Hoppa yfir valmynd

EES-samningurinn í aldarfjórðung

EES-samningurinn er einn mikilvægasti samningur sem Ísland hefur gert á lýðveldistímanum. Í krafti hans tekur Ísland ásamt hinum EES EFTA-ríkjunum, Noregi og Liechtenstein, þátt í innri markaði Evrópusambandsins (ESB).

Með samningnum er einnig lagður grundvöllur að samstarfi við ESB almennt, ekki einungis á sviði viðskipta, heldur einnig umhverfismála, rannsókna, menntunar, vinnuréttar, neytendaverndar og menningar. Samráð við ESB um utanríkismál byggjast einnig á EES.

Íslensk fyrirtæki geta starfað nánast hindrunarlaust á innri markaðnum, íslenskir fræði- og vísindamenn hafa tækifæri til samstarfs við aðila innan EES og geta Íslendingar starfað og stundað nám á sömu kjörum og heimamenn. Þátttaka Íslands í Schengen samstarfinu er svo nátengd aðildinni að EES-samningnum.

Tækifæri til náms og starfa

EES-samningurinn hefur auðveldað Íslendingum að stunda nám og starfa í Evrópu. Reglur EES um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum og vottorðum um menntun og hæfi auðveldar Íslendingum að starfa við sitt fag hvar sem er innan EES. Á sama hátt fá íslensk fyrirtæki notið starfskrafta og sérfræðiþekkingar starfsfólks frá EES-ríkjunum sem á undanförnum árum hefur t.a.m. gert ferðaþjónustunni kleift að vaxa eins og raun ber vitni.

Einfaldara að ferðast - tryggður!

Fjöldi Íslendinga eru handhafar evrópska sjúkratryggingakortsins sem tryggir Íslendingum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu á sömu kjörum og heimafólki í öllum ríkjum EES og Sviss. Þeirra á meðal er fjöldi Íslendinga sem kjósa að dvelja langdvölum í Evrópu á efri árum og fjölskyldur sem verja sumarleyfinu í Evrópu.

Ferðalög innan EES eru jafnan einföld og hefur afnám landamæraeftirlits innan Schengen-svæðisins greitt enn frekar fyrir frjálsri för fólks frá 2001.

Flugfrelsi EES-samningsins hefur verið lykilþáttur fyrir vöxt og viðgang í ferðaþjónustu. Hann gerir flugfélögum frjálst að fljúga milli einstakra aðildarríkja uppfylli þau samræmdar kröfur á EES-svæðinu til rekstraröryggis, trygginga, öryggismála og fleira.

Kjölfestumarkaður íslenskra útflytjenda

EES-samningurinn hefur tryggir greiðan aðgang íslenskra útflytjenda að evrópska markaðnum. Auk tollfrelsis á flestar vörur gilda sömu reglur um vörur sem framleiddar eru á Íslandi og í öðrum löndum EES. Þess vegna er hægt að flytja flestar íslenskar vörur óhindrað um EES-svæðið. Í alþjóðlegum viðskiptum geta tæknilegar viðskiptahindranir reynst meiri hindrun en tollar og gjöld en samræmt regluverk stuðlar enn frekar að því að Evrópska efnahagssvæðið sé kjölfestumarkaður fyrir íslenska útflytjendur. Að sama skapi geta íslenskir neytendur treyst því að evrópskar vörur standist samevrópskar gæða- og öryggiskröfur.

EES-samningurinn er ekki tollabandalag og geta EFTA-ríkin innan EES samið við önnur ríki um fríverslun. Ísland hefur gert samninga við 43 önnur ríki og landsvæði utan ESB, bæði í gegnum EFTA og tvíhliða.

Þekking og vísindi í þágu samfélagsins

Ísland tekur þátt í fjölmörgum samstarfsáætlunum ESB um rannsóknir og nýsköpun, menntamál, menningu og æskulýðsmál. Ávinningurinn er ekki aðeins af fjárhagslegum toga heldur einnig í þekkingarauka og stórauknu alþjóðlegu samstarfi sem hefur opnað íslenskum vísindamönnum aðgang að þekkingu og aðstöðu sem var ekki fyrir hendi hér á landi og þannig stuðlað að aukinni nýsköpun. Af samstarfsáætlunum sem Ísland tekur þátt í má nefna Horizon 2020 (rannsóknir og nýsköpun), Erasmus+ (mennta-, æskulýðs- og íþróttamál) og Creative Europe (kvikmyndir og menning). 

Bættur hagur neytenda

Aukið vöruúrval, aukin samkeppni á neytendamarkaði og aukin neytendavernd sem EES-samningurinn hefur haft í för með sér hefur stórbætt hag íslenskra neytenda. Þar má nefna reglur um réttindi pakkaferðalanga og sannleiksgildi auglýsinga – nú verða seljendur að geta staðið við auglýsingar. CE-öryggismerkingar tryggja að vörur standist ströngustu gæða- og öryggiskröfur.

Þá þekkja margir reglur sem kveða á um gagnamagn og símtöl innan EES-svæðisins en samkvæmt þeim greiða íslenskir ferðalangar það sama fyrir símtöl og gagnamagn á ferðalögum sínum innan EES eins og þeir væru staddir í sínum heimabæ.

Við öndum léttar - í orðsins fyllstu merkingu

Íslensk umhverfislöggjöf byggir að miklu leyti á EES-reglum og tryggir að sömu kröfur séu gerðar hér á landi og í öðrum ríkjum EES varðandi umhverfismat, förgun á úrgangi, vatnsvernd, eftirlit með mengandi starfsemi og loftslagsmál. Í gegnum EES-samninginn er Ísland aðili að sameiginlegri stefnumótun ESB í umhverfismálum, fyrir utan náttúruvernd. Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda (svokallað ETS-kerfi) er helsta stjórntæki Evrópu til að ná samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Flugrekendum og rekstraraðilum á EES-svæðinu er úthlutað losunarheimildum og geta þá átt viðskipti með þær. Þannig eru sett takmörk á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda sem falla undir kerfið.

Réttindi og öryggi launafólks

EES-samningurinn felur í sér bætt réttindi launafólks varðandi jafnrétti kynjanna og afnám mismununar á vinnumarkaði og hópuppsagnir svo eitthvað sé nefnt. Þá eru CE-merkingar á vélum, tækjum og persónuhlífum og reglur um hollustu og öryggi á vinnustað til þess fallnar að vernda starfsmenn gegn mengun og slysum.

Sérsniðinn að íslenskum hagsmunum

Meginefni EES-samningsins hefur haldist að mestu óbreytt frá upphafi þótt regluverkið aðlagist kröfum nútímasamfélags. Af 34 köflum ESB löggjafarinnar eru 10 kaflar að fullu hluti af EES-samningnum og 13 kaflar standa alfarið fyrir utan. Samningurinn er sérsniðinn að hagsmunum EFTA-ríkjanna þriggja innan EES og hefur Ísland fengið fjölmargar undanþágur frá regluverki EES í ljósi séríslenskra aðstæðna.

Tæpt er á helstu samstarfssviðum að ofan en Ísland á hvorki hlut að sameiginlegum stofnunum né stefnu ESB um sjávarútveg, landbúnað- og dreifbýlismál skattamál, gjaldmiðilssamstarf, byggðastefnu, réttarvörslu, dóms- og innanríkismál, tollabandalag, utanríkistengsl, öryggis- og varnarmál, fjárhagslegt eftirlit og framlagsmál. Um það bil 16% af íslenskri löggjöf á rætur að rekja til EES.

Villtu lesa meira um EES-samninginn? Nánari upplýsingar má finna á upplýsingaveitu EES.is.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta