Þróunarsamvinna Íslands og Síerra Leóne
Sendiráð Íslands í Freetown var formlega opnað í maí 2024 og mun það sinna þróunarsamvinnuverkefnum. Samstarf Íslands og Síerra Leóne í þróunarsamvinnu hófst hinsvegar árið 2018 undir hatti svæðaverkefnis í fiskimálum í Vestur-Afríku í samstarfi við Alþjóðabankann og stjórnvöld í landinu, með það að markmiði að styðja við sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda og aukin lífsgæði í fiskveiðisamfélögum. Einnig hefur verið lögð áhersla á að styðja við vatns- og hreinlætisverkefni sem snúa bæði að bættum lífskjörum íbúa sem og bættri meðferð afla í strand- og sjávarbyggðum í samstarfi við Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og sjávarútvegsráðuneytið í landinu. Þá hefur Ísland stutt við verkefni sem miðar að því að bæta lífskjör kvenna og stúlkna sem þjást af fæðingarfistli (e. obstetric fistula) í samstarfi við Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) frá 2020. Á grunni þess samstarfs fór af stað í byrjun árs 2022 stórt verkefni sem hefur það að markmiði að styðja viðleitni stjórnvalda við að útrýma fæðingarfistli í Síerra Leóne á næstu árum.
Ísland hefur lagt áherslu á að beita héraðsnálgun í tvíhliða þróunarsamvinnu og er stefnt að þeirri nálgun með Síerra Leóne þegar fram líða stundir en byrjað er á að vinna í gegnum og með stofnunum Sameinuðu þjóðanna og félagasamtökum í landinu í samvinnu við yfirvöld. Einnig starfa íslensku félagasamtökin, Aurora velgerðasjóður, Barnaheill – Save the Children á Íslandi og Rauði krossinn, með stuðningi frá utanríkisráðuneytinu að verkefnum í Síerra Leóne.
Megináhersla í tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands er að stuðla að bættum lífskjörum í samstarfslöndunum með því að styðja við áætlanir og viðleitni stjórnvalda í viðkomandi löndum til að draga úr fátækt og bæta félagsleg og efnahagsleg lífsskilyrði á þeim svæðum sem Ísland styður. Þróunarsamvinna Íslands í Síerra Leóne er í samræmi við áherslur Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu sem byggja á stefnu Íslands um alþjóðlega þróunarsamvinnu en þar er meðal annars lögð áhersla á uppbyggingu félagslegra innviða, jafnréttismál og mannréttindi.
Lögð er áhersla á að nýta sérþekkingu og reynslu lykilsamstarfsstofnana Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu í Síerra Leóne til að styðja við framþróun í landinu í takti við áherslur beggja landa og viðkomandi stofnana.
Samstarf við Alþjóðastofnanir
Lögð er áhersla á að nýta sérþekkingu og reynslu lykilsamstarfsstofnana Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu í Síerra Leóne til að styðja við framþróun í landinu í takti við áherslur beggja landa og viðkomandi stofnana.
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna
(The United Nations Children‘s Fund – UNICEF)
Samstarfið við UNICEF hófst 2018 með stuðningi við vatns -og hreinlætisverkefni í þremur sjávarþorpum í Síerra Leóne. Hefur verkefnið stækkað og nær nú til 16 afskekktra samfélaga í sex héruðum. Áhersla er lögð á uppbyggingu vatns- og hreinlætisaðstöðu svo bæta megi aðgengi að hreinu vatni og hreinlæti og minnka þannig útbreiðslu landlægra smitsjúkdóma. Gert er ráð fyrir að um 53.0000 manns muni njóta góðs af verkefninu. Heildrænni aðferðafræði er beitt í verkefninu líkt og annarri vinnu Íslands og er viðfangsefnið nálgast meðal annars með það að leiðarljósi að bæta aðstæður barna og kvenna í samfélögunum. Skólar og heilsugæslustöðvar fá aðgengi að bættri vatns- og hreinlætisaðstöðu, tíðarheilbrigði stúlkna í skólum er stutt með aukinni fræðslu og aðgengi að tíðarvörum og unnið verður að því að bæta sérstaklega umönnun og menntun ungra barna í þorpunum, meðal annars með því að setja á fót og styðja við starfsemi leikskóla. Þá verður leitast við að auka öryggi íbúa með til að mynda uppsetningu á sólarknúnum útiljósum í þorpunum, fisklöndunarpallar með aðgengi að vatni eru einnig reistir sem skilar sér í bættri meðferð afla. Þá hefur endurvinnslustöðvum verið komið á fót þar sem ungmenni eru þjálfuð í hvernig nýta má plastúrgang og annað sorp til framleiðslu á nytsamlegum vörum, sem hluti af viðleitni til að draga úr plastmengun við löndunarstaði og styðja við atvinnusköpun fyrir ungt fólk. UNICEF vinnur í samstarfi við stjórnvöld og frjáls félagasamtök sem starfandi eru í Síerra Leóne við framkvæmd verkefnisins.
Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna
(United Nations Population Fund– UNFPA)
Í maí árið 2022 hófst formlega samstarfsverkefni Íslands og UNFPA í Síerra Leóne sem snýst um að styðja viðleitni stjórnvalda til að útrýma fæðingarfistli í landinu. Verkefnið byggir á fyrra samstarfi sem fólst í að fyrirbyggja og lækna fæðingarfistil og skilaði góðum árangri. Til að vinna að markmiðinu er tekið á heildstæðan hátt á orsökum og afleiðingum fæðingarfistils fyrir konur og stúlkur. Það er meðal annars gert með fyrirbyggjandi aðgerðum sem stuðla að vitundarvakningu og fræðslu, auk betra aðgengis að bættri mæðravernd. Einnig er áformað að auka framboð á skurðaðgerðum og bæta eftirfylgni með þeim konum og stúlkum sem gangast undir skurðaðgerðir með valdeflandi verkefnum sem renna stoðum undir lífsafkomu þeirra. Náið er unnið með heilbrigðisyfirvöldum í Síerra Leóne við framkvæmd verkefnisins og lögð áhersla á að efla getu heilbrigðisstofnana til að veita viðunandi fæðingar-, kyn- og frjósemisþjónustu. UNFPA vinnur jafnframt að verkefninu í samstarfi við frjáls félagasamtök sem eru starfandi í landinu. Verkefnið, sem er eitt það stærsta á þessu sviði fyrir UNFPA í Vestur-Afríku, hefur sterka jafnréttis- og mannréttindavídd en það beinist sérstaklega að fátækum stúlkum og konum sem hafa verið jaðarsettar í samfélaginu vegna fæðingarfistils.
Ljósmynd/UNFPA/Sierra Leone
Um Síerra Leóne
Samstarfsverkefni Íslands og UNFPA um forvarnir og lækningu við fæðingarfistli 2023
Um Síerra Leóne
Síerra Leóne er á vesturströnd Afríku og á landamæri að Líberíu, Gíneu og Atlantshafinu. Höfuðborg landsins er Freetown og áætlaður íbúafjöldi landsins er 8,1 milljón samkvæmt Alþjóðabankanum (2021). Þjóðin er mjög ung en 75% íbúa eru undir 35 ára aldri. Flatarmál landsins er 71 þúsund ferkílómetrar sem þýðir að landið er talsvert minna en Ísland en þess má einnig geta að Síerra Leóne er hringlagasta landið á landakorti heimsins. Síerra Leóne er meðal fátækustu ríkja í heimi en það situr í 182. sæti af 191 ríki á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna (Human Development Index).
Landið býr yfir ríkum jarðvegi og náttúruauðlindum í jörðu, þar á meðal demöntum og málmum, og státar af fallegum ströndum sem og gróður- og fjalllendi. Síerra Leóne liggur nálægt miðbaug og er þar hitabeltisloftslag og árstíðir í landinu skiptast í tvennt; rigningatímann (e. rainy season) og þurrkatímann (e. dry season) þegar Harmattan tímabilið er einnig en þá blása vindar frá Sahara eyðimörkinni miklu magni sands og ryks yfir Vestur-Afríku um nokkurra mánaða skeið. Landið er meðal viðkvæmustu landa í Afríku gagnvart loftslagsbreytingum og hafa loftslagstengdar náttúruhamfarir, einkum flóð og aurskriður, verið tíðari á undanförnum árum og valdið miklu tjóni.
Gjöful fiskimið eru úti fyrir ströndum landsins og fiskveiðar eru ein af undirstöðum efnahags landsins en þær leggja til um það bil 10% til vergrar landsframleiðslu auk þess sem áætlað er að 100 þúsund manns hafi beina atvinnu af virðiskeðju fiskafurða og allt að hálf milljón manna reiði sig á einhvern hátt á fiskiauðlindina til lífsviðurværis. Útflutningur á sjávar -og landbúnaðarafurðum er verulega takmarkaður og skortur er á fæðu -og næringaröryggi landsmanna, sér í lagi á landsbyggðinni en landsmenn rækta hrísgrjón, kassavarót og kassavalauf sem hvort tveggja eru mikið notuð í matargerð ásamt sterkum chillipipar og pálmaolíu. Landið reiðir sig að miklu leyti á innflutning og eru hrísgrjón, sem eru uppistaðan í daglegu fæði landsmanna, helsta innflutningsvara landsins en gjaldmiðillinn er veikur og efnahagskerfið almennt viðkvæmt fyrir utanaðkomandi sveiflum sem geta þá haft mikil áhrif á hvort tveggja fæðuöryggi og efnahagshorfur.
Ellefu ára borgarastríð, sem lauk árið 2002, ásamt E-bólu faraldrinum, sem lauk árið 2016, hafa haft mikil áhrif á efnahags- og félagslegaþróun í landinu. Covid-19 faraldurinn skall síðan á með sínum afleiðingum og hægði enn frekar á hagvexti og þróun.
Ítarefni
Samstarfsaðilar í Síerra Leóne
Ísland í Síerra Leóne
Tvíhliða þróunarsamvinna
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.