Hoppa yfir valmynd
02. desember 2022 UtanríkisráðuneytiðBrussel-vaktin

Málefni flóttafólks, netöryggi og réttarríkið

Að þessu sinni er fjallað um:

  • málefni flótta- og farandsfólks
  • samhæfingu hagstjórnar innan Evrópusambandsins (ESB) með hliðsjón af nýrri efnahagsspá
  • breytingar á netöryggislöggjöf ESB og aukin áhersla á netvarnir
  • umsögn framkvæmdastjórnar ESB um frammistöðu Ungverjalands við úrbætur tengdar réttarríkinu
  • konur í stjórnum fyrirtækja
  • jafnlaunadaginn
  • orkumál - nýjar tillögur og umræður í ráðherraráði ESB
  • reglur um umbúðir
  • fund EES-ráðsins
  • ráðstefnu um orkumál

Málefni flótta- og farandsfólks

Ráðherrar ESB sem fara með málefni útlendinga voru kallaðir saman á sérstakan aukafund í ráðherraráði ESB undir lok síðustu viku til að ræða mikla aukningu á flótta- og farandfólki á öllum helstu ferðaleiðum til Evrópu. Álagið vegna þessa er víða mikið í aðildarríkjunum enda hefur straumur flóttafólks vegna árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu verið gríðarlega mikill frá því að stríðið hófst.

Kveikjan af fundinum nú er vaxandi spenna við strendur Ítalíu vegna skipa og báta í einkaeigu (e. Private Vessels) sem leigð eru til frjálsra félagasamtaka sem gagngert sigla um Miðjarðarhafið til að sinna leit og björgun en mikið hefur verið fjallað um þessi málefni á evrópskum fjölmiðlum undanfarið, sjá m.a. hér.

Vandamálið er flókið því talið er að rekja megi aukningu í ólögmætum komum einstaklinga yfir Miðjarðarhafið, þar sem viðkomandi leggur líf sitt í hættu, til þess að treyst er í auknum mæli á leitar- og björgunaraðgerðir á sjó ef eitthvað fer úrskeiðis. Er talið að um 1300 einstaklingar hafi látist eða horfið á þessari ferðaleið sl. ár. Þá hefur flótta- og farandfólki á öðrum ferðaleiðum einnig fjölgað umtalsvert síðastliðið ár eða um 82% á Austur-Miðjarðarhafi og 168% á Vestur-Balkanskaga. 

Vinna við mótun nýrrar sameiginlegrar stefnu og reglna í málefnum flótta- og farandsfólks á vettvangi ESB hófst árið 2015 í kjölfar gríðarlegs straums flóttamanna sem þá brast á m.a. vegna borgarastríðsins í Líbíu og Sýrlandi en talið er að þúsundir hafi drukknað í Miðjarðahafinu í þeim harmleik sem þá reið yfir.

Í upphafi skipunartíma framkvæmastjórnar Ursulu von der Leyen var lögð fram endurskoðuð útgáfa að tillögupakka í málaflokknum fyrir árin 2019-2024, svonefndur hælispakki ESB (e. The Pact on migration and asylum). Enda þótt ýmsir áfangar hafi náðst þá liggur fyrir, eins og umræðan endurspeglar, að enn hefur ekki tekist að ná samstöðu meðal aðildarríkja ESB um nýjar samábyrgðarreglur þar sem m.a. yrði endurskoðað hvernig  ábyrgðinni og álaginu sem fylgir straumi flótta- og farandsfólks er skipt á milli aðildarríkjanna. Hefur það hamlað framgangi áætlunarinnar að aðildarríkin samþykktu á sínum tíma, árið 2016, svokallaða heildarnálgun í málaflokkunum (e. package approach), sem felur í sér að einstakar tillögur innan pakkans geta ekki tekið gildi fyrr en samkomulag hefur náðst um þær allar.

Í aðdraganda framangreinds aukafundar í ráðherraráðinu var á vettvangi sendiherra aðildarríkjanna kallað eftir því að framkvæmdastjórn ESB mótaði og legði fram tillögur að áætlun til að bregðast við stöðunni sem nú væri komin upp á Miðjarðarhafinu. Aðgerðaáætlunin var birt 21. nóvember og samanstendur hún af þremur meginstoðum og tuttugu minni aðgerðum. Ráðherrar voru almennt ánægðir með áætlunina og kvaðst framkvæmdastjórnin tilbúin til að útbúa sambærilega áætlun fyrir aðra helstu ferðaleiðir flótta- og farandsfólks m.a. fyrir ferðaleiðir um Vestur-Balkanskaga. Af hálfu framkvæmdastjórnar ESB var þó ítrekað að engin aðgerðaáætlun af þessu tagi gæti náð utan um þær áskoranir sem ESB glímir við er kemur að málefnum flótta- og farandsfólks. Kerfisbreytingu þurfi til samanber fyrirliggjandi tillögupakka framkvæmdastjórnarinnar sem vísað er til að framan.

Í samantekt frá tékknesku formennskunni sem gefin var út að loknum fundinum kemur fram að ráðherrarnir hafi sammælst um að Evrópa þyrfti að takast á við þessar áskoranir sem ein heild og að mikilvægt væri að ná samkomulagi um hinn sameiginlega evrópska hælispakka sem fyrst. Ráðherrar voru einnig sammála um að auka þyrfti samskipti við þriðju ríki og alþjóðastofnanir og leita leiða til að koma í veg fyrir að einstaklingar stefni lífi sínu í hættu í þeirri von að ná til Evrópu. Þá voru ráðherrar einnig sammála um að auka þyrfti aðgerðir og fjármagn til að vinna gegn smygli á farandfólki og að flýta þyrfti innleiðingu á yfirlýsingu um valkvæða samábyrgð sem flest aðildarríki samþykktu þann 22. júní sl. Á grundvelli yfirlýsingarinnar er gert ráð fyrir að Ísland muni veita 20 einstaklingum vernd og flutningsaðstoð (e. relocation).

Samstarfsríkjum ESB í Schengen-samstarfinu, Íslandi, Noregi, Sviss og Liechtenstein, var boðið að sitja fundinn. Sendiherra Íslands í Brussel, Kristján Andri Stefánsson, sat fundinn fyrir Íslands hönd. Upplýsti hann um stöðuna á Íslandi, þ.e. um aukningu á umsóknum um alþjóðlega vernd og áskoranir sem uppi eru við meðferð umsókna frá einstaklingum sem þegar hafa fengið vernd í öðru Evrópuríki. Einnig vék hann að vandamálum sem við að etja vegna aðkomu einstaklinga með vegabréf útgefin í Venesúela. Sendiherrann upplýsti jafnframt um að Ísland muni standa við yfirlýsingu um valkvæða samábyrgð sem samþykkt var í júní sl. og að mikilvægt væri að þoka áfram tillögum innan hins samevrópska hælispakka áfram sem Ísland er bundin af og varða Dyflinnarreglugerðinni, fingrafaragagnagrunninn Eurodac og reglugerðinni um forskoðun umsókna um alþjóðlega vernd.

Umræðu um málefni umsækjenda um vernd og helstu ferðaleiðir einstaklinga í ólögmætri för verður framhaldið í ráðherraráðinu á fundi dóms- og innanríkisráðherra ESB sem boðaður er 8. desember nk. Einnig munu ráðherrar ræða innrás Rússa í Úkraínu, þ.e. að  teknu tilliti til innra öryggis og komu einstaklinga í leit að tímabundinni vernd innan Evrópu. Íslandi ásamt öðrum Schengen-samstarfsríkjum ESB hefur verið boðið að sitja fundinn og er ráðgert að Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, sæki fundinn fyrir Íslands hönd. Ráðherrann mun síðan einnig sitja Schengen-ráðsfund sem haldinn er samhliða, þar sem Ísland á fast sæti, en þar verður staða mála á Schengen-svæðinu almennt til umræðu og mögulega einnig aðild Króatíu, Búlgaríu og Rúmeníu að samstarfinu, sbr. umfjöllun í Vaktinni 18. nóvember sl.

Samhæfing hagstjórnar innan ESB með hliðsjón af nýrri efnahagsspá

Í Vaktinni 18. nóvember sl. var fjallað um haustspá framkvæmdastjórnar ESB um framvindu efnahagsmála í aðildarríkjum ESB. Þann 22. nóvember var spánni fylgt eftir með útgáfu skýrslna, orðsendinga, álita og úttekta um efnahagsmál (e. 2023 European Semester) sem ætlað er að samhæfa hagstjórn meðal aðildarríkjanna á komandi misserum. Útgefin skjöl um þessi efni má nálgast hér.

Framangreind málefni verða síðan m.a. til umræðu á fundi efnahags- og fjármálaráðherra ESB sem boðaður hefur verið 6. desember.

Efnahagsmálin hafa einnig verið mjög í deiglunni á vettvangi Evrópuþingsins að undanförnu og í vikunni voru tvær nýjar rannsóknir er snúa að viðbrögðum við alþjóðlegri verðbólgu og unnar voru að beiðni efnahags- og peningastefnunefndar Evrópuþingsins birtar, sjá Tackling global inflation at a time of radical uncertainty og Managing global monetary spillovers.

Breytingar á netöryggislöggjöf ESB og aukin áhersla á netvarnir

Ráðherraráð ESB samþykkti í vikunni nýja netöryggistilskipun (NIS2). Markmið NIS2 er að styrkja viðnámsþol og viðbragðsgetu vegna netöryggisógna innan ESB. Hin nýja tilskipun felur í sér útvíkkun á gildissviði gildandi tilskipunar um netöryggismál (NIS1) til að mæta breyttum veruleika í hinum rafræna heimi. Meðal helstu breytinga samkvæmt tilskipuninni er að þar er nú greint á milli mikilvægra innviða annars vegar og nauðsynlegra innviða hins vegar. Fjöldi aðila sem eldri tilskipun náði ekki til er nú felldur undir gildissvið löggjafarinnar þar á meðal ríkisstofnanir, gagnaver, traustþjónustuveitendur, fráveitur, póstþjónustuaðilar, efnaframleiðendur, matvælaframleiðendur, lyfjaframleiðendur og fleiri framleiðslufyrirtæki sem samkvæmt nýju tilskipuninni teljast til mikilvægra og nauðsynlegra innviða. Tilskipunin fer nú í upptökuferli í EES-samninginn en fyrir liggur að innleiðing hennar á Íslandi mun kalla á breytingar á lögum nr. 78/2019 um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða.

Ráðherraráðið samþykkti einnig fyrr í nóvembermánuði nýja löggjöf um stafrænt viðnámsþol fjármálakerfisins og fjármálafyrirtækja en sú löggjöf hefur náin tengsl við hina almennu netöryggislöggjöf enda fjármálakerfið í flokki nauðsynlegra innviða.

Sjá hér samantekt og útskýringar á hinni nýju netöryggislöggjöf á vef Evrópuþingsins.

Til viðbótar framangreindu liggur nú fyrir Evrópuþinginu og ráðherraráðinu tillaga framkvæmastjórnarinnar að nýrri reglugerð þar sem lagt er til að gerðar verði netöryggiskröfur til hvers kyns nettengdra vara (e. Cyber Resilience Act) en um þá tillögu framkvæmdastjórnarinnar var fjallað í Vaktinni 23. september sl.

Þá kynnti framkvæmdastjórn ESB hinn 10. nóvember sl. nýjar og auknar áherslur á netvarnir en tilefnið er m.a. nýjar öryggisáskoranir sem ESB stendur frammi fyrir í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Lögð er áhersla á fjóra þætti:

  1. Aukna samvinnu aðildarríkja á sviði netvarna
  2. Auknar öryggiskröfur í hvers kyns hugbúnaði og íhlutum sem tengist mikilvægum innviðum
  3. Aukna fjárfestingu í mannauði á sviði netöryggismála, meðal annars í gegnum ýmsar áætlanir ESB.
  4. Aukna samvinnu við samstarfsríki ESB á sviði netvarna.

Umsögn framkvæmdastjórnar ESB um frammistöðu Ungverjalands við úrbætur tengdar réttarríkinu

Framkvæmdastjórn ESB birti í vikunni umsögn sína þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld í Ungverjalandi hafi ekki staðið við loforð um innleiðingu á nauðsynlegum umbótum tengdum réttarríkinu.

Í ljósi þessa hefur framkvæmdastjórnin ákveðið að leggja til að haldið verði aftur af greiðslum til Ungverjalands sem nemur um 13,3 milljörðum evra. Annars vegar er um að ræða greiðslur úr sérstökum bjargráðasjóðum sambandsins í kjölfar kórónuveirufaraldursins, alls 5,8 milljarðar evra, og hins vegar greiðslur upp á 7,5 milljarða evra af fjárlögum ESB. Fjallað var um málið í síðustu Vakt, hinn 18. nóvember sl., en það var skömmu áður en innleiðingarfrestur framangreindra umbóta rann út og umsögn framkvæmdastjórnarinnar var enn óbirt.

Framkvæmdastjórnin kemst í úttekt sinni að því að þrátt fyrir að tilteknar umbætur hafi átt sér stað í Ungverjalandi hafi stjórnvöldum þar mistekist að uppfylla 17 skilyrði sem þau höfðu heitið að uppfylla fyrir 19. nóvember sl.

Reglugerð ESB um skilyrði af þessu tagi hefur verið í gildi frá 2021 og felur í stuttu máli í sér að brjóti aðildarríki sambandsins gegn gildum og reglum ESB sem snúa að grundvallarreglum réttarríkisins geti framkvæmdastjórnin lagt til við ráðherraráðið að fjárlagagreiðslum og greiðslum úr bjargráðasjóðum til viðkomandi ríkis verði haldið aftur. Stjórnvöld í Ungverjalandi og Póllandi settu sig sérstaklega upp á móti þessu kerfi þegar það var í smíðum en þau hafa á undanförnum árum verið sökuð um að veikja stoðir réttarríkisins í ýmsu tilliti.

Þessir 17 þættir sem snúa að Ungverjalandi fela m.a. í sér að ráðist verði í viðeigandi aðgerðir til að berjast gegn spillingu. Í því felist að koma á fót nýjum sjálfstæðum stofnunum sem búnar verði réttu verkfærunum og getu til að bregðast við spillingarmálum. Þá verði að efla samkeppnisumhverfi, auka gagnsæi í opinberum innkaupum, tryggja að reglur séu um hagsmunaárekstra og auknar kröfur gerðar um endurskoðun og eftirlit. Einnig verði tryggt að Evrópuskrifstofa um aðgerðir gegn svikum (OLAF) geti á áhrifaríkan hátt starfað og framkvæmt úttektir á stöðu mála í Ungverjalandi.

Þá gera úbótakröfurnar m.a. ráð fyrir því að ráðist verði í aðgerðir til að tryggja og efla sjálfstæði dómstóla, m.a. með því að auka vald hins óháða landsréttarráðs þannig að hægt sé að tryggja gagnsæi í stjórnsýslu dómstóla og takmarka líkur á því ótilhlýðileg áhrif og geðþóttaákvarðanir hafi áhrif á stjórnsýslu þeirra. Þá verði ráðist í endurskipulagningu á núverandi starfsemi hæstaréttar landsins til að takmarka hættu á pólitískum áhrifum. Einnig sé brýnt að afnema hlutverk stjórnlagadómstóls landsins við endurskoðun ákvarðana dómara sem þeir taka að beiðni opinberra yfirvalda og jafnframt að fella niður heimildir hæstaréttar til að endurskoða spurningar sem dómarar óska að vísa til Evrópudómstólsins.

Umsögn framkvæmdastjórnarinnar og tillaga verður meðal umræðuefna á fundi efnahags- og fjármálaráðherra ESB 6. desember nk. en ekki er búist við að endanlegri ákvörðun ráðherraráðsins fyrr en eftir fund leiðtogaráðs ESB 15. og 16. desember nk.

Konur í stjórnum fyrirtækja

Tímamót urðu í jafnréttismálum innan ESB urðu er tilskipun um hlutfall kvenna í stjórnun fyrirtækja var samþykkt í Evrópuþinginu. Málið hefur verið afar lengi til umræðu innan ESB en tillaga að tilskipuninni var lögð fyrir þingið og ráðið árið 2012.

Síðastliðin tvö ár hefur málið verið sameiginlegum lista framkvæmdastjórnarinnar, ráðsins og þingsins yfir löggjafartillögur sem setja skuli í forgang og náðist loks efnisleg samkomulag milli Evrópuþingsins og ráðherraráðsins um málið síðastliðið sumar.

Tilskipunin leggur þá skyldu á aðildarríkin að jafna hlutfall kvenna og karla í stjórnum skráðra fyrirtækja fyrir árið 2026. Tilskipunin leggur upp tvær leiðir í þessu efni og geta aðildarríkin valið hvor leiðin er farin. Annars vegar geta aðildarríkin valið að einskorða reglurnar við stjórnir fyrirtækja og skulu hlutföll kynjanna þá vera á bilinu 40-60%. Hins vegar geta aðildarríkin ákveðið að reglurnar taki jafnframt til þeirra sem sitja í framkvæmdastjórnum fyrirtækjanna og skall hlutfall hvors kyns um sig þá í heildina ekki vera undir 33%.

Jafnlaunadagurinn

Kynbundinn launamunur í Evrópu er metinn 13% að meðaltali konum í óhag. Sá launamunur jafngildir einum og hálfum mánaðarlaunum á ársgrundvelli. Í samræmi við það rann jafnlaunadagur Evrópu upp þann 15. nóvember sl. Á vettvangi ESB, ýmissa aðildarríkja og frjálsra félagasamtaka hefur jafnlaunadagurinn verður nýttur  til að minna á báráttuna fyrir launajafnrétti kynjanna og var m.a. efnt til ráðstefnu í Brussel af þessu tilefni 4. nóvember sl.

Orkumál - nýjar tillögur og umræður í ráðherraráði ESB

Á þriðjudaginn í síðustu viku kynnti framkvæmdastjórn ESB nýjar löggjafartillögur sem hafa það að markmiði að vernda fyrirtæki og heimili í ESB fyrir háu orkuverði. Hinar nýju tillögur bætast við fjölmargar tillögur sem framkvæmdastjórnin hefur lagt fram á árinu til að bregðast við orkukrísunni sem árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu hefur valdið. Sumar tillögur hafa þegar náð fram að ganga en aðrar bíða enn afgreiðslu hjá löggjafarstofnunum ESB, ráðherraráðinu og Evrópuþinginu eftir atvikum. Fyrstu tillögur framkvæmdastjórnarinnar, er litu dagsins ljós í mars, lutu að skyldum aðildarríkjanna til að byggja upp og viðhalda gasforða, og voru þær tillögur samþykktar í ráðherraráðinu í júní. Í maí kynnti framkvæmdastjórnin síðan bráðabirgðaaðgerðir til að sporna við hækkandi orkuverði auk þess sem þá voru kynntir valkostir til lengri tíma. Á sama tíma var aðgerðaráætlun framkvæmdastjórnarinnar „REPowerEU“ kynnt en áætlunin er hryggjarstykkið í orkumálaáætlun ESB til lengri tíma og miðar að því að umbylta evrópsku orkukerfi í átt að endurnýjanlegum orkugjöfum og gera ESB óháð jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi. Í ágúst voru síðan samþykktar ráðstafanir til að draga úr notkun á gasi. Til enn frekari ráðstafana var gripið í september í formi markaðsinngripa til að draga úr verðhækkunum og í október voru síðan kynntar nýjar löggjafartillögur til að bregðast við háu orkuverði og tryggja framboð og eru þær tillögur enn til umræðu í ráðinu eins og nánar er fjallað um hér að neðan. Hinn 9. nóvember voru síðan kynntar löggjafartillögur sem miða að því að liðka fyrir uppbyggingu og fjárfestingum í endurnýjanlegum orkuiðnaði

Þær löggjafartillögur sem framkvæmdastjórnin kynnti í síðustu viku fela síðan í sér frekari útfærslu markaðsráðstafana sem kynntar voru í október og ætlað er sporna við verðtoppum á gasi og voru tillögurnar m.a. unnar með hliðsjón af áherslum sem fram komu á fundi leiðtogaráðs ESB 20. og 21. október.

Framangreindar löggjafartillögur voru til umræðu á fundi orkumálaráðherra ESB þann 24. nóvember og náðist þar samstaða um innihald reglugerðar ráðsins um að efla samstöðu með betri samræmingu við innkaup á gasi, um flutning á gasi yfir landamæri og innleiðingu áreiðalegra verðviðmiða til að draga úr verðsveiflum á gasi og rafmagni, sbr. tillögur framkvæmdastjórnarinnar frá október sem fjallað var um í Vaktinni 21. október. Hinum nýju reglum er ætla að styðja við sameiginleg innkaup ESB-ríkja á gasi á alþjóðlegum mörkuðum. Þannig er reglunum ætlað að auka samstöðu ef raunverulegur neyðar- og gasskortur verður, tryggja betri samhæfingu, takmarka sveiflur á gas- og raforkuverði og setja áreiðanleg viðmið fyrir gasverð.

Samhæfing á vettvangi ESB miðar að því að tryggja aðildarríkjunum betri kjör við innkaup á gasi alþjóðlegum mörkuðum og er ætlað að koma í veg fyrir að aðildarríki yfirbjóði hvert annað. Þannig ber aðildarríkjum, gasfyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum sem nota gas að upplýsa um innflutningsþörf sína. Mun ESB á þeim grundvelli láta þjónustuveitu (service provider) reikna út samanlagða eftirspurn og leita tilboða á alþjóðlegum mörkuðum til að mæta henni. Þess verður krafist að fyrirtæki innan ESB noti þjónustuveituna og að safnað verði upplýsingum um eftirspurn eftir gasi sem jafngildir að lágmarki 15% af gasgeymsluskyldum aðildarríkja fyrir árið 2023. Söfnun upplýsinga umfram það verður valfrjáls. Reglugerðin felur einnig í sér ákvæði sem eiga að tryggja aukið gagnsæi fyrirhugaðra og lokaðra útboða og innkaupa. Á fundi orkumálaráðherranna kom skýrt fram að rússneskt gas verði útilokað frá sameiginlegum innkaupum.

Reglugerðin gerir að auki ráð fyrir að þróað verði nýtt verðviðmið fyrir 31. mars nk. til að tryggja stöðuga og fyrirsjáanlega verðlagningu á gasi. Þá gerir reglugerðin ráð fyrir verðtakmörkunum vegna viðskipta sem gerð eru innan sama dags til að koma í veg fyrir óhóflegu verðflökt innan viðskiptadags.

Ef raunverulegur gasskortur á sér stað þá gera reglurnar aðildarríkjunum kleift að grípa til ráðstafana og fyrirskipa bann við ónauðsynlegri gasnotkun, t.d. upphitun utandyra og upphitun sundlauga við heimili ef það telst nauðsynlegt til að tryggja gas fyrir nauðsynlega innviði, atvinnugreinar og til upphitunar heimila, skóla og sjúkrahúsa. Aðildarríkjum verður frjálst að skilgreina hvert fyrir sig hvað teljist ónauðsynleg gasnotkun í slíkum neyðaraðstæðum.

Þá miða reglurnar að því að auðvelda aðildarríkjum að óska aðstoðar annarra aðildarríkja geti þau ekki á eigin spýtur tryggt nægjanlegt gasmagn fyrir raforkukerfi þeirra. Geta aðildarríki óskað slíkrar aðstoðar þegar það telst nauðsynlegt til að  tryggja gas og raforkuframleiðslu fyrir heimili og mikilvæga innviði.

Ráðherrarnir náðu einnig samkomulagi um innihald reglugerðar sem miðar að því að flýta fyrir uppbyggingu og fjárfestingum í endurnýjanlegum orkuiðnaði. Markmið reglugerðarinnar er að einfalda leyfisveitingar vegna framkvæmda við orkuver sem framleiða  endurnýjanlega orku. Sérstaklega er litið til verkefna sem mögulegt er að ráðast í með skjótum hætti og valda ekki miklum umhverfisáhrifum. Reglugerðin mun gilda í 18 mánuði en að þeim tíma liðnum verður endurmetið hvort rétt sé að framlengja hana.

Loks var ráðherrunum kynntar löggjafartillögur framkvæmdastjórnarinnar sem birtar voru í síðustu viku og vikið er að hér að framan. Af fundarniðurstöðum er ljóst að nokkur vinna er eftir við endanlegan frágang þeirrar reglugerðar.

Stefnt er að formlegri afgreiðslu þeirra tveggja reglugerða sem efnisleg samstaða hefur náðst um á næsta fundi orkumálaráðherra ESB sem áætlaður er 14. desember nk.

Nýjar reglur um umbúðir

Framkvæmdastjórn ESB kynnti í vikunni tillögur að nýjum reglum um umbúðir. Markmið reglnanna er takmarka sóun vegna umbúða og auka endurnotkun og endurvinnslu þeirra þannig að umbúðageirinn verði kolefnishlutlaus fyrir árið 2050.

Magn umbúða sem fellur til á hverju ári er gríðarlegt en talið er að hver íbúi ESB skilji eftir sig að meðaltali um 180 kg af umbúðaúrgangi á hverju ári. Verði ekki gripið til aðgerða er áætlað að umbúðaúrgangur muni aukast um 19% til ársins 2030. Er nýjum reglum ætlað að stöðva þessa þróun og er stefnt að því að draga úr umbúðaúrgangi um 15% fyrir árið 2040 miðað við stöðuna eins og hún var árið 2018.

Nánar tiltekið eru markmið reglanna þríþætt:

  • Að takmarka myndun umbúðaúrgangs, með því að minnka magn umbúða, takmarka óþarfa umbúðir og stuðla að fjölnota og endurfyllanlegum umbúðalausnum.
  • Að efla hágæða endurvinnslu á umbúðum, með því að gera allar umbúðir á ESB-markaði endurnýtanlegar á efnahagslega hagkvæman hátt fyrir árið 2030.
  • Að draga úr notkun á nýju hráefni í umbúðaframleiðslu m.a. með því að skapa vel starfhæfan markað fyrir endurnýtt hráefni.

Tillögur framkvæmdastjórnarinnar ganga nú til umfjöllunar í Evrópuþinginu og ráðherraráði ESB.

Samhliða framangreindum tillögum kynnti framkvæmdastjórn ESB stefnuramma um plast af lífrænum uppruna, lífbrjótanlegt plast og jarðgerðanlegt plast. Er stefnunni ætlað að marka leiðina fram á við á þessum sviðum m.a. varðandi kröfur um visthönnun fyrir sjálfbærar vörur, fjármögnunaráætlanir og alþjóðasamvinnu.

Fundur EES-ráðsins

EES-ráðið kom saman til fundar í Brussel 23. nóvember. Eins og fjallað var um í Vaktinni 18. nóvember þá er ráðið er æðsta stofnunin í sameiginlegu stofnanakerfi EES/EFTA-ríkjanna og ESB sem sett var á fót með samninginum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Ísland fer nú með formennsku í EES-samstarfinu og stýrði utanríkisráðherra Íslands, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðsfundinum, sem var nú í fyrsta skipti haldinn í hinu nýja EFTA húsi í Brussel.

Auk umræðu um stöðu og framkvæmd EES-samningsins almennt voru málefni Úkraínu og öryggismál í Evrópu, aðgerðir í loftlagsmálum og orkuskipti meðal umræðuefna. Sjá hér myndband frá fundinum og viðtöl við ráðsmeðlimi.

Í tengslum við ráðsfundinn áttu ráðherrarnir fund með þingmannanefnd EFTA (e. EFTA Parliamentary Committee) og ráðgjafarnefnd EFTA (e. EFTA Consultative Committee) þar sem stríðið í Úkraínu, orkukreppan og grænu orkuumskiptin voru til umræðu.

Ráðstefna um orkumál

Ísland fer um þessar mundir með formennsku í fastanefnd EFTA-ríkjanna og stóð af því tilefni fyrir málþingi um orkuskipin í EFTA húsinu í gær. Málþingið bar fyrirsögnina „Energy: Steps towards the Green Transition“ og var haldið í samstarfi við Noreg og Liechtenstein.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, opnaði málþingið og sagði frá stöðu orkumála á Íslandi. Í máli hans kom fram að þótt staðan á Íslandi væri góð væru orkuskiptin risavaxið verkefni sem ásamt metnaðarfullum markmiðum stjórnvalda um kolefnishlutleysi árið 2040 væri mikil áskorun fyrir Ísland. Þá kom fram í máli ráðherra að Ísland byggi yfir mikilli þekkingu og reynslu sem deila mætti með ríkjum Evrópu, til að mynda við jarðhitavinnslu en ónýtta möguleika á því sviði væri að finna í Evrópu. Evrópuþjóðir hafi möguleika á að nýta lághitasvæði mun betur en gert er í dag og auka þannig orkuöryggi sitt. Jarðhiti gæti orðið hluti lausnarinnar.

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, flutti aðalerindi fundarins auk þess sem hún stýrði pallborðsumræðum í lokin. Hún sagði frá sögu jarðhitanýtingar á Íslandi, fór ítarlega yfir möguleika Evrópuríkja til eigin nýtingar og þau atriði sem þyrfti að huga að til þess að hraða innleiðingu endurnýjanlegra orkugjafa á meginlandinu. Vissulega væru áskoranir til staðar en í þeim fælust tækifæri til þess að gera betur, til dæmis í menntun og þjálfun tengdri orkumálum. 

Fulltrúi Tékklands, sem fer með formennsku í ráðherraráði ESB um þessar mundir, gerði grein fyrir áherslum ESB í orkumálum á undanförnum misserum sem ítarlega hefur verið fjallað um í Vaktinni. Fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB tók jafnframt þátt í málþinginu og fjallaði um hvernig hægt væri að nýta REPowerEU stefnu sambandsins í orkumálum til þess að hraða innleiðingu endurnýjanlegra orkugjafa. Sendiherra Noregs gagnvart Belgíu fór yfir áherslur Norðmanna á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, orkufulltrúi sendiráðs Liechtenstein sagði frá reynslu þeirra af nýtingu sólarroku og Borgar Þór Einarsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Uppbyggingarsjóðs EES fór yfir verkefni sjóðsins á sviði orkumála og hvernig sjóðurinn gæti greitt fyrir árangri á þessu sviði.

Í lokin fóru fram pallborðsumræður þar sem Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar tók þátt auk framangreindra aðila. Þar kom fram rík áhersla á mikilvægi þess að tryggja orkusjálfstæði Evrópuríkja og afhendingaröryggi orku í álfunni. Betri orkunýting, nýsköpun og samvinna voru talin mikilvæg atriði til árangurs en tækifærin á sviði orkuskipta væru mörg og af margbreytilegum toga. Fram kom að vetni væri á meðal mikilvægustu orkugjafa til framtíðar. Þá var samhljómur um að hlutverk einkageirans, einstaklinga og fyrirtækja, væri þýðingarmikið og mikilvægt að væri að virkja ríkan vilja almennings til að vera hluti af lausninni. Gera þyrfti betur í að móta leikreglurnar og setja aukið fjármagn í innleiðingu umhverfisvænna og orkusparandi ráðstafana.

***

Brussel-vaktin, fréttabréf fastanefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta