Hoppa yfir valmynd
07. mars 2025 Brussel-vaktin

Leiðtogaráð ESB fellst á tillögur framkvæmdastjórnar ESB um endurvopnun Evrópu

 Að þessu sinni er fjallað um:

  • endurvopnun Evrópu og sérstakan fund leiðtogaráðs ESB
  • hreinatvinnustefnu ESB
  • aðgerðaráætlun um bætt aðgengi að orku á viðráðanlegu verði
  • fyrstu skref nýrrar framkvæmdastjórnar í átt að einföldun regluverks
  • stefnumótun um aukna færni vinnuafls
  • nýja framtíðarsýn í landbúnaði
  • markmið um minni matarsóun og bætta meðhöndlun textílúrgangs
  • umsögn EES/EFTA-ríkjanna um fyrirhugaðar breytingar á reglugerð um eftirlit með erlendum fjárfestingum
  • fund innanríkisráðherra ESB á vettvangi Schengen-ráðsins
  • alþjóðlegan baráttudag kvenna

 

Endurvopnun Evrópu – sérstakur fundur leiðtogaráðs ESB

Efnisyfirlit umfjöllunar:

  • Inngangur
  • Aðdragandi að fundi leiðtogaráðs ESB
  • Tillögur framkvæmdastjórnar ESB um endurvopnun Evrópu
  • Niðurstöður fundar leiðtogaráðsins
  • Upplýsingafundur forseta leiðtogaráðs ESB með leiðtogum ríkja utan ESB

Inngangur

Leiðtogaráð ESB kom saman í gær til sérstaks aukafundar sem helgaður var annars vegar umræðu um  áframhaldandi stuðning ESB og aðildarríkjanna við varnarstríð Úkraínu, stuðning við friðarumleitanir og atbeina ESB að því að halda uppi friði eftir að hann kemst á og hins vegar um fjármögnun stórfelldra aukinna útgjalda til varnarmála. Í fjölmiðlum á meginlandinu hefur verið talað um fundinn sem þann mikilvægasta sem fram hafi farið í ráðinu um áratugaskeið. Leiðtogar allra aðildarríkjanna 27 sátu fundinn, en auk þess var forseti Úkraínu, Volodimír Selenskí, sérstakur gestur í upphafi fundarins og ávörpuðu þau António Costa, forseti leiðtogaráðsins, Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Selenskí blaðamenn sameiginlega við komu Selenskí á fundinn.

Eins og fjallað var um í Vaktinni 14. febrúar sl. var óformlegur fundur leiðtogaráðs ESB sem haldinn var hinn 3. febrúar sl. helgaður umræðu um varnarmál, þar sem grundvallar spurningum um þróun varnarsamstarfs á vettvangi ESB var velt upp af mikilli alvöru. Samkvæmt fyrirliggjandi fundaáætlun ráðsins fyrir árið 2025 var hins vegar ekki ráðgert að næsti fundur ráðsins færi fram fyrr en 20. og 21. mars nk. Afar hröð atburðarás undanfarnar vikur leiddu á hinn bóginn til þess að forseti leiðtogaráðsins, António Costa, ákvað að boða til sérstaks aukafundar í ráðinu.

Aðdragandi að sérstökum fundi leiðtogaráðs ESB

Óhætt er að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar á undanförnum dögum og vikum er kemur að varnar- og öryggismálum í Evrópu og á vettvangi ESB. Í áðurnefndri Vakt 14. febrúar sl. var þróun og staða varnarsamstarfs á vettvangi ESB rakin allt frá því að allsherjarinnrás og árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu hófst 24. febrúar 2022, eða fyrir rétt rúmum þremur árum síðan. Eins og þar kemur fram hefur þróunin í átt til aukins samstarfs á þessu sviði verið afar hröð á þessu tímabili, a.m.k. á mælikvarða ESB. Þróunarhraðinn hefur hins vegar stökkbreyst á síðustu vikum og má segja að upphafið að þeirri atburðarrás hafi verið símtal Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, við Vladímír Pútín, forseta Rússlands, þar sem þeir lögðu á ráðin um að hefja tvíhliða viðræður um vopnahlé og lok stríðsins í Úkraínu, þ.e. án aðkomu Úkraínu sjálfrar eða bandamanna þeirra í Evrópu. Utanríkismálastjóri ESB, Kaja Kallas, ásamt utanríkisráðherrum nokkurra stærstu ríkja Evrópu, brugðust hratt við fréttum af símtalinu með útgáfu svonefndrar Weimar+ yfirlýsingar. Þar er áréttað er að Úkraína og Evrópa yrðu að fá fulla aðild að samningaviðræðum um mögulegt vopnahlé eða lok átakanna í Úkraínu til að tryggja langvarandi og réttlátan frið til handa Úkraínu. Það sé sömuleiðis forsenda öryggis í álfunni og yfir Atlantshafið. Einnig var fjallað um yfirlýsinguna og þá sem að henni stóðu í áðurnefndri umfjöllun Vaktarinnar 14. febrúar sl.

Framangreint símtal átti sér stað skömmu áður en Münchenöryggisráðstefnan fór fram 14.–16. febrúar. Fundur nokkurra evrópskra leiðtoga var síðan haldinn strax í kjölfar ráðstefnunnar í París 17. febrúar að frumkvæði og í boði Frakklandsforseta. Áformaðar tvíhliða viðræður BNA og Rússlands hófust síðan í Sádi-Arabíu 18. febrúar. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, efndi síðan til annars leiðtogafundar sem haldinn var í fjarfundaformi 19. febrúar þar sem bandalagsríkjum sem ekki tóku þátt í hinum fyrri var boðið og tók Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, þátt í honum fyrir hönd Íslands. Hinn 25. febrúar hélt Macron til Washington til fundar við Trump og í fótspor hans hélt Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, sömuleiðis til Washington til fundar við Trump 27. febrúar. Var svo að sjá að upp væri að teiknast tiltekin áætlun meðal leiðtoganna sem saman stæði annars vegar af samningi milli BNA og Úkraínu um heimildir BNA til vinnslu jarðefna í Úkraínu sem Trump hefur gert kröfu um og hugsað sem tiltekið endurgjald fyrir veitta aðstoð BNA í varnarbaráttu Úkraínumanna í stríðinu. Hins vegar gerði áætlunin ráð fyrir að í kjölfar vopnahlés og/eða friðarsamkomulags myndu Evrópuríki undir forystu Bretlands og Frakklands axla ábyrgð á friðargæslu í Úkraínu ef samningar um vopnahlé og frið næðust. Degi eftir heimsókn Starmers hélt Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, til Washington til fundar við Trump en á þeim fundi stóð m.a. til að framangreindur samningur milli ríkjanna um heimildir BNA um vinnslu jarðefna í Úkraínu yrði undirritaður. Af því varð þó ekki eins og kunnugt er . Frá Washington hélt Selenskí til Bretlands til fundar við Starmer og virðist sá fundur hafa gengið vel. Hélt Starmer sínu striki og tilkynnti um vilja Bretlands til að axla ábyrgð við friðargæslu í Úkraínu þegar og ef samningar um frið eða vopnahlé nást. Þá efndi Starmer til leiðtogafundar í London 2. mars þar sem rætt var um mögulega friðargæslu í Úkraínu með þátttöku viljugra þjóða.

Ekki er ætlunin hér að fjalla nánar um framangreinda viðburði eða það sem þar kom fram, enda eru þau efnisatriði flestum vel kunn, heldur verður sjónum beint að þeim áhrifum sem framangreindir atburðir hafa óneitanlega haft á framþróun varnarsamstarfs á vettvangi ESB og í Evrópu almennt, sbr. niðurstöður fundar leiðtogaráðs ESB í gær.

Tillögur framkvæmdastjórnar ESB um endurvopnun Evrópu

Í aðdraganda að sérstökum fundi leiðtogaráðs ESB í gær sendi forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen (VdL), bréf til leiðtoga aðildarríkja ESB. Í ávarpi á fréttamannafundi 4. mars sl. kynnti hún efni bréfsins og tillögur framkvæmdastjórnarinnar um stórfelld aukin útgjöld til að endurvopna Evrópu (e. rearm).

Í máli VdL lýsti hún þeirri alvarlegu stöðu sem upp væri komin í öryggis- og varnarmálum Evrópu og nú reyni á hvort ESB og Evrópa væru reiðubúin til grípa til jafn ákveðinna aðgerða og staðan krefst (e. „act as decisively as the situation dictates“). Tímabært væri að endurvopna (e. re-arm) Evrópu með því að auka fjárveitingar til varnarmála stórkostlega. Í því verði að felast bæði tafarlausar aðgerðir til að styðja við Úkraínu en einnig aðgerðir til lengri tíma til að axla ábyrgð á öryggi Evrópu.

Meginmarkmið tillagna framkvæmdastjórnarinnar er að gera aðildarríkjum ESB kleift að auka framlög sín til varnarmála fljótt og örugglega. Tillögunum er ætlað að tryggja að slík aukning geti komið til framkvæmda nú þegar en jafnframt eru þær hugsaðar til lengri tíma. Tillögur VdL fela í sér fimm meginþætti:

  • Í fyrsta lagi er lagt til að nýtt verði heimild til að aðildarríki ESB megi víkja frá stöðugleikamarkmiðum sambandsins (e. Stability and Growth Pact) sem ætlað er að takmarka fjárlagahalla í aðildarríkjunum og draga úr skuldsetningu þeirra, ef svigrúmið sem það veitir er nýtt til að auka fjárveitingar til varnarmála. Ef aðildarríkin nýta sér þetta svigrúm sem nemur 1,5% af vergri landsframleiðslu í ríkjunum myndi það skila sér í 650 milljarða evra aukningu til varnarmála á næstu fjórum árum.
  • Í öðru lagi hyggst framkvæmdastjórnin leggja til að 150 milljörðum evra verði varið til að koma á fót nýjum sjóði sem veitt getur aðildarríkjunum lán til sameiginlegra innkaupa og fjárfestinga í auknum hergögnum og búnaði. Sjóðurinn verði fjármagnaður með sameiginlegri lántöku á svipaðan hátt og endurreisnarsjóðurinn sem komið var á fót í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar . Búnaður sem heimilt verður að lána til kaupa á úr sjóðnum verði m.a. loftvarnar- og eldflaugavarnarkerfi, stórskotaliðsbúnaður, eldflaugar og vopnuð drónaloftför. Sagði VdL að fjármögnun sameiginlegra innkaupa á hergögnum úr slíkum sjóði myndi gera aðildarríkjunum kleift að auka verulega stuðning sinn við Úkraínu, stuðla að eflingu evrópsk hergagnaiðnaðar og styrkja hernaðarsamstarf Evrópuríkja, auk þess sem sameiginleg innkaup séu líkleg til að draga úr kostnaði og auka samhæfingu.
  • Í þriðja lagi leggur framkvæmdastjórnin til að fjárlögum ESB verði beitt til að auka fjárveitingar til varnarmála. Til skemmri tíma leggur framkvæmdastjórnin til að veittar verði tímabundnar heimildir til handa aðildarríkjunum, ef þau svo kjósa, til að nýta samheldnissjóði ESB til þess að standa straum af kostnaði vegna endurvopnvæðingarinnar.
  • Í fjórða lagi lúta tillögur framkvæmdastjórnarinnar að því að leysa fjárfestingar einkaaðila úr læðingi til að fjármagna fjárfestingar í vígbúnaði með því að hrinda í framkvæmd boðuðum tillögum um svonefnt sparnaðar- og fjárfestingarbandalag ESB („savings and investment union“) sem er beint framhald af fyrri stefnu sambandsins um uppbyggingu hins sameiginlega fjármagnsmarkaðar (e. Capital Markets Union).
  • Í fimmta og síðasta lagi er lagt til að Fjárfestingarbanka Evrópu verði gert kleift að veita rýmri heimildir til lánveitinga á sviði varnarmála.

Niðurstöður sérstaks fundar leiðtogaráðsins

Af niðurstöðum fundarins er ljóst að hann markar þáttaskil á vettvangi ESB þegar kemur að varnarmálum og þróun varnarsamstarfs á vettvangi ESB eins og greina mátti í ávörpum bæði VdL og António Costa, forseta leiðtogaráðsins, að loknum fundinum. Í stuttu máli lýsti leiðtogaráðið einróma yfir afgerandi stuðningi við allar framangreindar tillögur framkvæmdastjórnarinnar um endurvopnum Evrópu sem áætlað er að muni gera aðildarríkjunum kleift að verja allt að 800 milljörðum evra í aukin útgjöld til varnarmála á næstu fimm árum.

Á hinn bóginn náðist ekki full samstaða meðal allra aðildarríkjanna um aukinn hernaðarlegan stuðning við Úkraínu. Það var þó einungis eitt ríki, þ.e. Ungverjaland, sem kom í veg fyrir að full samstaða næðist í þessum efnum. Það kom á hinn bóginn ekki í veg fyrir að hin 26 aðildarríkin sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem fram kemur mjög afgerandi stuðningur við áframhaldandi stuðning við Úkraínu. Í yfirlýsingunni eru sett fram grundvallarsjónarmið sem ætlað er að vera leiðarljós er kemur að friðarviðræðum, m.a. um að ekki verði samið um Úkraínu án Úkraínu, að Evrópa þurfi að taka þátt í viðræðum sem varði öryggi Evrópu, að mögulegu samkomulagi þurfi að fylgja tryggingar fyrir öryggi og að í varanlegum friði sem tryggi virðingu fyrir sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi yfirráðasvæðis Úkraínu. Áréttaður er stuðningur ESB við frið fyrir Úkraínu og því fylgi þörf á áframhaldandi þvingunaraðgerðum og framfylgd þeirra til þess að halda aftur af Rússlandi. Þá er fjallað um fjárhagslegan og hernaðarlegan stuðning, auk stuðnings við þjálfun herafla Úkraínu og áréttað að réttur Úkraínu til að ráða örlögum sínum sjálf byggist á stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og þjóðarétti. Fjallað er um öryggistryggingar fyrir Úkraínu og tekið fram að slíkar tryggingar þurfi að þróa með þátttöku Úkraínu og bandalagsríkjum Atlantshafsbandalagsins. Þá er tekið fram að auka eigi stuðning við umbætur í Úkraínu til að styðja við vegferð þeirra til aðildar að ESB. Róbert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, fékk því framgengt að skrifað er inn ákall til framkvæmdastjórnarinnar, Slóvakíu og Úkraínu um að settur verði aukinn kraftur í að finna framkvæmanlega lausn á vanda Slóvakíu við innflutning á gasi, en vandi þeirra í þeim efnum hefur aukist mjög eftir að Úkraína stöðvaði allan flutning á rússnesku gasi í gegnum sitt landsvæði.

António Costa, forseti leiðtogaráðsins, gerði ekki mikið úr framangreindum ágreiningi við Orbán í ávarpi sínum á fréttamannafundi eftir fundinn en lagði þess í stað áherslu að samstaða annarra aðildarríkja hefði verið órofa. Afstaða Orbáns hafi legið fyrir fyrir fundinn sem og samstaða hinna 26 ríkjanna, því hafi ekki þótt ástæða til að verja miklum tíma í umræðu um þetta á fundinum.

Framangreindar niðurstöðurnar og framfylgd þeirra af hálfu framkvæmdastjórnarinnar og annarra stofnanna ESB sem og yfirlýsing aðildarríkjanna 26 mun verða til áframhaldandi umræðu á næsta reglulega fundi leiðtogaráðsins sem fram fer eftir einungis  hálfan mánuð, 20.-21. mars nk.

Upplýsingafundur forseta leiðtogaráðs ESB með leiðtogum nokkurra bandalagsríkja a utan ESB

Forseti leiðtogaráðsins, António Costa, efndi ásamt forseta framkvæmdastjórnarinnar, Ursulu von der Leyen, í morgun til fjarfundar með leiðtogum nokkurra ríkja utan ESB, þ.e. Bretlands, Tyrklands, Kanada, Noregs og Íslands til þess að fara yfir niðurstöður gærdagsins og tók Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, þátt í fundinum fyrir Íslands hönd. Af hálfu ESB sat Kaja Kallas einnig fundinn. Sjá nánar um fundinn í fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins.

Hreinatvinnustefna ESB

Framkvæmdastjórn ESB birti hinn 26. febrúar sl. orðsendingu til Evrópuþingins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar um nýja hreinatvinnustefnu; vegvísi til aukinnar samkeppnishæfni og afkolunar (e. The Clean Industrial Deal: A joint roadmap for competitiveness and decarbonisation).

Stefnunnar hefur verið beðið með eftirvæntingu en segja má að orðsendingin og sú áætlun sem í henni felst sé hryggjarstykkið í nýrri samþættri áætlun nýrrar framkvæmdastjórnar um aukna samkeppnishæfni atvinnulífs í ESB annars vegar og markmiðssetningar í loftslagsmálum hins vegar. Byggist áætlunin í grunninn á pólitískri stefnumörkun (e. Political Guidelines)  Ursulu von der Leyen (VdL), forseta framkvæmdastjórnarinnar, sem hún birti í júlí sl. í aðdraganda að kjöri hennar í embætti forseta, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 26. júlí sl. um þær áherslur, sbr. einnig starfsáætlun framkvæmdastjórnarinnar fyrir árið 2025, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 14. febrúar sl. um þá áætlun. Framangreind stefnumörkun framkvæmdastjórnarinnar byggist síðan aftur að stórum hluta á skýrslu Mario Draghi um samkeppnishæfni ESB til framtíðar, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 13. september sl., um þá skýrslu, sbr. einnig skýrslu Enrico Letta um framtíð innri markaðarins, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 19. apríl sl.

Í orðsendingunni kemur jafnframt fram að stefnan hafi verið mótuð í virku samráði við hagaðila, sbr. m.a. svonefnda Antwerpen yfirlýsingu, sem evrópskir iðnrekendur sendu frá sér í febrúar 2024 en fjallað var um yfirlýsinguna og ákall iðnleiðtoganna um aukna samkeppnishæfni og framfylgd Græna sáttmálans í Vaktinni 1. mars 2024.

Hreinatvinnustefnan felur í raun í sér beint framhald af Græna sáttmálanum (e. The European Green Deal) og þá jafnframt af framkvæmdaáætlun eða (atvinnuáætlun) Græna sáttmálans, sbr. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 10. febrúar 2023, um þá áætlun, en eftir þeirri áætlun var unnið á síðasta stefnumótunartímabili ESB. Ljóst er þó að fókusinn hefur færst til, þ.e. hann er nú í grunninn settur á atvinnuppbyggingarmarkmiðin en síður á umhverfismarkmiðin. Þetta er þó ef til vill frekar spurning um orðalag en markmið, því markmiðunum er ætlað vinna hvoru með öðru og breytingin því ef til vill ekki eins mikil og ætla mætti í fyrstu.

Með stefnumótuninni er leitast við að horfast í augu við þær miklu áskoranir sem iðnaður og atvinnulíf í ESB standa frammi fyrir m.a. vegna hás orkuverðs og ósanngjarnar alþjóðlegrar samkeppni. Þá er þeirri áætlun sem felst í stefnumótuninni ætlað að skapa festu og aukinn fyrirsjáanleika fyrir fyrirtæki og fjárfesta þar á meðal um að ESB ætli sér, þrátt fyrir allt, að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050, enda er slíkt markmið talið forsenda aukinnar samkeppnishæfni og lífsgæða til lengri tíma.

Snar þáttur í áætluninni eru áform framkvæmdastjórnarinnar um að ráðist verði í umfangsmiklar og víðfeðmar lagabreytingar sem miði að því einfalda regluverk og létta reglubyrði af atvinnulífinu. Tvær slíkar bandormslöggjafartillögur (Omnibus 1 og Omnibus 2), sú fyrri á sviði sjálfbærnimála og hin síðar á sviði fjárfestinga, voru lagðar fram og birtar samhliða hreinatvinnustefnunni og er fjallað um þær tillögur sérstaklega í Vaktinni hér að neðan.

Stefnan felur þannig í reynd í sér viðskipaáætlun um afkolun, eflingu iðnaðar og nýsköpunar.

Í stefnunni er sjónum beint sérstaklega að tveimur megin þáttum, annars vegar að orkufrekum iðnaði og hins vegar að hreinorkutækni.

Talið er, svo sem ljóst má vera, að orkufrekur iðnaður þurfi á sérstökum stuðningsaðgerðum að halda við afkolun og rafvæðingu. Geirinn stendur frammi fyrir háum orkukostnaði, ósanngjarnri alþjóðlegri samkeppni og flóknu regluverki sem þykir skaða samkeppnishæfni hans. Framþróun græns tækniiðnaðar og innleiðing grænnar tækni sé hins vegar forsenda fyrir samkeppnishæfni og hagvexti til framtíðar. Efling hringrásarhagkerfisins er einnig miðlægur þáttur í stefnunni en með hringrásaráherslum sé unnt að hámarka nýtingu takmarkaðra auðlinda ESB og auka óhæði frá birgjum þriðju ríkja um hráefni og hámarka virðiskeðjuna frá upphafi til enda. Í þessu sambandi er m.a. boðuð aðgerðaráætlun fyrir bílgreinaiðnaðinn síðar í þessum mánuði sem og aðgerðaráætlun um aðgengi að stáli og öðrum málmum í haust.

Nánar tiltekið felur hreinatvinnustefnan í sér eftirfarandi meginþætti:

  • Aðgerðaráætlun um bætt aðgengi að orku á viðráðanlegu verði (e. Action Plan on Affordable Energy).

    Áætlunin hefur þegar verið birt, sbr. sérstaka umfjöllun um þá áætlun hér að neðan í Vaktinni.

  • Aðgerðir til að auka eftirspurn eftir hreinum vörum.

    Boðuð er löggjafartillaga um hröðun á afkolun í iðnaði (e. Industrial Decarbonisation Accelerator Act) sem hefur það markmið að auka eftirspurn eftir hreinum vörum sem framleiddar eru í ESB, meðal annars með breytingum á reglum um opinber útboð við innkaup á vörum á strategískum sviðum. Með löggjöfinni verði jafnframt settar reglur um valfrjálsar ESB-merkingar á vörur til að auðkenna kolefnisstyrk þeirra. Slíkar merkingar verða til byrja með mögulegar fyrir stál og því næst fyrir sement. Þá stendur til að einfalda og samræma aðferðarfræði og reglur um kolefnisbókhald. Innbyggður verður efnahagslegur hvati fyrir framleiðendur til að nota umræddar merkingar.

  • Aðgerðir til að greiða fyrir fjármögnun grænna umskipta

    Til skemmri tíma gerir áætlunin ráð fyrir að 100 milljónir evra verði virkjaðar til að styðja við græna framleiðslu innan ESB. Í þessu skyni hyggst framkvæmdastjórnin grípa til eftirfarandi aðgerða:

    • Innleiða nýjan regluramma um ríkistyrki til iðnaðar sem talinn er styðja við markmið hreinatvinnustefnunnar.
    • Efla nýsköpunarsjóð ESB (e. Innovation Fund).
    • Breyta reglugerð um InvestEU til að draga úr áhættufælni við úthlutun styrkja.

    Þá er jafnframt ráðgert að Evrópski fjárfestingabankinn (e. European Investment Bank) kynni til sögunnar nýjar fjármögnunarleiðir til að styðja við markmið hreinatvinnustefnunnar.

  • Aðgerðir til að efla hringrásarhagkerfið

    Nægt aðgengi að mikilvægum hráefnum er grundvallar þáttur við eflingu iðnaðar. Til að styðja við nægt framboð hráefna og til að styðja við óhæði gagnvart ótraustum birgjum hyggst framkvæmdastjórnin efla enn frekar hringrásarhagkerfið með ýmsum aðgerðum, m.a. með setningu sérstakrar hringrásarlöggjafar og er sú löggjöf boðuð árið 2026.

  • Efling samstarfs á heimsvísu

    Fram kemur í orðsendingunni að ESB þarfnist traustra alþjóðlegra samstarfsaðila meira nú en nokkru sinni fyrr. Þannig hyggst ESB halda áfram að byggja upp net viðskipasamninga við þriðju ríki auk þess sem til stendur að hleypa af stokkunum nýju módeli af viðskipta- og fjárfestingasamstarfssamningum. Er þeim ætlað að auka fjölbreytni í aðfangakeðjum og gagnkvæmum fjárfestingum á sama tíma og brugðist verður við af meiri festu til að verja atvinnugreinar gegn ósanngjarnri alþjóðlegri samkeppni og offramboði. Til að liðka fyrir samningsgerð samkvæmt framangreindu stendur meðal annars til að einfalda nýlegt regluverk ESB um kolefnisjöfnunargjald við landamæri (e. Carbon Border Adjustment Mechanism - CBAM), sbr. umfjöllun um þær reglur í Vaktinni 23. júní 2023.

  • Aðgerðir til að tryggja aðgang að hæfu og vel menntuðu vinnuafli

Önnur forsenda fyrir framgangi hreinatvinnustefnunnar er að atvinnulífið hafi aðgang að hæfu og vel menntuðu vinnuafli. Til að mæta þessu felur stefnumótunin í sér að efnt verði til færniátaks (e. Union of Skills) og var sérstök stefnumótun í þá veru kynnt samhliða hreinatvinnustefnunni, sbr. sérstaka umfjöllun um það átak hér að neðan í Vaktinni.

Aðgerðaráætlun um bætt aðgengi að orku á viðráðanlegu verði

Hinn 26. febrúar sl. birti framkvæmdastjórn ESB aðgerðaráætlun um bætt aðgengi að orku á viðráðanlegu verði (e. Affordable Energy Action Plan). Aðgerðaáætlunin er ein af meginstoðum nýrrar hreinatvinnustefnu ESB (e. Clean Industrial Deal), sbr. umfjöllun hér að ofan í Vaktinni um þá stefnu. Með aðgerðaráætluninni er áætlað að unnt sé að ná fram sparnaði fyrir neytendur og atvinnulíf sem gæti numið um 260 milljörðum evra á ári frá og með árinu 2040.

Til að ná markmiðum hreinatvinnustefnunnar þarf ESB að tryggja orkuframboð á viðráðanlegu verði. Áætlunin byggir á skipulögðum aðgerðum til skamms tíma sem ætlað er að leiða fram aukna samkeppnishæfni, viðráðanlegt orkuverð, orkuöryggi og sjálfbærni fyrir íbúa og atvinnulíf.

Aðgerðaáætluninni er ætlað að takast á við háan orkukostnað iðnaðar, fyrirtækja og heimila og stuðla um leið að umskiptum yfir í lágkolefnishagkerfi með auknu orkuöryggi. Áætlun er byggð á fjórum meginstoðum þar sem lögð er áhersla á að:

  • lækka orkukostnað fyrir alla, með því að tryggja örugga, skilvirka og hreina orku á viðráðanlegu verði,
  • ljúka við útfærslu á Orkusambandi ESB (e. Energy Union), þ.e. að efla samþættingu og skilvirkni orkumarkaðar ESB,
  • laða að fjárfestingar í orkuinnviðum og tryggja afhendingaröryggi orku og
  • að undirbúa ESB fyrir hugsanlega orkukreppu.

Á grundvelli þessara meginstoða eru átta megin aðgerðir tilgreindar. Í aðgerðaráætluninni eru síðan taldar upp fjölmargar tímasettar tillögur, þ. á m. eru nokkrar löggjafatillögur. Stefnt er að því að hluti af þessum tillögum komi til framkvæmda í ár, á næsta ári eða eigi síðar en um mitt ár 2027.

Fyrstu skref nýrrar framkvæmdastjórnar í átt að einföldun regluverks

Eins og vikið er að í umfjöllun hér að framan um hreinatvinnustefnu ESB er það snar þáttur í markmiðum nýrrar framkvæmdastjórnar um bætta samkeppnishæfni atvinnulífs og iðnaðar í ESB að einfalda regluverk. Stefnumótun framkvæmdastjórnarinnar er varðar einföldun er lýst í sérstakri orðsendingu sem birt var samhliða starfsáætlun framkvæmdastjórnarinnar fyrir árið 2025, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 14. febrúar sl. um starfsáætlunina. Þar kemur fram að framkvæmdastjórnin muni hefja aðgerðir sínar í átt að einföldun með þremur tillögum að lagabreytingum, svonefndum bandormstillögum (e. Omnibus package), þar sem lagðar eru til  breytingar á nokkrum gildandi reglugerðum og tilskipunum. 

Framkvæmdastjórn ESB lagði fram tvær af þessum þremur tillögum fram 26. febrúar sl., eða samhliða orðsendingu um Græna iðnaðarsáttmálann, Omnibus I og Omnibus II. Í fréttatilkynningu um þessar tillögur sem birtist sama dag kemur fram að markmið þeirra sé m.a. að:

  • Minnka reglubyrði um 25% fyrir fyrirtæki og enn meira fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, eða um 35%
  • Leysa úr læðingi 50 milljarða evra í fjárfestingum opinberra aðila og einkaaðila
  • Lækka kostnað við eftirlit sem nemur 6,3 milljörðum evra árlega

Fyrri tillagan, Omnibus I, leggur til breytingar á fjórum gildandi lagabálkum. Fyrst ber að nefna ramma til að greiða fyrir sjálfbærri fjárfestingu (e. taxonomy for sustainable finance) sem er umfangsmikið regluverk sem skilgreinir hvaða starfsemi telst græn og hvaða starfsemi telst það ekki. Ramminn tók gildi í ESB árið 2020 en um hann hefur verið fjallað nokkrum sinnum í Vaktinni, t.d. 18. desember 2020 og 23. júní 2023. Næst ber að nefna tilskipun um áreiðanleikakannanir á sjálfbærni fyrirtækja (e. corporate sustainability due diligence, CSDDD) sem tók gildi í ESB sumarið 2024 og fjallað var um í Vaktinni 16. febrúar sama ár. Þá kemur tilskipun um sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja (e. corporate sustainability reporting directive, CSRD) sem tók gildi í ESB í janúar 2024 og skilgreinir hvaða upplýsingar fyrirtæki þurfa að gefa upp um umhverfis- og félagsleg áhrif sín. Loks breytir tillagan reglugerð um kolefnisjöfnunargjald við landamæri (e. carbon border adjustment mechanism, CBAM) en reynslutímabil hennar í ESB hófst í september 2023. CBAM leggur kolefnisjöfnunargjöld á ákveðnar innfluttar vörur inn á tollsvæði ESB til þess að draga úr hættu á kolefnisleka en um hana var ítarlega fjallað í Vaktinni 23. júní 2023.

Helstu breytingar sem lagðar eru til eru eftirfarandi:

  • CSRD – mjög dregið úr umfangi skýrslugjafar
    • Gildistöku ákvæða tilskipunarinnar er varðar mörg fyrirtæki verði frestað um 2 ár
    • 80% fyrirtækja verða undanskilin gildissviði tilskipunarinnar vegna nýrra lágmarksviðmiða um starfsmannafjölda, veltu og eignir.
    • Horfið verði frá því að mæla fyrir um sérstakar kröfur fyrir ákveðna geira (e. sector-specific standards)
  • CSDDD – áreiðanleikakannanir gangi skemur en áður var gert ráð fyrir
    • Áhersla lögð á beina birgja, þ.e. ekki þurfi að athuga eins ítarlega alla í aðfangakeðjunni
    • Athugunum fækkað, breytt úr árlegum athugunum í athuganir sem framkvæmdar eru á 5 ára fresti
    • Hætt við skaðabótaábyrgð og viðurlög milduð
    • Gildistöku ýmissa íþyngjandi ákvæða frestað um 2 ár
  • Rammi um sjálfbærni (taxonomy) – skýrslugjöf að mestu gerð valkvæð
    • Ramminn mun bara eiga við fyrirtæki með meira en 1.000 starfsmenn
    • Skýrslugjöf valkvæð fyrir um 80% fyrirtækja
    • Sniðmát skýrslna einfaldað til þess að draga úr reglubyrði
  • CBAM – einföldun og seinkun gildistöku
    • 90% vöruinnflytjenda, einkum smærri innflytjendur, fái undanþágu frá reglunum en regluverk CBAM nái eftir sem áður að dekka 99% af vöruinnflutningi með tilliti til markmiða um samdrátt í losun
    • Gjaldtöku, sem átti að hefjast 1. janúar 2026, verði seinkað til ársins 2027

Af þessum fjórum gerðum hefur eingöngu ramminn um sjálfbærni verið innleiddur á Íslandi árið 2023 en hinar þrjár hafa enn ekki verið teknar upp í EES-samninginn.

Seinni tillagan, Omnibus II, felur í sér breytingar til að einfalda og bæta notkun nokkurra samstarfs- og fjárfestingaráætlana ESB, þ.m.t. Invest EU-sjóðinn og Evrópusjóðinn fyrir stefnumiðaðar fjárfestingar (e. European Fund for Strategic Investments, EFSI). Fjallað var um InvestEU sjóðinn í Vaktinni 9. júní 2023 um það leyti sem Ísland hóf þátttöku í honum. Tillagan felst í einföldun á stjórnsýslu fjárfestingaáætlana sem hún nær til og er þar búist við u.þ.b. 350 milljóna evru sparnaði. Í breytingatillögunum felst einnig hækkun ábyrgða ESB og lausnir til að nýta ábyrgðir veittar í gegnum InvestEU til þess að sækja fjármagn í aðrar eldri áætlanir ESB, t.d. EFSI og er búist við að með því aukist fjárfestingargetan um sem nemur 50 milljörðum evra í þágu áherslumála ESB nú um mundir og falla undir Leiðavísi fyrir aukna samkeppnishæfni, sem fjallað var um í Vaktinni 31. janúar 2025 og Græna iðnaðarsáttmálann, sem fjallað er um hér að framan í Vaktinni.

Á næstu mánuðum er von á a.m.k. einni Omnibus-tillögu til viðbótar þar sem m.a. verður dregið úr reglubyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja og skyldum þeirra um skýrsluskil.

Stefnumótun um aukna færni vinnuafls – færnisamband ESB

Hinn 5. mars sl. birti framkvæmdastjórn ESB orðsendingu  um nýja stefnu á sviði mennta- og atvinnumála um færniátak eða um svonefnt færnisamband ESB (e. Union of Skills). Stefnumótunin er ein af meginstoðum nýrrar hreinatvinnurstefnu ESB (e. Clean Industrial Deal), sbr. umfjöllun hér að framan í Vaktinni um þá stefnu.

Í stefnuskjalinu kemur fram að styrkur ESB byggist á mannauði og sameiginlegri sýn um jöfn tækfæri og félagslega samheldni. Á undanförnum árum hafi skortur á starfsfólki í Evrópu með rétta hæfni til þess að mæta þeim breytingum sem orðið hafa og eru fyrirsjáanlegar á vinnumarkaði verið viðvarandi, m.a. vegna lýðfræðilegrar þróunar og grænu og stafrænu umskiptanna. Þá hafi Evrópa dregist aftur úr öðrum álfum hvað varðar grunnþekkingu nemenda í lestri, stærðfræði og vísindum eins og glöggt má sjá í niðurstöðum PISA kannana, auk þess sem minna en helmingur fullorðinna hefur grunnfærni í notkun stafrænnar tækni.

Talið er nauðsynlegt að bregðast við þessu með ýmsum aðgerðum til þess að tryggja samkeppnishæfni og viðnámsþrótt ESB til framtíðar.

Helstu markmið stefnunnar eru:

  • Að bæta grunnfærni nemenda í ESB og er sérstök aðgerðaráætlun um grunnfærni (Action Plan on Basic Skills) birt sem hluti af færnistefnunni.
  • Stefnt er að því að tryggja fólki tækifæri til endur- og símenntunar alla ævi, til þess að gera því fært að bregðast við breytingum og auknum kröfum á vinnumarkaði Auðvelda á fyrirtækjum í ESB að finna starfsfólk með rétta hæfni, meðal annars með aukinni áherslu á viðurkenningu starfsréttinda og hæfni milli landa og auðvelda þannig frjálsa för.
  • Stefnt verður að því að laða að fólk frá þriðju ríkjum með þá hæfni og færni sem ESB þarfnast. Hér er bæði átt við leit að vinnuafli, og er í því sambandi vísað til Evrópska hæfileikabrunnsins, sem fjallað var um í Vaktinni 23. nóvember 2023 en einnig á að leitast við að laða að fyrirtæki og hæfileikafólk og er í því sambandi vísað til samstarfsverkefnisins „Veldu Evrópu“ (e. Choose Europe) sem ýmsar evrópskar borgir standa að í þeim tilgangi að kynna Evrópu sem ákjósanlega staðsetningu fyrir fyrirtæki og hugveitur.
  • Styrkja samþættingu og samráð í málaflokknum.

Auk aðgerðaráætlunar um grunnfærni birti framkvæmdastjórnin einnig aðgerðaráætlun um menntun í stærðfræði, tæknigreinum, raunvísindum og nýsköpun (STEM Education Strategic Plan) þar sem brugðist er sérstaklega við versnandi árangri nemenda í þessum greinum auk þess sem þar er lögð sérstök áhersla á að fá fleiri konur til að mennta sig á þessum sviðum. Í áætluninni eru sett fram markmið um að fyrir árið 2030 skuli að lágmarki 45% nemenda sækja sér grunnmenntun í iðn- og tæknigreinum, og að konur verði að minnsta kosti fjórðungur þeirra nemenda og að minnsta kosti 32% nemenda sem stundi nám á háskólastigi í þessum greinum, og að þar af verði konur a.m.k. 40%.

Ný framtíðarsýn í landbúnaði

Framkvæmdastjórn ESB kynnti 19. febrúar sl. nýja stefnu og framtíðarsýn fyrir landbúnað og matvælaframleiðslu í ESB (e. vision for Agriculutre and Food) í formi orðsendingar til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB. Orðsendingin er að mestu unnin upp úr skýrslu sem framkvæmdastjórnin lét vinna fyrir sig og kom út í september í fyrra um framtíð landbúnaðar (e. Strategic dialogue on the future of the EU agriculture), sbr. umfjöllun um þá skýrslu í Vaktinni 11. október sl. Þessi stefnumótunarvinna er á meðal forgangsverkefna nýrrar framkvæmdastjórnar ESB sem tók við embætti 1. desember í fyrra.

Í stefnuskjalinu er horft fram til ársins 2040 og felur stefnan í sér svar framkvæmdastjórnarinnar við óánægjuröddum bænda um kjör sín og rekstrarskilyrði, einkum hvað varðar auknar kröfur í umhverfismálum, aukna skriffinnsku, aukin innflutning landbúnaðarvara frá þriðju ríkjum og ósanngjarna viðskiptahætti. Hafa bændur sýnt óánægju sína í verki með mótmælum víða um álfuna á undanförnum misserum, sbr. meðal annars umfjöllun Vaktarinnar 1. mars 2024.

Í nýrri framtíðarsýn ESB fyrir landbúnað er lagður grunnur að bættum rekstrarskilyrðum í landbúnaði með það að markmiði að gera hann samkeppnishæfari, eftirsóknarverðari fyrir unga bændur og viðnámsþolnari til lengri tíma. Stefnt er að einföldun regluverks, aukinni nýsköpun og aukinni stafvæðingu. Síðar á þessu ári hyggst framkvæmdastjórnin leggja fram bandormstillögu um einföldun regluverks á sviði landbúnaðar og matvælaframleiðslu ásamt stafrænni stefnu fyrir landbúnaði til að styðja við stafræn umskipti á þessum sviðum.

Í framtíðarsýnni eru fjögur megin áherslusvið tilgreind:

  1. Eftirsóknarverður starfsvettvangur
    Rekstrarskilyrði í landbúnaði þurfa að búa yfir nauðsynlegum stöðugleika til að laða ungt fólk til starfa í greininni með sanngjörnum tekjum og markvissari opinberum stuðningi. Einnig þurfi að hlúa að nýsköpun og nýjum búskaparháttum þar sem umhverfisvernd verður hluti af tekjumódelinu. Koma á í veg fyrir að bændur séu neyddir til að selja vörur sínar kerfisbundið undir kostnaðarverði m.a. með endurskoðun á tilskipun um ósanngjarna viðskiptahætti. Framkvæmdastjórnin hyggst einnig leggja fram á þessu ári áætlun um kynslóðaskipti í landbúnaði með aðgerðum bæði miðlægt á vettvangi ESB og í einstökum aðildarríkjum.
  2. Samkeppnishæfur og viðnámsþolinn landbúnaður
    ESB mun áfram leggja höfuðáherslu á matvælaöryggi og sjálfbæra matvælaframleiðslu. Í nýjum viðskiptasamningum við önnur ríki um landbúnaðarvörur verði gætt betur að hagsmunum bænda. Kröfur verða samræmdar milli innfluttra landbúnaðarvara og landbúnaðarvara sem framleiddar eru í ESB til að tryggja sanngjarna og heiðarlega samkeppni. Í því samhengi verði ráðist í aðgerðir strax á þessu ári til að tryggja samræmi er kemur að notkun á hættulegu skordýraeitri og velferð dýra. Að auki verður hvergi vikið frá ESB-stöðlum er varðar eftirlit með matvælaöryggi.
  3. Loftslagsvænn landbúnaður
    Landbúnaður í Evrópu gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að samdrætti í kolefnislosun. Í framtíðarsýninni er áréttað mikilvægi þess að samræma loftslagsaðgerðir og fæðuöryggi og aðrar áskoranir sem landbúnaðurinn stendur frammi fyrir. Boðað er að bændur fái umbun fyrir að taka upp umhverfisvænni búskaparhætti. Í þessu samhengi verða frekari bönn við notkun varnarefna s.s. skordýraeiturs endurskoðuð og framboð af lífrænum varnarefnum aukið. Þróað verður kerfi fyrir bændur til að mæla sjálfbærni með það að markmiði að bæta árangur til framtíðar. Einnig verður kynnt áætlun um aukið viðnámsþol í vatnsbúskap til að mæta brýnni þörf fyrir skilvirkari vatnsnotkun.
  4. Blómlegar byggðir
    Framkvæmdastjórnin mun leggja fram uppfærða dreifbýlisáætlun (e. Rural Action Plan) til að tryggja blómlegt líf í dreifbýli sem er í nánum tengslum við menningar- og náttúruarfleið Evrópu. Framkvæmdastjórnin hyggst koma á árlegu samráði í matvælageiranum meðal hagsmunaaðila s.s. neytenda, bænda, iðnaðarins og opinberra aðila til að finna lausnir á ýmsum málefnum er varða landbúnað, matvæli og nýsköpun. Dregið verði enn frekar úr matarsóun og tekist á við samfélagslegar áhyggjur af velferð dýra.

Framangreint felur í sér að almenna landbúnaðarstefna ESB (e. CAP) verður einfölduð og gerð hnitmiðaðri. Innleitt verði umbunarkerfi fremur en kerfi viðurlaga til að ná settum markmiðum í greininni.

Markmið um minni matarsóun og bætta meðhöndlun textílúrgangs

Evrópuþingið og ráðherraráð ESB náðu samkomulagi í síðasta mánuði um efni tveggja nýrra gerða sem miða annars vegar að því að draga úr matarsóun og hins vegar að því að styðja við sjálfbæra meðhöndlun textílúrgangs í samræmi við markmið hringrásarhagkerfisins með aukinni flokkun, endurnotkun og endurvinnslu.

Fjallað var um tillögurnar í Vaktinni í júlí 2023.

Talið er að yfir 59 milljón tonn af mat fari forgörðum í ESB á hverju ári og er áætlað tap vegna þess metið á um 132 milljarða evra. Á sama tíma hafa yfir 42 milljónir manna (tæplega 10% af mannfjölda ESB) ekki efni á gæðamáltíð annan hvern dag. Þá er talið að um 12,6 milljónir tonna af textílúrgangi verði til í sambandinu á ári hverju. Þar af er talið að 5,2 milljónir tonna af fatnaði og skóm sé fargað á hverju ári sem jafngildir 12 kg af úrgangi á mann á hverju ári.

Matarsóun

Í samkomulaginu fellst m.a. að tekið verði upp bindandi markmið um að draga úr matarsóun sem nemur 10% í matvælavinnslu og -framleiðslu og um 30% á hvern neytenda í verslun, á veitingastöðum, í mötuneytum og á heimilum fyrir 31. desember 2030. Framangreind töluleg markmið verða miðuð við árlegt meðaltal áranna frá 2021 til 2023.

Textílúrgangur

Í samkomulaginu felst að framleiðendum verður gert að standa straum af kostnaði við söfnun, flokkun og endurvinnslu textílúrgangs. Samkvæmt samkomulaginu þurfa aðildarríki ESB að koma á framleiðendaábyrgðarkerfi (EPR) þar sem framleiðendur textílvara þurfa að standa straum af kostnaði við söfnun, flokkun og endurvinnslu og mun kerfið koma til framkvæmda 30 mánuðum eftir gildistöku tilskipunarinnar. Þessi ákvæði munu gilda um alla framleiðendur þar með talið þá sem stunda rafræn viðskipti óháð því hvort þeir hafa starfstöðvar innan ESB eða í landi eða utan þess. Gildistaka gagnvart litlum fyrirtækjum verður 12 mánuðum síðar, eða 42 mánuðum eftir gildistöku tilskipunarinnar.

Umsögn EES/EFTA-ríkjanna um fyrirhugaðar breytingar á reglugerð um eftirlit með erlendum fjárfestingum  

Þann 25. febrúar sl. komu EES/EFTA-ríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein, sameiginlega á framfæri umsögn vegna tillögu framkvæmdastjórnar ESB um breytingar á reglugerð um eftirlit með erlendum fjárfestingum (e. Foreign Direct Investment Screening Regulation).

Fjallað var stuttlega um tillöguna í Vaktinni 2. febrúar 2024 þar sem fjallað var um tillögupakka um aðgerðir til að efla efnahagslegt öryggi ESB.

Með tillögu framkvæmdastjórnarinnar sem birt var í janúar 2024 er stefnt að því að betrumbæta sameiginlegan ramma aðildarríkja ESB um rýni erlendra fjárfestinga með hliðsjón af reynslu undanfarinna ára og til að tryggja allsherjarreglu og efnahagslegt öryggi ESB. Með tillögunni er samstarf ESB-ríkjanna á sviði fjárfestingarýni aukið auk þess sem gerðar eru þrjár meginbreytingar frá gildandi regluverki:

  • Í fyrsta lagi að öll aðildarríki ESB þurfi nú að hafa kerfi fyrir rýni erlendra fjárfestinga og að slík kerfi verði samræmdari en nú er. 
  • Í öðru lagi að skilgreindar verði fjárfestingar sem aðildarríkjum ESB beri að lágmarki skylda til að rýna. Hér má nefna geira sem eru strategískt mikilvægir fyrir ESB, s.s. orkuinnviðir, hálfleiðarar, gervigreind, o.fl. 
  • Í þriðja lagi að rýni erlendra fjárfestinga verði útvíkkuð til fjárfesta innan ESB en lúta í reynd stjórn einstaklinga eða fyrirtækja í ríkjum utan ESB. 

Umsögn EES/EFTA ríkjanna. 

Í umsögn EES/EFTA-ríkjanna er tekið undir að umbóta sé þörf í eftirliti með erlendum fjárfestingum á Evrópska efnahagssvæðinu. Hins vegar er talið að tillagan geti haft í för með sér viðskiptahindranir eða smugur fyrir óvinveitta erlenda fjárfesta á innri markaðnum. Lagt er til að stofnaður verði sameiginlegur sérfræðingahópur með framkvæmdastjórn ESB til að tryggja náið samstarf allra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins um rýni erlendra fjárfestinga. 

EES/EFTA-ríkin þrjú taka fram að þau fagni stefnu ESB um efnahagslegt öryggi (e. European Economic Security Strategy) og markmiðum ESB um að tryggja viðnámsþrótt og samkeppnishæfni. EES/EFTA-ríkin og ESB deili sameiginlegum hagsmunum af nánu samstarfi á sviði fjárfestingarýni umfram allt til að tryggja heilindi innri markaðarins. Lögð er áhersla á að fjárfestar eigi að vera undirorpnir sömu reglunum og vera metnir á sama hátt allsstaðar á Evrópska efnahagssvæðinu. EES/EFTA ríkin hafi nú hvert  um sig til skoðunar að gera umbætur á innlendu regluverki fyrir rýni erlendra fjárfestinga. 

EES/EFTA-ríkin geti ekki lokið mati á því hvort reglugerðin teljist falla undir EES-samninginn fyrr en endanleg niðurstaða liggur fyrir að loknu löggjafarferli innan ESB. Engu að síður hafi ríkin þrjú áhyggjur af því að verði tillagan samþykkt óbreytt geti það leitt til viðskiptahindrana á innri markaðnum. Það sé sameiginlegt hagsmunamál bæði EFTA-ríkjanna innan EES og ESB að koma í veg fyrir nýjar viðskiptahindranir eða mismunun á innri markaðinum og mikilvægt sé að tryggja að fjárfestar hvarvetna af Evrópska efnahagssvæðinu búi við sömu reglur. EFTA-ríkin innan EES séu reiðubúin til samstarfs við framkvæmdastjórn ESB til þess að koma í veg fyrir ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

Fundur innanríkisráðherra ESB á vettvangi Schengen-ráðsins

Fyrsti formlegi fundur innanríkisráðherra ESB (e. Home Affairs) innan hins hefðbundna Schengen-ráðs í ár fór fram í Brussel 5. mars sl. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra, sótti fundinn fyrir hönd Íslands sem Schengen-samstarfsríki (e. Schengen Associated Country). Á dagskrá voru m.a. endursendingar einstaklinga í ólögmætri dvöl, innleiðing mikilvægra upplýsingatæknikerfa, ytri þættir útlendingamála og innra öryggi Evrópu með sérstakri hliðsjón af stöðu mála í Sýrlandi og Úkraínu.

Schengen Barometer+

Dagskráin hófst með kynningu Magnus Brunner, framkvæmdastjóra innri öryggismála, öryggis landamæra og málefna flótta- og farandfólks, á nýrri útgáfu Barometer+ sem felur í sér yfirlit um stöðuna í málaflokkunum innan Schengen-svæðisins. Yfirlitið er uppfært tvisvar á ári og er ætlað að varpa ljósi á atriði sem geta haft áhrif á svæðið í heild sinni og auka þannig möguleika framkvæmdastjórnarinnar og aðildaríkjanna til að bregðast við í tæka tíð og til að efla samráð og greina veikleika í kerfinu. Í máli sínu vísaði Brunner m.a. til þess að um 40% alþjóðlegra ferðalaga árið 2024, eða ferðir um 500 milljóna einstaklinga, hafi verið til Schengen-svæðisins sem gerir svæðið að mest sótta áfangastað heims sem sýni mikilvægi skilvirkrar og öruggrar stjórnunar ytri landamæra þess.

Endursendingar

Samhliða framangreindu voru endursendingar teknar til umræðu en um er að ræða eitt helsta forgangsmál Schengen-ráðsins fyrir tímabilið 2024-2025 (e. Schengen Council cycle 2024-2025), líkt og nánar var fjallað um í Vaktinni 25. október sl., og er jafnframt hluti af stefnuáherslum nýrrar framkvæmdastjórnar ESB, sbr. umfjöllun  Vaktarinnar 6. júlí sl. Vísað var til þess að þemabundin Schengen-úttekt á sviði endursendinga (e. Schengen thematic evaluation – Bridging national gaps: towards an effective EU return system), sem fram fór árið 2024, hafi skilað sér í fjölda tilmæla sem ráðið samþykkti. Slíkar úttektir eru öðruvísi en hefðbundnar Schengen-úttektir að því leyti að í stað þess að taka út stöðu mála í einstökum ríkjum er markmiðið að greina sameiginlegar áskoranir svæðisins á tilgreindu sviði og leggja til sameiginlegar lausnir. Loks var umræðan lituð af því að tillögur framkvæmdastjórnar ESB að nýju regluverki á sviði endursendinga verða kynntar opinberlega 11. mars nk., sbr. umfjöllun í Vaktinni 31. janúar sl.

Flest ríki kváðust vænta góðs af tillögum framkvæmdastjórnarinnar en skiptar skoðanir voru hins vegar á því hvort tillögur að nýju regluverki ætti að setja fram í formi reglugerðar eða tilskipunar. Flest ríki ítrekuðu mikilvægi þess að auka samstarf við þriðju ríki, bæði uppruna- og gegnumferðarríki, m.a. með því að beita vegabréfsáritunarstefnu ESB í meira mæli og tengja saman endursendingar við fleiri málefnasvið svo sem viðskipti og þróunarsamvinnu. Mörg ríki töldu brýnt að huga að nýstárlegum lausnum við endursendingar, t.d. hugmyndir um örugg þriðju ríki og endursendingarmiðstöðvar (e. return hubs). Þá fór fram umræða um öryggisógnir og endursendingar hættulegra einstaklinga. Loks var kallað eftir útvíkkun á valdsviði Landamæra- og strandgæslustofnunar Evrópu (e. Frontex).

Í máli dómsmálaráðherra kom fram að endursendingarstefna Evrópu þyrfti að vera sanngjörn, staðföst og skilvirk. Hlutfall endursendinga væri of lágt og vísaði hún til þess að ein af helstu áskorunum Íslands við að framkvæma brottvísunarákvarðanir væri skortur á samstarfi þriðju ríkja, einkum við auðkenningu og útgáfu ferðaskilríkja. Ísland styddi því áframhaldandi beitingu 25. gr. a. vegabréfsáritunarreglnanna (e. Visa Code) og afnáms áritunarfrelsis (e. Visa Suspension Mechanism). Þá kallaði hún eftir því að nýtt regluverk yrði áfram í formi tilskipana fremur en reglugerðar og að væntanlegar reglur um gagnkvæma viðurkenningu brottvísunarákvarðana yrðu sveigjanlegar. Loks undirstrikaði hún að aðstoð við sjálfviljuga heimför ætti áfram að vera í forgangi enda hagkvæmasta og mannúðlegasta leiðin við endursendingar.

Innleiðing mikilvægra upplýsingatæknikerfa

Á fundinum var afstaða til reglugerðar um stigvaxandi innleiðingu komu- og brottfararkerfisins (e. Regulation on a progressive start of operations of the Entry/Exit System) samþykkt og mun þessi almenna nálgun ráðsins (e. general approach) mynda grunn að viðræðum þess við framkvæmdastjórnina og Evrópuþingið um endanlegt efni gerðarinnar, en þingið hefur ekki, enn sem komið er, lokið við að móta afstöðu til gerðarinnar. Samkvæmt nýjum vegvísi eu-LISA, stofnun ESB um rekstur stórra upplýsingatæknikerfa á sviði frelsis, öryggis og réttlætis er ráðgert að sex mánaða innleiðing komu- og brottfararkerfisins hefjist í október 2025. Samkvæmt vegvísinum er jafnframt gert ráð fyrir að evrópska upplýsingakerfið um sakaskrár þriðju ríkis borgara (e. European Criminal Records Information System – Third Country Nationals, ECRIS-TCN) verði tæknilega tilbúið á fjórða ársfjórðungi 2025. Hinn endurskoðaði evrópski fingrafaragrunnur (e. revised Eurodac) á síðan að koma til framkvæmda í júní 2026 og þá á evrópska ferðaupplýsinga- og ferðaheimildakerfið (European Travel Information and Authorisation System, ETIAS) að vera innleitt á fjórða ársfjórðungi 2026. Loks var tilkynnt að stjórn eu-LISA myndi kynna uppfærðan vegvísi vegna tímabilsins 2027-2028 seinna á þessu ári.

Ytri þættir útlendingamála – Sýrland

Töluverð umræða fór fram um það flókna umbreytingatímabil sem Sýrland er að ganga í gegnum þessi misserin og áhrif þess á útlendingamálin í Evrópu. Vísað var til þess að landið væri að vinna að því að endurheimta stöðugleika og öryggi, endurreisa efnahag sinn, átta sig á nýju pólitísku landslagi og takast á við áframhaldandi mannúðarkreppu, þ. á m. fjölda vegalauss fólks innanlands (e. internally displaced persons) og fólks sem væri að snúa heim frá nágrannaríkjum. Í ljósi þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað er þetta almennt talið sögulegt tækifæri til að sameina og endurbyggja landið. Umræður ráðherra lutu m.a. að mögulegum horfum sýrlenskra ríkisborgara í ESB til að snúa aftur heim.

Vísað var til þess að þrátt fyrir að staðan í Sýrlandi hefði breyst verulega væri enn skortur á stöðugleika auk þess sem öryggi væri ekki tryggt. Þá stæðu þeir sem vildu snúa aftur heim frammi fyrir ýmsum áskorunum, svo sem óvissu um húsnæði, stöðu eigna, öryggi og efnahag og skorti á nauðsynlegri grunnþjónustu. Ljóst þótti að bráðabirgðastjórnin í Sýrlandi myndi þurfa að grípa til umfangsmikilla aðgerða með stuðningi alþjóðasamfélagsins til að skapa nauðsynleg skilyrði fyrir varanlega og örugga endurkomu flóttamanna. Þrátt fyrir það hefðu nú þegar um 1 milljón einstaklinga snúið aftur heim til Sýrlands, einkum vegalaust fólk innanlands en einnig frá nágrannaríkjunum. Hingað til hefðu þó einungis fáir Sýrlendingar snúið aftur frá ESB. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðlegu fólksflutningastofnuninni (e. International Organization for Migration) væru aftur á móti sífellt fleiri sýrlenskir flóttamenn innan sambandsins að leita upplýsinga um aðstæður og horfur fyrir endurkomu. Af því tilefni ræddu ráðherrarnir möguleikann á svokölluðum „go and see“ heimsóknum án þess að viðkomandi missi verndarstöðu sína og mögulegar leiðir ESB til að samhæfa aðgerðir aðildarríkja í þeim efnum.

Innra öryggi ESB – Sýrland og Úkraína

Ráðherrarnir ræddu einnig áhrif ástandsins í Sýrlandi og Úkraínu á innra öryggi ESB. Fram komu áhyggjur af stöðu mála í norðausturhluta Sýrlands sem væri afar óstöðugt. Þar væru fangabúðir í umsjón sýrlensku lýðræðissveitanna (e. Syrian Democratic Forces) sem hefðu verið aðalaflið í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum Da‘esh. Ástandið í fangabúðunum væri alvarlegt en þar dvelja um 40.000 manns, þ. á m. um 400–500 ríkisborgarar ESB-ríkja. Öryggi í búðunum væri veikt og þar ríkti mikil hætta á öfgahyggju og hryðjuverkatengdri starfsemi. Talið er að hryðjuverkasamtök gætu notað þessar búðir til að endurskipuleggja starfsemi sína. Þá var farið yfir helstu aðgerðir ESB til að bregðast við stöðunni í Sýrlandi, m.a. aðgerðáætlun samræmingaraðila ESB gegn hryðjuverkum (e. EU Counter-Terrorism Coordinator, EU-CTC). Í áætluninni eru 27 tilmæli um hvernig ESB og aðildarríki þess geta brugðist við hugsanlegum hryðjuverkaógnum vegna ástandsins í Sýrlandi, þ. á m. að auka öryggiseftirlit á ytri landamærum, herða eftirlit með vopnasmygli, auka upplýsingaöflun og greiningu til að fyrirbyggja endurkomu hryðjuverkasamtaka, bæta eftirlit og aðgerðir gegn áróðri hryðjuverkahópa á netinu og auka áherslu á saksókn einstaklinga fyrir stríðsglæpi og hryðjuverk. Loks fór framkvæmdastjórn ESB og EU-CTC yfir stöðu mála í Úkraínu. Þar var einkum fjallað um aðgerðir ESB og Úkraínu við að halda uppi löggæslu, réttarkerfi og eftirliti á ytri landamærum þrátt fyrir yfirstandandi árásarstríð Rússlands gangvart landinu, m.a. með hliðsjón af vopnasmygli og komum vígamanna inn í ESB.

Hælispakki ESB

Dagskránni lauk með upplýsingagjöf frá framkvæmdastjórn ESB um stöðu mála við innleiðingu á svokölluðum hælispakka ESB sem á að vera lokið í júní 2026, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 28. júní 2024 um innleiðingaráætlun vegna nýrrar löggjafar um flótta- og farandfólk.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er á morgun og af því tilefni kynnti  framkvæmdastjórn ESB í dag nýjan vegvísi ESB að jafnrétti kynjanna (Roadmap to Womens’ Rights). Vegvísinum er ætlað að vera leiðarljós fyrir framtíðarstefnu ESB um jafnrétti kynjanna. Stefnt er að því að fjalla efnislega um vegvísinn í næstu Vakt. 

Umtalsverður árangur hefur náðst á undanförnum árum á grundvelli núgildandi jafnréttisáætlunar sem gildir út árið 2025 og hafa þó nokkrar gerðir verið lagðar fram á síðastliðnum árum á grundvelli hennar. Má þar meðal annarra nefna:

  • Tilskipun um launagagnsæi sem samþykkt var á árinu 2023 og er ætlað að tryggja sömu laun fyrir sömu vinnu, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 5. maí 2023.
  • Tilskipun um hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja var samþykkt á árinu 2022, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 2. desember 2022.
  • Tilskipun um baráttuna gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi sem var samþykkt á árinu 2024, sbr. umfjöllun í Vaktinni 16. febrúar 2024.

Auk framangreinds hefur ESB gerst aðili að Istanbúlsamningnum, þ.e. samningi Evrópuráðsins (e. Council of Europe) um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 24. febrúar 2023.

Einnig má nefna evrópsku umönnunarstefnuna (e. European Care Strategy) en fjallað var um þá stefnu í Vaktinni 9. september 2022.

Aðkoma kvenna að varnar- og öryggismálum – Fundur í Evrópuþinginu

Í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna stóð Evrópuþingið fyrir fundi í vikunni með þingmönnum og fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar auk kvenna í leiðtogahlutverkum í hernum, fræðimönnum og aðgerðarsinnum, um valdeflingu kvenna á sviði friðar- og öryggismála. Þrátt fyrir að rannsóknir sýni að friðarsamningar þar sem konur hafi komið að samningsgerð þyki líklegri til að standast áraun hefur hlutur kvenna í þessum efnum verið lítill.

Hadja Lahbib, framkvæmdastjóri jafnréttismála í framkvæmdastjórn ESB, flutti ávarp á fundinum, þar sem hún lagði áherslu á nauðsyn þess að vinna áfram að því að ná fram jafnrétti á öllum sviðum, þar á meðal á sviði hernaðarmála og í háskólasamfélaginu. Hún lagði áherslu að tryggja þyrfti konum tækifæri til að takast á hendur leiðtogastöður og mikilvægi þess að halda áfram baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi, bæði stafrænu ofbeldi og ofbeldi í raunheimum til að tryggja öruggt umhverfi fyrir konur. Hún nefndi að taka þyrfti tillit til mismunandi þarfa kvenna með tilliti til mismunandi bakgrunns þeirra. Að lokun hvatti hún til samstöðu og aukinnar samvinnu meðal kvenna í leiðtogastöðum og stefnumörkun til að ná árangri í jafnrétti kynjanna. Sjá hér nánari  upplýsingar um framangreint. Óhætt er að segja að efnisvalið á þessum fundi Evrópuþingsins endurspegli stöðu mála í varnar- og öryggismálum þessi dægrin.

Ísland gestgjafi á samnorrænum viðburði á vegum norrænu sendiráðanna í Brussel

Norrænu sendiráðin í Brussel standa árlega fyrir morgunarverðarfundi í tilefni af alþjóðlegum degi kvenna 8. mars. Ísland og Danmörk skipta með sér gestgjafahlutverkinu að þessu sinni og gangast á mánudaginn kemur fyrir pallborði með þátttakendum frá Norðurlöndum. Umfjöllunarefnið að þessu sinni er bergmálshellir gervigreindarinnar: áskoranir tengdar algrími og kynjamismunun (AI Echo Chamber: Addressing gender biased algorithms). Linda Heimisdóttir framkvæmdastjóri Miðeindar tekur þátt í pallborðinu en Miðeind er fyrirtæki á sviði máltækni og gervigreindar.

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta