Hoppa yfir valmynd
04. mars 2022 Brussel-vaktin

Ísland tekur fullan þátt í þvingunaraðgerðum er beinast að Rússum

Að þessu sinni er fjallað um:

  • viðbrögð við innrás Rússa í Úkraínu
  • fund samgönguráðherra ESB sem fulltrúum EFTA-ríkjanna var einnig boðið til
  • samráð um fyrirhugaðar breytingar á reglum um ökuskírteini og umferðarlagabrot
  • tillögur um geimverkefni
  • félagslega hlið sjálfbærrar fjármögnunar
  • tillögu að reglugerð um hagnýtingu gagna

Mikil samstaða um viðbrögð

Innrás Rússa í Úkraínu fimmtudaginn 24. febrúar sl. hefur vakið hörð viðbrögð um allan heim. Evrópusambandið hefur samþykkt refsiaðgerðir í nokkrum áföngum og hafa EFTA-ríkin þrjú, þar á meðal Ísland, tekið þátt í undirbúningi og samþykkt aðgerðanna. Neyðarvettvangur ESB, Integrated Policy Crisis Response, verður nýttur til að ræða samhæfingu aðgerða og eiga fulltrúar Íslands þar sæti.

Neyðaraðstoð við Úkraínumenn sem eru á flótta er samræmd í gegnum almannavarnakerfi ríkja Evrópusambandsins. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra á aðild að því kerfi og þar er hjálparbeiðnum safnað saman miðlægt.

Forsætisráðherra átti í gær og fyrradag fundi með ráðamönnum hjá NATO og Evrópusambandinu um Úkraínumálið í Brussel. Utanríkisráðherra tók þátt í fundi utanríkisráðherra NATO í morgun. Þá sat dómsmálaráðherra fund starfssystkina sinna í Brussel. Ákveðið hefur verið að veita fólki frá Úkraínu tímabundna vernd af mannúðarástæðum. Sjá nánar á vef Stjórnarráðsins.

Nýsköpun og vinnuumhverfi í samgöngum

Frakkland, sem fer með formennsku í ráðherraráði ESB, boðaði til óformlegs ráðherrafundar í Le Bourget 21. og 22. febrúar sl. Innviðaráðherra var boðið til fundarins og var hann sóttur af Ragnhildi Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra og Sigurbergi Björnssyni frá sendiráðinu í Brussel. Fundarstaðurinn var í loft - og geimferðasafninu við gamla flugvöllinn í Le Bourget í Frakklandi. Megin umfjöllunarefni fundarins voru nýsköpun í samgöngum, að draga úr losun kolefnis frá samgöngum og vinnuumhverfi starfsmanna í samgöngum.

Losun kolefnis frá samgöngum

Á fundinum ítrekuðu ráðherrarnir stuðning sinn við að flýta og auðvelda víðtæka uppsetningu rafhleðslustöðva til að mæta núverandi og framtíðarþörfum, einkum fyrir létt ökutæki, auk þess að hvetja til þróunar á endurnýjanlegu og lágkolefnavetni. Gæði þjónustu og upplýsinga fyrir notendur, samvirkni búnaðar og hagkvæmt verð eru lykilþættir fyrir þessa þróun.

Fram komu þau sjónarmið að vinna þarf að þróun tækni fyrir þung ökutæki einkum þeirra sem eru í langakstri. Famleiðendur ökutækja og notendur geta byggt ákvarðanir sínar á skýrri sýn með eðlilegum tímaramma sem þarf til þess að þróa fjölbreytta tækni fyrir fjölbreytta notkun.

Í umræðunum komu fram þau viðhorf að nauðsynlegt væri að gæta að samkeppnisstöðu evrópskra fyrirtækja og um leið að verjast kolefnisleka við orkuskipti í samgöngum. Voru samgönguinnviðir í útjaðri Evrópu s.v. sem tengiflugvellir nefnir í því sambandi.

RH sagði að í janúar voru 89% nýskráðra bílar hreinorku eða tengitvinnbílar. Vetnisvæðing þungra ökutækja væri enn hænu og egg vandamál, hvorki væru vetnisstöðvar né nægilegt úrval vetnisbíla fyrir hendi til þess að styðja við upptöku þeirra. Nauðsynlegt væri að styðja við nýsköpun bæði með styrkjum og reglusetningu.

Nýsköpun í samgöngum

Í umræðum ráðherranna komu fram sjónarmið um að flétta þyrfti saman og ná jafnvægi á milli nýrrar stafrænnar þjónustu og núverandi viðskiptalíkön starfandi fyrirtækja í greininni. Til dæmis hefur Evrópusambandið mikilvægu hlutverki að gegna í útfærslu sjálfkeyrandi ökutækja. Útfærslan krefst samræmds regluverks um öryggi, ábyrgð allra hlutaðeiganda og um gagnamiðlun.

Í ljósi umfangs þeirra breytinga sem verða vegna víðtækrar notkunar stafrænna gagna má búast við að þau komi til með að gegna lykilhlutverki í flutningageiranum. Mikilvægt er að Evrópa verði leiðandi í þessari þróun, ekki síst til þess að tryggja gagna- og netöryggi.

Ísland lagði áherslu á nauðsyn samþættra lausna, þ.e. innviða, farartækja og gagna. Horfa þyrfti til alþjóðlegra staðla. Notkun staðlaðra lausna væri mikilvæg til þess að tryggja hagkvæmar lausnir, en engu að síður mætti hún ekki hamla nýsköpun.  

Betra vinnuumhverfi samgöngustarfsmanna

Til að bregðast við vaxandi vanda við að fá fólk til starfa í samgöngum þarf að grípa til markvissra ráðstafana á evrópskum vettvangi til gera samgöngustörf aðlaðandi, einkum fyrir ungt fólk og konur.

Tækifæri eru til að bæta vinnuumhverfi ökumanna í flutningum á vegum með því að nýta stafræna tækni til þess að einfalda eftirfylgni og beitingu reglna. Vinnuumhverfi farmanna hafa versnað vegna Covid faraldursins. Nokkrar tillögur eru til umræðu um samræmingu krafna um menntun og þjálfun en um leið að viðhalda samkeppnishæfni greinarinnar.

Varðandi flug þá voru ráðherrarnir sammála um þörf fyrir að stuðla að félagslegri sjálfbærni, ekki síður en umhverfislegrar og rekstrarlegrar sjálfbærni. Gera þarf ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir kolefnisleka án þess að skerða samkeppnishæfni evrópskra flugfélaga. Lagt var til að skýra þær félagslegu reglur sem gilda um flugáhafnir og starfsfólk á jörðu niðri einkum með því að skilgreina starfstöðvar og binda þannig endi á núverandi misnotkun á félagslegum reglum.

Að lokum lýstu þátttakendur yfir nauðsyn þess að jafna stöðu járnbrauta gagnvart vegsamgöngum. Sett voru fram sjónarmið um að vegfarendur greiddu einnig fyrir ytri kostnað við samgöngurnar svo sem slys, hávaða og viðhald innviða.

Ráðuneytisstjóri tók til máls undir þessum lið og benti á litla atvinnuþátttöku kvenna í samgöngum, t.d. væri hlutfall kvenna í skipstjórnarstörfum einungis eitt prósent. Hlutfall atvinnuþátttöku kvenfólks í flugi á Íslandi væri 13%, líklega sú mesta á alþjóðavísu og færi vaxandi.  Kvenfólk væri helmingur mannkyns og það væri verðugt verkefni að rannsaka hvað þyrfti til að laða kvenfólk að í samgöngustörf og vinna að mögulegum úrbótum í framhaldi af því. Ráðuneytisstjóri vakti jafnframt athygli á mikilvægi samgönguöryggis í að skapa aðlaðandi vinnuumhverfi í samgöngum. Nefndi sem dæmi að árangur Íslands í siglingaöryggi, en engin banaslys hefðu orðið á sjó svo árum skipti. Það hefði leitt til aukinnar aðsóknar ungs fólks og kvenna að greininni.

Samráð um ökuskírteini og umferðarlagabrot

Framkvæmdastjórnin hefur birt á samráðsvef sínum óskir um ábendingar um eftirfarandi fyrirhugaðar lagabreytingar.

Tilskipun um ökuskírteini.

Meginmarkmið tillögunnar er að viðhalda og auka umferðaröryggi, en þörf er á breytingum til þess að bregðast við breytingum sem fylgir stafrænni tækni auk annarra breytinga í samræmi við markmið sem sett voru fram í orðsendingu um grænar og snjallar samgöngur. Eftirfarandi er tengill á samráðið: public consultation for a revision of the Directive on Driving Licences.

Tilskipun um eftirfylgni yfir landamæri vegna umferðalagabrota

Markmiðið með endurskoðuninni er að samræma verklag við gagnkvæma aðstoð við rannsókn á umferðalagabrotum, stjórnsýslu, stjórnsýslulega meðferð og meðferð refsiákvörðunar. Eftirfarandi er slóð á samráðið: public consultation for a revision of the Cross-Border Enforcement Directive.

ESB leggur fram nýjan tillögupakka um geimverkefni

Þann 15. febrúar sl. lagði ESB fram orðsendingu sem inniheldur stefnumörkun varðandi ráðstafanir um geimrusl og tillögu að reglugerð um uppbyggingu nýs fjarskiptakerfis um gervihnetti.

Orðsending með stefnumörkun um aðgang að geimnum

Í orðsendingunni kemur fram að nær 11.800 gervihnöttum hafi verið skotið á loft eftir að nýting geimsins hófst, þar af eru 4.550 enn í notkun. Áætlað er að yfir 20.000 gervihnettir til viðbótar verði sendir á loft á næstu tíu árum. Að auki er ýmis konar geimrusl á sveimi, um 128 milljón hlutir innan við einn cm að stærð, 900.000 hlutir 1 – 10 cm og 34.007 hlutir stærri en 10 cm á ferð í geimnum umhverfis jörðina. Nauðsynlegt er að taka tillit til geimrusls þegar gerðar eru áætlanir um að skjóta á loft nýjum gervihnöttum og verður það flóknara eftir því sem gervihnöttum fjölgar.

Í dag er lögð vinna í að kortleggja þessa hluti og haldin skrá yfir þá en þörf fyrir frekari gerðir á þessu sviði fer vaxandi. ESB á samstarf við BNA sem stendur framarlega við vöktun geimrusls auk fleiri ríkja. Í orðsendingunni er lagt til að efla núverandi vinnu, þróa nýja vöktunartækni, miðla upplýsingum til haghafa og stofna til alþjóðlegs samstarfs um reglusetningu og kortlagningu á nýtingu geimsins. Boðað er í orðsendingunni að ESB muni birta tillögu að löggjöf um gervihnetti, þróa staðla og leiðbeiningar um nýtingu geimsins fyrir gervihnetti.

Tillaga að reglugerð um nýtt fjarskiptakerfi um gervihnetti

Í reglugerð um EUSPA voru geimverkefni ESB færð undir eina stofnun, Geimstofnun ESB (e. EU Agency for Space Programme). Verkefni ESB eru Galileo verkefnið um þróun leiðsögukerfa, Kopernicus verkefnið um umhverfisvöktun, Govsatcom verkefnið, SST verkefnin um umhverfismál í geimnum s.s. veður og vöktun geimrusls. Ísland er aðili að Kopernikus verkefninu, að Galileo verkefninu að hluta, þ.e. Egnos hluta þess og svo hluta af SST verkefninu. Í tillögu að reglugerð sem framkvæmdastjórnin birti 15. febrúar eru lagðar nánari línur um Govsatcom verkefnið.

Í tillögunni kemur fram að almennt markmið með uppbyggingu fjarskiptanets um gervihnetti sé að styrkja viðnámsþol ríkjanna við áföllum og tryggja stjórnvöldum áreiðanlegt fjarskiptakerfi sem m.a. styður við eftirlitskerfi stjórnvalda, vernd mikilvægra innviða, stjórnun á neyðarstund og við landvarnir. Þá kemur fram að rekstraraðilar geti fengið aðgang að kerfinu og að það verði nýtt til þess að veita jaðarbyggðum aðgang að háhraðaneti.

Gert er ráð fyrir að kostnaður við verkefnið muni nema um 6 milljörðum Evra. Í reglugerðinni er kveðið á um 1,6 mia Evra framlag fyrir árin 2021-2027. Þar að auki renni fjármunir úr Horizon áætluninni, geimáætluninni, nágrannaáætluninni (Neighborhood) og fleiri áætlunum til verkefnisins. Þá er miðað við samstarfsaðilar og ríki utan ESB sem óska eftir aðgang að verkefninu muni leggja fé til verkefnisins.

Ísland óskaði eftir aðgang að verkefninu þegar það gerðist aðili að nokkrum þáttum geimverkefnisins. Niðurstaða ESB var að uppfylltum tilteknum skilyrðum um trúnaðarsamninga þyrfti að sækja sérstaklega um aðgang að áætluninni.

Félagsleg hlið sjálfbærrar fjármögnunar (e. taxonomy)

Eins og margir muna, sem fylgst hafa með málinu, varð mikill hvellur í lok síðasta árs þegar framkvæmdastjórn ESB tilkynnti breytingar á sjálfbærnimælikvarða orku, sem fól það í sér að kjarnorka og gas var stimplað sem græn orka að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það mál er nú í biðstöðu á meðan ráðherraráð ESB og Evrópuþingið ræða tillögur framkvæmdastjórnarinnar, en skoðanir einstakra aðildarríkja á þeim eru mjög mismunandi.

Í síðustu viku birtist hins vegar endanleg skýrsla um mælikvarðann „Social Taxonomy“ sem áður hefur verið fjallað um hér í Vaktinni. Drög að umræddri skýrslu birtust í lok júlí á síðasta ári og lauk opinberu samráði um hana í september sl. en frágangur hennar og síðan birting hefur tafist þar til nú. Í henni er lögð höfuðáhersla á að ekki sé nóg að fjárfesting og fjármögnun hennar sé græn (e. sustainable) í umhverfislegu tilliti heldur verði hún einnig að standast kröfur um félagslega ábyrgð. Þó að tiltekin fjárfesting sé talin sjálfbær og skaði ekki umhverfið þá gæti hún í einhverjum tilvikum falið í sér félagsleg undirboð eða mannréttindabrot. Dæmi um það væri barnaþrælkun. Þar með væri umrædd fjárfesting fallin á sjálfbærniprófinu. Með öðrum orðum, markmiðið er að tvinna mælikvarðann „Social Taxonomy“ saman við „Taxonomy“ umhverfismælikvarðann og aðrar lagareglur sem samþykktar hafa verið í tengslum við sjálfbærniverkefnið. Þar má t.d. nefna breytingar á ársreikningalögum um birtingu upplýsinga um sjálfbærar eignir, skuldir, tekjur, gjöld o.fl.

Skýrslan, sem unnin var af sérstökum sérfræðingahópi (Platform Subgroup 4), er nú til umfjöllunar hjá framkvæmdastjórn ESB, en auk þess verður hún rædd í sérfræðingahópi sem í sitja fulltrúar allra aðildarríkja ESB og EFTA ríkjanna. Ekki er ljóst hvort efnisinnihald skýrslunnar verði lagt fram í formi afleiddrar reglugerðar eða sem breytingatillaga við móðurreglugerðina um „Taxonomy“ (Regulation (EU) 2020/852). Það er alfarið í höndum framkvæmdastjórnarinnar, en henni er ætlað að leggja fram eigin skýrslu um málið, sbr. 26. gr. í móðurreglugerðinni. Nú er bara að bíða og sjá hvað gerist!

Hins vegar er ljóst að viðbótarmælikvarði eins og sá sem hér hefur verið lýst mun flækja sjálfbærnimatið verulega og leiða til aukinnar umsýslu og þar með viðbótarkostnaðar ekki síst hjá minni fyrirtækjum. Það verður því fróðlegt að fylgjast með hvernig framkvæmdastjórnin vinnur úr málinu. Skýrsluna er að finna í heild sinni á eftirfarandi vefslóð.

https://www.financite.be/sites/default/files/references/files/280222-sustainable-finance-platform-finance-report-social-taxonomy.pdf

Tillaga að reglugerð um gögn

Framkvæmdastjórnin birti 23. febrúar sl. tillögu að nýrri reglugerð um gögn. Þar er að finna reglur um hver geti fengið aðgang að gögnum til hagnýtingar úr öllum geirum hagkerfisins. Reglugerðin er síðasti liðurinn í heildstæðri gagnastefnu Evrópusambandsins.

Reglurnar eiga að fela í sér að notendur til dæmis nettengdra tækja geti fengið aðgang að gögnum sem verða til við notkun þeirra. Einnig verður notendum heimilað að stýra því hvaða þriðji aðili fái aðgang að gögnunum. Það getur til dæmis verið vegna viðgerðarþjónustu eða til að hagnýta gögnin með öðrum hætti.

Gert er ráð fyrir aðgangi stjórnvalda að gögnum hjá einkaaðilum þegar það er nauðsynlegt, til dæmis vegna almannavarnaástands.

 

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta