Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2023 Brussel-vaktin

Grænn iðnaður og ríkisstuðningur

Að þessu sinni er fjallað um:

  • viðbrögð Evrópusambandsins (ESB) við nýjum stuðningsaðgerðum við grænan iðnað í Bandaríkjunum
  • þátttöku Íslands í loftslagsbandalagi utanríkisviðskiptaráðherra
  • fjármálareglur ESB
  • fund fjármála- og efnahagsráðherra ESB
  • fund innanríkisráðherra ESB
  • opið samráð um endurskoðun reglna um evrópskan raforkumarkað
  • málshöfðun Danmerkur til ógildingar á tilskipun um lágmarkslaun
  • heimsókn formanns stýrihóps stjórnarráðsins um framkvæmd EES-samningsins

 

Viðbrögð ESB við nýjum stuðningsaðgerðum við grænan iðnað í Bandaríkjunum

Ef frá er talið árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu þá er um fátt meira fjallað á vettvangi ESB um þessar mundir en nýja lagasetningu í Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA) sem ætlað er að draga úr verðbólgu þar í landi (e. Inflation Reduction Act – IRA) en löggjöfin tók gildi um nýliðin áramót.

Mikilvægi BNA sem helsta viðskiptaaðila ESB hefur aukist enn frekar eftir innrás Rússlands í Úkraínu. Þannig áttu stórfelldir flutningar á gasi og olíu frá BNA til Evrópu stóran þátt í því hversu vel hefur gengið að fylla á varabirgðir Evrópuríkja fyrir veturinn.

Þrátt fyrir samstöðu gegn árásarstríði Rússa hefur togstreita í samskiptum ESB og BNA á sviði viðskipta- og samkeppnismála þó farið vaxandi og hafa ráðamenn í ESB helst haft áhyggjur af áhrifum framangreindrar IRA-löggjafar á græna framleiðslu- og iðnaðarstarfsemi innan ESB. Bent hefur verið á að löggjöfin geti mögulega orðið til þess að evrópsk fyrirtæki á þessum sviðum kjósi í einhverjum tilvikum að flytja starfsemi sína frá ríkjum ESB til BNA, verði ekki gripið til umfangsmikilla mótvægisaðgerða.

En um hvað snýst hin bandaríska löggjöf? Um er að ræða yfirgripsmikinn og margbrotinn löggjafarpakka sem hefur það að markmiði að draga úr verðbólgu eins og nafnið gefur til kynna en græn orkuskipti og stuðningur við grænan iðnað eru þó undirliggjandi meginmarkmið laganna þegar nánar er að gáð.

Löggjafarpakkinn skiptist í grófum dráttum í eftirfarandi hluta:

Umbætur í skattkerfi:

  • Kveðið er á um 15% lágmarksskatt á stórfyrirtæki, samkvæmt nánari reglum.
  • Kveðið er á um upptöku ófrádráttarbærs fjármagnsgjalds vegna endurkaupa á hlutabréfum er nemur 1% af gangvirði viðkomandi bréfa, samkvæmt nánari reglum.
  • Þá veita lögin heimild til viðbótarfjárframlaga til skattyfirvalda til þróunar skattkerfa og bættrar skattheimtu.

Aðgerðir til lækkunar á lyfjaverði.

  • Lögin fela í sér auknar heimildir og skyldu heilbrigðis- og sjúkratryggingastofnunar BNA til að semja um verð mikilvægustu lyfja og um gjaldskyldu þeirra framleiðenda sem ekki sýna samningsvilja, samkvæmt nánari reglum.
  • Lögð er skylda á lyfjafyrirtæki til að veita afslátt af frumheitalyfjum þar sem samheitalyf eru ekki í boði, ef kostnaður einstaklings fer yfir 100 dollara á ári, og verð hækkar hraðar en verðbólga, samkvæmt nánari reglum.
  • Innleiddar eru reglur um hámarksútgjöld sjúklinga fyrir lyf og læknisþjónustu á ári hverju.

Orkuöryggi og hreinorkustefna

  • Lögin framlengja skattafslátt sem verið hefur við lýði vegna framleiðslu umhverfisvænnar raforku auk þess sem innleiddar eru ýmsar frekari skatthagræðingaraðgerðir vegna framleiðslu sem stuðlað geta að slíkri vistvænni orkuframleiðslu.
  • Þá er með lögunum innleiddur nýr skattafsláttur fyrir kolefnishlutlausa kjarnorku sem framleidd er og seld á árabilinu frá 2024 til 2033.
  • Þá er skattafsláttur vegna framleiðslu lífeldsneytis framlengdur til loka árs 2024
  • Nýr skattafsláttur vegna sölu sjálfbærs flugvélaeldsneytis og íblöndunarefna er innleiddur, samkvæmt nánari reglum.
  • Nýr skattafsláttur vegna framleiðslu á vottuðu hreinu vetni, samkvæmt nánari skilgreiningu, er innleiddur.
  • Lögin fela í sér skattívilnanir til fyrirtækja og einstaklinga og heimila sem ráðast í orkusparandi aðgerðir til að auka orkunýtni húsa og híbýla sinna.
  • Skilyrði fyrir skattafslætti til einstaklinga vegna kaupa á rafknúnum ökutækjum er breytt og skattafsláttur einskorðarður við ökutæki sem framleidd eru af viðurkenndum bandarískum framleiðendum og útiloka lögin ökutæki sem framleidd eru eða sett saman af erlendum aðilum sem BNA skilgreinir óvinveitt. Einungis einstaklingar með tekjur undir ákveðnu hámarki geta nýtt sér afsláttinn og jafnframt er sett hámark á smásöluverð ökutækis til að afslátturinn fáist.
  • Nýr skattafsláttur er innleiddur vegna kaupa á vistvænum ökutækjum til atvinnurekstrar, samkvæmt nánari reglum.
  • Lögin fela í sér nýjan skattafslátt vegna framleiðslu og sölu íhluta í sólar- og vindorkuver til ársins 2032.
  • Lögin hvetja til aukinnar fjárfestingar í hreinni innlendri orku og er sérstakur skattafsláttur innleiddur fyrir slíka framleiðslu og varðveislu hennar (rafhlöður).
  • Lögin hvetja til fjárfestingar í nýjum vistvænum raforkuverum með loforði um skattafslætti og afskriftir á skömmu tíma, að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum.

Vistvænn landbúnaðar og skógrækt

  • Lögin veita heimildir til margvíslegra styrka til nýsköpunar og skattafslátta í landbúnaði og skógrækt til stuðnings grænna umskipta og kolefnisbindingar og eru sérstakar ráðstafanir á þessu sviði boðaðar í dreifbýli BNA og í byggðum frumbyggja.

Landvarnir og hagvarnir

  • Lögin veita forseta BNA auknar fjármögnunarheimildir og víðtækar valdheimildir til að grípa til ráðstafana til að tryggja aðgang að hráefnum og íhlutum vegna varnartengdrar framleiðslu.

Verndun hafs- og strandsvæða

  • Lögin veita stjórnvöldum og öðrum nánar skilgreindum aðilum á sviði verndunar hafs og stranda auknar fjárheimildir og tæknilega aðstoð við verndun hafs og strandsvæða meðal annars með hliðsjón af verðurfarsbreytingum vegna loftlagsáhrifa.

Annað

  • Lögin veita heimild til aukinna fjárframlaga til margvíslega sjóða og áætlana á vegum ráðuneyta og stjórnarstofnana, t.d. til að auka orkunýtingu bygginga, endurbóta í raforkuflutningakerfinu og varnir gegn þurrkum, dýralífsvernd og margt fleira.
  • Lögin fela einnig í sér endurskoðun og hækkun auðlindagjalda vegna orkunýtingar í þjóðlendum BNA, bæði á sjó og landi.
  • Loks er auknu fjármagni jafnan veitt til viðkomandi stofnana og stjórnvalda BNA til að sinna þeim nýju og auknu verkefnum sem í lögunum felast.

En hvað er það í framangreindu sem veldur ráðamönnum í ESB áhyggjum? Flest ríki glíma þessi misserin við verðbólgu og beita þau ýmsum aðgerðum í þeirri viðureign. Þá hlýtur ESB að fagna þeirri kraftmiklu og sögulegu áherslu sem lögð er á hreinorkuskipti og grænan iðnað í lögunum, áherslu sem á sér enga hliðstæðu í BNA.

Markmið ESB og BNA eru því þau sömu en hins vegar er deilt um aðferðirnar og umfang þeirra ríkisstyrkja sem í lögunum felast.

Samantekið umfang ríkisstyrkja til grænna fjárfestinga, aðallega í formi skattívilnana, í IRA-lögunum er gríðarlegt og hefur verið metið á 369 milljarða bandaríkjadala eða sem nemur rúmum 53 þúsund milljörðum íslenskra króna eða um 14-faldri landsframleiðslu Íslands.

Er óttast að þessar víðtæku skattívilnanir muni hvetja fyrirtæki á sviði grænnar iðnaðarframleiðslu til að flytja starfsemi sína frá ESB til BNA, jafnvel í stórum stíl. Þá hefur því verið haldið fram að lögin hvetji neytendur til þess að kaupa tilteknar vörur, aðallega bifreiðar, sem framleiddar eru í BNA fremur en aðrar. Þetta slær ráðamenn í ESB vitaskuld illa enda hefur mikil áhersla verið á uppbyggingu í sömu iðngreinum á umliðnum árum innan ESB og gríðarlega mikið í húfi að viðhalda henni.

Vegna þessa hafa margir stigið fram og bent á nauðsyn þess að innan ESB verði gripið til ívilnandi aðgerða sem jafnast geti á við þær sem BNA hefur innleitt með IRA-löggjöfinni, meðal annars með því að rýmka ríkisstyrkjaheimildir aðildarríkja ESB. Hafa Þjóðverjar verið í fararbroddi þessarar umræðu og Frakkar og fleiri tekið undir. Þá hefur Thierry Breton, ráðherra innri markaðsmála í framkvæmdastjórn ESB beitt sér mjög í nokkurn tíma fyrir samræmdum mótvægisaðgerðum af hálfu ESB til verndar evrópskum iðnaði. Á sama tíma hefur legið fyrir að samtal væri í gangi á milli ESB og BNA um sameiginlegar lausnir til að koma í veg fyrir grænt styrkjakapphlaup milli ríkjabandalaganna.

Til tíðinda dró svo þann 17. janúar sl. er forseti framkvæmdastjórnarinnar, Ursula von der Leyen (VdL), flutti ræðu á ráðstefnu World Economic Forum í Davos. Auk þess að fjalla um hin stóru mál líðandi stundar, þ.e. stríðið í Úkraínu og orkumálin almennt, minnti hún á nauðsyn þess að skapa jákvætt umhverfi til fjárfestinga í nýjum og endurnýjanlegum orkugjöfum og hvers konar grænni tækni til að tryggja þá framtíð sem við viljum sjá. Í ræðunni kom fram einbeittur ásetningur af hennar hálfu um að ESB verði í forystu græns iðnaðar enda muni samkeppnishæfni ríkja og ríkjabandalaga í framtíðinni ráðast af því. Kvað hún IRA-löggjöf BNA vera stórt skref í baráttunni við loftslagsbreytingar en það væri hins vegar ekkert launungarmál að ýmsir þættir laganna hefðu valdið áhyggjum innan ESB. Kom fram í ræðunni að sökum þessa væri ESB í samtali við BNA um lausnir, þ.e. hvernig evrópsk fyrirtæki geti notið góðs af IRA. Sameiginlegur slagkraftur ESB og BNA í framfaraátt á þessu sviði væri gríðarlegur ef þeim auðnaðist að láta samkeppni og viðskipti sín á milli ráða ferðinni. Þá kynnti VdL viðbragðsáætlun framkvæmdastjórnar ESB undir yfirskriftinni „Green Deal Industrial Plan“.

Iðnaðaráætlun græna sáttmálans (e. Green Deal Industrial Plan) byggist á fjórum meginstoðum:

  • Einföldun regluverks. Fyrsta stoðin snýr að því að hraða leyfisveitingum og einfalda regluverk um endurnýjanlega orkugjafa. Samhliða því verður sett fram tillaga að nýrri reglugerð undir heitinu „Net-Zero Industry Act“ sem á að hvetja til fjárfestinga í allri virðiskeðju græns iðnaðar.

  • Innleiðingu fjárfestingahvata. Önnur stoðin snýr að því að auka fjárfestingu í hreinni/grænni tækni. Í því skyni verði tímabundið slakað á ríkisaðstoðarreglum m.a. til að mæta þeim ívilnunum sem aðrir bjóða, þ.e. BNA en sömuleiðis Kína. Til að jafna aðstöðumun aðildarríkja ESB þar sem svigrúm ríkjanna til ríkisaðstoðar er mismunandi boðaði VdL að nýjan sjóð undir heitinu „EU Sovereignty Fund

  • Færnisátaki. Þriðja stoðin snýr að því að auka hæfni og færni fólks á vinnumarkaði aðildarríkjanna á öllum sviðum tengdum grænum iðnaði og orkuskiptum. Árangri á þessum sviðum verður ekki náð nema með þekkingu og hæfni. Í þessu sambandi vísaði VdL til þess að árið í ár, 2023, er tileinkað þjálfun á færni einstaklinga (e. European Year of Skills).

  • Frjálsum og sanngjörnum viðskiptum. Fjórða stoðin snýr að frjálsum og sanngjörnum viðskiptum. Í máli VdL kom fram að tryggja yrði öruggar aðfangakeðjur fyrir grænan iðnað og í því tilliti væri unnið að því að klára fríverslunarsamninga m.a. við Mexíkó, Síle, Nýja Sjáland og Ástralíu auk þess sem unnið væri að framgangi samningaviðræðna við Indland og Indónesíu. VdL vék einnig í ræðu sinni að nauðsyn þess að huga að sambandinu við Kína en Kína hefur sett rannsóknir og nýsköpun í grænum iðnaði í öndvegi í fimm ára áætlun sinni og hvatt fyrirtæki til að flytja starfsemi sína þangað með loforðum um ódýra orku og ódýrt vinnuafl, litla reglubyrði auk ýmissa ívilnana. Á sama tíma takmarkar Kína mjög aðgang að eigin markaði. Skilaboð VdL voru skýr. Enda þótt frjáls viðskipti væru markmiðið þá yrði ESB að bregðast mjög ákveðið við ef viðskipti væru ekki sanngjörn og ekki á jafnræðisgrundvelli.

Thierry Breton, sem fer með innri markaðsmál í framkvæmdastjórn ESB, hefur upplýst að fjölmörg aðildarríki ESB hafi nú þegar ákveðið eða hafið undirbúning að umfangsmiklum mótvægisaðgerðum til þess að styðja við grænan iðnað í löndum sínum. Þá vegferð leiði stóru ríkin innan ESB m.a. Þýskaland, Frakkland, Holland, Spánn og Ítalía, og er talið að þau ætli jafnvel að leggja til allt að 2-3% af vergri þjóðarframleiðslu landa sinna til aðgerðanna.

Þá hefur ráðherra samkeppnismála í framkvæmdastjórn ESB, Margrethe Vestager, boðað tímabundnar breytingar á ríkisstyrkjareglum ESB til að mæta þeim krísuaðstæðum sem uppi eru og einnig lagt til að sérstök styrkjaáætlun verði hönnuð til verjast brotthvarfi fyrirtækja frá aðildarríkjum ESB (e. anti-relocation investment aid).

Eins og áður segir veldur þetta áhyggjum hjá minni aðildarríkjum ESB sem hafa minna svigrúm til að styrkja samkeppnishæfni fyrirtækja í löndum sínum. Framangreindur fullveldissjóður ESB (e. EU Sovereignty Fund) er svar VdL við þeim áhyggjum. Á hinn bóginn liggur ekki fyrir ákvörðun aðildarríkjanna um fjármögnun sjóðsins og hafa borist fréttir af því að andstaða sé við áform innan leiðatogaráðs ESB um aukið fjármagn í sjóðakerfið. Náist ekki samkomulag um aukin fjárframlög verður fjármagnið í hinn nýja sjóð væntanlega að koma úr þeim sjóðum sem fyrir eru, s.s. NextGenerationEU.

Þá er ljóst að framangreindar hugmyndir og áætlanir um rýmri ríkisstyrkjareglur og nýja og stærri sameiginlega styrktarsjóði samræmast illa fjármálareglum ESB, sbr. nánari umfjöllun hér að neðan í Vaktinni um þær reglur.

Þess er vænst að VdL gefi út yfirlýsingu til leiðtoga ESB ríkjanna í byrjun febrúar um væntanlegar tillögur framkvæmdastjórnarinnar um aðgerðir og að sú yfirlýsing verði síðan grunnur að umræðu um málið á leiðtogaráðsfundi ESB sem fyrirhugaður er dagana 9. og 10. febrúar nk.

Þátttaka Íslands í loftslagsbandalagi utanríkisviðskiptaráðherra

Hinn 19. janúar sl. ýttu framkvæmdastjórn ESB og 26 ríki í svokölluðu loftslagsbandalagi utanríkisviðskiptaráðherra (e. Coalition of Trade Ministers on Climate) úr vör. Ísland er meðal þeirra ríkja sem taka þátt en tilkynnt var um stofnun bandalagsins á árlegum fundi World Economic Forum í svissneska bænum Davos.

Stofnun bandalagsins tengist starfi á sviði viðskipta og umhverfismála og er meginmarkmið þess að samþætta áherslur og aðgerðir á þeim sviðum, þvert á ríki og viðskiptageira. Þannig verði leitast við að bera kennsl á leiðir til þess að gera viðskiptastefnur ríkja umhverfisvænni svo hægt sé að takast á við loftslagsvána en jafnframt tryggja framþróun. Bandalagið mun stuðla að viðskiptum og fjárfestingum í vörum, þjónustu og tækni til að laga sig að breyttu umhverfi af völdum loftslagsbreytinga. Áberandi þáttur í stefnuskrá bandalagsins er að finna leiðir til að styðja við þróunarlönd og þau lönd sem standa frammi fyrir mestri hættu vegna loftslagsbreytinga.

Forysturíki bandalagsins eru Ekvador, Evrópusambandið, Kenía og Nýja-Sjáland. Þá taka þátt, auk Íslands, Angóla, Ástralía, Barbados, Grænhöfðaeyjar, Kanada, Kólumbía, Kosta Ríka, Gambía, Japan, Suður-Kórea, Maldívur, Mósambík, Noregur, Filippseyjar, Rúanda, Sambía, Singapúr, Sviss, Úkraína, Bretland, Bandaríkin og Vanúatú. Vera má að fleiri ríki bætist við en bandalagið er opið öllum þeim ríkjum sem vilja taka þátt og láta gott af sér leiða í baráttunni gegn loftslagsvánni.

Næsti fundur ráðherra ríkja bandalagsins fer fram samhliða ráðherrafundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (e. World Trade Organisation, WTO) snemma á næsta ári en hægt er að kynna sér starfsemina betur á vefsíðu bandalagsins.

Má segja að með stofnun bandalagsins felist ákveðið mótsvar við þeirri þróun í átt til afhnattvæðingar (e. deglobalization) sem ýmsir hafa talið að eigi sér stað um þessar mundir, sbr. meðal annars hina bandarísku IRA-löggjöf sem fjallað eru um hér að framan.

Fjármálareglur ESB (e. Fiscal rules of Growth and Stability Pact).

Svíar hafa sett fram það markmið í formennskuáætlun sinni að fjármálareglur ESB öðlist að fullu gildi að nýju fyrir árslok 2023 eftir tilslakanir vegna kórónuveirufaraldursins og nú síðast vegna Úkraínustríðsins. Grunnur að þeirri vinnu eru framkomnar tillögur framkvæmdastjórnarinnar frá því í nóvember sl. og framvinda þeirra í formennskutíð Tékklands. Markmið sænsku formennskunnar er að ná samstöðu (e. consensus) um málið fyrir mitt ár sem sé mjög brýnt að mati Svía því stjórnvöld í öllum ríkjum ESB verði að reka ábyrga efnahagsstefnu.

Eins og áður hefur verið fjallað um hér í Vaktinni sýnist sitt hverjum um hversu brýnt er að fella niður undanþáguna frá fjármálareglunum fyrir lok árs. Úkraínustríðið hefur auðvitað sett stórt strik í reikninginn varðandi aukin útgjöld hjá flestum aðildarríkjum ESB beint ofan í Covid-19 efnahagskrísuna en hvort tveggja hefur dregið verulega úr getu þeirra til að greiða niður opinberar skuldir. Suður-Evrópuríkin, eins og t.d. Grikkland, standa þar verst að vígi. Í tengslum við það hafa kviknað hugmyndir eins og þær að skuldir vegna grænna, rafrænna og félagslegra fjárfestinga hins opinbera verði undanskildar þegar kemur að mati á skuldahlutfalli einstakra aðildarríkja. Rökin eru þau að þessar fjárfestingar megi ekki bíða eigi loftlagsmarkmið ESB að nást og þeim fylgi óhjákvæmilega skuldasöfnun á næstu árum. Þá spilar þungt inn í þessa umræðu þær stórauknu ívilnanir og styrkir til græns iðnaðar sem innleiddar hafa verið bæði í Bandaríkjunum og Kína ásamt fleiri löndum sem ESB þurfi að svara með umfangsmiklum mótvægisaðgerðum, sbr. umfjöllun í Vaktinni hér að framan. Með öðrum orðum benda ýmsir á að fjármálareglan um skuldahlutfallið og raunar einnig reglan um halla hins opinbera gangi gegn loftslagsmarkmiðum ESB og geti skert samkeppnisstöðu fyrirtækja innan ESB gagnvart Bandaríkjunum, Kína o.fl. Hér þurfi einnig að huga að því hvort um sé að ræða lántöku til langtímafjárfestinga eða til skemmri tíma.

Annar galli á gildandi reglum, sem einnig er nefndur, er að ríkin geti safnað skuldum á þenslutímum en verði síðan að draga saman seglin þegar að kreppir á sama tíma og þörfin fyrir aukin útgjöld og fjárfestingar er einna brýnust. Gildandi reglur vinni með öðrum orðum gegn stöðugleika innan sambandsins. Reglunum þurfi að breyta þannig að þær verði í auknum mæli sveiflujafnandi fyrir hagkerfi ESB. Öðru vísi nái stjórnvöld ESB ríkjanna ekki tökum á efnahagsástandinu á hverjum tíma.

Sem fyrr segir kynnti framkvæmdastjórn ESB óformlegar tillögur að breytingum á fjármálareglunum á Ecofin fundi í nóvember 2022. Meginbreytingin er sú að regluverkið verði sveigjanlegra en það sem er í gildi nú. Hún felur í raun í sér viðurkenningu á því að stefnan um „one-size-fits-all“ eigi ekki við lengur. Samkvæmt tillögunum er tekið tillit til stöðunnar í hverju ríki fyrir sig. Sem dæmi geta þau ríki þar sem skuldahlutfallið fer yfir 60% lagt fram endurskoðaða efnahags- og fjármálaáætlun á grundvelli aðgerðaáætlunar sem sýnir hvernig stjórnvöld hyggjast ná skuldahlutfallinu undir 60% og hallanum undir 3%.

Árið 2021 var skuldahlutfall 14 aðildarríkja ESB yfir 60% og sama ár voru 14 ríki, oftast þau sömu, rekin með meira en 3% halla á opinberum fjármálum. Sveigjanleikanum fylgir á hinn bóginn stífari framkvæmd og eftirlit. Sem dæmi þurfa stjórnvöld þeirra ríkja sem brjóta reglurnar að leggja fram fjögurra ára aðgerðaáætlun. Sú áætlun er lögð fyrir framkvæmdastjórnina og ráðherraráðið til samþykktar. Auk þess er framkvæmdastjórninni ætlað það hlutverk að fylgjast með framvindu aðgerðanna með reglubundnum hætti. Brot á reglunum og/eða aðgerðarleysi geta einnig leitt til þess að bandalagið hætti að veita viðkomandi ríki fjármagn sem áður hefur verið samþykkt. Í vissum tilvikum veita nýju reglurnar þó frekari sveigjanleika, þ.e. að hallinn og skuldahlutfallið aukist til skemmri tíma litið í þeim tilgangi að auka hagvöxt innan næstu 4 - 7 ára.

Flest ríkin voru nokkuð ánægð með tillögurnar, en Þjóðverjar lýstu þó strax andstöðu gegn þeim. Þýski fjármálaráðherrann, Christian Lindner, sagði m.a. að "A single monetary union also needs single fiscal rules.''. Með öðrum orðum, sveigjanleiki reglnanna passar ekki inn í þá mynd. Af þessu má ljóst vera að nýjar fjármálareglur verða eitt af meginmálum Ecofin fundanna á þessu ári, eins og Svíar hafa raunar þegar boðað. Sumir nota það orðalag að endurskoðun fjármálareglnanna verði líklega „the biggest climate debate of the year“. Í þessu samhengi er rétt að minna á að stjórnvöld aðildarríkja ESB þurfa að kynna fjárlagatillögur sínar fyrir árið 2024 eigi síðar en í september á þessu ári.

Fundur fjármála- og efnahagsráðherra ESB (e. Ecofin)

17. janúar sl. var haldinn fyrsti fundur Ecofin undir formennsku Svía á fyrri helmingi þessa árs. Sænski fjármálaráðherrann, Elisabeth Svantesson, hóf fundinn með því að fara yfir megináherslur formennskunnar sem skipta má í fjóra þætti. Þeir eru a. öryggi, b. samkeppnismál, c. umbreytingar á sviði grænna lausna og orku og síðast en ekki síst d. lýðræðisleg gildi og réttarríkið (e. rule of law).

Í umfjöllun um efnahags- og fjármál (e. economic and financial affairs) var minnt á hversu dökk efnahagsstaðan væri vegna stríðsins í Úkraínu sem óhjákvæmilega skapar mikla efnahagslega óvissu í formi vaxandi verðbólgu, orkukrísu og hárra vaxta, en við þau skilyrði dregur úr neyslu, framleiðslu og fjárfestingum. Í slíku ástandi skapaðist jafnan þrýstingur á stjórnvöld að grípa til efnahagsaðgerða til að draga úr neikvæðum áhrifum á heimili og fyrirtæki. Þar þurfa aðildarríki ESB að standa saman og nota með virkum hætti þau sameiginlegu verkfæri (e. joint instruments) sem þegar eru til staðar.

Áframhaldandi fjárhagslegur stuðningur við Úkraínu er forgangsmál af hálfu Svía, bæði til skemmri og lengri tíma. Svíar munu leggja áherslu á uppbyggilegar umræður og framgang stuðningsaðgerða, bæði með tvíhliða viðræðum milli aðila og við alþjóðafjármálastofnanir. Moldóva var líka nefnd sem mögulegt stuðningsríki vegna Úkraínustríðsins. Þá var rætt um fyrirhugaðar efnahagsaðgerðir aðildarríkjanna undir formerkjum Bjargráðasjóðsins. Svíar ætla sér að þrýsta á innleiðingu þeirra sem kostur er svo unnt verði að ráðast í nauðsynlega endurskipulagningu og mikilvægar fjárfestingar sem fyrst.

Endurskoðun á fjármálareglum ESB er einnig að finna á forgangslista Svía, sbr. umfjöllun í Vaktinni hér að framan.

Umbætur í skattamálum eru sömuleiðis á lista Svía, svo sem endurskoðun tilskipunar um orkuskatt (e. energy taxation directive) sem hefur einungis óbein áhrif á EES-samninginn. Virðisaukaskattur á rafrænar vörur og þjónustu er þar líka og sömuleiðis aðgerðir gegn skaðlegri skattasamkeppni, skattundanskotum og skattsvikum. Þar vilja Svíar auka upplýsingagjöf milli landa og samvinnu skattyfirvalda. Undir sænsku formennskunni á einnig að endurbæta og nútímavæða tollabandalag ESB. Þar er sérstaklega horft til þess að hlutleysi sé viðhaft í samkeppni á alþjóðavísu.

Á sviði fjármálamarkaðar eru nefndar auknar varnir gegn peningaþvætti og hryðjuverkastarfsemi og enn er rætt um möguleikann á því að setja upp sérstaka ESB stofnun á því sviði. Sameiginlegur fjármálamarkaður (e. capital markets union) er jafnframt á meðal áherslumála sænsku formennskunnar og sama gildir um aukna vernd neytenda og fjárfesta, m.a. með auknu gagnsæi og sjálfbærni á fjármálamarkaði í huga. Að lokum er upptaka rafrænnar evru sem lengi hefur verið rætt um einnig á lista Svía.

Óformlegur fundur innanríkisráðherra ESB

Fimmtudaginn 26. janúar sl. hittust ráðherrar innanríkismála ESB og samstarfsríkja Schengen, Íslands, Noregs, Sviss og Liechtenstein á óformlegum fundi í Stokkhólmi en Svíþjóð tók við formennsku innan ráðherraráðs ESB þann 1. janúar sl. Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, sat fundinn fyrir Íslands hönd.

Ráðherrar ræddu meðal annars mikilvægi samvinnu við þriðju ríki þegar kemur að endurviðtöku eigin ríkisborgara og hvernig auka megi skilvirkni brottvísana á þeim einstaklingum sem dvelja ólöglega innan Schengen-svæðisins. Í því samhengi var lögð áherslu á mikilvægi þess að nýta öll úrræði sem tiltæk væru til að bæta samskipti við upprunaríki. Sérstök áhersla var lögð á mikilvægi þess að nýta ákvæði 25. gr. a í reglugerð um vegabréfsáritanir (e. Visa Code) með skilvirkari og ákveðnari hætti. Samkvæmt ákvæðinu ber framkvæmdastjórn ESB reglulega og a.m.k. einu sinni á ári að leggja mat á hversu samvinnuþýð þriðju ríki eru, er kemur að endurviðtöku eigin ríkisborgara, og leggja fram skýrslu með helstu niðurstöðum þess efnis til ráðsins. Á grundvelli skýrslunnar og upplýsinga um almenn samskipti við tiltekin þriðju ríki má framkvæmdarstjórnin leggja til við ráðið að beita skuli ákveðnum takmörkunum á sviði vegabréfsáritana gagnvart þeim ríkjum sem sýna litla sem enga samvinnu, s.s. hækkun á áritanagjaldi og/eða flóknara umsóknarferli fyrir ríkisborgara viðkomandi ríkis sem sækja um vegabréfsáritun til að ferðast inn á Schengen-svæðið. Þá má einnig beita ívilnandi aðgerðum gagnvart þeim ríkjum sem standa sig vel. Ríkjandi viðhorf ráðherra á fundinum var að ef tryggja ætti trúverðugleika þegar kemur að stefnu ríkjanna í útlendingamálum og málum er varða alþjóðlega vernd skiptir sköpum að ríkin tryggi skilvirkar brottvísanir á þeim einstaklingum sem dvelja ólöglega innan Schengen-svæðisins.

Ráðherrar ræddu einnig mikilvægi þess að takast á við þennan málaflokk í góðri samvinnu allra hlutaðeigandi stjórnvalda (e. Whole-of-Government approach). Innan einstakra ríkja sé samvinna dómsmála- og innanríkisráðuneytis og utanríkisráðuneytis lykilatriði til að tryggja áframhaldandi framfarir á þessu sviði. Samvinnan sé einkar mikilvæg til að átta sig á rót vandans og einnig í baráttunni gegn í ólögmætri för einstaklinga og gegn smygli á farandfólki.

Þá ræddu ráðherrarnir báráttuna gegn skipulagðri glæpastarfsemi á stafrænni öld og mikilvægi þess að löggæsluyfirvöld hefðu aðgang að viðeigandi stafrænum gögnum í löggæslutilgangi.

Þá var innanríkisráðherra Úkraínu, Denys Monastyrskyi, minnst með einnar mínútu þögn en hann lést ásamt nokkrum öðrum í þyrluslysi í Kyiv í síðustu viku.

Opið samráð um endurskoðun reglna um evrópskan raforkumarkað

Eins og reglulega hefur verið fjallað um í Vaktinni að undanförnu þá hafa miklar verðsveiflur og verðtoppar verið í orkuverði í aðdraganda og kjölfar árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu. Hefur þetta haft í för með sér alvarleg áhrif á heimili og atvinnulíf í Evrópu og hefur ESB gripið til margvíslegra neyðarráðstafana til að takast á við hátt orkuverð og tryggja um leið afhendingaröryggi orku. Þá hefur ráðherraráð ESB hvatt framkvæmdastjórnina til að vinna hratt og markvisst að umbótum á raforkumarkaði til lengri tíma með það að markmiði að tryggja sjálfstæði ESB í orkumálum um leið og unnið er að markmiðum um kolefnishlutleysi. Í stefnuræðu Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í september á síðasta ári voru boðaðar umbætur á raforkumarkaði ESB og eru þessi verkefni tiltekin í starfsáætlun framkvæmdastjórnarinnar fyrir árið í ár.

Í samræmi við framangreint hefur framkvæmdastjórn ESB nú hafið opinbert samráð um endurskoðun á raforkumarkaði ESB. Leiðarljós við endurskoðunina er að innleiða breytingar sem vernda heimili og atvinnulíf betur gegn óhóflegum verðsveiflum með því að innleiða markaðstæki til að stuðla að stöðugra verðlagi og samningum sem byggjast á raunverulegum kostnaði við orkuframleiðslu þannig að tryggja megi öllum beinan aðgang að hreinni orku á viðráðanlegu verði.

Snýr endurskoðunin að raforkureglugerð ESB nr. 2019/943, raforkutilskipun ESB nr. 2019/944 og reglugerð ESB nr. 1227/2011 um heildsölu á raforku (REMIT).

Umsagnarfrestur er til 13. febrúar nk.

Núverandi raforkumarkaður ESB þykir almennt hafa reynst vel, er vel samþættur og hefur skilað efnahagslegum ávinningi og aukið afhendingaröryggi orku auk þess sem markaðurinn styður við markmið ESB um kolefnishlutleysi. Hins vegar þykja annmarkar hafa komið í ljós í því ástandi sem ríkt hefur í kjölfar stríðsins auk þess sem brýnt er að flýta umskiptum sem stefnt er að í Græna sáttmálanum og „REPowerEU“ aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnarinnar.

Danir krefjast ógildingar á tilskipun um lágmarkslaun

Danmörk hefur lagt fram kröfu fyrir Evrópudómstólinn (e. European Court of Justice – ECJ) um ógildingu tilskipunar um lágmarkslaun sem var endanlega samþykkt af stofnunum ESB í október sl. og tók gildi þann 14. nóvember. Fjallað var um efni gerðarinnar í Vaktinni 9. september sl. Krafa Danmerkur byggir á því að með samþykkt tilskipunar um þetta efni hafi ESB farið út fyrir valdheimildir sínar samkvæmt sáttmálum sambandsins.

Evrópuþingið og ráðið hafa tveggja mánaða frest til þess að lýsa því yfir að þeir muni taka til varna og að því búnu gefst aðildarríkjum færi á að koma að málinu, annaðhvort til stuðnings Dönum eða Evrópuþinginu og ráðinu.

Gert er ráð fyrir að málsmeðferð fyrir Evrópudómstólnum geti tekið allt að tvö ár en það fer eftir því hvort og hversu mörg ríki kjósa að koma að málinu.

Í fréttatilkynningu frá danska atvinnuvegaráðuneytinu þar sem tilkynnt var um málshöfðunina kemur fram að náið hafi verið fylgst með framgangi gerðarinnar í Danmörku á meðan á vinnslu hennar stóð og hafi verið breið samstaða um að standa gegn henni í ríkisstjórn, á þinginu og hjá aðilum vinnumarkaðarins. Ákvörðun um málshöfðunina var síðan boðuð í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar sem kynnt var 14. desember sl.

Tillaga að tilskipun um lágmarkslaun var fyrst lögð fram haustið 2020 og var nokkuð umdeild. Launasetning og laun eru mjög mismunandi innan Evrópu og ákvörðun launa er á forræði ríkjanna. Tilskipuninni er ætlað að setja umgjörð um bætt lífskjör og starfsskilyrði Evrópubúa og stuðla þannig að félagslegu réttlæti og jafnrétti í Evrópusambandinu. Í tilskipuninni er þó hvorki mælt fyrir um skyldu ríkja til þess að innleiða lögbundin lágmarkslaun né samræmingu slíkra launa, heldur er leitast við að tryggja að regluverk og umgjörð aðildarríkjanna um launasetningu sé til þess fallin að tryggja að lágmarkslaun nægi til framfærslu.

Danmörk og Svíþjóð voru einu aðildarríki ESB sem greiddu atkvæði gegn gerðinni við afgreiðslu hennar í ráðherraráði ESB í október en þó nokkrar breytingar höfðu þá verið gerðar á efni hennar til þess að koma til móts við sjónarmið landanna.

Í fréttatilkynningunni segir Ane Halsboe-Jørgensen atvinnumálaráðherra m.a.: „… það er mikilvægt að halda því til haga að tilskipunin krefst þess ekki að Danir taki upp lágmarkslaun. Þrátt fyrir það er hér um að ræða fordæmalausa löggjöf sem gerir þetta að prinsippmáli. Við krefjumst þess að laun séu ákvörðuð í Danmörku en ekki í ESB. Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að rétt sé að fela dómstóli ESB að leggja mat á málið…“

Sænsk stjórnvöld lýstu því yfir í desember sl. að þau myndu ekki krefjast ógildingar á gerðinni, þar sem komið hafi verið til móts við ábendingar þeirra við afgreiðslu málsins. Hefur sérstakur aðili verið skipaður til að taka afstöðu til þess hvaða breytingar þarf að gera á sænsku regluverki til þess að innleiða gerðina í sænskan rétt og er honum ætlað að skila skýrslu um málið eigi síðar en 23. júní nk., sbr. nánar á vef sænsku ríkisstjórnarinnar.

Nú hafa fréttir hins vegar borist af því að nokkur þrýstingur sé á sænsk stjórnvöld, af hálfu þingmanna og aðila vinnumarkaðarins að styðja Danmörku í málarekstri fyrir Evrópudómstólunum um ógildingu gerðarinnar.

Þess má geta að aðildarríkjunum er skylt að innleiða gerðina, og frestar málshöfðunin ekki innleiðingu hennar í landsrétt aðildarríkjanna. Verði niðurstaðan hins vegar sú að gerðin verði felld úr gildi falla að jafnaði niður réttaráhrif gerðarinnar frá gildistökudegi, þó Evrópudómstóllinn geti í einhverjum tilvikum kveðið á um að einhver atriði ógiltra gerða skuli halda gildi sé þess talin þörf vegna réttaröryggis.

Tilskipun um lágmarkslaun var ekki merkt EES tæk af hálfu ESB við vinnslu hennar og samþykkt. Unnið er að greiningu tilskipunarinnar af hálfu EES/EFTA-ríkjanna en bráðabirgðaniðurstaða EFTA-skrifstofunnar og ríkjanna er að gerðin teljist ekki EES tæk.

Heimsókn formanns stýrihóps stjórnarráðsins um framkvæmd EES-samningsins

Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og formaður stýrihóps stjórnarráðsins um framkvæmd EES-samningsins, og fyrrum ritstjóri Brussel-vaktarinnar, heimsótti sendiráð Íslands í Brussel í vikunni.

Átti Páll fund með starfsmönnum sendiráðsins þar sem farið var yfir einstök svið og stöðu mála í hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB vegna aðildar Íslands að samningum um Evrópska efnahagsvæðið, sbr. forgangslista ríkisstjórnarinnar.

 

***
Brussel-vaktin, fréttabréf fastanefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta