Endurskoðun reglna um för yfir innri landamæri
Að þessu sinni er fjallað um
- rýmkaðar reglur um för yfir innri landamæri
- fund umhverfisráðherra ESB þar sem reglur um rafhlöður og úrbætur á innleiðingu Árósasamningsins voru ofarlega á baugi
- ECASIS vinnunefnd EFTA
Endurskoðun tilmæla um för yfir innri landamæri EES/Schengen
Samkomulag náðist í dag, föstudag, um endurskoðun tilmæla ráðherraráðsins um för yfir innri landamæri EES/Schengen (Council Recommendation (EU) 2020/1475 of 13 October 2020 on a coordinated approach to the restriction of free movement in response to the COVID-19 pandemic).
Helstu breytingar eru þessar:
Litakóðunarkerfið breytist þannig að slakað er á kröfum (fleiri lönd verða græn og appelsínugul).
Breytt viðmið varðandi hvaða aðgerða megi grípa til á landamærum gagnvart komufarþegum frá mismunandi litum svæðum (t.d. ekki gert ráð fyrir að farþegar sem koma frá appelsínugulum svæðum með neikvætt PCR-próf sæti skimun).
Tekið fram að þeir sem eru bólusettir eða hafa náð sér af fyrri sýkingu eigi ekki að sæta sóttvarnaaðgerðum á landamærum (t.d. sýnatöku).
Börn undir 12 ára verði undanskilin sóttvarnaaðgerðum (t.d. sýnatöku).
Heimilað að grípa til neyðarráðstafana (svokallaður neyðarhemill) ef upp koma ný afbrigði sem valda áhyggjum. Það gæti falist í að komufarþegar frá slíkum svæðum sæti viðbótarráðstöfunum eins og sýnatöku og sóttkví.
Samræming tímalengdar, sem vottorð um fyrri sýkingu gilda, þ.e. í 180 daga.
Skilgreint er hvað teljist full bólusetning, þ.e. a) bólusetning með tveimur skömmtum af bóluefni þegar það á við, b) bólusetning með einum skammti þegar það á við, c) bólusetning með einum skammti ef viðkomandi hefur áður sýkst.
Ljóst er að sumt í tilmælunum stangast á við framkvæmd á Íslandi en íslensk stjórnvöld hafa haldið því til haga að aðildarríkin eigi að hafa forræði á sóttvarnaraðgerðum auk þess sem landfræðileg einangrun sé viðurkennt sjónarmið sem geti réttlætt strangari aðgerðir en ella. Síðast en ekki síst eru tilmælin ekki lagalega bindandi.
Gert er ráð fyrir að nýju tilmælin verði afgreidd formlega 15. júní næstkomandi.
Væntanlegar reglur um rafhlöður ofarlega á dagskrá
Umhverfisráðherrar ESB-ríkjanna hittust á fundi í Lúxemborg 10. júní sl. Á fundinum var tilvonandi reglugerð ESB er varðar rafhlöður rædd en hún inniheldur m.a. markmið um endurvinnslu rafhlaða og kröfur er varða áreiðanleikakönnun á vinnslu hráefna (e. raw material mining). ESB leggur áherslu á að búið verði að samþykkja reglugerðina fyrri hluta næsta árs og fyrir árið 2023 þegar búist er við sprengingu í framleiðslu á geymissellum (e. battery cell). Um er að ræða mjög ítarlega og tæknilega reglugerð. Sum aðildarríki ESB eru því svartsýn á að tímasetningar um samþykki reglugerðarinnar muni standast.
Á fundinum var samþykkt ályktun ráðsins um nýja stefnu ESB er varðar aðlögun að loftslagsbreytingum (e. New EU strategy on adaptation to climate change) sem gefin var út í febrúar sl. Í ályktuninni er lýst yfir stuðningi við stefnuna en í henni er sett fram langtímasýn ESB um loftslagsþolið samfélag sem er að fullu lagað að óhjákvæmilegum áhrifum loftslagsbreytinga fyrir árið 2050. Áætlunin er ein af lykil aðgerðum Græna sáttmála ESB. Áætlunin leggur áherslu á betri gögn og betri nýtingu þeirra gagna sem til eru, náttúrulegar lausnir (e. nature-based solutions), samþættingu við fjárhagslegar og efnahagslegar athuganir og eflingu alþjóðlegra aðgerða á sviði aðlögunar að loftslagsbreytingum sem er í samræmi við Parísarsamninginn. Ráðið leggur áherslu á mikilvægi þess að aðlögun að loftslagsbreytingum verði höfð að leiðarljósi við efnahagslega uppbyggingu í kjölfar Covid-19. Með ályktuninni eru lagðar pólitískar línur fyrir framkvæmdastjórn ESB í innleiðingu stefnunnar en einnig mun hún verða leiðarvísir við skil á aðlögunaráætlun ESB til Parísarsamningsins fyrir loftslagsráðstefnu SÞ (COP26) sem haldin verður í Glasgow í haust.
Brugðist við athugasemdum við innleiðingu Árósasamningsins
Á fundi umhverfisráðherranna var einnig rætt um tilvonandi breytingu á reglugerð ESB um Árósasamninginn. Tillaga að breytingu á reglugerðinni er tilkomin vegna athugasemda eftirlitsnefndar samningsins við innleiðingu hans í ESB rétt. Fundið var að því að réttur almennings til þess að fá athafnir eða athafnaleysi ESB á sviði umhverfismála endurskoðað væri ekki nægilega tryggður. Þríhliða viðræður Evrópuþingsins, ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar um tillöguna standa fyrir dyrum nú þegar afstaða Evrópuþingsins til breytinganna liggur fyrir.
Mikið undir hjá ECASIS vinnunefnd EFTA
Mánudaginn 7. júní var haldinn fjarfundur í ECASIS vinnunefnd EFTA. Vinnunefndin fjallar um gerðir á sviði fjarskipta, netöryggis, fjölmiðlunar, opinn gagna og stafrænnar tækni. Umfjöllunarefni nefndarinnar tengjast flestar einu mikilvægasta markmiði framkvæmdastjórnar ESB, þ.e. um stafræna umbreytingu hagkerfisins.
Á árinu hafa komið fram tillögur að gerðum um gervigreind og reikigjöld. Undir lok síðasta árs komu fram tillögur að gerðum um reglusetningu stafrænnar þjónustu sem margir stærstu netrisar samtímans veita s.s. Google, Amazon, Facebook, Youtube og svo framvegis. Þá fjallar nefndin einnig um nýjar tillögur að gerðum um netöryggi, um stjórnhætti opinna gagna og fleiri mikilvægar tillögur.
Tillögur að gerðum um stafræn mál eru oft flóknar og getur ein gerð varðað löggjöf á mörgum sviðum s.s. um persónuvernd, samkeppnismál, viðskiptareglur, netöryggi og reglur um fjölmiðla. Viðamestu gerðirnar spanna því málefnasvið margra ráðuneyta og krefst greiningarvinna á gerðunum mikils og náins samstarfs margra ráðuneyta og stofnana.
Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.
Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.
Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].