Hoppa yfir valmynd

Tvíhliða þróunarsamvinna

Tvíhliða þróunarsamvinna er lykilþáttur í þróunarsamvinnu Íslands og sá hluti hennar þar sem íslenskur almenningur getur séð með beinum hætti í hvað fjármunirnir fara og hvaða árangri er náð. Meginmarkmið tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands er að bæta lífsviðurværi fátæks fólks og stuðla að bættri velferð á grundvelli mannréttinda og sjálfbærrar þróunar í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Í tvíhliða þróunarsamvinnu er lögð áhersla á samstarf við fátæk ríki í Afríku. Tvíhliða samstarfslönd Íslands eru þrjú, Malaví, Síerra Leóne og Úganda. Þar hafa sendiráð Íslands umsjón með samstarfinu, í samvinnu við deild tvíhliða þróunarsamvinnu á þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, sem sinnir undirbúningi og eftirliti með verkefnum.

 

Í gegnum tvíhliða þróunarsamvinnu tekur Ísland beinan þátt í þróunarverkefnum í samstarfslöndum, þar sem áhersla er lögð á að bæta lífskjör í samfélögum og efla getu yfirvalda til að veita íbúum grunnþjónustu. Einnig er sérstök áhersla lögð á valdeflingu kvenna og ungmenna og í vaxandi mæli á loftslags- og umhverfismál.

Stefnumið og áherslur í tvíhliða þróunarsamvinnu

Tvíhliða stefnumið, sem byggja á stefnu Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu, setja ramma um sýn, áherslur og framkvæmd í tvíhliða samvinnu og skapa grundvöll fyrir gerð samstarfsáætlana í samstarfslöndum Íslands.

Lykiláherslusvið Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu:

  • Í forgrunni er áhersla á baráttu gegn fátækt og hungri með jafnrétti, mannréttindi og umhverfis- og loftslagsmál, sem sértæk og þverlæg málefni.
  • Stuðningur við samstarfsríki og héruð til að uppfylla skyldur sínar um aðgengi að grunnþjónustu á sviði mæðra- og ungbarnaheilsu, menntunar og hreins vatns og hreinlætis.
  • Áhersla á efnahagslega valdeflingu kvenna og ungs fólks, með aukna áherslu á og sköpun umhverfisvænna starfa.
  • Bláa hagkerfið og fiskimál, heildræn nálgun sem tekur til fiskimála sem og bættra lífsgæða fólks í sjávarbyggðum og uppbyggingu og nýsköpunar við nýtingu auðlinda hafs og vatna.

Tvíhliða þróunarsamvinna skilar árangri

Tvíhliða þróunarsamvinna hefur skilað góðum og sýnilegum árangri, sem hefur verið staðfestur með óháðum úttektum erlendra sérfræðinga og fengið góðar umsagnir í úttektum OECD-DAC, sem er samstarfsvettvangur framlagsríkja.

Malaví 2023

Úganda 2023

Síerra Leóne 2023

Framkvæmd tvíhliða þróunarsamvinnu

Við framkvæmd tvíhliða þróunarsamvinnu er lykiláhersla lögð á eignarhald samstarfsríkja, þátttöku stjórnvalda í undirbúningi og framkvæmd verkefna og samræmingu við þróunaráætlanir viðkomandi ríkja, sem og fagleg vinnubrögð með áherslu á árangur í takti við alþjóðleg viðmið.

Megináherslan í Malaví og Úganda er á héraðsþróunarverkefni þar sem unnið er í nánu samstarfið við héraðsstjórnir að uppbyggingu innviða og getu til að bæta grunnþjónustu við íbúa. Unnið er að því að koma á sömu nálgun í Síerra Leóne. Héraðsnálgun hefur marga kosti fyrir smáa samstarfsaðila líkt og Ísland. Einkum þar sem framlag okkar nær samlegðaráhrifum í gegnum ólíka geira og fámennt landateymi nær að vinna samstíga með starfsfólki héraðsstjórna til að hámarka árangur af okkar framlagi. Héraðsnálgun Íslands hefur reynst árangursrík í að efla getu héraðstjórnvalda, skilað sýnilegum árangri og vekur vaxandi áhuga annarra framlagsþjóða.

Með það fyrir augum að hámarka samlegð og árangur af starfi Íslands er leitast við að starfa með öðrum samstarfsaðilum, til að mynda fjölþjóðlegum stofnunum, félagasamtökum, aðilum atvinnulífs og öðrum framlagsríkjum. Sem dæmi ná nefna samstarfsverkefni með WFP í Malaví, Úganda og Síerra Leóne um skólamáltíðir, samstarf við UNICEF í Úganda í flóttamannabyggðum og Síerra Leóne þar sem unnið er í fátækum fiskimannasamfélögum, og samstarf við UNFPA í öllum löndunum þremur við að útrýma fæðingarfistli. Skólar GRÓ-Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu koma einnig að framkvæmd verkefna og íslensk félagasamtök styðja við fjölmörg verkefni í samstarfslöndum Íslands.


Malaví

Í Malaví er starfað í tveimur héruðum, Mangochi og Nkhotakota. Er meginþungi samstarfsins á sviði mæðra- og ungbarnaheilsu, menntamála og vatns- og hreinlætismála. Þá hefur verið öflugt samstarf við stofnanir Sþ, m.a. á sviði jafnréttismála og kyn- og frjósemisheilbrigðis í samstarfi við UNFPA og UN Women, sem og varðandi heimaræktaðar skólamáltíðir með WFP. Ásamt samstarfi við staðbundin félagasamtök.

Uganda

Úganda

Í Úganda er starfað í tveimur héruðum, Buikwe og Namayingo. Í héraðsþróunarverkefnum er megináhersla á menntamál og vatns- og hreinlætismál ásamt þverlægum áherslumálum á sviði mannréttinda, jafnréttismála og loftslags- og umhverfismála. Í Úganda hefur einnig verið í gangi stórt verkefni með UNICEF sem snýr að bættum innviðum á flóttamannasvæðum í norður Úganda með áherslu á vatns- og hreinlætismál sem og samstarf við UNFPA. Aukin áhersla er á samstarf við staðbundin félagasamtök einkum á sviði mannréttindamála.


Síerra Leóne

Samstarf Íslands og Síerra Leóne í þróunarsamvinnu hófst árið 2018 undir hatti svæðaverkefnis í fiskimálum í Vestur-Afríku í samstarfi við Alþjóðabankann og stjórnvöld í landinu, með það að markmiði að styðja við sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda og aukin lífsgæði í fiskveiðisamfélögum. Lögð hefur verið áhersla á að styðja við vatns- og hreinlætisverkefni sem snúa bæði að bættum lífskjörum íbúa sem og bættri meðferð afla  í strand- og sjávarbyggðum í samstarfi við Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og sjávarútvegsráðuneytið í landinu.

Tvíhliða þróunarsamvinna

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum