Hoppa yfir valmynd

Stefna Íslands í málefnum norðurslóða

Málefni norðurslóða eru forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu. Hagsmunir Íslands eru gríðarmiklir en augu alþjóðasamfélagsins beinast í sífellt auknum mæli að norðurhjaranum. Í ljósi þess hve margbrotið og viðkvæmt svæði norðurslóðir eru, hvort sem litið er til umhverfis, öryggismála, efnahagslegra eða félagslegra þátta, er mikilvægt að svæðið einkennist áfram af stöðugleika, sjálfbærni og samvinnu. 

Stefna Íslands í málefnum norðurslóða á sér stoð í þingsályktun sem samþykkt var samhljóða á Alþingi vorið 2011. Alþingi samþykkti nýja stefnu 19. maí 2021 og felur hún í sér nítján megináherslur. Þær lúta m.a. að stöðu Íslands innan svæðisins, mikilvægi Norðurskautsráðsins (e. Arctic Council) og hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna, loftslagsmálum, sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og öryggis- og viðskiptahagsmunum. Þá er lögð áhersla á grannríkjasamstarf við Færeyjar og Grænland og réttindi frumbyggja.

Framkvæmdaáætlun með stefnu Íslands í málefnum norðurslóða

Í stefnu Íslands í málefnum norðurslóða er kveðið á um að utanríkisráðherra móti áætlun um framkvæmd stefnunnar í samráði við aðra hlutaðeigandi ráðherra. Árið 2022 var ákveðið að leggja út í opið samráðsferli, þar sem sérfræðingum og hagaðilum var boðin þátttaka í að móta tillögur sem nýst gætu við gerð áætlunarinnar. Norðurslóðastefnan inniheldur 19 stefnumið sem skipt var niður á fimm þemahópa. Norðurslóðanet Íslands, fyrir hönd og í nánu samráði við utanríkisráðuneytið, fór með framkvæmd samráðsferlisins.

Framkvæmdaáætlunin sem hér er birt, eftir náið samráð við hlutaðeigandi ráðuneyti og eftir kynningu í Samráðsgátt stjórnvalda, er niðurstaða utanríkisráðuneytisins um megináherslur er varðar framkvæmd norðurslóðastefnu Íslands. 

Hóparnir fimm funduðu með fjölda sérfræðinga og áhugasömu fólki sem lagði mikið af mörkum í þær tillögur sem gerðar voru. Megináherslur hópanna fimm vörðuðu alþjóðlegt samstarf, loftslagsbreytingar, vistkerfi og mengunarvarnir, samfélag og innviði, uppbyggingu og framlag til málefna norðurslóða og leit, björgun og fjarskipti. Tillögur hópanna voru fjölmargar en af þeim rúmlega sjötíu tillögum sem hóparnir lögðu til voru mótuð tæplega 50 stefnumið, sem fjallað er um í áætluninni.

Í framkvæmdaáætluninni er að finna stefnumið, sem lúta bæði að alþjóðamálum og svæðisbundnum verkefnum, sem og þeim sem snerta með beinum hætti líf og starf þeirra sem norðurslóðir byggja, eins og hér á Íslandi. Framkvæmdaáætlunin felur í sér fjölmörg góð og gagnleg verkefni, sem leitast verður við að hrinda í framkvæmd á næstu árum.

Utanríkisráðuneytið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem tóku þátt í mótun framkvæmdaáætlunarinnar um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta