Hoppa yfir valmynd

Um alþjóðastofnanir

Virðing fyrir alþjóðalögum og sterkt alþjóðakerfi, sem byggir á stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna tryggir tilverurétt, viðunandi öryggi og velsæld ríkja, stórra sem smárra, eru lykilhagsmunamál fyrir Ísland.

Utanríkisráðuneytið sinnir hagsmunagæslu og málsvarastarfi á vettvangi alþjóðastofnana nema þær heyri undir annað ráðuneyti samkvæmt ákvæðum forsetaúrskurðar eða eðli máls. 

Sameinuðu þjóðirnar

Starfsemi Sameinuðu þjóðanna fer fram víðs vegar um heiminn, en höfuðstöðvarnar eru í New York. Starfsemin fer fram innan sex stjórnarstofnana, en þær eru:

  • Allsherjarþingið (General Assembly)
  • Öryggisráðið (Security Council)
  • Efnahags- og félagsmálaráðið (Economic and Social Council)
  • Gæsluverndarráðið (Trusteeship Council) – ekki lengur virkt.
  • Alþjóðadómstóllinn (International Court of Justice)
  • Skrifstofa Sameinuðu þjóðanna (Secretariat)

Sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna eru sjálfstæðar alþjóðastofnanir sem hafa samninga við Sameinuðu þjóðirnar. Tengiliðurinn við þær er efnahags- og félagsmálaráð Sameinuðu þjóðanna. Sjá nánar um skipulag Sameinuðu þjóðanna, undirstofnana og tengdra stofnana hér.

Ísland á sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf, sem er ein af undirstofnunum allsherjarþingsins, árin 2025−2027. Sjá upplýsingar um setu Íslands í mannréttindaráðinu.

Allsherjarþingið

Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru nú 193 talsins en Suður-Súdan, nýjasta aðildarríkið, hlaut inngöngu 14. júlí 2011. Fulltrúar allra aðildarríkjanna 193 eiga sæti á allsherjarþinginu og geta rætt fyrir opnum tjöldum hvaða málefni sem er, að því tilskyldu að það sé ekki til umfjöllunar hjá öryggisráðinu. Hvert land hefur eitt atkvæði á þinginu. Mikilvæg málefni þurfa samþykki tveggja þriðju hluta aðildarríkja. Dæmi um það er kjör ríkja í öryggisráðið.

Allsherjarþingið er sett í september ár hvert. Hægt er að boða til aukafunda eftir vissum reglum. Þingið kýs sér forseta á hverju ári. Það samþykkir aðild nýrra ríkja að fenginni tillögu öryggisráðsins. Það ákveður hversu mikið hverju ríki ber að greiða af rekstrarkostaði Sameinuðu þjóðanna og hvernig fénu skuli varið. Það kýs einnig aðalframkvæmdastjóra að fenginni tillögu öryggisráðsins. Þingið velur fulltrúa í aðrar stofnanir.

Störf allsherjarþingsins fara að mestu fram í sex aðalnefndum þess, þar sem öll aðildarríkin eiga fulltrúa.

Á meðan allsherjarþingið situr halda ýmsir ríkjahópar samráðsfundi eftir því sem þörf gerist. Ísland tekur aðallega þátt í fundum Vesturlandahópsins (WEOG) og samráði JUSCANZ-hópsins. Þá hefur lengi verið náið samstarf við Evrópusambandið á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þannig tekur Ísland t.d., eftir því sem við á, undir ræður sem formennskuríki eða sendinefnd ESB heldur fyrir hönd Evrópusambandsins. Þá tekur Ísland þátt í sameiginlegum ræðum NB8-ríkjanna svokölluðu, sem eru auk Íslands Danmörk, Eistland, Finnland, Lettland, Litháen, Noregur og Svíþjóð, um ýmis málefni. Öryggisráðið

Að þjóðarétti er Ísland skuldbundið til að framfylgja ákvörðunum öryggisráðsins. Framkvæmd ákvarðana ráðsins hér á landi er á forræði utanríkisráðherra.

Samkvæmt lögum nr. 5/1969 er ríkisstjórninni heimilað að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til þess að framfylgja ákvörðunum sem öryggisráðið tekur.

39. og 41. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna skilgreina valdheimild öryggisráðsins og varða refsiaðgerðir gagnvart einstökum ríkjum.

Hlutverk öryggisráðsins samkvæmt stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna er m.a.:

  • að viðhalda alþjóðafriði og -öryggi í samræmi við grundvallarreglur og markmið Sameinuðu þjóðanna
  • að gera tillögur um fyrirkomulag vopnamála
  • að ákveða hvort friði sé ógnað eða ógn stafi af árás og gera tillögur um viðbrögð
  • að fela aðildarríkjum að beita efnahagsþvingunum eða öðrum aðgerðum öðrum en stríðsátökum til að koma í veg fyrir eða stöðva árás
  • að grípa til stríðsaðgerða gegn árásaraðila

Efnahags- og félagsmálaráðið

Efnahags- og félagsmálaráðið (ECOSOC) hefur mjög umfangsmikið verksvið. Það fæst m.a. við efnahagsmál, viðskipti, efnahagsþróun, félagsmál, mannfjöldamál, barnaverndarmál, húsnæðismál, kvenréttindi, kynþáttamismunun, eiturlyfjamál, varnir gegn glæpum, félagslega velferð, æskulýðsmál, umhverfismál og fæðuöryggi. Einnig samþykkir ráðið tillögur um hvernig bæta megi menntun og heilsugæslu, og standa vörð um mannréttindi og frelsi, hvar sem er í heiminum. 54 aðildarríki eiga aðild að efnahags- og félagsmálaráðinu og eru þau kjörin af allsherjarþinginu til þriggja ára í senn. Ráðið sjálft heldur venjulega einn fund á ári og ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum mála. Fjöldi nefnda tekur þátt í störfum ráðsins og það styðst við sérstofnanir og áætlanir samtakanna.

Sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna eru sautján og er hver um sig sjálfstæð, með eigin fjárhag og aðalstöðvar. Þær kanna málefni, undirbúa tillögur og aðstoða þróunarlönd á sérsviðum sínum. Allsherjarþingið hefur einnig komið á fót ýmsum öðrum sérhæfðum stofnunum, sem vinna í nánum tengslum við efnahags- og félagsmálaráðið og í flestum tilvikum leggja þær skýrslu fyrir allsherjarþingið og öryggisráðið.

Gæsluverndarráðið

Gæsluverndarráðið hafði mikilvægu hlutverki að gegna við að veita sjálfstæði fyrrum nýlendum og hernumdum svæðum Þýskalands, Ítalíu og Japans í Afríku og á Kyrrahafi. Aðilar að gæsluverndarráðinu eru fastafulltrúarnir í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og einfaldur meirihluti ræður þar úrslitum mála. Þar sem síðasta gæsluverndarsvæðið, Palá, varð sjálfstætt ríki í október 1994 er ráðið nú verkefnalaust. Íslensk stjórnvöld hafa tekið undir þau sjónarmið að leggja beri gæsluverndarráðið niður.

Alþjóðadómstóllinn í Haag

Aðsetur alþjóðadómstólsins er í Haag í Hollandi og starfar hann árið um kring. Dómarar eru fimmtán og eru þeir kosnir af allsherjarþinginu og öryggisráðinu. Til að unnt sé að kveða upp úrskurð í málum fyrir dómstólnum þurfa níu dómarar að standa að honum.

Samþykktir alþjóðadómstólsins eru hluti af sáttmála Sameinuðu þjóðanna og því eru öll aðildarríkin sjálfkrafa aðilar að dómstólnum. Í 36. grein samþykkta dómstólsins, 2. málsgrein, er kveðið á um skyldulögsögu dómstólsins. Nokkrir tugir ríkja hafa gengist undir þetta ákvæði án fyrirvara, en önnur hafa haft ýmsa fyrirvara og sum hafa ekki samþykkt ákvæðið. Ísland er í síðastnefnda hópnum.

Aðalframkvæmdastjóri

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna er æðsti embættismaður stofnunarinnar. Hann er skipaður af allsherjarþinginu samkvæmt tillögu öryggisráðsins til fimm ára í senn. Hann hefur yfirumsjón með starfsemi samtakanna. Hann getur lagt fyrir öryggisráðið hvers kyns mál, sem hann telur að ógna kunni heimsfriðinum, og lagt fram tillögur um málefni, sem tekin skulu upp á allsherjarþinginu eða í öðrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna.

Starfslið skrifstofu Sameinuðu þjóðanna vinnur að framkvæmd ákvarðana Sameinuðu þjóðanna.

Núverandi aðalframkvæmdastjóri er António Guterres, fyrrverandi forsætisráðherra Portúgals. Hann var áður forstjóri Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) frá júní 2005 til desember 2015. Guterres tók við embættinu í ársbyrjun 2017.

Tenglar

Evrópuráðið

Evrópuráðið var stofnað 5. maí 1949 í kjölfar hörmunga síðari heimstyrjaldarinnar. Ísland gerðist aðili að Evrópuráðinu 7. mars 1950. Aðildarríki þess eru 46.

Samkvæmt stofnskrá Evrópuráðsins er því ætlað að efla samvinnu aðildarríkjanna með það að markmiði að standa vörð um mannréttindi, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti, efla mannleg gildi og almenn lífsgæði Evrópubúa. Rík áhersla hefur verið lögð á að auka skilning og samkennd meðal íbúa álfunnar á grundvelli sameiginlegrar arfleifðar.

Á grundvelli þessara markmiða sinnir Evrópuráðið fjölbreytilegum málaflokkum eins og mannréttindamálum, félagsmálum, umhverfismálum, sveitarstjórnarmálum, menntunar- og menningarmálum ásamt samvinnu á sviði löggjafar svo að dæmi séu nefnd. Evrópuráðið hefur staðið að gerð um það bil 200 alþjóðasamninga. Á meðal grundvallarsamninga Evrópuráðsins eru mannréttindasáttmáli Evrópu og félagsmálasáttmáli Evrópu. Samningar Evrópuráðsins hafa átt mikilvægan þátt í að stuðla að frekari samvinnu meðal aðildarríkjanna, efla samkennd þeirra og styrkja hugsjónir um mannréttindi og lýðræði.

Ráðherranefnd Evrópuráðsins fer með ákvörðunarvald innan stofnunarinnar og samanstendur af utanríkisráðherrum aðildarríkjanna eða fastafulltrúum þeirra í Strasbourg.

Ísland gegndi formennsku í ráðherranefnd Evrópuráðsins árin 1955, 1999 og frá nóvember 2022 fram í maí 2023.

Þing Evrópuráðsins kemur saman fjórum sinnum á ári og er mikilvægur umræðuvettvangur. Þar koma saman þingmenn frá öllum aðildarríkjum ráðsins.  Þingið gegnir mikilvægu hlutverki í starfsemi stofnunarinnar og tekur Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins virkan þátt í starfsemi þess.

Ráðstefna sveitar- og héraðsstjórna í Evrópu er samráðsvettvangur héraðs- og sveitarstjórna innan Evrópuráðsins. Markmið ráðstefnunnar er að efla lýðræði og bæta þjónustu á sveitarstjórnarstigi.

Mannréttindadómstóll Evrópu starfar á grundvelli mannréttindasáttmála Evrópu og er hlutverk hans að standa vörð um mannréttindi allra Evrópubúa. Bæði einstaklingar og ríki geta leitað til dómstólsins ef talið er að aðildarríki hafi brotið gegn ákvæðum samningsins.

Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins er sjálfstæð stofnun sem hefur það hlutverk að vekja athygli á fræðslu, vitund og virðingu fyrir mannréttindum í aðildarríkjum Evrópuráðsins og tryggja að aðildarríki framfylgi samningum og tilmælum frá ráðinu.

Efnahags- og framfarastofnunin

Efnahagssamvinnustofnun Evrópu, OEEC, var stofnuð árið 1947 til að framfylgja Marshall áætluninni og til uppbyggingar álfunnar eftir síðari heimsstyrjöldina. Ísland var einn af átján stofnaðilum OEEC sem síðan var breytt í Efnahags- og framfarastofnunina, OECD, árið 1960. Markmið OECD er þríþætt: Að ná sem mestum og varanlegum hagvexti og sem hæstu atvinnustigi í aðildarríkjunum, að stuðla að almennri efnahagsþróun jafnt í aðildarríkjunum sem utan þeirra og að leggja sitt að mörkum til vaxtar og þróunar heimsviðskipta. Þátttaka Íslands nær til um 200 ólíkra efnisþátta innan stofnunarinnar þ.á m. samvinnu á sviði fjármála, skattamála, mennta, vísinda, félags- og atvinnumála, stjórnsýslu, umhverfis- og þróunarmála.

Sjá frekari upplýsingar á vefsíðu sendiráðs Íslands í París, sem gegnir jafnframt hlutverki fastanefndar gagnvart OECD.

Alþjóðaviðskiptastofnunin (World Trade Organization)

Alþjóðaviðskiptastofnunin er helsti vettvangur fyrir ríki heims til að ræða viðskipti og semja um leikreglur sem eiga að tryggja fyrirsjáanleika og úrlausn deilumála.

Stofnunin var sett á fót árið 1995 og kom í stað GATT (General Agreement on Tariffs and Trade), en GATT- samningurinn hafði verið samþykktur í kjölfar endaloka síðari heimstyrjaldarinnar. Aðildarríkjum stofnunarinnar hefur fjölgað úr 128 í 164 frá stofnun hennar.

Nánar um WTO og fjölþjóðlegt viðskiptasamstarf sem Íslands tekur þátt í.

Atlantshafsbandalagið

Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) er lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur þeirrar samvinnu líkt þenkjandi ríkja sem Ísland tekur þátt í til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja.  

Atlantshafsbandalaginu var komið á fót með Atlantshafssáttmálanum sem undirritaður var í Washington 4. apríl 1949. Ísland var eitt tólf stofnríkja bandalagsins. Auk aðildar að Atlantshafsbandalaginu, er varnarsamningur Íslands við Bandaríkin frá 1951 ein meginstoð Íslands í öryggis- og varnarmálum, eins og fram kemur í 3. og 4. grein þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem samþykkt var af Alþingi árið 2016 og tók breytingum 2023.

Nánar um Ísland og Atlantshafsbandalagið.

Nánar um fjölþjóðlegt samstarf Íslands í öryggis- og varnarmálum.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) gegnir mikilvægu hlutverki við eflingu öryggis, friðar, mannréttinda, lýðræðis og átakavarna í aðildarríkjunum sem eru 57 talsins. Innan stofnunarinnar, sem staðsett er í Vínarborg, fer fram reglubundið samráð á sviði mannréttindamála, lýðræðis, réttinda minnihlutahópa, og öryggis- og afvopnunarmála. Einnig má nefna víðtækt kosningaeftirlit á vegum stofnunarinnar í aðildarríkjunum. Öll ríki Evrópu eiga aðild að ÖSE ásamt Bandaríkjunum, Kanada, Kasakstan, Kirgistan, Tadsjikistan, Túrkmenistan og Úsbekistan.

Samráð um framkvæmd afvopnunarsamninga og stöðugleikaaðgerða fer einnig fram á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), S.þ. og annarra alþjóðastofnana.

Nánar um fjölþjóðlegt samstarf Íslands í öryggis- og varnarmálum.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO)

Ísland er eitt stofnríkja Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (Food and Agriculture Organization of the United Nations, FAO) sem var sett á fót árið 1945. Aðildarríki FAO eru 191 en 49 þjóðir eiga sæti í FAO-ráðinu. Auk þess á framkvæmdastjórn ESB aðild að stofnuninni og Færeyjar aukaaðild. Evrópuþjóðum er úthlutað 10 sætum í ráðinu, og hafa Norðurlöndin skipt með sér að sitja í einu þeirra sæta, þrjú ár í senn. Norðurlöndin eiga með sér náið samstarf innan FAO og hafa þar í frammi sameiginlegan málflutning. Starfað hefur Íslandsnefnd FAO (Icelandic National FAO Committee), sem skipuð er af utanríkisráðherra. Ísland hefur átt fastafulltrúa hjá stofuninni frá 1998. Ísland situr í FAO ráðinu til tveggja ára frá 1. júlí 2024. 

Á vettvangi FAO sinna íslensk stjórnvöld málum, sem varða hagsmuni Íslands í sjávarútvegi, landbúnaði og þróunarsamvinnu. Sjávarútvegsmál hafa á síðustu árum orðið umfangsmeiri og mikilvægari málaflokkur hjá FAO. Stofnunin er eini alheimsvettvangurinn fyrir sjávarútvegsmál og gegnir því afar miklu hlutverki fyrir allar fiskveiðiþjóðir. Telja íslensk stjórnvöld mikilvægt að alþjóðleg sátt náist sem fyrst um fiskveiðar og fiskveiðistjórnun í samræmi við viðmiðunarreglur FAO um ábyrgar fiskveiðar (FAO Code of Conduct for Responsible Fisheries). Íslensk stjórnvöld hafa í því skyni tekið virkan þátt í fundum fiskimálanefndar FAO (Committee on Fisheries, COFI) og undirnefndar hennar um viðskipti með fisk (Sub-committee on Trade).

Mikilvæg sjávarútvegsmálefni til umræðu á vettvangi FAO má nefna stefnu einstakra þjóða í málefnum hafsins (Marine Strategies), umræður um fiskveiðar í sjálfbæru samhengi (Ecosystem Approach), baráttuna gegn ólöglegum fiskveiðum og hentifánaveiðum (FAO Compliance Agreement), sérstakt átak til að bæta öflun upplýsinga um fiskveiðar og ástand fiskistofna í heiminum og umræðuna um lokuð svæði og greiningu á ríkisstyrkjum í sjávarútvegi.

Í mars 2005 voru á fundi fiskimálanefndar FAO samþykktar leiðbeinandi reglur um umhverfismerkingar sjávarafurða. Reglurnar setja umhverfismerkingunum ramma, þar sem m. a. er kveðið á um efnislegar viðmiðanir og lágmarkskröfur, stofnanalegt skipulag og framkvæmd slíkra merkinga.

Á 36. aðalfundi FAO í nóvember 2009 undirritaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nýjan alþjóðasamning um aðgerðir hafnríkja gegn ólöglegum fiskveiðum, Agreement on Port State Measures to Prevent, Deter and Eliminate Illegal, Unreported and Unregulated Fishing. Samningurinn felur í sér, að aðildarríki samningsins verða skuldbundin til að loka höfnum sínum fyrir erlendum skipum, sem hafa orðið uppvís að ólöglegum fiskveiðum.

Ísland hefur átt samstarf við FAO og og Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og stóð m.a. fyrir námskeiðum í þróunarlöndum um fiskveiðistjórnun og sjálfbærar veiðar.

Fastanefnd Íslands í Róm gagnvart stofnunum Sameinuðu þjóðanna þar í borg hefur starfað með einu hléi  frá 1. ágúst 2005. Núverandi fastafulltrúi Íslands gagnvart FAO sinnir einnig Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, WFP  og Landbúnaðarþróunarsjóðinum, IFAD.

Í mars 2019 var undirritað nýtt samkomulag um samstarf Íslands og FAO þar sem Ísland skuldbindur sig til að veita fjárframlög og tækniaðstoð vegna málefna hafsins. Þar er sérstaklega tekið á framlögum vegna innleiðingar PSMA í baráttu gegn ólöglegum fiskveiðum, en einnig verkefnum sem beinast að rusli í hafi og drauganetum, auk annarra verkefna sem tengjast Bláum hagvexti (Blue Growth), með vísan í sjálfbæra nýtingu hafa og vernd þeirra í samræmi við Þróunarmarkmið SÞ númer 14. Þegar á árinu 2019 voru skilgreindir verkþættir sem Ísland styður samkvæmt þessu samkomulagi og lánaður veiðarfærasérfræðingur til FAO.

Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO)

Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) var komið á fót árið 1945, en Ísland gerðist aðili þann 8. júní 1964. UNESCO er sérstofnun SÞ og er meginmarkmið hennar að efla alþjóðlega samvinnu á sviði menntunar, vísinda, menningarmála og fjölmiðla. UNESCO ber höfuðábyrgð á því meðal alþjóðastofnana að innleiða fjórða heimsmarkmiðið um menntun.

Hlutverk stofnunarinnar er skilgreint í stofnskrá með þeim hætti, að stuðla beri að friði og öryggi með því að efla samvinnu þjóða í mennta-, vísinda- og menningarmálum og efla þannig almenna tiltrú og virðingu fyrir réttlæti, lögum og mannréttindum.

Markmiðum sínum hyggst UNESCO ná meðal annars með því að efla fræðslu og stuðla að því að allir eigi jafnan rétt til náms. Enn fremur með samvinnu þjóða um útbreiðslu þekkingar og skilnings manna á meðal og með því að aðstoða aðildarlönd við að byggja upp menntakerfi, sem henta á hverjum stað. UNESCO hefur einnig forystu um verndun menningararfleifðar heimsbyggðarinnar.

Sjá frekari upplýsingar á vefsíðu sendiráðs Íslands í París, sem gegnir jafnframt hlutverki fastanefndar gagnvart UNESCO.

Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO)

Alþjóðasiglingamálastofnunin er ein af undirstofnunum Sameinuðu þjóðannna og eru höfuðstöðvar hennar í London. Stofnunin gegnir veigamiklu hlutverki á sviði siglinga-, sjávarútvegs- og umhverfismála, einkum varðandi öryggismál sjómanna, öryggi fiskiskipa og mengun sjávar.
Ísland gerðist aðili að Alþjóðasiglingamálastofnuninni árið 1960 og hefur fullgilt flesta sáttmála og samninga á vegum stofnunarinnar og tekið virkan þátt í störfum hennar.

Sendiráð Íslands í London er jafnframt fastanefnd Íslands gagnvart Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO).

Alþjóðabankinn

Alþjóðabankinn er meðal stærstu og áhrifamestu alþjóðastofnana á sviði þróunarsamvinnu í heiminum. Meginmarkmið starfsins er tvíþætt. Í fyrsta lagi að útrýma sárafátækt og í öðru lagi  að stuðla að aukinni hagsæld og velmegun fyrir þá fátækustu (e. End Extreme Poverty and Promote Shared Prosperity). Allar stofnanir bankans vinna sameiginlega að þessum markmiðum en á sama tíma vinnur Bankinn að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Alþjóðabankinn starfar með stjórnvöldum hlutaðeigandi ríkja og veitir þeim stuðning í formi lána, styrkja og ráðgjafar. Ísland á víðtækt samráð við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin um stefnumótun innan Alþjóðabankans en þessi lönd mynda  sameiginlegt kjördæmi og deila stjórnarsæti í stjórn bankans, en í stjórninni sitja tuttugu og fimm aðalfulltrúar.  Stjórn bankans mótar heildarstefnu hans, hefur eftirlit með starfseminni og tekur fyrir lán- og styrkveitingar til þróunarríkja.

Sjá nánar um Ísland og Alþjóðabankann.

Sjá nánar um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands.

Norræn samvinna

Norrænt samstarf er einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Sem ríkjahópur eiga Norðurlöndin sterka rödd á alþjóðavettvangi sem gerir þeim kleift að hafa umtalsverð áhrif. Samstarf Norðurlandanna er mikilvægur vettvangur, ríkin deila sömu gildum og eiga óformlegar og hreinskiptnar
viðræður þar sem skipst er á upplýsingum um svæðisbundin og alþjóðleg málefni. Samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna (NB8) er einnig þýðingarmikið fyrir öll ríkin. Meginmarkmið samstarfsins eru nánar viðræður um málefni sem eru öllum ríkjunum mikilvæg og aukin samvinna og tengsl. Ísland og Eystrasaltsríkin eiga ekki einungis í nánu samstarfi á vettvangi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, heldur líka innan vébanda Atlantshafsbandalagsins, Sameinuðu þjóðanna, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), Evrópuráðsins og Alþjóðabankans. Reglulegt samráð á sér einnig stað milli utanríkisráðherra NB8 ríkjanna og Visegrad-ríkjanna (Tékkland, Ungverjaland, Pólland og Slóvakía).

Norræn samvinna

Kjölfestan í samstarfi stjórnvalda er á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar. Alls er um að ræða samstarf 11 ráðherra og fagráðuneyta, auk ráðherrasamstarfs um stafræna væðingu. Norrænir fagráðherrar hittast venjulega 1-2 á ári til að ræða sameiginlega hagsmuni og viðfangsefni og þess á milli hittast embættismenn og ýmsir sérfræðinga- og vinnuhópar til að móta stefnu og undirbúa ákvarðanir ráðherranna. Samstarfsráðherrar Norðurlandanna bera ábyrgð á starfi Norrænu ráðherranefndarinnar í umboði norrænna forsætisráðherra, og skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn skapar umgjörð um samstarfið og veitir faglega aðstoð.

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna funda einnig tvisvar á ári með utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna, einu sinni undir merkjum NB8-samstarfsins og í hitt skiptið með utanríkisráðherrum Visegrad-ríkjanna: Póllands, Slóvakíu, Tékklands og Ungverjalands, á hinum svokölluðu NB8-V4 fundum. Á fundum NB8 hefur meðal annars verið fjallað um samskiptin við Rússland og samstarf við Eystrasaltið, um orkuöryggi og netvarnir, og á fundum NB8-V4 er fjallað um svæðisbundið samstarf í breiðu samhengi, um Evrópumál, öryggismál og viðskiptasamstarf, og annað það sem efst er á baugi hverju sinni.

Norðurskautsráðið

Sjá nánar um Norðurskautsráðið hér.

Nánar um Ísland og norðurslóðir hér.

Eystrasaltsráðið (CBSS)

Eystrasaltsráðið (Council of Baltic Sea States, CBSS) var stofnað árið 1992 og hefur aðsetur í Stokkhólmi. Ísland gerðist aðili að Eystrasaltsráðinu árið 1995 sem er samstarfsvettvangur 10 ríkja (Danmerkur, Finnlands, Íslands, Eistlands, Lettlands, Litháens, Noregs, Póllands, Svíþjóðar og Þýskalands, auk Evrópusambandsins). Rússland var aðili að ráðinu, en í mars 2022 var þeim meinuð þátttaka í störfum ráðsins, vegna innrásarstríðs þeirra í Úkraínu. Rússar drógu sig síðan úr Eystrasaltsráðinu í maí sama ár. 

Í Eystrasaltsráðinu fer fram faglegt samstarf aðildarríkjanna um fjölbreytt málefni á borð við mansal, barnavernd, almannavarnir og sjálfbæra þróun, auk þess sem það er vettvangur fyrir stjórnmálalegt samstarf. Samkvæmt stefnuyfirlýsingu frá 2014 vinnur ráðið að þremur langtímamarkmiðum um öryggi, sjálfbærni og samheldni svæðisins.

Ísland gengdi formennsku í Eystrasaltsráðinu (e. Council of the Baltic Sea States, CBSS) frá 2016 til 2017. Utanríkisráðuneytið leiddi formennskuna en naut fulltingis annarra ráðuneyta og stofnana. Þátttaka í svæðisbundnu samstarfi, líkt og Eystrasaltsráðinu, er liður í því meginhlutverki utanríkisþjónustunnar að gæta hagsmuna Íslands á alþjóðavettvangi og grannsvæðum. Á formennskuárinu lagði Ísland sérstaka áherslu á lýðræði, jafnrétti og málefni barna.

Ísland hefur um árabil verið leiðandi í starfi ráðsins á sviði barnaverndar með þátttöku Barnaverndarstofu og hefur barnahúsum að íslenskri fyrirmynd víða verið komið á fót í aðildarlöndunum. Þá hefur Ísland talað fyrir jafnréttisáherslum í öllum málaflokkum sem eru til umfjöllunar í ráðinu.

Barentsráðið (BEAC)

Barentsráðið (Barents Euro-Arctic Council, BEAC) var stofnað að frumkvæði Norðmanna árið 1993 með það fyrir augum að efla samstarf um sameiginleg hagsmunamál Barentshafs og aðliggjandi svæða í Norðvestur-Rússlandi, norðurhluta Skandinavíu og Finnlandi. Svonefnt Barentssvæði er þéttbýlasta svæðið á norðurslóðum með um 5,9 milljónir íbúa. Allar Norðurlandaþjóðirnar eiga aðild að Barentsráðinu ásamt Rússlandi og Evrópusambandinu. Systursamtök á sveitarstjórnarstigi, Byggðasamband Barentssvæðisins (Barents Regional Council, BRC) voru stofnuð á sama tíma og er náin samvinna þar á milli.

Aðild Íslands og Danmerkur að Barentsráðinu verður m.a. rakin til sjávarútvegshagsmuna Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga þar sem eitt af verkefnum ráðsins er að sporna gegn sjávarmengun frá gömlum hernaðarmannvirkjum frá tímum kalda stríðsins og umhverfisspjöllum af völdum iðnaðarumsvifa og auðlindanýtingar á svæðinu. Jafnframt hefur verið talið mikilsvert að Norðurlöndin taki sameiginlega þátt í svæðasamstarfi af þessu tagi.

Mikilvægi Barentsráðsins sem samstarfsvettvangs Norðurlandanna og Rússlands hefur vaxið hröðum skrefum frá stofnun þess, samhliða auknum efnahagslegum umsvifum og auðlindanýtingu á svæðinu. Fjöldi starfshópa er starfræktur á vegum ráðsins um efnahagssamvinnu, tollamál, umhverfismál, æskulýðsmál, flutninga og björgunarmál. Margir starfshópar til viðbótar eru starfræktir á vegum Byggðasambands Barentssvæðisins eða í samvinnu við það um heilbrigðis- og þjóðfélagsmál, menntun og rannsóknir, orkumál, menningu o.fl. Vaxandi áhugi er á starfi Barentsráðsins í öðrum heimshlutum og hafa eftirfarandi ríki fengið áheyrnaraðild að því: Bandaríkin, Bretland, Kanada, Frakkland, Holland, Ítalía, Japan, Pólland og Þýskaland. Opnuð var skrifstofa ráðsins í Kirkenes í Norður-Noregi árið 2008.

Miklu skiptir að vaxandi umsvif Barentsráðsins sem staðbundins vettvangs norðurslóðasamstarfs í norðanverðri Evrópu verði ekki til þess að grafa undan mikilvægi Norðurskautsráðsins sem höfuðvettvangs samstarfs norðurskautsríkja. Í yfirlýsingum ráðsins og starfslýsingu kemur fram að samráð skuli haft við Norræna ráðherraráðið, Eystrasaltsráðið og Norðurskautsráðið eftir því sem þörf krefur. Nauðsynlegt er að efla samráð og samvinnu Barentsráðsins við Norðurskautsráðið og finna því fastari farveg. Íslendingar hafa verið talsmenn þess að Barentsráðið verði tengt inn í Norðurskautsráðið með formlegum hætti t.d. með sameiginlegum ráðherrafundi beggja ráðanna. Slíkt þyrfti ekki að draga úr mikilvægi Barentssamstarfsins. Þvert á móti gæti það orðið til að styrkja stoðir þess enn frekar í víðara samhengi, þar sem komist yrði hjá tvíverknaði og betri nýting næðist fyrir mannauð og fjármagn.

Norðlæga víddin (Northern Dimension)

Norðlæga víddin er samráðsvettvangur Evrópusambandsins, Íslands, Noregs og Rússlands um málefni Norðvestur-Evrópu. Innan Norðlægu víddarinnar eru fjögur málefnasvið sem fjalla um lýðheilsu og félagslega velferð, samgöngur og flutninga, menningu og umhverfismál. Þann 9. mars 2022 birtu ESB, Noregur og Ísland sameiginlega yfirlýsingu á vettvangi samstarfsins um Norðlægu víddina þar sem innrás Rússlands í Úkraínu var harðlega fordæmd og ákvörðun tekin um að meina Rússlandi þátttöku í starfsemi Norðlægu víddarinnar þar til annað verður ákveðið.

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES)

EES-samningurinn er eitt víðtækasta alþjóðasamstarf sem Ísland tekur þátt í. Segja má að EES-samningurinn sé brú milli Íslands og annarra EFTA-ríkja innan EES á innri markaði Evrópusambandsins (ESB). Þátttaka Íslands í innri markaðinum gerir ekki aðeins íslenskum fyrirtækjum kleift að stunda starfsemi sína hindrunarlaust hvarvetna á Evrópska efnahagssvæðinu heldur geta Íslendingar einnig aflað sér menntunar og starfað í öllum ríkjum EES. Þá opnar samningurinn möguleika fyrir íslenska vísinda- og fræðimenn til að taka þátt í rannsóknarstarfsemi með samstarfsaðilum hvaðanæva af Evrópska efnahagssvæðinu svo aðeins séu nefnd fáein dæmi.

Með EES-samningnum er komið á fót sameiginlegu efnahagssvæði sem byggist á frjálsum vöruflutningum, frjálsri för launafólks, frjálsri þjónustustarfsemi og staðfesturétti, ásamt frjálsum fjármagnshreyfingum (fjórþætta frelsið). EES-samningurinn byggist á svonefndu einsleitnimarkmiði en í því felst að hvarvetna innan EES eiga að gilda sömu reglur á þeim sviðum sem samningurinn nær yfir. Af þessu leiðir að þeim ríkjum sem eiga aðild að EES-samningnum ber að innleiða í löggjöf sína þær reglur sem samþykktar hafa verið á vettvangi EES-samstarfsins.

Nánar: EES-upplýsingaveita stjórnvalda.

Evrópusambandið (ESB)

Ísland og Evrópusambandið (ESB) eiga samráð og samvinnu í utanríkis- og öryggismálum á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, en í honum er sameiginleg yfirlýsing ríkisstjórna aðildarríkja ESB og EES-EFTA-ríkjanna um pólitísk skoðanaskipti. Í framkvæmd er EES-EFTA ríkjunum m.a. boðið að taka undir yfirlýsingar Ráðherraráðs ESB á sviði utanríkis- og öryggismála (Common Foreign and Security Policy Statements - CFSP), svo og ræður hjá alþjóðastofnunum. 

Ráð ESB samþykkti öryggismálaáætlun 12. desember 2003 (European Security Strategy). Þar eru greindar helstu hættur sem steðja að ESB, þ.e. hryðjuverk, útbreiðsla gereyðingarvopna, svæðisbundin átök, hrun ríkja og skipulögð glæpastarfsemi. Við sama tækifæri samþykkti Ráðið viðbragðsáætlun gegn útbreiðslu gereyðingarvopna. Markmið hennar er að koma í veg fyrir, stöðva og, ef hægt er, að koma í veg fyrir hættuleg áform um útbreiðslu gereyðingarvopna. ESB samþykkti viðbragðsáætlun gegn ólögmætri öflun og dreifingu smá- og léttvopna og skotfæra þeirra hinn 16. desember 2005. Þar er sett fram aðgerðaráætlun gegn smá- og léttvopnum, innan ESB sem utan. 

ESB hefur sett starfsreglur um útflutning hergagna sem Ísland hefur skuldbundið sig til að framfylgja. ESB hefur einnig sett reglur um vopnamiðlun og samræmdar reglur um eftirlit með útflutningi hluta sem hafa tvíþætt notagildi, þ.e. bæði hernaðar- og borgaralegt. 

ESB ákveður öryggis- og þvingunaraðgerðir gegn ríkjum og hryðjuverkasamtökum. Ísland hefur skuldbundið sig til að framfylgja flestum þeirra. 

Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA)

Aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu (European Free Trade Association, EFTA) hafa gert 29 fríverslunarsamninga sem taka til fjörutíu ríkja og ríkjasambanda utan ESB. Nánar um EFTA.

Síðast uppfært: 27.11.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta