Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið - almennt
EES-samningurinn er eitt víðtækasta alþjóðasamstarf sem Ísland tekur þátt í. Segja má að EES-samningurinn sé brú milli Íslands og annarra EFTA-ríkja innan EES á innri markaði Evrópusambandsins (ESB). Þátttaka Íslands í innri markaðinum gerir ekki aðeins íslenskum fyrirtækjum kleift að stunda starfsemi sína hindrunarlaust hvarvetna á Evrópska efnahagssvæðinu heldur geta Íslendingar einnig aflað sér menntunar og starfað í öllum ríkjum EES. Þá opnar samningurinn möguleika fyrir íslenska vísinda- og fræðimenn til að taka þátt í rannsóknarstarfsemi með samstarfsaðilum hvaðanæva af Evrópska efnahagssvæðinu svo aðeins séu nefnd fáein dæmi.
Með EES-samningnum er komið á fót sameiginlegu efnahagssvæði sem byggist á frjálsum vöruflutningum, frjálsri för launafólks, frjálsri þjónustustarfsemi og staðfesturétti, ásamt frjálsum fjármagnshreyfingum (fjórþætta frelsið). EES-samningurinn byggist á svonefndu einsleitnimarkmiði en í því felst að hvarvetna innan EES eiga að gilda sömu reglur á þeim sviðum sem samningurinn nær yfir. Af þessu leiðir að þeim ríkjum sem eiga aðild að EES-samningnum ber að innleiða í löggjöf sína þær reglur sem samþykktar hafa verið á vettvangi EES-samstarfsins.
Utanríkisráðuneytið fer með samræmingu á stefnu íslenskra stjórnvalda gagnvart EES-samstarfinu og hefur umsjón með samskiptum við stofnanir ESB og EFTA. Fylgst er vel með þróun mála innan ESB, einkum á sviðum sem eru mikilvæg fyrir íslenska hagsmuni. Utanríkisráðuneytið sér einnig um að samræma afstöðu Íslands við upptöku löggjafar ESB í EES-samninginn í samráði við önnur ráðuneyti og aðstoðar einstaklinga og fyrirtæki við að njóta þeirra réttinda sem EES-samningurinn tryggir þeim. Þá sinnir utanríkisráðuneytið samskiptum við önnur ráðuneyti, Alþingi og hagsmunaaðila um málefni sem tengjast EES eða samskiptum Íslands við ESB. Utanríkisráðuneytið og forsætisráðuneytið eru málsvarar samningsins innan stjórnarráðsins.
Viðskiptaskrifstofa utanríkisráðuneytisins og sendiráð Íslands í Brussel gæta hagsmuna íslenskra borgara, fyrirtækja og stofnana gagnvart EES-samningnum í samráði við Alþingi, önnur ráðuneyti sem og stofnanir og samtök ólíkra hagsmunaaðila. Hagsmunagæslan fer fram í nánu samráði við þau EFTA-ríki sem eiga aðild að EES-samningnum.
Upptaka og innleiðing gerða
Við framkvæmd EES-samningsins hér á landi skiptir upptaka gerða og innleiðing þeirra í landsrétt miklu máli. ESB samþykkir á hverju ári fjölda gerða sem varða málefni innri markaðarins. Til þess að EFTA-ríkin geti verið fullgildir þátttakendur í innri markaðinum þarf að taka þessar gerðir upp í EES-samninginn. Það leiðir af eðli EES-samningsins að óumflýjanlegt er að alltaf sé til staðar ákveðinn fjöldi gerða, sem ESB hefur samþykkt en bíða þess að verða teknar upp í EES-samninginn, enda samþykkja EFTA-ríkin innan EES ekki sjálfkrafa gerðir ESB. Þegar gerðir hafa verið teknar upp í EES-samninginn þurfa EFTA-ríkin innan EES að innleiða þær í löggjöf sína. Eftirlitsstofnun EFTA framkvæmir tvisvar á ári mat sem felur í sér könnun og samanburð á því hvernig EFTA-ríkjunum innan EES hefur gengið að innleiða tilskipanir í landsrétt. Markmiðið síðustu ár hefur verið að ná hlutfalli óinnleiddra tilskipana niður fyrir 1%.
Eins og áður greinir felst í EES-samstarfinu að sömu reglur eigi að gilda á þeim sviðum sem samningurinn tekur til. Ef langan tíma tekur að taka slíka löggjöf ESB upp í EES-samninginn eða ef miklar tafir verða á innleiðingu EES-reglna í íslenska löggjöf er afleiðingin sú að ekki er hægt að ganga að því sem vísu að sömu reglur gildi á Íslandi og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Slíkt grefur undan meginmarkmiði EES-samningsins um að skapa einsleitt Evrópskt efnahagssvæði og skekkir samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs.
Hagsmunagæsla
Utanríkisþjónustan sinnir margháttaðri hagsmunagæslu innan EES-samstarfsins. Í því felst að koma að sjónarmiðum Íslands við mótun löggjafar innan ESB, fylgjast með umfjöllun um málefni sem varða íslenska hagsmuni innan stofnana ESB og koma sjónarmiðum Íslands á framfæri eftir þörfum, semja um nauðsynlegar aðlaganir við upptöku gerða í EES-samninginn og leysa úr hugsanlegum vandkvæðum sem íslensk fyrirtæki eða ríkisborgarar kunna að standa frammi fyrir á Evrópska efnahagssvæðinu. Lykillinn að árangursríkri hagsmunagæslu við mótun löggjafar innan EES er að koma sjónarmiðum Íslands að snemma í ferlinu.
Samkvæmt EES-samningnum hefur Ísland margvísleg tækifæri til að hafa áhrif á mótun nýrra EES-reglna. Nýta þarf þessi tækifæri. Íslenskum sérfræðingum býðst þátttaka í sérfræðingahópum sem framkvæmdastjórnin hefur samráð við um mótun löggjafar. Ísland á sæti (án atkvæðisréttar) í stjórnarnefndum þeirra undirstofnana framkvæmdastjórnar ESB sem EFTA-ríkin innan EES eru þátttakendur í og þá er íslenskum ráðherrum oft boðin þátttaka í óformlegum ráðherrafundum ESB. Mikilvægt er að öll slík tækifæri séu notuð til þess að koma sjónarmiðum Íslands á framfæri.
Forsenda þess að nýta megi til fulls þau tækifæri sem aðildin að EES-samningnum skapar íslensku atvinnulífi og íslenskum ríkisborgurum er að íslensk stjórnvöld sinni vel hagsmunagæslu í EES-samstarfinu og standist þær kröfur sem af EES-samningnum leiðir. Í skýrslu stýrihóps um framkvæmd EES-samningsins undir forystu forsætisráðuneytisins frá desember 2015 komu fram margvíslegar tillögur í þá veru að efla og auka skilvirkni í þátttöku Íslands í EES-samstarfinu og meta hvernig hagsmunagæslu af Íslands hálfu verði best háttað. Meðal tillagna stýrihópsins sem þegar hafa komið til framkvæmda má nefna eftirfarandi:
- Ríkisstjórnin samþykkir árlega, að höfðu samráði við Alþingi og hagsmunaðila, lista yfir þau mál í lagasetningarferli hjá ESB sem metin eru forgangsmál út frá íslenskum hagsmunum. Sérstaklega er fylgst með þessum málum, sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda komið á framfæri og reynt að hafa áhrif eftir megni og tilefni.
- Komið hefur verið á fót miðlægum EES-gagnagrunni sem hefur að geyma upplýsingar um ferli EES-gerða frá upphafi til enda og er notaður sem hópvinnukerfi sérfræðinga sem sinna EES-málum innan stjórnsýslunnar.
Í skýrslu utanríkisráðuneytisins, Gengið til góðs: skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins, er einnig fjallað um mikilvægi hagsmunagæslu gagnvart ESB. Í henni er að finna tillögu um að ríkisstjórnin leggi til við Alþingi sérstakar fjárveitingar á fjárlögum m.a. til að tryggja að öll ráðuneyti eigi fulltrúa í sendiráðinu í Brussel auk skrifstofu Alþingis ef fyrir því er vilji. Þessi sérstaka fjárveiting hefur orðið til þess að sendiráðið er betur í stakk búið til þess að sinna hagsmunagæslu Íslands á vettvangi EES-samningsins — bæði hvað varðar mál sem eru metin sem forgangsmál og á sviðum þar sem Ísland býr yfir sérstakri reynslu og þekkingu.
Ríkisstjórnin hefur undanfarin ár samþykkt og birt forgangslista fyrir hagsmunagæslu í EES-samstarfinu. Hér á vefnum má nálgast yfirlit yfir forgangslista og hagsmunagæslu Íslands. Á forgangslista eru skilgreind brýnustu hagsmunamál Íslands á meðal þeirra málefna sem eru í lagasetningarferli innan ESB hverju sinni. Forgangslistinn er unninn í samvinnu allra ráðuneyta og að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis og hagsmunaaðila. Þar má finna lýsingu á hverju máli, hvar það er statt og hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar svo hagsmuna Íslands sé best gætt. Hverjum forgangslista skal, við lok gildistímabils hans, fylgja mat um eftirfylgni og árangur fyrir síðasta forgangslista.
Utanríkisráðuneytið hefur á undanförnum árum lagt aukna áherslu á upplýsingastreymi til sérfræðinga í stjórnsýslunni og hagsmunaaðila um hvaða Evrópulöggjöf sé í farvatninu og ekki síst til Alþingis skv. 2. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála og aukna aðkomu þess að hagsmunagæslunni. Samráð við Noreg og önnur EFTA-ríki sem nú þegar á sér stað innan vinnuhópa EFTA og undirnefnda sameiginlegu EES-nefndarinnar hefur þá einnig verið aukið.
EES-gagnagrunnurinn gefur tækifæri til aukins samráðs innan stjórnarráðsins. Sérfræðingar innan stjórnsýslunnar eru með aðgang að gagnagrunninum og viðeigandi þjálfun þegar kemur að notkun hans. Þar geta þeir unnið sameiginlega greiningarvinnu á stefnumótandi skjölum um mótun löggjafar í ESB. Hluti af EES-gagnagrunninum er opinn almenningi.
Auk slíkra stefnumótandi skjala gefur grunnurinn heildaryfirsýn yfir ferli EES-gerða allt frá mótunarstigi til upptöku í EES-samninginn, innleiðingar í íslenska löggjöf og hugsanlegrar málsmeðferðar sem þeim tengjast hjá Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum. Ekki síst þarf að vinna með skipulegum hætti að því að koma sjónarmiðum Íslands á framfæri í umræðu um stefnumótun ESB, innan stofnana þess og gagnvart aðildarríkjunum, og nýta möguleika sem Ísland hefur til að taka virkan þátt í mótun löggjafar ESB. Því markmiði verður vitaskuld ekki náð öðruvísi en með því að koma á framfæri afstöðu Íslands við stofnanir og aðildarríki ESB og afla þeim fylgis.
Með þetta að markmiði og til að nýta sem best fáliðaða stjórnsýslu verður unnið að því með hagsmunaaðilum að skilgreina og forgangsraða málum eftir mikilvægi. Auk þess býður utanríkisráðuneytið hagsmunaaðilum og almennum borgurum að hafa samband ef einhver mál er varða EES brenna á þeim með því að smella á „sendu okkur póst“-hnappinn neðar. Þá vill utanríkisráðuneytið vekja athygli á ýmsum gagnlegum vefslóðum sem tengjast EES-samstarfinu, m.a. geta Íslendingar tekið þátt í opnu samráði framkvæmdastjórnar ESB með því að velja viðeigandi hlekk.
Viltu vita meira um EES-samninginn eða koma þínum sjónarmiðum á framfæri?
Sjá einnig:
Gagnlegir hlekkir
Gagnlegir hlekkir
Gagnlegir hlekkir
EES UPPLÝSINGAVEITAN
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.