Hoppa yfir valmynd
31. maí 2024 Brussel-vaktin

Vika í Evrópuþingskosningar - Eurovision Debate

Að þessu sinni er fjallað um:

  • kosningabaráttuna, hægri sveifluna og stöðu VdL
  • fund EES-ráðsins og afmælisráðstefnu
  • framgang stefnuáætlunar ESB á sviði heilbrigðismála
  • vegvísi evruhópsins um uppbyggingu sameiginlegs fjármagnsmarkaðar
  • samræmingu á málsmeðferðarreglum við innheimtu staðgreiðsluskatta
  • nýja LULUCF handbók

Eurovision debate – vika í kosningar

Kosningar til Evrópuþingsins fara fram dagana 6. – 9. júní. Aðalkjördagurinn er sunnudagurinn 9. júní í flestum ríkjum og verða fyrstu tölur birtar þá um kvöldið eða þegar kjörstöðum hefur verið lokað í öllum aðildarríkjunum.

Eins og nánar er rakið í umfjöllun Vaktarinnar 3. maí sl. um kosningarnar þá er kosningabaráttan háð á tveimur vígstöðvum ef svo má segja eða kannski réttara sagt á 28 vígstöðvum. Annars vegar í aðildarríkjunum hverju fyrir sig og síðan þvert á aðildarríkin á vettvangi viðurkenndra stjórnmálasamtaka ESB, hins vegar.

Kosningabaráttan í aðildarríkjunum tekur á sig fjölbreyttar myndir sem endurspeglar vitaskuld hið pólitíska landslag í hverju ríki um sig og þær stefnur og strauma sem þar ráða ríkjum.

Er kemur að kosningabaráttunni sem háð er þvert á aðildarríkin þá eru áhersluatriðin sem skilja stjórnmálaflokkana að ef til vill almennari, eðli málsins samkvæmt, en á hinn bóginn birtast þar hinar stóru pólitísku línur þvert á aðildarríki ESB sem erfitt getur verið að greina þegar rýnt er í stöðuna í einstökum aðildarríkjum.

Skoðanakannanir og kosningaspár benda til þess að fylgið heilt yfir sé í nokkrum mæli að færast til hægri og þá einkum til flokka sem skilgreindir hafa verið lengst til hægri (e. far right) á hinum pólitíska kompás. Þessi þróun hefur ollið titringi á hinu pólitíska sviði innan ESB og hafa flokkar sem skilgreina sig á miðju stórnmálanna og vinstra megin við miðju lýst því yfir eða tekið undir yfirlýsingar þess efnis að þeir hafni með öllu samstarfi við slíka flokka. PES (Party of European Socialists) sem er stærsti miðju-vinstri-flokkurinn og uppistaðan í þingflokki S&D á Evrópuþinginu reið á vaðið hvað þetta varðar með sérstakri yfirlýsingu (Berlin Democracy Declaration) þar sem samstarfi við flokkana lengst til hægri (öfga hægri) er hafnað og hafa fleiri flokkar tekið undir þá yfirlýsingu en þó ekki allir. EPP (European People‘s Party), flokkur Ursulu von der Leyen (VdL), hefur t.d. hafnað því að taka undir yfirlýsinguna. VdL hefur þó eftir sem áður skýrlega hafnað samstarfi við ID flokkinn (Identity and Democracy), en sá flokkur er ótvírætt skilgreindur lengst til hægri á Evrópuþinginu nú um stundir. Með yfirlýsingu PES er þó ekki einvörðungu hafnað samstarfi við ID heldur er samstarfi við hófsamari hægri öfga flokkinn ECR (European Conservatives and Reformists) einnig hafnað en honum tilheyrir m.a. flokkur Giorgiu Meloni, forsætisráðherra Ítalíu. Hefur EPP, með VdL í fararbroddi, ekki verið tilbúin til þess að útiloka fyrirfram samstarf við þann flokk á þinginu á komandi kjörtímabili. Þvert á móti þá hefur VdL gefið hugsanlegu samstarfi EPP og ECR eftir kosningarnar undir fótinn með tilheyrandi auknu hugarangri núverandi samstarfsflokka EPP á miðjunni og til vinstri. Hverja skoðun sem menn kunna að hafa á þessari afstöðu EPP þá hefur flokkur ECR á umliðnu kjörtímabili orðið Evrópusinnaðri, ef svo má segja, undir stjórn Meloni. Ótvírætt merki þar um var þegar fulltrúar flokks Viktors Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, Fidesz, á Evrópuþinginu gengu úr eða hrökkluðust úr þingflokki ECR, eftir því hvernig menn vilja orða það. Enda þótt ástæður þeirra sambandsslita verði í grunninn raktar til ólíkrar afstöðu til árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu, þá verður því vart neitað að úrganga þessara þingmanna úr ECR hefur ótvírætt breytt ásýnd stjórnmálasamtakanna.

Jafnvel þótt fylgisaukning flokkanna lengst til hægri, sem spáð er, verði að veruleika í kosningunum virðist þó ólíklegt sem stendur að flokkarnir nái með beinum hætti að nýta þá fylgisaukningu til að seilast til meiri áhrifa á Evrópuþinginu. Fyrir því eru ýmsar ástæður en það sem mestu skiptir er án vafa að flokkarnir á hægri vængnum, að frátöldum flokki EPP, eru í raun þverklofnir. Liðsmenn Fidesz eru eins og áður segir klofnir frá ECR, og eru sem stendur utan þingflokka á Evrópuþinginu. Auk þessa má segja að ECR hafi að einhverju leyti fjarlægst þá gallhörðu þjóðernishyggju sem almennt einkennir flokka sem skilgreindir eru lengst til hægri, þ.e. flokkurinn er orðinn meira Evrópusinnaður (e. Pro-Europeanism). Klofningur kom einnig upp í ID nýverið þegar þýska öfgahægriflokknum AFD (Alternative for Germany) var vikið úr stjórnmálasamtökunum. ID gengur því laskaður til kosninganna sem endurspeglast kannski best í því að flokknum hefur ekki tekist að tilnefna oddvita (e. lead candidate) fyrir kosningarnar. Um tíma virtist þó ljóst að danski þingmaðurinn Anders Vistisen kæmi fram sem oddviti fyrir flokkinn og það gerði hann í reynd í Maastricht kappræðunum, en hann hefur ekki tekið þátt í kappræðum fyrir flokkinn eftir það. Hvað sem framangreindu líður á þó enn eftir að koma í ljós hvernig væntanlegir þingmenn þessara flokka kjósa að skipa sér í þingflokka á Evrópuþinginu að afloknum kosningunum og þegar þing kemur saman um miðjan júlí nk. Ekki er hægt að útiloka að þingmenn þeirra nái málefnasamningi sín á milli þótt þeir treysti sér ekki til að koma fram undir sama nafni í kosningabaráttunni.

Fleira dregur úr líkunum á því að bein áhrif flokkanna lengst til hægri muni aukast á nýju kjörtímabili Evrópuþingsins. Er þar helst að nefna þá staðreynd að flokkarnir lengst til hægri sækja tilverugrundvöll sinn að stórum hluta í hugmyndafræði þjóðernishyggju. Samstarf þingmanna ólíkra þjóðríkja sem byggja umboð sitt á slíkum grunni, hver í sínu ríki, getur því verið brokkgengt. Þar við bætist að þingmenn á Evrópuþinginu hafa ólíkt því sem við á um þingmenn á þjóðþingum ekki frumkvæðisrétt til að leggja til breytingar á regluverki ESB, heldur hvílir sá réttur eingöngu hjá framkvæmdastjórn ESB. Segja má að sú staðreynd feli í sér innbyggða hindrun fyrir virku samstarfi þjóðernissinnaðra afla innan Evrópuþingsins nema hreinlega ef þeim myndi takast að mynda meirihluta við kjör á forseta framkvæmdastjórnar sambandsins. Engar líkur verða þó taldar á því að sú valdastaða komi upp úr kjörkössunum jafnvel þótt Marine Le Pen leiðtogi Rassemblement National í Frakklandi svermi mikið fyrir því að Meloni og leiðtogar annarra hófsamari hægri öfgaflokka taki höndum saman um að brjóta upp hefðbundnar flokkablokkir með það fyrir augum að ná undirtökum á Evrópuþinginu að loknum kosningum.

Líklegasta niðurstaða kosninganna er sú að núverandi meiri hluti á þinginu haldi velli, þ.e. meiri hluti EPP, PES (S&D) og ALDE (Renew Europe) + EGP (European Green Party) eftir atvikum. Með þessu er þó ekki sagt að hægri sveiflan muni ekki hafa áhrif á stefnumótun framkvæmdarstjórnar ESB á komandi tímabili.

Hægri sveiflan hefur í raun þegar haft merkjanleg áhrif á stefnumörkun ESB þar sem hægri áherslur hafa fengið aukið vægi á vettvangi ESB á lokamisserum núverandi kjörtímabils, svo sem með aukinni áherslu á samkeppnishæfni, öryggis og varnarmál, almennt harðari stefnu í málefnum farands- og flóttafólks og tilteknu fráhvarfi frá ítrustu áherslum Græna sáttmálans. Hversu mikil þessi áhrif verða þegar upp er staðið á eftir að koma í ljós, sbr. nánari umfjöllun í Vaktinni 17. maí sl. um undirbúning að stefnumörkun ESB til næstu fimm ára.

Framangreind líkindi varpa tilteknu ljósi á ákvörðun EPP og VdL um að taka ekki undir yfirlýsingu PES. Þannig kann sú ákvörðun fremur að vera hugsuð til þess að skapa EPP og VdL sem oddvita sterkari stöðu er kemur að tilnefningu leiðtogaráðs ESB í embætti forseta framkvæmdastjórnar ESB og við myndun málefnasamnings sem legið geti til grundvallar stuðningi meiri hluta þingsins fyrir áframhaldandi setu VdL í forsetastóli, enda þarf hún í leiðtogaráðinu einnig á stuðningi leiðtoga innan ECR að halda. Mögulegt meiri hluta samstarf EPP og ECR með þátttöku miðju- og vinstriflokkana er hins vegar nánast út af borðinu nema aðkoma ECR reynist beinlínis nauðsynleg til að mynda starfhæfan meiri hluta. EPP er hins vegar í lykilstöðu, sem stærsti flokkurinn á þinginu, og verður vart séð að myndun starfhæfs meiri hluta á þinginu sé möguleg án þátttöku flokksins. Staða VdL er því sterk og er lang líklegast er að hún hljóti tilnefningu leiðtogaráðs ESB til áframhaldandi setu sem forseti framkvæmdastjórnar ESB. Ekkert er þó öruggt í pólitík og hefur umtal t.d. orðið hávært að undanförnu um að forseti Frakklands, Emmanuel Macron, vinni að því að Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, hljóti tilnefningu leiðtogaráðsins fremur en VdL. Takist Macron að sannfæra kanslara Þýskalands um þá ráðagerð eru dagar VdL í embætti forseta væntanlega taldir enda þótt óljóst sé hvernig Evrópuþingið og þá einkum flokkur EPP myndi bregðast við slíkri tilnefningu ef á reyndi. Þá ber að hafa í huga að það hefur verið ríkur vilji til þess á Evrópuþinginu að festa oddvitaaðferðina svonefndu (þý. Spitzenkandidaten process eða e. lead candidate process) við val á forseta framkvæmdastjórnar ESB í sessi, enda er aðferðin til þess fallin að styrkja stöðu þingsins í stjórnskipan ESB.

Oddvitar stjórnmálaflokka ESB, þ.e. þeirra sem tilnefnt hafa oddvita, hafa mæst í kappræðum að undanförnu, sjá upptökur af umræðunum hér:

Fundur EES-ráðsins og ráðstefna í tilefni af 30 ára afmæli EES-samningsins

EES-ráðið kom saman til reglulegs fundar í Brussel 28. maí sl. Ráðið er æðsta stofnunin í sameiginlegu stofnanakerfi EES/EFTA-ríkjanna og ESB sem sett var á fót með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Ráðið er skipað utanríkisráðherrum Íslands, Noregs og Liechtenstein og háttsettum fulltrúum ráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB og hefur það meginhlutverk að vera formlegur pólitískur samráðsvettvangur um rekstur EES-samningsins.

Hadja Lahbib, utanríkisráðherra Belgíu, en Belgía fer nú með formennsku í ráðherraráði ESB, stýrði fundinum að þessu sinni ásamt Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, en Ísland fer um þessar mundir með formennsku í fastanefnd EFTA. Auk þeirra sátu fundinn Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, Dominique Hasler, utanríkisráðherra Liechtenstein, og Maroš Šefčovič, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB.

Í ár eru, eins og kunnugt er, 30 ár liðin frá því að EES-samningurinn tók gildi og var þeim tímamótum fagnað sérstaklega á fundinum. Eins og sameiginleg yfirlýsing sem EES/EFTA-ríkin og ESB gáfu út í tengslum við fundinn ber með sér var það samdóma álit fundarmanna að samningurinn hefði reynst farsæll fyrir alla aðila og jafnframt að samningurinn hefði hingað til reynst nægjanlega sveigjanlegur til að mæta þeim fjölmörgu áskorunum sem upp hafa komið á samningstímanum. Innri markaðurinn hefur tekið stakkaskiptum í stærð og margbreytileika á þeim tíma sem liðinn er síðan samningurinn var gerður árið 1994. Af fundinum nú og þeirri afmælisráðstefnu sem efnt var til í framhaldi hans verður ekki annað ráðið en að það sé einbeittur vilji samningsaðila til ganga saman fram veginn og takast á við þær áskoranir sem nú eru uppi og þær sem framtíðin kann að færa okkur. Áskoranir sem nú er við að etja spretta í grunninn af breyttum grundvallarsjónarmiðum og -áherslum sem í æ ríkari mæli eru lögð til grundavallar við stefnumótun og lagasetningu á fjölmörgum sviðum innan ESB, en þessar breyttu áherslur hafa verið kenndar við það sem nefnt hefur verið opið strategískt sjálfræði ESB (e. EU open Strategic Autonomy). Ítarlega hefur verið fjallað um þessar áherslubreytingar í Vaktinni á síðustu misserum, nú síðast í Vaktinni 17. maí sl.

Voru framangreindar áskoranir, eðli málsins samkvæmt, m.a. ræddar á ráðsfundinum og einnig á afmælisráðstefnunni sem nánar er vikið að hér að neðan í samhengi við almenna umræðu um stöðu og framkvæmd EES-samningsins og samkeppnishæfni innri markaðarins og grænu umskiptin.

Í framangreindu samhengi verður æ meira áberandi að í umræðu um þessi mál og í samstarfi EES/EFTA-ríkjanna við ESB skiptir spurningin um hvort stefnumótun eða einstakar ESB-gerðir falli undir eða varði EES-samninginn eða ekki í raun ekki meginmáli heldur fremur hvort viðkomandi gerð eða stefnumótun snerti hagsmuni ríkjanna með þeim hætti að ástæða sé til að leita eftir samstarfi, hvort sem það er undir hatti EES-samningsins eða ekki. Þessar áherslur eru m.a. áberandi í nýrri norskri skýrslu um þróun EES-samningsins, en um þá skýrslu var fjallað í Vaktinni 19. apríl sl. (sbr. einnig til hliðsjónar nýlega birta enska þýðingu á niðurstöðukafla þeirrar skýrslu).

Eins og áður segir var efnt til afmælisráðstefnu í beinu framhaldi af ráðsfundinum og með þátttöku framangreindra ráðherra og varaforseta framkvæmdastjórnar ESB í pallborði. Þar fluttu inngangsávörp Enrico Letta fv. forsætisráðherra Ítalíu og núverandi forstöðumaður Jacques Delors stofnunarinnar í París sem nýverið skilaði leiðtogaráði ESB umbeðinni skýrslu um framtíð innri markaðarins, sbr. umfjöllun um þá skýrslu í Vaktinni 19. apríl sl., og Rosa Balfour hjá Carnegie Europe. Nálgast má upptökur af þeim ávörpum og af umræðum á ráðstefnunni hér.

Sjá einnig sameiginlegt EES/EFTA-álit sem gefið var út í aðdraganda ráðsfundarins og í tilefni 30 ára afmælisins.

Framgangur stefnuáætlunar ESB á sviði heilbrigðismála

Í síðustu viku birti framkvæmdastjórn ESB orðsendingu um stefnuáætlun ESB á sviði heilbrigðismála (e. European Health Union). Um er að ræða samantekt á framgangi og stöðu þeirra aðgerða sem unnið hefur verið að samkvæmt stefnunni. Stefnan var í grunninn mótuð strax í upphafi skipunartímabils núverandi framkvæmdstjórnar ESB fyrir um fimm árum síðan og var metnaðarfull strax í upphafi, þar sem megináherslurnar miðuðu að bættri meðferð og forvörnum gegn krabbameinssjúkdómum, hvernig tryggja mætti sjálfbærni innan ESB er kemur að framboði lyfja á viðráðanlegu verði og hvernig nýta mætti til fulls möguleika stafrænna lausna innan heilbrigðisgeirans. Á hinn bóginn er ljóst að kórónaveirufaraldurinn, sem skall á aðeins nokkrum mánuðum eftir að framkvæmdastjórnin tók til starfa, umbylti þeim áherslum sem lagðar voru á aukið samstarf á heilbrigðissviði innan ESB. Þær áskoranir sem þá risu voru af þeirri stærðargráðu að þær í reynd knúðu aðildarríki ESB til nánara samstarfs á sviði heilbrigðismála. Sú brýna þörf fyrir samstöðu og samstarf sem þar raungerðist hefur leitt af sér nýja vídd í Evrópusamstarfinu á þessu sviði á vettvangi ESB og jafnframt á vettvangi þess samstarfs sem Ísland á við ESB, bæði á vettvangi EES-samningsins og utan hans. Íslands naut eins og kunnugt er mikils ábata af heilbrigðissamstarfi við ESB á tímum faraldursins, meðal annars við bóluefnainnkaup, og hefur síðan verið unnið að því að viðhalda því samstarfi m.a. með því að leita eftir nánari þátttöku í samstarfi ESB á sviði heilbrigðismála og í sameiginlegum viðbrögðum við heilsuvá.

Markmið samstarfs aðildarríkja ESB á sviði heilbrigðismála er að standa vörð um velferð og heilbrigði íbúa sambandsins og stuðla að pólitískum og efnahagslegum stöðugleika innan svæðisins. Þessi framtíðarsýn hefur nú þegar tryggt að aðildarríki ESB eru nú mun betur undirbúin til að bregðast við heilbrigðisvá þvert á landamæri ríkjanna en áður.

Staða helstu verkefna samkvæmt áætluninni eru eftirfarandi:

  • Bætt samhæfing aðgerða til að undirbúa og bregðast við framtíðarógnum.

    Unnið er að innleiðingu regluverks sem styrkir getu ESB og aðildarríkja þess til að takast á við heilsufarsógnir á borð við heimsfaraldur kórónuveiru, sbr.  umfjöllun í Vaktinni 21. október 2022 um heildstæðan aðgerðarpakka framkvæmdastjórnar ESB á sviði neyðar- og viðbragsstjórnunar á krísutímum, þar á meðal um stofnsetningu sérstakrar Neyðar- og viðbragðsskrifstofu ESB, HERA, sem m.a. hefur það hlutverk að stjórna og samþætta viðbrögð aðildarríkja og stýra sameiginlegum innkaupum þegar vá steðjar að. Í Vaktinni 8. desember sl. var síðan greint frá fyrirhugaðri stöðutöku og endurmati á hlutverki HERU að loknum tveggja ára starfstíma hennar.

  • Jafnt aðgengi að lyfjum á viðráðanlegu verði fyrir alla íbúa svæðisins óháð búsetu.

    Tillögur að víðtækri endurskoðun á lyfjalöggjöf ESB voru kynntar fyrir rúmu ári, en þær eru nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB. Í Vaktinni 26. maí 2023 var fjallað um tillögurnar, en meginmarkmið þeirra er að stuðla að auknu framboði og jöfnu aðgengi að öruggum og áhrifaríkum lyfjum á sanngjörnu og viðráðanlegu verði fyrir íbúa óháð búsetu. Auk þess hefur framkvæmdastjórnin allt sl. ár kynnt margvíslegar aðgerðir gegn lyfjaskorti og auknu afhendingaröryggi lyfja bæði til lengri og skemmri tíma, en lyfjaskortur er vaxandi áhyggjuefni innan Evrópu. Fjallað hefur verið um þessar aðgerðir framkvæmdastjórnarinnar m.a. í Vaktinni  27. október sl., 19. janúar sl. og 3. maí sl.

  • Krabbameinsáætlun í forgangi.

    Áætlun framkvæmdastjórnar ESB í baráttunni við krabbamein (Europe´s Beating Cancer Plan), var samþykkt í febrúar 2021. Í henni eru skilgreind tíu verkefni og aðgerðir þeim til stuðnings sem hrinda á í framkvæmd á árunum 2021 – 2025. Í október ár hvert er vakin athygli á krabbameinum og þá sérstakalega forvörnum. Í tilefni af bleikum október á síðastliðnu ári var í Vaktinni 13. október sl. fjallað um fyrirhuguð tilmæli framkvæmdastjórnarinnar gegn húðkrabbameini og aðgerðum hennar til að draga úr notkun ljósabekkja. Samhliða var vakin athygli á áætluninni sjálfri sem spannar feril sjúkdómsins, allt frá forvörnum og meðhöndlun sjúkdómsins til þess að bæta lífsgæði krabbameinssjúklinga og eftirlifenda.

  • Bætt notkun stafrænnar tækni við veitingu heilbrigðisþjónustu.

    Fyrir liggur ákvörðun um stofnun samevrópsks gagnagrunns á heilbrigðissviði (e. European Health Data space) en markmið hans er að tryggja hinum almenna borgara innan ESB betra aðgengi að heilbrigðisþjónustu hvar sem er innan sambandsins. Grunnurinn á einnig að auðvelda rannsóknir og þróun nýrra meðferðarúrræða til hagsbóta fyrir sjúklinga framtíðarinnar. Sjá umfjallanir um málið í Vaktinni 13. maí 2022 og í Vaktinni 19. apríl sl. 

  • Stefnumörkun um bætt geðheilbrigði.

    Þverfagleg stefna í geðheilbrigðismálum var birt fyrir tæpu ári síðan, en frá henni var greint í Vaktinni 9. júní 2023. Í stefnunni er undirstrikað að andleg heilsa skiptir engu minna máli en líkamlegt heilbrigði og lögð á það áhersla að góð geðheilsa verði ekki tryggð með því einu að bæta geðheilbrigðisþjónustu heldur þurfi að samþætta stefnumörkun í geðheilbrigðismálum við stefnu annarra málefnasviða.

  • Aukið öryggi sjúklinga og hvernig tryggja megi framboð m.a. á blóði í meðferðarskyni.

    Gefendur og þiggjendur m.a. á blóði, frumum og vefum úr mönnum njóta nú betri verndar en áður í samræmi við endurskoðaðar reglur um gæði og öryggi blóðs, fruma og vefja sem notað er í lækningaskyni, sbr. nánari umfjöllun í Vaktinni 2. febrúar sl. um nýja endurskoðaða reglugerð á þessu sviði.

  • Notkun hugmyndafræði Einnar Heilsu (e. one health approach) til að takast á við heisluvá.

Með því að viðurkenna tengslin milli heilbrigðis manna, dýra og umhverfis telur ESB sig vera betur í stakk búið til að marka stefnu til að takast á við heisluvá eins og sýklalyfjaónæmi og áhrif loftlagsbreytinga á heilsufar. Fjallað var um baráttuna gegn sýklalyfjaónæmi og tilmæli framkvæmdastjórnar ESB þar að lútandi í Vaktinni 26. maí 2023.

  • Þátttaka Íslands í samstarfi á heilbrigðissviði.

ESB styður myndarlega við fjölda aðgerða sem undir samstarfið falla með fjárframlögum úr sjóðum sem myndaðir hafa verið í tengslum við samstarfsáætlun á sviði heilbrigðismála (EU4Health). Ísland gerðist formlegur þátttakandi í áætluninni á grunni EES-samningsins haustið 2021. Fjallað var um þátttöku Íslands í samstarfinu í Vaktinni 15. mars sl. í tengslum við umfjöllun um styrkveitingu til tveggja stórra verkefna sem Ísland er aðili að og er ætlað að styðja annars vegar við aðgerðir til að sporna við sýklalyfjaónæmi og hins vegar að forvörnum gegn krabbameini og öðrum ósmitbærum sjúkdómum m.a. geðsjúkdómum. Þá tekur Ísland mið af krabbameins- og geðheilbrigðisáætlun ESB og er metið hverju sinni hvort tilefni sé til að óska eftir þátttöku í verkefnum sem þeim tengjast.

Ísland er þannig beinn þátttakandi í hluta samstarfs ESB á heilbrigðissviði í gegnum EES-samninginn. Þrjár samþykktar ESB-gerðir sem styrkja neyðarviðbúnað og -viðbragð þegar vá ógnar lýðheilsu bíða nú upptöku í EES-samninginn og innleiðingar í íslenska löggjöf. Þótt upptöku og innleiðingu sé ólokið er vinna þó þegar hafin á Íslandi að því sem snýr m.a. að samræmdu verklagi við gerð viðbragðsáætlana. Þá vonast Ísland til að geta hafið samningaviðræður við ESB fljótlega um aðkomu að viðbragðsstjórnun ESB á neyðartímum, sem liggur utan EES-samningsins. Slíkum samningi er ætlað að auðvelda og tryggja aðgengi að lyfjum, bóluefnum og öðrum neyðarvörum á krísutímum, sbr. umfjöllun um málið í Vaktinni 8. desember sl. og  21. október 2022.

Gert er ráð fyrir að nýjar reglur um gagnagrunn á heilbrigðissviði verði teknar upp í EES-samninginn og í íslenska löggjöf. Miðstöð rafrænna heilbrigðislausna hjá embætti landlæknis vinnur nú að uppbyggingu á svonefndri landsgátt til að miðla samantekt um heilsufar sjúklinga á milli landa og er ráðgert að sú lausn verði hluti af umræddum gagnagrunni um heilbrigðisupplýsingar þegar fram í sækir. Verkefnið er í tveimur hlutum og fjármagnað af samstarfsáætlun ESB á sviði heilbrigðismála með beinum styrkjum samtals að fjárhæð rúmlega 4 milljónir evra, sbr. nánari umfjöllun í Vaktinni 19. apríl sl.

Samstarf við ESB á sviði lyfjamála á sér langa sögu, enda fellur löggjöf á sviði lyfjamála almennt undir EES-samninginn, sbr. fyrirliggjandi tillögur um endurskoðun lyfjalöggjafar ESB sem áður hefur verið vikið að. Fram komnar tillögur fela m.a. í sér heimild fyrir notkun rafrænna fylgiseðla með lyfjum í stað pappírsseðla. Ísland hefur beitt sér markvisst fyrir því um árabil að notkun slíkra rafrænna seðla yrði heimiluð og er óhætt að segja að Ísland hafi átt ríkt frumkvæði að því að breytingatillaga í þessa veru hefur litið dagsins ljós. Auk augljósra jákvæðra umhverfisáhrifa þá getur slík heimild sérstaklega þjónað hagsmunum lítilla markaðssvæða eins og Íslands og er til þess fallin að lækka kostnað við markaðssetningu og stuðla að auknu aðgengi lyfja. Þá er Lyfjastofnun Íslands virkur þátttakandi í samstarfi evrópskra lyfjastofnana og á vettvangi Lyfjastofnunar Evrópu.

Vegvísir um uppbyggingu sameiginlegs fjármagnsmarkaðar

Á fundi evruhópsins svonefnda, á vettvangi ráðherraráðs ESB, þann 11. mars sl náðist samkomulag um yfirlýsingu um framtíð fjármagnsmarkaða í ESB, en fjallað var um yfirlýsinguna í Vaktinni 15. mars sl. Á fundi hópsins 13. maí sl. var yfirlýsingunni síðan fylgt eftir með sérstakri yfirlýsingu formanns hópsins og útgáfu vegvísis sem ætlað er að marka leiðina fram á við næsta árið og tryggja að vinna við uppbyggingu fjármagnsmarkaðarins hafi forgang í störfum hópsins og innan hvers aðildarríkis fyrir sig en gert er ráð fyrir að fjármálaráðherrar í hverju ríki fyrir sig vinni að málinu í samræmi við vegvísinn.

Áhersla og umræða um mikilvægi þess að hraða uppbyggingu hins sameiginlega fjármagnsmarkaðar hefur verið áberandi á vettvangi ESB að undanförnu og í þeirri kosningabaráttu sem nú er háð vegna kosninga til Evrópuþingsins. Almennt er nú álitið að virkur sameiginlegur fjármagnsmarkaður sé tiltekin forsenda þess að unnt sé að auka samkeppnishæfni ESB, m.a. á sviði grænna og stafrænna umskipta, sbr. m.a. umfjöllun Vaktarinnar 19. apríl sl. um skýrslu Enrico Letta um framtíð innri markaðarins, sbr. einnig umfjöllun hér að neðan í Vaktinni um samræmingu á málsmeðferðarreglum vegna staðgreiðsluskatta.

Samræming á málsmeðferðarreglum við innheimtu staðgreiðsluskatta

Á vettvangi ráðherraráðs ESB er nú unnið að setningu nýrra málsmeðferðarreglna til að koma í veg fyrir tvísköttun við fjárfestingar þvert á landamæri. Samkvæmt núgildandi reglum halda mörg aðildarríki ESB eftir staðgreiðsluskatti af arði og vöxtum sem greidd eru fjárfestum sem búa í öðru ríki. Í slíkum tilvikum þurfa fjárfestar oft á tíðum jafnframt að greiða skatt í heimaríki sínu sem getur leitt til tvísköttunar þegar upp er staðið. Slíkt gerist þrátt fyrir að til staðar séu samningar sem ætlað er að fyrirbyggja tvísköttun, þar sem reglur um endurgreiðslu ofgoldinna skatta eru mismunandi milli aðildarríkjanna og endurgreiðsla skatts frá ríki sem fjárfest var í getur tekið umtalsverðan tíma og falið í sér kostnað eftir atvikum. Þá þykir núgildandi fyrirkomulag á skattheimtu af fjárfestingu yfir landamæri í ESB einnig berskjaldað fyrir skattsvikum og -undanskotum.

Með nýju reglunum stendur til að innleiða nýtt stafrænt auðkenningarkerfi í skattalegum tilgangi fyrir aðila sem hafa aðsetur í ESB, svokallað EU digital tax residence certificate (eTRC). Gert er ráð fyrir að með kerfinu verði skapaður grundvöllur fyrir skjóta og einfalda afgreiðslu undanþágubeiðna frá staðgreiðsluskatti fyrir þá sem fjárfesta yfir landamæri innan ESB.

Aukin samræming á skattheimtu vegna fjárfestinga yfir landamæri er einn þáttur í uppbyggingu sameiginlegs fjármagnsmarkaðar innan ESB en mikil áhersla er nú lögð á það innan ESB að hraða uppbyggingu hans til að bæta samkeppnishæfni ESB gagnvart helstu keppinautum á alþjóðasviðinu, einkum Bandaríkjunum og Kína, sbr. m.a. umfjöllun hér að framan um vegvísi evruhópsins.

Gert er ráð fyrir að nýjar reglur taki gildi 1. janúar 2030.

Reglur ESB um skattheimtu falla ekki undir EES-samninginn en aukin samræming á því sviði innan ESB vekur þó upp spurningar um stöðu þessara mála á Íslandi en aukin samræming og einföldun regluverks innan ESB í skattamálum kann, enda þótt sú mynd sé flókin, með óbeinum hætti að skerða samkeppnishæfni Íslands á innri markaðinum er kemur að því að laða að erlent fjármagn ef ekki er gripið til mótvægisaðgerða.

LULUCF handbók 

Stýring landsnota skiptir sköpum í viðbrögðum við loftslagsbreytingum. LULUCF sem er skammstöfun á heiti reglugerðar ESB nr. 2018/841 (e. Regulations on land use, land use changes and forestry) sem fjallar um skuldbindingar og uppgjörsreglur aðildarríkjanna vegna losunar og bindingar kolefnis vegna landnotkunar. Reglugerðinni er ætlað að styðja við að markmiðum ESB um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2021-2030 verði náð.

Framkvæmdastjórn ESB hefur nú birt handbók um framkvæmd reglugerðarinnar sem ætlað er að styðja við framkvæmdina í aðildarríkjunum.

Samhliða útgáfu handbókarinnar birti framkvæmdastjórn ESB nýja skýrslu þar sem staðan á innleiðingu á LULUCF reglugerðinni er greind. Áformar framkvæmdastjórnin að hefja endurmat á ákvæðum reglugerðarinnar og samræmi hennar við aðrar stefnur á umhverfissviðinu.

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum