Jólin í brennidepli
Sendiráðið í Brussel fylgist náið með því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins. Í vikunni bar þetta hæst:
Jólahald með breyttu sniði
Evrópska sóttvarnastofnunin varar eindregið við að slakað verði á sóttvarnaaðgerðum um jólin. Kom þetta fram í máli Andreu Ammon, forstöðumanns stofnunarinnar, á fundi heilbrigðisráðherra ESB í gær, 2. desember. Fram kom hjá henni að smittíðni fari vissulega minnkandi í álfunni að meðaltali og sama eigi við um hlutfall smita af heildarfjölda sýna sem tekin eru. En þetta væru meðaltöl, í sumum ríkjum hefði farsóttin líklega náð hámarki en í öðrum væri hún enn á uppleið. Þá fjölgaði dauðsföllum enn og innlögnum á gjörgæslu. „Ég verð að undirstrika,“ sagði Ammon, „að það eru engin rök fyrir því að draga nú úr varúðarráðstöfunum.“ Ef slakað yrði á rétt fyrir jól myndi innlögnum fjölga í janúar. Ef slakað yrði á fyrr þá kæmi aukið álag fram um jólin. Sömu skilaboð komu fram í máli Stellu Kyriakides, framkvæmdastjóra ESB á sviði heilbrigðismála. Nú látast um 5000 manns á dag í ESB af völdum farsóttarinnar. Hún kvaðst skilja væntingar um að geta nú farið að slaka á. En staðan væri ekki sambærileg við sl. vor. Smit væru fleiri og aðstæður óhagstæðari að vetri til. Halda þyrfti núverandi takmörkunum – ekki síst um hátíðirnar – allt þar til bóluefni væri komið í víðtæka dreifingu.
Skíðasvæði í Austurríki opnuð með miklum takmörkunum
Þrátt fyrir að Angela Merkel kanslari Þýskalands hafi hvatt til þess á dögunum að Evrópubúar héldu skíðalaus jól tilkynntu stjórnvöld í Austurríki í gær að skíðasvæði þar yrðu opin. Takmarkanir eru þó það miklar að ekki má búast við ferðamannastraumi. Þannig verða hótel og gististaðir lokaðir og allir sem koma frá áhættusvæðum (smittíðni meira en 100/100.000 síðustu 14 daga) þurfa í 10 daga sóttkví. Það á við um flest nágrannalönd Austurríkis.
Ný tilmæli um jólahald og fleira
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf í gær, 2. desember, út tilmæli um skjól yfir vetrarmánuðina andspænis Covid-19. Þar er gefið yfirlit yfir stöðuna varðandi þau úrræði sem virka best og horfur varðandi skyndipróf og bóluefni. Ekki standi rök til að slaka á yfir jólin. Hvetja eigi almenning til að einskorða samskipti við tiltekinn afmarkaðan hóp yfir jólin. Ef heimiluð séu samkvæmi þar sem fleiri koma saman en ella, vegna jólanna, þá sé ráðlegt að viðkomandi séu í sóttkví dagana á undan og eftir.
Staðan varðandi bóluefni
Forstöðumaður Evrópsku lyfjastofnunarinnar (EMA), Emer Cooke, hefur staðfest að sl. þriðjudag, 1. des., hafi borist umsóknir um markaðsleyfi fyrir bóluefni frá Pfizer/Biontech og Moderna. Umsóknir verði afgreiddar eins hratt og unnt er, væntanlega 29. desember fyrir það fyrrnefnda, og 12. janúar hið síðarnefnda. Þar hjálpaði til að EMA hefði byrjað að meta umsóknirnar fyrir allnokkru á grundvelli bráðabirgðagagna.
Á blaðamannafundi í tengslum við fund heilbrigðisráðherra ESB var spurt hvort sambandið væri of svifaseint í samanburði við Bretland sem gaf út tímabundið markaðsleyfi fyrir Pfizer/Biontech bóluefnið í gær, 2. desember. Stella Kyriakides, framkvæmdastjóri ESB á sviði heilbrigðismála, svaraði því til að öryggi bóluefnis væri í fyrirrúmi. Borgararnir yrðu að geta treyst því. Leyfisveitingunni yrði hraðað eins og kostur er. Þá kom fram hjá henni að bóluefnið sem slíkt væri ekki svarið heldur bólusetning. Vísaði hún þar til áskorana sem tengjast því að fá fólk til að gangast undir bólusetningu. Minnt var einnig á að ESB legði áherslu á að öll aðildarríkin fengju aðgang að bóluefni á sama tíma á jafnræðisgrundvelli.
Allir vildu Lilju kveðið hafa
Sendiherra Þýskalands í London, Andreas Michaelis, minnti bresk stjórnvöld á það að bóluefnið sem þar hefði nú hlotið tímabundið markaðsleyfi væri ekki eingöngu Bretum að þakka. „Af hverju er svona erfitt að viðurkenna að þetta skref ber vott um gríðarlegt alþjóðlegt átak og árangur,“ skrifaði hann á Twitter í gær, 2. desember. Þótt þýska fyrirtækið Biontech hefði þarna skipt sköpum þá væri engin ástæða til þjóðrembings. Þar vísaði hann til þess að aðstoðarráðherra í Orku- og efnahagsráðuneytinu, Alok Sharma, hafði lýst því stoltur yfir á Twitter að Bretland væri fyrsta ríkið sem hefði samið við Pfizer/Biontech og nú yrðu Bretar fyrstir til að taka það í notkun. Heilbrigðisráðherra Bretlands, Matt Hancock, hafði áður undirstrikað að Brexit gerði það að verkum að hægt hefði verið að heimila bóluefnið fyrr en í Evrópusambandinu.
Framtíð Schengen-samstarfsins
Á samráðsfundi um framtíð Schengen sem haldinn var 30. nóvember sl. var rætt um nauðsyn þess að efla samstarf aðildarríkjanna. Þátttakendur voru ráðherrar dóms- og innanríkismála og þingmenn á Evrópuþinginu. Af Íslands hálfu tóku þátt í fundinum ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins, sendiherra Íslands í Brussel og fulltrúi dómsmálaráðuneytisins í sendiráðinu. Helstu áskoranir nú eru tengdar Covid-19, þjóðaröryggismálum og komu umsækjenda um alþjóðlega vernd frá nálægum löndum sunnan og austan Evrópusambandsins. Þótt Schengen-snúist á yfirborðinu um landamæramál þá er þýðing frjálsrar farar yfir innri landamæri afar mikil fyrir efnahag og lífsgæði í aðildarríkjunum.
Umræður snerust um leiðir til að meta jafnharðan framkvæmd Schengen-reglna með það fyrir augum að koma auga á veikleika og bæta úr þeim. Þá var fjallað um mögulega endurskoðun reglna til að aflétta núverandi hömlum á umferð um innri landamæri Schengen og tryggja að reynist síðar nauðsynlegt að setja slíkar takmarkanir þá sé það neyðarúrræði sem standi í afmarkaðan tíma. Þátttakendur voru sammála um að ytri landamærin þyrfti að tryggja betur. Taka þyrfti sem fyrst í notkun nýtt kerfi sem heldur utan um ferðir um ytri landamæri (Entry/Exit System og European Traveller Information and Authorisation System).
Aukið samstarf löggæsluyfirvalda var gert að umtalsefni og umbætur í yfirstjórn Schengen-svæðisins.
Umræður voru líflegar enda hafa landamæramálin sjaldan verið jafn ofarlega á baugi og upp á síðkastið. Sum ríki voru gagnrýnd fyrir landamæratakmarkanir vegna Covid-19 sem stönguðust á við Schengen-reglur. Önnur kölluðu eftir mun strangara eftirliti með ytri landamærum sem væri forsenda þess að frjáls för innan svæðis gæti gengið upp.
Framkvæmdastjórn ESB áformar að leggja til nýja Schengen-stefnu um mitt næsta ár. Næsti samráðsfundur af þessu tagi verður vorið 2021.
Schengen-samstarfið hófst fyrir 35 árum. Nú eru aðildarríkin 26, þar með talið Ísland.
Auka þarf hlut rannsókna og nýsköpunar
Óformlegur fjarfundur vísindamálaráðherra ESB fór fram 27. nóvember sl. Á fundinum var rætt um markmið fyrir fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun sem sett hafa verið fram í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar um framtíð evrópska rannsóknasvæðisins, stöðu samningaviðræðna um fjárlagaramma ESB og Horizon Europe reglugerðina, þróun í opnum vísindum, sér í lagi EOSC (European Open Science Cloud) og Open Science Policy Platform, stöðu mála við undirbúning samfjármögnunarverkefna (svokallaðra „institutionalized partnerships“), sameiginlega vísindayfirlýsingu um viðbragðsáætlanir vegna heimsfaraldra og vinnuáætlun portúgölsku formennskunnar í ráðherraráðinu fyrir komandi tímabil.
Ráðherrarnir staðfestu á fundinum markmið um að áfram skyldi stefnt að því að 3% af landsframleiðslu ESB verði ráðstafað í rannsóknir og nýsköpun. Hlutfallið hefur í raun staðið í stað síðan 2010 og stendur nú í 2.19%.
Mikilvægi þess að efla og styrkja tæknilegt fullveldi (e. Technological sovereignty) Evrópu var einnig til umræðu en það hugtak hefur verið afar áberandi í pólitískri umræðu eftir að COVID-19 faraldurinn brast á. Leiðtogar ríkjanna hafa áhyggjur af því að álfan sé ekki nægilega sjálfstæð gagnvart bandarískum og kínverskum áhrifum og yfirráðum á sviði tækni en á hinn bóginn gjalda vísindamenn og talsmenn iðnaðar varhug við því að þrengja um of möguleika til samstarfs.
Þýski vísindamálaráðherrann fór yfir helstu mál sem hafa verið á dagskrá þýsku formennskunnar, sem fyrir utan samningaviðræður um Horizon Europe og framtíð Evrópska rannsóknasvæðisins voru: miðlun til almennings og þátttaka hans í vísindum, Bonn-yfirlýsingin um frelsi til vísindalegra rannsókna og mikilvægi kortlagningar græns vetnis (e. Green hydrogen). Varðandi það síðastnefnda hyggjast Þjóðverjar halda vinnustofu fljótlega sem ætlað er að kortleggja yfirlit yfir grænt vetni í Evrópu.