Aðgangur að bóluefni í brennidepli
Sendiráðið í Brussel fylgist náið með því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins. Undanfarið hefur þetta borið hæst:
ESB svarar gagnrýni á pöntun bóluefna
Framkvæmdastjórn ESB hefur legið undir ámæli að undanförnu fyrir hæga framvindu bólusetninga í Covid-faraldrinum. Hefur þá til dæmis verið bent á að Bandaríkin, Bretland og Ísrael byrjuðu fyrr en ESB-ríkin að bólusetja með bóluefni sem er þó þróað og framleitt í Evrópu.
Forseti framkvæmdastjórnarinnar svaraði þessari gagnrýni á blaðamannafundi 8. janúar sl. um leið og hún tilkynnti um að ESB hefði tryggt sér aðgang að tvöföldu því magni sem áður hafði verið pantað frá Pfizer/BioNTech, samtals 600 milljón skammta. Bólusetningarátakið var jafnframt aðalumræðuefnið í hádegisverði hennar með fastafulltrúum ESB 13. janúar sl.
Af svörum framkvæmdastjórnarinnar má ráða að tafir á dreifingu bóluefnisins í upphafi sé helst að rekja til þriggja mismunandi þátta:
- Eftirspurnin hafi verið langt umfram framleiðslugetu lyfjaframleiðendanna jafnvel þótt ESB hafi þegar sl. sumar útvegað þeim lán til að auka hana.
- Markaðsleyfi Lyfjastofnunar Evrópu séu öruggari en neyðarleyfin sem veitt hafi verið annars staðar en krefjast lengri undirbúningstíma
- Flöskuhálsar hafi komið fram við skipulagningu dreifingar í aðildarríkjunum sums staðar vegna skorts á innviðum
Þegar framkvæmdastjórnin hóf gerð forkaupsréttarsamninga í júní sl. vissi enginn hver lyfjaframleiðendanna yrði hlutskarpastur í kapphlaupinu um gerð bóluefnisins. Verðin fóru hækkandi og til að tryggja sér ákveðna hlutdeild höfðu fjögur Evrópuríki frumkvæði að því að tryggja sér 400 milljón skammta frá AstraZeneca. Framkvæmdastjórnin tók þessa samninga yfir enda var hún talin vera í betri stöðu til að semja bæði um verð og stærri skammta af hverjum framleiðenda, auk þess að geta tryggt jafnan aðgang aðildarríkjanna. Til að leggja ekki öll eggin í sömu körfu var samið við fleiri framleiðendur um mismunandi stóra skammta. Gagnrýnin nú beinist m.a. að því að framkvæmdastjórnin hafi sóað dýrmætum tíma í að þjarka við lyfjafyrirtækin um verð á bóluefni sl. sumar og ekki veðjað á rétta hesta. Samið hafi verið um stórar pantanir á ódýrara bóluefni við AstraZeneca o.fl. sem skemur voru á veg komin með þróun þeirra en minni skammtar hafi á hinn bóginn verið pantaðir af dýrara efni frá Moderna og Pfizer/BioNTech jafnvel þótt niðurstöður prófana þeirra hafi þá þegar lofað góðu. Þetta hafi orðið til að Ísrael, Bandaríkin og Bretland hafi náð ákveðnu forskoti með sínar pantanir jafnvel þótt stærsta einstaka pöntunin hjá Pfizer/BioNTech – fyrst 300 milljónir skammta og nú 600 milljónir – komi frá ESB.
Af hálfu framkvæmdastjórnarinnar hefur Stella Kyriakides (Health commissioner) hafnað því að tafir á bólusetningu stafi af slæmri skipulagningu. Flöskuhálsar í dreifingu bóluefnis í Evrópu stafi öðru fremur af takmarkaðri framleiðslugetu lyfjaframleiðendanna (production capacity shortage). Margir þessara framleiðenda hafi ekki verið stórir, s.s. BioNTech og Moderna. Framkvæmdastjórnin hafi því sl. sumar liðkað fyrir að Pfizer/BioNTech fengju 100 milljón evru lán frá Evrópska fjárfestingarbankanum (EIB) til að auka framleiðslugetu sína og að hún sé reiðubúin að greiða fyrir að meira verði lagt af mörkum í því skyni bæði fyrir Pfizer/BioNTech og aðra lyfjaframleiðendur.
Framkvæmdastjórnin hefur einnig bent á að fleiri bóluefni séu á næsta leiti og að framkvæmdastjórnin hafi þegar tryggt 450 milljón ESB-borgurum og nágrönnum þeirra meira en 2 milljarða skammta frá 7 mismunandi lyfjaframleiðendum.
Pfizer/BioNTek fékk markaðsleyfi í lok desember, Moderna fyrr í janúar og þá hefur verið boðað að AstraZeneca fái markaðsleyfi í lok janúar og Janssen (Johnson & Johnson) um miðjan febrúar. Tvö hin síðarnefndu eru talin mun auðveldari í flutningi en tvö hin fyrrnefndu, auk þess sem ekki þarf að bólusetja nema einu sinni með bóluefni frá Johnson & Johnson til að tryggja hámarksvirkni. ESB hefur tryggt sér 200 milljón skammta af því með möguleika á að bæta við pöntunina.
Tímalínur um afhendingu eru eftir sem áður nokkuð óljósar. Í máli Von der Leyen 8. janúar sl. kom fram að Evrópa muni hafa aðgang að nægu bóluefni innan öruggs tímaramma (Europe will have more than enough vaccines in a reliable time frame) og á fundi með fastafulltrúum gagnvart ESB 13. janúar taldi hún að í apríl myndi vandinn fremur snúa að vörslu bóluefnanna (storage capacity) og getu aðildarríkjanna til að dreifa þeim og bólusetja.
Þrátt fyrir að þetta lofi góðu eru nákvæmar upplýsingar um afhendingu enn af skornum skammti. Í máli Von der Leyen 8. janúar sagði hún að 75 milljónir skammta af seinni pöntuninni frá Pfizer/BioNTeck yrðu til reiðu á öðrum ársfjórðungi 2021. Mögulega stendur það í tengslum við opnun nýrrar verksmiðju Pfizer/BioNTech í Þýskalandi í næsta mánuði en vonir eru bundnar við að það muni hraða framleiðslunni töluvert. Áður hafði komið fram að fyrirtækið væri ekki skuldbundið til að hafa lokið afhendingu á 2/3 fyrri pöntunarinnar frá ESB fyrr en í september á þessu ári og þyrfti ekki að standa skil á síðasta þriðjungnum nema fyrir árslok.
Framkvæmdastjórnin hefur einnig verið gagnrýnd fyrir að undirbúningur markaðsleyfis af hálfu Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) virðist taka mun lengri tíma en annars staðar, þ. á m. í Bandaríkjunum og í Bretlandi. Því hefur stofnunin svarað með því að benda á ákveðinn greinarmun á þeim leyfum sem hún veitir annars vegar og Bretland og Bandaríkin hins vegar. Munurinn er fólginn í því að bráðaleyfin í Bretlandi og Bandaríkjunum létti í raun allri ábyrgð af framleiðendum bóluefnisins en það eigi ekki við um skilyrt markaðsleyfi EMA.
Flugrekendur saka ESB um skilningsleysi
Í því skyni að koma til móts við vanda flugfélaga vegna kórónufaraldursins lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu í lok árs 2020 um að létta á kröfum um nýtingu lendingartíma (slots) flugfélaga en úthlutun lendingartíma hefur ávallt farið eftir skýrum reglum til að tryggja nýtingu flugvalla, hlutleysi og gagnsæi.
Hingað til hafa reglurnar kveðið á um að nýta þurfi 80% lendingartíma til að fá að halda þeim í næstu flugáætlun en nýju reglurnar kveða á um að lækka þröskuldinn í 40%. Samhliða voru kynnt ýmis skilyrði til að tryggja samkeppnisstöðu flugvalla og flugfélaga og koma í veg fyrir svokölluð ,,draugaflug“, eða að hálftómum vélum sé flogið til að koma í veg fyrir að félögin missi lendingartímann, sem er eingöngu til þess fallið að auka útblástur gróðurhúsalofttegunda.
Tillagan byggir á spám um að farþegafjöldi sumarið 2021 verði að lágmarki 50% af fjöldanum 2019 og 40% sé því raunhæft viðmið.
Flugrekendur eru fjarri því sáttir og telja þessa spá óraunhæfa. Nauðsynlegt sé að ganga lengra í ljósi mesta krísuástands í þessum geira sem sögur fara af. Framkvæmdastjórn ESB hafi algjörlega hunsað ráðleggingar þessara aðila og sérfræðiálit þeirra sé að engu haft.
Tillagan er nú til umfjöllunar í Evrópuþinginu og ráðinu og leitast þessir aðilar, með fulltingi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, IATA, við að hafa áhrif þar í von um liprari reglur og að fá þröskuldinn lækkaðan jafnvel niður í 20%.
Fastanefndin í Brussel mun fylgjast með framvindu málsins.
Endurskoðuð neysluvatnstilskipun
Í desember samþykkti Evrópuþingið endurskoðun á neysluvatnstilskipun sem unnið hefur verið að síðan í febrúar 2018. Nýja tilskipunin mun tryggja öllum Evrópubúum öruggari aðgang að vatni. Á sama tíma eru settar metnaðarfullar kröfur varðandi drykkjarvatn, í takt við háleit markmið fyrir eiturefnalaust umhverfi sem tilkynnt var um í „Græna sáttmálanum“. Tilskipunin byggir á tillögum sem framkvæmdastjórnin lagði fram á sínum tíma. Löggjöf þessi fellur undir skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum, þá hefur þetta mál verið á forgangslista ríkisstjórnarinnar. Árið 2018 var sérfræðingahópur skipaður af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu til að vinna að endurskoðun á regluverki um neysluvatn og til að vera til ráðgjafar á þessu sviði.
Portúgalska formennskan – félagslegar áherslur
Portúgalir tóku við formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins 1. janúar sl. Þeir hyggjast meðal annars leggja áherslu á félagslega stoð Evrópusamvinnunnar. Þannig verði fjallað um framtíðarþróun starfa, góð vinnuskilyrði, símenntun og félagslega samheldni. Fylgt verði eftir drögum að tilskipun um lágmarkslaun og mikilvægi samtals aðila vinnumarkaðar og kjarasamninga. Mótuð verði evrópsk stefna um öryggi og hollustuhætti við vinnu, sem væri ekki síst mikilvægt sem viðbrögð við farsóttinni. Þá verði jafnréttismál ofarlega á baugi, þar með talið launagagnsæi og jöfn kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja.
Að öðru leyti mun áframhaldandi samræming á viðbrögðum við heimsfaraldri Covid-19 verða fyrirferðarmikil í formennskutíð Portúgala, ásamt grænni uppbyggingu og stafrænni umbyltingu samfélagsins. Sjálfstæð og sjálfbær Evrópa er einnig í forgrunni, meðal annars þegar kemur að nauðsynlegum innviðum, nýsköpun og tækni. Þá munu Portúgalar einnig leggja áherslu á tengsl Evrópusambandsins við umheiminn og horfa til þess að styrkja samskipti við Bandaríkin og Indland svo eitthvað sé nefnt.
Fríverslunarsamningar Breta í stað EES-aðildar
Bretland og Evrópusambandið (ESB) náðu samkomulagi um viðskipta- og samstarfssamning á aðfangadag (e. UK-EU Trade and Cooperation Agreement ). Samningnum verður beitt til bráðabirgða frá og með 1. janúar 2021 til 28. febrúar 2021, þegar ráðgert er að samningurinn taki gildi til frambúðar.
Samningurinn samanstendur af hefðbundnum fríverslunarsamningi auk málaflokka sem alla jafna er ekki fjallað um í fríverslunarsamningum, s.s. um samstarf á sviði samhæfingar almannatryggingakerfa, innri öryggismála, sjávarútvegsmála (fiskveiðiheimilda), loftferða og rannsókna.
EFTA-ríkin þrjú innan EES, Ísland, Noregur og Liechtenstein, hafa verið í samhliða viðræðum við Bretland um víðtækan fríverslunarsamning. Samningur ESB og Bretlands mun hafa jákvæð áhrif á þessar fríverslunarviðræður og er þess vænst að þeim ljúki fljótlega á þessu ári.
Kjarnahagsmunir Íslands á sviði viðskipta við Bretland voru tryggðir með bráðabirgðafríverslunarsamningi sem gerður var 8. desember sl.
Samningurinn tryggir óbreytt tollkjör vegna vöruviðskipta við Bretland. Þá hafa átt sér stað bréfaskipti á milli Íslands og Bretlands um matvælaeftirlit, tæknilegar reglugerðir og flæði persónuupplýsinga til að tryggja að Bretland veiti Íslandi ekki lakari meðferð en það mun veita ESB eftir áramót.
Jafnframt hafa flugsamgöngur á milli Íslands og Bretlands verið tryggðar með undirritun loftferðasamnings nú skömmu fyrir jól.
Niðurstöður Bretlands og ESB á sviði sjávarútvegs varða Ísland ekki beint, því Bretland og Ísland deila ekki öðrum fiskistofnum en flökkustofnum, en um þá er samið í strandríkjaviðræðum viðkomandi ríkja. Vert er að minna á að fyrr í haust undirrituðu sjávarútvegsráðherrar ríkjanna samstarfssamning á sviði sjávarútvegs sem býður upp á aukið samstarf ríkjanna og útvegarins í þessum mikilvæga málaflokki.
Umsögn íslenskra stjórnvalda um flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar
Eins og sagt var frá í síðasta fréttabréfi hafa drög að afleiddum reglugerðum er lúta að flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar verið birt í samráðsgátt Evrópusambandsins. Fjármála- og efnahagsráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafa sent inn sameiginlega umsögn þar sem flokkun vatnsaflsvirkjana sem fjárfestingarkosts er andmælt í drögum framkvæmdastjórnarinnar. Orkustofnun og Orkuveita Reykjavíkur sendu einnig inn andmæli við kröfum sem gerðar eru til jarðvarmavirkjana í samanburði við virkjun vind- og sólarorku. Hér eru slóðir að umsögnum þeirra:
Mikill fjöldi umsagna barst í samráðsferlinu og er búist við að fyrstu niðurstöður þess verði kynntar á kynningarfundi sem framkvæmdastjórnin hefur boðað til í lok janúar.