Loftslagsváin, náttúruvernd og mengunarvarnir - orkuskipti
Að þessu sinni er fjallað um:
- samningsmarkmið Evrópusambandsins (ESB) á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna – COP 27
- samningsmarkmið ESB á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni – COP 15
- samkomulag um kolefnishlutleysi bílaflotans
- tillögur framkvæmdastjórnar ESB um strangari reglur um mengunarvarnir, um loftgæði, hreinleika yfirborðs- og grunnvatns og meðferð og hreinsun skólps frá þéttbýli
- orkukreppuna og framhald umræðna um ráðstafanir í orkumálum
- fimmtu skýrslu framkvæmdastjórnar ESB til Evrópuþingsins og ráðsins um peningaþvættismál
- mögulega aðild Búlgaríu og Rúmeníu að Schengen-samstarfinu
- innri markað ESB í 30 ár
- jafnréttisviku í Evrópuþinginu
- undirbúning innleiðingar reglna um neyðar- og viðbragðsstjórnun á sviði heilbrigðismála þvert á landamæri
- tillögur íslenskra stjórnvalda um rafræna fylgiseðla lyfja
- heimsókn ráðgjafarnefndar jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til sendiráðsins
Samningsafstaða Evrópusambandsins (ESB) á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (SÞ) – COP 27
Hinn 6. nóvember nk. hefst tveggja vikna loftslagsráðstefna SÞ, COP 27, í Egyptalandi. Ríki heims koma þar saman til að leggja á ráðin um stöðu loftslagsmála og stilla saman strengi í baráttunni við loftslagsvána.
Samningsafstaða ESB fyrir ráðstefnunni var samþykkt á fundi umhverfisráðherra ESB þann 24. október sl. en á þeim fundi var jafnframt samþykkt samningsafstaða fyrri ráðstefnu SÞ um líffræðilega fjölbreytni (COP 15), sbr. sérstaka umfjöllun um þann viðburð hér á eftir. Loftslag, náttúra og líffræðileg fjölbreytni er vitaskuld nátengd. Vernd náttúru og líffræðilegs fjölbreytileika er afar mikilvægur þáttur í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Hafið, jarðvegurinn og skógarnir eru stærstu viðtakar heims fyrir upptöku og bindingu kolefnis, en geta því aðeins sinnt þessu hlutverki þegar viðtakinn er „heilbrigður“. Á hinn bóginn geta loftslagsbreytingar valdið mjög alvarlegum skaða á náttúrulegum vistkerfum. Málefni ráðstefnanna tveggja eru því nátengd.
Markmið ESB er að vera í farabroddi þegar kemur að loftlagsaðgerðum. Að mati ESB er brýnt að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að ná fram áherslum Parísarsamkomulagsins og markmiðinu um að halda hlýnun jarðar innan við 1,5 °C. Af hálfu ESB er lögð áhersla á að aðgerðir fylgi markmiðum og þurfa þær m.a. að vera alþjóðlegar og samræmdar til að árangur náist fyrir komandi kynslóðir. ESB muni halda áfram að beita sér af miklum metnaði með breytingum á umhverfislöggjöf ESB og við endurheimt náttúrunnar á heimavelli sem og í samskiptum við aðrar þjóðir um allan heim.
ESB leggur áherslu á að tryggja réttlát umskipti við framkvæmd loftlagsaðgerða og að stefnt skuli í átt að sjálfbærum loftslagsþolnum hagkerfum og samfélögum þar sem tillit er tekið til allra hlutaðeigandi.
Að mati ESB þarf að gera mun betur ef takast á að ná 1,5°C markmiðinu í samræmi við Parísarsamkomulagið. Ráðherraráð ESB skorar á öll ríki að setja fram metnaðarfull markmið og stefnu, einkum helstu hagkerfi heims, m.a. með því að endurskoða og styrkja landsbundin framlög sín (NDCs - Nationally determined contributions). Ráðið ítrekaði skuldbindingu ESB og aðildarríkja þess um að halda áfram að auka alþjóðlega loftslagsfjármögnun sína og skorar á önnur ríki að gera það sama í því skyni að styðja við loftslagsaðgerðir og loftslagsmál almennt.
ESB mun á ráðstefnunni leggja áherslu á það sem unnið hefur verið að á vettvangi sambandsins að undanförnu, m.a. á áætlun um mótvægisaðgerðir og að endir verði bundinn á óhagkvæmar niðurgreiðslur á jarðefnaeldsneyti, að dregið verði úr notkun kola í áföngum og losun metans og að áætlanir í þeim efnum verði samræmdar markmiðinu um 1,5°C hámarkshækkun samkvæmt Parísarsamkomulaginu. ESB vinnur nú þegar að kappi að því að innleiða skuldbindingar sínar samkvæmt loftlagssamningum með breytingum á evrópskri umhverfislöggjöf og er reiðubúið til að auka enn frekar landsbundið framlag sitt (NDC), ef við á, í samræmi við niðurstöður yfirstandandi samningaviðræðna á grundvelli áætlunar ESB sem nefnd er „Fit for 55“ og er ætlað að styðja við markmið sambandsins um að lágmarki 55% nettó samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 miðað við árið 1990 og leggja þannig grunninn að markmiði ESB um kolefnishlutleysi árið 2050. Í þessu samhengi mun ESB kynna samkomulag sem náðst hefur innan ESB um kolefnishlutleysi bílaflotans í Evrópu fyrir árið 2035, en nánar er fjallað um það samkomulag hér neðar í Vaktinni. Þá vonast ESB til þess að hægt verði að tilkynna um samkomulag um tvær meiriháttar loftslagsaðgerðir til viðbótar. Annars vegar um aukna bindingu kolefnis og hins vegar um bindandi landsmarkmið um samdrátt í losun.
Hvað aðlögun að loftslagsbreytingum varðar er ESB tilbúið til að flýta fyrir aðgerðum, bæði heima fyrir í Evrópu sem og um heim allan. ESB mun leggja áherslu á að finna árangursríkar lausnir til að mæta þörfum sem viðkvæm ríki um allan heim standa frammi fyrir.
ESB leggur áherslu á mikilvægi aukinnar aðlögunargetu og -hæfni vegna loftlagsbreytinga á sama tíma og brýnt er að draga úr losun.
Sem stærsti fjármögnunaraðili loftlagsaðgerða í heiminum og ábyrgðaraðili fyrir mikilvægum þáttum í alþjóðlegri viðleitni til að takast á við loftslagsvána mun ESB hvetja aðra fjarmögnunaraðila og styrkveitendur til að auka eigin framlög með það að markmiði að tvöfalda aðlögunarfjármögnun fyrir árið 2025 miðað við árið 2019.
Orkumál eru, eins og ítarlega hefur verið fjallað um í Brussel-vaktinni að undanförnu, ofarlega á baugi í Evrópu og í heiminum öllum. Loftslagsmál og orkumál eru náskyld viðfangsefni og ljóst að umræður um orkumál verða einnig í brennidepli á ráðstefnunni.
Ísland er aðili að loftlagssamningi SÞ og mun sendinefnd Íslands sækja ráðstefnuna.
Samningsafstaða ESB á ráðstefnu SÞ um líffræðilega fjölbreytni – COP 15
Hinn 7. desember nk. hefst tveggja vikna ráðstefna SÞ um líffræðilega fjölbreytni, COP 15, í Kanada. Vonir standa til að um tímamótaráðstefnu verði að ræða þar sem stefnt er að því að að samþykkja alþjóðlegan ramma fyrir líffræðilegra fjölbreytni og setja fram markmið til leiðbeiningar um hnattrænar aðgerðir til verndar og endurheimt náttúru næsta áratug. Leiðtogar heimsins stefna að því að koma sér saman um hnattræna verndaráætlun líffræðilegs fjölbreytileika og að undirstrikað verði að það sé sameiginleg skylda mannkyns að vernda vistkerfi heimsins.
Á framangreindum fundi umhverfisráðherra ESB 24. október sl. var samningsafstaða ESB fyrir ráðstefnuna samþykkt. Ráðherraráðið hvetur í afstöðu sinni til samþykktar metnaðarfulls, alhliða og umbreytandi rammaáætlunar til verndar líffræðilegum fjölbreytileika á heimsvísu eftir 2020 sem jafnframt feli í sér langtímamarkmið til ársins 2050, sem og aðgerðamiðað plan til ársins 2030 sem muni taka á beinum og óbeinum orsökum hnignunar líffræðilegs fjölbreytileika.
Í markmiðasetningu til ársins 2030 leggur ESB m.a. áherslu á eftirfarandi:
- að friða, eða varðveita í reynd, að minnsta kosti 30% af landsvæði jarðar annars vegar og hafsvæði hins vegar,
- að endurheimta rýrt land og ferskvatnsvistkerfi og vistkerfi í hafinu,
- að stöðva ólögmæta og ósjálfbæra matvælauppskeru og viðskipti eða hagnýtingu villtra tegunda,
- stöðva hagnýtingu tegunda í útrýmingarhættu,
- að stuðla að nýtingu vistvænna lausna,
- að draga úr hverskyns mengunarhættu,
- að innleiða sjálfbæra nýtingu líffræðilegs fjölbreytileika,
- að endurskoða notkun lands og sjávar ef hún hefur neikvæð áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika.
Ísland er aðili að samningi SÞ um líffræðilega fjölbreytni og mun sendinefnd Íslands sækja ráðstefnuna.
Samkomulag um kolefnishlutleysi bílaflotans
Evrópuþingið og ráðherraráð ESB náðu á fundi sínum 27. október sl. samkomulagi um efni löggjafartillagna um kolefnishlutleysi bílaflotans í Evrópu. Samkomulagið felur í sér að bannað verði að nýskrá bensín- og dísiknúna bíla frá og með árinu 2035 og þurfa bílaframleiðendur því að ná 100% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda frá bifreiðum sem þeir framleiða fyrir Evrópumarkað innan þessara tímamarka. Þá verða auknar kröfur einnig gerðar til losunar bíla sem nýta jarðefnaeldsneyti og koma nýjir inn á Evrópumarkað frá og með 2030, þ.e.a.s. krafa verður gerð um að nýjir fólksbílar losi 55 prósent minna af CO₂ en árið 2021 og að sendibílar verði helmingi sparneytnari.Um er að ræða löggjöf sem varðar endurskoðun á stöðlum um losun á CO₂ frá fólks- og sendibifreiðum (e. Stricter CO₂ performance standards for cars & vans). Á meðan málið var í vinnslu sendu EES EFTA-ríkin sameiginlega umsögn til ESB þar sem tekið er heils hugar undir áform framkvæmdastjórnarinnar hvað varðar markmið ESB um kolefnishlutleysi bílaflotans fyrir árið 2035 (e. EU fleet-wide target equal to 100% reduction of CO2 emissions) þó þannig að stefna ætti að því að ná markmiðinu fimm árum fyrr, sem endurspeglar mikinn metnað EES EFTA-ríkjanna á þessu sviði.
Eins og áður segir er stefnt að því að árið 2035 verði hætt að nýskrá bifreiðar sem brenna jarðefnaeldsneyti. Þetta er í samræmi við stefnumörkun framkvæmdastjórnar ESB um sjálfbærar og snjallar samgöngur (e. Sustainable and Smart Mobility). Þar er sett fram áætlun um umbreytingu evrópskra samgangna svo ná megi grænum markmiðum á þessu sviði. Aðgerðum áætlunarinnar er ætlað að draga úr losun frá samgöngum um 90% fyrir árið 2050 og skila snjöllu, samkeppnishæfu, öruggu, aðgengilegu og hagkvæmu samgöngukerfi. Helstu aðgerðum áætlunarinnar er ætlað að styðja við orkuskipti samgöngutækja, þ.e. bíla, flugvéla og skipa til dæmis með því að tryggja nýorkustöðvar á vegum og öðrum samgönguinnviðum svo sem á flugvöllum og í höfnum. Lagt er til að styrkja samkeppnishæfni umhverfisvænni orkugjafa til dæmis með því að verðleggja kolefni í orkugjöfum. Í lok 2020 sendu EES EFTA-ríkin sameiginlegt álit þar sem tekið var undir afstöðu framkvæmdastjórnar varðandi stefnumörkun um sjálfbærar og snjallar samgöngur.
Framkvæmdastjórn ESB fagnar samkomulaginu sem náðst hefur um þessar auknu kröfur. Löggjöfin er liður í áætlun ESB um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni um 55 prósent fyrir lok áratugarins miðað við losun árið 1990 og hún er fyrsta formlega „Fit for 55“ löggjöfin sem endanlegt samkomulag næst um. Þannig markar samkomulagið fyrsta skrefið í framkvæmd „Fit for 55“ áætlunar ESB og fela í sér skýr skilaboð ESB inn á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP 27, í Egyptalandi í næstu viku, sem fjallað er um hér í Vaktinni að framan.
Auk þess sendir samkomulagið sterk skilaboð til bílaiðnaðarins og neytenda um að hægt sé að breyta samgönguvenjum og ferðast án þess að losa CO₂, enda hafa evrópskir bílaframleiðendur nú þegar sannað að þeir séu tilbúnir til að koma fram með nýjungar á þessu sviði, t.d. með auknum og sífellt hagkvæmari rafbílum sem koma á markaðinn. Hraðinn á þessum breytingum undanfarin ár er mikill og neytendur hafa tekið breytingunum fagnandi, er haft eftir Frans Timmermans sem fer fyrir Græna sáttmálanum innan framkvæmdarstjórnar ESB. Hann bendir á að þess skýru skilaboð til framleiðenda og almennings muni flýta fyrir framleiðslu og sölu á ökutækjum með litla og enga losun og setja vegasamgöngur á braut til loftslagshlutleysis fyrir árið 2050. Þessi nýja löggjöf mun því gera samgöngukerfi ESB sjálfbærara, tryggja hreinna loft í Evrópu og marka mikilvægt skref í þá átt að framfylgja Græna sáttmálanum í Evrópu. Þetta sýni glögglega að skuldbindingar ESB til að ná loftslagsmarkmiðum sínum og að árásarstríð Rússlands í Úkraínu hægi ekki á umskiptum yfir í hreina orku heldur flýtir frekar fyrir þeirri vinnu og gerir Evrópu kleift að verða fyrsta loftslagshlutlausa heimsálfan fyrir árið 2050.
Athygli hefur vakið aðeins viku eftir að framangreint samkomulag tókst lét Thierry Breton sem fer með málefni innri markaðarins í framkvæmdastjórninni í ljós ákveðnar efasemdir um að raunhæft sé að það ná framangreindum markmiðum á þeim tíma sem að er stefnt. Gæta þurfi að störfum í bílaiðnaði Evrópu og að umskiptin krefjist margfalt meira magns af ýmsum hráefnum (e. raw materials) til batterísframleiðslu en markaðurinn hafi áður haft þörf fyrir. Jafnframt sé mikilvægt að bílaflotinn hafi aðgang að grænu rafmagni, annars sé til lítils unnið.
Tillögur framkvæmdastjórnar ESB að strangari reglum um mengunarvarnir, um loftgæði, hreinleika yfirborðs- og grunnvatns og meðferð og hreinsun skólps frá þéttbýli
Þann 26. október sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram margþættar tillögur um strangari mengunarvarnir, um loftgæði, hreinleika yfirborðs- og grunnvatns og meðferð og hreinsun skólps frá þéttbýli
Betri loftgæði árið 2030 og markmið um núllmengun árið 2050
Heilsufarsleg áhrif loftmengunar eru mikil og telur Umhverfisstofnun Evrópu að rekja megi allt að 300.000 ótímabær dauðsföll árlega í Evrópu til lélegra loftgæða, fyrst og fremst af völdum fíngerðs svifryks. Strangari reglur eiga að stuðla að því að draga úr dauðsföllum af völdum svifryks (PM2,5) umfram viðmiðunarreglur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eða um meira en 75% á næstu tíu árum. Loftmengun er mesta umhverfisógnin við heilsu og orsakavaldur ýmissa langvinnra sjúkdóma eins og heilablóðfalls, krabbameins og sykursýki. Slæm loftgæði hafa áhrif á alla en sérstaklega mikil neikvæð áhrif á viðkvæma þjóðfélagshópa. Þá skaðar mengað loft umhverfið, veldur súrnun, ofauðgun og skemmdum á skógum, vistkerfum og ræktuðum svæðum.
Fyrirhuguð endurskoðun á tilskipunum um loftgæði mun setja bráðabirgðamörk fyrir loftgæði fyrir árið 2030 í samræmi við ákvæði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um leið og stefnt er að því að ná „núllmengun“ í andrúmslofti eigi síðar en árið 2050 og helst það markmið í hendur við markmiðið um kolefnishlutleysi það ár. Í þessu skyni leggur ESB til að reglulega endurskoðun á umhverfismörkum og er lagt til að árleg viðmiðunarmörk fyrir fínt svifryk (PM2,5) verði lækkað um meira en helming.
Varnir gegn mengun yfirborðs- og grunnvatns
Framkvæmdastjórn ESB leggur til endurskoðun á lista yfir efni sem geta mengað yfirborðs- og grunnvatn og að eftirlit verði hert. Ákvörðunin er byggð á uppfærðum vísindalegum gögnum. Á listann munu bætast við 25 ný efni sem sannað er að hafi neikvæð áhrif á umhverfi og heilsu auk þess sem viðmið fyrir 16 mengunarefni sem þegar falla undir löggjöfina verði uppfærð og hert, þ. á m. viðmið vegna þungmálma.
Í tillögunum er í auknum mæli tekið tillit til svonefndra „kokteiláhrifa“ þegar ólík efni blandast saman með auknum skaðlegum áhrifum.
Fráveita - Bætt og hagkvæmari hreinsun skólps
Lagt er til að tilskipun, sem er frá árinu 1991, um hreinsun skólps frá þéttbýli verði endurskoðuð
Aukin áhersla verður á nýtingu skólps sem auðlind og er stefnt að orkuhlutleysi fráveitna fyrir árið 2040 og að gæði seyru verði bætt til að styrkja hringrásarhagkerfið.
Þá verða kvaðir um endurheimt næringarefna úr skólpi, ný ákvæði um örmengun og nýjar kröfur um vöktun á örplasti endurskoðuð.
Skylda til hreinsunar á skólpi mun ná til smærri þéttbýlisstaða eða til fráveitu með 1.000 persónueiningar (pe.) í stað 2.000 samkvæmt gildandi tilskipun. Ákvæði verður um að stjórn vatnamála taki á samþættum áætlunum í stærri borgum til að hægt sé að ráða við miklar rigningar sem verða tíðari vegna loftslagsbreytinga. Að lokum, að fenginni reynslu eftir kórónuveirufaraldurinn leggur framkvæmdastjórnin til að kerfisbundið verði fylgst með tilteknum vírusum í skólpi, þ. á m. CoV-SARS-19.
Um 92% örmengunar sem finnast í skólpi í Evrópu er frá lyfjum og snyrtivörum og gera tillögurnar ráð fyrir aukinni ábyrgð framleiðanda, í samræmi við mengunarbótaregluna, þ.e. að framleiðendur greiði kostnaðinn við að fjarlægja þessi mengunarefni úr skólpi.
Tillögur framkvæmastjórnarinnar munu nú ganga til umfjöllunar í Evrópuþinginu og hjá ráðherraráðinu og í kjölfar samþykktar þeirra er gert ráð fyrir að þær komi til framkvæmda í áföngum til að gefa stjórnvöldum og atvinnustarfsemi tíma til að aðlagast reglunum og fjárfesta í nýjum innviðum þar sem þörf er á.
Orkukreppan og framhald umræðna um ráðstafanir í orkumálum
Eins og rakið var í Vaktinni 21. október sl. er nú unnið að frekari aðgerðum til að bregðast við orkukreppunni sem nú skekur Evrópu í kjölfar árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu. Fyrir liggja tillögur framkvæmdastjórnar ESB sem kynntar voru 18. október sl. í framhaldi af óformlegum fundi orkumálaráðherra ESB sem og afstaða og áherslur leiðtogaráðs ESB sem birtar voru í kjölfar fundar leiðtoganna 21. október sl. Orkumálaráðherrar ESB komu síðan saman á ný til fundar um þessi málefni 25. október sl. og vinnur framkvæmdastjórnin nú að því að móta tillögurnar frekar með hliðsjón af þeirri umræðu og áherslum leiðtoganna. Áætlað er að orkumálaráðherrar ESB komi næst saman á vettvangi ráðsins þann 24. nóvember nk. og er gert ráð fyrir að þá verði reynt að ná niðurstöðu um nýja reglugerð ráðsins er miði m.a. að því að auka samstöðu með betri samræmingu á gaskaupum, gasskiptum yfir landamæri og áreiðanlegri verðviðmiðunum á gasi og aðgerðum til að draga úr áhrifum jarðgasverðs á raforkureikninga heimila og fyrirtækja. Fréttir af ályktun fundar utanríkismálaráðherra G7-ríkjanna um verðþak á olíu frá Rússlandi munu án efa einnig hafa áhrif á umræðu um þessi mál á vettvangi ESB.
Á fundi orkumálaráðherranna 25. október náðust einnig mikilvægir áfangar er lúta að orkumálum til lengri tíma. Bar þar hæst samkomulag innan ráðsins um afstöðu til fyrirliggjandi tillagna framkvæmdastjórnarinnar um nýjar kröfur um orkunýtni bygginga. Samkomulagið felur í sér að allar nýjar byggingar verði mengunarlausar (e. zero-pollution) árið 2030 og að núverandi byggingum verði breytt á þann hátt að þær verði kolefnishlutlausar í rekstri (e. zero-emission) byggingar fyrir 2050. Breyttar reglur á þessu sviði eru hluti af aðgerðapakkanaum „Fit for 55“ og eru sérlega mikilvægar í því sambandi þar sem byggingar standa fyrir 40% af orkunotkun og 36% af orkutengdri beinni og óbeinni losun gróðurhúsalofttegunda í ESB. Ráðið mun nú ganga til viðræða við Evrópuþingið um endanlega útfærslu tilskipunarinnar. Í þessu samhengi má geta þess að Ísland fékk á sínum tíma varanlega undanþágu frá gildandi tilskipun um orkunýtni bygginga á þeim grundvelli að nánast öll orkunotkun í íslenskum byggingum kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Gætt verður að stöðu Íslands í þessu samhengi er kemur að upptöku nýrrar gerðar um þetta efni í EES-samninginn.
Þá fór fram stefnumótandi umræða á fundi orkumálaráðherranna um svonefndan gaspakka sem einnig er hluti af aðgerðapakkanum „Fit for 55“ og felur í sér tillögur að sameiginlegum reglum innri markaðarins fyrir endurnýjanlega orku, jarðgas og vetni og miða að því að gera ESB kleift að ná fram kolefnishlutleysi árið 2050.
Varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
Eitt af forgangsverkefnum ESB undanfarin ár hefur verið að setja öflugan lagaramma í baráttunni gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Nýverið gaf framkvæmdastjórnin út skýrslu um áhættumat á þessu sviði og áhrif þess á innri markaðinn og milliríkjaviðskipti.
Árið 2021 var kynntur endurskoðaður lagarammi sem innihélt markmið framkvæmdastjórnar ESB til að vernda borgara sambandsins og fjármálamarkaðinn frá peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Markmiðið er að endurbæta gildandi aðferðir við að koma auga á tortryggilegar viðskiptafærslur og starfsemi í því skyni að loka glufum (e. loopholes) sem afbrotamenn nýta sér til að þvo illafengnar tekjur eins og af hryðjuverkastarfsemi á fjármálamarkaði. Þetta er meginviðfangsefnið tillagnanna þar sem núgildandi lagareglur hafa ekki reynst fullnægjandi til að taka á því vandamáli.
Þá liggur fyrir að Covid-19 krísan hefur leitt af sér ýmsar nýjar leiðir og kringumstæður sem aukið hafa hættuna á peningaþvætti í margskonar viðskiptum. Sem dæmi má nefna:
- styrkveitingar til að draga úr áhrifum krísunnar,
- yfirtöku misyndismanna og jafnvel glæpasamtaka á löskuðum fyrirtækjum,
- aukin tækifæri fyrir glæpahópa til að afla tekna með sölu ólöglegra lyfja og bóluefna,
- aukna notkun á illa fengnum skilríkjum þeirra sem stunda netverslun.
Ört vaxandi tækni hefur líka kallað á nýjar reglur um notkun ýmissa eftirlitsaðferða og upplýsingaöflunar. Ný rannsóknartæki og -aðferðir eru líka komin til sögunnar sem takmarka að einhverju leyti áhrif af gildandi reglum stjórnvalda um eftirlit og rannsóknir.
Samkvæmt nýlegri rannsókn eru næstum 31 þúsund fyrirtæki í Evrópu (þ.á.m. fasteignaumsýsla, byggingafyrirtæki, hótel, fjármálafyrirtæki og orkufyrirtæki) sem eru skráð í rússneskri eigu. Þar af eru 1.400 í eigu 33 einstaklinga (eiga a.m.k 5%) sem hafa orðið fyrir nýlegum refsiaðgerðum vegna árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu, þ.e. hinir svokölluðu ólígarkar. Sumir þeirra hafa séð við þessu með því að flytja eignarhaldið út fyrir ESB. Þetta veldur því að mjög erfitt verður að finna þær eignir sem olígarkarnir eiga enda oft faldar á bak við flókið mynstur fyrirtækja sem dreifast yfir mismunandi svæði, oft til hinna svokölluðu skattaparadísa. Sú staða gerir þeim stjórnvöldum sem vilja framfylgja nauðsynlegum refsiaðgerðum mjög erfitt fyrir. Það skapar þrýsting á að þær breytingar sem nú liggja fyrir, m.a. varðandi nauðsynlegar upplýsingar um eignarhaldið, (e. beneficial ownership) verði afgreiddar sem fyrst.
Sú tilskipun sem nú er í gildi um peningaþvætti er sú fimmta í röðinni (e. 5th Anti-Money Laundering Directive) og átti hún að koma til framkvæmda eigi síðar en í janúar 2020. Þessi tilskipun er þegar hluti af EES samningnum. Þar er að finna fjölda aðgerða og verkfæra sem eftirlitsaðilar geta nýtt sér. Betur má hins vegar ef duga skal og þess vegna er sjötta tilskipunin komin fram. Í skýrslunni sem nefnd var hér í upphafi má finna nánari greiningu á þeim breytingartillögum sem er að finna í tillögu að sjöttu tilskipuninni. Hér er látið nægja að nefna einungis eina tillögu að breytingu sem varðar misnotkun á millifærslum eða eignum eins og í tilviki rafmynta eða rafeigna (e. crypto currencies, crypto assets). Lagt er til að listi yfir eftirlitsskylda fjármálaþjónustu nái einnig til þjónustuaðila rafeigna þannig að sama gildi í öllum aðildarríkjum ESB.
Möguleg aðild Búlgaríu og Rúmeníu að Schengen-samstarfinu
Meginatriði Schengen-samstarfsins er afnám persónubundins eftirlits á innri landamærum Schengen-landanna og samvinnu evrópskra lögregluliða innan svæðisins. Markmiðið er að tryggja öryggi og greiða fyrir frjálsri för fólks innan svæðisins sem er ein af fjórum frelsisstoðum innri markaðar ESB sem Ísland á aðild að í gegnum EES-samninginn.
Schengen-samstarfsríkin eru nú 26 að tölu með um 420 milljón ríkisborgara innan sinna vébanda. Auk 22 ríkja innan ESB eiga EFTA ríkin Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss aðild að samstarfinu. Enda þótt aðild að ESB leggi í raun almenna lagalega skyldu á ríki til þátttöku í samstarfinu, að uppfylltum skilyrðum, þá standa fimm ríki ESB sem stendur utan samstarfsins, þ.e. Búlgaría, Rúmenía, Króatía, Kýpur og Írland. Írland nýtur sérstöðu í þessum hópi þar sem það ber ekki, samkvæmt sérstöku samkomulagi, lagalega skyldu til aðildar að samstarfinu. Aðild Kýpur hefur ekki komist til framkvæmda og hefur í raun verið frestað um óákveðin tíma vegna flókinna landamæraaðstæðna gagnvart Tyrkneska hluta eyjarinnar. Króatía lýsti því yfir árið 2015, tveimur árum eftir að það hlaut aðild að ESB, að landið væri tilbúið til aðildar og voru niðurstöður úttektar sem birtar voru í fyrra á þann veg að ríkið uppfyllti skilyrði til aðildar.
Búlgaría og Rúmenía sem bæði urðu aðilar að ESB í byrjun árs 2007 hafa nú um langt skeið sýnt því mikinn áhuga að gerast fullgildur aðili að Schengen-samstarfinu og í þeirri viðleitni undirgengust bæði ríkin t.d. hefðbundna Schengen-úttekt, sem aðildarríkjum Schengen er gert að sæta á fimm ára fresti, til að kanna hvort þau uppfylltu skilyrði og þær kröfur sem gerðar eru til aðildarríkja Schengen-samstarfsins.. Aðild að Schengen samstarfinu gerir m.a. þær kröfur sem gerðar eru svo sem um regluverk á sviði landamæramála, upplýsingaskipta og lögreglusamvinnu.
Niðurstaða úttekta árið 2011 leiddi í ljós að bæði Búlgaría og Rúmenía töldust uppfylla skilyrði til aðildar að Schengen-samstarfinu. Í kjölfarið voru gefin út drög að ákvörðun ráðherraráðs ESB um fulla aðild ríkjanna auk þess sem Evrópuþingið lýsti jákvæðri afstöðu til inngöngu ríkjanna tveggja. Þrátt fyrir framangreint hefur ekki enn náðst samstaða í ráðherraráðinu um aðild ríkjanna að samstarfinu en einróma samþykki allra aðildarríkja þarf til. Lengi vel voru það Frakkland, Þýskaland, Finnland, Svíþjóð, Holland og Belgía sem hindruðu aðild Rúmeníu og Búlgaríu m.a. með vísan til skorts á aðgerðum gegn spillingu, skipulagðri glæpastarfsemi sem og skorti á umbótum á dómskerfinu. Þá hefur verið kallað eftir því ríkin tvö sæti nýrri formlegri úttekt enda langt um liðið frá framangreindri úttekt. Búlgaría og Rúmenía töldu hins vegar lengi vel ekki þörf á nýrri úttekt. Til tíðinda dró hins vegar í mars á þessu ári þegar ríkin buðust til þess að undirgangast valfrjálsa úttekt (e. voluntary based factfinding mission) sem gerði framkvæmdarstjórn ESB og aðildarríkjum kleift að senda fulltrúa sína til Búlgaríu og Rúmeníu til að kanna núverandi stöðu á innleiðingu Schengen-regluverksins.
Skýrslan sem unnin var í kjölfar úttektarinnar er afar umfangsmikil og var niðurstaða hennar kynnt innan vinnuhóps ráðherraráðsins um Schengen málefni (e. Schengen Matters WP) þann 26. október sl. Í stuttu máli er það niðurstaða framkvæmdarstjórnar ESB og úttektarteymisins að ríkin uppfylli enn skilyrði fyrir inngöngu í Schengen-samstarfið og að ekkert sé því til fyrirstöðu að ríkjunum verði veitt aðild.
Evrópuþingið hefur einnig haft aðildarumsóknir Búlgaríu og Rúmenínu til umfjöllunnar að undanförnu og þann 18. október síðastliðin samþykki þingið ályktun með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða þar sem ítrekaðar voru fyrri áskoranir þingsins til aðildarríkjanna og ráðherraráðs ESB um að fallast á umsóknir ríkjanna tveggja og skorar þingið nú á ráðið að afgreiða málið fyrir árslok 2022.
Tékkland sem nú fer með formennsku í ráðherraráði ESB hefur lagt áherslu á framgang aðildarumsókna ríkjanna tveggja og er búist við því að það muni eftir fremsta megni reyna að beita áhrifum sínum sem formmennskuríkis til ná fram einróma samþykki aðildarríkjanna um inngöngu þeirra í Schengen-samstarfið er dóms- og innanríkisráðherrar ESB koma saman til fundar á vettvangi ráðherraráðsins þann 4. desember nk.
Innri markaður ESB í 30 ár
Um næstu áramót verða liðin 30 ár frá því að innri markaður ESB (e. Single Market) eins og við þekkjum hann í dag í grófum dráttum, með sterku sameiginlegu stofnana- og endurbættu reglusetningarkerfi, komst til framkvæmda með gildistöku sáttmálans um innri markað EB (e. Single European Act) sem fól í sér fyrstu meiri háttar endurskoðun sáttmála EB frá Rómarsáttmálanum 1957. Aðdragandi sáttmálans var langur en samningurinn var endanlega fullgildur af öllum þáverandi aðildarríkjum í júní 1987 og varð skuldbindandi 1. júlí sama ár og voru árin þar á eftir til lok árs 1992 nýtt til að undirbúa gildistöku og framkvæmd samningsins.
Samhliða sífellt auknum efnahagssamruna aðildarríkja EB, samanber einnig aðdraganda og undirritun Maastricht sáttmálans í febrúar 1992, varð spurningin um nauðsyn nánara samstarfs EFTA-ríkjanna við EB, ef þau ætluðu sér að halda samkeppnisstöðu sinni, sífellt áleitnari. Fór svo að viðræður EFTA, með fullri þátttöku Íslands, og EB um nánara samstarf hófust árið 1989 og lauk þeim með samningi sem undirritaður var í Óportó í Portúgal 2. maí 1992 og við þekkjum sem EES-samninginn. Sameiginlegur innri markaður ESB og EES-EFTA ríkjanna er þungamiðja EES-samningsins og var það markmið samningsaðila við undirritun að samningurinn tæki gildi um leið og framangreindur sáttmáli EB um innri markaðinn, þ.e. 1. janúar 1993. Ýmislegt varð þó til þess að þetta markmið náðist ekki og frestaðist gildistaka EES-samningsins um eitt ár eða til 1. janúar 1994. Ekki tókst heldur að afgreiða frumvarp til laga um Evrópska efnahagsvæðið á Alþingi fyrir árslok 1992 eins og stefnt hafði verið að heldur frestaðist endanleg afgreiðsla málsins til 12. janúar 1993 og voru lögin staðfest af forseta Íslands degi síðar, 13. janúar, og tók fyrsta grein laganna, er heimilaði fullgildingu EES-samningsins, einnig gildi þann dag.
Í tilefni framangreindra tímamóta stóð þingnefnd innri markaðsmála og neytendaverndar í Evrópuþinginu fyrir ráðstefnu um reynsluna, árangurinn og þann ávinning sem innri markaðurinn hefur skilað aðildarríkjunum. Má ætla að þessi viðburður í Evrópuþinginu marki upphaf hátíðarviðburða á vettvangi ESB af þessu tilefni.
Jafnréttisviku í Evrópuþinginu
Sérstök jafnréttisvika var haldinn í Evrópuþinginu vikuna 24. – 30. október sl. og var þetta í þriðja skiptið sem slík þemavika er haldin. Af þessu tilefni efndu fjölmargar nefndir þingsins til umræðu um jafnréttismál og jafnrétti kynjanna út frá ólíkum sjónarhornum. Nálgast má nánari upplýsingar um einstaka viðburði vikunnar á vefsíðu þingsins þ. á m. upptökur af fundum og myndbönd er varða jafnréttismál.
Undirbúningur innleiðingar regla um neyðar- og viðbragðsstjórnun á sviði heilbrigðismála þvert á landamæri
Í Vaktinni 21. nóvember sl. var fjallað um nýjar reglur ESB um neyðar- og viðbragðsstjórnun á sviði heilbrigðismála. Hinum nýju reglum er ætlað að veita lagastoð fyrir samræmt viðbragð innan ESB/EES svæðisins á neyðartímum (e. Regulation on serious cross-border threats to health). Sama dag og ráðherraráðið samþykkti reglugerðina boðaði ráðuneytisstjóri heilbrigðismála og matvælaöryggis hjá framkvæmdastjórn ESB, Sandra Gallina, kollega sína frá aðildarríkjum sambandsins og EFTA-ríkunum til fundar til að ræða innleiðingu gerðarinnar sem framundan er.
Á fundinum var farið yfir reglugerðina og helstu ákvæði hennar kynnt. Í umræðu kom fram að verkefnið væri umfangsmikið og metnaðarfullt og kallaði á mikið og náið samstarf og samvinnu margra aðila, í ríkjunum heima fyrir, milli ríkja og á vettvangi ESB. Þá þyrfti einnig að tryggja samstarf við alþjóðastofnanir eins og Alþjóðaheilbrigðisstofnunina og OECD.
Ásta Valdimarsdóttir ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu sótti fundinn ásamt fulltrúa sendiráðsins í Brussel. Í innleggi sínu benti Ásta á mikilvægi þess að vinna að málinu meðan kórónaveirufaraldurinn væri mönnum enn í fersku minni. Hún þakkaði sérstaklega fyrir að Ísland fengi tækifæri til að vera aðili að sameiginlegum innkaupum nauðsynlegra aðfanga í neyðaraðstæðum. Þá gerði hún grein fyrir tillögugerð í nýju frumvarpi til sóttvarnarlaga sem nú er til meðferðar á Alþingi og reist er á reynslu Íslendinga af Covid-19 faraldrinum.
Sandra Gallina dró ekki fjöður yfir að mikil samræmingarvinna væri framundan svo tryggja mætti að reglugerðin þjónaði hlutverki sínu. Hún boðaði reglulega samráðsfundi með ráðuneytisstjórum á meðan sú vinna stæði yfir.
Rafrænir fylgiseðlar lyfja í stað pappírsseðla
Íslendingar hafa um árabil talað fyrir því á vettvangi ESB að í evrópska lyfjalöggjöf verið lögfest heimild til að nota rafræna fylgiseðla með lyfjum í stað prentaðra. Auk augljósra jákvæðra umhverfisáhrifa slíkra breytinga almennt þá getur slík heimild sérstaklega þjónað hagmunum lítilla markaðssvæða eins og Íslands þar sem smæð markaðarins gerir það að verkum að aðgengi að fjölbreyttu lyfjaúrvali er minna en almennt gerist. Þannig eru skráð lyf á Íslandi um 3.500 og hefur fjöldinn lítið breyst frá árinu 2011. Samsvarandi fjöldi skráðra lyfja á markaði á hinum Norðurlöndunum er á bilinu 9 til 14 þúsund. Fjöldi óskráðra lyfja á Íslandi er hins vegar hlutfallslega mjög mikill. Dæmi um það er fjöldi umsókna um óskráð lyf fyrir hverja 1000 íbúa. Á árinu 2020 var hlutfallið á Íslandi 133, í Noregi 36 og tæplega 4 í Svíþjóð. Rafrænir fylgiseðlar í stað prentaðra eru þannig talin möguleg leið til að auka aðgengi að skráðum lyfjum og lækka kostnað á litlum markaðs- og málsvæðum. Frá árinu 2018 hafa rafrænir fylgiseðlar lyfja verið á forgangslista ríkisstjórnar um mál sem unnið skuli að á vettvangi ESB, en mun lengra er síðan Ísland byrjaði að vinna málinu framgang.
Innan framkvæmdastjórnar ESB stendur nú yfir vinna við endurskoðun á evrópsku lyfjalöggjöfinni. Af því tilefni hefur á undanförnum mánuðum verið settur aukin kraftur í að halda framangreindum sjónarmiðum Íslands á lofti, m.a. í opnu samráði sem efnt var til á fjórða ársfjórðungi síðasta árs um endurskoðunina. Þá hafa verið haldnir fundir með fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar sem gegna lykilhlutverki í endurskoðunarvinnuninni og var einn slíkur fundur haldinn 25. október sl. sem dr. Bjarni Sigurðsson sótti fyrir hönd heilbrigðisráðuneytisins ásamt fulltrúum frá sendiráði Íslands í Brussel. Fundurinn var jákvæður og gefur góðar vonir um framgang málsins en vænta má formlegra tillagna af hálfu framkvæmdarstjórnar ESB að endurskoðaðri lyfjalöggjöf á fyrsta ársfjórðungi 2023.
Heimsókn ráðgjafarnefndar jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til sendiráðsins
Fulltrúar ráðgjafarnefndar jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á Íslandi og starfslið komu í heimsókn í sendiráðið ásamt ráðuneytisstjóra innviðaráðuneytisins, skrifstofustjóra sveitarstjórnarmála og aðstoðarmanni innviðaráðherra. Fékk hópurinn kynningu á starfsemi sendiráðsins og því sem helst er til umfjöllunar á vettvangi ESB og EES-samningsins um þessar mundir og varðar verkefni sveitarstjórnarstigsins. Þá fékk hópurinn kynningu á því hvernig staðið væri að utanumhaldi EES samningsins og hagsmunagæslu fyrir hönd Íslands.
***
Brussel-vaktin, fréttabréf fastanefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.
Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.
Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].