Hoppa yfir valmynd
18. maí 2020 Brussel-vaktin

Farsóttin í rénun – hvað tekur við?

Stefnumótun hjá Evrópusambandinu og starf fastanefndarinnar í Brussel við að gæta hagsmuna Íslands.

Ákvarðanir um stórtækar efnahagsaðgerðir enn í mótun

Leiðtogar ESB héldu fjórða fjarfund sinn um COVID-19 farsóttina 23. apríl síðastliðinn. Ákveðið var stefna að því að stofna endurreisnarsjóð sem yrði nægilega digur og gæti nýst þeim svæðum og greinum innan Evrópusambandsins sem hefðu orðið harðast úti. Framkvæmdastjórn ESB var falið að greina nánar þarfirnar og koma með tillögu sem væri í samræmi við þá áskorun sem blasir við. Þar skyldi jafnframt gerð grein fyrir tengslum við regluleg fjárlög ESB sem einnig yrði að laga að ríkjandi ástandi og eftirköstum þess. Áformin skýrðust nánar þegar fjármálaráðherrar evru-ríkjanna funduðu 8. maí sl. Fram kom að unnið væri að þrenns konar öryggisneti, fyrir launafólk, fyrirtæki og aðildarríki. Væntanlegt öryggisnet fyrir ríkin gengur undir nafninu Farsóttarkreppustuðningur (Pandemic Crisis Support). Öll aðildarríkin myndu geta notið góðs af og stuðningur gæti numið að jafnaði 2% af landsframleiðslu. Lánin yrði til 10 ára á hagstæðum kjörum og þau bæri að nýta til að fjármagna heilbrigðisþjónustu og farsóttarvarnir.

Lífi blásið í ferðaþjónustu og för milli landa

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf 13. maí sl. út ýmsar leiðbeiningar um hvernig eigi að endurvekja ferðalög milli landa og ferðaþjónustu. Í tilkynningu um áfangaskipta og samhæfða nálgun í þá átt að endurreisa ferðafrelsi og afnám landamæraeftirlits á innri landamærum eru sett fram ýmis meginsjónarmið í þessu efni: Fyrst eigi að slaka á ferðatakmörkunum milli svæða þar sem staða farsóttarinnar er svipuð, byggt á upplýsingum frá European Centre for Disease Prevention and Control (ECDC). Ríkin þurfi þar að gæta jafnræðis þannig að opnað sé samtímis á umferð frá öllum öðrum svæðum í sambærilegri stöðu. Jafnframt skuli horft til getu heilbrigðiskerfis til að taka á móti fólki (sjúkrahús, prófanir, eftirlit og smitrakning).  Í öðru lagi lagi sé það forsenda tilslakana að hægt sé að tryggja að farþegar geti haldið hæfilegri fjarlægð frá öðru fólki frá brottfararstað til áfangastaðar. Ef það er ekki unnt þá skuli gripið til annarra ráðstafana sem tryggi sambærilega vernd, sbr. til dæmis smitrakningarforrit (vísað er til leiðbeininga ECDC um það efni). Þá geti aðildarríkin ef svo ber undir notað prófanir á farþegum þegar þeir snúa heim til að fylgjast með hættu á endurvakningu veirunnar hvort sem slíkar prófanir eru kerfisbundnar, byggðar á áhættumati eða slembiúrtaki.

Réttur farþega til að fá endurgreitt þegar flug eða pakkaferð er felld niður er áréttaður í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar. Jafnframt er þar mælt með því að gripið sé til aðgerða til að inneignarnótur verði fýsilegri kostur og að þær njóti til dæmis réttarverndar við gjaldþrot.

Þá hafa verið gefnar út leiðbeiningar um samverkan smitrakningarforrita. Aðildarríkin eru hvött til að gæta að því að slík forrit, sett upp í síma notandans, virki þvert á landamæri. Slíkt muni stuðla að auknum ferðavilja og heilsufarslegu öryggi farþega. Með samverkan (interoperability) sé einkum vísað til þess að forritin vari ferðamann við ef þeir eru í nálægð við annan einstakling sem veitt hefur sínu forriti upplýsingar um að hann sé mögulega smitaður.

Vegvísir til að aflétta sóttvarnarráðstöfunum

Framkvæmdastjórn og ráðherraráð Evrópusambandsins gáfu 15. apríl sl. út sameiginlegan vegvísi í átt að afléttingu sóttvarnarráðstafana. Þar kemur fram fyrr eða síðar verði að slaka á ströngum sóttvarnarráðstöfunum sem nauðsynlegar voru í byrjun en það verði gerast með ábyrgum hætti. Fram kemur að óhjákvæmilega muni smit í einhverjum tilvikum skjóta aftur upp kollinum því veiran sé komin til að vera. Það séu einkum þrír mælikvarðar sem horfa eigi til við mat á því hvort tímabært væri að draga úr sóttvarnaraðgerðum: a) Faraldursfræðileg sjónarmið um að farsóttin sé í rénun byggð á fjölda nýsmita, sjúkrahúsvistunum og sjúklingum í gjörgæslu. b) Geta heilbrigðiskerfisins til að bregðast við ef farsóttin hjarnar við í kjölfar tilslakana. c) Hæfni stjórnvalda til að fylgjast með farsóttinni, þ.m.t. geta til að framkvæma skimanir í stórum stíl, smitrakning og aðstaða til að setja fólk í sóttkví og einangrun. Síðar kunni mótefnamælingar að bætast í verkfærakistuna.

Þá er lögð áhersla á að aðildarríkin gangi í takt enda sé við sameiginlegan vanda að etja sem láti engan ósnortinn. Halda skuli eftirfarandi meginreglur í heiðri: i) Aðgerðir eigi að byggjast á vísindum þar sem lýðheilsa sé þungamiðjan. ii) Samhæfa eigi aðgerðir ella geta áhrifin verið neikvæð fyrir öll aðildarríki og leitt til pólitísks núnings. Vissulega séu aðstæður mismunandi en að lágmarki ættu aðildarríkin að upplýsa hvert annað og framkvæmdastjórnina fyrir fram um tilslakanir. iii) Gagnkvæm virðing og samstaða enda sé mikill ávinningur fólginn í því ef aðildarríkin nýti sér styrkleika hvert annars. Þótt gagnrýnt hafi verið í byrjun að samstöðu skorti hafi undanfarnar vikur sýnt hve samvinna geti verið þýðingarmikil með því að sjúklingar hafi verið sendir milli landa í takt við afkastagetu sjúkrahúsa, flæði heilbrigðisstarfsfólks milli landa og miðlun hlífðarbúnaðar og öndunarvéla milli landa hafi komið til sögunnar. Þá hafi verið unnið saman að því að flytja ESB-borgara heim með flugi frá öðrum heimshlutum.

Loks eru sett fram nokkur tilmæli til aðildarríkja um næstu skref: Aðgerðir eigi að vera í áföngum og hæfilegur tími látinn líða milli áfanga á leið til afléttingar ráðstafana að fullu. Markvissar ráðstafanir leysi smám saman almennar af hólmi. Til dæmis eigi að vernda viðkvæma hópa sérstaklega og lengur en aðra. Þá eigi að bjóða upp á örugga valkosti í stað almennra bannákvæða. Þannig verði hægt að beina spjótum sérstaklega að áhættusamri háttsemi og heimila almenna hefðbundna atvinnustarfsemi smám saman. Til dæmis megi auka hreinlæti á fjölförnum og fjölmennum stöðum og sjá starfsfólki eða viðskiptavinum fyrir hlífðarbúnaði í stað þess að loka alveg fyrir þjónustu.

Aukinn sveigjanleiki lánastofnana

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti 28. apríl breytingar á reglum um fjármálastofnanir til að auðvelda þeim að styðja við bakið á heimilum og fyrirtækjum. Breytingarnar varða reglur um eiginfjárhlutfall, reikningsskil og varúð.

Fundur forsætisráðherra og forseta framkvæmdastjórnarinnar

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins áttu fjarfund 6. apríl þar sem þær ræddu fyrst og fremst um heimsfaraldur COVID-19 og efnahagsleg áhrif hans. Þær fóru yfir efnahagsaðgerðir Evrópusambandsins og árangur þeirra sóttvarnaráðstafana sem gripið hefur verið til. Forsætisráðherra fór yfir stöðu faraldursins á Íslandi, fjölda greininga og smita og helstu áskoranir.

Þá ræddu þær stöðu loftslagsmála, sameiginleg markmið um samdrátt gróðurhúsalofttegunda og mögulegt samstarf um tæknilausnir til að ná kolefnishlutleysi. Þær ræddu aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um fjórðu iðnbyltinguna og stöðu kynjajafnréttismála, sérstaklega kynbundið ofbeldi. Að lokum fór forsætisráðherra yfir EES-tengd málefni og mikilvægi náins áframhaldandi samstarfs innan EES-svæðisins.

Fundurinn var haldinn með fjarfundabúnaði og kom í stað fundar sem til stóð að halda þann sama dag í Brussel.

Eftirfylgni varðandi kolefnisföngun

Á fundi forsætisráðherra og forseta framkvæmdastjórnarinnar kom sérstaklega til tals samstarf um reglur um kolefnisföngun. Síðan hefur það gerst að settur hefur verið á laggirnar starfshópur til að vinna að innleiðingu efnisreglna tilskipunar 2009/31/EB sem fjallar um kolefnisföngun og geymslu. Sú aðferð við kolefnisföngun og geymslu sem mælt er fyrir um í tilskipuninni fellur illa að íslenskum aðstæðum. Ísland hefur verið með aðra aðferð sem var þróuð á Íslandi. Íslensk stjórnvöld hafa verið í samtali við framkvæmdastjórn ESB um hvernig væri hægt að aðlaga regluverkið að íslenskum aðstæðum. Væntanlega mun verða tekið upp samtal við ESB varðandi mögulegar breytingar á regluverki ESB til að það geti átt við um fleiri aðstæður en nú er og þá verður kannað hvort að sameiginlegur starfshópur gæti nýst í þeim tilgangi.

Þátttaka Íslands í óformlegum ráðherrafundum ESB

Eftir að COVID-19 faraldurinn braust út hefur íslenskum stjórnvöldum í auknum mæli, miðað við það sem áður var, verið boðin þátttaka í óformlegum ráðherrafundum ESB. Einkum á það við um heilbrigðisráðherra, samgönguráðherra, og menntamálaráðherra. Eins og venjan er, á grundvelli Schengen samstarfsins, hefur dómsmálaráðherra tekið þátt á formlegum sem óformlegum fundum.

Ráðherrar eða embættismenn á Íslandi eða hjá fastanefndinni hafa sótt þessa fundi, sem hafa undantekningarlaust verið haldnir með fjarfundabúnaði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta