ísland hefur fullgilt alla helstu alþjóðasamninga um mannréttindi og beitir sér fyrir aðild annarra ríkja að þessum samningum og fyrir framkvæmd þeirra.

Ísland var kjörið til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf í fyrsta sinn í júlí 2018 og átti þar sæti út árið 2019. Óhætt er að fullyrða að um hafi verið að ræða eitt veigamesta hlutverk sem Ísland hefur gegnt á alþjóðavettvangi og einstakt tækifæri til að láta gott af sér leiða. Kosning Íslands var rökrétt framhald á vaxandi áherslu á mannréttindi í utanríkisstefnu Íslands síðastliðin ár og samræmdist vel stefnu stjórnvalda. Ísland hafði þegar getið sér gott orð fyrir framgöngu í mannréttindamálum, ekki síst sem áheyrnarríki á vettvangi mannréttindaráðsins. Ísland hafði til að mynda verið í forystu hlutverki í samstarfi þjóða sem áhyggjur höfðu af stöðu mannréttinda á Filippseyjum. 

Eftir að setu Íslands í ráðinu lauk í árslok 2019 var gefin út sérstök skýrsla um aðdragandann að kjöri Íslands og lagt mat á árangur af verkefninu.  Ísland vinnur að framgangi mannréttindamála víðar en hjá mannréttindaráðinu í Genf, svo sem í mannréttindanefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York og kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna, hjá Evrópuráðinu í Strassborg og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) í Vín og í undirstofnun ÖSE sem og Mannréttinda- og lýðræðisstofnun ÖSE (ODIHR) sem hefur höfuðstöðvar í Varsjá í Póllandi. Þá koma mannréttindamál iðulega einnig upp í tvíhliða viðræðum Íslands við önnur ríki. 

Fastanefndin í New York fylgir stefnu Íslands í mannréttindamálum eftir með virkum hætti á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, m.a. í starfi allsherjarþingsins (3. nefndar þingsins), kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna og með málafylgju sem miðar að því að standa vörð um réttindi kvenna, barna, hinsegin fólks og koma öðrum áherslum Íslands á framfæri í stefnu og starfi Sameinuðu þjóðanna. Ísland hefur líka beitt sér fyrir umbótastarfi innan skipulags sérfræðinefnda Sameinuðu þjóðanna í Genf, leitt ályktanir á sviði mannréttinda og beitir sér reglulega í samningaviðræðum um ályktanir og stefnu stofnunarinnar í nánu samstarfi við líkt þenkjandi ríki.

Utanríkisráðuneytið endurnýjaði síðast samstarfssamning við Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ) árið 2022 og gildir hann út árið 2024. Samningurinn kveður á um áframhaldandi fjárstuðning. Mannréttindaskrifstofan, sem myndar eins konar regnhlífarsamtök frjálsra félagasamtaka á sviði mannréttinda, veitir ráðuneytinu faglega ráðgjöf sem helsti samstarfsaðili þess í þessum efnum.

Ísland hefur verið virkt í málflutningi um réttindi hinsegin fólks. Ísland var í hópi 16 aðildarríkja ÖSE, sem lét gera skýrslu um ofsóknir í Tsjetsjeníu-lýðveldinu í Rússlandi. Í mannréttindanefnd ÖSE hefur á árinu 2019 meðal annars verið fjallað um stjórnmálaþátttöku, málfrelsi og fjölmiðlafrelsi, kosningar, baráttu gegn pyntingum og baráttu gegn ofbeldi í garð kvenna.

 
 

Verkefni mannréttindaráðsins

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna var sett á fót árið 2006 og byggir á grunni mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem starfaði frá 1946. Hlutverk ráðsins er að efla og vernda mannréttindi í aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, fjalla um mannréttindabrot og beina tilmælum til einstakra ríkja um úrbætur í mannréttindamálum með ályktunum.

Mannréttindaráðið fjallar bæði um einstök réttindamál og málefni einstakra ríkja og eykur fjölbreytni ríkjanna sem í ráðinu sitja lögmæti þess. Samstaða hefur náðst um að senda rannsóknarnefndir út af örkinni til að kanna stöðu mannréttinda í einstökum ríkjum, til dæmis í Suður-Súdan, Sýrlandi og Norður-Kóreu. Á vegum mannréttindaráðsins starfa einnig sérstakir skýrslugjafar og vinnuhópar sem heimsækja ríki, skoða stöðu mannréttinda og veita ríkjum ráðgjöf. Nefna má sem dæmi skýrslugjafa um stöðu tjáningarfrelsis, trúfrelsis, réttinda fólks með fötlun og hinsegin fólks og bann við pyntingum og aftökum án dóms og laga.

Mannréttindaráðið kemur stundum saman utan föstu fundalotanna til að ræða einstök brýn mannréttindamál og þess ber að geta að ráðið kemur einnig saman þrisvar sinnum á ári til að taka fyrir allsherjarúttektir – einnig kenndar við jafningjarýni – á ástandi mannréttindamála í aðildarríkjunum. Úttektirnar hafa verið gerðar frá stofnun ráðsins 2006 og gefa tækifæri til yfirferðar á stöðu mannréttinda í öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. Aldrei áður höfðu ríkin þurft að svara fyrir stöðuna heima fyrir með sambærilegum hætti og aðferðin virðist hafa skilað ríkulegum árangri. Ísland tekur mjög virkan þátt í jafningjarýninni og setur fram tilmæli til allra ríkja sem tekin eru fyrir. Ísland hefur sjálft undirgengist slíka rýni tvívegis, síðast haustið 2016.

Jafnréttismál

Starf utanríkisþjónustunnar á sviði jafnréttismála byggist á þeirri áherslu stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að Ísland geti verið sterk rödd á alþjóðavettvangi og fyrirmynd í jafnréttismálum. Ísland hefur náð góðum árangri í alþjóðlegum samanburði og þær alþjóðlegu viðurkenningar sem Ísland hefur hlotið hafa vakið athygli. Í yfir áratug hefur Ísland verið efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir árangur ríkja á sviði kynjajafnréttis. Horft er til samstarfs við Ísland um bestu leiðir í jafnréttisbaráttunni. Jafnréttissjónarmið eru samþætt utanríkisstefnu og starfi á alþjóðavettvangi, meðal annars í tengslum við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi, en einnig sjálfbæra þróun og mannréttindi kvenna, þ.m.t. kyn- og frjósemisheilbrigði, frjósemisréttindi, viðskipti og efnahagslega valdeflingu kvenna.

Yfir 90% framlaga Íslands til þróunarsamvinnu fara í að styðja jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna. Ísland er í öðru sæti á nýbirtum lista DAC frá 2021, þróunarsamvinnunefndar OECD, um hlutfall þróunarfjár sem rennur til jafnréttismála. Þá hefur Ísland um nokkurra ára skeið hvatt markvisst til þátttöku drengja og karla í jafnréttisumræðunni með það að markmiði að stuðla að breyttum viðhorfum til kynjajafnréttis og staðalímynda kynjanna.

Íslensk yfirvöld vinna náið með UN Women, bæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og með íslensku landsnefndinni. Í samvinnu við utanríkisráðuneytið hefur landsnefndin þróað aðferðir til þess að virkja karla í jafnréttisumræðunni á eigin forsendum, ræða um ávinning karla og kvenna af auknu jafnrétti og virkja þá til þátttöku í uppbyggilegri samfélagsþróun. 

Árin 2020-2026 gegnir Ísland forystuhlutverki í verkefninu Kynslóð jafnréttis (e. Generation Equality Forum) og tekur þátt í gerð aðgerðaáætlana gegn kynbundnu ofbeldi á alþjóðavísu. Um er að ræða stærsta verkefni UN Women hingað til og er markmið þess að vinna að úrbótum á sviðum þar sem enn hallar á konur og stúlkur, í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Verkefnið leiðir saman fjölbreyttan hóp haghafa, þ.m.t. ríkisstjórnir, einkageirann og frjáls félagasamtök í sex aðgerðabandalög (e. Action Coalitions) og veitir Ísland aðgerðabandalagi um kynbundið ofbeldi forystu.

Ísland tekur virkan þátt í árlegum fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW), sem fer fram í mars á hverju ári. Frá 2019 hefur forsætisráðherra farið fyrir íslensku sendinefndinni og tekið þátt í fjölmörgum viðburðum og fundum fyrir hönd Íslands.

Utanríkisráðuneytið hefur haft frumkvæði að því að jafnréttisákvæði verði hluti af samningslíkani EFTA í fríverslunarsamningum og fagna ber því að náðst hefur samstaða um það meðal EFTA-ríkjanna. Ísland hefur mörgu að miðla þegar kemur að árangri í jafnréttismálum og utanríkisþjónustan leitast við að finna nýjar leiðir til þess að gera veg Íslands sem mestan í þeim efnum.

Landsáætlun Íslands um 1325

Áætlun Íslands um framkvæmd ályktunar 1325 er stefnuskjal íslenskra stjórnvalda um konur, frið og öryggi. Vinna við fjórðu landsáætlun Íslands um ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi er hafin og leidd af utanríkisráðuneytinu. Þriðja áætlunin tók á málum er varðar fræðslu og málsvarastarf, þátttöku, fyrirbyggjandi aðgerðir, vernd, aðstoð, endurhæfingu, samstarf og samráð á sviði 1325 ályktunarinnar. Úttekt Alþjóðamálastofnunar frá 2021 bendir til þess að margt hafi áunnist en annað hafi verið skemmra á veg komið sem helgast m.a. af því að Covid 19 heimsfaraldurinn tafði fyrir. Utanríkisráðuneytið leggur áherslu á að sinna vel málsvarastarfi sem lítur að ályktun 1325 ekki síst hjá fastanefndum Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, ÖSE í Vín og Atlantshafsbandalaginu en þar hafa sérfræðingar kostaðir af Íslandi einnig starfað undanfarin ár.

Ísland leggur ríka áherslu á málsvarastarf sem snýst um að fá menn og drengi til að koma af krafti inn í starf sem miðar að auknu kynjajafnrétti í heiminum. Utanríkisþjónustan hefur skipulagt vel á annan tug Barbershop rakarastofuráðstefna og vinnustofa í samstarfi við alþjóðastofnanir undanfarin 8 ár, en sú fyrsta var haldin í Sameinuðu þjóðunum árið 2015. Hlé var gert á þessu starfi á meðan á Covid faraldrinum stóð en fyrr á þessu ári var efnt til vinnustofu hjá UNESCO í París í febrúar 2023 og Barbershop hugmyndafræðin var kynnt á ráðstefnu um karlmenn, drengi og jafnréttismál hjá Evrópuráðinu í Strassborg í lok apríl.

Unnið hefur verið að því að bera kennsl á lykilaðila sem starfa í málaflokkum sem tengjast konum, friði og öryggi í utanríkisþjónustunni, íslenskri stjórnsýslu, viðeigandi stofnunum, fræðasamfélagi og hjá frjálsum félagasamtökum. Landsnefnd UN Women á Íslandi og utanríkisráðuneytið hefur annast fræðslu fyrir sérfræðinga á leið utan til starfa á þessu sviði, en hlé varð á vegna Covid19 faraldursins. Unnið er að því að endurvekja fræðslustarfsemi sem er forsenda þess að Ísland geti áfram verið öflugur málsvari þeirra skilaboða sem felast í ályktun 1325.

 Ísland tekur nú á móti miklum fjölda kvenna í viðkvæmri stöðu, til dæmis flóttakonum, og konum sem sótt hafa um alþjóðlega vernd. Ísland hefur einsett sér að halda þessum málum á lofti í fjölþjóðölegu starfi, meðal annars með því að útvega þeim sérfræðinga til starfa á vettvangi en einnig hefur verið unnið að því að vanda betur ferli við móttöku heimafyrir á vegum ráðuneyta

Mannréttindi hinsegin fólks

Íslensk stjórnvöld leggja mikla áherslu á réttindi hinsegin fólks og vinna ötullega að úrbótum í málaflokknum hér heima fyrir eins og nýlegar breytingar á  löggjöf um kynrænt sjálfræði og löggjöf um jafna meðferð á vinnumarkaði er til marks um. Jafnframt vilja stjórnvöld beita sér með afgerandi hætti á erlendum vettvangi og hafa réttindi hinsegin fólks verið sérstakt áherslumál um nokkra hríð. Þessi stefna byggist á þeirri afstöðu að allir skuli njóta mannréttinda og frelsis óháð kyni, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenna og kyntjáningu.

Utanríkisráðuneytið leggur sitt af mörkum í baráttunni fyrir mannréttindum hinsegin fólks á alþjóðavettvangi, hvort heldur sem er á vettvangi alþjóðastofnana eða í tvíhliða samskiptum ríkja. Er lögð áhersla á að hinsegin fólk njóti fullra mannréttinda í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar en í dag er litið á samkynja sambönd fullorðinna einstaklinga sem glæp í yfir sjötíu aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. Þá hefur utanríkisþjónustan tekið þátt í að stuðla að auknum sýnileka hinsegin fólks m.a. með reglulegri þátttöku í gleðigöngum víða um heim, t.d. í Washington, London, Kaupmannahöfn og Tókýó.

Rík áhersla er lögð á að hvers kyns ofbeldi gegn samkynhneigðum líðist ekki. Mikið verk er hins vegar að vinna í þeim efnum enda sætir hinsegin fólk ofsóknum víða um heim, allt frá Téténíu í Rússlandi til landa Afríku og Mið-Austurlanda. Í þróunarsamvinnustefnu fyrir árin 2019-2023 er mörkuð sú stefna að allt starf byggist á mannréttindamiðaðri þróunarsamvinnu. Ísland fylgist því sérstaklega grannt með stöðu mála hvað varðar réttindi hinsegin fólks í samstarfsríkjum og áhersluríkjum í þróunarsamvinnu.

Ísland átti sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna 2018-2019. Málefni hinsegin fólks voru sett á oddinn þegar Ísland gaf kost á sér til setu og hefur í framhaldinu verið unnið ötullega í málaflokknum á sama vettvangi. Í reglubundinni jafningjarýni mannréttindaráðsins (UPR, Universal Periodic Review) er Ísland gjarnan það ríki sem veitir flest tilmæli til ríkja um umbætur í mannréttindum hinsegin fólks.

Fjármunir hafa verið lagðir til Free & Equal, átaksverkefnis skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (OHCHR), og Ísland styrkir hnattrænan jafnréttissjóð, Global Equality Fund, þar sem líkt þenkjandi ríki hafa tekið höndum saman til að styðja við málsvara mannréttinda og grundvallarréttinda hinsegin fólks í þróunarlöndum. Þá var Ísland í hópi ríkja sem árið 2016 studdu tilurð sérstaks embættis sérfræðings mannréttindaráðsins um málefni hinsegin fólks og honum var boðið sérstaklega í heimsókn til Íslands í september 2019 til að eiga samráð við stofnanir og sérfræðinga.

Í maí 2020 gerðist Ísland formlega aðili að kjarnahópi ríkja um málefni hinsegin fólks á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York. Markmið hópsins er að vinna að réttindum hinsegin fólks í málefnastarfi Sameinuðu þjóðanna, tryggja virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi, með áherslu á vernd gegn mismunun og ofbeldi, samræma starf ríkja í því augnamiði að vekja athygli á málefnum hinsegin fólks, stuðla að opnu samtali við önnur aðildarríki Sameinuðu þjóðanna og eiga í virku samstarfi við frjáls félagasamtök.

Ísland er einnig aðili að Equal Rights Coalition, bandalagi ríkja sem vilja efla mannréttindi hinsegin fólks hvarvetna. Bandalagið var sett á laggirnar á alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin var í Úrúgvæ árið 2016 en nú tilheyra því meira en fjörutíu ríki. Á vettvangi Alþjóðabankans er Ísland aðili að mannréttindasjóði bankans sem styður veglega við málefni hinsegin fólks í verkefnum bankans. Þá er einnig lögð áhersla á málefni hinsegin fólks innan kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8) í Alþjóðabankanum.

Þá eru ónefndar stofnanir þar sem Ísland flytur og tekur undir ræður þar sem talað er fyrir réttindum hinsegin fólks, s.s. ÖSE, UN Women, Evrópuráðið, UNESCO og OECD. 

Evrópuráðið

Ísland gengdi formennsku í ráðherranefnd Evrópuráðsins frá nóvember 2022 til maí 2023. 

Aðildarríki Evrópuráðsins eru 46 og eru meginviðfangsefni þess að hlúa að mannréttindum, lýðræði og réttarríkinu. Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hefur ráðið verið mikilvægur vettvangur Evrópuríkja til að stuðla að friði og stöðugleika í álfunni.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta