Formennska Íslands í fastanefnd EFTA og 30 ára afmæli EES-samningsins
Að þessu sinni er fjallað um:
- formennsku Íslands í fastanefnd EFTA og 30 ára afmæli EES-samningsins
- formennskuáætlun Belga
- málefni flótta- og farandfólks
- Schengen-aðild Búlgaríu og Rúmeníu
- reglugerð um fjölmiðlafrelsi
- endurbætur á regluverki raforkumarkaðar
- útvíkkun netöryggislöggjafarinnar
- nýjan losunarstaðal, EURO 7, fyrir ökutæki
- byggingavörur og hringrásarhagkerfið
- tafarlausar millifærslur í evrum
- vinnuskilyrði starfsmanna sem sinna störfum með milligöngu stafrænna vettvanga
- „Daisy chains“ tillögur
- stjórnsýslu jafnréttismála
- yfirlýsingu framkvæmdastjórnar ESB um heilbrigðissamstarf
- lista yfir mikilvæg lyf til að sporna gegn lyfjaskorti
Formennska Íslands í fastanefnd EFTA og 30 ára afmæli EES-samningsins
Ísland tók við formennsku í fastanefnd EFTA (e. EFTA Standing Committee) 1. janúar sl.
Formennska í fastanefndinni gengur á milli EES/EFTA-ríkjanna þriggja, Íslands, Liechtensteins og Noregs og er formennskutímabilið sex mánuðir í senn. Nefndin er skipuð sendiherrum EES/EFTA-ríkjanna og er megin hlutverk hennar að samræma afstöðu ríkjanna gagnvart ESB áður en gerðir eru teknar upp í EES-samninginn á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar.
Formennskuáætlun og áherslur Íslands fyrir komandi tímabil eru birt á vefsíðu EFTA-skrifstofunnar.
Ber þar hæst 30 ára afmæli samningsins um Evrópska efnahagsvæðið en þann 1. janúar sl. voru 30 liðin frá því að samningurinn tók gildi. Af því tilefni birtu Josep Borrell utanríkismálastjóri ESB, og Maroš Šefčovič, sem báðir eru meðal varaforseta framkvæmdastjórnar ESB, á nýársdag sameiginlega yfirlýsingu þar sem EES-samningnum er m.a. lýst sem fyrirmynd að farsælu samstarfi við önnur náin samstarfsríki. Jafnframt sendu utanríkisráðherrar EES/EFTA-ríkjanna frá sér sameiginlega yfirlýsingu á nýársdag þar sem tímamótanna og farsæls reksturs EES-samningsins á umliðnum árum er minnst. Þá er þess getið í yfirlýsingu utanríkisráðherranna að tímamótanna verði minnst með viðburðum og fundum á afmælisárinu sem í hönd fer. Í framangreindri formennskuáætlun Íslands er nánar fjallað um þá viðburði sem ákveðnir hafa verið. Er þar fyrst að nefna sameiginlegan fund leiðtoga EES-ríkjanna, sem áformað er að efnt verði til í tengslum við fund leiðtogaráðs ESB sem haldinn verður 21. og 22. mars nk. Þá er m.a. fyrirhugað að efna til ráðstefnu um þróun og framtíð innri markaðarins í tengslum við næsta fund EES-ráðsins í maí þar sem utanríkisráðherrar EES/EFTA-ríkjanna munu taka þátt ásamt fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB og ráðherraráðs ESB.
Ennfremur stendur til að efna til dagskrár til að segja frá niðurstöðum málþings um plastmengun í hafi, sem haldin var á Íslandi í nóvember sl., og ræða í samhengi við stefnumörkun ESB á því sviði. Einnig verður í tengslum við viðburðinn opnuð listsýning með sama þema í EFTA-húsinu í Brussel á vegum Arctic Creatures þríeykisins.
Sjá í þessu samhengi umfjöllun Vaktarinnar 13. janúar 2023 um setningu laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið.
Er kemur að almennum rekstri EES-samningsins þá er megin áherslan nú sem fyrr á skilvirkni við reksturinn þar sem tímanleg upptaka EES-tækra gerða í samninginn skiptir sköpum til að tryggja einsleitni á innri markaðinum og stöðu EES/EFTA-ríkjanna í því sambandi.
Á hinn bóginn er innri markaðurinn í stöðugri þróun og á það ekki síst við á tímum óvissuástands í heimsmálum. Stríðsátökin hafa leitt til aukinnar blokkamyndunar og einangrunarhyggju í samskiptum ríkja og ríkjabandalaga þar sem þau leitast við tryggja betur framleiðslugetu sína, aðföng og efnahagslegt öryggi. Breytingar í þessa veru birtast m.a. í því að tillögur að nýjum gerðum sem varða innri markaðinn eru oft á tíðum þverlægari og margbrotnari að efni til í þeim skilningi að þær varða ekki aðeins málefni innri markaðarins heldur einnig málefni sem falla utan hans og þar með utan gildissviðs EES-samningsins. Það á t.d. við um iðnaðarstefnu og utanríkisstefnu ESB o.fl. Er mikilvægt að EES/EFTA-ríkin gæti vel að stöðu sinni í þessu samhengi og er þýðing þess sérstaklega áréttuð í formennskuáætlun Íslands. Tillögur þessu marki brenndar fela jafnan í sér áskoranir er kemur að upptöku þeirra í EES-samninginn. Meta þarf hagsmuni EES/EFTA-ríkjanna í hverju tilviki, að virtri samkeppnisstöðu og þróunar á alþjóðavettvangi og gildissviði EES-samningsins, af því hvort og þá að hvaða marki eigi að taka viðkomandi gerðir upp í EES-samninginn og þá jafnframt hvaða áhrif það kunni að hafa ef niðurstaðan er sú að taka þær ekki upp í EES-samninginn, eða einungis að hluta með efnislegum aðlögunum. Sjá í þessu samhengi m.a. umfjöllun í Vaktinni 24. nóvember sl. um strategískt sjálfræði ESB og þróun innri markaðarins og í Vaktinni 23. júní sl. um efnahagsöryggisáætlun ESB.
EES/EFTA-ríkin hafa í gegnum tíðina sammælst um að láta framkvæmdastjórninni í té álit um ákveðnar gerðir á undirbúningsstigi sem eru til meðferðar á vettvangi ESB. Í formennskuáætlun Íslands er lögð aukin áhersla á að koma athugasemdum á framfæri við ESB með því móti. Jafnframt verði stefnt að því að móta skýrari stefnu um það hvenær tilefni er til að senda inn slík álit og athugasemdir og að málsmeðferð við undirbúning slíkra álitsgerða verði einfaldað.
Þá er mikilvægi þátttöku EES/EFTA-ríkjanna í samstarfsáætlunum ESB (e. EU programmes) áréttað.
Formennskuáætlun Belga
Belgar tóku við formennsku í ráðherraráði ESB 1. janúar sl. en þá lauk formennskutíð Spánverja í ráðinu. Formennska í ráðinu gengur á milli aðildarríkja ESB í ákveðinni röð og er formennskutímabilið sex mánuðir. Stendur formennskutímabil Belga samkvæmt því frá 1. janúar – 30. júní 2024 en þá munu Ungverjar, samkvæmt gildandi ákvörðun ráðherraráðs ESB taka við formennskukeflinu, þar á eftir Pólverjar og síðan Danir á síðari hluta árs 2025.
Ráðherraráð ESB er ein þriggja megin valdastofnana ESB. Hinar tvær eru Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB. Algengt er að ráðherraráðinu (e. Council of the European Union) annars vegar og leiðtogaráði ESB (e. European Council) hins vegar sé ruglað saman í almennri umræðu en þar er í raun um tvær aðskildar stofnanir sambandsins að ræða. Leiðtogaráðið, þar sem sæti eiga leiðtogar, oftast forsætisráðherrar, aðildarríkja ESB, hefur fáar formlegar valdheimildir en áhrifavald þess er vitaskuld mikið og afgerandi í stærri stefnumálum. Ráðherraráð ESB fer hins vegar m.a. með hið formlega löggjafarvald á vettvangi ESB ásamt Evrópuþinginu. (Sjá hér útskýringarsíðu á vef ráðsins um hlutverk þess.)
Ráðherraráð ESB starfar í deildum og taka ráðherrar í ríkisstjórnum aðildarríkjanna þátt í fundum ráðsins í samræmi við skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðherra innan ríkisstjórnar hvers aðildarríkis.
Er það hlutverk formennskuríkis á hverjum tíma að stjórna fundum í öllum deildum ráðherraráðs ESB. Þá stýrir formennskuríkið einnig samningaviðræðum fyrir hönd ráðsins við Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB í þríhliða viðræðum um löggjafarmálefni og önnur málefni eftir atvikum. Umtalsvert áhrifavald fylgir formennskunni á hverjum tíma enda geta áherslur formennskuríkis haft mikið um það að segja hvort tiltekin mál fái framgang eða ekki. Á hinn bóginn er þess jafnan vænst, venju samkvæmt, að formennskuríkið gegni hlutverki sáttamiðlara í viðræðum aðildarríkjanna innan ráðsins.
Formennskuáætlun Belga sem birt var í upphafi árs tekur eðli málsins samkvæmt mið af því að senn líður að lokum kjörtímabils þingmanna á Evrópuþinginu, með kosningum til Evrópuþingsins dagana 6. – 9. júní nk., en kosningarnar marka jafnframt lok skipunartímabils núverandi framkvæmdastjórnar ESB. Munu kraftar belgísku formennskunnar á fyrri hluta tímabilsins fara í að reyna ná lokaniðurstöðu í meðferð löggjafartillaga sem eru fyrirliggjandi og raunhæft er talið að klára áður en þinghlé verður gert í aðdraganda Evrópuþingskosninganna 26. apríl nk. Tímaramminn til að ljúka meðferð löggjafartillagna og allri þeirri tæknilegu vinnu og textagerð sem til þarf til að unnt sé að taka tillögur til lokaafgreiðslu eftir að samkomulag hefur náðst um efni þeirra er því orðinn mjög knappur. Ætla má að mál þurfi að vera fullbúin til formlegrar afgreiðslu fyrri hluti febrúarmánaðar til að almennt sé talið raunhæft að ljúka þeim á yfirstandandi þingi.
Í formennskuáætluninni kemur fram að Belgar muni leggja sig fram um að tryggja að umskipti milli stofnanatímabila (e. Institutional Cycle) í kjölfar Evrópuþingskosninganna verði fumlaus. Þá hyggjast þeir að leggja ríkulega vinnu í að styðja við mótun og samþykkt nýrrar fimm ára stefnuáætlunar leiðtogaráðs ESB (e. EU strategic agenda 2024 – 2029) sem gert er ráð fyrir að leiðtogaráðið samþykki í kjölfar Evrópuþingskosninganna í júní nk. Lagður var grunnur að þessari stefnuáætlun á fundi leiðtogaráðsins sem fram fór í Granada á Spáni 6. október sl., sbr. umfjöllun um þann fund í Vaktinni 13. október 2023. Loks er lögð rík áhersla á áframhaldandi dyggan stuðning við Úkraínu í varnarbaráttu þeirra vegna innrásar Rússa.
Í inngangi formennskuáætlunarinnar eru dregin fram almenn forgangsmál Belga sem skipt er í sex eftirfarandi málefnasvið, en þau eru eftirfarandi:
- Að verja réttarríkið, lýðræðið og samstöðu innan sambandsins.
- Að styrkja samkeppnishæfni ESB bæði inn á við og út á við.
- Að halda áfram grænum umskiptum og tryggja að þau séu réttlát.
- Að efla samstarf á sviði félags- og heilbrigðismála.
- Að klára vinnu við frágang löggjafarmálefna er varða málefni farands- og flóttafólks og styrkja landamæri ESB .
- Að styðja við viðnámsþol og strategískt sjálfræði ESB í breyttu alþjóðlegu umhverfi.
Í formennskuáætluninni er síðan gerð nánari grein fyrir þeim einstöku málefnum og löggjafartillögum sem Belgar hyggjast beita sér fyrir og eru áherslumálin flokkuð eftir málefnasviðum í 13 köflum sem að meginstefnu taka mið af deildaskiptingu innan ráðherraráðsins. Hér að neðan eru nokkur af þessum málum talin upp með sérstakri áherslu á löggjafartillögur og stefnumótun sem varðað geta EES-samninginn með einum eða öðrum hætti. Til nánari glöggvunar á einstökum málum er vísað til umfjöllunar í áður útkomnum fréttabréfum Brussel-vaktarinnar, þar sem við á. Auk þeirra málefnasviða sem tilgreind eru hér að neðan er í formennskuáætluninni, fjallað um áherslur Belga í utanríkismálum og varnarmálum en um þau áherslumál er hér að meginstefnu látið nægja að vísa til þess sem fram kemur í áætluninni.
Formennskuáætlunin er afar ítarleg og fjölmörg málefni dregin fram, eftirfarandi upptalning speglar hins vegar aðeins hluta þeirra áherslumála.
Á meðal helstu mála sem nefnd eru, flokkað eftir málefnasviðum, eru:
Á sviði samstarfs á vegum EES-samningsins:
- Lýst er vilja til að styrkja áframhaldandi gott samstarf við EES/EFTA-ríkin á grundvelli EES-samningsins og til að fagna 30 ára gildistökuafmæli EES-samningsins, sbr. umfjöllun hér að neðan í Vaktinni þar sem fjallað er um formennsku Ísland í fastanefnd EFTA og 30 ára afmælið.
Á sviði lýðræðis- og stækkunarmála:
- Örugg framkvæmd frjálsra og lýðræðislegra kosninga til Evrópuþingsins. Sjá til hliðsjónar umfjöllun í Vaktinni um Evrópuþingið og kosningarnar í Vaktinni 29. septembersl.
- Framfylgd stækkunarstefnu ESB. Sjá umfjöllun um stefnuna í Vaktinni 10. nóvember sl.
Á sviði efnahags- og fjármála:
- Framgangur tillögu um skilgreiningu á tekjuskattstofni fyrirtækja (BEFIT). Sjá umfjöllun um tillöguna í Vaktinni 15. september sl.
- Framgangur tillagna um heildarendurskoðun á tollkerfi ESB. Sjá umfjöllun í Vaktinni 9. júní sl.
- Framgangur tillagna um endurskoðun á lagaumhverfi evrópskra viðskiptabanka og löggjöf um innstæðutryggingar. Sjá umfjöllun í Vaktinni 21. apríl sl.
- Framgangur margvíslegra tillagna sem kynnar hafa verið til að draga úr reglubyrði og einfalda regluverk. Sjá umfjöllun í Vaktinni 27. október 2023 um starfsáætlun framkvæmdastjórnar ESB fyrir árið 2024
Á sviði dóms- og innanríkismála:
- Framgangur útafstandandi tillagna er varða málefni flótta- og farandsfólks (e. The Pact on migration and asylum). Sjá umfjöllun hér að neðan í Vaktinni um málefnið, sbr. einnig umfjöllun í Vaktinni 9. júní sl.
- Málefni Schengen-svæðisins, meðal annars með framlagningu tillagna sem miða að því að styrkja framkvæmd Schengen-samstarfsins og öryggi landamæra svæðisins.
Á sviði heilbrigðismála:
- Framgangur áætlana um uppbyggingu samstarfs á sviði heilbrigðismála til að geta betur brugðist við framtíðarógnum á borð við kórónaveirufaraldurinn með samræmdum hætti (e. European Health Union). Sjá m.a. umfjöllun í Vaktinni 21. október sl., sbr. jafnframt umfjöllun í Vaktinni 8. desember sl. um endurmat á hlutverki nýrrar Neyðar- og viðbragðsskrifstofu ESB á sviði heilbrigðismála.
- Framgangur tillagna um samevrópskan gagnagrunn fyrir heilbrigðisupplýsingar. Sjá umfjöllun í Vaktinni 8. júlí 2022.
- Framgangur tillagna um endurskoðun lyfjalöggjafar ESB. Sjá umfjöllun í Vaktinni 26. maí sl., sbr. einnig umfjöllun að hér að neðan um mikilvæg lyf.
- Lokafrágangur tillögu um notkun líffæra, blóðs og vefja úr mönnum í lækningaskyni. Sjá umfjöllun um málið hér að neðan í Vaktinni.
Á sviði atvinnu- og félagsmála:
- Framfylgd aðgerðaráætlunar félagslegu réttindastoðar ESB sem samþykkt var í ráðherraráðinu í mars 2021, sbr. m.a. umfjöllun í Vaktinni 18. nóvember sl., en auk þess er boðað að áhersla verði lögð á að móta öfluga og víðtæka félagsmálastefnu til næstu fimm ára.
- Framfylgd stefnumörkunar um geðheilbrigðismál. Sjá umfjöllun í Vaktinni 9. júní sl.
- Framfylgd aðgerða til eflingar félagslega hagkerfisins. Sjá umfjöllun í Vaktinni 23. júní sl.
- Efnt verður umræðu um jafnréttismál í víðu samhengi, skipulag stjórnsýslu jafnréttismála, kynbundið ofbeldi, um efnahagslegt sjálfstæði og valdeflingu kvenna o.fl.
- Framfylgd áætlunar um evrópska umönnunarstefnu (e. European Care Strategy). Sjá umfjöllun í Vaktinni 9. september 2022.
- Framfylgd áætlunar í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2020 – 2025.
- Framfylgd áætlunar gegn kynþáttafordómum og kynþáttahyggju fyrir árin 2020 – 2025.
Á sviði iðnaðar og málefna innri markaðarins:
- Standa vörð um strategískt sjálfræði ESB til aðgerða (e. Open Strategic Autonomy). Sjá m.a. umfjöllun í Vaktinni 23. júní sl. um nýja efnahagsöryggisáætlun ESB, sbr. einnig umfjöllun í Vaktinni 24. nóvember sl. um strategískt sjálfræði ESB og þróun innri markaðarins.
- Uppbygging mikilvægs iðnaðar til að styðja við græn og stafræn umskipti, sbr. fyrirliggjandi stefnumótun og tillögugerð á því sviði, sbr. m.a. umfjöllun um framfylgd framkvæmdaáætlunar Græna sáttmálans í Vaktinni 24. mars sl.
- Framgangur aðgerða fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Sjá m.a. umfjöllun í Vaktinni 15. september sl. um aðgerðarpakka fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.
- Innri markaðsmálefni, m.a. framgangur tillagna um auknar valdheimildir framkvæmdastjórnar ESB til ráðstafana á innri markaði í neyðaraðstæðum (e. Single Market Emergency Instrument - SMEI). Sjá umfjöllun í Vaktinni 23. september 2022.
- Framgangur tillagna um bann við vörum sem framleiddar eru með nauðungarvinnu. Sjá umfjöllun í Vaktinni 23. september 2022.
- Framgangur tillagna um hringrásarhagkerfið. Sjá m.a. umfjöllun í Vaktinni 1. apríl 2022.
- Framgangur tillagna um kolefnisförgun. Sjá m.a. umfjöllun í Vaktinni 18. febrúar 2022 um vottorð vegna kolefnisbindingar og í Vaktinni 24. mars sl. um framfylgd framkvæmdaáætlunar Græna sáttmálans.
- Framgangur tillagna á sviði hugverka- og einkaleyfisréttar. Sjá umfjöllun í Vaktinni 5. maí sl.
- Framgangur tillagna um bætta réttarvernd ferðamanna. Sjá umfjöllun í Vaktinni 8. desember sl.
Á sviði rannsókna, nýsköpunar og geimmála:
- Endurskoðun regluverks um samstarfsáætlanir og samkeppnissjóðakerfi ESB. Sjá umfjöllun í Vaktinni 23. júní sl. um nýjan tækniþróunarvettvang ESB.
- Framgangur geimáætlunar og stefnumótunar á sviði geimréttar og áforma um öryggisfjarskiptakerfi um gervihnetti. Sjá með m.a. umfjöllun í Vaktinni 27. október sl. og í Vaktinni 29. september sl.
Á sviði samgöngumála:
- Endurskoðun reglna um samevrópskt samgöngukerfi (e. Trans-European Transport Network).
- Framgangur óafgreiddra „Fit for 55“ tillagna á sviði samgöngumála.
- Framgangur væntanlegra tillagna á sviði umhverfisvænni flutninga (e. Greening Transport Package)
- Framgangur tillagna um sameinað loftrými og flugumferðarstjórn (e. Single European Sky 11).
- Framgangur tillagna á sviði siglingaöryggis. Sjá umfjöllun í Vaktinni 9. júní sl. og 24. nóvember sl.
- Framgangur tillagna um bætt umferðaröryggi. Sjá umfjöllun í Vaktinni 10. mars sl.
Á sviði stafrænna mála, fjarskipta og netöryggis:
- Framgangur ýmissa tillagna í stafrænu starfsskrá ESB.
- Lokafrágangur tillagna um gervigreind. Sjá umfjöllun í Vaktinni 9. júní sl.
- sbr. einnig umfjöllun í Vaktinni 24. nóvember sl.
- Framgangur tillagna um evrópsk stafræn skilríki (e. European Digital Identity).
- Framgangur tillagna um auka samstöðu innan ESB á sviði netöryggismála (e. Cyber Solidarity Act). Sjá umfjöllun í Vaktinni 5. maí sl.
- Áframhaldandi framfylgd „REPowerEU“ áætlunar ESB, með sérstakri áherslu á framfylgd áætlunar um að koma á fót virkum evrópskum vetnismarkaði. Sjá m.a. umfjöllun í Vaktinni 5. maí sl. um vistvænt flugvélaeldsneyti.
- Framgangur tillagna um aukna samstöðu innan ESB á sviði netöryggismála (e. Cyber Solidarity Act). Sjá m.a. umfjöllun í Vaktinni 5. maí sl.
Á sviði orkumála:
- Áframhaldandi framfylgd „REPowerEU“ áætlunar ESB. Sjá m.a. umfjöllun í Vaktinni 5. maí sl. um vistvænt flugvélaeldsneyti
Á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs:
- Framgangur tillagna um nýja erfðatækni í landbúnaði. Sjá umfjöllun í Vaktinni 7. júlí sl.
- Framgangur tillagna til að draga úr notkun skordýraeiturs. Sjá m.a. umfjöllun í Vaktinni 21. apríl sl. um býflugnavænan landbúnað.
- Framgangur tillagna um vöktun skóga. Sjá umfjöllun í Vaktinni 24. nóvember sl.
- Framgangur tillagna um velferð dýra. Sjá umfjöllun í Vaktinni 8. desember sl.
Á sviði umhverfismála:
- Framgangur óafgreiddra tillagna um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda um allt að 55% fyrir árið 2030 (e. Fit for 55).
- Framgangur tillagna um strangari reglur um mengunarvarnir, um loftgæði, hreinleika yfirborðs- og grunnvatns og meðferð og hreinsun skólps frá þéttbýli með núll-mengun að markmiði (e. Zero Pollution goal). Sjá umfjöllun í Vaktinni 4. nóvember 2022, sbr. einnig umfjöllun í Vaktinni 10. mars sl., um afstöðu Íslands til nýrrar fráveitutilskipunar ESB.
- Framgangur tillagna um umbúðir. Sjá umfjöllun í Vaktinni 2. desember 2022.
- Framgangur tillagna um endurreisn vistkerfa. Sjá umfjöllun í Vaktinni 24. júní 2022.
- Framgangur tillagna um hringrásarhagkerfið. Sjá m.a. umfjöllun í Vaktinni 1. apríl 2022.
- Sérstök áhersla er lögð á að umskiptin samkvæmt Græna sáttmálanum verði réttlát.
Á sviði menntunar, æskulýðsmála, menningar, fjölmiðlamála og íþrótta:
- Framfylgd æskulýðsstefnu ESB fyrir árin 2019 – 2027.
- Lokafrágangur tillagna að nýrri löggjöf um frelsi fjölmiðla. Sjá umfjöllun hér að neðan í Vaktinni og í Vaktinni 23. september 2022.
Málefni flótta- og farandfólks
Skömmu fyrir jól, eða þann 21. desember sl., náðist tímamótasamkomulag í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnarinnar um meginþætti þeirra fimm reglugerða sem mynda heildarpakka ESB í útlendingamálum. Er nú unnið við frágang textagerðar í samræmi við samkomulagið þannig að unnt sé að leggja gerðirnar fyrir Evrópuþingið og ráðherraráð ESB til formlegrar afgreiðslu en allt kapp er lagt á að ná formlegri afgreiðslu á málinu á yfirstandandi kjörtímabili þingsins. Eins og rakið er umfjöllun að framan um formennskuáætlun Belga þá er tímaramminn í þeim efnum knappur.
Ítarlega hefur verið fjallað um málefni flótta- og farandfólks í Vaktinni að undanförnu, sbr. umfjallanir 2. desember 2022, 9. júní sl., og 13. október sl. Hefur það reynst þrautinni þyngra að ná samkomulagi innan stofnana ESB um heildarpakka ESB. Upphaflega var tillögupakkinn birtur árið 2016 en endurskoðuð útgáfa var lögð fram af framkvæmdastjórn ESB í september 2020. Það hefur því tekið um átta ár að ná því samkomulagi og niðurstöðu sem nú liggur fyrir.
Í ummælum Fernando Grande-Marlaska Gómez, innanríkisráðherra Spánar, í tilefni af samkomulaginu kom fram að með því væri ESB að uppfylla gefið loforð um að tekið yrði á málefnum farandfólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Endurbætt regluverk væri vissulega mikilvægt skref í rétta átt en enn þyrfti þó að vinna með upprunaríkjum og ríkjum sem flótta- og farandfólk ferðast í gegn um að rót vandans auk þess sem leggja yrði mikla áherslu á að uppræta smygl á farandfólki sem færst hefur verulega í aukana undanfarið.
Eins og áður segir inniheldur pakkinn fimm reglugerðir sem kveða á um feril umsóknar um alþjóðlega vernd, allt frá því er umsækjandi sækir um alþjóðlega vernd á ytri landamærum Schengen-svæðisins og þar til honum er veitt vernd eða eftir atvikum brottvísað af svæðinu.
Regluverkið felur í sér að allir einstaklingar í ólögmætri för verða forskoðaðir við komuna til Evrópu (e. Screening regulation). Í þessu fyrsta skrefi, sem telst þróun á Schengen-regluverkinu og er því skuldbindandi fyrir Ísland, felst að einstaklingar eru auðkenndir, öryggiskannaðir, aldursgreindir og tryggt að réttindi þeirra séu virt og að þeir hljóti viðeigandi málsmeðferð í samræmi við stöðu sína.
Þá verður komið á fót sérstakri forgangsmeðferð á ytri landamærum Schengen-svæðisins (e. Asylum Border Procedure), en í þeirri málsmeðferð sker ábyrgt aðildarríki, fljótt og örugglega, úr um það hvort umsókn eigi við rök að styðjast eða hvort hún sé tilhæfulaus, m.a. með tilvísun til lista yfir örugg upprunaríki. Gert er ráð fyrir að þessi málsmeðferð taki að hámarki 12 vikur. Þessi tiltekna málsmeðferð er skyldbundin ef um er að ræða einstakling sem telst ógn við alþjóðaöryggi eða allsherjarreglu og eins ef talið er að einstaklingur hafi villt um fyrir stjórnvöldum, s.s. með framvísun falsaðra gagna eða villt á sér heimildir. Eins er hún skyldbundin ef viðkomandi kemur frá ríki þar sem viðurkenningarhlutfall er undir 20%. Fylgdarlaus börn verða undanþegin þessari málsmeðferð nema ef öryggisógn er talin felast í komu þeirra. Framangreind málsmeðferð telst ekki til þróunar á Schengen-regluverkinu og er Ísland því ekki skuldbundið til að innleiða hana. Eftir sem áður kann þó að vera ástæða til að skoða það sérstaklega og meta hvort skynsamlegt sé að taka upp sambærilegar reglur á Íslandi.
Í pakkanum felst einnig uppfærsla á reglum sem við þekkjum undir nafni Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kveðið er á um hvaða ríki beri ábyrgð á vinnslu umsóknar um alþjóðlega vernd. Dyflinnarreglugerðin sem slík hefur verið felld niður, en uppfærðar efnisreglur hennar er nú að finna í nýrri reglugerð um stjórn útlendingamála og mála er varða alþjóðlega vernd (e. Asylum and Migration Management Regulation). Í reglugerðinni eru ákveðnar meginreglur skýrðar nánar og ferlið straumlínulagað. Nýrri reglugerð er ætlað að draga úr áframhaldandi för einstaklinga (e. Secondary Movement) með því að takmarka möguleika umsækjenda um alþjóðlega vernd til að velja hvaða aðildarríki beri að taka umsókn þeirra um vernd til efnislegrar meðferðar.
Undir sömu reglugerð má finna nýtt samábyrgðarkerfi (e. Solidarity Mechanism) en reglurnar munu samanstanda af skyldubundnum samábyrgðarreglum með ákveðnum sveigjanleika þó þannig að aðildarríki geti haft eitthvað um það að segja í hverju samábyrgðin felst. Samábyrgðin getur falist í flutningsaðstoð (e. relocation), fjárframlögum og annarri veittri aðstoð, s.s. með því að útvega sérfræðinga eða aðstoð við uppbyggingu innviða.
Reglugerðin um fingrafaragagnagrunninn Eurodac var einnig endurbætt og gildisviðið útvíkkað en gagangrunnurinn mun nú einnig ná utan um skráningu þeirra sem hlotið hafa tímabundna vernd innan Evrópu. Fingrafaragagnarunnurinn mun nú einnig geyma viðbótar lífkennaupplýsingar, s.s. andlitsmyndir. Skráning þessara lífkennaupplýsinga verður nú skyldubundin fyrir alla umsækjendur um vernd sem náð hafa sex ára aldri.
Hagsmunagæsla Íslands hefur einkum falist í því að gæta að framkvæmd Schengen-samningsins og gildissviði samkomulags milli ESB og Íslands um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um vernd sem lögð er fram í aðildarríki ESB eða á Íslandi. Mikilvægt hefur reynst að tryggja að Ísland sé ekki skuldbundið til að innleiða regluverk hælispakka ESB sem ekki rúmast innan ofangreindra samninga. Við hagsmunagæsluna hefur ítarlegt samráð verið átt við önnur samstarfsríki Schengen, Noreg, Sviss og Liechtenstein og eins Danmörku og Írland sem hafa einnig sérstaka aðkomu að hælisreglum ESB. Ísland og Noregur lögðu fram sameiginlega yfirlýsingu til ráðherraráðs ESB í tengslum við gerð framangreinds samkomulags þar sem skuldbindingar ríkjanna voru ítrekaðar og rétt framkvæmd Schengen-samningsins áréttuð.
Schengen-aðild Búlgaríu og Rúmeníu
Eins og ítarlega hefur verið fjallað um í Vaktinni, sbr. umfjöllun 4. nóvember 2022, 18. nóvember 2022 og 16. desember 2022 hefur mikill þrýstingur verið á aðildarríki ESB að veita Búlgaríu og Rúmeníu fulla aðild að Schengen-samstarfinu.
Þann 30. desember sl. samþykkti ráðherraráð ESB loks einróma að veita ríkjunum aðild að Schengen-svæðinu. Ákvörðunin markar tímamót enda eru nú liðin 13 ár frá því að ríkin luku hefðbundnu Schengen úttektarferli þar sem metið var að þau uppfylltu öll skilyrði aðildar.
Er þetta í níunda skiptið sem tekin er ákvörðun um stækkun Schengen-svæðisins frá því að til þess var stofnað árið 1985. Með ákvörðuninni verða aðildarríkin 29 talsins, þ.e. 25 aðildarríki ESB auk samstarfsríkja Schengen, Íslandi, Noregi, Sviss og Liechtenstein. Einungis tvö aðildarríki ESB standa þá utan samstarfsins, en mat á því hvort Kýpur sé reiðubúið til að hefja umsóknarferli er nú yfirstandandi.
Þátttaka Búlgaríu og Rúmeníu í samstarfinu mun koma til framkvæmda í skrefum og verður fyrsta skrefið tekið í mars nk. með niðurfellingu á eftirliti á innri landamærum milli ríkjanna tveggja og annarra Schengen-ríkja sem mörkuð eru um flughafnir og hafnir sem notaðar eru við reglubundnar ferjusiglingar, þ.e. á sjó og í lofti. Frekari viðræður munu eiga sér stað á árinu um að fella niður landamæraeftirlit á landi þó nákvæm tímasetning um ákvörðun ráðsins þar að lútandi liggi enn sem komið er ekki fyrir. Forseti framkvæmdastjórnar ESB hefur fagnað þessum merka áfanga sem mun styrkja innri markað ESB enn frekar og Schengen-svæðið til hagsbóta fyrir borgara aðildarríkjanna.
Bæði Búlgaría og Rúmenía hafa lagt mikla vinnu í að undirbúa aðild sína að samstarfinu allt frá árinu 2011 m.a. með lagabreytingum, setningu verkferla og með að sýna að þau uppfylli skýrlega þau skilyrði sem til þarf til þess að gerast aðilarríki. Þetta hefur framkvæmdastjórn ESB staðfest í þremur úttektum á landamæraeftirliti í ríkjunum tveimur á árunum 2022 og 2023. Auk þess hefur framkvæmastjórnin aðstoðað ríkin við að styrkja landamæraeftirlit, auka samvinnu við nágrannalönd sín og setja upp viðeigandi reglur og verkferla fyrir skjóta afgreiðslu hælisumsókna og endurviðtökubeiðna. Mun það samstarf halda áfram með fjárveitingum og aðstoð frá Frontex, landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu. Á sama tíma hefur ESB unnið að því að styrkja Schengen-svæðið með aukinni öryggis- og lögreglusamvinnu til þess að ESB standi styrkara gegn öryggisógnum.
Reglugerð um fjölmiðlafrelsi
Þann 15. desember sl. náðist samkomulag milli Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um efni tillögu framkvæmdastjórnar ESB að nýrri reglugerð um fjölmiðlafrelsi en gengið var til þríhliða viðræðna um tillöguna þann 19. október síðastliðinn. Fjallað var um tillöguna í Vaktinni 22. september 2023.
Markmið tillögunnar er vernda sjálfstæði, frelsi og fjölhyggju fjölmiðla innan ESB og er með henni er brugðist við stöðu og þróun fjölmiðlaumhverfisins á undanförnum árum sem vakið hefur áhyggjur. Í tillögunni er lögð áhersla á sjálfstæði fjölmiðla, trygga fjármögnun fjölmiðla í almannaþjónustu, gagnsæi eignarhalds yfir fjölmiðlum og jafnræði fjölmiðla við kaup opinberra aðila á auglýsingum. Þá eru lögð til ákvæði um mat á fjölmiðlasamstæðum og lagt til að sett verði á fót nýtt ráðgefandi Evrópskt fjölmiðlaráð (e. European Board for Media Services). Auk þess eru lagðar til verndarráðstafanir gegn pólitískum afskiptum af ritstjórnarákvörðunum og eftirliti og ráðstafanir til að vernda sjálfstæði ritstjóra og um skyldu þeirra til að upplýsa um hagsmunaárekstra. Þá er leitast við að auðvelda fjölmiðlum að starfa yfir landamæri.
Með samkomulaginu nú er nánar tiltekið lagt til að hið Evrópska fjölmiðlaráð (e. European Board for Media Services) samanstandi af landsbundnum stjórnvöldum sem fara með málefni fjölmiðla. Gert er ráð fyrir að fjölmiðlaráðið aðstoði framkvæmdastjórnina við að útbúa leiðbeiningar um regluverk fjölmiðla. Ráðið mun einnig veita álit um landsbundnar ráðstafanir og ákvarðanir sem hafa áhrif á fjölmiðlamarkaði og fjölmiðlasamstæður á markaði. Með samkomulaginu er sjálfstæði ráðsins styrkt umfram það sem fólst í upprunalegri tillögu framkvæmdastjórnarinnar og einnig lagt til að það geti sett á fót undirhópa til að vinna að ákveðnum verkefnum og átt milliliðalaust samráð við fjölmiðlaþjónustuveitendur.
Með samkomulaginu er skylda aðildarríkjanna til að varðveita fjölhyggju, sjálfstæði og eðlilega starfsemi fjölmiðlaþjónustuveitenda innan landamæra ríkjanna gerð skýrari. Samkvæmt tillögunni þurfa fjölmiðlar í almannaþjónustu að tryggja að þeir sinni hlutverki sínu á óhlutdrægan hátt, þar sem mismunandi skoðanir fá að heyrast og upplýsingastreymi er fjölbreytt.
Aðildarríkjunum er gert að tryggja að fjármögnun fjölmiðla í almannaþjónustu sé fullnægjandi og stöðugt þannig að þeir fái sinnt hlutverki sínu og hafi nægilegt ritstjórnarlegt sjálfstæði. Þá skulu aðildarríkin tryggja að stjórnir og forstjórar slíkra fjölmiðla séu skipaðar á opinn og gagnsæjan hátt og á jafnréttisgrundvelli. Aðildarríkin skulu einnig tryggja að fyrir hendi séu reglur til að meta áhrif fjölmiðlasamstæðna á fjölhyggju fjölmiðla (e. Media pluralism) og ritstjórnarlegt sjálfstæði og að til staðar séu landsbundin stjórnvöld til að framkvæma slíkt mat.
Samkvæmt samkomulaginu þurfa aðildarríki ESB að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðlaþjónusta og fullnægjandi vernd heimildarmanna. Meðal annars er lagt til að bannað verði að þvinga fjölmiðlamenn til að gefa upp heimildarmenn eða trúnaðarupplýsingar nema í undantekningartilfellum.
Samkomulagið felur einnig í sér að kröfur um gagnsæi eru auknar, bæði að því er varðar eignarhald og úthlutun á almannafé til auglýsinga (e. State advertising). Fjölmiðlaþjónustur munu þurfa að tryggja gagnsæi eignarhalds með viðeigandi upplýsingagjöf. Úthlutun á almannafé til auglýsinga skal vera gagnsæ og á jafnréttisgrundvelli. Stjórnvöld skulu birta upplýsingar um fjármagn sem varið er til kaupa á auglýsingum hjá fjölmiðlaþjónustum. Einnig eru lagðar til reglur sem eiga að bæta gagnsæi og óhlutdrægni í kerfum sem mæla áhorfstölur sem hafa áhrif á auglýsingatekjur.
Í tillögunni er byggt á reglugerð um stafræna þjónustu, sbr. umfjöllun um þá reglugerð í Vaktinni 18. nóvember 2022, og lagt til að fjölmiðlaefni sem er framleitt með faglegum hætti verði verndað gegn því að vera fjarlægt af netinu með óréttmætum hætti. Með breytingum sem samkomulagið felur í sér er leitast við að samræma betur reglur fjölmiðlalaganna að ákvæðum umræddar reglugerðar um stafræna þjónustu og samband stórra netvangsþjónustuveitenda og fjölmiðlaþjónustuveitenda skýrt nánar. Þá er fjölmiðlaþjónustuveitendum gert kleift að bregðast við innan 24 tíma ef stórir netvangsþjónustuveitendur ákveða að fjarlægja efni fjölmiðlaþjónustuveitenda sem ekki samræmist skilmálum þeirra.
Í tillögunni er auk framangreinds kveðið á um bann við notkun njósnahugbúnaðar (e. spyware) til að fylgjast með starfsemi fjölmiðlaþjónusta, starfsmanna þeirra eða fjölskyldu nema í þröngum undantekningartilfellum svo sem ef notkunin er talin réttlætanleg m.t.t. þjóðaröryggis.
Þá gerir tillagan neytendum í auknum mæli kleift að breyta sjálfgefnum stillingum á viðtækjum til að velja og setja saman eigið fjölmiðlaefni.
Þess má geta að EES/EFTA-ríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein, komu á framfæri afstöðu sinni gagnvart tillögunni í sameiginlegu EES EFTA-áliti þann 22. maí sl. Í álitinu er lögð áhersla á að aðildarríki geti sjálf ákveðið að setja strangari innlendar reglur til að vernda fjölmiðla og fjölhyggju. EES/EFTA-ríkin lýsa stuðningi við að settar yrðu skýrar reglur og verkferlar um afskipti stórra netvettvanga af efni sem birt hefur verið af fjölmiðlaþjónustum, þ.m.t. ákvarðanir þeirra um að fjarlægja efni, forgangsraða leitarniðurstöðum eða takmarka aðgengi að efni eða sýnileika þess.
EES/EFTA-ríkin lögðu til að hið sama myndi gilda um mjög stórar leitarvélar í samræmi við reglugerð um stafræna þjónustu. EES/EFTA-ríkin fögnuðu einnig tillögum um að vernda ritstjóra gegn ótilhlýðilegum afskiptum af einstökum ritstjórnarákvörðunum og lögðu áherslu á að styrkja enn frekar sjálfstæði ritstjórna.
Tillagan gengur nú til formlegrar samþykktar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.
Endurbætur á regluverki raforkumarkaðar
Á vettvangi ESB hefur um allnokkurt skeið verið unnið að úrræðum til að takast á við hækkandi raforkuverð og orkuskort. Samhliða hefur ESB unnið að því að hraða þróun og dreifingu á endurnýjanlegri orku og auka neytendavernd á orkumarkaði og vernda heimili og atvinnulíf betur gegn óhóflegum verðsveiflum með því að innleiða markaðstæki til að stuðla að stöðugra verðlagi og samningum sem byggjast á raunverulegum kostnaði við orkuframleiðslu, þannig að tryggja megi öllum beinan aðgang að hreinni orku á viðráðanlegu verði. Í þessu skyni hefur m.a. verið ráðist í heildstæða endurskoðun reglna um evrópskan raforkumarkað nánar tiltekið á raforkureglugerð ESB nr. 2019/943, raforkutilskipun ESB nr. 2019/944 og reglugerð ESB nr. 1227/2011 um heildsölu á raforku (REMIT), sbr. umfjöllun í Vaktinni 27. janúar og 24. mars sl. þar sem fjallað er um framfylgd framkvæmdaáætlunar Græna sáttmálans. Nátengd þessum tillögum er tillaga um breytingar á reglugerð sem beinist að því að bæta vernd ESB gegn markaðsmisnotkun með betra eftirliti og gagnsæi (REMIT) en samkomulag náðist um þá gerð 16. nóvember sl., sbr. umfjöllun um það mál í Vaktinni 8. desember sl.
Þann 14. desember sl. náðist samkomulag í þríhliða viðræðum milli Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um efni tillagna um breytingar á framangreindum gerðum um endurbætur á raforkumarkaði (reform of EU’s electricity market design (EMD)).
Í samkomulaginu felast m.a. breytingar sem miða að því að vernda neytendur enn frekar, ekki síst þá sem viðkvæmir eru og illa standa, fyrir miklum verðsveiflum á raforkumarkaði. Þá eru tekin upp ákvæði sem ætlað er að hvetja aðildaríkin til samningagerðar um kaup á nýrri endurnýjanlegri raforku, auk þess sem ráðherraráð ESB, að fenginni tillögu frá framkvæmdastjórn ESB, verður heimilt að lýsa yfir kreppu- eða hættuástandi ef miklar verðhækkanir verða á raforkuverði. Sjá nánar um efni samkomulagsins í fréttatilkynningu ráðherraráðs ESB um málið og í fréttatilkynningu Evrópuþingsins.
Tillagan gengur nú til formlegar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.
Útvíkkun netöryggislöggjafarinnar
Í lok nóvember sl. náðist samkomulag í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um efni tillagna sem miða að því að útvíkka gildissvið netöryggisreglna þannig að gerðar verði netöryggiskröfur við hönnun, þróun og framleiðslu á hvers kyns nettengdum vörum sem boðnar eru til sölu á innri markaði ESB. Fjallað var um tillöguna er hún var lögð fram í Vaktinni 23. september 2022, sbr. einnig umfjöllun í Vaktinni 2. desember 2022.
Eitt höfuðmarkmið Cyber resilience act er að tryggja að sömu netöryggisreglur gildi á öllu innra markaðssvæði ESB. Reglugerðin mun gilda um allar vörur sem eru beint eða óbeint tengdar öðrum tækjum eða netkerfi. Þó eru nokkrar undantekningar gerðar vegna vara sem þegar eru háðar öryggiskröfum samkvæmt öðrum gildandi reglugerðum ESB, t.d. lækningartæki, loftför og bifreiðar.
Netárásir í gegnum nettengdar vörur hvers konar hafa aukist mikið undanfarið og hafa almenningur og fyrirtæki orðið fyrir skakkaföllum af þeim sökum.
Samkvæmt endurskoðaðri gerð verða nettengdar vörur flokkaðar eftir mikilvægi og þeirri öryggisáhættu sem notkun þeirra getur fylgt og er gert ráð fyrir að sú flokkun verði endurskoðuð reglulega af framkvæmdastjórninni.
Sjá nánar um efni samkomulagsins í fréttatilkynningu ráðherraráðs ESB og í fréttatilkynningu Evrópuþingsins.
Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu í Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.
Nýr losunarstaðall, EURO 7, fyrir ökutæki
Í Vaktinni 22. nóvember 2022 var fjallað um tillögu framkvæmdastjórnar ESB að nýjum losunarstaðli fyrir stærri bifreiðar.
Þann 18. desember sl. náðist samkomulag í þríhliða viðræðum Evrópuþingins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnarinnar um efni tillögunnar. Í samkomulaginu felst að nýr EURO 7 staðall muni leysa af hólmi staðla, ekki bara fyrir stærri og þyngri ökutæki heldur einnig staðla fyrir léttar bifreiðar (Euro 6 og Euro VI). Losunarkröfur fyrir fólksbifreiðar verða þó óbreyttar og dregið er úr kröfum til þyngri fólks- og vöruflutningabifreiða miðað við upprunalega tillögu. Nýi staðallinn setur einnig hámark á losun agna frá bremsubúnaði ökutækja.
Sjá nánar um samkomulagið í fréttatilkynningu ráðherraráðs ESB og í fréttatilkynningu Evrópuþingsins.
Málið gengur nú til formlegrar afgreiðslu í Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.
Byggingavörur og hringrásarhagkerfið
Í Vaktinni 1. apríl 2022 var greint frá löggjafartillögum framkvæmdarstjórnar ESB er lúta að eflingu hringrásarhagkerfisins. Meðal tillagna þar var tillaga um samræmd skilyrði fyrir markaðssetningu byggingavara á innri markaði ESB.
Þann 13. desember sl. náðu Evrópuþingið og ráðherraráðið samkomulagi í þríhliða viðræðum um efni framangreindrar tillögu um markaðssetningu byggingavara sem hefur það markmið að bæta umgengni í samræmi við sjónarmið að baki hringrásarhagkerfinu um endurnýtingu og skilvirkni. Framkvæmd þeirra reglna sem tillagan felur í sér er umfangsmikil og flókin. Samkomulagið felur í sér breytingar sem ætlað er að skýra notkun staðla um byggingarvörur og er framkvæmdastjórninni veitt verkfæri til þess að grípa inn í ef tilefni er til t.d. með því að gefa út afleiddar gerðir.
Í samkomulaginu eru einnig ákvæði sem heimila framkvæmdastjórninni að kveða á um lágmarkskröfur um sjálfbærni byggingavara í opinberum útboðum. Markmiðið með því er að stuðla að auknu framboði sjálfbærra byggingarefna á markaði. Heimild er veitt til að víkja frá umhverfiskröfum m.a. ef sýnt þykir að bjóðendur búi ekki yfir getu til þess að uppfylla skilyrði og sýnt þykir að kostnaðarauki verði yfir 10% af því sem annars yrði.
Samkvæmt samkomulaginu er gert ráð fyrir að nýtt regluverk komi til framkvæmda í áföngum, til að tryggja hnökralausa yfirfærslu, og að nýtt regluverk verði að fullu komið til framkvæmda eftir 15 ár, þ.e. 2039.
Sjá nánar um samkomulagið í fréttatilkynningu ráðherraráðs ESB.
Tillagan gengur nú til formlegrar samþykktar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.
Tafarlausar millifærslur í evrum
Samkomulag náðist þann 7. nóvember sl. í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnarinnar um efni tillögu um tafarlausar millifærslur í evrum (e. instant payments). Fjallað var um tillöguna í Vaktinni 9. júní sl. en í henni er lagt til að fjármálafyrirtækjum verði skylt að tryggja að millifærslur í evrum á milli bankareikninga eigi sér stað án tafar eða á innan við 10 sekúndum óháð því hvenær sólarhrings millifærslan er framkvæmd. Þá er m.a. kveðið á um að kostnaður við millifærsluna megi ekki vera hærri en fyrir almenna millifærslu fjármuna (e. standard credit transfer). Samkomulagið sem nú liggur fyrir felur í sér að framangreind skylda um tafarlausar millifærslur verði einnig lögð á greiðslustofnanir og rafeyrisfyrirtæki að tilteknum aðlögunartíma loknum. Til að svo geti orðið þarf að veita þeim aðgang að greiðslukerfum með breytingu á tilskipun um endanlegt uppgjör (e. settlement finality directive, SFD). Þá náðist sátt um að aðlögunartími að nýjum reglum yrði styttri í aðildaríkjum ESB sem hafa evru sem gjaldmiðil en þeim ríkjum sem ekki hafa evru sem gjaldmiðil.
Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.
Vinnuskilyrði starfsmanna sem sinna störfum með milligöngu stafrænna vettvanga
Þann 13. desember sl. náðist samkomulag í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um efni tillögu að tilskipun um bætt vinnuskilyrði þeirra sem sinna störfum með milligöngu stafrænna vettvanga (e. Platfom workers). Fjallað var um tillöguna og afstöðu ráðherraráðs ESB til hennar í Vaktinni 23. júní sl.
Tilskipunin miðar að því að tryggja réttarstöðu og bæta starfskjör fólks sem sinnir vinnu með milligöngu stafrænna vettvanga auk þess að innleiða reglur um notkun gervigreindar og algrímis á vinnustað og munu þetta vera fyrstu reglurnar á sviði gervigreindar, ásamt gervigreindartillögunni sjálfri, sem settar eru á vettvangi ESB þegar þar að kemur.
Um 30 milljónir manna vinna nú við stafræna vinnuvettvanga innan ESB og fer þeim ört fjölgandi. Langflestir þeirra eru skráðir sem sjálfstæðir verktakar.
Um er að ræða fjölbreytt störf þó sendlaþjónusta og leigubílafyrirtækið Uber, hafi verið mest áberandi í umræðunni. Enda þótt vöxtur í þjónustu af þessu tagi hafi leitt til aukinna atvinnumöguleika til hagsbóta fyrir fjölmarga hefur þetta leitt til þess að aukinn fjöldi fólks á vinnumarkaði nýtur ekki þeirrar félagslegu verndar sem alla jafna felast í ráðningarsambandi.
Talið er að um 20% starfsmanna sem sinna störfum af þessu tagi séu í svokallaðri gerviverktöku og njóti því ekki þeirrar félagslegu verndar sem þeim ber í raun. Reynt hefur á þetta atriði fyrir evrópskum dómstólum í meira en eitt hundrað dómsmálum og þrátt fyrir nokkuð misvísandi niðurstöður, hafa dómstólarnir í langflestum tilvikum komist að því að um ráðningarsamband hafi verið að ræða.
Skilgreining á starfsmanni er einmitt sá hluti tillögunnar sem erfiðast hefur reynst að ná samkomulagi um innan ESB. Í framangreindu samkomulagi felast nokkrar breytingar frá upphaflegri tillögu. Þar er m.a. settur fram listi yfir viðmið sem þykja benda til þess að um ráðningarsamband sé að ræða. Séu tvö tilvikanna til staðar verði taldar löglíkur á því að um ráðningarsamband sé að ræða og þarf atvinnurekandi þá að sýna fram á að svo sé ekki vilji hann ekki fallast á þá niðurstöðu.
Í tillögunni er einnig mælt fyrir um rétt starfsmanna til aðgangs að upplýsingum um þær forsendur sem liggja til grundvallar ákvörðunum sem teknar eru af sjálfvirkum kerfum, m.a. um úthlutun verkefna. Þá er krafist mannlegrar aðkomu að mikilvægum ákvörðunum, svo sem uppsögnum og einnig til að leggja mat á áhrif ákvarðana sem teknar eru af sjálfvirkum vöktunarkerfum á vinnuskilyrði, heilsu og öryggi starfsmanna.
Þrátt fyrir að samkomulag liggi fyrir samkvæmt framangreindu hefur enn sem komið er ekki náðst niðurstaða um endanlega textagerð og frágang málsins til formlegrar afgreiðslu þess á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB. Var fyrstu drögum að endanlegum texta hafnað á vettvangi ráðherraráðs ESB.
Kemur það því í hlut belgísku formennskunnar að freista þess að leiða málið til lykta innan ramma samkomulagsins eftir atvikum og er það mikilvæga verkefni tilgreint í formennskuáætlun þeirra, sbr. umfjöllun um áætlunina hér að framan í Vaktinni, en tímaramminn í þeim efnum er þröngur við núverandi aðstæður eins og þar er jafnframt rakið og því ákveðin óvissa uppi um það hvort það náist að klára málið, sbr. frétt um málið hér.
„Daisy chains“ tillögur
Í byrjun desember sl. náðist samkomulag í þríhliða viðræðum milli Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnarinnar um efni tillagna (e. daisy chains proposal) er lúta annars vegar að breytingum á reglum um endurreisn og slitameðferð fjármálafyrirtækja (e. bank recovery and resolution directive, BRRD) og hins vegar að reglugerð um sameiginlegt skilameðferðarkerfi (e. single resolution mechanism regulation, SRMR).
Framangreindar tillögur eru hluti af tillögupakka er lýtur að endurskoðun á lagaumhverfi evrópskra viðskiptabanka, en fjallað var um tillögupakkann í Vaktinni 21. apríl sl.
Markmið gerðanna er að stuðla að auknu meðalhófi við mat og meðferð á gerningum sem gerðir eru til að mæta lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar innan samstæðu. (e. minimum requirement for own funds and eligible liabilities - MREL)
Sjá nánar um samkomulagið í fréttatilkynningu ráðherraráðs ESB.
Tillögurnar ganga nú til formlegar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.
Stjórnsýsla jafnréttismála
Samkomulag náðist hinn 12. desember sl. í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um efni tillögu um stjórnsýslu jafnréttismála innan ESB. Um er að ræða tvær tilskipanir sem ætlað er að setja skýrari ramma um stöðu, hlutverk og valdsvið jafnréttisstofnana (e. equality bodies) innan ESB. Fjallað var um málið í Vaktinni 23. júní sl.
Aðildarríkjum ESB er nú þegar skylt að starfrækja jafnréttisstofnanir til að berjast gegn mismunun á vinnustöðum á grundvelli kynferðis, en umboð og valdsvið þessara stofnana er mismunandi eftir aðildarríkjum. Löggjöfin sem samþykkt var og um ræðir hér að framan lögfestir nokkur grundvallaratriði sem styrkja stöðu jafnréttisstofnana innan aðildarríkjanna. Þessi atriði snúa m.a. að því að tryggja stofnunum aukna hæfni til að berjast gegn mismunun, sjálfstæði frá utanaðkomandi áhrifum, fjárhagslegar og tæknilegar bjargir til að sinna hlutverki sínu og setur kröfu um að opinberar stofnanir hafi samráð við jafnréttisstofnanir um málefni sem tengjast kynbundinni mismunun o.fl.
Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.
Skýrari rammi og umgjörð um stjórnsýslu jafnréttismála almennt á Íslandi var settur með lögum um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020. Að ýmsu leyti má segja að sú endurskoðun hafi að nokkru leyti falið í sér svipaða nálgun og birtist í framangreindri lagasetningu ESB.
Yfirlýsing framkvæmdastjórnar ESB um heilbrigðissamtarf
Hinn 14. desember sl. birti framkvæmdastjórn ESB yfirlýsingu þar sem ósk EES/EFTA-ríkjanna um viðræður um nánara samstarf á sviði heilbrigðismála er fagnað. Fjallað hefur verið um umleitan Íslands um nánara samstarf við ESB á þessu sviði í Vaktinni að undanförnu, nú síðast 8. desember sl., þar sem greint var frá endurmati á hlutverki Neyðar- og viðbragðsskrifstofu ESB á sviði heilbrigðismála. Samstarfið sem um ræðir snýr að undirbúningi og viðbrögðum vegna heilsuvár. Sjá einnig m.a. umfjöllun í Vaktinni 26. maí sl. þar sem fjallað var um óformlegan fund heilbrigðisráðherra ESB.
Liechtenstein hefur nú einnig nýverið lýst yfir áhuga á að taka þátt í samstarfinu og eru EES/EFTA-ríkin því nú samferða í málaleitan sinni á þessu sviði sem getur hraðað framgangi þeirra eins og raunar er vikið að í framangreindri yfirlýsingu framkvæmdastjórnarinnar.
Í yfirlýsingunni kemur fram sú afstaða framkvæmdastjórnarinnar að viðræður um framangreint sé rökrétt framhald á góðu samstarfi ESB og EES/EFTA-ríkjanna á grundvelli EES-samningsins.
Með yfirlýsingunni lýsir framkvæmdastjórn ESB jafnframt yfir vilja til að hraða viðræðum við ríkin þrjú um varanlegan samstarfsramma á sviði heilbrigðismála. Legið hefur fyrir að hluti slíks samstarfs geti fallið innan gildissviðs EES-samningsins og er sú vinna í góðum farvegi. Frekari viðræður þurfa hins vegar að eiga sér stað um þátttöku á þeim sviðum samstarfsins sem kæmu því til viðbótar.
Listi yfir mikilvæg lyf til að sporna gegn lyfjaskorti
Lyfjaskortur er vaxandi áhyggjuefni meðal ríkja ESB, en eitt af forgangsverkefnum framkvæmdastjórnar ESB á sviði heilbrigðismála síðastliðin misseri hefur verið að grípa til ráðstafana til tryggja framboð lífsnauðsynlegra lyfja. Greint var frá aðgerðum framkvæmdastjórnarinnar til að sporna gegn lyfjaskorti og auka afhendingaröryggi lífsnauðsynlegra lyfja nú síðast í Vaktinni 27. október sl. Ein þeirra aðgerða sem þar var kynnt sneri að útgáfu lista yfir þau lyf sem mikilvægust eru. Með fréttatilkynningu framkvæmdastjórnar ESB 12. desember sl. var fyrsta útgáfa slíks lista birtur.
Gerð listans er samstarfsverkefni framkvæmdastjórnar ESB, Evrópsku Lyfjastofnunarinnar (EMA) og samtaka forstjóra lyfjastofnana Evrópu (HMA). Með útgáfu hans er verið að flýta framkvæmd sem stefnt er að því að lögfesta í tillögum að nýjum lyfjalögum sem nú eru til umfjöllunar í ráðherraráði ESB og á Evrópuþinginu, sbr. umfjöllun um þær tillögur í Vaktinni 26. maí sl., en framgangur þeirra tillagna er á meðal forgangsmála í formennskuáætlun Belga á sviði heilbrigðismála, sbr. umfjöllun um áætlunina hér að framan.
Listanum er ætlað að byggja undir frekara samstarf innan ESB á sviði heilbrigðismála (e. European Health Union) og styrkja strategískt sjálfræði ríkjasambandsins er kemur að aðgengi að lyfjum og aðföngum til framleiðslu lyfja á þeim óvissutímum sem nú ríkja í heimsmálum og alþjóðaviðskiptum.
EMA gegnir lykilhlutverki við að samræma viðbrögð innan ESB og evrópska efnahagssvæðisins þegar aðgengi að lífsnauðsynlegum lyfjum er ógnað á neyðartímum og örðugt er að leysa úr málum með ráðstöfunum sem gripið er til innan einstakra aðildaríkja. Á vegum stofnunarinnar starfa tveir samráðshópar að þessum verkefnum, annars vegar stýrihópur um skort og öryggi lyfja (e. Executive Steering Group on Shortages and Safety of Medicinal Products (MSSG)) og hins vegar vinnuhópur um lyfjaskort (e. The Medicine Shortages Single Point of Contact (SPOC)). Í framkvæmd eru það þessir tveir hópar sem vakta lyfjalistann og leggja til ráðstafanir ef truflanir verða á eðlilegu birgðahaldi einstakra lyfja. Ísland á fulltrúa í báðum þessum hópum, forstjóri Lyfjastofnunar situr í stýrihópnum og sérfræðingur stofnunarinnar á sæti í vinnuhópnum.
Við gerð listans var fyrirfram ákveðinni aðferðarfræði fylgt sem þróuð var á tímum kórónuveiru heimsfaraldursins. Lyf er skráð mikilvægt (lífsnauðsynlegt) ef það er grundvöllur þess að geta veitt gæða heilbrigðsþjónustu sem tryggir samfellu í meðferð sjúklings og góða lýðheilsu íbúa. Horft er til alvarleika sjúkdómsins sem þau eru notuð til meðferðar á og framboði annarra lyfja sem gagnast við meðferð hans. Þá er það viðbótarskilyrði sett að til að lyf komist á listann þarf það að hafa verið metið mikilvægt í að minnsta kosti þriðjungi ríkja á evrópska efnahagssvæðinu.
Á þessum fyrsta sameiginlega lista sambandsins eru skráð meira en 200 virk innihaldsefni sem notuð eru í lyf fyrir fólk. Þar er að finna bæði nýstárleg lyf og samheitalyf á fjölmörgum lækningasviðum eins og bóluefni og lyf við sjaldgæfum sjúkdómum. Listinn er ekki endanlegur heldur er gert ráð fyrir að hann verði endurskoðaður árlega og má gera ráð fyrir að listinn muni lengjast.
Gagnlegar upplýsingar sem tengjast gerð listans o.fl. má finna á vefsíðu EMA.
***
Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.
Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.
Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].