Vetnisvæðing á Evrópska efnahagssvæðinu
Að þessu sinni er fjallað um:
- vetnisvæðingu á Evrópska efnahagssvæðinu (EES)
- samkomulag um vottunarramma fyrir kolefnisbindingu
- vetrarspá um stöðu efnahagsmála
- mótmæli bænda og viðbrögð ESB
- ákall iðnleiðtoga um aukna samkeppnishæfni og framfylgd Græna sáttmálans
- samkomulag um endurskoðun tilskipunar um loftgæði
- hringrásarhagkerfið og rétt til viðgerða á vörum
- samkomulag um breytingar á tilskipun um mengun frá skipum
- samkomulag um samræmdar reglur um akstur vinnuvéla á vegum
- aukið gagnsæi á fjármálamörkuðum
- nýjar reglur um sjóði
- fund sameiginlegu þingmannanefndar EES
Vetnisvæðing á Evrópska efnahagssvæðinu
Uppbygging vetnisframleiðslu og innviða á því sviði er hluti af metnaðarfullum áætlunum ESB um orkuskipti. Mikill skriður er á þeim áætlunum um þessar mundir og risavaxin verkefni í gangi eða í burðarliðunum. Fyrir íslenskum stjórnvöldum liggur að meta hvort og þá hvernig Ísland geti tekið þátt í þeirri uppbyggingu. Hér á eftir er gerð stuttlega grein fyrir stöðu þessara mála á vettvangi ESB og í framhaldi af því er vikið nánar að möguleikum Íslands til þátttöku í vetnisvæðingunni.
IPCEI-ríkisstyrkir
Hinn 15. febrúar sl. lagði framkvæmdastjórn ESB blessun sína yfir 6,9 milljarða evra ríkisstuðning vegna verkefna á sviði vetnisframleiðslu og uppbyggingu innviða á því sviði. Verkefnapakkinn sem um ræðir var metinn á grundvelli ríkisstyrkjareglna ESB, nánar tiltekið á grundvelli viðmiða sem sett eru fram í orðsendingu framkvæmdastjórnar ESB um mat á réttmæti ríkisaðstoðar vegna mikilvægra verkefna sem varða sameiginlega hagsmuni ESB (e. Communication on Important Projects of Common European Interest – IPCEI). Heimilt er að veita hlutfallslega hærri ríkisstyrki til verkefna sem falla undir þessi viðmið en leyfilegt er í öðrum tilvikum.
Verkefnapakkinn sem um ræðir og nefndur er „IPCEI Hy2Infra“ var undirbúinn sameiginlega af sjö aðildarríkjum ESB, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi, Póllandi, Portúgal og Slóvakíu og er gert ráð fyrir að ríkin muni veita samtals 6,9 milljörðum evra í opinber framlög til verkefna sem þar liggja. Að auki er gert ráð fyrir 5,4 milljarða evra fjárfestingu einkaaðila á móti, en 32 fyrirtæki koma að verkefninu sem tekur til allra þátta í virðiskeðju vetnismarkaðar, allt frá sjálfri framleiðslunni og tæknilausnum á því sviði til uppbyggingar innviða fyrir geymslu og flutnings vetnis á milli svæða.
Er þetta í þriðja sinn sem verkefni eru samþykkt á grundvelli IPCEI á sviði vetnismála. Fyrsta verkefnið, nefnt IPCEI Hy2Tech, var samþykkt í júlí 2022, og annað verkefnið, nefnt IPCEI Hy2Use, var samþykkt 21. september 2022. Noregur er þátttakandi í síðarnefnda verkefninu, IPCEI Hy2Use, og kom það í hlut Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), í samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins, að leggja blessun sína yfir fyrirhugaða ríkisaðstoð af hálfu Noregs til þeirra tveggja verkefna í pakkanum sem Noregur kemur að, sjá niðurstöðu ESB hér.
Styrkir úr samkeppnissjóðum ESB
Auk þátttöku í framangreindum IPCEI-verkefnum hefur verið unnt að sækja um styrki úr sjóðum ESB til einstakra verkefna á sviði vetnismála, einkum úr nýsköpunarsjóði ESB á sviði loftslagsmála (e. Innovation Fund).
Áætlanagerð ESB á sviði vetnismála
Framangreind verkefni og stuðningur við þau í formi ríkisstyrkja og styrkja úr samkeppnissjóðum ESB eru eins og áður segir hluti af áætlun ESB um að þróa og byggja upp virkan vetnismarkað á innri markaði hins Evrópska efnahagsvæðis, sbr. orðsendingu framkvæmdastjórnar ESB um Vetnisbanka Evrópu, orðsendingu um vetnisáætlun, RePowerEU áætlunina og nýja tilskipun og áætlanir um uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa, sbr. m.a. umfjallanir í Vaktinni 21. apríl sl. Samkvæmt þessum áætlunum er það metið svo að vetnisorka geti orðið mikilvæg á sviðum þar sem ekki er talið raunhæft eða skilvirkt að nota rafhlöður eða rafmagn við orkuskipti. Getur slíkt m.a. átt við í orkufrekum samgöngum eins og t.d. í flugi.
Til að undirbyggja framangreinda vetnisvæðingu hefur verið unnið að endurskoðun og setningu reglna um vetnismarkað á vettvangi ESB og í desember sl. náðist loks samkomulag í þríhliða viðræðum um efni tillögu um markaðsreglur fyrir gas og vetni, sbr. umfjöllun í Vaktinni 2. febrúar sl., sbr. einnig tvær gerðir sem framkvæmdastjórn ESB setti um þetta efni í júní sl.
Möguleg þátttaka Íslands
Eins og áður segir þá er m.a. horft til þess sérstaklega í áætlunum ESB að vetni geti komið í stað jarðefnaeldsneytis í flugsamgöngum að einhverju marki, a.m.k. sem íblöndunarefni. Möguleikar Íslands til virkrar þátttöku í uppbyggingu vetnismarkaðar á innri markaði EES-svæðisins hafa einkum verið taldir liggja á því sviði, annars vegar vegna legu landsins og starfrækslu alþjóðaflugvallarins í Keflavík, á flugleiðinni milli Evrópu og Norður-Ameríku, og hins vegar vegna þeirrar sjálfbæru orku sem mögulegt er að framleiða á Íslandi og nauðsynleg er til sjálfbærrar vetnisframleiðslu. en ætla má að með hliðsjón af framangreindri sérstöðu geti vetnisframleiðsla á Íslandi orðið arðbær til lengri tíma litið, jafnvel verulega, en stofnkostnaður er þó einnig verulegur. Við mat á mögulegri þátttöku Íslands samkvæmt framangreindu þarf að hafa í huga að komi ekki til sjálfstæðrar vetnisframleiðslu á Íslandi, mun Ísland að líkindum þurfa að flytja inn vetni í framtíðinni, til að uppfylla lagalegar kröfur um notkun vistvæns flugvélaeldsneytis m.a., sbr. umfjöllun í Vaktinni 5. maí sl. um nýja löggjöf ESB á því sviði.
Möguleikar Íslands á þessu sviði voru m.a. til umræðu í tengslum við samningaviðræður við ESB um aðlögun fyrir Íslands í stóra flugmálinu svokallaða, sbr. m.a. umfjöllun í Vaktinni 24. febrúar 2023 en þar var m.a. greint frá skipun starfshóps sem umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra skipaði í febrúar á síðasta ári til að skoða leiðir til að hraða orkuskiptum í flugi, sbr. einnig drög að stefnu og aðgerðaáætlun um orkuskipti í flugi sem innviðaráðuneytið birti í Samráðsgátt stjórnvalda 30. mars. sl.
Vottunarrammi fyrir kolefnisbindingu
Þann 20. febrúar sl. náðist samkomulag milli Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um efni tillögu framkvæmdastjórnar ESB að reglugerð um vottunarramma fyrir aðferðir við varanlega kolefnisbindingu, kolefnisföngun með ræktun og kolefnisgeymslu í vörum. Fjallað var um tillöguna á samráðsstigi í Vaktinni 18. febrúar 2022. Sjá einnig til hliðsjónar umfjöllun um nýja orðsendingu framkvæmdastjórnar ESB um kolefnisföngun og -geymslu í Vaktinni 16. febrúar sl.
Vottunarrammanum er ætlað að auðvelda og flýta fyrir innleiðingu á hágæða aðferðum við kolefnisbindingu sem og aðferðum til draga úr losun CO2 við landnotkun (e. soil emission reduction activities). Með reglugerðinni er stigið fyrsta skrefið í átt að því að innleiða í löggjöf ESB alhliða vottunarramma fyrir aðferðir við kolefnisbindingu sem er mikilvægur þáttur í því að ná markmiði ESB um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050.
Gildissvið reglugerðarinnar
Skilgreining á kolefnisbindingu samkvæmt tillögunni er í samræmi við fyrirliggjandi skilgreiningu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) og nær til kolefnisbindingar úr andrúmslofti eða aðgerða til að fjarlægja kolefni af lífrænum uppruna (e. biogenic carbon removals).
Samkvæmt reglugerðinni eru eftirfarandi flokkar kolefnisbindingar skilgreindir:
- varanleg kolefnisbinding, þ.e. aðferðir sem binda kolefni úr andrúmslofti eða lífrænt kolefni til langs tíma, í nokkrar aldir,
- tímabundin geymsla kolefnis í vörum með langan líftíma (e. long-lasting products), t.d. byggingarvörur úr viði,
- tímabundin geymsla kolefnis með kolefnisræktun, t.d. ræktun skóga eða endurheimt þeirra og endurheimt jarðvegs og votlendis,
- samdráttur í losun frá landi, með jarðvegsstjórnun sem felur í sér minnkun á losun kolefnis og nituroxíðs (e. soil management). Er þetta nýr flokkur kolefnisbindingar sem bætist við tillöguna samkvæmt því samkomulagi sem nú liggur fyrir.
Reglugerðin tekur samkvæmt efni sínu einungis til bindingar á kolefni og nituroxíðs en í samkomulaginu er kveðið á um að framkvæmdastjórn ESB skuli, fyrir árið 2026, taka saman skýrslu um hagkvæmni þess að votta starfsemi og aðferðir sem leitt geta til samdráttar í losun annarra mengandi efna frá landnotkun.
Áréttað er að verkefni, sem ekki fela beinlínis í sér kolefnisbindingu, svo sem verkefni sem ætlað er að koma í veg fyrir eyðingu skóga eða kolefnisföngun í tengslum við framleiðslu á endurnýjanlegri orku, svo sem vetni, sbr. umfjöllun hér að framan í Vaktinni um vetnisvæðingu EES, falla ekki undir gildissvið reglugerðarinnar.
Vottunarrammi fyrir kolefnisbindingu samkvæmt reglugerðinni mun einungis gilda fyrir starfsemi innan ESB. Í samkomulaginu er hins vegar kallað eftir því að framkvæmdastjórn ESB íhugi þann möguleika, við endurskoðun reglugerðarinnar þegar þar að kemur, að heimila vottun kolefnisbindingar í jarðlögum í nágrannaríkjum ESB að uppfylltum umhverfis- og öryggiskröfum ESB.
Vottunarviðmið og verklagsreglur
Kolefnisbinding þarf samkvæmt reglugerðinni að uppfylla fjögur nánar tilgreind viðmið til að hljóta vottun, þ.e. um magngreiningu þess kolefnis sem bundin er, um viðbótarvirkni bindingar miðað við að ekki væri aðhafst, um greiningu á geymslutíma bindingar og um sjálfbærni þeirrar aðferðar sem beitt er. Gert er ráð fyrir að þróaðar verði sérsniðnar vottunaraðferðir fyrir mismunandi aðferðir við kolefnisbindingu til að tryggja rétta, samræmda og hagkvæma framkvæmd reglugerðarinnar.
Ávinningur af vottun
Vottuð kolefnisbinding og aðgerðir sem draga úr losun kolefnis vegna landnotkunar verða reiknaðar til eininga og mun ein eining jafngilda einu tonni af CO2. Felur samkomulagið í sér að einungis megi nota vottaðar einingar við útreikning á landsbundnu framlagi (e. nationally determined contribution - NDC) við framfylgd loftslagsmarkmiða ESB.
Eftirlit og ábyrgð
Í reglugerðinni er kveðið á um eftirlit með og ábyrgð rekstraraðila kolefnisbindingar. Í samkomulaginu er framkvæmdastjórn ESB hvött til þess að tryggja að við þróun vottunarkerfa verði kveðið skýrt á um afleiðingar ófullnægjandi eftirlits og vanefnda af hálfu rekstraraðila.
Upplýsingagjöf til almennings
Til að gera upplýsingar um vottun og áunnar einingar rekstraraðila aðgengilegar fyrir almenning er framkvæmdastjórn ESB hvött til þess að koma á fót samræmdri rafrænni skrá er verði tilbúin eigi síðar en fjórum árum eftir gildistöku reglugerðarinnar.
Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.
Vetrarspá um stöðu efnahagsmála
Þann 15. febrúar sl. birti framkvæmdastjórn ESB nýja efnahagsspá fyrir ESB sem bendir til hægari gangs í hagkerfinu árið 2024 en áður. Gert er ráð fyrir að vöxtur á árinu 2024 verði 0,9% í ESB (1,3% í haustspánni) og 0,8% á Evrusvæðinu (1,2% í haustspánni). Áfram er búist við kröftugri vexti á næsta ári, 1,7% fyrir ESB og 1,5% á Evrusvæðinu. Fjallað var um haustspána í Vaktinni 24. nóvember sl.
Útlit er fyrir að verðbólga hjaðni hraðar en efnahagsspáin í haust benti til. Samræmd neysluverðsvísitala er talin munu fara úr 6,3% árið 2023 í 3,0% árið 2024 og 2,5% árið 2025 í ESB og verða nokkuð lægri á evrusvæðinu eða 5,4%, 2,7% og 2,2%.
Það dró úr hagvexti árið 2023 sökum minnkandi kaupmáttar heimila, auknu aðhaldi peningastefnu og ríkisfjármálastefnu og minnkandi eftirspurnar eftir útflutningi frá ESB. Fyrsti ársfjórðungur ársins 2024 fór hægt af stað en útlit er fyrir að hagvöxtur muni aukast jafnt og þétt yfir árið. Lækkandi verðbólga, hækkun raunlauna og sterkur vinnumarkaður munu ýta undir eftirspurn. Þrátt fyrir minnkandi hagnaðarhlutfall fyrirtækja eru líkur á að fjárfesting muni aukast vegna betri fjármögnunarskilyrða og virkrar beitingar Bjargráðasjóðsins sem fjallað var um í Vaktinni 19. mars 2021. Útlit er fyrir að utanríkisviðskipti nái sér aftur á strik eftir lítil umsvif í fyrra.
Verðbólga minnkaði mun meira á árinu 2023 en gert hafði verið ráð fyrir og má rekja það fyrst og fremst til lækkandi orkuverðs. Sökum minnkandi umsvifa í hagkerfinu minnkaði verðbólguþrýstingur einnig í öðrum geirum á síðari hluta ársins 2023. Lækkandi verðbólgutölur síðastliðna mánuði, lækkandi orkuverð og minni þróttur í hagkerfinu leiða til þess að talið er að verðbólga muni lækka enn hraðar en talið var í haust. Til skamms tíma gætu minnkandi niðurgreiðslur hins opinbera á orku og hærra flutningsverð vegna ástandsins við Rauðahafið aukið verðbólguþrýsting án þess þó að trufla lækkunarferilinn að ráði. Við lok spátímabilsins (2025) er talið að verðbólga á evrusvæðinu verði örlítið umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Evrópu.
Í spánni er fjallað um aukna óvissu tengda spennu í samskiptum ríkja heimsins. Ástandið við Rauðahafið, í sinni núverandi mynd, er talið hafa óveruleg áhrif en stigmögnun þess geti truflað virðiskeðjur sem aftur gæti dregið úr framleiðni og hækkað verð. Helstu óvissuþættir innan sambandsins snúa að eftirspurn, launahækkunum, hagnaðarhorfum fyrirtækja og hversu háir vextir verða og hve lengi. Þá er bent á áhættu tengda loftslagsbreytingum og auknum öfgum í veðurfari.
Mótmæli bænda og viðbrögð ESB
Bændur hafa staðið fyrir mótmælum víða um Evrópu að undanförnu. Meðal annars mótmæltu þeir af fullri hörku í Brussel síðastliðinn mánudag þar sem kom til átaka á milli þeirra og lögreglu.
Ástæður mótmælanna eru skert kjör bænda vegna hækkandi framleiðslukostnaðar, lágs afurðaverðs, aukinnar samkeppni vegna innflutnings á ódýrum landbúnaðarvörum frá þriðju ríkjum, auknu regluverki ESB á sviði umhverfismála og auknu skrifræði sem því fylgir.
Framleiðslukostnaður í landbúnaði óx á tímum kórónuveirufaraldurins og í kjölfar árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu hafa aðföng hækkað enn frekar í verði og framleiðslukostnaður sömuleiðis. Þá hafa þurrkar, flóð og skógareldar haft neikvæð áhrifa á rekstrarskilyrði bænda víðs vegar um Evrópu. Þá var það ein af aðgerðum ESB til stuðnings Úkraínu að veita þeim viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur. Sú ákvörðun hefur bitnað á bændum, sérstaklega í þeim löndum sem liggja næst Úkraínu.
Auknar kröfur til bænda á sviði umhverfismála, bæði kröfur sem tengjast stuðningskerfi ESB við bændur samkvæmt almennu landbúnaðarstefnunni (CAP) og ýmsum reglum sem eru hluti af Græna sáttmálanum s.s. um endurheimt og varðveislu vistkerfa, sbr. umfjöllun í Vaktinni 24. nóvember sl., auknar kröfur um samdrátt í notkun skordýraeiturs, kröfur um aukna lífræna framleiðslu o.s.frv. hefur haft í för með sér umtalsvert skrifræði og kostnað fyrir bændur. Hefur þetta, ofan á afar erfitt markaðsástand eins og rakið er að framan, aukið mjög á ónægju bænda.
ESB hefur brugðist við mótmælum bænda og lofað úrbótum. Í lok janúar sendi framkvæmdastjórn ESB frá sér tillögu að aðgerðum sem ætlað er að koma til móts við bændur aðallega með því að heimila þeim að víkja frá ákveðnum skilyrðum í landbúnaðarstefnunni tímabundið í eitt ár. Þetta eru svokölluð GAEC skilyrði sem lúta að umhverfismálum (e. Good Agricultural And Environmental Conditions) en þau eru alls níu fyrir utan önnur skilyrði sem lúta að plöntu- og dýravelferð og dýraheilbrigði.
Landbúnaðarráðherrar aðildarríkjanna staðfestu þessar tillögur framkvæmdastjórnarinnar á fundi þeirra í ráðherraráði ESB sem fram fór sama dag og mótmælin stóðu yfir síðastliðinn mánudag. Á fundi ráðherranna var lagt fram umræðuskjal frá framkvæmdastjórn ESB sem byggist á framangreindri tillögu. Þá lögðu ráðherrarnir blessun sína yfir ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB um að draga til baka fyrirhugaða reglusetningu þar sem gert var ráð fyrir um 50% samdrætti á notkun skordýraeiturs í landbúnaði fyrir árið 2030, sbr. umfjöllun um þá tillögu í Vaktinni 21. apríl sl. þar sem fjallað er um býflugnavænan landbúnað. Þá stendur til nú í framhaldinu að gera könnun á meðal bænda í aðildarríkjunum um hvað það er nákvæmlega sem þeir eru ósáttir við, m.a. í regluverki ESB, svo hægt sé móta aðgerðir til að koma til móts við þá til lengri tíma.
Tilslakanir ESB í þágu bænda nú, m.a. framangreind afturköllun á tillögu um skordýraeitur, þykja bera þess merki að kosningar til Evrópuþingsins eru í nánd. Í kosningabaráttunni sem er fram undan mun Græni sáttmálinn, sem hefur verið eitt að meginstefnumálum núverandi framkvæmdastjórnar, og það regluverk sem þar er undir, verða í brennidepli.
EES-samningurinn tekur eins og kunnugt er ekki til almennu landbúnaðarstefnu ESB en á hinn bóginn tekur samningurinn til matvælalöggjafar ESB sem og til ákveðinna þátta í umhverfislöggjöfinni. Viðbrögð ESB nú geta því snert gildissvið samningsins og fylgjast íslensk stjórnvöld því vel með þróuninni. Þá hafa bændur á Íslandi einnig glímt við versnandi rekstrarskilyrði á undanförnum árum og eru þau að ýmsu leyti af svipuðum meiði og vandi bænda innan ESB.
Ákall iðnleiðtoga um aukna samkeppnishæfni og framfylgd Græna sáttmálans
Þann 20. febrúar sl. afhentu evrópskir iðnrekendur forystu ESB svonefnda Antwerpen yfirlýsingu þar sem stuðningi er heitið við framfylgd iðnaðaráætlunar (e. industrial policy) sem styður við markmið Græna sáttmálans. Belgía fer nú með formennsku í ráðherraráði ESB og veitti Alexander Croo forsætisráðherra henni viðtöku ásamt og Ursulu von der Leyen forseta framkvæmdastjórnar ESB. Yfirlýsingin var undirrituð af 73 iðnrekendum innan ESB og alls 474 aðilum í 20 geirum iðnaðar innan ESB. Yfirlýsingin er mikilvæg í aðdraganda kosninga til Evrópuþingsins því með henni er lýst yfir stuðningi við þá stefnumótun sem felst í Græna sáttmálanum, sem stundum er gagnrýndur fyrir að honum fylgi aukinn kostnaður og íþyngjandi skrifræði, sbr. meðal annars umfjöllun hér að framan um mótmæli bænda og viðbrögð ESB við þeim. Græni sáttmálinn og framfylgd hans hefur verið eitt af megin leiðarstefum núverandi framkvæmdastjórnar ESB síðastliðin fimm ár undir stjórn Ursulu von der Leyen. Með yfirlýsingunni má jafnframt greina skýran stuðning við stafrænu starfsskrána sem framkvæmdastjórnin hefur einnig unnið að sem og við áherslur um opið strategískt sjálfræði ESB, en ítarlega hefur verið fjallað um þessi málefni í Vaktinni á umliðnum misserum.
Iðnrekendurnir kalla eftir margföldun í fjárfestingum í iðnaði innan ESB, í vistvænni orku- og rafmagnsframleiðslu og í tengdri innviðauppbyggingu í samræmi við markmið ESB um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050.
Í yfirlýsingunni kemur m.a. fram að iðnaður innan ESB standi frammi fyrir ýmsum áskorunum vegna efnahagslegra þrenginga, aukins framleiðslukostnaðar, minnkandi eftirspurnar og þverrandi fjárfestinga. Þá hafi nýlegar stuðningsaðgerðir við grænan iðnað í Bandaríkjunum og Kína haft áhrif á samkeppnishæfni iðnaðar innan ESB, sbr. til hliðsjónar umfjöllun í Vaktinni 27. janúar 2023 um viðbrögð ESB við stuðningsaðgerðum við grænan iðnað í Bandaríkjunum og umfjöllun um framkvæmdaáætlun Græna sáttmálans og framfylgd hennar í Vaktinni 10. febrúar 2023 og 24. mars sama ár.
Í yfirlýsingunni er stuðningi heitið við stefnumótun ESB um opið strategískt sjálfræði, sbr. umfjöllun um þá stefnu í Vaktinni 24. nóvember sl., sem er álitin nauðsynleg til að tryggja samkeppnishæfni ESB að teknu tilliti til núverandi stöðu heimsmála. Áréttað er að markmiðum ESB verði ekki náð nema fjárfest sé markvisst í iðnaði innan ESB. Án skýrrar iðnaðarstefnu eigi ESB á hættu að verða háð öðrum ríkjum um bæði vörur og hráefni.
Nánar tiltekið er kallað eftir eftirtöldum aðgerðum til að styðja við iðnað innan ESB, þ.e.:
- að evrópsk iðnaðarstefna verði í fyrirrúmi í nýrri strategískri stefnu leiðtogaráðs ESB fyrir árin 2024-2029 sem stefnt er að því að samþykkja á fundi ráðsins í júní nk. að afloknum kosningum til Evrópuþingsins,
- að aukið verði við enn frekar við opinberar fjárfestingar í grænni tækni fyrir orkufrekan iðnað,
- að stutt verði sérstaklega við aukningu í framleiðslu endurnýjanlegra orkugjafa, þar með talið kjarnorku, á viðráðanlegu verði, auk innviða fyrir vetnisorku, rafmagn og aðra græna orkugjafa, sbr. til hliðsjónar umfjöllun um vetnisvæðingu EES hér að framan í Vaktinni,
- að sett verði í brennidepil að stórbæta samgönguinnviði, stafræna innviði, orkuinnviði og innviði fyrir endurvinnslu,
- að auka og bæta öruggt aðgengi að mikilvægum hráefnum innan ESB með auknum stuðningi við námustarfsemi og hringrásarhagkerfið,
- að unnið sé að því auka eftirspurn eftir kolefnishlutlausum eða lágkolefnis vörum,
- að innri markaðurinn verði almennt efldur og styrktur,
- að stuðningur við nýsköpun í vísinda- og tæknigreinum, við stafvæðingu og að lagaleg vernd á sviði hugverka- og einkaleyfisréttar verði aukin, sbr. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 5. maí sl., um nýjar tillögur á því sviði.
- að unnið sé skipulega að einföldun regluverks,
- og loks að fyrsta varaforseta framkvæmdastjórnar ESB verði falið að gæta þess miðlægt að iðnaðarsáttmálanum sé hrint í framkvæmd með samræmdum hætti í heild sinni.
Samkomulag um endurskoðun tilskipunar um loftgæði
Þann 20. febrúar sl. náðist samkomulag milli Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um efni tillögu um endurskoðun tilskipunar um loftgæði sem miðar að því að ná svonefndri núllmengun (e. zero pollution) í andrúmslofti eigi síðar en árið 2050. Gert er ráð fyrir að nýju reglurnar muni bæta loftgæði til muna og stuðla að því að hægt sé að takast á við loftmengun og heilsufarslegar afleiðingar hennar á áhrifaríkan hátt. Sjá umfjöllun um tillöguna í Vaktinni 4. nóvember 2022 þar sem fjallað var um margþættar tillögur framkvæmdastjórnar ESB á sviði mengunarvarnamála.
Helstu atriði samkomulagsins
Samkomulagið felur í sér að settar verði auknar kröfur um bráðabirgðamörk fyrir árið 2030 í formi viðmiðunar- og umhverfismarka í samræmi við ráðleggingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Kveðið er á um að mörk vegna loftmengandi efna skuli endurskoðuð reglulega þ. á m. vegna svifryks (PM2.5 og PM10), köfnunarefnisdíoxíðs (NO2), brennisteinsdíoxíðs (SO2), bensó(a)pýren, arsen, blýs og nikkels. Árleg viðmiðunarmörk (e. annual limit values) fyrir þau mengunarefni sem hafa mest sannreynd áhrif á heilsu manna munu lækka, t.d. fer PM2.5 úr 25 µg/m³ í 10 µg/m³ og NO2 úr 40 µg/m³ í 20 µg/m³.
Aðildarríki ESB hafa möguleika til 31. janúar 2029, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi og að uppfylltum ströngum skilyrðum, að óska eftir lengri á fresti til að ná loftgæðaviðmiðunarmörkum (e. air quality limit values). Ef óskað er eftir fresti þurfa aðildarríkin að setja sér loftgæðaáætlanir og sýna fram á að reynt sé til hins ítrasta að ná settum markmiðum.
Í því skyni að tryggja að kröfur samkvæmt loftgæðatilskipuninni séu í samræmi við leiðbeiningar WHO á hverjum tíma er í samkomulaginu skorað á framkvæmdastjórn ESB að taka tilskipunina til endurskoðunar reglulega.
Þá er í samkomulaginu skerpt á reglum um heimildir félagasamtaka og einstaklinga til að láta reyna á ákvæði tilskipunarinnar með málsóknum fyrir dómstólum, eftir atvikum, og um rétt til skaðabóta ef heilsutjón verður rakið til skorts á innleiðingu hennar.
Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.
Sjá nánar um loftmengun í ESB: Staðreyndir og tölur.
Hringrásarhagkerfið – Réttur til viðgerðar
Þann 2. febrúar sl. náðist samkomulag milli Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um efni tillögu sem gengur undir nafninu tilskipun um rétt til viðgerðar (e. right-to-repair (R2R) directive). Fjallað var um tillöguna í Vaktinni 24. mars sl.
Markmið tilskipunarinnar er auðvelda neytendum að leita eftir viðgerð á vöru þegar bilun eða skemmdir verða í stað þess að kaupa nýja. Tillagan er hluti af tillögupakka framkvæmdastjórnar ESB um hringrásarhagkerfið, sbr. umfjöllun í Vaktinni 1. apríl 2022.
Með samkomulaginu nú er áhersla ESB á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins undirstrikuð enn á ný. Með því að mæla fyrir um rétt neytenda til viðgerðarþjónustu og skyldu seljenda og framleiðenda vara til að trygga að slík þjónusta sé í boði er vörum gefið nýtt líf um leið og vönduð störf í viðgerðarþjónustu eru sköpuð. Samhliða er dregið úr sóun á náttúrugæðum og myndun úrgangs með tilheyrandi jákvæðum umhverfisáhrifum.
Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.
Samkomulag um breytingar á tilskipun um mengun frá skipum
Evrópuþingið og ráðherraráð ESB náðu þann 13. febrúar sl. samkomulagi um efni tillögu að breytingum á tilskipun um mengun frá skipum. Tillagan er hluti af tillögupakka framkvæmdastjórnar ESB um aukið siglingaöryggi sem fjallað var um í Vaktinni 9. júní sl.
Með breytingunum eru alþjóðlegir staðlar innleiddir í löggjöf ESB m.a. til að tryggja að þeir sem verða uppvísir að ólöglegri losun mengandi úrgangs frá skipum munu sæta viðhlítandi refsingu þannig að varnaðaráhrif löggjafarinnar aukist samfara betri úrræðum landsyfirvalda til að framfylgja reglunum með stjórnsýsluviðurlögum sem og með auknu samstarfi milli aðildarríkjanna og stofnana ESB.
Í samkomulaginu felst m.a. að gerður er skýrari greinarmunur á refsiákvæðum og stjórnsýsluviðurlögum en gert er ráð fyrir að framvegis verði kveðið á um samræmingu refsiákvæða vegna umhverfislagabrota í aðildarríkjunum í endurskoðaðri tilskipun um vernd umhverfis með refsiréttarviðurlögum, en tillaga að endurskoðun þeirrar tilskipunar var lögð fram árið 2021 og er nú til meðferðar í Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.
Samkomulagið gerir jafnframt ráð fyrir tilteknum sveigjanleika er kemur að skyldum aðildarríkja með tillit til mismunandi aðstæðna í ríkjunum svo sem landfræðilegri stöðu og mismunandi umfangi stofnana.
Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.
Samkomulag um samræmdar reglur um akstur vinnuvéla á vegum
Evrópuþingið og ráðherraráð ESB náðu þann 21. febrúar sl. samkomulagi um efni tillögu að reglugerð um eftirlit og markaðseftirlit með vinnuvélum í ferð á vegum sem almennt eru ekki þar á ferð. Fjallað var um tillöguna í Vaktinni 21. apríl sl..
Með reglugerðinni verða reglur aðildarríkjanna um akstur vinnuvéla (t.d. landbúnaðarvéla af ýmsu tagi og jarðýta) á vegum samræmdar.
Samkomulagið felur m.a. í sér að kveðið er á um nýjan flokk farartækja sem bætist við þá flokkun sem fyrir er í gildandi reglum um ökutæki. Þá er í samkomulaginu m.a. kveðið á um heimildir fyrir yfirvöld til að takmarka umferð sjálfvirkra vinnuvéla og vinnuvéla í yfirstærð ef stærð þeirra takmarkar stjórnhæfi þeirra á vegum og eins ef þyngd þeirra er meiri en samgöngumannvirki þola með góðu móti.
Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.
Aukið gagnsæi á fjármálamörkuðum
Þann 29. júní sl. náðist samkomulag í þríhliða viðræðum um efni tillagna um breytingar á reglum er snúa að gagnsæi í verðbréfaviðskiptum og voru breytingarnar endanlega samþykktar af ráðherraráði ESB 20. febrúar sl.
Breytingarnar miða að því að bæta aðgengi fjárfesta í ESB að viðeigandi upplýsingum þannig að þeim sé betur kleift að taka upplýstar ákvarðanir um fjárfestingar í fjármálagerningum. Er auknu gagnsæi ætlað að efla samkeppnishæfni fjármagnsmarkaða ESB og tryggja jafna samkeppnisstöðu. Breytingarnar ná til reglugerðar og tilskipunar um markaði fyrir fjármálagerninga, MiFIR og MiFID.
Eins og vikið er að hér að framan er helsta markmið reglnanna að auka gagnsæi en í því skyni verður komið á fót vettvangi þar sem upplýsingum um verðbréfaviðskipti er safnað saman og miðlað með einföldum hætti til fjárfesta. Í dag er upplýsingar um verðbréfaviðskipti innan ESB að finna á fjölmörgum stöðum og í mörgum mismunandi kerfum. Með reglunum á að koma á fót miðlægri upplýsingaveitu sem safnar saman upplýsingum frá aðildarríkjunum og mismunandi kerfum og birtir þær eins nærri rauntíma og mögulegt er. Þannig hafi fjárfestar aðgang að nauðsynlegum upplýsingum um verðbréfaviðskipti innan ESB og geti betur áttað sig á verði og magni viðskipta og tímasetningu þeirra.
Nýju reglurnar fela í sér bann við tilteknum umboðsgreiðslum til verðbréfamiðlara (e. payment for order flow), þ.e. að þeim sé greitt fyrir, af hálfu viðskiptavettvanga (e. trading platforms), að beina viðskiptavinum til þeirra. Verða slíkar greiðslur með öllu óheimilar frá 30. júní 2026.
Með breytingunum eru einnig settar nýjar reglur um viðskipti með hrávöruafleiður.
Gerðirnar taka gildi 10. mars nk. í aðildarríkjum ESB en þau hafa 18 mánuði til þess að innleiða breytingar sem felast í tilskipuninni í eigin löggjöf.
Nýjar reglur um sjóði
Framkvæmdastjórn ESB kynnti 25. nóvember 2021 aðgerðapakka til þess að styðja við fjármagnsmarkaði innan sambandsins. Markmiðið er að auðvelda fyrirtækjum að afla fjár innan ESB og tryggja að íbúar sambandsins fái bestu kjör á sparnaði og fjárfestingum. Í pakkanum voru löggjafartillögur um i) eina upplýsingagátt fyrir fjárfesta í ESB, ii) endurskoðun á lagaumgjörð evrópskra langtímafjárfestingarsjóða, ELTIF, iii) endurskoðun á tilskipun um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, AIFMD og iv) endurskoðun á reglugerð um markaði fyrir fjármálagerninga, MiFIR.
Í júlí 2023 náðist bráðabirgðasamkomulag í þríhliða viðræðum um lagabreytingar sem varð tilskipun um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, AIFMD, og umgjörð um UCITS-sjóði. Hinn 26. febrúar sl. samþykkti ráðið svo lagabreytingarnar. Er nýju reglunum ætlað að stuðla að samþættingu eignastýringarmarkaða auk þess sem eftirlitsreglur með sjóðum eru uppfærðar. Með reglunum er möguleikum til lausafjárstýringar fjölgað í þeim tilgangi að stuðla að því að sjóðsstjórar séu í stakk búnir til þess að takast á við mikið útflæði á álagstímum. Reglubreytingin felur einnig í sér breytingu á skilyrðum eignastýrenda til að útvista verkefnum til þriðja aðila með það að markmiði að þeir geti betur nýtt þekkingu annarra en þó undir tryggu eftirliti og með þeim hætti sem tryggir heilindi markaðarins. Þá er í reglunum að finna ákvæði um bætta upplýsingagjöf milli eftirlitsaðila, ákvæði sem eiga að takmarka misvísandi nafnagjöf sjóða og aðgerðir til þess að bera kennsl á óþarfa kostnað sjóða sem yfirleitt er á endanum borinn uppi af fjárfestum.
Tilskipunin tekur gildi 17. mars nk. Aðildarríkin hafa 24 mánuði til þess að taka reglurnar upp innlenda löggjöf.
Fundur sameiginlegu þingmannanefndar EES
Sameiginleg þingmannanefnd Evrópska efnahagssvæðisins kom saman til vikunni, dagana 28.–29. febrúar sl. Nefndin samanstendur af þingmönnum þjóðþinga EES-EFTA ríkjanna, Íslands, Noregs og Liechtenstein, og þingmönnum Evrópuþingsins auk þess sem Sviss á áheyrnarfulltrúa í nefndinni. Að þessu sinni sóttu íslensku þingmennirnir Diljá Mist Einarsdóttir og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir fundinn fyrir hönd Íslands.
Á fundinum var þess minnst að í ár eru 30 ár liðin frá því að EES-samningurinn tók gildi og var framtíð innri markaðarins á þeim tímamótum til umræðu á fundinum. Ávarpaði Enrico Letta, forseti Jacques Delors stofnunarinnar, fundinn og greindi frá inntaki skýrslu sem hann vinnur nú að beiðni leiðtogaráðs ESB að um framtíð innri markaðarins. Viðbrögð við almannavarnaástandi voru einnig til umræðu á fundinum þar sem eldsumbrotin á Íslandi komu m.a. til sérstakrar umræðu og flutti Matthew James Roberts, framkvæmdastjóri Þjónustu- og rannsóknarsviðs Veðurstofu Íslands kynningu á stöðu mála á Reykjanesskaganum. Stuðningur við Úkraínu sem og framgangur aðildarumsóknar ríkisins að ESB, ný löggjöf um gervigreind, nýjar tollareglur á grundvelli sjálfbærnikrafna ESB voru einnig til umræðu.
Þá fór fram, venju samkvæmt, almenn umræða um framkvæmd og þróun EES-samningsins og stöðuna á upptöku ESB-gerða í samninginn og innleiðingu þeirra í landsrétt aðildarríkjanna. Ísland fer nú með formennsku í EES-ráðinu og flutti sendiherra Íslands í Brussel og núverandi formaður fastanefndar EFTA um EES-samstarfið, Kristján Andri Stefánsson, erindi undir þessum dagskrárlið um það sem efst er á baugi við rekstur samningsins frá sjónarhóli EES/EFTA-ríkjanna auk þess sem hann greindi frá þeim viðburðum sem til stendur að efna til í tilefni af 30 ára afmæli EES-samningsins, sbr. nánari umfjöllun í Vaktinni 19. janúar sl. Undir þessum dagskrárlið töluðu einnig fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar, Thomas McClenaghan, formaður EFTA-vinnuhóps ráðherraráðs ESB, Michael Mareel, og Árni Páll Árnason, stjórnarmaður í stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA.
***
Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.
Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].
Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].