Hoppa yfir valmynd

Mannréttindi

Stefna Íslands í þróunarsamvinnu er sú að tekið verði mið af þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland hefur gerst aðili að, samþykkt eða fullgilt, m.a. á sviði mannréttinda, en samkvæmt mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna eru mannréttindi forsenda friðar, réttlætis og lýðræðis.

Mannréttindi eru grundvallarréttindi sem eiga við um alla einstaklinga óháð þjóðerni, búsetu, kyni, litarhætti, trúarbrögðum, tungumálum, kynhneigð, kynvitund eða annarri stöðu. Mannréttindi eru algild í þeim skilningi að þau verða ekki tekin af einstaklingum og eru án tillits til þess hvort þau sé að finna í lögum og reglum viðkomandi ríkis. Mannréttindi hafa engu að síður verið skilgreind í alþjóðasamningum, svæðisbundnum samningum sem og í landsrétti flestra ríkja og fela í sér alþjóðlega samþykktar kröfur til ríkja um að vernda mannhelgi borgara sinna. Vínaryfirlýsingin um mannréttindi frá 1993 segir t.d. fyrir um að stjórnvöld hvers ríkis og alþjóðasamfélagið beri sameiginlega ábyrgð á því að mannréttindi allra séu virt. Því eru mannréttindi einn af grundvallarþáttum þróunarsamvinnu og leiðarljós í starfi Íslands.

Störf Íslands verða þannig unnin í samræmi við alþjóðlega mannréttindasamninga og alþjóða- og mannúðarlög og samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum og grundvallarreglum um mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi og sjálfstæði.  Mannréttindi eru víða fótum troðin, og mun þróunarsamvinna Íslands í orði og gjörð endurspegla þau gildi sem íslenskt samfélag hefur í heiðri; virðingu fyrir lýðræði, mannréttindum, fjölbreytileika, umburðarlyndi, réttlæti og samstöðu. 

Rík áhersla hefur verið á mannréttindi í þróunarsamvinnu til þessa en ein helsta breytingin sem stefnan boðar fyrir íslenska þróunarsamvinnu er að starfið muni byggjast á mannréttindamiðaðri þróunarsamvinnu. Nálgunin felur í sér að mannréttindi eru höfð að leiðarljósi þegar þróunarsamvinnustefna og verkefni tengd henni eru mótuð, framkvæmd og metin, og jafnframt er aukin áhersla lögð á málsvarastarf og uppbyggingu getu. Í stefnunni kemur fram að Ísland leggi mannréttindi til grundvallar stefnu sinni með þá sýn að leiðarljósi að fátækt sé ekki aðeins skortur á efnislegum gæðum heldur einnig skortur á öryggi, valdi og stjórn yfir eigin aðstæðum.

Nýjar áherslur í fjölþjóðalegu samstarfi taka nú þegar mið af mannréttindum, en sem dæmi má nefna veitir Ísland framlög til norræns mannréttindasjóðs (Human Rights Development Trust Fund) innan Alþjóðabankans sem ætlað er að auka veg mannréttindamála innan bankans og verkefna hans. Þá var fjármögnuð staða íslensks, útsends fulltrúa mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) í Jórdaníu og rammasamningi við Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) hefur verið lokið. Á grundvelli hans mun Ísland styðja verkefni stofnunarinnar á sviði mannréttinda í þróunarríkjum.

Í lok árs 2018 skipaði utanríkisráðherra starfshóp til að greina og útfæra heppilegar leiðir fyrir Ísland til að nýta við innleiðingu mannréttindamiðaðrar þróunarsamvinnu hvað varðar sértækar aðgerðir, málsvarastarf og samþættingu mannréttinda við þróunarsamstarf Íslands í tvíhliða samstarfslöndum, Malaví og Úganda. Þar er meðal annars er byggt á reynslu Norðurlandanna. Skýrslan Mannréttindi sem drifkraftur breytinga – Mannréttindamiðuð þróunarsamvinna í tvíhliða samstarfi Íslands var gefin út í maí 2019.

Síðast uppfært: 2.8.2019 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta