Hoppa yfir valmynd
20. desember 2024 Brussel-vaktin

Formennskuáætlun Pólverja, fundur leiðtogaráðs ESB, framleiðsla á vetni, rafeldsneyti, íblöndunarefnum o.fl.

Að þessu sinni er fjallað um:

  • formennskuáætlun Pólverja
  • fund leiðtogaráðs ESB
  • mögulega framleiðslu vetnis, rafeldsneytis og íblöndunarefna á Íslandi
  • nýja fastanefnd um öryggis- og varnarmál í Evrópuþinginu
  • styrkveitingu til Íslands úr sjóði umhverfis- og loftslagsáætlunar ESB – LIFE
  • varnir gegn ógnum vegna vopnvæðingar í formi fólksflutninga (e. instrumentalisation)
  • samninga ESB um veiðiheimildir fyrir árið 2025
  • fríverslunarsamning ESB við ríki í Suður-Ameríku (Mercosur)

Brussel-vaktin kemur næst út á nýju ári - þann 17. janúar.

Formennskuáætlun Pólverja

Pólverjar taka við formennsku í ráðherraráði ESB 1. janúar nk. en þá lýkur formennskutíð Ungverja í ráðinu. Formennska í ráðinu gengur á milli aðildarríkja ESB í ákveðinni röð og er formennskutímabilið sex mánuðir. Stendur formennskutímabil Pólverja samkvæmt því frá 1. janúar – 30. júní 2025 en þá munu Danir taka við keflinu, þar á eftir Kýpverjar á fyrri hluta árs 2026 og síðan Írar á seinni hluta þess árs.

Ráðherraráð ESB þar sem aðildarríkin sitja er ein þriggja helstu valdastofnana ESB ásamt leiðtogaráði ESB, Evrópuþinginu og framkvæmdastjórn ESB. Ráðherraráð ESB fer m.a. með hið formlega löggjafarvald á vettvangi ESB ásamt Evrópuþinginu.

Ráðherraráð ESB starfar í deildum og taka ráðherrar í ríkisstjórnum aðildarríkjanna þátt í fundum ráðsins í samræmi við skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðherra innan ríkisstjórnar hvers aðildarríkis.

Er það hlutverk formennskuríkis á hverjum tíma að stjórna fundum í öllum deildum ráðherraráðs ESB en formennskuríki getur þó óskað eftir því að fulltrúar annarra ríkja fari með formennsku í einstökum deildum eða undirnefndum ráðsins ef þannig stendur á. Þá stýrir formennskuríkið einnig samningaviðræðum fyrir hönd ráðsins við Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB í þríhliða viðræðum um löggjafarmálefni og önnur málefni eftir atvikum. Umtalsvert áhrifavald fylgir formennskunni á hverjum tíma enda geta áherslur formennskuríkis haft mikið um það að segja hvaða mál eru sett á dagskrá, hvernig þeim er forgangsraðað og hvort tiltekin mál fái framgang eða ekki. Á hinn bóginn er þess jafnan vænst, venju samkvæmt, að formennskuríkið reyni að miðla málum og gegni jafnvel hlutverki sáttasemjara (e. honest broker) í viðræðum aðildarríkjanna innan ráðsins og í þríhliða viðræðum við framkvæmdastjórnina og þingið. (Sjá útskýringarsíðu á vef ráðsins um hlutverk ráðherraráðsins og formennskuríkis.)

Pólverjar kynntu formennskuáætlun sína í síðustu viku undir yfirskriftinni „Security, Europe”. Það er tímanna tákn að öryggis- og varnarmál eru númer eitt, tvö og þrjú í áætlun þeirra.

Dregin eru fram sjö forgangsmálefni í áætluninni og eru þau eftirfarandi:

  1. Varnar- og öryggismál (e. Defence and security)

    Að mati Pólverja hefur Rússland lagt áður gildandi öryggisskipulag í Evrópu í rúst með árásarstríði sínu gagnvart Úkraínu og öðrum fjölþátta árásum, svo sem netárásum. Er framferði Rússlands metið þannig að það feli í sér mestu öryggisógn sem Evrópa hefur staðið frammi fyrir frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Grípa þurfi til metnaðarfullra ráðstafana á sviði varnar- og hermála til að efla samstarfið á vettvangi NATO og hyggst pólska formennskan beita sér fyrir því að fjallað verði ítarlega um málið innan ráðsins með það fyrir augum að auka sameiginlega fjármögnun á sviði hergagnaframleiðslu og samþættingu á sviði varnarmála. Í þeim efnum hyggjast Pólverjar m.a. beita sér fyrir því að tengsl og samstarf ESB og NATO verði eflt sem og tvíhliða samskipti ESB við Bandaríkin, Bretland, Suður-Kóreu og önnur vinveitt ríki.

  2. Öryggi borgaranna og öryggi landamæra ESB (e. Protection of people and borders)

    Að mati Pólverja þarf ESB að halda áfram að finna leiðir til að hámarka öryggi borgara ESB. Kórónaveirufaraldurinn og stuðningur við íbúa Úkraínu eftir að stríðið braust út hefur sýnt og sannað að ESB er fært um að bregðast við stórum áföllum og tryggja öryggi borgaranna. Hins vegar sé nú tímabært að taka skrefið frá viðbragðsráðstöfunum til fyrirbyggjandi ráðstafana.

    Pólska formennskan hyggst nýta þá samstöðu sem nú er til staðar á meðal aðildarríkjanna og setja mál og aðgerðir á dagskrá sem eru til þess fallin að auka öryggi og jafnframt aðgerðir sem eru til þess fallnar að styrkja öryggi ytri landamæra ESB og draga úr ólögmætri för fólks og styrkja frávísunar- og endursendingarkerfið og gera það skilvirkara. Ekki megi einungis líta á öryggi ytri landamæra með hliðsjón af málefnum flótta- og farandfólks heldur sé öryggi landamæranna snar þáttur í öryggi borgaranna almennt og snúi jafnframt að fullveldi svæðisins almennt. Í þessu samhengi er m.a. lögð áhersla á góða virkni Schengen-samstarfsins. Þá hyggjast Pólverjar beita sér fyrir aukinni viðbragðshæfni, bæði á vettvangi ESB og innan aðildarríkjanna, á sviði almannavarna og viðbragða við náttúruvá og öðrum ógnum og krísum sem upp geta komið. Baráttan gegn skipulagðri glæpastarfsemi, hryðjuverkum og hættunni sem stafar getur af öfgahyggju er einnig sett á oddinn.

  3. Varnir gegn afskiptum erlendra ríkja meðal annars með dreifingu falskra upplýsinga og tilrauna til að skapaupplýsingaóreiðu (e. Resistance to foreign interference and disinformation)

    Í áætluninni kemur fram að einræðisríki reyni markvisst að brjóta niður félagslega og stjórnmálalega samheldni í vestrænum lýðræðisríkjum. Reynt sé að grafa undan lýðræðinu, stöðugleika og þar með öryggi í ríkjunum. Efla þarf lýðræðisvarnir og varnir gegn upplýsingaóreiðu og dreifingu falsfrétta og styðja við og vernda sjálfstæða og ábyrga fjölmiðla til að sporna gegn skautun og öfgahyggju. Í þessu skyni hyggst formennskan beita sér fyrir aukinni samhæfingu í aðgerðum á þessum sviðum meðal aðildarríkja ESB. Jafnframt hyggst formennskan beita sér gegn dreifingu falsupplýsinga um umhverfismál.

  4. Tryggja öryggi og frelsi í viðskiptum (e. Ensuring security and freedom of business)

    Fram kemur að efnahagskerfi ESB standi frammi fyrir fjölmörgum áskorunum. Hraðar tæknibreytingar knýi fyrirtæki til aðlögunar og nýsköpunar með skjótum hætti. Græn umskipti feli í sér ný tækifæri en þau krefjast jafnframt nýrrar hugsunar og nálgunar í rekstri fyrirtækja en í því samhengi verði jafnframt að hafa í huga að grænar kröfur geti skekkt samkeppnisstöðu og samkeppnishæfni ýmissa hefðbundinna iðngreina. Á tímum vaxandi alþjóðlegrar og landfræðilegrar spennu í heiminum séu aðfangakeðjur sem áður töldust stöðugar og öruggar, og voru forsenda frjálsra hattrænna viðskipa, í hættu. Er það mat pólsku formennskunnar að í þessari stöðu, sé víðtæk reglusetning ESB og þung reglubyrði vandamál sem geti skert samkeppnisstöðu og við því þurfi að bregðast. Dýpka þurfi innri markaðinn og ryðja í burt hindrunum fyrir starfsemi þvert á landamæri. Auka þarf aðgengi að einkafjármagni, minnka reglubyrði og gera orku- og loftlagsstefnu ESB sveigjanlegri og að innleiddir verði í kerfið jákvæðir hvatar fremur en að því sé stýrt með viðurlögum og auknum skyldum. Þá hyggst pólska formennskan einbeita sér að eflingu iðnaðar á sviði öryggismála og tryggja samkeppnishæfni iðnaðar almennt og styrkja almenna viðskiptaumgjörð á innri markaðinum sem og almenna samheldnisstefnu sambandsins (e. cohesion policy).

  5. Orkuskipti (e. Energy transition)

    Stöðugleiki í framboði á orku er grundvallarþáttur er kemur að orkuöryggi. Orkuskipti munu auka orkuöryggi þar sem ESB verður minna háð jarðefnaeldsneyti. Að mati Pólverja eiga ríki ESB að stöðva að fullu jarðefnaeldsneytiskaup og gera sig að fullu óháða Rússlandi á þessu sviði.

  6. Samkeppnisfær og viðnámsþolinn landbúnaður (e. Competitive and resilient agriculture)

    Almannahagsmunir felast í því að hafa aðgang að öruggum hágæða matvælum. Því þarf að bæta stöðu bænda og tryggja rekstarafkomu þeirra og byggja upp samkeppnishæfan og viðnámsþolinn landbúnað. Þá þarf að tryggja að þeir sem flytja landbúnaðarvörur inn á markað ESB uppfylli sömu kröfur og gerðar eru til bænda í ESB. Í framangreindu ljósi hyggst pólska formennskan leitast við að forma sterka sameiginlega landbúnaðarstefnu sem feli í sér hvata fyrir bændur til að byggja upp umhverfisvænan landbúnað fremur en að þeir verði beinlínis skyldaðir til þess. Þá hyggst pólska formennskan vinna að því að leita lausna við þeim áskorunum sem landbúnaðargeirinn kann að standa frammi fyrir samhliða mögulegri stækkun ESB.

  7. Heilbrigðisöryggi (e. Health security)

Kórónuveirufaraldurinn afhjúpaði hversu alvarlegar afleiðingar heilbrigðisógnir geta haft í för með sér. Loftslagsbreytingar og auknir öfgar í veðurfari, náttúruhamfarir og ýmsar aðrar fjölþáttaógnir geta einnig haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu fólks. Hyggst pólska formennskan leggja áherslu á stafræn umskipti í heilbrigðisþjónustu, bætta geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og forvarnir gegn sjúkdómum almennt. Þá hyggst formennskan beita sér gegn fíknisjúkdómum o.fl.

Auk framangreindra forgangsmála er í formennskuáætluninni fjallað með ítarlegri hætti um málefni ESB á breiðum grundvelli og umfjölluninni skipt upp í samræmi við verkaskiptingu á milli deilda ráðherraráðsins, sjá nánar á heimasíðu pólsku formennskunnar.

Fundur leiðtogaráðs ESB

Leiðtogaráð ESB kom saman til fundar í Brussel í gær, 19. desember, og var Volodymyr Selenskí, forseta Úkraínu, boðið til fundarins, sbr. ávarp António Costa, forseta leiðtogaráðsins, þegar hann tók á móti Selenskí við komuna á fundinn. Var þetta jafnframt fyrsti fundur ráðsins undir stjórn António Costa, sem tók við embættinu 1. desember sl., sbr. umfjöllun Vaktarinnar 6. desember sl. um þau tímamót.

Daginn fyrir fundinn þann 18. desember var efnt til leiðtogafundar ESB-ríkjanna og ríkjanna á Vestur-Balkanskaga, þ.e. Albaníu, Bosníu og Hersegóvínu, Norður-Makedóníu, Svartfjallalands, Kósovó og Serbíu, en öll þessi ríki eru á meðal umsóknarríkja um aðild að ESB, sbr. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 8. nóvember sl. um stækkunarstefnu ESB. Sjá nánar um fundinn hér og sameiginlega yfirlýsingu sem samþykkt var á fundinum, sbr. einnig ávarp forseta leiðtogaráðsins á blaðamannafundi eftir fundinn og ávarp forseta framkvæmdastjórnar ESB á sama fundi.

Meginmálið á dagskrá leiðtogaráðsins var staða mála vegna árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu. Sjá hér niðurstöður og ályktanir ráðsins um stöðuna.

Þá voru átökin sem nú geisa fyrir botni Miðjarðahafs, þ.e. einkum staða átakanna á milli Ísraels og Líbanons og staða mála í Sýrlandi til umfjöllunar.

Staða ESB í alþjóðasamfélaginu, í víðu samhengi, var einnig á meðal umræðuefna á fundinum og hvernig ESB geti styrkt hlutverk sitt á alþjóðavettvangi og varið hagsmuni sína m.a. með því að hlúa að víðtækara og dýpra samstarfi við samstarfsaðila á heimsvísu. Í þessu samhengi voru samskipti ESB við Bandaríkin annars vegar og Bretland hins vegar til umræðu.

Viðnámsþol, viðbúnaður og viðbragðsgeta ESB, með hliðsjón af nýrri skýrslu Sauli Niinistö um eflingu viðbúnaður á sviði almannavarna og hermála, var jafnframt til umræðu á fundinum, sbr. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 6. desember sl., um þá skýrslu

Loks voru málefni farandfólks og flóttafólks tekin til umræðu sem og utanríkismál almennt.

Sjá nánar um niðurstöður og ályktanir ráðsins eftir fundinn hér.

Næsti fundur, óformlegur, leiðtogaráðs ESB er áætlaður 3. febrúar nk. en þá er gert ráð fyrir að varnarmál verði megin umfjöllunarefnið og Bretum boðið til fundarins, sbr. fundaáætlun leiðtogaráðsins fyrir árið 2025.

Framleiðsla vetnis, rafeldsneytis og íblöndunarefna á Íslandi

Flestallar gerðir ESB um orkuskipti eru teknar upp í EES-samninginn og innleiddar á Íslandi. Samkvæmt þeim og markmiðum Íslands um orkuskipti er mikið verk framundan, sérstaklega í flugi og siglingum. Sérstaklega er mikilvægt í því samhengi að auka framboð á vistvænu eldsneyti, SAF (e. sustainable aviation fuel) fyrir flug á samkeppnishæfu verði og kanna hvaða leiðir eru færar til þess. Stjórnvöld hafa lagt í vinnu við að skoða framleiðslu á vistvænu eldsneyti og í nóvember sl. var birt skýrsla starfshóps sem ber heitið Flugorka framtíðarinnar. Málið er þó enn á frumstigi.

Vetni gegnir lykilhlutverki í stefnu ESB um orkuskipti sérstaklega í orkufrekum iðnaði, flugi og siglingum. Aðgangur að nægu rafmagni sem framleitt er með sjálfbærum hætti er þó grunnþáttur fyrir framleiðslu vetnis. Raforkuframleiðsla á Íslandi er nær öll græn á meðan innan við helmingur af rafmagnsframleiðslu ESB-ríkja getur flokkast sem slík. Ríki ESB vinna nú að því hörðum höndum að auka hlutdeild grænnar raforku og þá helst með því að reisa vindmyllu- og sólarselluraforkuver. Á Íslandi er sömuleiðis unnið að því að auka orkuframleiðslu, einkum eins og verið hefur með vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum en einnig er í auknum mæli horft til uppbyggingar á vindorkuverum.

Reglur EES um íblöndun flugvélaeldsneytis

Um næstu áramót taka reglur ESB um íblöndun flugvélaeldsneytis gildi í ESB og verða væntanlega innleiddar á EES-svæðinu síðar á árinu 2025. Með þeim verður flugrekendum skylt að nota íblandað flugvélaeldsneyti með vistvænu eldsneyti, svokallað SAF, að lágmarki 2% frá og með 2025. Íblöndunarkrafan fer í 6% (1,2-2,0%) frá og með 2030, 20% (5%) frá og með 2035, 34% (10%) frá og með 2040, 42% (15%) frá og með 2045 og loks 70% (35%) frá og með 2050. Tölurnar í sviga segja til um áskilið hlutfall rafeldsneytis (e. eFuel) en í því er vetni grunnþáttur framleiðslunnar.

Núverandi tækni í flugi leyfir engar leiðir til orkuskipta aðrar en að nýta vistvænt flugvélaeldsneyti, SAF. Í framangreindri skýrslu starfshóps um orkuskipti í flugi – Flugorka framtíðarinnar segir m.a.

„Innleiðing sjálfbærs þotueldsneytis, SAF (e. Sustainable Aviation Fuel), er algert lykilatriði til að ná fram samdrætti í losun í millilandaflugi. Orkuskipti í millilandaflugi eru því aðaláhersla þessarar skýrslu, þar sem orkuskipti eru langfýsilegasta leiðin til að draga úr losun í flugi og sú leið sem stjórnvöld geta haft mest áhrif á.“ 

Flugvélar í rekstri geta flestar eða allar nýtt SAF eldsneyti að 50% marki, en væntanlegar eru flugvélar sem geta flogið á SAF eldsneyti eingöngu. Á núverandi markaði er SAF nær eingöngu framleitt úr lífrænum úrgangi og er það í dag um 2-4 sinnum dýrara en hefðbundið flugvélaeldsneyti.

Farþegaflugvélar knúnar rafmagni eru einnig væntanlegar á markað í kringum 2030, en vegna orkuþéttleika miðað við þyngd rafhlaðna leyfir núverandi tæknistig einungis flugvélar með um 500 km drægni sem taka 20-30 farþega. Í þróun eru hins vegar flugvélar, m.a. hjá Airbus, knúnar vetni og áætlar félagið að geta sett slíkar flugvélar á markað árið 2035.

Unnið er að þróun tvenns konar flugvélatækni, annars vegar flugmótora sem ganga fyrir rafmagni sem er framleitt með vetnishvörfum (e. fuelcells) og hins vegar þróun eldsneytiskerfa og mótora sem brenna vetni. Auk þess er unnið að þróun á framleiðslu SAF rafeldsneytis með efnahvörfum þar sem vetni og kolefni eru notuð sem hráefni. Þá er unnið að þróun rafeldsneytis með vetni sem aðalhráefni fyrir fleiri samgöngutæki, einkum rafeldsneyti til að knýja skip.

Af ofangreindu má ráða að reglusetning ESB tekur mið af því að vetni gegni lykilhlutverki við að ná fram orkuskiptum í orkufrekum samgöngum, sérstaklega flugi og siglingum. Á hinn bóginn er lítið framboð á vetni á markaði í dag, það sem er í boði er dýrt og þar af leiðandi er rafeldsneyti einnig dýrt, en það  er metið vera sex til átta sinnum dýrara en jarðefnaflugvélaeldsneyti. Væntingar eru um að nýsköpun, þróun og stækkun framleiðslueininga í vetnisframleiðslu muni draga úr þessum verðmun og er ESB með áætlanir um uppbyggingu á vetnisframleiðslu og hefur þegar sett mikla fjármuni í verkefni og fjárfestingar af því tagi sem ætlað er að stuðla að stóraukinni framleiðslu á vetni og rafeldsneyti í náinni framtíð.

Áætlanir ESB um vetnisframleiðslu

Framangreint regluverk ESB gerir ráð fyrir að vetni- og rafeldsneyti gegni mikilvægu hlutverki við orkuskipti í samgöngum og helstu framleiðslugreinum sambandsins. ESB hefur útfært stefnu um margs konar stuðningsaðgerðir við rannsóknir, þróun og uppbyggingar á grænni vetnisframleiðslu sem styðja eiga við orkuskipti og veitir til þeirra verkefna gríðarmiklu fé.

Fjallað var nokkuð ítarlega um helstu áætlanir ESB sem styðja við vetnisframleiðslu í Vaktinni 1. mars 2024. Hægt er að sækja um stuðning við fjárfestingar vegna vetnisframleiðslu til verkefna sem skilgreind eru sem mikilvæg samevrópsk verkefni (e. IPCEI – Important Projects of Common European Interest). Sömuleiðis er hægt að sækja um fjárfestingastyrki í Fjárfestingasjóð ESB (Investment fund), og Nýsköpunarsjóð ESB (e. Innovation fund) og í fleiri áætlanir.

Auk fjárfestingastyrkja gefst tækifæri til að sækja um styrki til framleiðslu á vetni. Meðal annars gerir áætlun Evrópska vetnisbankans ráð fyrir að boðnir verði út framleiðslustyrkir til niðurgreiðslu hverju framleiddu kílói af vetni til 10 ára og eru styrkirnir hugsaðir til þess að auka framboð vetnis á viðráðanlegu verði.

Mörg ESB ríki taka beinan þátt í vetnisverkefnum ESB og veita viðbótarríkisstyrki til þeirra samkvæmt framangreindum heimildum. Í nóvember sendi framkvæmdastjórn ESB, Spánn, Litáen og Austurríki frá sér sameiginlega fréttatilkynningu um þátttöku þessara ríkja í útboði Evrópska vetnisbankans á meðgjöf fyrir hvert selt kíló af vetni. Þeir framleiðendur sem óska eftir lægstu meðgjöfinni eiga kost á samningi um styrkveitingar í tiltekinn tíma. Að auki eru veittir styrkir úr ýmsum sjóðum ESB til fjárfestinga við að byggja upp virðiskeðju vetnisframleiðslu eins og áður sagði.

Uppbygging vetnisframleiðslu á Íslandi

Reglur IPCEI sem heimila aukna ríkisstyrki til mikilvægra samevrópska verkefna gilda á Íslandi og eiga íslenskir aðilar og stjórnvöld rétt á að setja af stað vetnisverkefni á grunni þeirra reglna sem um þau gilda. Sem aðili að EES-samningnum og sem aðili að samstarfsáætlunum sem innleiddar hafa verið í EES-samninginn eiga íslenskir aðilar einnig möguleika á víðtækum fjárstuðningi til vetnisframleiðslu. Til dæmis er viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir hluti af EES-samningum og er nýsköpunarsjóður ESB á sviði loftslagsmála (e. Innovation fund) fjármagnaður með sölu losunarheimilda. Ísland gerðist nýlega aðili að fjárfestingasjóði sambandsins (e. Investment fund) sem veitir lán á hagstæðum kjörum til fjárfestinga. Einnig eru vetnisverkefni styrkt af Horizon samstarfsáætluninni sem Ísland er aðili að. Loks geta íslenskir aðilar tekið þátt í útboði Evrópska vetnisbankans um niðurgreiðslur á framleiðslu á vetni eins og áður segir.

Græn vetnisframleiðsla krefst aukinnar grænnar raforkuframleiðslu og þar með nýrra orkuvera. Það tekur tíma að virkja og tryggja viðbótar orku. Í raun gildir það sama fyrir meginland Evrópu, þar er langt í land í orkuskiptum og mun það taka langan tíma að ná settum markmiðum. Sömuleiðis tekur tíma að fjárfesta í og byggja upp virðiskeðju fyrir vetnisframleiðslu og rafeldsneytisframleiðslu.

Eins og áður segir þá er að líkindum ástæða til þess fyrir Ísland að horfa sérstaklega til áætlana ESB um að vetni og rafeldsneyti geti komið í stað jarðefnaeldsneytis í flugsamgöngum að einhverju marki. Möguleikar Íslands til virkrar þátttöku í uppbyggingu vetnismarkaðar á innri markaði EES-svæðisins hafa einkum verið taldir liggja á því sviði, annars vegar vegna legu landsins og starfrækslu alþjóðaflugvallarins í Keflavík, á flugleiðinni milli Evrópu og Norður-Ameríku, og hins vegar vegna þeirrar sjálfbæru og grænu orku sem mögulegt er að framleiða á Íslandi og er nauðsynleg til sjálfbærrar og grænnar vetnisframleiðslu, en ætla má að með hliðsjón af framangreindri sérstöðu geti vetnisframleiðsla á Íslandi orðið arðbær til lengri tíma litið, jafnvel verulega, en stofnkostnaður er þó einnig verulegur.

Ísland hlýtur háan styrk úr sjóði umhverfis- og loftslagsáætlun ESB - LIFE

LIFE-áætlun ESB er fjármögnunaráætlun ESB til aðgerða á sviði umhverfis- og loftslagsmála. LIFE áætlunin styður verkefni sem stuðla að þróun og framkvæmd umhverfis- og loftslagsstefnu ESB. Áætlunin var upphaflega sett á laggirnar árið1992 og tekur núverandi áætlunartímabil yfir árin 2021 - 2027. Á yfirstandandi tímabili er fjárhagsrammi áætlunnarinnar rúmlega 5,4 milljarðar evra.

Áætlunin miðar að því að þróa og efla nýstárlega tækni, aðferðir og nálgun til að ná markmiðum ESB í umhverfis- og loftslagsmálum. Hún styður einnig við framkvæmd hlutaðeigandi löggjafar ESB og eftirlit. Áætlunin miðar enn fremur að því að vera hvati til að útfæra á stórum skala árangursríka tækni- og stefnutengdar lausnir með því að samþætta tengd markmið við aðrar stefnur og starfshætti opinberra aðila og einkageirans, með því m.a. að auka fjárfestingar og bæta aðgang að fjármagni.

LIFE-áætlunin fyrir 2021-2027 er alfarið helguð umhverfis-, loftslags- og orkumarkmiðum. Markmiðið er að stefna að hreinu, hringlaga, orkunýtnu, kolefnishlutlausu og loftslagsþolnu hagkerfi, m.a. með umskiptum yfir í hreina orku, í því skyni að vernda og bæta umhverfisgæði. Þannig eru megin áherslusvið eftirfarandi:

  • loftslagsbreytingar, -aðlögun og aðgerðir,
  • náttúra og líffræðilegur fjölbreytileiki,
  • hringrásarhagkerfi og lífsgæði,
  • og hrein orkuskipti.

Ísland hefur verið þátttakandi í LIFE-áætluninni frá árinu 2021. Með þátttökunni geta íslensk sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök og opinberar stofnanir sótt um styrki samkvæmt áætluninni. Þetta samstarf stuðlar að því að Ísland uppfylli umhverfiskröfur íslenskra stjórnvalda og ESB líkt og aðildarríki ESB sem aftur tryggir hindrunarlausan aðgang að innri markaði ESB sem er megin tilgangur og markmið EES-samningsins.

Styrkir til Íslands

Árið 2023 var verkefnið Terraforming LIFE fyrsta íslenska forystuverkefnið til að hljóta styrk úr LIFE-áætluninni þegar verkefnið fékk sex milljóna evra styrk úr sjóðnum til að þróa og framleiða áburð úr búfjárúrgangi og fiskimykju til landbúnaðarnota, skógræktar og landgræðslu, sbr. umfjöllun í Vaktinni 9. júní 2023. Um var að ræða sameiginlegt verkefni fyrirtækja og samtaka frá Íslandi og Færeyjum.

Nú hefur Umhverfisstofnun, ásamt 22 samstarfsaðilum, hlotið um 3,5 milljarða íslenskra króna styrk frá LIFE-áætluninni til að vinna að fjölbreyttum verkefnum til að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi. Samstarfsaðilar Umhverfisstofnunar í verkefninu eru Eimur, Gefn, Grundarfjarðarbær, Hafrannsóknastofnun, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Hveragerðisbær, Isavia, Ísafjarðarbær, Kópavogsbær, Matvælastofnun, Náttúrufræðistofnun, Náttúruminjasafn Íslands, Orka náttúrunnar, Orkustofnun, Orkuveita Húsavíkur, Orkuveita Reykjavíkur, Reykjavíkurborg, Ríkisútvarpið, Samband íslenskra sveitarfélaga, umhverfis,- orku og loftslagsráðuneyti, Veðurstofa Íslands og Veitur, ásamt þremur óbeinum þátttakendum sem eru Sveitarfélagið Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

Verkefnið ber yfirskriftina LIFE ICEWATER og er markmið þess að:

  • auka þekkingu á notkun, eiginleikum og ástandi vatns á Íslandi,
  • tryggja trausta og samhæfða stjórnsýslu þegar kemur að vatnamálum,
  • bæta vatnsgæði, til dæmis með úrbótum í fráveitu og hreinsun skólps,
  • og fræða almenning og haghafa um mikilvægi vatns.

Styrkurinn sem LIFE ICEWATER fékk er einn sá stærsti sem Ísland hefur fengið úr sjóðum ESB. Umfang verkefnanna sem samstarfshópurinn hefur sett saman er samtals um 5,8 millj.kr. LIFE áætlunin styrkir verkefnið því um 60% eða samtals um 3,5 millj.kr. eins og áður segir sem dreifast á samstarfshópinn og verða verkefnin unnin á árunum 2025-2030.

Verkefninu er skipt upp í sjö verkhluta:

  1. Verkefnastjórnun og samhæfingu.
  2. Miðlun, upplýsingagjöf og getuuppbyggingu.
  3. Grunnvatn, stjórnsýslu og aðgerðir til úrbóta.
  4. Ferskvatn, stjórnsýslu og aðgerðir til úrbóta.
  5. Strandsjó og árósarvatn, stjórnsýslu og aðgerðir til úrbóta.
  6. Sjálfbærni í vatnamálum og þekkingarnýtingu.
  7. Aðgerðir og fjárfestingar verkefna til viðbótar við ICEWATER.

Með LIFE ICEWATER verkefninu gefast tækifæri til nýsköpunar í stjórnsýslunni með þverfaglegu samstarfi með það fyrir augum að bæta vatnsgæði um land allt og miðla þekkingunni áfram.

Ný fastanefnd um öryggis- og varnarmál í Evrópuþinginu

Evrópuþingið samþykkti í vikunni að tillögu forsætisnefndar þingsins að settar verði upp tvær nýjar fastanefndir í þinginu, auk tveggja nýrra sérnefnda. Er hér annars vegar um að ræða fastanefnd um öryggis- og varnarmál og fastanefnd um lýðheilsumál og hins vegar sérnefnd um lýðræðisvarnir og sérnefnd um húsnæðismál.

Ákvörðun þingsins að setja upp sérstaka fastanefnd um öryggis- og varnarmál endurspeglar með skýrum hætti þá stórauknu áherslu sem er á málaflokkinn á vettvangi ESB í ljósi stöðunnar í varnar- og öryggismálum í Evrópu í kjölfar árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu og þeirri gríðarlegu öryggisógn sem stríðið hefur skapað í álfunni, sbr. m.a. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar frá 15. mars sl. þar sem fjallað var um nýja stefnumótun ESB á sviði varnarmála.

Framangreind áhersla endurspeglast jafnframt skýrlega í skipulagi nýrrar framkvæmdastjórnar ESB þar sem ný staða framkvæmdastjóra varnarmála var búin til og hefur Andrius Kubilius frá Litáen verið skipaður í þá stöðu, sbr. nánar um verkefni hans í erindisbréfi sem Ursulu von der Leyen (VdL) forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefur sent honum, sbr. einnig nánar í umfjöllun Vaktarinnar 6. desember sl., um nýja framkvæmdastjórn ESB, sem vísað er til hér að framan.

Framangreindar áherslur endurspeglast ennfremur skýrlega í formennskuáætlun Pólverja sem taka munu við formennskukeflinu í ráðherraráði ESB í byrjun næsta árs, sbr. umfjöllun um þá áætlun hér að framan í Vaktinni.

skýrsla Sauli Niinistö, fv. forseta Finnlands, um viðbúnað og viðbragðsgetu ESB á sviði almannavarna og hermála sem hann tók saman samkvæmt sérstakri beiðni VdL er einnig til marks um þessar áherslubreytingar á vettvangi ESB, en skýrslan er ein fjögurra skýrslna sem veitt er sérstakt vægi í erindisbréfum VdL til framkvæmdastjóra í nýrri framkvæmdastjórn ESB, sbr. umfjöllun um skýrsluna í Vaktinni 6. desember sl.

Sjá nánar um umræddar breytingar á skipulagi þingnefnda í Evrópuþinginu sem allar voru samþykktar með góðum meiri hluta atkvæða í þinginu síðastliðinn miðvikudag hér.

Samningar ESB um veiðiheimildir fyrir árið 2025

Á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í ráðherraráði ESB í síðustu viku náðist pólitískt samkomulag um veiðiheimildir á hafsvæði ESB í Atlantshafi, Norðursjó, Miðjarðarhafi og Svartahafi fyrir árið 2025. Samkomulagið felur í sér ákvörðun um veiðiheimildir á mikilvægustu nytjafiskstofnum á viðkomandi hafsvæðum. Þær heimildir sem samið var um eru í samræmi við markmið um að tryggja sjálfbærni fiskistofna til lengri tíma og verndun vistkerfa hafsins en takmarka um leið áhrif á samfélög sem eru háð veiðum. Sjá nánar frétt á vef ESB hér.

Eftir úrsögn Bretlands úr ESB teljast tilteknir fiskistofnar sem voru í sameiginlegri umsjón ESB og Bretlands nú sameiginlegar auðlindir samkvæmt alþjóðalögum. Í samræmi við viðskipta- og samstarfssamning milli ESB og Bretlands, ræða aðilar saman árlega um gagnkvæmar veiðiheimildir úr sameiginlegum fiskistofnum. Viðræðum ESB og Bretlands lauk með samkomulagi fyrir framangreindan fund ráðherraráðsins í síðustu viku.

Tvíhliða samráði ESB og Noregs og þríhliða samráði um sameiginlega stofna milli ESB, Bretlands og Noregs lauk einnig rétt fyrir fund ráðsins með samkomulagi. Eftir úrsögn Breta úr ESB hafa tvíhliða samningaviðræður milli ESB og Noregs á sviði sjávarútvegs hins vegar reynst erfiðari þar sem Norðmenn sjá hagsmunum sínum betur borgið í samvinnu við Breta þar sem þeir telja sig betur í stakk búna til að halda aftur af kröfum ESB til veiðiheimilda með því móti. Samkomulagið milli ESB og Noregs nær einkum til kvótaskipta á milli aðila og gagnkvæmra veiðiheimilda í lögsögu hvors annars í Norðursjó og Skagerrak.

Hluti af samkomulagi ESB og Noregs er úthlutun kvóta úr norskri lögsögu til Svíþjóðar skv. nágrannasamningi ríkjanna (e. neighbourhood Agreement with Sweden). Samkvæmt sænskum fjölmiðlum eru Svíar ekki ánægðir með nýgerðan samning sérstaklega vegna þess að samkomulagið gerir ekki ráð fyrir veiðum á norskri vorgotssíld í norskri lögsögu eins og áður var. Rök Norðmanna fyrir að ganga ekki til samninga um þessar veiðar eru þau að ESB sé ekki lengur strandríki þegar kemur að norskri vorgotssíld, eftir úrgöngu Bretlands, og eigi því ekki tilkall til kvóta. Standríkin eru Noregur, Ísland, Færeyjar, Bretland og Rússland.

Í nóvember sl. náði ESB samkomulagi við Noreg um veiðar á þorski við Svalbarða eftir þó nokkur fundarhöld þar á meðal á milli framkvæmdastjóra ESB á sviði sjávarútvegsmála og utanríkisráðherra Noregs í júlí og september.

Eins og áður er vikið að telja Norðmenn, eftir Brexit, sig hafa minni hagsmuni af því að semja við ESB um kvótaskipti og gagnkvæmar veiðiheimildir og segja má að samningstaða þeirra hafi að þessu leyti styrkst gagnvart ESB. Athyglisvert er í þessu samhengi að ESB hefur hafið ferli við breytingu á reglugerð um tilteknar ráðstafanir í þeim tilgangi að vernda fiskistofna gagnvart ríkjum sem þeir telja að leyfi ósjálfbærar veiðar. Meginbreytingin sem felst í breytingartillögunni er að skerpa á heimildum ESB til að beita þvingunaraðgerðum ef ríki eru talin ósamvinnuþýð (e. failure to cooperate) s.s. ef þau neita að eiga samráð, virða ekki samþykkt verklag, svara ekki tilboðum eða taka ekki tillit til hagsmuna annarra ríkja o.s.frv. Með þessu leitast ESB við að tryggja sjálfbærar veiðar en ljóst má vera að breytingarnar miða einnig að því að bæta samningstöðu sambandsins.

Varnir gegn fjölþáttaógnum vegna vopnvæðingar í formi fólksflutninga

Hinn 11. desember sl. gaf framkvæmdastjórn ESB út orðsendingu til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um varnir gegn fjölþáttaógnum (e. hybrid threats) vegna vopnvæðingar fólksflutninga (e. weaponisation of migration) af hálfu Rússlands og Hvíta-Rússlands til að styrkja öryggi á ytri landamærum sambandsins. Í orðsendingunni er vísað til þess að alvarlegar og viðvarandi aðgerðir þessara tveggja ríkja á austurlandamærum ESB hafi skapað nýjar áskoranir fyrir sambandið. Talið er að aðildarríkin sem eiga landamæri að þessum tveimur ríkjum þurfi að geta brugðist við þegar fólksflutningum er beitt sem pólitísku vopni til að skapa óstöðugleika innan ESB og hafa áhrif á stefnu og ákvörðunartöku aðildarríkja þess. Markmið orðsendingarinnar er því að styðja aðildarríki í þessari baráttu og til að tryggja öryggi og landamærahelgi ESB. 

Í orðsendingunni er m.a. vísað til ályktana fundar leiðtogaráðs ESB í október 2024 þar sem lýst var yfir stuðningi með aðgerðum Pólverja vegna komu fólks að landamærum þeirra að Rússlandi og Hvíta-Rússlandi, sbr. umfjöllun í Vaktinni 25. október sl. Þá er í orðsendingunni vísað til þeirra ráðstafana sem ESB hefur gert til að bregðast við misnotkun á flótta- og farandfólki (e. instrumentalisation) undanfarin ár, m.a. af Hvíta-Rússlandi gagnvart Lettlandi, Litáen og Póllandi og af hálfu Rússlands gagnvart Finnlandi. Til dæmis er vísað til aðgerðaráætlunar ESB gegn smygli á farandfólki fyrir tímabilið 2021-2025, tillögu framkvæmdastjórnarinnar að tilskipun gegn smygli á farandfólki og endurskoðaðar Schengen-landamærareglur (e. revised Schengen Borders Code), sbr. m.a. umfjöllun Vaktarinnar 25. október sl. um málefni flótta- og farandfólks. Þá er einnig vísað til reglugerðar um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í krísuástandi, sem er hluti af hinum svonefndan hælispakka ESB, sem heimilar aðildarríkjum að víkja frá tilteknum málsmeðferðarreglum þegar umsækjendur koma til ESB undir þessum kringumstæðum, sbr. áður nefnda umfjöllun Vaktarinnar frá 25. október sl.

Orðsendingin greinir í fyrsta lagi þær áskoranir sem uppi eru á ytri landamærum ESB er liggja að Rússlandi og Hvíta-Rússlandi. Í öðru lagi eru lagðar til ákveðnar aðgerðir til að styðja umrædd aðildarríki, og ber þar hæst 170 milljón evra fjárstuðningur úr landamæra- og áritanasjóði ESB (e. Border Management and Visa Instrument) til Eistlands, Finnlands, Lettlands, Litáens, Póllands og Noregs til að m.a. uppfæra rafrænan eftirlitsbúnað, bæta fjarskiptanet, verjast drónainnrásum og auka sveigjanleika landamæraeftirlits. Í þriðja lagi er aðildarríkjum í sérstökum aðstæðum veitt heimild til að ganga lengra en heimilt er skv. afleiddri löggjöf ESB (e. EU secondary legislation) undir eftirliti dómstóls ESB. Þetta getur til dæmis átt við þegar aðgerðir geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir grundvallarréttindi einstaklinga, svo sem varðandi réttinn til alþjóðlegrar verndar. Skilgreinir orðsendingin m.a. þau skilyrði sem þurfa að vera til staðar svo unnt sé að beita þessum undanþágum. Loks er í orðsendingunni lagt til aukið samstarf á milli ESB og aðildarríkja til að bregðast við þessum áskorunum.

Tillagan gengur nú til umræðu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Mercosur - fríverslunarsamningur ESB við ríki í Suður-Ameríku

Þann 6. desember síðastliðinn lauk ESB viðræðum við fjögur ríki í Suður-Ameríku um gerð samstarfs- og fríverslunarsamnings. Þessi ríki eru Argentína, Brasilía, Paragvæ og Úrúgvæ, en þau eru stofnaðilar að tollabandalagi suður Ameríkuríkja sem kallast Mercosur. Viðræðurnar hafa staðið yfir í aldarfjórðung og þeim lauk með formlegri áritun samningsins í Úrúgvæ að viðstöddum leiðtogum Mercosur-ríkjanna og forseta framkvæmdastjórnar ESB, Ursulu von der Leyen, og Maroš Šefčovič, sem fer með utanríkisviðskipti í nýrri framkvæmdastjórn ESB.

Samningurinn er mjög víðtækur og er miklu meira en bara viðskiptasamningur. Þannig er kveðið á um umhverfismál, sjálfbæra þróun og réttindi launþega og fleiri gildi ESB sem Mercosur-ríkin þurfa að undirgangast. Samningurinn var nánast tilbúinn árið 2019 en ekki náðist samkomulag meðal aðildarríkja ESB um innihaldið og eflaust höfðu kosningar til Evrópuþingsins það ár einnig einhver áhrif. Síðan þá er búið að bæta inn sjálfbærnimarkmiðum, aðgerðum í loftslagsmálum, svo sem þeim sem kennd hafa verið við Parísar samkomulagið, markmiðum um varnir gegn eyðingu skóga, verndun vöruheita, o.fl. sem ESB hefur lagt áherslu á.

Samningurinn er afar umdeildur á meðal aðildarríkja ESB þrátt fyrir umfangsmiklar breytingar frá árinu 2019. Samningurinn nýtur stuðnings Þjóðverja en hann mætir harðri andstöðu frá Frökkum og fleiri aðildarríkjum sem enn freista þess að koma í veg fyrir að hann muni taka gildi. Hagur Þjóðverja af samningnum er einkum lægri tollar og betri aðgangur að mörkuðum í Mercosur-ríkjunum fyrir þýska iðnaðarframleiðslu, þ.m.t. bílaiðnaðinn. Frakkland hins vegar, með stuðningi Pólverja og fleiri aðildarríkja, eru andsnúnir samningum einkum hvað varðar tollfrjálsan innflutning á landbúnaðarvörum frá Mercosur ríkjunum þar sem ekki eru gerðar jafn ríkar kröfur til framleiðslunnar og í Evrópu, s.s. á sviði umhverfismála. 

Eins og sést á neðangreindu súluriti, sem birtist í Politico í síðustu viku, þá hafa Þjóðverjar verulegan hag af viðskiptum við Mercosur-ríkin. Myndin sýnir vöruútflutning og vöruinnflutning hjá 10 stærstu viðskiptalöndum Mercosur meðal aðildarríkja ESB á árinu 2023. Á myndinni sést að vöruskiptajöfnuður er verulega neikvæður í Hollandi en minna neikvæður á Spáni, Portúgal og Póllandi, en jákvæður í öðrum ríkjum og verulega jákvæður í Þýskalandi.

Utanríkisviðskipti og tollamál eru að fullu á forræði ESB og semur framkvæmdastjórn ESB um fríverslun fyrir hönd aðildarríkja þess. Af þessum sökum gat framkvæmdastjórnin því lokið viðræðunum við Mercosur þrátt fyrir einbeitta andstöðu Frakka og fleiri aðildarríkja. Hins vegar þarf framkvæmdastjórnin að fá heimild ráðherraráðs ESB til þess að undirrita samninginn og þá þarf að leggja undirritaðan samning fyrir ráðið og Evrópuþingið til staðfestingar. Því er enn ekki útséð með afdrif samningsins. Andstaða Frakklands og Póllands og annarra ríkja sem lýst hafa andstöðu við samninginn við Mercosur er hins vegar ekki nægileg til að koma í veg fyrir að samningurinn verði samþykktur, sérstaklega í ljósi einarðs stuðnings Þýskalands við samninginn. Ef Ítalía myndi hins vegar snúast á sveif með andstæðingum fríverslunar við Mercosur-ríkin næðist næg andstaða á meðal aðildarríkjanna innan ráðherraráðsins til að koma í veg fyrir að það geti samþykkt samninginn. Stjórnvöld í Róm hafa hingað til forðast að lýsa yfir afdráttarlausri afstöðu til samningsins og reyna nú bæði fylgjendur og andstæðingar fríverslunar við Mercosur að vinna stjórn Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, á sitt band.  

Í öllu falli er ljóst að sjaldan hefur verið jafn djúpstæður ágreiningur á meðal aðildarríkja ESB um hvert skuli stefna í utanríkisviðskiptum sambandsins og að hvaða marki ESB skuli taka upp verndarstefnu fyrir innlendar atvinnugreinar eða sækja markvisst á um að auka markaðsaðgang fyrir iðnaðarframleiðslu í ESB. Líklegt er að þessi ágreiningur verið enn frekar í brennidepli standi ESB frammi fyrir því að bregðast við hugsanlegri aukinni verndarstefnu af hálfu bandarískra stjórnvalda í kjölfar forsetaskiptanna í Bandaríkjunum á næsta ári. 

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að smella á „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta