Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2021 Brussel-vaktin

Tökin hert á ytri og innri landamærum

Sendiráðið í Brussel fylgist náið með því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins. Undanfarið hefur þetta borið hæst:

Tvenn tilmæli uppfærð

Ráðherraráð Evrópusambandsins samþykkti í fyrstu viku febrúar breytingu á tvennum tilmælum sem eiga við um takmarkanir á ferðafrelsi vegna Covid-19. Í ljósi stöðu faraldursins í álfunni og hættunnar af stökkbreyttum afbrigðum veirunnar er hér í báðum tilvikum um að ræða hertar reglur.

Aðildarríkin ættu, skv. breytingum á tilmælum um ytri landamæri Schengen, að krefjast þess af öllum einstaklingum sem ferðast frá 3ju ríkjum, hvort sem þar er í nauðsynlegum tilgangi eða ekki, að þeir geti framvísað neikvæðu PCR-prófi sem tekið er í fyrsta lagi 72 klst. fyrir brottför. Undantekning er þó gerð varðandi ríkisborgara ESB ríkja eða þá sem þar eru búsettir innan ESB og geti þá farið í PCR-próf eftir komu.

Þá gildir að komi farþegi frá ríki þar sem afbrigði veirunnar, sem veldur áhyggjum, hefur verið greint þá skuli mæla fyrir um sóttkví og viðbótarpróf eftir komu. Sjá nánar https://www.consilium.europa.eu/media/48152/st_5712_2021_rev_2_en.pdf

Að því er varðar tilmæli um innri landamæri Schengen er tekinn upp nýr litaflokkur fyrir kort sem Evrópska sóttvarnastofnunin birtir, þ.e. dökkrautt, ef smittíðni er yfir 500/100.000 undanfarnar 2 vikur. Þess nýi litur bætist við grænan, appelsínugulan og rauðan.

Hvatt er til þess að þegar farþegar komi frá dökkrauðum svæðum þá sé krafist prófs sem tekið er fyrir brottför og sóttkvíar við komuna. Sams konar aðgerðir gætu átt við um svæði þar sem er mikil útbreiðsla afbrigða veirunnar sem valda áhyggjum. Með prófi er vísað bæði til PCR-prófs og viðurkennds skyndiprófs.

Þó er gert ráð fyrir að þegar íbúar eru að snúa heim þá geti þeir farið í próf við komuna í stað prófs fyrir brottför. Sjá nánar https://www.consilium.europa.eu/media/48122/st05716-en21-public.pdf

Ef endurskoðuð tilmæli ESB eru borin saman við íslenskar reglur, þ.e. einkum reglugerð heilbrigðisráðherra nr. 18/2021 um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19, þá má benda sérstaklega á tvö atriði þar sem munur er á nálgun.

  • Reglugerðin gerir ekki ráð fyrir að framvísað sé neikvæðu prófi fyrir brottför á meðan tilmæli ESB gera það varðandi komur frá dökkrauðum svæðum innan EES og frá 3ju ríkjum (sbr. þó undanþágu fyrir þá sem eru á heimleið og geta þá farið í próf við komuna í staðinn).  
  • Reglugerðin undanskilur þá sóttvarnaraðgerðum á landamærum sem geta framvísað vottorðum um fyrri sýkingu sem er afstaðin eða bólusetningarvottorði. Tilmæli ESB taka ekki sérstakt tillit til slíkra einstaklinga. 

Samráð um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hafið opið samráð um aðgerðir til að takast á við ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Þátttakendur eru beðnir að svara ítarlegum spurningalista og verða niðurstöður notaðar til að undirbúa löggjafartillögur sem framkvæmdastjórnin hefur boðað síðar á þessu ári. Samráðið stendur frá 8. febrúar til 10. maí.

Fundur sameiginlegu EES nefndarinnar

Óvenjumargar gerðir voru teknar upp í EES samninginn þegar sameiginlega EES nefndin kom saman á fyrsta fundi sínum á þessu ári, en hann fór fram 5. febrúar sl. og var það jafnframt fyrsti fundur á formennskutímabili Íslands sem hófst um áramótin. Á fundinum voru 170 gerðir teknar í samninginn í 85 sameiginlegum ákvörðunum nefndarinnar. Þetta er mikið stökk upp á við sé miðað við síðastliðið ár þegar fjöldi ákvarðana á hverjum fundi var lengst af á bilinu 20-30 og fjöldi gerða á bilinu 25-45.

Eins og endranær kennir ýmissa grasa á listanum en gerðir á sviði heilbrigðis dýra og plantna voru flestar eða 75 talsins. Þrjár gerðir á listanum voru teknar inn á hann með hraði en þær tengjast aðgerðum ESB sem rekja má til heimsfaraldurs; ein er á sviði ríkisaðstoðar og tvær varða flugafgreiðslu og flugrekstrarleyfi. Einnig má þar finna gerðir sem varða losun koltvísýrings frá ýmiss konar ökutækjum, gerðir á sviði fjármálaþjónustu og gerðir um vefsetur opinberra aðila og smáforrit þeirra fyrir snjalltæki, svo eitthvað sé nefnt. Loks má nefna gerðir sem varða leyfileg efni í hársnyrtivörum og naglalökkum sem teknar voru upp í samninginn að þessu sinni.

Skattlagning á alþjóðleg netfyrirtæki

Eitt heitasta umræðuefnið á vettvangi ESB þessa dagana, ef frá er talin bólusetning gegn Covid19, er væntanleg skattlagning netrisa eins og Amazon, Facebook, Google o.fl. á alþjóðavísu. Efnahags- og framfarastofnunin í París, OECD, hefur undanfarna mánuði unnið hörðum höndum að því að finna aðferð til þess, m.a. í umboði ESB og G20 ríkjanna. Í lok janúar var haldinn fundur um málið þar sem fram kom mikill vilji til að fá niðurstöðu í því sem allra fyrst. Eins og við var að búast heyrðust þó ýmsar efasemdaraddir á fundinum, m.a. um aðferðir við skattlagninguna og einnig hvort skynsamleg lausn fyndist yfirhöfuð.

Nú beinast sjónir allra að nýskipuðum fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Janet Yellen, en Bandaríkin ásamt Kína hafa hingað til verið helstu andstæðingar hugmyndarinnar. Ekki er ólíklegt að málið komi til tals á fundi seðlabankasérfræðinga G20 ríkjanna þann 26. febrúar nk. þar sem Janet Yellen verður viðstödd ásamt sínum sérfræðingum. Það eru ekki hvað síst aðildarríki ESB sem bíða spennt eftir viðbrögðum Yellen, enda liggur fyrir vilji þeirra til að taka upp slíkan skatt frá miðju þessu ári. Sú skattlagning er liður í því að borga til baka þá 750 milljarða evra sem þau þurfa að taka að láni fyrir Bjargráðasjóðinn (e. Recovery Fund) sem endurvekja á efnahagskerfi aðildarríkjanna eftir faraldurinn.

Samráð um breytingar á tilskipun um vernd umhverfisins

Fyrirhugaðar eru breytingar á tilskipun um vernd umhverfisins með refsiákvæðum. Opið samráð er hafið á vef framkvæmdastjórnarinnar og stendur það yfir til 3. maí nk. Markmið tilskipunarinnar, sem hefur verið innleidd í Íslenskan rétt með lögum nr. 44/2017 https://www.althingi.is/altext/stjt/2017.044.html , er að vernda umhverfið með refsiákvæðum, viðeigandi viðurlögum og samvinnu yfir landamæri.  Samkvæmt mati framkvæmdastjórnarinnar hefur núgildandi tilskipun ekki náð markmiði sínu. Með breytingunni á að taka til endurskoðunar gildissvið tilskipunarinnar, tegund og stig viðurlaga við brotum, dómsmálasamstarf, skipulagða glæpi, söfnun tölfræðigagna og löggæslu.  Sjá á vef framkvæmdastjórnarinnar: https://ec.europa.eu/info/law/better-regulation/have-your-say/initiatives/12779-Improving-environmental-protection-through-criminal-law

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta