Hoppa yfir valmynd

Alþjóðabankinn (The World Bank Group)

Alþjóðabankinn er meðal stærstu og áhrifamestu alþjóðastofnana á sviði þróunarsamvinnu í heiminum. Meginmarkmið starfsins er tvíþætt. Í fyrsta lagi að útrýma sárafátækt og í öðru lagi  að stuðla að aukinni hagsæld og velmegun fyrir þá fátækustu (e. End Extreme Poverty and Promote Shared Prosperity). Allar stofnanir bankans vinna sameiginlega að þessum markmiðum en á sama tíma vinnur Bankinn að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Alþjóðabankinn starfar með stjórnvöldum hlutaðeigandi ríkja og veitir þeim stuðning í formi lána, styrkja og ráðgjafar. Ísland á víðtækt samráð við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin um stefnumótun innan Alþjóðabankans en þessi lönd mynda  sameiginlegt kjördæmi og deila stjórnarsæti í stjórn bankans, en í stjórninni sitja tuttugu og fimm aðalfulltrúar.  Stjórn bankans mótar heildarstefnu hans, hefur eftirlit með starfseminni og tekur fyrir lán- og styrkveitingar til þróunarríkja.

Alþjóðabankinn er ein af fjórum áherslustofnunum Íslands á sviði fjölþjóðlegrar þróunarsamvinnu.

Alþjóðabankasamsteypan (World Bank Group) samanstendur af fimm stofnunum:

  • Alþjóðabanki til enduruppbyggingar og framþróunar (International Bank for Reconstruction and Development - IBRD), stofnaður 1945. IBRD veitir lán með niðurgreiddum markaðsvöxtum til landa í Austur Evrópu og til þróunarríkja sem ekki eru á meðal hinna fátækustu.
  • Alþjóðaframfarastofnunin (International Development Association - IDA) stofnuð 1960. IDA er sú stofnun innan Alþjóðabankasamsteypunnar sem aðstoðar fátækustu þróunarríkin með styrkjum, hagstæðum lánum og ábyrgðum til þróunarverkefna, auk ráðgjafar.
  • Alþjóðalánastofnunin (International Finance Corporation - IFC) stofnuð 1956. IFC er stærsta alþjóðlega þróunarstofnunin sem einblínir sérstaklega á einkageirann í þróunarlöndum.
  • Fjölþjóðlega fjárfestingarábyrgðarstofnunin (Multilateral Investment Guarantee Agency - MIGA) stofnuð 1989. MIGA veitir ábyrgðir vegna fjárfestinga einkaaðila í þróunarlöndum gegn áföllum sem ekki eru viðskiptalegs eðlis.
  • Alþjóðastofnunin um lausn fjárfestingardeilna (International Center for Settlement of Investment DisputesICSID) stofnuð 1966. ICSID veitir aðstoð til sáttagerðar og gerðardóma í lausnum fjárfestingardeilna og stuðlar þannig að gagnkvæmu trausti milli ríkja og erlendra fjárfesta.
 

 

Yfirlit frá Alþjóðabankanum yfir framlög Íslands til bankans (júní 2023)

 

 

Höfuðstöðvar Alþjóðabankans eru í Washington DC, en auk þeirra eru starfrækt yfir 130 útibú víðsvegar um heiminn. Hjá bankanum starfa rúmlega tíu þúsund starfsmenn frá um 170 ríkjum. Aðildarríki bankans eru 189 talsins.

Alþjóðaframfarastofnunin

Vatnsdæla nálægt Ulandi, Suður-Afríku
Vatnsdæla nálægt Ulandi, Suður-Afríku (Mynd: Trevor Samson/World Bank)

Stór hluti framlaga Íslands til Alþjóðabankasamsteypunnar fer til Alþjóðaframfarastofnunarinnar (International Development Association, IDA) sem er sú stofnun bankans sem veitir fátækustu löndum heims styrki og lán á hagstæðum kjörum, auk ráðgjafar. Þá veita íslensk stjórnvöld stuðning til sömu ríkja í gegnum áætlun Alþjóðaframfarastofnunarinnar um niðurfellingu skulda fátækustu ríkjanna. Samningaviðræðum um 20. endurfjármögnun IDA lauk undir lok árs 2021 þar sem ákveðið var að 93 milljörðum bandaríkjadala skyldi varið í stuðning til fátækustu landa heims á tímabili IDA20, sem er umfangsmesti stuðningurinn til þessa. Ísland leggur tæplega 1,8 milljarða króna til IDA20 á tímabilinu 2023-2025.

Tvíhliða samstarf við Alþjóðabankann

Í samstarfi sínu við Alþjóðabankann leggur Ísland sérstaka áherslu á  málefni hafsins, jafnrétti kynjanna, mannréttindi og endurnýjanlega orku.

Mannréttindi

Nemendur í enskutíma í Zanaki grunnskólanum í Dar es Salaam,
Tansaníu (Mynd: Sarah Farhat / World Bank).

Mannréttindamál eru meðal megin áherslna Íslands í tvíhliða samstarfi við Alþjóðabankann og Ísland hefur síðan 2006 veitt framlög til mannréttindasjóðs bankans. Mannréttindasjóðurinn (e. Human Rights, Inclusion and Empowerment Umbrella Trust Fund, HRIETF – áður Nordic Trust Fund, NTF) vinnur að því að auka þekkingu og færni á mannréttindamálum innan bankans og styðja við  verkefnainnleiðingu á sviði mannréttinda. Áhersla er lögð á tengsl málaflokksins við starfsemi og rekstur bankans, m.a. í óstöðugum ríkjum og á átakasvæðum.  Auk fjárstuðnings styður Íslands við starfsemi sjóðsins með fjármögnun á stöðu sérfræðings á sviði mannréttindamála (2021-2023).

Málefni hafsins

Veiðimaður gerir að netum sínum í sjávarþorpinu Jamestown nálægt
Accra í Gana (Mynd: Dominic Chavez/World Bank).

Ísland leggur áherslu á málefni hafsins í víðu samhengi í þróunarsamvinnu, þar með talið verndun sjávar og sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins. Þetta endurspeglast í samstarfi Íslands og Alþjóðabankans. Samstarfið er þríþætt: fjárframlög  til ProBlue sjóðs bankans, fjármögnun á stöðu fiskisérfræðings innan bankans og stuðningur við verkefni bankans með íslenskri sérfræðiþekkingu (ráðgjafalisti íslenskra sérfræðinga). Mengunarmál í hafi eru einnig ofarlega á baugi og fá meðal annars sérstaka athygli í ProBlue sjóðnum sem er talinn falla mjög vel að áherslum Íslands varðandi málefni hafsins. Öflug þátttaka Íslands í ProBlue sjóðnum styrkir almennt samstarf við bankann á sviði málefna hafsins og skapar fleiri tækifæri til að miðla íslenskri þekkingu til verkefna á þessu sviði.

Endurnýjanleg orka

Ísland hefur um árabil  stutt orkusjóð bankans (e. Energy Sector Management Assistance Program, ESMAP),  með þríþættum hætti.  Stuðningurinn felst í framlögum til sjóðsins, fjármögnun á stöðu íslensks jarðhitasérfræðings hjá bankanum og stuðningi við verkefni sjóðsins í gegnum ráðgjafalista ráðuneytisins. ESMAP hefur reynst einn mikilvægasti vettvangur bankans til að auka við þekkingu á jarðhitaverkefnum og greiða fyrir fjárfestingum á sviði jarðhita í þróunarríkjum. Í tengslum við ESMAP og jarðhitaverkefni Alþjóðabankans leggur Ísland einnig til tæknilega aðstoð jarðhitasérfræðinga við tiltekna afmarkaða þætti innan stærri verkefna sem bankinn eða viðskiptavinir hans eru með í undirbúningi eða framkvæmd.

Þá styður Ísland einnig við vatnsaflsverkefni á vegum ESMAP en Ísland býr yfir víðtækri þekkingu á því sviði sem nýst getur víða um heim.

Ísland studdi við gerð skýrslu ESMAP um jafnréttismál og jarðhita en niðurstöður voru kynntar á vel sóttri jarðhitaráðstefnu í apríl 2018 á Íslandi. Í framhaldi af þeirri vinnu stóð ESMAP fyrir vinnustofu um jarðhita og jafnréttismál í smáeyþróunarríkjum (Small Island Development States, SIDS) á Gvadelúpeyjum í mars 2019.

Ísland hefur einnig stutt við gerð skýrslu um bestu starfshætti við hagkvæmniathuganir á sviði jarðhita fyrir Alþjóðabankann. Skýrslan, sem var unnin af íslenskum jarðhitasérfræðingum, inniheldur leiðbeiningar um gerð hagkvæmniathugana vegna jarðhitavirkjana og spratt upp úr vinnu íslenskra sérfræðinga við undirbúning jarðhitaverkefnis Alþjóðabankans í El Salvador.

Bankinn óskaði árið 2022 eftir samstarfi um sérstaka kynningu á nýtingu lághita s.s. við matvælaframleiðslu, ferðamennsku og reksturs auðlindagarðs fyrir fulltrúa aðildarríkja bankans og kom fjölmenn sendinefnd til landsins af því tilnefni.

Jafnréttismál

Helina (25 ára) vinnur fyrir byggingarverktaka í Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu (Mynd: Stephan Gladieu / World Bank).

Ísland hefur lengi stutt við jafnréttismál innan bankans m.a. við Jafnréttissjóð bankans (e. Umbrella Facility for Gender Equality, UFGE), sem gegnir mikilvægu hlutverki í stefnumótun bankans hvað varðar kynjajafnrétti og samþættingu jafnréttissjónarmiða. Hefur vinna á vegum sjóðsins m.a. haft þau áhrif að Alþjóðabankinn sem heild og undirstofnanir bankans hafa verið að innleiða kynjasjónarmið í verkefni sín í auknum mæli.

Árið 2016 kom út ný og metnaðarfull jafnréttisstefna (e. Gender Strategy) bankans fyrir árin 2017-2023 og byggir stefnan að stórum hluta á rannsóknarvinnu og verkefnum á vegum UFGE.  Unnið er að nýrri stefnu um jafnréttismál innan bankans og tekur Ísland þátt í þeirri vinnu í gegnum stjórn bankans.

Í öðru samstarfi innan bankans, s.s. fiskimálum og jarðhita, leggur Ísland einnig áherslu á jafnréttismál.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta