Áherslumál slóvensku formennskunnar
Að þessu sinni er fjallað um
- áherslumál Slóvena sem tóku við formennsku í ESB 1. júlí sl.
- samráðsskjal um stafrænan áttavita
- stefnumótun í málefnum dreifbýlis
- endurskoðun á hlutverki Siglingastofnunar Evrópu
- varfærna afstöðu ráðherraráðsins til tillagna um hert eftirlit með fiskveiðum
- tillögur í loftslagsmálum sem væntanlegar eru 14. júlí nk.
Vaktin fer nú í sumarfrí og kemur næst út í lok ágúst 2021.
Auka þurfi viðnámsþrótt Evrópusambandsins
Slóvenar tóku við formennsku í ráðherraráði ESB 1. júlí sl. Eins og venja er hafa þeir birt lista yfir helstu áherslumál. Þar er vitnað til þess að farsóttin hafi sýnt mikilvægi samheldni og samræmdra viðbragða. Þess vegna verði aukinn viðnámsþróttur Evrópusambandsins forgangsmál. Í því sambandi verði lögð áhersla á aukið samstarf í heilbrigðismálum (European Health Union). Evrópusambandið eigi ekki að vera öðrum háð í sama mæli og verið hefur varðandi til dæmis lækningavörur.
Sökum þess að líf og vinna hafi á tímum farsóttar færst yfir netheima þá hafi samfélög orðið viðkvæmari fyrir netglæpum. Þess vegna verði lögð áhersla á netvarnir. Sambandið verði að vera við því búið að þurfa að verjast stórfelldum tölvuárásum.
Þá þurfi að styðja við endurreisn alls hagkerfisins og lífs í samfélagi. Eitt forgangsmál verði því að hrinda endurreisnarsjóðnum í framkvæmd og stuðla að því að landsáætlanir um endurreisn hljóti skjóta afgreiðslu. Sama á við um skammtímastuðning sem kenndur er við næstu kynslóðar ESB. Hvort tveggja eigi að miða fyrst og fremst að grænni og stafrænni umbyltingu samfélagsins.
Loftslagsmálin verði áfram ofarlega á baugi. Þar muni COP26 ráðstefnan í Glasgow verða tækifæri fyrir ESB að sýna metnað í verki og ganga undan með góðu fordæmi, sbr. áform um að draga losun gróðurhúsalofttegunda saman um 55% 2030 samanborið við árið 1990. Farsóttin hafi hraðað stafrænni þróun samfélagsins. Fyrir vikið sé enn brýnna að endurbæta löggjöf um stafræna þjónustu og markaði, sbr. þær tillögur sem verið hafa til umræðu í vetur.
Að því er varðar grundvöll Evrópusambandsins þá hyggjast Slóvenar leggja áherslu á réttarríkið. Leita þurfi leiða til að styrkja framfylgd laga og reglna, jafnvel með eins konar hugarfarsbreytingu. Öryggi innan sambandsins sé forgangsmál og leita þurfi leiða til að styrkja enn frekar Schengen-samstarfið. Þá muni slóvenska formennskan fjalla um neikvæða þróun mannfjölda sums staðar innan Evrópusambandsins.
Á sviði utanríkis- og öryggismála verði lögð áhersla á tengslin yfir Atlantshafið, samstarf við Bandaríkin og innan NATO. Vestur-Balkanskaginn muni einnig fá sérstaka athygli og umbætur í efnahagsmálum þar. Markmiðið sé meðal annars að bjóða ungu fólki í viðkomandi löndum upp á jákvæða framtíðarsýn.
Framkvæmdastjórnin birtir samráðsskjal um stafrænan áttavita
Framkvæmdastjórn ESB birti samráðsskjal um verkefnið stafrænan áttavita 22. júní sem lýkur 3. ágúst n.k. Leitað er eftir samtali og viðbrögðum frá hagsmunaaðilum sem nýtist við að móta verkefnið nánar. Í kjölfarið, 27. júní, birti svo framkvæmdastjórnin tímasetta verkefnisáætlun um þróun áttavitans.
Fjallað er nánar um stafrænan áttavita í orðsendingu sem framkvæmdastjórnin birti 9. mars. Í stuttu máli inniheldur orðsendingin tillögur að mælikvörðum fyrir stafræna umbyltingu og mælingu árangurs við að ná þeim. Markmiðin eru fjögur og snúa að uppbyggingu stafrænnar hæfni almennings og sérfræðinga, uppbyggingu öruggra og sjálfbærra stafrænna innviða, stafrænni umbyltingu viðskiptahátta og uppbyggingu opinberrar þjónustu.
Stefnumörkun til 2040 fyrir dreifbýl svæði ESB sett fram til umsagnar
Framkvæmdastjórnin birti 30. júní sl. framtíðarsýn fyrir dreifbýl svæði undir yfirskriftinni: Í átt að sterkari, samtengdum, þrautseigum og hagsælum dreifbýlum svæðum fyrir 2040. (e. Towards stronger, connected, resilient and prosperous rural areas by 2040).
Framkvæmdastjórnin sér fyrir sér að gerður verði dreifbýlissáttmáli (e. rural pact) milli opinberra aðila og hagsmunaaðila sem hreyfi við málum sem miða að því að uppfylla þarfir og væntingar íbúa á dreifbýlum svæðum. Samhliða verði sett saman verkefnisáætlun sem stuðli að nánari samvinnu á milli svæða, um nýjar leiðir til að laða að nýsköpunarfyrirtæki, um að skapa ný eftirsóknarverð störf, að byggja upp nýja og endurbætta færni launþega, um að tryggja betri innviði og þjónustu á svæðunum, að styrkja sjálfbæran landbúnað og stöðu fjölbreyttra atvinnuhátta.
Sterkari samfélög
Lykillinn að því að finna lausnir og fjárfestingatækifæri sem sniðin eru að aðstæðum á hverju svæði er m.a. að stuðla að jafnri þátttöku kynjanna við stefnumótun og ákvörðunartöku í samráði við breiðan hóp hagsmunaaðila og stjórnvöld á öllum stigum. Nýsköpun og stafrænar lausnir eru mikilvægur þáttur við að bæta og auka framboð á þjónustu og ýta undir framþróun samfélagsins í heild.
Samtengdar byggðir
Mikilvægt er að viðhalda og endurbæta almenningssamgöngur og upplýsingainnviði sem eru grundvallarskilyrði fyrir betur tengdum dreifbýlissvæðum. Framþróun dreifbýlla svæða er háð góðum samgöngutengingum á milli svæða, byggðalaga og við borgarsamfélög.
Þrautseigar byggðir
Vernd náttúruauðlinda, endurheimt landslags (e. restoration of landscapes) og varðveisla menningararfleifðar, grænn búskapur og styttri aðfangakeðja stuðlar að seiglu gagnvart loftlagsbreytingum, náttúruvá og efnahagslegum samdrætti á dreifbýlum svæðum. Þjónusta sem verndar vistkerfi og kolefnishlutlausar lausnir eiga oft uppruna sinn á dreifbýlum svæðum sem gegna mikilvægu hlutverki í sjálfbærum vistkerfum og hringrásarhagkerfinu.
Hagsæld
Hagsæld getur orðið meiri á dreifbýlum svæðum með fjölbreyttari hagkerfi með nýjum atvinnugreinum sem styrkja atvinnu og hafa virðisaukandi áhrif á búskap og matvælaframleiðslu. Byggja þarf fjölbreyttara atvinnulíf á stefnumörkun um sjálfbært nærhagkerfi að meðtöldum ráðstöfunum um að gera umhverfið aðlaðandi fyrir fyrirtæki og auka stafræna færni. Þannig er stuðlað að því að halda sanngjörnum hluta verðmætasköpunar landbúnaðar í héraði.
Endurskoðun á hlutverki og verkefnum Siglingastofnunar Evrópu
Framkvæmdastjórnin vinnur að endurskoðun á hlutverki Siglingastofnunar Evrópu, sem Ísland á aðild að, og hyggst leggja fram tillögur um breytt hlutverk stofnunarinnar á fjórða árshluta 2022. Framkvæmdastjórnin hefur birt tímasetta áætlun á samráðsvef sínum (roadmap on the review of the mandate of the European Maritime Safety Agency (EMSA) og óskar eftir hugmyndum hagsmunaaðila um málið. Til skoðunar er að skerpa á hlutverki stofnunarinnar í stafrænni þróun og sjálfbærni, styrkja lagagrunn starfseminnar, styðja betur við systurstofnanir í aðildarríkjum og auka hlutverk stofnunarinnar í verndar og öryggismálum allt frá sjóránum til netglæpa.
Eftirlit með fiskveiðum: Ráðherraráðið vill fara hægar í sakirnar
Á ráðherrafundi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ESB í lok júní sl. var samþykkt samningsafstaða vegna tillögu framkvæmdastjórnarinnar um eftirlit með fiskveiðum. Þar er almennt lagt til að draga heldur í land miðað við áform framkvæmdastjórnarinnar. Þannig leggur ráðið til breytingu á reglum um hverju megi skeika þegar borinn er saman áætlaður afli samkvæmt veiðidagbók og veginn afli við löndun. Auka eigi svigrúm vegna lítils afla og varðandi tilteknar fisktegundir. Þá leggur ráðið til að rafrænt fjareftirlit (í formi myndavéla eða skynjunarbúnaðar) verði einungis skylda þegar bátar eru lengri en 24 metrar og hætta á brotum er talin mikil. Ennfremur verði dregið úr kröfum um rekjanleika sjávarfangs miðað við tillögur framkvæmdastjórnarinnar sem Evróþingið hafði tekið undir. Þannig verði ekki gerð krafa um nýtingu stafrænnar tækni og krafan einungis látin ná til ferskfisks en ekki unnins, niðursoðins, frysts, reykts eða saltaðs. Samtök sem berjast fyrir hertu eftirliti með fiskveiðum hafa gagnrýnt þessa nálgun ráðherraráðsins.
Mikilvægar tillögur í loftslagsmálum væntanlegar um miðjan júlí
Von er á tillögum framkvæmdastjórnarinnar um næstu skref í loftslagsmálum 14. júlí næstkomandi. Verður þar um að ræða tillögur um hvernig eigi að ná því markmiði að samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda verði 55% árið 2030 miðað við árið 1990. Meðal væntanlegra tillagna eru endurskoðaðar reglur um viðskipti með losunarheimildir og aðgerðir til að takast á við kolefnisleka yfir landamæri.
Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.
Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.
Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].