Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2021 Brussel-vaktin

Mikilvægir áfangar í loftslagsmálum

Samkomulag í augsýn um ný loftslagslög

Eftir 14 klukkustunda samningalotu miðvikudaginn 21. apríl sl. náðist loks niðurstaða í þríhliða viðræður Evrópuþingsins, ráðherraráðsins og framkvæmdastjórnarinnar um nýju evrópsku loftslagslögin (e. New European Climate Law).

Aðal þrætuefni viðræðnanna var markmið ESB um að lágmarki 55% samdrátt í losun gróðurhúsaloftegunda fyrir árið 2030 en Evrópuþingið hafði sl. haust samþykkt 60% samdrátt fyrir árið 2030. Málamiðlun náðist í samningaviðræðunum með því að ESB ríkin samþykktu að þak yrði sett á framlag til bindingar kolefnis (e. carbon removal) úr andrúmslofti vegna landnotkunar, landbúnaðar og skógræktar. Framkvæmdastjórnin samþykkti að taka til skoðunar að fjölga kolefnisviðtökum (e. carbon sinks) sem myndi auka samdrátt í losun í 57%, þó ákvæði þess efnis sé ekki að finna í lagafrumvarpinu. Framkvæmdastjórnin samþykkti að setja á fót óháða ráðgefandi vísindastofnun, The European Scientific Advisory Board. Stofnunin mun hafa það hlutverk að vera ráðgefandi við aðlögun stefna ESB að markmiði um kolefnishlutleysi. Einnig var samþykkt að taka upp markmið um samdrátt í losun fyrir árið 2040 en markmiðið mun byggja á hversu mikið ESB ríkjunum verður heimilt að losa af gróðurhúsalofttegundum til ársins 2050 án þess að brjóta gegn Parísarsáttmálanum. Mun 2040 markmiðið verða sett fram í síðasta lagi innan sex mánaða fyrir stöðutöku hjá öllum aðildarríkjum Parísarsáttmálans sem fram á að fara árið 2023 í samræmi við sáttmálann. Einnig var samþykkt í samningaviðræðunum að eftir árið 2050 yrði stefnt á neikvæða losun gróðurhúsalofttegunda.

Málið er þó ekki í höfn þar sem formlega á eftir að samþykkja lögin á Evrópuþinginu og í ráðinu en ekki er búist við öðru en að um formsatriði sé að ræða. Með samþykkt laganna mun markmið um að lágmarki 55% samdrátt í losun fyrir árið 2030 og kolefnishlutleysi árið 2050 verða lagalega bindandi fyrir ESB. Hvað varðar markmið um kolefnishlutleysi þá nær markmiðið til ESB í heild sinni, þ.e. ekki er um að ræða að hvert ríki innan ESB verði kolefnishlutlaust fyrir árið 2050.

Vegasamgöngur og byggingar falli undir ETS

Á tveggja daga alþjóðlegri ráðstefnu um loftslagsmál sem sett var fimmtudaginn 22. apríl sl., á degi jarðar, tilkynnti Ursula von der Leyen um fyrirhugaðar breytingar á viðskiptakerfi með losunarheimildir (e. Emissions Trading Scheme, ETS). Kerfið gegnir lykilhlutverki í aðgerðum ESB gegn loftslagsbreytingum. Með viðskipakerfinu eru takmörk sett á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá rekstraraðilum og flugrekendum sem falla undir kerfið. Von der Leyen boðaði að kerfið yrði útvíkkað þannig að það næði einnig til vegasamgangna og bygginga (e. road transport and buildings) og yrði það hluti af stefnupakka ESB sem nefndur hefur verið „í form fyrir 55“ (e. Fit for 55) sem er væntanlegur í júní nk.  Ekki ríkir samstaða innan framkvæmdastjórnar ESB um að setja vegasamgöngur undir ETS kerfið þar sem talið er að það geti leitt til hærra eldsneytisverðs sem muni bitna á fátækari íbúum Evrópu. Ekki liggur heldur fyrir hvort vegasamgöngur og byggingar verði hluti af núverandi ETS kerfi eða hvort um verði að ræða sér kerfi. Talið er líklegra að síðari kosturinn verði valinn. Einnig hefur verið rætt um að útvíkka kerfið enn frekar þannig að það nái til flutningastarfsemi en fréttir af því eru frekar óljósar eins og er.

Guðmundur Ingi tók þátt í óformlegum umhverfisráðherrafundi

Óformlegur fundur umhverfisráðherra ríkja ESB og EFTA ríkjanna var haldinn 23. apríl í boði Portúgals sem er í formennsku í Ráðherraráði ESB. Fundurinn var haldinn með fjarfundasniði.

Meginefni fundarins var aðlögun að loftslagsbreytingum með áherslu á áskoranir tengdar áhrifum loftslagsbreytinga á vatn, hækkun sjávarborðs, þurrka og vatnsbúskap og hvernig við því skuli brugðist. ESB hefur nýlega gefið út aðgerðaráætlun er varðar aðlögun að loftslagsbreytingum (e. The new EU Climate Adaptation Strategy). Á fundinum var rætt um aðgerðaráætlunina í alþjóðlegu samhengi, áskoranir við aðlögun að loftslagsbreytingum er varða aukna hættu á þurrkum og samþættingu aðgerða í loftslags- og umhverfismálum við stefnur ESB og fjármögnunarverkfæri. Á fundinum kynnti Patricia Espinosa, framkvæmdastjóri Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC), vegvísi sem miðar að því að gera COP-26 loftslagsráðstefnuna, sem haldin verður í Glasgow í nóvember nk., að merkum áfanga í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra sótti fundinn og gerði vinnu íslenskra stjórnvalda við aðlögunarstefnu vegna loftslagsbreytinga að umtalsefni.

Guðmundur Ingi sagði íslensk stjórnvöld nú vinna að gerð sinnar fyrstu aðlögunaráætlunar, sem móta muni grunn stefnumótunar- og aðlögunarvinnu framtíðar. Sagði ráðherra íslensk stjórnvöld fylgast vel með aðlögunarvinnu og áætlunum ríkja ESB og að sú stefna ESB að leggja áherslu á aðlögunaraðgerðir sem miða að því að efla vistkerfi og viðnámsþrótt þeirra sé í takt við stefnu íslenskra stjórnvalda.   

Guðmundur Ingi sagði Íslendinga einnig mæta áskorunum af völdum loftslagsbreytinga sem tengjast vatni og vatnsstjórnun. Ólíkt ríkjum Suður-Evrópu væri vandinn hins vegar frekar aukin úrkoma og meiri rigningar þó svo að vissulega hafi langir þurrkakaflar líka orðið áhyggjuefni á sumum svæðum á síðustu árum.

Guðmundur Ingi sagði bráðnun jökla annað dæmi um miklar áskoranir vegna loftslagsbreytinga og hlýnun og súrnun sjávar. „Röskun vistkerfa sjávar er risastórt viðfangsefni fyrir Ísland enda hefur hún samfélags- og efnahagslegar afleiðingar fyrir okkur, jafnt fyrir þær byggðir landsins sem byggja afkomu sína á fiskveiðum sem og fyrir efnahag þjóðarinnar í heild.“

Á fundinum lýstu ráðherrarnir yfir mikilvægi þess að afla betri þekkingar á áhrifum loftslagsbreytinga og viðurkennt var að vatn væri veigamikill þáttur í þeirri aðlögun sérstaklega hvað varði áhrif þurrka og breytinga í úrkomumynstri.

https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/04/23/Radherrafundur-um-adlogun-ad-loftslagsbreytingum/

https://www.2021portugal.eu/en/news/issues-of-climate-change-adaptation-must-head-the-european-political-agenda/

Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins (EUPL) 2021

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins voru kynntar fyrr í aprílmánuði. Verðlaunin eru veitt árlega og þeim ætlað að kynna upprennandi rithöfunda víðs vegar um Evrópu. Á hverju ári er völdum löndum boðin þátttaka í verðlaununum, nú í ár eru þau 14 talsins, og hlýtur einn höfundur frá hverju landi um sig verðlaunin.

Ísland er eitt þeirra fjórtán landa sem tekur þátt í ár og eru tilnefndu verkin eftirfarandi:

Hansdætur eftir Bennýju Sif Ísleifsdóttur.
Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur.
Dauði skógar eftir Jónas Reyni Gunnarsson.
Delluferðin eftir Sigrúnu Pálsdóttur.
Strendingar eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur.

Vinningshafar verða tilkynntir þann 18. maí næstkomandi.

Markmið Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins er að varpa ljósi á menningarleg verðmæti evrópskra samtímaskáldverka, auka dreifingu þeirra innan álfunnar og hvetja til menningarsamræðna milli þjóða. Nánar má lesa um verðlaunin hér: https://www.euprizeliterature.eu/

Grænar fjárfestingar

Framkvæmdastjórn ESB birti 21. apríl sl. áfanganiðurstöður vinnu við að skilgreina hvaða fjárfestingarkostir teljist umhverfisvænir (e. taxonomy). Þetta er talið vera mikilvægur þáttur til að beina fjárfestingum að sjálfbærum verkefnum og stuðla að því að loftslagsmarkmiðum verði náð. Hart hefur verið barist á bak við tjöldin um aðferðir og nálgun í þessu efni enda gríðarlegir hagsmunir í húfi. Flokkun á til dæmis vatnsorku og jarðhita hefur tekið breytingum í kjölfar samráðs sem framkvæmdastjórnin efndi til og nefnt hefur verið áður í Brussel-vaktinni. Að einhverju marki hefur þar verið tekið tillit til sjónarmiða úr þeim geira endurnýjanlegra orkugjafa. Nánara mat, frá sjónarhóli íslenskra orkufyrirtækja, á þó ugglaust eftir að fara fram á næstu vikum.

Sjá nánar: https://www.ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/ip_21_1804

Tillögur um reglur um gervigreind

Framkvæmdastjórn ESB lagði 21. apríl sl. til nýjar reglur sem hafa það markmið að auka traust á gervigreindartækni. Er tæknin þar flokkuð eftir áhættu. Sumri tækni þarf til dæmis að mati framkvæmdastjórnarinnar að leggja blátt bann við, eins og þeirri sem gerir stjórnvöldum kleift að gefa borgurunum félagsleg stig eða hefur áhrif á háttsemi þeirra í andstöðu við frjálsan vilja. Önnur tækni er talin fela í sér mikla áhættu sem kalli á stífar reglur og eftirlit áður en hún verði leyfð. Það á við um notkun gervigreindar í lykilinnviðum eins og samgöngukerfi, mannauðsstjórnun, löggæslu, útlendingamálum og dómskerfinu svo dæmi séu tekin.  Flest tækni á þessu sviði er hins vegar talin tiltölulega meinlaus og kalli þá ekki á sérstaka reglusetningu. Það á við um tölvuleiki til dæmis og netpóstsíur.

Sjá nánar https://ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/ip_21_1682

EFTA-álit um gjaldtöku í vegakerfinu

Tilskipun ESB um gjaldtöku af þungaflutningum á vegum (e. Eurovignette) hefur verið til endurskoðunar undanfarin ár. Vinnunefnd EFTA um samgöngur sendi frá sér tillögu að EFTA áliti til EFTA undirnefndar II í dag föstudaginn 30. apríl. Í álitinu styðja EES-EFTA ríkin meginatriði breytingartillögu sem ætlað er að ýta undir loftlagsvænar vegsamgöngur og setja ramma um gjöld fyrir notkun á vegakerfinu. Í álitinu hvetja EFTA ríkin til að góður sveigjanleiki verði í endanlegum útfærslum gerðarinnar án þess að fórna markmiðum um að draga úr losun né leiða til mismununar, þ.e. í formi verkfærakistu þar sem aðildarríkin geti fundið lausnir sem henta hverju og einu ríki fyrir sig. Sömuleiðis að endanleg útfærsla gerðarinnar taki mið af ólíkum gjaldtökuaðferðum ríkjanna við að fjármagna vegaframkvæmdir. Loks er í álitinu hvatt til þess að skýr greinarmunur sé gerður á almennum notendagjöldum á vegum og sértækri tímabundinni gjaldtöku s.s. vegna samvinnuverkefna sem ætlað er að fjármagna afmarkaðar framkvæmdir á meðan verið er að greiða fyrir fjárfestinguna.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta