Hoppa yfir valmynd

Hvað er Norðurskautsráðið?

Merki NorðurskautsráðsNorðurskautsráðið var stofnað árið 1996 sem vettvangur samstarfs um sjálfbæra þróun á norðurslóðum, með virkri þátttöku frumbyggja á svæðinu. Ráðið hefur fest sig í sessi sem mikilvægur samstarfsvettvangur um málefni sjálfbærrar þróunar á svæðinu. Í Norðurskautsráðinu koma saman annað hvert ár utanríkisráðherrar aðildarríkjanna og veita leiðsögn um starfsemi ráðsins. Þess á milli sinnir nefnd embættismanna sem jafnan koma frá utanríkisráðuneytum aðildarríkjanna þessu hlutverki.

Aðildarríki ráðsins eru átta: Bandaríkin, Finnland, Ísland, Kanada, Konungsríkið Danmörk, Noregur, Rússland og Svíþjóð. Auk þess eiga sex samtök frumbyggja á norðurslóðum sæti í ráðinu: Alþjóðasamtök Alúta, Norðurslóðaráð Aþabaska, Heimskautaráð Inúíta, Alþjóðaráð Gwich‘in-frumbyggja, Samtök rússneskra frumbyggjaþjóða norðursins og Samaráðið. Þrettán ríki eiga áheyrnaraðild að ráðinu, sem og á þriðja tug alþjóðlegra stofnana og frjálsra félagasamtaka.

Starf Norðurskautsráðsins fer að miklu leyti fram innan sex vinnuhópa sem hafa lagt umtalsvert til aukinnar þekkingar á umhverfi, lífríki og samfélögum á norðurslóðum. Þar er jafnframt lagður grundvöllur að stefnumarkandi ráðgjöf. Starf vinnuhópanna snýr að aðgerðum gegn mengun (ACAP), umhverfisvöktun og -mati (AMAP), vörnum og viðbúnaði vegna umhverfisvár (EPPR), lífríkisvernd (CAFF), verndun hafsvæða (PAME) og ýmsu er varðar lífsskilyrði fólks á norðurslóðum (SDWG). Auk vinnuhópa Norðurskautsráðsins eru á hverjum tíma starfræktir tímabundnir starfshópar sem vinna að skýrt skilgreindum verkefnum fyrir Norðurskautsráðið.

Flest ráðuneyti og fjölmargar stofnanir á Íslandi taka þátt í starfsemi Norðurskautsráðsins fyrir Íslands hönd og fer það starf að langmestu leyti fram í vinnu- og starfshópum ráðsins. Sem dæmi má nefna að umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun sinna starfi er snýr að umhverfis- og mengunarvöktun og verndum hafsvæða, Náttúrufræðistofnun annast mál er snúa að lífríki á norðurslóðum, samgönguráðuneytið og Samgöngustofa fást m.a. við siglingar í norðurhöfum og Veðurstofan hefur tekið þátt í samstarfi sem snýr að veðurfari, ís og snjóalögum á svæðinu. Þá taka háskólar á Íslandi virkan þátt í margvíslegu starfi er snýr að málefnum norðurslóða.

Skrifstofur vinnuhóps um verndun lífríkis (CAFF) og vinnuhóps um verndum hafsvæða (PAME) eru á Akureyri. Staðsetningin er í samræmi við norðurslóðastefnu Íslands þar sem áhersla er lögð á að hluti af starfsemi Norðurskautsráðsins fari fram á Íslandi.

Þrír lagalega bindandi samningar hafa verið gerðir á vettvangi Norðurskautsráðsins: Um leit og björgun, um varnir gegn olíumengun, og um eflingu alþjóðlegrar vísindasamvinnu.

Norðurskautsríkin skiptast á formennsku í ráðinu til tveggja ára í senn. Ísland gengdi því hlutverki í annað sinn frá vori 2019, en formennskutímabilinu lauk með ráðherrafundi í Reykjavík í maí 2021. Samfara formennsku í Norðurskautsráðinu gengdi Ísland formennsku í strandgæsluráði norðurslóða og Efnahagsráði norðurslóða á sama tímabili.

Frekari upplýsingar eru aðgengilegar á vefsíðu Norðurskautsráðsins, arctic-council.org en einnig er hægt er að fylgjast með starfsemi þeirra á Twitter, @ArcticCouncil.

Síðast uppfært: 5.6.2023 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta