Hoppa yfir valmynd
04. mars 2020 Brussel-vaktin

Hvítbók um gervigreind o.fl.

Stefnumótun hjá Evrópusambandinu og starf fastanefndarinnar í Brussel við að gæta hagsmuna Íslands.

Verkáætlun framkvæmdastjórnarinnar

Framkvæmdastjórn ESB samþykkti 29. janúar 2020 verkáætlun fyrir þetta ár. Þar er að finna áætlun um hvernig hrundið verði í framkvæmd áformum sem birtust í leiðarvísi forseta framkvæmdastjórnarinnar, Ursulu von der Leyen, um stefnumörkun til framtíðar (e. political guidelines). Leiðarvísirinn ber yfirskriftina „Samband sem setur markið hærra“, en þar er kastljósi ekki síst beint að umhverfismálum og stafrænni umbyltingu.

Stefnumarkandi skjöl um stafræn málefni

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) kynnti 19. febrúar 2020 þrjú stefnumarkandi skjöl um stafræn málefni.

Í orðsendingu um stafræna framtíð ESB (e. Shaping Europe´s digital future) kemur fram að stafræn tækni sé að gerbreyta heimi okkar daga; starfsháttum, viðskiptum, för fólks um hnöttinn og samskiptum þess. Tækni af þessu tagi sé vaxandi uppspretta gagna og upplýsinga sem nýta megi sameiginlega til verðmætasköpunar án fordæma.  Breytingin sem nú sé í uppsiglingu, sé ekki minni í sniðum en iðnbyltingin.  Nýta beri til fullnustu þau tækifæri sem umbreytingin hefur í för með sér, ekki einungis í þágu atvinnulífsins, heldur einnig fólks í daglegu lífi, og renna þar með stoðum undir  „fullveldi Evrópu í tæknimálum“ (e. European technological sovereignty).

Í orðsendingunni kemur fram að framkvæmdastjórnin muni á næstu fimm árum einbeita sér að því að ná þremur markmiðum á þessu sviði sem geri Evrópuríkjum kleift að varða leiðina að stafrænni umbyltingu sem þjóni hagsmunum almennings með því að virða sameiginleg evrópsk gildi:

Tækni sem virkar fyrir almenning. Vísað er til þess að þróa beri og bjóða upp á tækni sem skiptir raunverulega máli fyrir daglegt líf almennings. Þarna standi fyrir dyrum að auka samlegðaráhrif fjárfestinga í rannsóknum og nýsköpun. Stafræn umbreyting opinberrar stjórnsýslu sé einnig mikilvægt atriði. Í álfunni verði að fjárfesta meira í grunnstoðum eins og 5G (og í framtíðinni 6G) fjarskiptakerfum og hátækni (e. deep tech) á borð við ofurtölvun og skýjalausnir. Þá verði að efla netöryggi til þess að almenningur geti treyst nýrri tækni. Þá þurfi að efla menntun og starfsþjálfun á þessu sviði bæði vegna þess að fyrirtækin þurfa hæft starfsfólk en líka til að allir eigi þess kost að taka virkan þátt í samfélaginu. Tryggja þurfi sanngirni umbreytinga þannig að konur fari ekki halloka.

Efnahagslíf þar sem sanngirni og samkeppni eru við lýði. Vísað er til sameiginlegs snurðulauss innri markaðar þar sem fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum geti keppt á jafnræðisgrundvelli og þróað stafræna tækni sem gerir þau samkeppnishæf á heimsvísu og þar sem neytendur geta treyst því að réttindi þeirra séu virt.  Draga verði úr því að Evrópuríki séu háð tæknilausnum sem þróaðar hafa verið annars staðar. Upplýsingar og gögn séu grunnurinn að því að þróa nýjar vörur og þjónustu. Þess vegna verði að gera átak í því að gögn séu aðgengileg öllum og að til verði evrópskt gagnasvæði (e. European data space) sem lúti evrópskum reglum og gildum. Fara þurfi yfir samkeppnisreglur og ríkisstyrkjareglur og meta hvort stafræna umbreytingin kalli þar á breytingar. Þá þurfi að bregðast við þeirri stöðu að örfá fyrirtæki sópi til sín bróðurhluta hagnaðar vegna verðmætasköpunar í upplýsingahagkerfinu. Skattlagning sé þar eitt tæki sem komi til athugunar.

Opið, lýðræðislegt og sjálfbært samfélag. Vísað er til þess að skapað verði umhverfi þar sem borgararnir hafa vald yfir athöfnum sínum og samskiptum og þeim upplýsingum sem þeir láta af hendi bæði á netinu og utan þess. Mörkuð verði evrópsk leið að stafrænni umbyltingu sem styrki sameiginleg lýðræðisleg gildi, virðingu fyrir grundvallarréttindum og stuðli að sjálfbæru, loftslagshlutlausu hagkerfi þar sem auðlindir og aðföng eru nýtt á skilvirkan hátt. Evrópuríki hafi vísað veginn með persónuverndarreglugerðinni og reglum um samstarf rafræns viðskiptavettvangs og fyrirtækja (e. platform-to-business cooperation). Haldið verði áfram á sömu braut til að tryggja að sömu reglur gildi um ólöglega háttsemi á netinu og utan þess. Í þessu sambandi beri að stefna að því að rafrænt persónulegt auðkenni (eID) hvers og eins verði viðurkennt á heimsvísu. Þá þurfi að standa vörð um lýðræðið og finna svör við tilraunum til að afvegaleiða kjósendur með fölskum áróðri. Loftslagsmálin fléttast inn í stafrænu umbreytinguna. Stafrænar lausnir geta leitt til skynsamlegri orkunotkunar og tæknigeirinn sjálfur þarf að verða umhverfisvænn en hann nýtir nú 5-9% af allri raforku í heiminum. Gagnaver og fjarskiptakerfi þurfa að gæta betur að orkunýtni og reiða sig meira á endurnýjanlega orkugjafa.

Í Hvítbók um gervigreind (e. White Paper on Artificial Intelligence – A European approach to excellence and trust) kemur fram að þróun á þessu sviði sé ör. Gervigreind muni hafa mikil áhrif á líf fólks með því að bæta heilbrigðisþjónustu, auka framleiðni í landbúnaði, stuðla að aðlögun að og temprun á loftslagsbreytingum og auknu öryggi Evrópubúa svo fátt eitt sé nefnt. Gervigreind fylgi einnig margvísleg áhætta eins og ógagnsæ ákvarðanataka, mismunun á grundvelli kyns eða af öðrum ástæðum, brot á friðhelgi einkalífs auk annarrar notkunar í glæpsamlegum tilgangi. Til þess að mæta áskorunum verði Evrópusambandið að marka sína leið fram á við sem byggist á evrópskum gildum.

Í hvítbókinni eru sett fram tvö megin stefnumið fyrir Evrópusambandið. Annars vegar að búa þróun gervigreindar framúrskarandi vaxtarumhverfi (e. ecosystem of excellence) og hins vegar að regluverk um gervigreind skapi alhliða traust (e. ecosystem of trust).

Framúrskarandi vaxtarumhverfi. Gert er ráð fyrir að framkvæmdastjórnin endurskoði á þessu ári gildandi aðgerðaáætlun um þróun gervigreindar. Stefnt er að fjárfestingum á þessu sviði innan ESB sem nemi að minnsta kosti 20 milljörðum evra á ári. Meðal annars er talað um að það verði innbyggt í gervigreindartækni að velja umhverfisvæna kosti. Núverandi rannsóknarmiðstöðvar á sviði gervigreindar í Evrópu séu of smáar til að geta keppt á heimsvísu. Við þessu þurfi að bregðast með markvissum hætti. Lögð er áhersla á að opinber stjórnsýsla og þjónusta nýti gervigreind og bent er á að nú þegar sé tækni fyrir hendi sem unnt væri að taka upp í stórum stíl í heilbrigðisþjónustu og samgöngumálum.

Regluverk sem skapar alhliða traust. Rifjað er upp að á síðasta ári vann sérfræðingahópur á vegum framkvæmdastjórnarinnar leiðbeiningar um traustvekjandi gervigreind (e. Guidelines on trustworthy AI). Þar komu fram þau megin skilyrði sem þróun og beiting gervigreindar ætti að lúta: Mannleg aðkoma og eftirlit, tæknileg gæði og öryggi, vernd friðhelgi einkalífs, gagnsæi, fjölbreytni og sanngirni og bann við mismunun, félagsleg og umhverfisleg velsæld og loks ábyrgð. Framkvæmdastjórnin er að endurmeta þessar meginkröfur í ljósi viðbragða. Flest bendi til að mörg þessara skilyrða sé nú þegar að finna í lögum og reglum en það sé helst gagnsæið og mannlegt eftirlit sem þarfnist nánari útfærslu.

Evrópsk gagnastefna (e. European strategy for data). 

Með gagnastefnunni er sett fram það leiðarljós að gera Evrópusambandið og innri markaðinn að upplýsingahagkerfi sem skarar fram úr á heimsvísu vegna nýsköpunar og öryggis gagna. Fram kemur að ekki sé gert ráð fyrir yfirgripsmikilli löggjöf um efnið heldur þurfi að fylgjast vel með þróun og grípa inn í þegar þörf krefur og fikra sig áfram með því að leyfa tilraunir á afmörkuðum sviðum. Þó megi gera ráð fyrir ESB-löggjöf um samevrópsk gagnasvæði sem til verði á afmörkuðum málefnasviðum. Þar verði tekið á því hvaða gögn megi nota undir hvaða kringumstæðum, flæði gagna yfir landamæri og stöðlun gagna. Tekið er dæmi af gagnasöfnum úr heilbrigðisþjónustu í Finnlandi og Frakklandi sem gerð hafa verið aðgengileg til rannsókna og nýsköpunar. 

Framkvæmdastjórnin áformar einnig að ýta úr vör aðgerðum til að mjög verðmæt opinber gagnasöfn verði gerð aðgengileg öllum. Þá verði metin þörf á löggöf um samskipti milli aðila í upplýsingahagkerfinu til að stuðla að því að fyrirtæki geti nýtt gögn hvers annars.

Samhliða nýrri löggjöf eftir atvikum muni Evrópusambandið stuðla að og fjármagna samevrópsk gagnasvæði á mikilvægum sviðum. Því tengjast áform um að tengja betur saman evrópskar skýjalausnir sem eru í boði eða eru í þróun sem byggist á öruggri gagnameðhöndlun í samræmi við evrópskrar reglur og þar sem orkunýtni er til fyrirmyndar.

Komið hefur fram að skjölin sem kynnt voru 19. febrúar sl. marki einungis fyrstu skref í þá átt að umbreyta lífi Evrópubúa með almannahagsmuni að leiðarljósi.  Hvítbókin um gervigreind verður aðgengileg í samráðsgátt sambandsins til 19. maí nk., auk þess sem framkvæmdastjórnin mun samhliða falast eftir viðbrögðum og athugasemdum við gagnastefnunni.  Áform framkvæmdastjórnarinnar um stafræna framtíð ESB gera einnig ráð fyrir að tekið verði frumkvæði á sviði ofurtölvunar (e. quantum computing), nýrrar kynslóðar fjarskiptatækni (5G og 6G), stafræns öryggis, menntunar og færniþjálfunar (e. skills agenda), svo eitthvað sé nefnt.

Fjárlagaviðræður báru ekki árangur

Leiðtogum ESB mistókst að ná saman um ramma að fjárlögum tímabilsins 2021 – 2027 á fundi sínum í Brussel 20. – 21. febrúar sl. og er nú búist við að þeir komi aftur saman á næstu vikum.

Ríkin fjögur, Austurríki, Danmörk, Holland og Svíþjóð, sem hafna því að fjárlagaþakið verði hækkað umfram það sem nemur 1% þjóðartekna aðildarríkja, munu hafa staðið fast á sínu. Munu þau einnig hafa notið stuðnings Þýskalands í því efni. Það auðveldar ekki eftirleikinn að Evrópuþingið þykir nú líklegt til að hafna hverri þeirri fjárlagatillögu sem ekki tekur á stöðu réttarríkisins í Póllandi og Ungverjalandi (svokölluðu 7. gr.-ferli), en forseti leiðtogaráðsins, Charles Michel,  hefur verið gagnrýndur fyrir að slaka of mikið til gagnvart ríkjunum tveimur í því skyni að fá þau til að fallast á samdrátt í greiðslum til samstöðusjóða sambandsins.

Út af fyrir sig kemur ekki á óvart að samningaviðræður aðildarríkja ESB um fjárlagarammann til lengri tíma séu bæði tímafrekar og þungar í vöfum. Að þessu sinni setur þó útganga Breta úr sambandinu stórt strik í reikninginn  (upp á u.þ.b. 75 milljarða evra yfir tímabilið), auk þess sem framkvæmdastjórnin hefur sett fram metnaðarfullar áætlanir, ekki síst á sviði loftslagsmála og stafrænnar tækni, sem kosta mun fúlgur fjár að framkvæma.

Skipulag hagsmunagæslu

Hagsmunagæsla af hálfu fastanefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu byggist meðal annars á forgangslista sem ríkisstjórnin samþykkir reglulega að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis. Flest ráðuneyti eiga nú fulltrúa í fastanefndinni og skipta þeir með sér verkum í samræmi við málefnaskiptingu ráðuneyta og tryggja jafnframt samráð við ráðuneytin heima fyrir. Sendiherrann og annað starfslið úr utanríkisráðuneytinu koma einnig að málum eftir þörfum. Tvö helstu stefnumál Evrópusambandsins í tíð nýrrar framkvæmdastjórnar kalla sérstaklega á þverfaglega nálgun og því hafa verið mynduð sérstök teymi um að vakta Græna sáttmálann og Stafrænu starfsskrána (yfirheiti yfir ýmsar fyrirhugaðar aðgerðir vegna stafrænnar umbyltingar og þróunar upplýsingasamfélagsins).

Hagsmunagæslan varðar fyrst og fremst málefni sem eru á undirbúningsstigi innan ESB en hún getur einnig náð til mála sem búið er að afgreiða innan ESB og bíða þá upptöku í EES-samninginn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta