Hoppa yfir valmynd

Stofnanir EES

EES/EFTA-ríkin og ESB fara saman með stjórnsýslu og framkvæmd Evrópska efnahagssvæðisins með tveggja stoða fyrirkomulagi. Annars vegar er um að ræða stofnanir EFTA-ríkjanna innan EES, EFTA-stoðina svokölluðu, og hins vegar stofnanir Evrópusambandsins, eða ESB-stoðina, auk sameiginlegra stofnana sem kveðið er sérstaklega á um í EES-samningnum og eru þar á milli (sjá skýringarmynd).

Ákvarðanataka á grundvelli EES-samningsins mótast af þessu tveggja stoða fyrirkomulagi og er í höndum hinna sameiginlegu stofnana sem kveðið er á um í samningnum og taldar eru upp hér á eftir.

EFTA-ríkin innan EES hafa ekki framselt lagasetningarvald til hinna sameiginlegu stofnana innan EES og geta ekki af stjórnskipulegum ástæðum lotið ákvörðunarvaldi stofnana ESB með beinum hætti. Því voru settar á laggirnar EES/EFTA-stofnanir með EES-samningnum sem eru hliðstæðar viðeigandi stofnunum ESB, eða Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og EFTA-dómstóllinn.

Í tveggja stoða kerfinu felst annars vegar fyrirkomulag fyrir ákvarðanatöku. EES/EFTA-ríkin taka allar ákvarðanir samhljóða á meðan ESB-ríkin geta yfirleitt tekið ákvarðanir sem varða löggjöf á sviði EES á grundvelli meirihluta. Hins vegar felur tveggja stoða kerfið í sér eftirlit til þess að tryggja innleiðingu og beitingu EES-reglna í EES/EFTA-ríkjunum og þar koma ESA og EFTA-dómstóllinn til sögunnar.

Ríkin 30 bera ábyrgð á því að innleiða nýja löggjöf og framfylgja þeim réttindum og skyldum sem kveðið er á um í EES-samningnum. EES-samningurinn er „virkur“ samningur (e. dynamic) í þeim skilningi að hann breytist í samræmi við nýja og breytta löggjöf ESB á þeim sviðum sem samningurinn tekur til. Þannig er tryggt að löggjöf innan EES-svæðisins sé eins einsleit og kostur er og að um eitt og óskipt markaðssvæði sé að ræða.

Sameiginlegar stofnanir samkvæmt EES-sáttmálanum og hlutverk þeirra

EES-ráðið (EEA Council): EES-ráðið kemur saman til fundar tvisvar á ári og er hlutverk þess einkum að vera pólitískur aflvaki við framkvæmd EES-samningsins. EES-ráðið er skipað utanríkisráðherrum EES/EFTA-ríkjanna og fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar og ráðherraráðs ESB.

Sameiginlega EES-nefndin (EEA Joint Committee): Helsti samstarfsvettvangur EES/EFTA-ríkjanna og ESB, en hlutverk nefndarinnar er að tryggja virka framkvæmd EES-samningsins. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar Íslands, Liechtensteins og Noregs og fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB. Aðalviðfangsefni nefndarinnar er að taka ákvarðanir um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn, en nefndin er einnig vettvangur fyrir samráð um álitamál á grundvelli samningsins. Sameiginlega EES-nefndin kemur að öllu jöfnu saman til fundar mánaðarlega.

Sameiginlega EES-þingmannanefndin (EEA Joint Parliamentary Committee): Fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á málum sem varða EES með skýrslum eða ályktunum. Í nefndinni eru 24 þingmenn, 12 frá Evrópuþinginu og 12 frá EES/EFTA-ríkjunum. Ísland hefur fjóra fulltrúa í nefndinni, Noregur sex og Liechtenstein tvo.

Ráðgjafarnefnd ESA (EEA Consultative Committee): Vettvangur fyrir samskipti og samráð milli aðila vinnumarkaðar ESB og EES/EFTA-ríkjanna. Nefndin er skipuð fulltrúum úr ráðgjafarnefnd EFTA og efnahags- og félagsmálanefnd ESB.

Tveggja stoða fyrirkomulagið - skýringarmynd

 

Nánar um EFTA-stoðina í EES-samstarfinu og stofnanir þess

Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) voru stofnuð árið 1960 með það að markmiði að efla fríverslun og auka efnahagssamvinnu milli aðildarríkjanna. Nú eru fjögur ríki aðilar að EFTA; Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss.

Fastanefnd EFTA (The Standing Committee of the EFTA States) er EFTA-stoðin í umfjöllun og lausn mikilvægra, pólitískra EES-mála. Hún er vettvangur samræmingar EES/EFTA ríkjanna fyrir fundi í EES-nefndinni og EES-ráðinu.

ESA (EFTA Surveillance Authority) er Eftirlitsstofnun EFTA. Hún hefur eftirlit með því að skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum séu efndar og að aðgerðir aðildarríkjanna á sviði samkeppni séu lögmætar. Eftirlitið snýr bæði að því hvernig EES- reglurnar eru innleiddar í íslenskan rétt og hvernig þeim er síðan framfylgt af stjórnvöldum. ESA gegnir einnig mikilvægu hlutverki varðandi samkeppnismál sem hafa áhrif á viðskipti á Evrópska efnahagssvæðinu, þ.e. að tryggja réttmæta samkeppni fyrirtækja, og hafa eftirlit með ríkisstyrkjum og opinberum innkaupum. ESA getur tekið mál upp að eigin frumkvæði eða vegna kvörtunar frá einhverju EES- ríkjanna, stofnunum ESB eða frá einkaaðilum. Telji stofnunin brotið gegn samningnum getur hún hafið áminningarferli sem getur leitt til þess að höfðað verði samningsbrotamál fyrir EFTA-dómstólnum.

EFTA-dómstóllinn þjónar sama hlutverki gagnvart EES/EFTA ríkjunum og ESB dómstóllinn gagnvart aðildarríkjum ESB. Í úrlausnum sínum tekur dómstóllinn jafnan mið af úrlausnum ESB-dómstólsins. Dómsmálum gegn Íslandi vegna tafa á innleiðingu hefur fækkað en markmiðið er að Ísland fari ekki fyrir EFTA-dómstólinn fyrir að hafa ekki innleitt EES-gerðir.

Þingmannanefnd EFTA hefur ráðgefandi hlutverk í EFTA-stoð samningsins. Hana skipa sömu þingmenn og eiga sæti í þingmannanefnd EES-samningsins.

Ráðgjafarnefnd EFTA er, líkt og ráðgjafarnefnd EES, skipuð fulltrúum atvinnulífs og launþegasamtaka og hefur ráðgefandi hlutverk innan EFTA um þróun EES-samningsins.

 

Síðast uppfært: 25.1.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta