Hoppa yfir valmynd
27. september 2024 Brussel-vaktin

Tillaga VdL að nýrri framkvæmdastjórn

Tillaga Ursulu von der Leyen (VdL) að nýrri framkvæmdastjórn og verkaskiptingu innan hennar

Efnisyfirlit umfjöllunar:

  • Inngangur
  • Ferlið framundan – þingleg meðferð
  • Almennt um tillöguna og meginsjónarmið að baki henni
  • Nánar um stöðu og verkefni einstakra framkvæmdastjóra

Inngangur

Þann 17. september sl. kynnti VdL forseti framkvæmdastjórnar ESB, tillögu sína, sem áður hafði verið samþykkt í ráðherraráði ESB, að skipan nýrrar framkvæmdastjórnar ESB til næstu fimm ára.

Eins og kunnugt er hlaut VdL tilnefningu leiðtogaráðs ESB til áframhaldandi setu á stóli forseta 27. júní sl. og var hún staðfest af Evrópuþinginu með ríflegum meiri hluta atkvæða þann 18. júlí, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 26. júlí. Frá þeim tíma hefur VdL unnið að tillögugerð að skipan nýrrar framkvæmdastjórnar og verkaskiptingu innan hennar. Eitt og annað hefur komið upp í því ferli, sbr. umfjöllun um stöðu þeirra mála í Vaktinni 13. september sl. og enn frekari vendingar urðu síðan 16. september sl., einungis degi áður en tillagan var kynnt, þegar Thierry Breton, sem farið hefur með málefni innri markaðarins í fráfarandi framkvæmdastjórn, tilkynnti óvænt um afsögn sína úr framkvæmdastjórninni. Afsögn Breton fól jafnframt í sér, eðli málsins samkvæmt, að hann myndi ekki gefa kost á sér til setu í nýrri framkvæmdastjórn en hann hafði áður verið tilnefndur til áframhaldandi setu af hálfu Emmanuel Macron Frakklandsforseta. Síðar sama dag var tilkynnt um að Frakkland hefði tilnefnt Stéphane Séjourné, fráfarandi utanríkisráðherra, í stað Breton. Brotthvarf Breton er rakið, eins og sjá má af afsagnarbréfi hans til VdL, til afar stirðra samskipta hans og VdL og herma fregnir að VdL hefði beinlínis tjáð Macron að hún treysti sér vart til að vinna með Breton á nýju tímabili. Frakkland stæði því frammi fyrir því vali að geta tilnefnt nýjan einstakling sem gæti fengið stærra og víðtækara hlutverk í framkvæmdastjórninni eða halda sig við Breton sem yrði þá úthlutað viðaminna verkefni.

Framangreindar vendingar sem og þær sem á undan höfðu gengið varpa ljósi á það með hvaða hætti verkstjórnarvald forsetans getur einnig nýst til að hafa áhrif á skipan framkvæmdastjórnarinnar. Því hefur einnig verið beitt til að jafna hlutfall kynjanna innan framkvæmdastjórnarinnar með nokkrum árangri. Brotthvarf Breton er sérstaklega áhugavert í þessu samhengi. Almennt þykir framangreind atburðarás hafa styrkt stöðu VdL og má jafnvel segja að hún hafi við meðferð verkstjórnarvaldsins ljáð því nýtt og áður óþekkt vægi.

Ferlið framundan – þingleg meðferð

Tillaga VdL gengur nú til meðferðar og afgreiðslu á Evrópuþinginu í samræmi við 17. gr. sáttmála um ESB og 129. gr. þingskaparreglna Evrópuþingins og VII. viðauka við þær. Samþykki þingsins, bæði fyrir skipun einstakra framkvæmdastjóra og framkvæmdastjórnarinnar í heild sinni, er nauðsynleg til að tillagan geti náð fram að ganga. Málsmeðferðin framundan er í grófum dráttum eftirfarandi:

  • Hlutverk laganefndar þingsins (e. Committee on Legal Affairs). Tillagan gengur til að byrja með í heild sinni til laganefndar sem hefur það hlutverk að yfirfara hagsmunaskráningu þeirra einstaklinga sem tilnefndir eru og staðfesta almennt hæfi þeirra. Jákvæð niðurstaða laganefndar er forsenda áframhaldandi málsmeðferðar gagnvart einstökum framkvæmdastjóraefnum.
  • Skriflegar spurningar og svör. Þegar niðurstaða laganefndar liggur fyrir er framkvæmdastjóraefnum sendar skriflegar spurningar af hálfu þingsins og verða spurningarnar birtar á vef þingsins þegar þar að kemur sem og svör framkvæmdastjóraefnanna.
  • Yfirheyrslur í þingnefndum. Framkvæmastjóraefnin mæta síðan fyrir viðeigandi þingnefnd, eina eða fleiri, í samræmi við þá málaflokka sem til stendur að fela þeim, þar sem þeim gefst kostur á að kynna sýn sína til málefnanna og svara spurningum þingmanna. Er gert ráð fyrir að þessir fundir geti staðið í allt að fjóra klukkutíma og verður unnt að fylgjast með fundunum á vef þingsins.
  • Hæfnismat og samþykki þingnefnda. Þingnefndir, eða réttara sagt tilteknar samræmingarnefndir innan hverrar þingnefndar þar sem allir þingflokkar eiga fulltrúa, taka síðan saman greinargerð (e. evaluation letter)  hæfni framkvæmdastjóraefna þar sem m.a. er litið til afstöðu þeirra til Evrópusamvinnu, samskiptahæfni og þekkingu þeirra á þeim málefnum sem um ræðir. Til að framkvæmdastjóraefni teljist samþykkt af þingnefnd þurfa fulltrúar í samræmingarnefnd sem hafa umboð a.m.k. 2/3 hluta nefndarmanna sem tilheyra þingflokkum að samþykkja viðkomandi. Náist tilskilið samþykki er hæfnismatið sent forsætisnefnd þingsins sem getur þá lýst því yfir að hæfnismati sé lokið. Náist ekki slíkt samþykki getur þingnefnd ákveðið að kalla eftir viðbótarupplýsingum og boðað til framhaldsyfirheyrslufunda. Náist ekki tilskilið samþykki í samræmingarnefnd þrátt fyrir framhaldsmeðferð ber formanni nefndar að bera það upp í atkvæðagreiðslu í nefndinni hvort framkvæmdastjóraefni telst samþykkt eða hafnað. Ef framkvæmdastjóraefni er hafnað af þingnefnd, eða hlutaðeigandi þingnefndum sameiginlega, hefur í framkvæmd hefur verið litið svo á að þar með þurfi að endurtilnefna í stöðuna og endurtaka ferlið.
  • Umfjöllun á þingfundi og atkvæðagreiðsla. Þegar jákvætt hæfnismat varðandi öll framkvæmdastjóraefnin liggur fyrir er málið tekið fyrir á þingfundi þar sem kjörinn forseti kynnir nýja framkvæmdastjórn og vinnuáætlun hennar. Í framhaldi fara fram umræður og loks atkvæðagreiðsla um hvort ný framkvæmdastjórn teljist samþykkt eða ekki. Með hliðsjón af því ferli sem á undan er gengið og að framan er rakið verður það að teljast afskaplega fjarlægur möguleiki að framkvæmdastjórn sé hafnað í slíkri atkvæðagreiðslu en ef svo færi þyrfti að endurtaka ferlið.
  • Formleg skipan nýrrar framkvæmdastjórnar. Þegar þinglegri meðferð er lokið með samþykki þingsins kemur málið á ný til kasta leiðtogaráðs ESB sem tekur endanlega ákvörðun, með auknum meiri hluta atkvæða, um skipan hinnar nýju framkvæmdastjórnar.

Sjá hér nánari reifun á málsmeðferð Evrópuþingsins þar sem jafnframt er fjallað um álitaefni sem upp hafa komið í meðferð þingsins á fyrri árum og vikið að þeim tilvikum þar sem framkvæmdastjóraefnum hefur verið hafnað í meðförum þingsins. Þannig var t.d. þremur framkvæmdastjórnaefnum hafnað í meðferð þingsins árið 2019, tveimur af laganefnd þingsins þar sem hagsmunaskráning þótti ófullnægjandi og einum að undangengnu faglegu hæfnismat af hálfu þingnefndar en þar átti í hlut tilnefndur fulltrúi Frakklands og var áðurnefndur Thierry Breton þá tilnefndur í stað hins fyrra.

Almennt um tillöguna og meginsjónarmið að baki henni

Í áðurnefndri kynningu VdL á tillögu sinni kemur fram að hugsunin að baki skipulagi nýrrar framkvæmdastjórnar og verkaskiptingu innan hennar byggist á þremur megin þáttum sem skipulaginu er ætlað að hlúa að sérstaklega, þ.e. hagsæld, öryggi og lýðræði innan ESB þar sem meginmarkmiðið um aukna samkeppnishæfni samhliða grænum og stafrænum umskiptum liggur eins og rauður þráður um skipulagið í heild sinni. Framangreindar megináherslur rýma vel, eins og til er ætlast, við meginstefin í stefnuáætlun leiðtogaráðs ESB (e. strategic agenda) sem samþykkt var í júlí sl., sbr. umfjöllun um þá áætlun í Vaktinni 26. júlí sl., þar sem meginmarkmiðin eru sett fram undir merkjum:

  • frelsis og lýðræðis (e. A free and democratic Europe)
  • styrks og öryggis (e. A strong and secure Europe)
  • hagsældar og samkeppnishæfni (e. A prosperous and competitive Europe)

Þá endurspegla áherslur í tillögunni í heild sinni og í erindisbréfum einstakra framkvæmdastjóra vitaskuld einnig vandlega stefnuáherslur VdL eins og hún kynnti þær fyrir Evrópuþinginu í aðdraganda að staðfestingu á tilnefningu hennar í embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar en einnig var fjallað um þær stefnuáherslur VdL í framangreindri Brussel-vakt 26. júlí sl.

Tillaga VdL er frábrugðin því skipulagi sem verið hefur í gildi síðastliðin fimm ár að því leyti að flokkun varaforseta í annars vegar Executive Vice-Presidents og hins vegar Vice-Presidents er aflögð. Þess í stað er lagt til að allir sex varaforsetarnir í nýrri stjórn muni, auk þess að gegna hlutverki varaforseta á tilteknum málefnasviðum, jafnframt gegna stöðu framkvæmdastjóra á tilteknum málefnasviðum og fara með yfirstjórn viðeigandi stjórnardeilda (e. Directorate-General) innan framkvæmdastjórnarinnar, að hluta eða öllu leyti, og bera embættisheitið Executive Vice-President, sbr. nánari umfjöllun um stöðu hvers og eins varaforseta í skipuriti nýrrar framkvæmdastjórnar hér að neðan. Er breytingin hugsuð til að jafna stöðu varaforsetanna innbyrðis og jafnframt til að auka samstarf og samhæfingu á milli þeirra og framkvæmdastjórnarinnar í heild sinni og þar með á milli ólíkra stjórnardeilda innan hennar og vinna þannig gegn svonefndri sílómyndun sem nokkuð hefur þótt bera á í núverandi skipulagi. Við skoðun á tillögunni er ljóst að skörun á málefnasviðum og stjórnarmálefnum á milli framkvæmdastjóra er nokkur og mikil á köflum. Skörun málefna í þessum mæli verður þó ekki rakin til mistaka við tillögugerðina heldur er það beinlínis hugmyndin að hún knýi varaforseta og aðra framkvæmdastjóra til samráðs og samhæfingar þvert á skipuritið undir yfirstjórn VdL. Hvort þau markmið náist á eftir að koma í ljós en ágallar skipulags af þessu tagi geta einnig reynst umtalsverðir ef brestir koma fram í samstarfi.

Í tillögu sinni hefur VdL, eins og fjallað var um í Vaktinni 13. september sl., reynt til hins ýtrasta að tryggja sem jöfnust kynjahlutföll í nýrri framkvæmdastjórn. Þótt útlitið í þeim efnum hafi ekki verið álitlegt um tíma er niðurstaðan þó sú að hlutfall kvenna samkvæmt tillögunni er nú 40%. Á hinn bóginn er hlutfall kvenna hærra eða 60% í hópi varaforsetanna, þ.e. fjórar konur á móti tveimur karlmönnum. Með því móti er líkast til leitast við að jafna ásýnd nýrrar framkvæmdastjórnar eins og kostur er. Landfræðileg sjónarmið liggja einnig að baki tillögum um varaforsetaefni. Tveir af sex varaforsetum koma t.a.m. frá nýfrjálsu ríkjunum og með forsetanum sjálfum eiga fjögur stærstu ríkin öll fulltrúa í þessu efsta lagi framkvæmdastjórnarinnar og einn varaforsetanna kemur af Norðurlöndum.

Í eftirfarandi töflu* er að finna yfirlit yfir efni tillögu VdL um skipan tilnefndra einstaklinga í embætti og verkskiptingu á milli þeirra, sbr. einnig yfirlitsmynd frá framkvæmdastjórninni þar að neðan:

Aðildarríki

Tilnefndur

Staða og ábyrgðarsvið

Núverandi staða**

Spánn

Teresa Ribera

Varaforseti á sviði grænna, réttlátra og samkeppnishæfari umskipta. Einnig framkvæmdastjóri samkeppnismála.

Varaforsætisráðherra

Finnland

Henna Virkkunen

Varaforseti á sviði tæknimála og sjálfstæðis ESB á því sviði, öryggismála og lýðræðismála. Einnig framkvæmdastjóri stafrænna málefna og þróunar á sviði hátækni.

Þingmaður á Evrópuþinginu

Frakkland

Stéphane Séjourné

Varaforseti á sviði hagsældar og stefnumótunar á sviði iðnaðar. Einnig framkvæmdastjóri í málefnum iðnaðarins og lítilla og meðalstórra fyrirtækja og innri markaðsmála almennt.

Utanríkisráðherra

Eistland

Kaja Kallas

Varaforseti og utanríkismálastjóri

Fv. forsætisráðherra

Rúmenía

Roxana Minzatu

Varaforseti á sviði samfélagslegra verkefna, færni vinnuafls og viðbúnaðar og viðbragðsstjórnunar. Einnig framkvæmdastjóri á sviði færni og menntunar, vinnumarkaðsmála og félagslegra réttinda.

Þingmaður á Evrópuþinginu

Ítalía

Raffaele Fitto

Varaforseti á sviði samheldnismála og umbóta. Einnig framkvæmdastjóri samheldnismála og byggðaþróunar.

Evrópumálaráðherra

Slóvakía

Maroš Šefčovič

Framkvæmdastjóri viðskipta- og efnahagsöryggismála, þ.m.t. tollamála. Einnig framkvæmdastjóri samhæfingar- og samskipta á milli stofnana ESB.

Varaforseti framkvæmdastjórnar ESB

Lettland

Valdis Dombrovskis

Framkvæmdastjóri efnahagsmála. Einnig framkvæmdastjóri innleiðingar og einföldunar regluverks.

Framkvæmdastjóri efnahagsmála í framkvæmdastjórn ESB

Króatía

Dubravka Šuica

Framkvæmdastjóri samstarfs og samskipta við nágrannaríki ESB sem liggja að Miðjarðarhafinu.

Framkvæmdastjóri lýðræðismála í framkvæmdastjórn ESB

Ungverjaland

Olivér Várhelyi

Framkvæmdastjóri heilbrigðismála og dýravelferðarmála.

Framkvæmdastjóri stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB

Holland

Wopke Hoekstra

Framkvæmdastjóri loftslagsmála, kolefnishlutleysis og sjálfbærs hagvaxtar.

Framkvæmdastjóri loftslagsmála í framkvæmdastjórn ESB

Litáen

Andrius Kubilius

Framkvæmdastjóri varnarmála og geimmála.

Þingmaður á Evrópuþinginu

Slóvenía

Marta Kos

Framkvæmdastjóri stækkunarmála.

Fv. sendiherra gagnvart Þýskalandi og Sviss

Tékkland

Jozef Síkela

Framkvæmdastjóri samstarfsverkefna við þriðju ríki.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Kýpur

Costas Kadis

Framkvæmdastjóri sjávarútvegsmála og málefna hafsins.

Deildarforseti við Frederick háskólann

Portúgal

Maria Luís Albuquerque

Framkvæmdastjóri fjármálaþjónustu og uppbyggingu sameiginlegs fjármagnsmarkaðar.

Ráðsmaður í eftirlitsráði Morgan Stanley Europe

Belgía

Hadja Lahbib

Framkvæmdastjóri viðbúnaðar, viðbragðsstjórnunar og almannavarna. Einnig framkvæmdastjóri jafnréttismála.

Utanríkisráðherra

Austurríki

Magnus Brunner

Framkvæmdastjóri innri öryggismála, öryggi landamæra og málefna flótta- og farandsfólks.

Fjármálaráðherra

Svíþjóð

Jessika Roswall

Framkvæmdastjóri umhverfismála, vatnsverndarmála og hringrásarhagkerfisins.

Evrópumálaráðherra

Pólland

Piotr Serafin

Framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrar.

Sendiherra Póllands gagnvart ESB

Danmörk

Dan Jørgensen

Framkvæmdastjóri orkumála og húsnæðismála.

Þróunar- og loftslagsráðherra

Búlgaría

Ekaterina

Zaharieva

 

Framkvæmdastjóri rannsókna og nýsköpunar.

Þingmaður

 

Írland

Michael McGrath

Framkvæmdastjóri lýðræðismála, dóms- og réttarríkismála.

Fjármálaráðherra

Grikkland

Apostolos Tzitzikostas

Framkvæmdastjóri samgöngu- og ferðamála.

Ríkisstjóri Mið-Makedóníu

Lúxemborg

Christophe Hansen

Framkvæmdastjóri landbúnaðar- og matvælamála.

Þingmaður á Evrópuþinginu

Malta

Glenn Micallef

Framkvæmdastjóri kynslóðajafnréttis, menningarmála og æskulýðs- og íþróttamála.

Ráðgjafi forsætisráðherra í ESB málum

 

*Í framangreindri töflu eru framkvæmdastjóraefnin talin upp í sömu röð og gert er í tilkynningu VdL um málið, sjá hér.

**Vísað er til núverandi stöðu í heimaríkinu, nema annað sé tekið fram.

 

 

 

Sjá einnig eftirfarandi skipurit nýrrar framkvæmdastjórnar eins og fréttamiðillinn Politico hefur kosið að stilla því upp í samræmi við fyrirliggjandi tillögu VdL:

Sérstök erindisbréf eða öllu fremur drög að erindisbréfum, því ekki er útilokað að einhverjar breytingar verði á verkaskiptingu í því ferli sem framundan er, fyrir hvern tilnefndan framkvæmdastjóra um sig hafa þegar verið birt. Í inngangsköflum erindisbréfanna, sem eru efnislega samhljóða í öllum bréfunum, er farið almennum orðum um markmið og stefnu nýrrar framkvæmdastjórnar þar sem áhersla er lögð á áðurnefnda þrjá þætti, þ.e. hagsæld, öryggi og lýðræði þar sem aukin samkeppnishæfni samhliða grænum og stafrænum umskiptum, sem meginmarkmið er undirstrikað. Þar er einnig lögð rík áhersla á samhæfingu, samstarf og jafnræði á milli allra framkvæmdastjóra, auk þess sem fjallað er um almennar starfsskyldur og siðareglur. Sömuleiðis er lagt fyrir framkvæmdastjórana að styrka tengsl sín við aðrar helstu stofnanir ESB og þá einkum við Evrópuþingið og hlutaðeigandi þingnefndir. Þá er boðað átak í samráði við almenning og hagaðila og sér í lagi við ungt fólk.

Framkvæmdastjórum, tilnefndum, er uppálagt, hverjum á sínu málefnasviði, að sýna frumkvæði í stuðningi við ríki sem sótt hafa um aðild að sambandinu og jafnframt að leggja sitt af mörkum er kemur að innra umbótastarfi sem talið er nauðsynlegt að ráðast í áður en til stækkunar kemur (e. pre-enlargement reforms and policy reviews).

Þá eru framkvæmdastjórar m.a. beðnir um að horfa sérstaklega til fjögurra nýlegra og væntanlegra skýrslna í störfum sínum. Í fyrsta lagi til skýrslu Mario Draghi um samkeppnishæfni ESB til framtíðar, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 13. september sl., um þá skýrslu. Í öðru lagi til væntanlegrar skýrslu Sauli Niinistö, fyrrverandi forseta Finnlands, um hvernig megi styrka viðbúnað og getu ESB í varnar- og almannaöryggismálum. Í þriðja lagi til nýrrar skýrslu um framtíð landbúnaðar í ESB og í fjórða lagi til skýrslu Enrico Letta um framtíð innri markaðarins, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 19. apríl sl. um þá skýrslu.

Nánar um stöðu og verkefni einstakra framkvæmdastjóra

Teresa Ribera, varaforseti á sviði grænna, réttlátra og samkeppnishæfari umskipta. Einnig framkvæmdastjóri samkeppnismála.

Málefnasvið Ribera sem varaforseta er víðtækt að efni og snertir að auki kjarnaþætti í þeim megin stefnuáherslum sem teiknast hafa upp fyrir nýja framkvæmdastjórn, sbr. umfjöllun hér að framan. Fjórir aðrir framkvæmdastjórar munu starfa undir henni með beinum hætti í nýju skipuriti þ.e. Wopke Hoekstra, Jessika Roswall, Dan Jørgensen og Olivér Várhelyi. Málefnasvið hennar sem varaforseta krefst þó mun víðara samráðs og samhæfingar þvert á skipuritið eins og raunar á við um alla varaforsetana en í mismiklum mæli þó. Almennt hefur verið litið svo á að Ribera sé fremst meðal jafningja í nýju skipulagi er kemur að valdahlutföllum og áhrifamætti.

Auk varaforsetahlutverksins mun Ribera gegna hlutverki framkvæmdastjóra samkeppnismála og sem slík fara með yfirstjórn stjórnardeildar samkeppnismála í framkvæmdastjórninni (e. Directorate-General (DG) for Competition).

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Ribera verði falið að vinna eftir.

Henna Virkkunen varaforseti á sviði tæknimála og sjálfstæðis ESB á því sviði, öryggismála og lýðræðismála. Einnig framkvæmdastjóri stafrænna málefna og þróunar á sviði hátækni.

Málefnasvið Virkkunen sem varaforseta er víðtækt að efni og snertir að auki, líkt og hjá Ribera, kjarnaþætti í megin stefnuáherslum nýrrar framkvæmdastjórnar og þá einkum á sviði öryggismála, nýsköpunar og stafrænna umskipa. Fjórir aðrir framkvæmdastjórar munu starfa undir henni með beinum hætti í nýju skipuriti þ.e. Andrius Kubilius, Ekaterina Zaharieva, Magnus Brunner og Michael McGrath en málefnasvið hennar sem varaforseta krefst þó víðtækara samráðs og samhæfingar þvert á skipurit nýrrar framkvæmdastjórnar.

Auk varaforsetahlutverksins mun Virkkunen gegna hlutverki framkvæmdastjóra á sviði stafrænna málefna og hátæknimála og sem slík fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeilda í framkvæmdastjórninni þ.e. DG for Communications Networks, Content and Technology og DG for Digital Services.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Virkkunen verði falið að vinna eftir.

Stéphane Séjourné varaforseti á sviði hagsældar og stefnumótunar á sviði iðnaðar. Einnig framkvæmdastjóri í málefnum iðnaðarins og lítilla og meðalstórra fyrirtækja og innri markaðsmála almennt.

Málefnasvið Séjourné sem varaforseta er víðtækt að efni og nær yfir kjarnaþættina í efnahagsmálum ESB og ekki síst í efnahagsöryggismálum ESB og hagvörnum en þau málefni eru á meðal þeirra stærstu sem ESB glímir við um þessar mundir. Undir málefnasvið Séjourné sem varaforseta falla einnig málefni fjármálamarkaða og uppbygging hins sameiginlega fjármagnsmarkaðar sem að mörgum er talin meginforsendan þess að ESB nái að halda í við önnur helstu efnahagsveldi er kemur að samkeppnishæfni til framtíðar. Auk þessa er honum ætlað að leiða vinnu við heildarstefnumörkun á sviði iðnaðarstarfsemi sem jafnframt mun skipta sköpum er kemur að samkeppnishæfni ESB til framtíðar. Fjórir aðrir framkvæmdastjórar munu starfa undir honum með beinum hætti í nýju skipuriti þ.e. Maroš Šefčovič, Valdis Dombrovskis, Maria Luís Albuquerque og Ekaterina Zaharieva, að hluta, en málefnasvið hans sem varaforseta krefst þó víðara samráðs og samhæfingar þvert á skipurit nýrrar framkvæmdastjórnar.

Auk varaforsetahlutverksins mun Séjourné gegna hlutverki framkvæmdastjóra á sviði iðnaðar og lítilla og meðalstórra fyrirtækja og á sviði innri markaðsmála almennt og sem slíkur fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni þ.e. DG for Internal Market, Industry, Entrepreneurship and SMEs.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Séjourné verði falið að vinna eftir.

Kaja Kallas varaforseti og utanríkismálastjóri.

Kallas nýtur tiltekinnar sérstöðu sem varaforseti og utanríkismálastjóri ESB (e. High Representative) sem endurspeglast í því að leiðtogaráð ESB útnefnir hana sérstaklega í stöðu utanríkismálastjóra en Kallas var útnefnd af ráðinu á sama tíma og VdL var tilnefnd til embættis forseta, sbr. umfjöllun í Vaktinni 28. júní sl. Það breytir þó ekki því að hún þarf samþykki þingsins sem varaforseti framkvæmdastjórnarinnar. Fjórir aðrir framkvæmdastjórar munu starfa undir henni með beinum hætti í nýju skipuriti að hluta eða öllu leyti, þ.e. Jozef Síkela, Marta Kos, Hadja Lahbib og Dubravka Šuica, en málefnasvið hennar sem varaforseta krefst þó víðtækara samráðs og samhæfingar þvert á skipurit nýrrar framkvæmdastjórnar.

Kallas mun sem utanríkismálastjóri fara með yfirstjórn utanríkisþjónustu ESB (e. European External Action Service – EEAS).

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Kallas verði falið að vinna eftir.

Roxana Minzatu varaforseti á sviði samfélagslegra verkefna, færni vinnuafls og viðbúnaðar og viðbragðsstjórnunar. Einnig framkvæmdastjóri á sviði færni og menntunar, vinnumarkaðsmála og félagslegra réttinda.

Málefnasvið Minzatu sem varaforseta er víðtækt að efni eins og annarra varaforseta og tekur yfir alla meginþætti félags-, vinnumarkaðs-, heilbrigðis-, mennta- og menningarmála og lýðfræðilegra mála á vettvangi ESB. Fjórir aðrir framkvæmdastjórar munu starfa undir henni með beinum hætti í nýju skipuriti þ.e. Hadja Lahbib, Glenn Micallef, Dubravka Šuica og Olivér Várhelyi, að hluta, en málefnasvið hennar sem varaforseta krefst þó víðtækara samráðs og samhæfingar þvert á skipurit nýrrar framkvæmdastjórnar.

Auk varaforsetahlutverksins mun Minzatu gegna hlutverki framkvæmdastjóra á sviði færni og menntunar, vinnumarkaðsmála og félagslegra réttinda og sem slík fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni þ.e. DG for Education, Youth, Sport, and Culture (að hluta) og DG for Employment, Social Affairs, and Inclusion.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Minzatu verði falið að vinna eftir.

Raffaele Fitto varaforseti á sviði samheldnismála og umbóta. Einnig framkvæmdastjóri samheldnisstefnu ESB og byggðaþróunar.

Málefnasvið Fitto sem varaforseta tekur til samheldnisverkefna ESB (e. cohesion) en þar undir falla m.a. sameiginleg landbúnaðar- og sjávarútvegsstefna ESB og byggðaþróunarverkefni auk þess sem samgöngumál og ferðaþjónusta eru felld undir málefnasvið hans sem varaforseta. Þrír aðrir framkvæmdastjórar munu starfa undir honum með beinum hætti í nýju skipuriti, þ.e. Costas Kadis, Apostolos Tzitzikostas og Christophe Hansen en málefnasvið hans sem varaforseta krefst þó víðtækara samráðs og samhæfingar þvert á skipurit nýrrar framkvæmdastjórnar.

Auk varaforsetahlutverksins mun Fitto gegna hlutverki framkvæmdastjóra samheldnisstefnu og byggðaþróunar og sem slíkur fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni þ.e. DG Regional and Urban Policy

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Fitto verði falið að vinna eftir.

Maroš Šefčovič framkvæmdastjóri utanríkisviðskipta- og efnahagsöryggismála, þ.m.t. tollamála. Einnig framkvæmdastjóri samhæfingar og samskipta á milli stofnana ESB.

Lagt er til að Šefčovič, sem einnig á sæti í núverandi framkvæmdastjórn, fái tvíþætt hlutverki í nýrri stjórn.

Annars vegar er lagt til að hann fái stöðu framkvæmdastjóra utanríkisviðskipta- og efnahagsöryggismála, þ.m.t. tollamála, og mun hann sem slíkur fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeilda í framkvæmdastjórninni þ.e. DG Trade and Economic Security og DG Taxation and Customs Union (deilt með Hoekstra). Við framkvæmd þessara starfa mun hann heyra undir Séjourné varaforseta.

Hins vegar er lagt til að hann fái stöðu framkvæmdastjóra samhæfingar- og samskipta á milli stofnana ESB mun Šefčovič hins vegar heyra beint undir VdL.

Šefčovič hefur í núverandi framkvæmdastjórn borið ábyrgð á rekstri EES-samningsins og samskiptum við EES/EFTA-ríkin. Fyrir liggur að svo verði áfram. 

Þá mun útgáfuskrifstofa ESB (e. EU Publications Office) falla undir ábyrgðarsvið hans.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Šefčovič verði falið að vinna eftir.

Valdis Dombrovskis framkvæmdastjóri efnahagsmála. Einnig framkvæmdastjóri innleiðingar og einföldunar á regluverki.

Dombrovskis á, líkt og Šefčovič, sæti í núverandi framkvæmdastjórn, og er jafnframt lagt til að hann, líkt og Šefčovič, fái tvíþætt hlutverk í nýrri stjórn.

Annars vegar er lagt til að hann fái stöðu framkvæmdastjóra efnahagsmála og mun hann sem slíkur fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Economic and Financial Affairs auk þess sem hann mun bera ábyrgð á starfsemi Hagstofu ESB (e. Eurostat). Við framkvæmd þeirra starfa mun hann heyra undir Séjourné varaforseta.

Hins vegar er lagt til að hann fái stöðu framkvæmdastjóra innleiðingar og einföldunar á regluverki og mun Dombrovskis í því hlutverki heyra beint undir VdL.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Dombrovskis verði falið að vinna eftir.

Dubravka Šuica framkvæmdastjóri samstarfs og samskipta við nágrannaríki ESB sem liggja að Miðjarðarhafinu.

Staða framkvæmdastjóra í málefnum Miðjarðarhafsins hefur ekki áður verið til vettvangi framkvæmdastjórnarinnar og stendur til að stofna nýja stjórnardeild innan stjórnarinnar til að vinna að þessum málum, þ.e. DG of the Mediterranean og mun Šuica fara með yfirstjórn hennar. Við framkvæmd starfa sinna mun hún heyra undir Kallas utanríkismálastjóra. 

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Šuica verði falið að vinna eftir.

Olivér Várhelyi framkvæmdastjóri heilbrigðismála og dýravelferðarmála.

Lagt er til að Várhelyi, sem einnig á sæti í núverandi framkvæmdastjórn, verði falin staða framkvæmdastjóra heilbirgðismála og dýravelferðarmála. Sem slíkur mun hann fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Health and Food Safety auk þess sem hann mun fara með yfirstjórn nýrrar Neyðar- og viðbragðsskrifstofu ESB á sviði heilbrigðismála (e. Health Emergency Preparedness and Response Authority - HERA). Við framkvæmd starfa sinna mun hann heyra undir Ribera varaforseta sem og undir Minzatu varaforseta er kemur að viðbragðsstjórnun vegna heilsuvár. 

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Várhelyi verði falið að vinna eftir.

Wopke Hoekstra framkvæmdastjóri loftslagsmála, kolefnishlutleysis og sjálfbærs hagvaxtar

Lagt er til að Hoekstra, sem einnig á sæti í núverandi framkvæmdastjórn, verði falin staða framkvæmdastjóra loftslagsmála, kolefnishlutleysis og sjálfbærs hagvaxtar. Sem slíkur mun hann fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeilda í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Climate Action og DG for Taxation and Customs Union ( deilt með Šefčovič). Við framkvæmd starfa sinna mun hann heyra undir Ribera varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Hoekstra verði falið að vinna eftir.

Andrius Kubilius framkvæmdastjóri varnarmála og geimmála.

Lagt er til að Kubilius, sem einnig á sæti í núverandi framkvæmdastjórn, verði falinn staða framkvæmdastjóra varnarmála og geimmála sem er ný staða í framkvæmdastjórninni. Sem slíkur mun hann fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Defence Industry and Space. Við framkvæmd starfa sinna mun hann heyra undir Virkkunen varaforseta, auk þess sem tekið er fram að hann skuli vinna náið með Kallas utanríkismálastjóra.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Kubilius verði falið að vinna eftir.

Marta Kos framkvæmdastjóri stækkunarmála.

Lagt er til að Kos verði falin staða framkvæmdastjóra stækkunarmála. Sem slík mun hún fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Enlargement and Eastern Neighbourhood. Við framkvæmd starfa sinna mun hún heyra undir Kallas utanríkismálastjóra annars vegar og hins vegar undir Fitto varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Kos verði falið að vinna eftir.

Jozef Síkela framkvæmdastjóri samstarfsverkefna við þriðju ríki.

Lagt er til að Síkela verði falin staða framkvæmdastjóra samtarfsverkefna við þriðju ríki. Sem slíkur mun hann fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for International Partnerships. Við framkvæmd starfa sinna mun hann heyra undir Kallas utanríkismálastjóra.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Síkela verði falið að vinna eftir.

Costas Kadis framkvæmdastjóri sjávarútvegsmála og málefna hafsins.

Lagt er til að Kadis verði falin staða framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála og málefna hafsins. Sem slíkur mun hann fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Maritime Affairs and Fisheries. Við framkvæmd starfa sinna mun hann heyra undir Fitto varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Kadis verði falið að vinna eftir.

Maria Luís Albuquerque framkvæmdastjóri fjármálaþjónustu og uppbyggingu sameiginlegs fjármagnsmarkaðar.

Lagt er til að Albuquerque verði falin staða framkvæmdastjóra fjármálaþjónustu og uppbyggingu sameiginlegs fjármagnsmarkaðar. Sem slík mun hún fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Financial Stability, Financial Services and Capital Markets Union. Við framkvæmd starfa sinna mun hún heyra undir Séjourné varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Albuquerque verði falið að vinna eftir.

Hadja Lahbib framkvæmdastjóri viðbúnaðar og almannavarna. Einnig framkvæmdastjóri jafnréttismála.

Lagt er til að Lahbib verði falið tvíþætt hlutverk, annars vegar staða framkvæmdastjóra almannavarna og hins vegar staða framkvæmdastjóra jafnréttismála. Í krafti fyrrnefndu stöðunnar mun hún fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for European Civil Protection and Humanitarian Aid Operations og heyra annars vegar undir Minzatu varaforseta annars vegar og hins vegar undir Kallas utanríkisráðherra er kemur að mannúðaraðstoð til þriðju ríkja. Við framkvæmd starfa á sviði jafnréttismála mun Lahbib njóta stuðnings Taskforce on Equality og heyra undir Minzatu varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Lahbib verði falið að vinna eftir.

Magnus Brunner framkvæmdastjóri innri öryggismála, öryggi landamæra og málefna flótta- og farandsfólks.

Lagt er til að Brunner verði falin staða framkvæmdastjóra innri öryggismála, öryggi landamæra og málefna flótta- og farandsfólks. Sem slíkur mun hann fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Migration and Home Affairs. Við framkvæmd starfa sinna mun hann heyra undir Virkkunen varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Brunner verði falið að vinna eftir.

Jessika Roswall framkvæmdastjóri umhverfismála, vatnsverndarmála og hringrásarhagkerfisins.

Lagt er til að Roswall verði falin staða framkvæmdastjóra umhverfismála, vatnsverndarmála og hringrásarhagkerfisins. Sem slík mun hún fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Environment. Við framkvæmd starfa sinna mun hún heyra undir Ribera varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Roswall verði falið að vinna eftir.

Piotr Serafin framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrar.

Lagt er til að Serafin verði falin staða framkvæmdastjóra fjármála- og rekstrar. Sem slíkur mun hann fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeilda í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Budget, DG for Human Resources and Security, DG for Translation, DG for Interpretation auk þess sem fleiri skrifstofur á sviði fjármála og rekstrar munu heyra undir hann. Við framkvæmd starfa sinna mun hann heyra beint undir VdL.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Serafin verði falið að vinna eftir.

Dan Jørgensen framkvæmdastjóri orkumála og húsnæðismála.

Lagt er til að Jørgensen verði falin staða framkvæmdastjóra orkumála og húsnæðismála. Sem slíkur mun hann fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Energy auk þess hann mun njóta aðstoðar nýs aðgerðahóps innan framkvæmdastjórnarinnar á sviði húsnæðismála (e. New taskforce on housing). Við framkvæmd starfa sinna mun hann heyra undir Ribera varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Jørgensen verði falið að vinna eftir.

Ekaterina Zaharieva framkvæmdastjóri rannsókna, nýsköpunar og frumkvöldastarfsemi.

Lagt er til að Zaharieva verði falin staða framkvæmdastjóra rannsókna, nýsköpunar og frumkvöldastarfsemi. Sem slík mun hún fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Innovation and Research og Joint Research Centre auk þess sem hún mun njóta aðstoðar sérstaks aðgerðarhóps á sviði nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi (e. Taskforce on startups). Við framkvæmd starfa sinna mun hún heyra undir Séjourné varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Zaharieva verði falið að vinna eftir.

Michael McGrath framkvæmdastjóri lýðræðismála, dóms- og réttarríkismála.

Lagt er til að McGrath verði falin staða framkvæmdastjóra lýðræðismála, dóms- og réttarríkismála. Sem slíkur mun hann fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Justice and Consumers. Við framkvæmd starfa sinna mun hann heyra undir Virkkunen varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að McGrath verði falið að vinna eftir.

Apostolos Tzitzikostas framkvæmdastjóri samgöngu- og ferðamála.

Lagt er til að Tzitzikostas verði falin staða framkvæmdastjóra samgöngu- og ferðamála. Sem slíkur mun hann fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Mobility and Transport. Við framkvæmd starfa sinna mun hann heyra undir Fitto varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Tzitzikostas verði falið að vinna eftir.

Christophe Hansen framkvæmdastjóri landbúnaðar- og matvælamála.

Lagt er til að Hansen verði falin staða framkvæmdastjóra landbúnaðar- og matvælamála. Sem slíkur mun hann fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Agriculture and Rural Development. Við framkvæmd starfa sinna mun hann heyra undir Fitto varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Hansen verði falið að vinna eftir.

Glenn Micallef framkvæmdastjóri kynslóðajafnréttis, menningarmála og æskulýðs- og íþróttamála.

Lagt er til að Micallef verði falin staða framkvæmdastjóra kynslóðajafnréttis, menningarmála og æskulýðs- og íþróttamála. Sem slíkur mun hann fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Education, Culture, Youth and Sport (deilt með Mînzatu). Við framkvæmd starfa sinna mun hann heyra undir Mînzatu varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem lagt er til að Micallef verði falið að vinna eftir.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta