Hoppa yfir valmynd
11. október 2024 Brussel-vaktin

Þverlægar gerðir og áskoranir sem þeim fylgja

Að þessu sinni er fjallað um:

  • skýrslu átakshóps EFTA um þverlægar gerðir
  • skýrslu um framtíð landbúnaðar í ESB
  • viðræður við ESB um samstarf á sviði heilbrigðismála
  • fyrsta samning HERA-Invest
  • endurskoðun tilmæla um reyklaus svæði
  • jöfnunartolla á kínverska rafbíla
  • aukinn stuðning ESB við Úkraínu og Moldóvu
  • skipulag þinglegrar meðferðar tillögu VdL um nýja framkvæmdastjórn

 

Skýrsla átakshóps EFTA um þverlægar gerðir

Efnisyfirlit umfjöllunar:

  • Inngangur
  • Breyttur veruleiki – breytt sýn
  • Áskoranir í tengslum við þverlægar gerðir frá sjónarhóli EES-samningsins
  • Heildstætt mat – þrír meginþættir sem hafa þarf augun á
  • Áhrif og mögulegar afleiðingar þess ef ákveðið er taka þverlæga gerð ekki upp í EES-samninginn
  • Strategískar spurningar
  • Ályktanir og ráðleggingar

Inngangur

Eins og fjallað hefur verið um í Vaktinni á umliðnum misserum við margvísleg tilefni, sbr. m.a. umfjöllun Vaktarinnar 24. nóvember 2023 um strategískt sjálfræði ESB og þróun innri markaðarins, þá hefur það færst mjög í vöxt á vettvangi ESB að einstakar löggjafartillögur og gerðir mæli ekki aðeins fyrir um málefni innri markaðarins í hefðbundnum skilningi, heldur taki til þátta eða stefnumörkunar sem fellur utan við gildissvið EES-samningsins, t.d. varðandi:

  • viðskiptastefnu ESB gagnvart þriðju ríkjum,
  • iðnaðarstefnu ESB,
  • ráðstafanir sem snúa að efnahagslegu öryggi ESB og hagvörnum
  • eða ráðstafanir til að ná markmiðum í tengslum við græn og stafræn umskipti.

Framangreind löggjafarþróun á vettvangi ESB endurspeglar breytta sýn ESB á innri markaðinn sem mótast hefur samhliða þeim breytingum sem hafa átt sér stað í alþjóðasamskiptum  og -viðskiptum á umliðunum árum og þeim krísum sem riðið hafa yfir, fyrst með kórónuveirufaraldrinum og í framhaldi af honum með árásarstríði Rússlands gagnvart Úkraínu. Þessar krísur þykja hafa varpað ljósi á veikleika ESB á ýmsum sviðum svo sem á sviði orkumála, heilbrigðismála, öryggis- og varnarmála, samkeppnismála og síðast en ekki síst á sviði efnahagsöryggismála. Jafnframt er ESB í vaxandi mæli að bregðast við breyttri stöðu í alþjóðamálum, þar sem helstu efnahagsveldi heims hafa í vaxandi mæli gripið til verndarstefnu í utanríkisviðskiptum og virðing fyrir alþjóðalögum og grundvallarreglum alþjóðasamfélagsins hefur farið þverrandi. Til að bregðast við hefur ESB í sífellt auknum mæli kosið að nýta innri markaðinn, afl hans og styrk, sem tæki til að vinna gegn framangreindum veikleikum.

Tillögur af þessu tagi fela jafnan í sér áskoranir er kemur að upptöku þeirra í EES-samninginn, enda þótt meginefni þeirra kunni að falla skýrlega undir gildissvið hans.

Til að leggja mat á stöðuna og hvernig megi bregðast við henni skipaði fastanefnd EFTA í júlí 2023 sérstakan átakshóp um þverlægar ESB-gerðir (e. Task Force on Files with Distinctive Horizontal Dimensions). Hópurinn hefur nú skilað skýrslu til fastanefndarinnar undir yfirskriftinni Cross-sectoral EU initiatives: The way ahead for the EEA.

Er það ein af megin niðurstöðum skýrslunnar að hætta sé á að þverlægar gerðir geti leitt til þess EES/EFTA-ríkin verði í einhverjum tilvikum talin til þriðju ríkja í löggjöf ESB sem varðar innri markaðinn. Það fylgir sú hætta að til verði tveggja þrepa innri markaður þar sem EES/EFTA-ríkin standi skör lægra og standi jafnvel frammi fyrir nýjum viðskiptahindrunum með tilheyrandi afleiðingum fyrir samkeppnishæfni atvinnulífs í ríkjunum.

Hér á eftir eru helstu efnisatriði skýrslunnar rakin í stuttu máli.

Breyttur veruleiki – breytt sýn

Í fyrstu tveimur köflum skýrslunnar er rakið í stuttu máli hvernig hugmyndafræði og sýn ESB á innri markaðinn hefur þróast og breyst á allra síðustu árum. Í þeim efnum markaði Versalayfirlýsing leiðtogaráðs ESB (e. Versailles Declaration) sem samþykkt var á fundi ráðsins 10. og 11. mars 2022, einungis nokkrum dögum eftir að Rússar réðust á Úkraínu, hvað skýrust skil, sbr. einnig Granadayfirlýsinguna (e. Granada declaration) sem samþykkt var á fundi leiðtogaráðsins 6. október 2023, sbr. umfjöllun um þessar yfirlýsingar í Vaktinni 13. október 2023. Frá útgáfu Versalayfirlýsingarinnar hafa fjölmargar löggjafartillögur og gerðir litið dagsins ljós sem endurspegla hina breyttu sýn.

Sumar þessara löggjafartillagna byggja á svonefndri framkvæmdaáætlun Græna sáttmálans (e. Green Deal Industrial Plan for the Net-Zero Age) sem framkvæmdastjórn ESB birti 1. febrúar 2023, svo sem ný reglugerð um kolefnishlutlausan tækniiðnað (e. Net-Zero Industry Act), sbr. umfjöllum um þá gerð í Vaktinni 16. febrúar sl., og reglugerð um mikilvæg hráefni (e. Critical Raw Materials Act), sbr. umfjöllun um þá gerð í Vaktinni 24. nóvember sl. o.fl., sbr. einnig umfjöllun Vaktarinnar 24. mars 2023 um framfylgd þeirrar áætlunar. Ýmsar aðrar löggjafartillögur og gerðir fjalla einnig í þennan flokk, svo sem ný löggjöf um hálfleiðara (e. The European Chips Act), sbr. umfjöllun Vaktarinnar um þá tillögu 21. apríl 2023, gerð um auknar valdheimildir framkvæmdastjórnar ESB til ráðstafana á innri markaði í neyðaraðstæðum (e. Single Market Emergency Instrument - SMEI), sbr. umfjöllun um þá gerð í Vaktinni 23. september 2022, bann við að setja vörur sem framleiddar eru með nauðungarvinnu á markað í ESB (e. Forced labour products ban), sbr. umfjöllun um þá gerð í Vaktinni 23. september 2022, tillögur um heildarendurskoðun á tollkerfi bandalagsins (e. EU Customs Reform), sbr. umfjöllun um þá gerð í Vaktinni 9. júní 2023, gerð um kolefnisjöfnunargjald við landamæri (e. Carbon Border Adjustment Mechanism, CBAM), sbr. umfjöllun um þá gerð í Vaktinni 23. júní 2023, og þannig mætti áfram telja, sbr. viðauka II í skýrslunni þar sem finna má upptalningu á öllum gerðum ESB sem fela í sér eða eru taldar fela í sér þverlæga reglusetningu af því tagi sem hér um ræðir.

Breytt sýn ESB á innri markaðinn endurspeglast ekki einungis í einstökum gerðum heldur einnig í heildarstefnumótun ESB á ýmsum grundvallarsviðum. Framkvæmdaáætlun Græna sáttmálans, sem áður var nefnd, er ein birtingarmynd þessa, en einnig má nefna, líkt og gert er í skýrslunni, nýja efnahagsöryggisáætlun ESB, sbr. umfjöllun um þá áætlun í Vaktinni 23. júní 2023, sbr. og umfjöllun Vaktarinnar 2. febrúar sl. um framfylgd þeirrar áætlunar, og nýja stefnumótun ESB á sviði varnarmála, sbr. umfjöllun um þá stefnumótun í Vaktinni 15. mars sl.

Ef litið er fram á við þá má jafnframt ráða af nýrri stefnuáætlun leiðtogaráðs ESB og stefnuáherslum forseta framkvæmdastjórnar ESB, Ursulu von der Leyen (VdL), sbr. einnig skýrslu Draghi annars vegar og skýrslu Letta hins vegar, að þverlæg stefnumörkun og lagasetning á vettvangi ESB muni síst minnka á komandi stefnumótunartímabili heldur þvert á móti, sbr. umfjöllun um þessi stefnuskjöl í Vaktinni 28. júní sl. og í Vaktinni 26. júlí sl., sbr. einnig umfjöllun um Draghi-skýrsluna í Vaktinni 13. september sl. og um Letta-skýrsluna í Vaktinni 19. apríl sl.

Áskoranir í tengslum við þverlægar gerðir frá sjónarhóli EES-samningsins

Í skýrslunni er þverlægum gerðum (og þverlægri stefnumótun) og áskorunum sem af þeim rísa við rekstur og framkvæmd EES-samningsins gróflega skipt í fjóra efnisflokka þ.e.:

  1. Gerðir sem fela í sér ákvæði um viðskipti við þriðju ríki.
  2. Gerðir sem fela í sér ákvæði um framkvæmd iðnaðarstefnu ESB.
  3. Gerðir sem fela í sér ákvæði sem lúta að öryggis- og varnarmálum ESB.
  4. Gerðir sem fela í sér ákvæði um strategíska beitingu og notkun á samstarfsáætlunum og samkeppnissjóðum ESB.

Nánar um framangreinda efnisflokka:

1) EES-samningurinn tekur ekki til viðskipta við þriðju ríki eða sameiginlegrar stefnumótunar á því sviði né heldur til annarrar reglusetningar almennt um samskipti við þriðju ríki. Sökum þess að ESB leitast í sífellt auknum mæli eftir því að ná fram markmiðum sínum í viðskipum við þriðju ríki með reglusetningu og beitingu innri markaðarins verður sífellt erfiðara að greina skýrlega á milli reglusetningar um innri markaðinn annars vegar og hins vegar reglusetningar sem miðar að því að hrinda viðskiptastefnumótun ESB í framkvæmd.

2) EES-samningurinn felur ekki sér sameiginlega iðnaðarstefnu milli samningsaðila. Áskoranir geta því komið upp þegar markmið gerðar er jöfnum höndum að framfylgja slíkri stefnu og auka viðnámsþol innri markaðarins.

3) EES-samningurinn tekur ekki til sameiginlegrar utanríkisstefnu ESB eða sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu ESB og hafa gerðir sem varða þessi málefni í samræmi við það almennt verið taldar falla utan gildissviðs samningsins. Á þessu hafa verið tilteknar undantekningar þegar upptaka gerða í samninginn hefur verið talin nauðsynleg til tryggja einkaréttarlega stöðu einstaklinga og fyrirtækja á innri markaðinum. Nú er hins vegar fyrirséð að ný varnarmálastefna ESB og framfylgd hennar geti mögulega skapað nýjar áskoranir á þessu sviði.

4) EES-samningurinn tryggir rétt EES/EFTA-ríkjanna til þátttöku í flestum samstarfsáætlunum ESB og hefur Ísland nýtt sér þann rétt í ríkum mæli, sbr. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 23. júní sl. um nýjan tækniþróunarvettvang ESB. Strategísk beiting og notkun á samstarfsáætlunum og samkeppnissjóðum ESB í þágu markmiða ESB á sviðum sem falla utan gildissviðs EES-samningsins getur því raskað hagsmunum og þátttökugrundvelli EES/EFTA-ríkjanna í þessum áætlunum.

Það getur síðan flækt málin enn frekar þegar þverlægar gerðir hafa að geyma tilvísanir til hvor annarra.

Sjá nánari umfjöllun um framangreinda efnisflokka í 3. kafla skýrslunnar.

Heildstætt mat – þrír meginþættir sem hafa þarf augun á

Í skýrslunni er sérstaklega undirstrikað að við mat á einstökum þverlægum gerðum sé mikilvægt að til staðar sé breiður skilningur á þeirri stefnumótun sem er undirliggjandi og markmiðasetningu sem henni fylgir. Ella sé hætt við því að mikilvæg atriði misfarist og að nálgun við rekstur samningsins verði brotakennd. Skýrsluhöfundar skilgreinda þrjá meginþætti í stefnumótun ESB sem hafa þarf augun á sérstaklega, þ.e.:

  1. Ný nálgun ESB á öryggi aðfangakeðja á innri markaðinum.
  2. Breyttur skilningur ESB á efnahagslegu öryggi.
  3. Aukið hlutverk tollyfirvalda við verndun innri markaðarins.

Sjá nánari umfjöllun um þessa þrjá meginþætti í 4. kafla skýrslunnar.

Áhrif og mögulegar afleiðingar þess ef ákveðið er taka þverlæga gerð ekki upp í EES-samninginn

Í skýrslunni eru skilgreind áhrif og mögulegar áhættur sem geta falist í því fyrir EES/EFTA-ríkin ef komist er að þeirri niðurstöðu í einstökum tilvikum að þverlæg gerð skuli ekki tekin upp í EES-samninginn. Skilgreindir áhættuþættir eru eftirfarandi:

  • Að EES/EFTA-ríkin verði skilgreind og meðhöndluð sem þriðju ríki á innri markaðnum á viðkomandi sviði.
  • Að gerðar verði meiri kröfur til vöruútflutnings frá EES/EFTA-ríkjunum til ESB en almennt gildir um frjálsa vöruflutninga á innri markaðinum.
  • Að EES/EFTA-ríkin njóti ekki ráðstafana sem ESB gerir til að tryggja öryggi aðfangakeðja á innri markaðnum með tilheyrandi áhættu fyrir samkeppnishæfni ríkjanna ef á reynir.
  • Að ESB kunni að grípa til ráðstafana gagnvart EES/EFTA-ríkjunum ef það telur að ríkin séu í einhverjum tilvikum notuð til að sniðganga ESB-reglur við innflutning vara inn á innri markaðinn (e. Anti-circumvention measures).
  • Að orðspor EES/EFTA-ríkjanna sem áreiðanlegra samstarfsaðila á innri markaðnum geti beðið hnekki.

Sjá nánari umfjöllun um framangreinda áhættuþætti í 5. kafla skýrslunnar.

Strategískar spurningar – heildstætt mat

Eins og áður segir er lögð rík áhersla á það í skýrslunni að innan EES/EFTA-ríkjanna sé skilningur á þeim breytingum sem orðið hafa á alþjóðapólitískum áherslum ESB og á hvern hátt sambandið beiti innri markaðnum til að ná efnahagspólitískum markmiðum og efla samkeppnishæfni hans gagnvart öðrum viðskiptablokkum. Gæta verði að því að ákvarðanir EES/EFTA-ríkjanna leiði ekki að ófyrirsynju til þess að ríkin verði í reynd meðhöndluð sem þriðju ríki á innri markaðnum, sbr. þær hættur sem skilgreindar eru í skýrslunni og fjallað er um hér að framan. Í því samhengi sé mikilvægt að EES/EFTA-ríkin marki sér sameiginlega afstöðu til þess hvernig meðhöndla skuli þverlægar gerðir.

Fara þurfi heildstætt yfir hvaða afleiðingar það hafi að innleiða ekki þverlæga gerð í samninginn og leggja nður fyrir sér hvort núverandi mat á því hvaða gerðir tilheyri innri markaðnum sé fullnægjandi til að bregðast við þróuninni innan EES. Að sama skapi þurfi ávallt að spyrja hvort upptaka gerða í samninginn geti raskað sambandi EES/EFTA-ríkjanna við önnur náin samstarfsríki þeirra. Nánar tiltekið þarf að meta eftirtalin atriði heildstætt:

  1. Hvort tilgangur gerðar sé að koma í veg fyrir uppbrot á innri markaðinum almennt?
  2. Hvort ákvörðun um að taka gerð ekki upp geti skaðað hagsmuni EES/EFTA-ríkjanna og efnahagslegt öryggi þeirra?
  3. Hvort upptaka gerðar í samninginn hafi áhrif á gildissvið hans?
  4. Hvort og þá hvernig upptaka gerðar sé í samræmi við strategískar áherslur EES/EFTA-ríkjanna við upptöku annarra þverlægra gerða?

Ályktanir sem dregnar eru í skýrslunni og ráðleggingar byggðar á þeim

Í lokakafla skýrslunnar eru settar fram ályktanir og ráðleggingar til stofnana EFTA og EES/EFTA-ríkjanna. Lögð er áhersla á það sérkenni EES-samningsins að eðli og inntak hans sé í stöðugri þróun með upptöku nýrra gerða í samninginn. Á þeirri vegferð síðastliðin 30 ár hafa báðir samningsaðilar verið lausnamiðaðir með hagsmuni beggja samningsaðila að leiðarljósi. Brýnt sé að nálgast rekstur samningsins þannig áfram enda þótt svigrúm til aðlögunar innan gildissvið EES-samningsins sé engan veginn ótakmarkað.

Tilmæli eða ráðleggingar sem settar eru fram í skýrslunni eru eftirfarandi.

Almennar ráðleggingar:

  • Að viðhöfð sé virk vöktun á þróun innri markaðarins allt frá því að fyrstu hugmyndir um breytingar koma fram.
  • Að sjónarhorni og afstöðu EES/EFTA-ríkjanna sé komið á framfæri í stefnumótunarferlum innan ESB þegar við á.
  • Að leitast sé við að leiða fram og undirbyggja umræður um þverlægar gerðir og þverlæga stefnumótun á meðal hagaðila í EES/EFTA-ríkjunum.
  • Að tryggja hraða málsmeðferð við upptöku þverlægra gerða þar sem EES/EFTA-ríkin hafa sammælst um upptöku.
  • Að þess sé gætt að bæði séu metin áhrif af því að taka gerð upp og að taka hana ekki upp.
  • Að leita leiða til að lágmarka áhrif þess á einsleitni innri markaðarins þegar tillögur að nýjum gerðum eru einungis taldar falla undir EES-samninginn að hluta.
  • Að tryggja eins og unnt er að þverlægar gerðir og möguleg upptaka þeirra raski ekki sambandi EES/EFTA-ríkjanna við náin samstarfsríki utan ESB.

Ráðleggingar til stofnana EFTA eru eftirfarandi:

Til fastanefndar EFTA:

  • Að athugun hennar á áskorunum vegna þverlægra gerða verði framhaldið í samræmi við ályktanir og ráðleggingar í skýrslunni.
  • Að skipulag nefndarinnar, undirnefnda hennar og vinnuhópa sé í stöðugri endurskoðun með hliðsjón af þróun mála hjá ESB.
  • Að beina því til undirnefnda og vinnuhópa að meta þverlægar gerðir frá öllum sjónarhornum eins og lagt er til í skýrslunni.
  • Að leggja fram áætlun fyrir árslok 2024 um hvernig brugðist verði við ábendingum og ráðleggingum í skýrslunni.

Að innleiðingu á ályktunum og ráðleggingum sem settar eru fram í skýrslunni verði fylgt eftir, t.d. með reglulegri skýrslugjöf EFTA-skrifstofunnar til nefndarinnar.

Til EFTA-skrifstofunnar:

  • Að efla enn frekar snemmtæka vöktun á þverlægri stefnumótun og gerðum hjá ESB.
  • Að styðja við þverfaglegt mat á vettvangi undirnefnda fastanefndar EFTA og vinnuhópa.
  • Að undirbyggja virkt samtal við ESB á fyrstu stigum stefnumótunar þegar við á.
  • Að sjá til þess að ályktanir og ráðleggingar átakshópsins skili sér við þjálfun sérfræðinga á sviði EES-mála.

Ráðleggingar verkefnishópsins heilt yfir:

Að fastanefnd EFTA, EES/EFTA-ríkin og skrifsstofa EFTA leggist sameiginlega á árarnar til að tryggja að þverlæg stefnumótun og gerðir séu teknar tímanlega til skoðunar og mats í samræmi við framangreint.

Skýrsla um framtíð landbúnaðar í ESB

Í síðasta mánuði kom út skýrsla um framtíð landbúnaðar í ESB (e. Strategic Dialogue on the future of EU agriculture) sem unnin var að beiðni Ursulu von der Leyen (VdL) forseta framkvæmdastjórnar ESB. Alls komu um 30 hagsmunaaðilar að gerð skýrslunnar en verkefninu var stýrt af Peter Strohschneider fyrrverandi prófessors við tækniháskólann í Dresden í Þýskalandi.

Gert er ráð fyrir að stuðst verði við tillögur skýrslunnar við mótun nýrrar framtíðarstefnu í landbúnaði og matvælaframleiðslu í ESB (e. Vision for Agriculture and Food) sem VdL hefur boðað að birt verði á fyrstu 100 starfsdögum nýrrar framkvæmdastjórnar sem mun væntanlega taka við 1. desember nk., sbr. umfjöllun Vaktarinnar 26. júlí sl. um stefnuáherslur VdL, sbr. einnig umfjöllun Vaktarinnar 27. september sl. um tillögu VdL að nýrri framkvæmdastjórn. Í drögum að erindisbréfum nýrra framkvæmdastjóra sem fylgir tillögunni er skýrslan tilgreind sérstaklega, sem ein af fjórum skýrslum, sem framkvæmdastjóraefnum er gert að horfa sérstaklega til í störfum sínum. Hinar þrjár skýrslunar sem vísað er til eru skýrsla Mario Draghi um samkeppnishæfni ESB til framtíðar, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 13. september sl., um þá skýrslu. Í öðru lagi væntanleg skýrsla Sauli Niinistö, fyrrverandi forseta Finnlands, um hvernig styrkja megi viðbúnað og getu ESB í varnar- og öryggismálum og í þriðja lagi skýrsla Enrico Letta um framtíð innri markaðarins, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 19. apríl sl. um þá skýrslu.

Helstu tillögur skýrslunnar eru:

  • Að styrkja stöðu bænda í virðiskeðju matvæla:
    Með því að hvetja bændur til að vinna betur saman, draga úr kostnaði, auka skilvirkni og bæta verðmyndun afurða og tryggja sanngjarna tekjuafkomu. Þetta krefst virkra aðgerða á vettvangi ESB og meðal einstakra aðildarríkja. Aðgerðirnar eiga að miða að því að auka samkeppnishæfni bænda og gagnsæi í matvælaframleiðslunni, styðja við sjálfbærni o.s.frv.
  • Að innleidd verði ný nálgun um sjálfbærni:
    Með því að viðhalda og framfylgja núgildandi löggjöf ESB og finna leiðir til að bæta framkvæmd hennar og setja á fót ESB-kerfi til samanburðarmælinga í landbúnaði og matvælaframleiðslu.
  • Að ráðist verði í breytingar á landbúnaðarstefnu ESB (e. CAP):
    Með því að aðlaga stefnuna að nýjum áskorunum og flýta fyrir grænum umskiptum í framleiðslu og dreifingu landbúnaðarvara. Einnig er talin þörf á breytingum með hliðsjón af stækkunaráformum ESB.
  • Að tryggja fjármögnun vegna grænna umskipta:
    Með því m.a. að stofna bráðabirgðasjóð til að styðja við hröð umskipti í átt að sjálfbærni í landbúnaðargeiranum og til að tryggja að umskiptin séu réttlát.
  • Að efla sjálfbærni og samkeppnishæfni í utanríkisviðskiptum með landbúnaðarvörur:
    Með því að tryggja betra samræmi milli viðskiptastefnu og sjálfbærnistefnu í landbúnaði og auka skilning á mikilvægi landbúnaðar og matvælaframleiðslu í viðskiptasamningum við önnur ríki.
  • Að tryggja framboð af heilsusamlegum og umhverfisvænum matvælum:
    Með því að aðlaga framboð af landbúnaðarvörum að eftirspurn og breyttum neysluvenjum fólks og leita leiða til að ná jafnvægi á milli neyslu dýrapróteina og plöntupróteina.
  • Að efla sjálfbæra landbúnaðarhætti:
    Með því að ráðast í brýnar og metnaðarfullar aðgerðir til að tryggja að landbúnaðarframleiðsla gangi ekki um of á náttúruna og stuðli að verndun loftslags, náttúruauðlinda og endurheimt vistkerfa.
  • Að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði:
    Með því að innleiða fjárhagslega hvata til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði.
  • Að bæta landnotkun og vatnsvernd
    Með því að grípa til frekari aðgerða til að varðveita og stjórna landgæðum, m.a. með því að setja lögbundin markmið um takmörkun á töku lands til landbúnaðarnota fyrir árið 2050" (e. no net land take by 2050).
  • Að efla áhættustjórnun og viðbrögð við áföllum:
    Með því að þróa betri viðbrögð og úrræði við hamförum og áföllum s.s. vegna loftslagsbreytinga, umhverfisskilyrða, efnahagsaðstæðna (markaðsmála) og væringa á alþjóðastjórnmálasviðinu.
  • Að byggja upp aðlaðandi og fjölbreyttan landbúnaðargeira:
    Með því m.a. að efla nýliðun í landbúnaði og tryggja ytri aðstæður sem eru til þess fallnar að laða ungt fólk að greininni.
  • Að efla þekkingu og nýsköpun:
    Með því m.a. að bæta aðgengi að þekkingu og auka menntun og nýsköpun í landbúnaði.
  • Að ráðist verði í stjórnkerfisbreytingar
    Með því að setja á fót nýjan vettvang eða ráð um landbúnaðarframleiðslu (e. European Board on Agri-food (EBAF)) sem verði falið að útfæra tillögur skýrslunnar nánar og vinna að þeim stjórnkerfisbreytingum sem nauðsynlegar eru til að þær geti náð fram að ganga

Viðræður við ESB um samstarf á sviði heilbrigðismála

Framkvæmdastjórn ESB hefur tilkynnt að hún mæli með því við ráðherraráð ESB að formlegar viðræður við EES/EFTA-ríkin þrjú, Ísland, Liechtenstein og Noreg, um samstarf í heilbrigðismálum verði hafnar. Viðræðurnar munu m.a. snúa að aðgengi að nauðsynlegum lækningavörum, viðnámi við heilsuvá og læknisfræðilegum úrræðum (e. medical countermeasures) á neyðartímum.

Tillaga framkvæmdastjórnarinnar kemur í framhaldi af sameiginlegri yfirlýsingu tveggja framkvæmdastjóra í framkvæmdastjórn ESB sem birt var í desember sl. og fjallað var um í Vaktinni 19. janúar  sl. sbr. einnig umfjöllun í Vaktinni 8 .desember sl. þar sem fjallað var um endurmat á hlutverki og stöðu neyðar- og viðbragðsskrifstofu framkvæmdastjórnarinnar, HERA, sem sett var á stofn í heimsfaraldrinum og hefur það hlutverk að tryggja aðgengi að bóluefnum, lyfjum og öðrum nauðsynlegum viðbúnaði á heilbrigðissviði. Í tillögu sinni nú leggur framkvæmdastjórn ESB til að komið verði á varanlegum samstarfsramma á þeim sviðum heilbrigðismála sem liggur utan EES-samningsins en ríkin hafa átt í óformlegum viðræðum við ESB um þau málefni í um tveggja ára skeið.

Ísland tekur þátt í samstarfi ESB á sviði heilbrigðismála, að hluta, í gegnum EES-samninginn. Þrjár gerðir sem styrkja neyðarviðbúnað og -viðbragð bandalagsins þegar lýðheilsu er ógnað þvert á landamæri, hafa nú þegar verið teknar upp í samninginn og bíða innleiðingar í íslenska löggjöf. Þó innleiðingu þeirra sé ólokið er vinna þegar hafin á Íslandi sem snýr m.a. að samræmdu verklagi við gerð viðbragðsáætlana, en gerðirnar þrjár endurspegla m.a. lærdóminn af kórónuveirufaraldrinum.

Tillaga framkvæmdarstjórnarinnar gengur nú til afgreiðslu hjá ráðherraráði ESB, en búast má við að það ferli geti tekið nokkurn tíma áður en eiginlegar formlegar viðræður geta hafist. Sjá til hliðsjónar umfjöllun RÚV um tillögu framkvæmdastjórnarinnar.

Fyrsti samningur HERA-Invest

Í vikunni birti framkvæmdastjórn ESB frétt um að neyðar- og viðbragðsskrifstofa ESB (Health Emergency Preparedness and Response Authority - HERA) og Fjárfestingarbanki Evrópu (European Investment Bank) hefðu undirritað 20 milljóna evra samning við franska líftæknifyrirtækið Fabentech um þróun breiðvirkrar meðferðar til að takast á við faraldra, á borð við kórónuveirufaraldurinn, sem ógna lýðheilsu þvert á landamæri.

Samningurinn er fyrsti sinnar tegundar sem gerður er undir merkjum HERA-Invest. Fleiri samningar af þessu tagi eru sagðir í burðarliðnum við önnur evrópsk fyrirtæki. Þeim er ætlað að örva nýsköpun á sviði heilbrigðismála til að bregðast við hverskyns heilbrigðisvá hvort heldur sem þær eru af efna-,  líf-, eða  geislafræðilegum toga eða af völdum kjarnorku (chemical, biological, radiological, nuclear - CBRN) eða sýklalyfjaónæmis.

HERA-Invest hefur til ráðstöfunar 100 milljónir evra sem er einskonar viðbót við InvestEU áætlunina sem Ísland er nú aðili að, sbr. umfjöllun í Vaktinni 9. júní 2023.

HERA-Invest framtakið er sniðið að litlum og meðalstórum fyrirtækjum, og veitir Fjárfestingabanki Evrópu áhættulán sem dekka að hámarki 50% af heildarkostnaði verkefnis.

Gert er ráð fyrir að væntanlegar samningaviðræður EES/EFTA-ríkjanna við ESB um samstarf í heilbrigðismálum sem fjallað er um hér að framan muni m.a. snúast um aðgengi að þeim læknisfræðilegu meðferðarúrræðum (e. medical countermeasure)  sem HERA-Invest mun semja um.

Endurskoðun tilmæla um reyklaus svæði

Þann 17. september sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu til ráðherraráðs ESB um heildarendurskoðun á tilmælum ráðsins um reyklaus svæði. Núgildandi tilmæli eru frá árinu 2009 og hefur endurskoðunin einkum beinst að ákvæðum tilmælanna sem varða áhrif óbeinna reykinga á börn og ungt fólk og notkun nýrra tóbakslíkra vara.  Eru aðildarríkin samkvæmt tillögunni hvött til þess að fjölga reyklausum svæðum og láta þau ná til útivistarsvæða þar sem börn eru líkleg til að safnast saman. Þar undir falla svæði eins og leikvellir, skemmtigarðar, sundlaugar, og svæði sem tengjast opinberum byggingum eins og mennta- og heilbrigðisstofnunum. Í tilmælunum er einnig gert ráð fyrir að þau nái yfir tóbakslíkar vörur eins og upphitaðar tóbaksvörur (HTP) og rafrettur sem í auknum mæli vekja áhuga yngri notenda en síðustu árin hefur markaðshlutdeild slíkra vara stóraukist. Þá hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) bent á að reykur frá slíkum vörum geti haft skaðleg áhrif á öndunarfæri og hjarta- og æðakerfi.

Þá er hvatt til þess að aðildarríkin vinni betur saman og skiptist t.a.m. á upplýsingum um áhrifaríkar leiðir í baráttunni. Tilmælin eru ekki bindandi fyrir aðildarríkin, en hvatt til innleiðingar þeirra í regluverk ríkjanna og stefnumótun á þessu sviði. 

Framkvæmdastjórnin hyggst styðja við innleiðingu tilmælanna með ýmsum hætti, m.a. með beinum styrkveitingum að fjárhæð 16 milljónir evra (um 2,4 milljarða IKR) í gegnum EU4Health samstarfsáætlunina og með þróun á forvarnaúrræðum (e. a prevention toolkit) til afnota fyrir ríkin.

Til mikils er að vinna en áætlað er að á hverju ári láti 700.000 íbúar Evrópusambandsríkjanna lífið af völdum tóbaksnotkunar, þar á meðal tugir þúsunda vegna óbeinna reykinga. Tilmælunum er þannig jafnframt ætlað að styðja við markmið í krabbameinsáætlun ESB (e. Europe´s Beating Cancer Plan) um reyklausa kynslóð (e. Tobacco Free Generation) sem felur m.a. í sér það markmið að minna en 5% íbúa ESB noti tóbak fyrir árið 2040.

Samkvæmt fyrirliggjandi þingmálaskrá ríkisstjórnar Íslands er gert ráð fyrir að heilbrigðisráðherra leggi fram frumvarp til nýrra heildarlaga um tóbaksvarnir, rafrettur og nikótínvörur á vorþingi. Með frumvarpinu er ráðgert að leggja til að sameinaðir verði tveir lagabálkar í einn, þ.e. lög um tóbaksvarnir, nr. 6/2002, og lög um nikótínvörur, rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018. Jafnframt verði gerðar breytingar sem lúta m.a. að eftirliti og um leið lagt til að sambærilegt gjald verði lagt á tóbaksvörur og tóbakslíkar vörur eins og nikótínpúða. Nái frumvarpið fram að ganga munu samræmdar reglur gilda um þessar vörutegundir.

Aðildarríki ESB samþykkja jöfnunartolla á kínverska rafbíla

Þann 4. október sl. samþykktu aðildarríki ESB ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB frá í sumar um að leggja jöfnunartolla á kínverska rafbíla.

Framkvæmdastjórnin hafði þann 12. júní sl. lagt til jöfnunartollana eftir rannsókn á meintri ósanngjarnri niðurgreiðslu rafbílaframleiðslu í Kína eins og fjallað var um í Vaktinni 14. júní sl. en jafnframt var fjallað um tildrög og aðdraganda rannsóknarinnar í Vaktinni 13. október 2023.

Jöfnunartollarnir voru samþykktir í atkvæðagreiðslu í ráðherraráði ESB en fimm aðildarríki, þ. á m. Þýskaland og Ungverjaland, greiddu atkvæði gegn tollunum þar sem þau óttast mótaðgerðir Kínverja. Ljóst er að fullur einhugur ríkir ekki um málið meðal aðildarríkja ESB en 12 aðildarríki, þ. á m. Spánn og Svíþjóð, sátu hjá við afgreiðslu málsins.

Samhliða aðgerðum ESB hafa diplómatískar viðræður ESB og Kína um lausn málsins haldið áfram. ESB hefur lagt áherslu á að mögulegar lausnir verði að standast reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og megi ekki fela í sér skaðlega ríkisstyrki auk þess sem gerð er krafa um að hægt verði að viðhafa eftirlit með því að efnisákvæði mögulegs samkomulags séu virt.

Kína hefur þegar brugðist við með því að tilkynna um álagningu tolla á innflutning koníaks frá Frakklandi en kínverski markaðurinn er annar stærsti markaðurinn fyrir koníak á heimsvísu. Sú staðreynd að Kína beinir spjótum sínum að Frakklandi er ekki tilviljun, þar sem Frakkland var það ríki innan ESB sem hvað helst beitti sér fyrir samþykkt jöfnunartollanna. Í ljós á eftir að koma hvort samþykkt ráðherraráðsins nú muni hafa frekari eftirmála í för með sér, en af umræðu að dæma er ljóst að margir hafa áhyggjur af því að málið kunni að marka upphafið að margbrotnara viðskiptastríði á milli ESB og Kína með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Búast má við að framfylgdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar um álagningu tollanna verði birt í síðasta lagi 30. október nk.

Aukinn stuðningur ESB við Úkraínu og Moldóvu

Ráðherraráð ESB samþykkti í vikunni fjárhagsaðstoðarpakka til Úkraínu, þar á meðal lán upp á allt að 35 milljarða evra sem verður notað m.a. til að greiða niður lán frá samstarfsaðilum ESB og G7-ríkjunum. Fjárhagsaðstoðin miðar að því að veita tafarlausa aðstoð til að mæta brýnni fjármögnunarþörf Úkraínu sem hefur aukist samfara auknum sóknarþunga Rússlands í stríðinu. Lánið er veitt samkvæmt sérstökum lánaskilmálum (e. Extraordinary Revenue Acceleration Loans for Ukraine“ (ERA)), sem gerir ráð fyrir að endurgreiðsla lánsins verði fjármögnuð með vaxtatekjum af frystum rússneskum eignum.

Þessi fjárhagsaðstoð er til viðbótar 50 milljarða dollara láni sem leiðtogar G7-ríkjanna veittu Úkraínu í júní sl. en það lán var veitt á grundvelli sömu lánaskilmála.

Framkvæmdastjórn ESB samþykkti jafnframt í gær að veita Moldóvu 1,8 milljarða evra stuðning til uppbyggingar á innviðum og til almennra umbóta í landinu m.a. vegna aðlögunar að ESB í ljósi aðildarumsóknar ríkisins að sambandinu. Ursula von der Leyen var í Chisinau, höfuðborg Moldóvu, í gær til að fylgja eftir þessum stuðningi sem veittur er í aðdraganda forsetakosninga í landinu sem fram fara 20. október nk. Samhliða kosningunum verður haldin þjóðaratkvæðagreiða um hvort aðild landsins að ESB skuli vera stjórnarskrárbundið markmið eða ekki.

Formlegar aðildarviðræður við Úkraínu og Moldóvu hófust þann 25. júní síðastliðinn en þá voru haldnar milliríkjaráðstefnur (e. Intergovernmental conferences)  þar sem fulltrúar allra aðildaríkja sambandsins komu saman til fyrsta formlega samningafundarins milli sambandsins og ríkjanna tveggja. Fundirnir marka upphafið af formlegum aðildarviðræðum við ríkin tvö en leiðtogaráð ESB hafði áður samþykkt að opna aðildarviðræður við ríkin í desember 2023. Hadja Lahbib, utanríkisráðherra Belgíu, sem nú er tilnefnd sem framkvæmdastjóri í nýrri framkvæmdastjórn af hálfu Belgíu, fór fyrir samninganefnd ESB á fundinum en Belgar fóru með formennsku í ráðherraráðinu á fyrri hluta ársins en áhersla var lögð á að hefja formlega viðræður við Úkraínu og Moldóvu áður en Ungverjar tæku við formennsku í ráðherraráði ESB 1. júlí sl.

Samstarf ríkjanna við ESB, m.a. á sviði utanríkis- og öryggismála, er þegar hafið og í maí sl. undirritaði Moldóva m.a. samning um öryggis- og varnarsamstarf við ESB sem er sá fyrsti sinnar tegundar sem ESB gerir við þriðja ríki.

Ráðherraráð ESB hefur falið framkvæmdastjórninni að halda aðildarviðræðunum áfram við bæði ríkin og verður næst farið í að opna einstaka efniskafla aðildarsamnings. Þeim er nú safnað í nokkra klasa en samtals eru kaflarnir 35, sbr. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 10. nóvember sl. um stækkunarstefnu ESB og ferli aðildaviðræðna.

Ungverjar tóku við formennsku í ráðherraráði ESB 1. júlí sl. eins og áður segir. Í formennskuáætlun þeirra kemur fram það mat ungversku formennskunnar að stækkun ESB á umliðnum árum hafi reynst afar farsæl og er þar jafnframt lýst yfir stuðningi við áframhaldandi stækkun sambandsins enda sé stækkunarferlið samræmt og framgangur umsóknarríkja byggður á verðleikum. Ungverska formennskan leggur sérstaka áherslu framgang umsókna frá Vestur-Balkanskaga, þ.e. Serbíu, Albaníu, Norður-Makedóníu og Bosníu-Hersegóvínu en athygli hefur vakið að ekkert er minnst á Úkraínu og Moldóvu í þessu samhengi, ekki heldur þegar Orbán kynnti Evrópuþinginu áherslur ungversku formennskunnar 9. október. Sjá nánari umfjöllum um formennskuáætlun Ungverja í Vaktinni 28. júní sl.

Skipulag þinglegrar meðferðar tillögu VdL um nýja framkvæmdastjórn

Forsætisnefnd Evrópuþingsins tók í gær endanlega ákvörðun um skipulag þinglegrar meðferðar tillögu VdL um nýja framkvæmdastjórn, sbr. umfjöllun um tillöguna og fyrirkomulag hinnar þinglegu meðferðar samkvæmt þingsköpum Evrópuþingsins í Vaktinni 27. september sl.

Samkvæmt ákvörðun forsætisnefndar munu yfirheyrslur þingnefnda yfir framkvæmdastjóraefnum hefjast 4. nóvember og standa til 12. nóvember nk.

Dagskráin er þéttskipuð og munu framkvæmdastjóraefnin flest þurfa svara spurningum frá nefndarmönnum nokkurra þingnefnda enda er verkaskipting samkvæmt tillögunni afar þverlæg, sbr. umfjöllun um tillöguna í Vaktinni 27. september sl.

Við framangreinda skipulagningu var helst tekist á um það hvort yfirheyrslur yfir varaforsetaefnunum sex samkvæmt tillögunni ættu að vera fremst á dagskránni eða aftast. Svo virðist sem hægri vængur þingsins hafi hallast að hinu síðarnefnda, þar með talið EPP, á meðan vinstri vængurinn, þar á meðal S&D, hafi hallast að hinu fyrrnefnda. Megin ástæðan að baki afstöðu S&D virðist hafa verið sú að þeir vildu að varaforsetaefnið Teresa Ribera, sem flestir eru sammála um að verði fremst á meðal jafningja í nýrri framkvæmdastjórn, yrði fremst á dagskránni, en fyrir liggur að þá verður athyglin, þar á meðal fjölmiðlaathyglin, mest.

Niðurstaðan sem nú liggur fyrir er hins vegar sú að yfirheyrslur yfir varaforsetaefnunum munu fara fram í lok dagskrárinnar eða þann 12. nóvember, og hafa sumir túlkað það sem einskonar sigur hægri vængsins, en það er langsótt ef horft er til eðli máls.

Athugun laganefndar (e. Committee on Legal Affairs) sem hefur það hlutverk, eins rakið er í Vaktinni 27. september sl., að yfirfara hagsmunaskráningu þeirra einstaklinga sem tilnefndir eru og staðfesta almennt hæfi þeirra, er lokið og hefur nefndin staðfest almennt hæfi allra sem tilnefndir eru.

Framangreindar yfirheyrslur verða haldnar fyrir opnum tjöldum og streymt á vef Evrópuþingsins.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta