Rætt um að setja gildi bólusetningar tímamörk
Að þessu sinni er fjallað um:
- tillögur framkvæmdastjórnarinnar um gildistíma bólusetningar
- fund EES-ráðsins
- hlutverk samkeppnisreglna í endurreisn efnahagslífs
- samkomulag um endurskoðaða landbúnaðarstefnu
- tillögur um pólitískar auglýsingar
- vinnu við stafræna grundvallarlöggjöf
- áhrif loftslagstillagna á flug
Framkvæmdastjórnin leggur til 9 mánaða gildistíma
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði til á fimmtudag, 25. nóvember, að bólusetning vegna Covid-19 myndi gilda í 9 mánuði. Þá lagði hún jafnframt til að reglur um för yfir landamæri myndu frekar taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum heldur en því landi sem ferðalangur kemur frá.
Sl. sumar var innleitt samræmt Covid-19 vottorð fyrir EES-svæðið. Þar er að finna staðfestingu á að ferðamaður hafi verið bólusettur, að hann hafi náð sér af fyrri sýkingu eða farið í próf. Nú þegar allt bendir til að vörn bólusetningar dvíni eftir 5-6 mánuði hafa aðildarríkin kallað eftir skýrari línum í þessu efni. Evrópska sóttvarnastofnunin (ECDC) hefur lagt til að heilbrigðisyfirvöld bjóði upp á örvunarskammt þegar sex mánuðir eru liðnir frá bólusetningu. Tillaga framkvæmdastjórnarinnar miðar við að veita einstaklingnum svigrúm í þrjá mánuði til að ljúka þeirri viðbótarbólusetningu. Gert er ráð fyrir að hún gangi í gildi 10. janúar næstkomandi.
Með tillögum framkvæmdastjórnarinnar verða einnig breytingar á litakóðun landa eins og hún hefur birst vikulega á korti ECDC. Kortið mun fyrst og fremst þjóna þeim tilgangi að vera til upplýsingar en þó er enn gert ráð fyrir að tillit verði tekið til þess ef farþegar kom frá grænum svæðum (þar sem verði þá engar takmarkanir á för) og dökkrauðum svæðum þar sem sérstakar ráðstafanir séu heimilaðar gagnvart viðkomandi farþegum.
Að því er varðar farþega frá löndum utan Schengen er gert ráð fyrir að hætta með sérstakan undanþágulista yfir lönd í mars næstkomandi og horfa frekar til stöðu hvers og eins farþega. Þá verður bólusetning með bóluefnum sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur samþykkt einnig metin gild, en þó með þeim fyrirvara að farþegar framvísi nýlegu PCR-prófi.
Tillögur framkvæmdastjórnarinnar eru nú til umfjöllunar í vinnuhópi á vegum ráðherraráðsins, IPCR, þar sem EFTA-ríkin eru einnig með fulltrúa. Jafnframt er til skoðunar að breyta reglugerð um Covid-19 vottorðin til þess að nýi gildistími bólusetningar verði ekki einungis tiltekinn í tilmælum heldur einnig í lagalega skuldbindandi texta.
Græn umskipti og stafræn þróun til umræðu á EES-ráðsfundi
Samstarf ríkja Evrópska efnahagssvæðisins til að tryggja lykilaðföng og hraðari græn umskipti og stafræna þróun voru meðal umræðuefna á fundi EES-ráðsins sem fram fór í Brussel 24. nóvember sl. Í umræðu um alþjóðamál samhliða fundinum var einnig rætt um samskiptin við Kína, stöðu mála í Belarús og nýjan vegvísi Evrópusambandsins á sviði öryggis- og varnarmála. Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel, fór fyrir sendinefnd Íslands í fjarveru utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
Á fundinum var einnig rætt um stöðu og framkvæmd EES-samningsins. Lagði Ísland áherslu á góða framkvæmd samningsins og það að standa vörð um tveggja stoða kerfi hans. Ítrekaði Ísland jafnframt kröfu sína um bættan markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir inn til ESB. Það væri umhugsunarefni að á sama tíma og EFTA-ríkin innan EES hefðu sífellt bætt í framlög til Uppbyggingarsjóðs EES hefði markaðsaðgangur ríkjanna fyrir sjávarafurðir í besta falli staðið í stað. Þá væri mikilvægt að flýta vinnu við endurskoðun landbúnaðarsamnings Íslands og ESB til að takast á við það ójafnvægi sem í samningnum fælist.
Þingmannanefnd og ráðgjafarnefnd EFTA funduðu einnig um fríverslunarnet samtakanna í tengslum við fund EES-ráðsins. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók þátt í fundinum með fjarfundarbúnaði en Ísland er í formennsku í EFTA-samstarfinu um þessar mundir.
EES-ráðið kemur saman til fundar tvisvar á ári og er hlutverk þess einkum að vera pólitískur aflvaki við framkvæmd EES-samningsins. EES-ráðið er skipað utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES og fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar og ráðherraráðs ESB.
Sjá nánar fréttatilkynningu á vef utanríkisráðuneytisins og yfirlýsingu EFTA-ríkjanna í EES um EES-ráðsfundinn þar sem það er harmað að ekki hafi orðið samstaða um sameiginlegar niðurstöður.
Hlutverk samkeppnisreglna í endurreisn efnahagslífs
Orðsending framkvæmdastjórnar ESB um áherslur í samkeppnismálum í ljósi nýrra áskorana var birt 18. nóvember s.l.
Í orðsendingunni er áhersla lögð á sveigjanleika samkeppnisstefnu ESB og að hún sé öflugt tæki til að aðlagast breyttum aðstæðum á markaði og ekki síður til að takast á við þarfir neytenda. Þá er einnig farið yfir hlutverk samkeppnisstefnu í endurreisn efnahagslífsins, græna og stafræna umbreytingu og þrautseigju innri markaðarins.
Hér eru nokkur dæmi um nýmæli í orðsendingunni:
- Stuðningur við fjárframlög Evrópuríkja í krísunni vegna Covid-faraldursins (State Aid Temporary Framwework) er framlengdur til júníloka á næsta ári.
- Á næstunni verða birtar leiðbeiningar ESB vegna styrkja á sviði loftslagsmála, umhverfisverndar og orkumála (Climate, Environmental Protection and Energy Aid Guidelines). Þar verða skilgreind framlög EBS til grænnar umbreytingar; stuðningur við að ná fram kolefnishlutleysi, hringrásarhagkerfi og líffræðilegum fjölbreytileika. Einnig til þess að ná fram markmiðum um núll-útblástur í samgöngum og orkunýtni bygginga.
- Þá stendur til að framkvæmdastjórnin gefi út leiðbeiningar og tryggi lagalega umgjörð fyrir sjálfbærari vörur og framleiðsluferla þeirra. Þetta yrði hluti af uppfærslu The Horizontal Block Exemption Regulations sem m.a. tekur á undanþágum vegna samruna og stærðar fyrirtækja.
- Hvað stafrænu umbreytinguna varðar stendur fyrir dyrum að gera sérstakar leiðbeiningar varðandi gagnaflutning, Broadband State aid Guidelines, en þeim er ætlað að hlúa að stafrænum innviðum og stuðla að betri dreifingu slíkrar þjónustu.
- Framkvæmdastjórnin hefur einnig hert eftirlit með yfirtöku og samruna fyrirtækja sem reikna má með að hindri eðlilega samkeppni í þessum geira. Í þessu sambandi er sérstaklega beint sjónum að 22. grein samrunareglugerðarinnar (Merger Regulation): https://ec.europa.eu/competition/consultations/2021_merger_control/guidance_article_22_referrals.pdf
- Ofangreindu er ætlað að vera hvatning til aðildarríkjanna um að fara varlega á þessu sviði og leyfir framkvæmdastjórninni að endurskoða samruna nýsköpunarfyrirtækja á sviði stafrænna lausna sem líkleg eru til að starfa á samkeppnismarkaði.
- Framkvæmdastjórnin hyggst halda áfram að styðja aðildarríkin við að berja í markaðsbresti með því að leyfa fjárfestingar í nýsköpunar- og innviðafyrirtækjum t.d. á sviði vetnis, skýjalausna, heilbrigðismála og öreindatækni.
Að lokum er þess getið að leitast verður við að hafa evrópskar samkeppnisreglur sveigjanlegar en þó skuli ávallt tryggt að innri markaðurinn verði sem fyrr samkeppnishæfur og flutningaleiðir öruggar
Samkomulag um endurskoðaða landbúnaðarstefnu
Eftir samningaviðræður í þrjú og hálft ár er samkomulag nú í höfn um breytingar á sameiginlegri landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins. Breytingarnar munu ganga í gildi í ársbyrjun 2023. Meirihluti þingmanna á Evrópuþinginu féllst á samkomulagið sl. þriðjudag og er nú beðið formlegrar afgreiðslu ráðherraráðsins. Samkvæmt samkomulaginu verða útgjöld til málaflokksins u.þ.b. 50 milljarðar evra á ári fram til 2027 en það er um þriðjungur fjárlaga ESB og fá Frakkar þar mest í sinn hlut.
Græningjar og sósíalistar lögðust flestir gegn samkomulaginu og telja ekki nógu langt gengið í þágu umhverfisverndar. Nú eru 30% stuðnings við bændur háð því skilyrði að gripið sé til aðgerða í þágu umhverfisins, eins og sáðskipta. Með nýju stefnunni hækkar þetta hlutfall í 78% að meðaltali. Þá verður fjórðungur beinna styrkja frátekinn fyrir svokallaðan grænan landbúnað sem hvert og eitt aðildarríki þarf að skilgreina í landbúnaðarstefnu sinni.
Reglur um pólitískar auglýsingar kynntar
Framkvæmdastjórnin kynnti í vikunni tillögur sem miða að því að bæta regluverk í tengslum við kosningar og lýðræðislegra umræðu. Þar er m.a. lögð til ný reglugerð um pólitískar auglýsingar. Þar er gert ráð fyrir að allar slíkar auglýsingar þurfi að vera auðkenndar sérstaklega og geyma upplýsingar um hver standi á bak við þær og hve mikið hafi verið greitt fyrir. Einnig ber auglýsendum á þessu sviði að útskýra markaðsstefnu sína og hvernig markhópur sé fundinn. Reglugerðin er merkt EES-tæk sem þýðir að lagt er upp með að hún muni einnig gilda á Íslandi.
Nýjar reglur um þetta efni voru settar á Íslandi fyrr á þessu ári, sbr. svohljóðandi ákvæði sem kom inn í lög um fjármál stjórnmálasamtaka o.fl. nr. 162/2006: „Stjórnmálasamtökum, kjörnum fulltrúum þeirra og frambjóðendum, sem og frambjóðendum í persónukjöri, er óheimilt að fjármagna, birta eða taka þátt í birtingu efnis eða auglýsinga í tengslum við stjórnmálabaráttu nema fram komi við birtingu að efnið sé birt að tilstuðlan eða með þátttöku þeirra.
Frá þeim degi er kjördagur hefur formlega verið auglýstur vegna kosninga til Alþingis, til sveitarstjórna eða til embættis forseta Íslands, svo og vegna boðaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu, skulu auglýsingar og annað kostað efni, sem ætlað er að hafa áhrif á úrslit kosninga, vera merkt auglýsanda eða ábyrgðarmanni.“
Vinnu við stafræna grundvallarlöggjöf miðar vel
Vinnu að nýrri löggjöf um stafræn málefni miðar ágætlega. Ljóst virðist að þessar reglur muni hafa áhrif mun víðar en í Evrópusambandinu. Tilgangurinn með nýju reglunum er að setja stórum netþjónustuaðilum skorður og auka neytendavernd. Í svokölluðum Digital Services Act (DSA) bálki snýst þetta um ólöglegt efni og að koma böndum á notkun algóriþma. Digital Markets Act (DMA) fjallar hins vegar um samkeppni og skilyrði hennar.
Í vikunni komu aðildarríkin sér saman um afstöðu til beggja tillagna. Evrópuþingið er ekki komið jafn langt eð búist er við afstöðu þess í byrjun næsta árs. Þá geta svokallaðar þríhliða viðræður, ráðs, þings og framkvæmdastjórnar hafist.
Samkvæmt því sem fram hefur komið hafa aðildarríkin sæst á að banna svokölluð dökk mynstur (e. dark patterns) þar sem notendur vefsíðna eru fengnir til að gera eitthvað óafvitandi eins og gerast áskrifendur að efni eða fallast á vefkökur.
Í annan stað sér ráðherraráðið fyrir sér að mjög stórar leitarvélar verði skyldaðar til að eyða ólöglegu efni tafarlaust. Þar undir falla væntanlega helst Google og Bing en einnig hópar sem fá sömu skilaboðin eins og í gegnum Telegram enda séu þeir ótakmarkað stórir. Ráðið er hins vegar ekki á því að banna markvissar auglýsingar með hjálp upplýsinga um nethegðun notenda. Þar er hluti þingmanna hins vegar á öðru máli. Annað atriði sem gæti reynst erfitt í samningaviðræðum er verkaskipting milli framkvæmdastjórnarinnar og aðildarríkja við eftirfylgni með reglum.
Tillögur „Í formi fyrir 55“ pakkans er varða flug
Í október sl. var lögð fram skýrsla í TRAN nefnd Evrópuþingsins, þ.e. samgöngu- og ferðamálanefnd þingsins, sem unnin var að beiðni nefndarinnar og fjallar um áhrif nýrra tillagna „í formi fyrir 55“ pakkans, COM(2021) 552, um að fella siglingar undir tilskipun ESB um ETS viðskiptakerfi með losunarheimildir og um breytingu á ákvæðum tilskipunarinnar sem varða flug.
Í þessari samantekt er farið yfir helstu niðurstöður skýrslunnar, en eingöngu er fjallað um áhrif tillagnanna á flugstarfsemi. Flug er nær eini samgöngumátinn fyrir almenning á Íslandi til að ferðast til annarra landa og skipta því tillögurnar miklu máli fyrir íslenskar aðstæður. Sömuleiðis hafa þær mikil áhrif á starfsemi íslenskra flugfélaga og er hér farið yfir þau atriði skýrslunnar sem geta skipt máli fyrir flugrekstur á EES svæðinu.
Einnig er stuttlega farið yfir ákvæði tveggja annarra tillagna „í formi fyrir 55“ pakkans, þ.e. tillögu að reglugerð „ReFuel Aviation“ COM (2021) 561 sem fjallar um íblöndun á flugvélaeldsneyti og svo tillögu að breytingum á tilskipun um orkuskatta, COM (2021) 563 sem lagt er til að gildi einnig fyrir eldsneyti til flugrekenda.
Tillögurnar eru merktar EES tækar og koma samkvæmt því til með að gilda á EES svæðinu, væntanlega eins og þær enda eftir umfjöllun ráðherraráðs ESB og þingsins.
Í tillögu framkvæmdastjórnarinnar um breytingu á ETS kerfinu eru ákvæði um að aðlaga ETS viðskiptakerfið að samþykktum aðildarríkja Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um CORSIA kerfið.
CORSIA kerfið er frábrugðið ETS kerfinu á margan hátt. Það er alþjóðlegt og skuldbindur aðildarríki ICAO til að kolefnisjafna losun frá milliríkjaflugi sem er umfram losun 2019/2020. Auk þess skuldbinda þau sig til að draga úr losun, sem svarar 50% af þeirri losun sem var 2005, fyrir árið 2050. Ríki/flugfélög geta uppfyllt CORSIA skuldbindingar sínar með kaupum á losunarheimildum og með öðrum ráðstöfunum, t.d. að taka í notkun sparneytnari flugvélar, skipta yfir í umhverfisvæna orkugjafa, taka upp skilvirkari flugferla o.s.frv. Kostnaðaráhrif CORSIA samþykktarinnar á flugstarfsemi er mun minni en kostnaðaráhrif ETS kerfisins.
Tillaga um breytingu á viðskiptakerfi með losunarheimildir, ETS kerfinu, gerir ráð fyrir að núgildandi kerfi komi til með að gilda áfram um flug innan EES. Núgildandi tilskipun gildir ekki fyrir flug út af EES svæðinu, en lagt er til að það verði tekið inn í kerfið í lok árs 2023 og að ákvæði CORSIA kerfisins gildi fyrir flug á milli EES og ríkja sem eiga aðild að CORSIA samþykktinni. Lagt er til að ETS kerfið gildi áfram fyrir flug til og frá Bretlandi og í nokkrum undantekningartilfellum fyrir flug til þriðju ríkja. Þá er lagt til að frá árinu 2027 gildi ETS fyrir flug til ríkja sem eiga ekki aðild að CORSIA samþykktinni.
Lagt er til að gildissvið tillögunnar um breytingu á ETS fyrir flug verði óbreytt, takmarkist við flugvélar með að lágmarki 5,7 tonna flugtaksþyngd og ná ekki til herflugvéla, ríkisflugs, björgunarflugs, sjúkraflugs, flugvéla í slökkvistarfi, flugs vegna mannúðarmála, kennsluflugs o.fl. Gildissvið CORSIA samþykktarinnar er ekki alveg það sama, gildir t.d. ekki fyrir þyrlur.
Í tillögunni er lagt til að hætta úthlutun EUAA (byggir á sögulegri losun frá flugi) losunarheimilda, sem er 82% af heildarkvóta, án endurgjalds þannig að greitt verður fyrir allar losunarheimildir frá 2027. Einnig er lagt til að dregið verði úr framboði á EUAA losunarheimildum fyrir flug um 4,2% árlega en núgildandi lækkunarstuðull er 2%. Þegar ETS kerfið tók gildi fyrir flugstarfsemi 2012 var heildarkvóti EUAA heimilda til ráðstöfunar 95% af losun frá flugi yfir 2004-2006. Áfram geta flugrekendur keypt EUA losunarheimildir (almennar losunarheimildir sambandsins til dæmis fyrir iðnað og orkuvinnslu) fyrir starfsemi sína.
Í tillögu framkvæmdastjórnarinnar „ReFuelEU Aviation“ er sett fram krafa um að flugvélaeldsneyti verði blandað endurnýjanlegum orkugjöfum. Í upphafi verði íblöndunin 2 % árið 2025, fari í 5 % frá 2030, 20 % frá 2035, 32 % frá 2040, 38 % frá 2045 og verði 63 % frá 2050. Þar af skuli hlutfall rafeldsneytis vera 0.7 % árið 2030 og fari í 5 % frá 2035, 8 % frá 2040, 11 % frá 2045 og 28 % frá 2050. Íblöndunarkrafan er ekki bundin við flug innan EES heldur að hún taki til alls flugs við brottför frá evrópskum flugvöllum að meðtöldum flugvélum skráðum utan Evrópu. Það að krafan gildi um allt flug er ætlað að lágmarka hættu á eldsneytishagræðingu og kolefnisleka.
Sem hluta af „í formi fyrir 55“ pakkanum birti framkvæmdastjórnin einnig tillögu að breytingu á tilskipun um skattlagningu orku, COM (2021) 563 sem inniheldur tillögur um skattlagningu á eldsneyti og rafmagn sem er nýtt til að knýja flugvélar innan EES. Tillagan er merkt EES tæk og gerir ráð fyrir stighækkandi skattlagningu sem hefst 2023 og hækkar um sem svarar 0,037 Evrur (10% af lokafjárhæðinni) á ári þar til að hún nær 0,37 Evrum á líter af flugvélaeldsneyti árið 2033. Skatturinn er á orkueiningu, óháð orkugjafa, og leggst því einnig á raforku til að knýja flugvélar sem enn eru fáar hvað sem síðar verður.
Loks eru í tillögunni um breytingu á EU ETS tilskipuninni ákvæði um nýtingu tekna frá uppboði losunarheimilda, þ.e.a.s. þess hluta sem ekki rennur til framkvæmdastjórnarinnar. Skulu a.m.k. 50% tekna renna til tiltekinna aðgerða, s.s. að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þróa endurnýjanlegt eldsneyti, til kolefnisbindingar og til að bæta orkunýtingu.
Fram kemur í skýrslunni að flugrekendur hafi almennt litið á ETS kerfið jákvæðum augum, en gagnrýnt uppsafnaða skattheimtu á flugrekstur sem sértækir farþegaskattar, álagning olíugjalda, kröfur um íblöndun eldsneytis, ETS, og CORSIA fela í sér.
Samkeppnisstaða flugrekenda skrásettra á EES svæðinu
Samkvæmt skýrslu TRAN nefndarinnar hafa breytingatillögurnar lítil áhrif á samkeppnisstöðu flugs innan EES og heldur ekki á beint flug á milli EES og þriðju ríkja. Þær hafa engu að síður í nokkrum tilfellum neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu evrópskra flugfélaga. Stærst eru áhrifin á flugfélög sem byggja leiðakerfi sitt á tengiflugsmiðstöð á flugvelli innan EES (t.d. Amsterdam, Frankfurt, Keflavík) fyrir skiptifarþega með upphaf ferðar innan EES sem skipta á EES flugvelli í flug á leið til áfangastaðar utan EES. Flugfélögin greiða gjöld samkvæmt ETS tilskipuninni fyrir flug til og frá skiptiflugvelli innan EES, svo samkvæmt CORSIA fyrir áfram flug til áfangastaðar utan EES.
Flugfélög í beinu flugi á milli sömu áfangastaða greiða gjöld samkvæmt CORSIA kerfinu alla leið sem er mun lægra en sem svarar verði á losunarheimildum ETS. Sama gildir um tengiflugvelli utan EES (t.d. Istanbul). Þar greiða flugfélög samkvæmt CORSIA kerfinu fyrir flug á skiptiflugvöllinn og einnig áfram fyrir flugið til annars áfangastaðar í þriðja ríki.
Metið er að árlega fari um 10% farþega (af 230 milljónum) um skiptiflugvöll innan EES á leið út af svæðinu og um 15% farþega fari um skiptiflugvöll utan EES (t.d. Istanbul) á leið frá EES ríki til þriðju ríkja.
Áhrif á flugfarþega
Það er mat skýrsluhöfunda að hvorutveggja það að hætta úthlutun losunarheimilda án endurgjalds og að draga úr framboði á sértækum losunarheimildum fyrir flug muni leiða til hækkunar á kostnaði fyrir flugrekendur. Það muni endurspeglast í verði flugmiða að því marki sem flugfélögin geta velt kostnaði yfir á farþega. Kostnaðarhækkunin yrði fyrst og fremst á flugi sem fellur undir ETS kerfið.
Höfundarnir settu upp þrjár sviðsmyndir um áhrif verðs á losunarheimildum, 120 Evrur, 83 Evrur og 45 Evrur á flugmiða. Fjárhæðin 120 Evrur á tonn af losunarheimildum inniheldur mat höfundanna á áhrifum af fækkun losunarheimilda og telja þeir hana því líklega niðurstöðu. Miðað við 120 Evrur fyrir tonnið af losunarheimild gæti hækkun á verði flugmiða numið að meðaltali 9% og legið á bilinu 1,25 Evrur til 11 Evrur á farmiða eftir flugleiðum. Meðalhækkun á flugmiða yrði 6,3% og 2,6% miðað við hinar tvær sviðsmyndirnar. Kostnaðarhækkunin yrði einnig á flugmiða á flug innan EES til skiptiflugvalla (Frankfurt, Keflavík) fyrir farþega í áframflugi út af EES svæðinu.
Skýrsluhöfundarnir fjalla einungis um áhrif ETS kerfisins á flugmiða, en eins og áður var vikið að geta aðrar tillögur „í formi fyrir 55“ pakkans einnig haft áhrif á verð flugmiða til hækkunar. Óvissan um verðhækkun á flugmiðum vegna íblöndunarkröfu tillögu að RefuelEU Aviation er enn mikil þar sem markaðir fyrir vistvænt eldsneyti eru ófullkomnir og framboð enn mjög takmarkað. Verð á vistvænu eldsneyti fyrir flug er 3-10 sinnum hærra, eftir tegund eldsneytis, en verð á hefðbundnu eldsneyti og gætu áhrifin miðað við núverandi stöðu orðið mikil. Framkvæmdastjórnin gerir hins vegar ekki ráð fyrir miklum kostnaðarauka vegna íblöndunarkröfunnar fyrir flugfélögin og byggir mat sitt á þeirri forsendu að verðið mun lækka verulega þegar markaðir þroskast og framleiðslan nær hagkvæmni stærðarinnar.
Áhrif á flugstarfsemi og samfélagið
Höfundar TRAN skýrslunnar fjalla um ýmis áhrif tillögu breytinga á ETS kerfinu á flugfélög og efnahagskerfið. Í skýrslunni kemur fram að aukin gjaldtaka og minna framboð á losunarheimildum muni leiða til hærra verðs á flugmiðum á bilinu 2,7% - 9%. Miðað við þá verðteygni sem höfundarnir gefa sér leiðir hærra verð á flugmiðum til lægri eftirspurnar á flugi á milli EES áfangastaða sem svarar á bilinu 2,5-8,3%. Fyrir allt flug innan EES að meðtöldu flugi út af EES svæðinu má búast við lægri eftirspurn sem svarar 1,7% - 5,6%. Loks má búast við 03% - 0,9% lægri eftirspurn á flugi út af EES svæðinu.
Höfundarnir búast við miðað við ofangreindar forsendur að störfum innan EES gæti fækkað um 10-35 þúsund af 633 þúsund störfum innan greinarinnar.
Hærri kostnaður flugfélaga með starfsemi innan EES gæti haft ýmis hliðaráhrif, s.s. að þau verði metin lakari fjárfestingakostur alþjóðlegra fjárfesta og að hann muni draga úr getu þeirra til að endurnýja flugflota þ.e.a.s. ef þau geta ekki flutt aukinn kostnað yfir í farmiða.
Höfundar miða við að hærri gjöld ETS kerfisins samanborið við CORSIA kerfið leiði til lakari samkeppnisstöðu evrópskra flugfélaga/flugvalla sem nota skiptiflugvelli innan EES. Lakari samkeppnisstaða geti leitt til aukinnar umferðar á skiptiflugvöllum utan EES og styrkt stöðu flugrekenda skráðra utan EES á kostnað flugrekenda með staðfestu innan EES. Að mati skýrsluhöfunda getur það orsakað minni markaðshlutdeild evrópskra flugfélaga sem nýta skiptiflugvelli fyrir flug út af EES svæðinu og tilhliðrun á núverandi skipulagningu á flugi.
Þessi mismunun gæti t.d. einnig haft þau áhrif að Evrópubúar færu í auknum mæli til orlofsstaða utan EES svæðisins, t.d. Tyrklands eða Egyptalands vegna hlutfallslega lægri fargjalda.
Loks gæti mismunur á samkeppnisstöðu leitt til kolefnisleka (e. carbon leakage) við það að farþegar flytjast frá flugleiðum sem ETS gildir um yfir á CORSIA flugleiðir sem búa við vægari losunarkröfur.
Mögulegar mótvægisaðgerðir
Verði tillagan um ETS kerfið óbreytt að veruleika búa evrópsk flugfélög, sem nota skiptiflugvöll innan EES fyrir flugleiðir út af EES svæðinu, við lakari samkeppnisstöðum en þau flugfélög sem fljúga beint á milli áfangastaða eða nota skiptiflugvöll utan EES fyrir flug út af svæðinu. Skýrsluhöfundar leggja til að sett verði upp kerfi sem dregur úr þessum samkeppnismun og dragi um leið úr mögulegum kolefnisleka. Kerfið gengur út á að lækka álögur á flugfélög vegna ETS og eldsneytisgjöld í réttu hlutfalli við fjölda farþega sem halda áfram út af EES svæðinu og jafna þannig mismunandi samkeppnisstöðu á milli tengiflugs innan EES og tengiflugs utan EES og beins flugs til þriðju ríkja.
Að öðru leyti setja höfundar skýrslunnar ekki fram tillögur um að bregðast við hærra verði flugmiða. Í tilfelli flugs í Evrópu hefur almenningur oft val um aðra samgöngumáta. Almennt er gert ráð fyrir að ferðir færist í auknum mæli yfir á umhverfisvænni ferðamáta, s.s. lestir, sérstaklega ef ekki er ferðast yfir 500 km vegalengd. Litið er á hækkun kostnaðar vegna kolefnisheimilda sem eðlilegan kostnað við að bregðast við loftlagsvánni en í sumum tilfellum t.d. varðandi kolakyndingu orkuvera hefur verið rætt um að nýta tekjur af sölu losunarheimilda til þess að létta undir með viðkvæmum hópum.
***
Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.
Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.
Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].