Hoppa yfir valmynd

Ávarp utanríkisráðherra

Ísland tekur við formennsku í Evrópuráðinu á miklum umbrotatímum í álfunni. Þau grundvallargildi sem Evrópuráðið hvílir á – mannréttindi, lýðræði og réttarríkið – eiga undir högg að sækja. Innrás Rússlands í Úkraínu er skýrasta birtingarmynd þess.

Evrópuráðið er elsta alþjóðastofnun Evrópu, stofnað árið 1949 í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar í þeim tilgangi að stuðla að stöðugleika í álfunni. Ráðið er í dag vettvangur um 700 milljón íbúa sem búa í 46 aðildarríkjum og eiga sér um margt ólíka menningarsögu. Þessar þjóðir hafa þó sameinast um að byggja á lýðræðislegum stjórnarháttum og skuldbundið sig til að virða mannréttindi og réttarríkið. 

Þessi gildi og réttindi hafa reynst þeim samfélögum mikil blessun sem þeirra hafa fengið að njóta en þróunin í álfunni sýnir að nauðsynlegt er að hlúa enn betur að þeim. Því mun Ísland nýta formennskutíð sína til þess að treysta enn frekar undirstöður Evrópuráðsins og stuðla að einhug um grundvallargildi þess. 

Í byrjun nóvember tilkynntu ríkisstjórnir Írlands og Íslands á fundi í Strassborg að það kæmi í hlut Íslands að efna til leiðtogafundar Evrópuráðsins í Reykjavík í maí 2023. Í tæplega 75 ára sögu ráðsins hefur aðeins þrívegis verið haldinn leiðtogafundur. Innrásin í Úkraínu verður þar í brennidepli og mikilvægi þess að styrkja stoðir lýðræðis á ný í Evrópu.

Komandi vetur verður að mörgu leyti erfiður víða í Evrópu og er tímasetning leiðtogafundar í Reykjavík að vori því tækifæri fyrir leiðtoga álfunnar að koma saman til þess að árétta mikilvægi réttarríkisins, ítreka þær skuldbindingar sem formfestar eru í mannréttindasáttmála Evrópu og heita því að leggja enn meira kapp á stuðning við lýðræði. Fundurinn verður umfangsmesti alþjóðlegi fundur sem fram hefur farið á Íslandi.

Áherslur íslensku ríkisstjórnarinnar á jafnrétti kynjanna, málefni barna og umhverfismál, endurspeglast í formennskuáætlun Íslands. Stærsta verkefnið verður hins vegar að slá skjaldborg um grunngildi Evrópuráðsins sem standa frammi fyrir miklum áskorunum í samtímanum, ekki síst vegna stríðsrekstrar í álfunni. Þar mun Ísland axla ábyrgð og taka forystuhlutverk sitt alvarlega á krefjandi tímum.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir,
utanríkisráðherra

No image selected
Síðast uppfært: 6.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta