Bráðabirgðafríverslunarsamningur
Bráðabirgðafríverslunarsamningur Íslands og Noregs við Bretland tók gildi þann 1. janúar 2021. Meginmarkmið samningsins er að viðhalda sömu tollakjörum í vöruviðskiptum milli ríkjanna og giltu á grundvelli EES-samningsins og annarra tengdra viðskiptasamninga. Samningnum er ætlað að brúa bilið þangað til nýr víðtækur fríverslunarsamningur tekur gildi á milli ríkjanna. Nýr fríverslunarsamningur tók gildi 1. febrúar 2023.
Í samningnum er viðhaldið tollaívilnunum samkvæmt samningum Íslands og ESB, þ.m.t. fyrir sjávarafurðir. Hafi Bretland áður nýtt tollfrjálsa innflutningskvóta samkvæmt samningum Íslands við ESB, er stærð kvóta milli Íslands og Bretlands ákveðin að teknu tilliti til meðalnýtingar á kvótum til og frá ESB á viðmiðunartímabilinu 2014-2016, byggt á stærð ESB-kvóta á árinu 2019.
Á þeim grundvelli veitir Ísland Bretlandi eftirfarandi tollfrjálsa innflutningskvóta:
- 19 tonn af hvers konar osti
- 11 tonn af ostum sem verndað afurðaheiti sem vísar til uppruna
- 18,3 tonn af unnum kjötvörum
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið auglýsir kvótana til umsóknar.
Að sama skapi fær Ísland eftirfarandi tollfrjálsa innflutningskvóta til Bretlands:
- 692 tonn af lambakjöti, með eða án beins (samsvarar yfir 1.000 tonnum af heilum skrokkum)
- 329 tonn af skyri
- 145 tonna kvóta (alls) fyrir lax, flatfisk og fl. tegundir, fersk karfaflök, síld og humar.
Bretland beitir kvótunum á grundvelli reglunnar um „fyrstur kemur fyrstur fær.“
Samningurinn fjallar að litlu leyti um tæknilegar viðskiptareglur, en markmið breskra stjórnvalda er að fyrst um sinn munu innflutningsreglur haldast að mestu óbreyttar við innflutning íslenskra vara til Bretlands, þ.m.t. vegna innflutnings sjávarafurða. Innflutningseftirlit með sjávarafurðum og öðrum dýraafurðum verður innleitt þann 1. júlí 2022. Þó er gerð krafa um fortilkynningar sendinga sem innihalda dýraafurðir frá 1. janúar 2022. Útflytjendur íslenskra vara eru hvattir til að hafa varan á við innflutning á sjávarafurðum og dýraafurðum inn til Bretlands og passa upp á að skilyrðum hverju sinni sé fylgt (sjá nánar upplýsingar á heimasíðu MAST)
Í samningnum er tryggt að afurðaheiti sem vísa til uppruna og njóta verndar á grundvelli samnings Íslands og ESB muni halda áfram að njóta verndar a.m.k. þar til nýr fríverslunarsamningur liggur fyrir.
Samningurinn er liður í að tryggja kjarnahagsmuni Íslands vegna útgöngu Bretlands úr ESB og EES. Hann tryggir áframhaldandi útflutning 55.000 tonna af sjávarafurðum til Bretlands á a.m.k. sömu tollkjörum og giltu fyrir lok aðlögunartímabilsins, um 35-40 milljarða kr. útflutningsverðmæti á ári hverju. Samningurinn tryggir enn fremur óbreytt tollkjör vegna innflutnings frá Bretlandi.
Markmið Bretlands, Íslands og Noregs er að samningurinn gildi þar til nýr og viðameiri fríverslunarsamningur tekur gildi á milli ríkjanna. Þeim samningaviðræðum er lokið og vonir standa til að nýr samningur taki gildi í byrjun árs 2022.
Frekari upplýsingar:
- Texti bráðabirgðafríverslunarsamningsins
- Upplýsingar breska utanríkisviðskiptaráðuneytið um samninginn.
- Upplýsingar um heilbrigðiskröfur í inn- og útflutningi til og frá Bretlandi á heimasíðu MAST
- Upplýsingar um tollamál og Brexit hjá Skattinum.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.