Hoppa yfir valmynd

Þróunarsamvinna Íslands og Úganda

Ísland og Úganda hafa starfað saman á sviði þróunarsamvinnu frá árinu 2000, fyrst á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) en síðar undir utanríkisráðuneytinu þegar ÞSSÍ var færð undir ráðuneytið. Sendiráð Íslands í Kampala, höfuðborg Úganda, opnaði formlega árið 2004. Til að byrja með var megináhersla lögð á fiskimál en fljótlega var hugað að fleiri sviðum, einkum menntun, vatni og hreinlætismálum. 

Árið 2001 hófst samstarf við Kalangala-hérað sem samanstendur af 84 eyjum í Viktoríuvatni. Samstarfið við Kalangala leiddi af sér fyrstu skref í héraðsnálguninni sem Ísland hefur síðan lagt ríka áherslu á í þróunarsamstarfi sínu. Samstarfi við Kalangala-hérað lauk í árslok 2019 og náðist þar góður árangur. Má þar nefna að hlutfall grunnskólanemenda sem stóðst próf hækkaði verulega á tímabilinu og var Kalangala árið 2019 meðal þeirra 20 hæstu af 122 héruðum í Úganda.

Í Úganda er nú starfað með héraðsyfirvöldum í tveimur héruðum, Namayingo og Buikwe. Í báðum héruðunum eru stundaðar fiskveiðar og beinist stuðningur Íslands einkum að þorpum þar sem fiskveiðar eru mikilvægur atvinnuvegur. Samstarfið snýr aðallega að tveimur málaflokkum, annars vegar menntun og hins vegar vatns- og hreinlætismálum. Þá verður í auknum mæli unnið að því að styðja héruðin í aðgerðum sínum sem snúa að loftslagsbreytingum og valdeflingu kvenna og ungmenna. Lykilþáttur í nálgun Íslands er að bæta stjórnsýslu og byggja upp getu héraðsstjórnvalda til að veita íbúum grunnþjónustu og framkvæma áætlanir sínar um byggðaþróun.

Megináhersla í tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands er að stuðla að bættum lífskjörum í samstarfslöndunum með því að styðja við áætlanir og viðleitni stjórnvalda í samstarfslöndunum um að draga úr fátækt og bæta félagsleg og efnahagsleg lífsskilyrði á þeim svæðum sem Ísland styður. Þróunarsamvinna Íslands í Úganda er í takt við áherslur Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu og byggir á stefnu Íslands um alþjóðlega þróunarsamvinnu, stefnumiðum Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu og landsáætlun Íslands í Úganda

Verkefnastoðir í héraðsnálgun í Buikwe og Namayingo

Buikwe-hérað er um 50 km austan við höfuðborgina Kampala. Buikwe er frjósamt og landbúnaður er þar helsta atvinnugreinin. Þar eru einnig tvö stærstu raforkuver landsins á ánni Níl og talsverður iðnaður hefur byggst upp í nágrenni við þau. Fiskveiðar og fiskverkun eru einnig mikilvægar atvinnugreinar, enda liggur héraðið að Viktoríuvatni að sunnanverðu. Íbúafjöldi héraðsins er um 440 þúsund og þar af búa um 170 þúsund manns í fiskveiðiþorpum við strendur vatnsins.

Árið 2014 hófst samstarf við héraðsyfirvöld í Buikwe sem felst í margvíslegri uppbyggingu innviða til að stuðla að bættum lífskjörum í fiskveiðisamfélögunum í héraðinu (Buikwe District Fishing Community Development Programme eða BDFCDP). Ísland hefur stutt verkefni í menntamálum og vatns- og hreinlætismálum og hafa rúmlega 60 þúsund manns í 39 þorpum notið góðs af. Í nýjum fasa verkefnisins sem hófst 2022 er gert ráð fyrir að ná til allt að 50 þúsund manns í 40 þorpum til viðbótar.

Í Namayingo-héraði, sem er fátækt hérað í suðausturhluta Úganda, búa um 215 þúsund manns og um 70% þeirra eiga heima í fiskveiðiþorpum við Viktoríuvatn. Grunnþjónusta er af skornum skammti í þessum þorpum og styður Ísland héraðið með verkefnum á sviði menntunar og vatns- og hreinlætismála, ásamt stofnanauppbyggingu í héraðinu. Verkefnin eru framkvæmd undir forystu héraðsstjórnvalda í Namayingo með stuðningi og eftirliti af hálfu Íslands.

Yfirmarkmið samstarfsins í Namayingo er að draga úr fátækt og bæta lífsskilyrði 150 þúsund íbúa sem búsettir eru í 208 þorpum í strandbyggðum héraðsins. Sérstök áhersla er lögð á uppbyggingu skólastarfs í grunnskólum, bæði með skólabyggingum og umbótastarfi í kennslu. Annað áherslumál er að auka aðgengi íbúa að hreinu vatni og bæta salernisaðstöðu og hreinlæti, til að draga úr vatnsbornum sjúkdómum.

Helstu samstarfs- og framkvæmdaaðilar verkefnanna eru héraðsstjórnir í hvoru héraði fyrir sig. Þau eru skipulögð í samræmi við þróunaráætlun Úganda (NDP), þróunarsamvinnustefnu Íslands og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna (SDGs). Öll verkefni eru framkvæmd innan ramma tvíhliða samkomulags ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Úganda á sviði þróunarsamvinnu.

Helstu áherslur í þróunarsamvinnu Íslands í Úganda eru:

  • uppbygging í menntamálum með áherslu á grunnskóla;
  • bætt aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu; bætt þekking á hreinlætismálum;
  • stuðningur við héraðsskrifstofur með áherslu á deildir fjármála, framkvæmda, útboðs- og innkaupsmála og árangurs og eftirlits;
  • mannréttindi, jafnrétti og umhverfismál eru samþætt í verkefnin og sérstök markmið sett um þau málefni. Aukinn kraftur verður settur í loftlagsmál á komandi árum;
  • samþætting mannúðarstarfs og þróunarsamvinnu með stuðningi við bæði flóttafólk og heimafólk í Norður-Úganda;
  • stuðningur hefur einnig verið veittur til að hefta útbreiðslu COVID-19.

Öll verkefni Íslands í Úganda stuðla að því að eftirfarandi heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun náist í Úganda.

1 Engin fátækt2. Ekkert hungur3. Heilsa og vellíðan4. Menntun fyrir alla5. Jafnrétti kynjanna
6. Hreint vatn og hreint8. Góð atvinna og hagvöxtur10. Aukinn jöfnuður13. Aðgerðir í loftslagsmálum17. Samvinna um markmiðin

Höfuðáherslan í starfinu með héraðsstjórnum í Úganda er að treysta innviði og betrumbæta opinbera þjónustu til almennings á fátækum og vanræktum svæðum. Samstarfið fer fram undir forystu heimamanna sem framkvæma eigin áætlanir. Í menntamálum beinist aðstoð Íslands einkum að því að bæta aðbúnað og námsaðstæður grunnskólabarna og framhaldsskólanemenda með innviðauppbyggingu og fjölbreyttum stuðningi í skólastarfinu, eins og þjálfun starfsfólks, aðgengi að námsgögnum og skólamáltíðum.

Réttur allra til aðgengis að hreinu vatni er sérstakt þróunarmarkmið í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og skilgreint á vettvangi þeirra sem mannréttindi.

Aukið aðgengi og sjálfbær notkun öruggra vatnsbóla og bættar hreinlætisaðferðir eru í þágu lýðheilsu, draga úr tíðni lífshættulegra sjúkdóma, stuðla að verndun umhverfis og styðja við jafnrétti, auk þess að stuðla að hvetjandi námsumhverfi í skólum. Allir þessir þættir eru lagðir til grundvallar í stuðningi Íslands á sviði vatnsmála (e. WASH project) í Úganda. Miðað er við að bæta þjónustu héraðsstjórnvalda á þann veg að allir hafi aðgang að heilnæmu vatni og hreinlætisaðstöðu á þeim svæðum sem Ísland beinir aðstoð sinni til.

Árangur í vatnsverkefni í Buikwe

Fyrir tilstilli vatns- og hreinlætisverkefnisins í Buikwe hefur tekist að koma neysluvatni nær heimilum fólks og uppfæra vatnskerfin svo þau mæti kröfum samtímans. Um 62 þúsund manns hafa nú aðgang að öruggu vatni. Niðurstöður úr óháðri úttekt á verkefninu í ársbyrjun 2022 gefa til kynna að aðgengi að neysluvatni sé nú rúm 89% í þorpum á verkefnasvæðinu en var 58% árið 2015. Aðgengi að bættri hreinlætisaðstöðu hefur sömuleiðis batnað verulega en áður en verkefnið hófst var ástandið þannig að ekki voru kamrar til staðar, hvorki í þorpunum né skólunum, sem nú hefur gjörbreyst. 92% þorpa hafa náð þeim áfanga að saurmengun hefur verið útrýmt en áður var hún afar útbreidd. Þetta hefur skilað sér í bættri lýðheilsu en dregið hefur mjög úr tíðni niðurgangspesta á meðal barna á aldrinum 0-4 ára, eða úr 29% árið 2015 í 17% árið 2021. Einnig hefur verið unnið að því að styrkja stjórnun, rekstur og viðhald vatnsveitnanna, sem eru undir stjórn vatnsmálayfirvalda Buikwe-héraðs. Þá voru 377 heimili tengd við vatnskerfið og hafa þar með rúmlega 1500 manns fengið vatn beint heim í krana.

Umfjöllun um samstarfsverkefni Íslands í Buikwe á heimasíðu Grundfos.

Þar sem verkefnastoðir eru framkvæmdar af héraðsstjórnum er lögð áhersla á bætta stjórnsýslu í samstarfshéruðum. Stutt er við kaup á búnaði og tækjum, þjálfun í almennri færni í áætlanagerð og fjárhagsgerð, samþættingu mannréttinda, jafnréttis- og umhverfismála, árangursstjórnun og eftirlit með árangri. Þá er áhersla lögð á að byggja upp færni og efla frammistöðu þeirra sem veita þjónustu á sviði menntunar, heilbrigðis og vatns og að auka vitund og þekkingu meðal íbúa fyrir bætta þjónustu. Jafnframt er unnið að því að styrkja stofnanatengsl milli sveitarstjórnarstigsins og þeirra fagráðuneyta sem koma að hönnun innviða, afgreiðslu og samþykkt áætlana og samninga auk eftirlits með einstökum verkefnum og verkþáttum.
Búnaður til að bregðast við COVID-19 faraldrinum var afhentur samstarfshéruðum Íslands í Úganda, Buikwe og Namayingo árið 2021. Beiðnir bárust frá báðum héruðum um aðstoð, samtals að upphæð rúmlega 40 milljóna íslenskra króna. Buikwe hérað var eitt þeirra verst settu í landinu með tilliti til COVID-19 og í Namayingo var getan til að sporna gegn COVID-19 veik og mikil þörf fyrir aðstoð til að styrkja getu heilbrigðisstofnana þar til að takast á við faraldurinn og styrkja viðbragðsgetu héraðsins. Búnaðurinn sem var afhentur samanstendur af hlífðarbúnaði, prófunarsettum, sótthreinsiefnum, súrefnishylkjum, rúmum, dýnum, hjólastólum, tjöldum og fleiru.

Samstarf við Alþjóðastofnanir

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (United Nations Children's Fund - UNICEF)

Flóttamannafjöldi er mikill í norðurhluta Úganda. Þar dvelja nú um 1,4 milljónir flóttamanna og er þar stærstu flóttamannabyggðir í Afríku að finna. Þær gegna mikilvægu hlutverki við að stuðla að friði í þessum brothætta heimshluta en setja jafnframt gríðarlegt álag á innviði. Flóttamenn eiga greiðan aðgang inn í Úganda vegna stefnu stjórnvalda þar um opin landamæri og að tekið sé vel á móti þeim. Ísland hefur síðan 2019 stutt UNICEF í Úganda við uppbyggingu á sviði vatns- og salernismála í skólum, heilbrigðisstofnunum og þorpum í tveimur héruðum þar sem flóttamenn eru, Arua og Adjumani. Samvinnan við UNICEF miðar að því að samþætta mannúðarstarf og þróunarsamvinnu með stuðningi við bæði flóttafólk og heimafólk. Verkefnið er til þriggja ára og er gert er ráð fyrir að ríflega 43 þúsund manns njóti góðs af því. Vatnsveitur og hreinlætisaðstoð við skólana mun gagnast ríflega 13 þúsund nemendum og bætt aðstaða á heilsugæslustöðvum mun nýtast um 30 þúsund manns.

Í janúar 2022 voru grunn- og framhaldsskólar í Úganda opnaðir á ný eftir að stjórnvöld ákváðu að loka þeim í mars 2020 vegna kórónuveirufaraldursins. Íslandi barst í ársbyrjun beiðni frá UNICEF um framlag til hreinlætisverkefnis í tengslum við enduropnun skólanna til að sporna gegn útbreiðslu COVID-19. Heildarfjöldi skólanna er 13.686 og miðað var við að þeir gætu allir opnað á sem öruggastan hátt. Aðstoð við skólana er forgangsraðað samkvæmt áhættumati í héruðunum. Náin samvinna er höfð við menntamálaráðuneytið og héraðsyfirvöld við dreifingu hreinlætisvaranna og einnig fá skólarnir fræðsluefni um hreinlæti og hreinlætisvenjur.

Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (United Nations Development Programme - UNDP)

Ísland studdi kosningaeftirlit Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) vegna forseta- og þingkosninga í landinu í janúar 2021. Markmiðið var að tryggja að kosningarnar færu friðsamlega fram og að gera kjósendum kleift að nýta atkvæðisrétt sinn án hindrana. Starfið beindist að því að efla gagnsæi og tryggja þátttökumöguleika almennings, styrkja starf landskjörstjórnarinnar og stuðla að friðsælum kosningum og þar með að stuðla að og styrkja lýðræði í Úganda.

Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna (United Nations Population Fund - UNFPA)

Ísland styður við Mannfjöldastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) með því að kosta tímabundinn útsendan sérfræðing við störf hjá henni í Kampala. Til skoðunar er að auka samstarfið við stofnunina.

Skólar GRÓ Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu og Úganda 

Skólar GRÓ – Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu hafa tekið inn nemendur frá Úganda og hafa allir fjórir skólar, Jafnréttisskólinn, Jarðhitaskólinn, Landgræðsluskólinn og Sjávarútvegsskólinn, útskrifað nemendur frá Úganda. Skólar GRÓ miða að því að efla getu og sérþekkingu einstaklinga, samtaka og  stofnana í þróunarlöndum með áherslu á fjögur svið: jafnrétti, jarðhita, landgræðslu og sjávarútveg. Nánar má lesa um GRÓ á vef miðstöðvarinnar.


Kalangala – árangurssaga

Tímamót voru í starfseminni í Úganda í lok árs 2019 þegar samvinnu við Kalangalaeyjahéraðið í Viktoríuvatni lauk. Á eyjunum búa 70 þúsund manns á 43 eyjum. Ísland hefur ávallt sinnt þróunarstarfi í fiskimannasamfélögum. Í Kalangala var unnið að fjölbreyttum verkefnum allt frá upphafi tvíhliða þróunarsamvinnu í Úganda, þegar héraðsstjórnvöld þar voru afar vanmáttug. Á fyrstu árum samstarfsins var áhersla lögð á fiskimál en á síðari stigum var áhersla lögð á heildrænan stuðning í menntamálum sem náði til allra menntastofnana á eyjunum, þ.e. 26 grunnskóla, þriggja gagnfræðaskóla og tveggja verkmenntaskóla á gagnfræðastigi.

Stuðningurinn fólst meðal annars í bættum aðbúnaði og byggingu skólastofa, menntun kennara, námsbókum fyrir alla nemendur, svefnálmum fyrir börn frá einangruðum eyjum, kennaraíbúðum, kömrum við alla skóla og skólamáltíðum fyrir alla eldaðar með orkusparandi hlóðum.

Lögð var áhersla á aðkomu foreldra að skólastarfi og skólamáltíðum. Auk þess var stutt við íþróttir, tónlist og leiklist. Ísland er eina framlagsríkið sem hefur sinnt menntamálum á eyjunum.

Árið 2018 var framkvæmd óháð úttekt á samstarfinu í Kalangala.

Úganda er hálent og landlukt land við miðbaug í austurhluta Afríku. Landið er 240 þúsund ferkílómetrar að stærð og á landamæri að Suður-Súdan, Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó (DRC), Rúanda, Tansaníu og Kenía. Höfuðborg landsins heitir Kampala og áætlaður íbúafjöldi landsins er tæpar 50 milljónir. Suðurhluti landsins nær yfir stóran hluta Viktoríuvatns, næst stærsta stöðuvatns heims, og þar er að finna ein helstu upptök Nílarfljóts. Náttúra landsins er afar fjölbreytt, loftslag milt og er Úganda meðal frjósömustu landa Afríku. Úganda er engu að síður í hópi fátækustu ríkja í heims, í 166. sæti af 191 ríki á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna. Þjóðin er mjög ung og árleg fólksfjölgun er 3,3%. Um 46% íbúa Úganda eru yngri en 15 ára og 77% eru yngri en 30 ára. Mikill meirihluti landsmanna lifir af landbúnaði. Kaffi, te, bómull, tóbak og sykur eru meðal þeirra afurða sem ræktuð eru til útflutnings, en bananar, maís, kassavarót, hrísgrjón, kartöflur, baunir og jarðhnetur eru meðal helstu matvælategunda sem ræktaðar eru til neyslu innanlands.

 

Tvíhliða þróunarsamvinna

Síðast uppfært: 28.11.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta