Schengen-samstarfið
Schengen-samstarfið nær til 27 ríkja. Þau eru EFTA ríkin Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss, og 23 ríki innan Evrópusambandsins: Austurríki, Belgía, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Króatía, Lettland, Litáen, Lúxemborg, Malta, Pólland, Portúgal, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Ungverjaland, Tékkland og Þýskaland. Sem stendur nær samstarfið ekki til fjögurra af 27 aðildarríkjum ESB: Búlgaríu, Kýpur, Írlands og Rúmeníu.
Árið 1985 var Schengen-samkomulagið undirritað, milli ríkisstjórna Þýskalands, Frakklands og Benelúxlandanna þriggja, nánar tiltekið Belgíu, Hollands og Lúxemborgar. Schengen-samstarfið dregur nafn sitt af litlum bæ í Lúxemborg sem liggur við bakka Móselárinnar, á landamærum Frakklands og Þýskalands, en þar var samkomulagið undirritað árið 1985. Ísland undirritaði samning um þátttöku í Schengen-samstarfinu í desember 1996, samhliða Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.
Schengen-samstarfið felst í grundvallaratriðum í tvennu. Annars vegar afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum Schengen-landanna og hins vegar mótvægisaðgerðum, sem felst einkum í samvinnu evrópskra lögregluliða, til að tryggja öryggi borgara á Schengen-svæðinu. Með afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum Schengen-ríkjanna er ætlað að greiða fyrir frjálsri för fólks innan Evrópusambandsins, en frjáls för fólks er einn liður í fjórfrelsi innri markaðar Evrópusambandsins sem Ísland gerðist aðili að með EES-samningnum.
Dagleg framkvæmd Schengen-samstarfsins á Íslandi er að mestu í höndum dómsmálaráðuneytisins, embættis ríkislögreglustjóra, lögregluumdæma landsins og Útlendingastofnunar. Hlutverk dómsmálaráðuneytisins lýtur aðallega að yfirumsjón með samstarfinu, samræmingu og eftirliti, auk innleiðingar nýrra gerða. Auk fyrrnefndra aðila koma utanríkisráðuneytið, Landhelgisgæsla Íslands, Persónuvernd og Þjóðskrá Íslands að ákveðnum verkefnum Schengen.
Frekari upplýsingar má finna í skýrslu innanríkisráðherra um kosti og galla Schengen-samstarfsins á eftirfarandi slóð:
- Skýrsla innanríkisráðherra um Schengen-samstarfið (pdf-skjal júní 2012)
Með afnámi persónubundins eftirlits, þ.e. landamæraeftirlits, á innri landamærum Schengen-ríkjanna, er ætlað að greiða fyrir frjálsri för fólks innan Evrópusambandsins. Landamæraeftirlit er það eftirlit sem fram fer á viðurkenndri landamærastöð sem felst í því að skoða hvort einstaklingur, þ. á m. samgöngutæki og hlutir í vörslu hans, uppfylli skilyrði fyrir komu eða brottför. Skilyrði fyrir komu og brottför eru m.a. framvísun gildra ferðaskilríkja, að útlendingur hafi ekki dvalið lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt, upplýsingar um tilgang dvalar auk annarra skilyrða sem fram koma í lögum nr. 80/2016 um útlendinga og reglugerð nr. 866/2017 um för yfir landamæri. Ríkisborgarar Schengen-ríkjanna geta þannig ferðast óhindrað á milli landamæra ríkjanna án þess að sæta slíku eftirliti. Sú skylda er hins vegar lögð á alla sem ferðast innan svæðisins að geta framvísað fullgildum persónuskilríkjum sem eru viðurkennd af öðrum Schengen-ríkjum. Þess ber að geta að sem stendur er íslenska vegabréfið í raun eina skilríkið sem vissa er fyrir að önnur ríki viðurkenni sem gild persónuskilríki.
Annað tveggja meginmarkmiða Schengen-samningsins er að berjast gegn afbrotum og efla lögreglusamvinnu á milli ríkjanna. Mikilvægur þáttur í lögreglusamvinnu er rekstur sameiginlegs upplýsingabanka Schengen-upplýsingakerfisins sem geymir upplýsingar t.d. um eftirlýsta einstaklinga sem óskað er handtöku á vegna gruns um afbrot eða til að afplána fangelsisrefsingu, týnda einstaklinga, útlendinga sem neita á um inngöngu inn á Schengen-svæðið, einstaklinga sem stefna á fyrir dóm og upplýsingar um stolna muni eins og t.d. bifreiðar, skotvopn, skilríki o.fl.
Lögregla í öllum Schengen-ríkjunum hefur aðgang að gagnabankanum. Þá hefur Útlendingastofnun einnig aðgang að bankanum til að leita upplýsinga varðandi útlendinga sem bönnuð hefur verið koma inn á Schengen-svæðið. Slíkur gagnabanki leiðir til aukins upplýsingaflæðis og auðveldar samstarf á milli yfirvalda Schengen-ríkjanna.
Til að tryggja að allar þær upplýsingar, sem settar eru inn í gagnabanka Schengen séu réttar og í samræmi við reglur, hefur hvert aðildarlandanna sett upp svokallaða SIRENE-skrifstofu (e. Supplementary Information Request on National Entry). Starfsmenn hennar fara yfir og leggja mat á allar þær upplýsingar, er leggjast eiga inn í bankann. Skrifstofa þessi er einnig eins konar miðpunktur lögregluembætta í viðkomandi landi sem og gagnvart öðrum Schengen-löndum þegar dreifa skal upplýsingum í gegnum gagnabankann. Ef t.d. franska lögreglan lýsir eftir peningafalsara í SIS-kerfinu og sá finnst á Íslandi, þá munu SIRENE-skrifstofur þessara tveggja landa sjá um dreifingu allra þeirra upplýsinga, sem nauðsynlegar eru á milli landanna og varða til að mynda handtökuna og væntanlegt framsal hins handtekna til Frakklands. SIRENE-skrifstofan á Íslandi er í húsnæði Ríkislögreglustjórans að Skúlagötu 21, Reykjavík, og er undir hans stjórn.
Auk alþjóðlegrar samvinnu lögreglu í gegnum Schengen-upplýsingakerfið gerir Schengen-samningurinn ráð fyrir auknu sameiginlegu eftirliti lögreglu innan svæðisins. Í baráttunni gegn aukinni alþjóðavæðingu skipulagðrar glæpastarfsemi hafa yfirvöld lögreglu og dómsmála, með gildistöku Schengen-samningsins, fengið möguleika á stóraukinni samvinnu landa á milli. Til að styrkja þetta samstarf hefur lögregla til að mynda fengið heimild til, undir ströngum skilyrðum þó, að elta meinta sakamenn yfir landamæri ríkjanna og í framhaldinu handtaka þann eða þá er veitt var eftirför. Slíkt kæmi þó varla til hér á landi, eðli málsins samkvæmt.
Rík áhersla er lögð á vernd þeirra persónuupplýsinga sem skráðar eru í Schengen-upplýsingakerfið. Í lögum um Schengen-upplýsingakerfið eru strangar reglur bæði hvað varðar vernd persónuupplýsinga og öryggi kerfisins í heild.
Hvert ríki ber ábyrgð á þeim upplýsingum sem það skráir í upplýsingakerfið og er bótaskylt fyrir tjóni sem rangar upplýsingar geta haft í för með sér. Hver sem skráður er í upplýsingakerfið á rétt á að fá vitneskju um skráðar upplýsingar um sig í kerfinu.
Schengen-samningurinn heimilar einstaklingum sem dveljast löglega á Schengen-svæðinu för um svæðið án eftirlits á landamærum. Tekur þetta ekki bara til ríkisborgara þessara ríkja heldur einnig til útlendinga. Þannig geta útlendingar sem hafa gild dvalarleyfi í Schengen-ríki ásamt gildu ferðaskilríki ferðast um svæðið og þurfa ekki til þess aðra sérstaka heimild.
Ríkisborgarar þriðju ríkja sem ekki hafa samið sérstaklega um áritunafrelsi við Schengen-ríkin þurfa að hafa gilda Schengen-áritun í ferðaskilríki sínu til að geta ferðast inn á Schengen-svæðið. Áritunin veitir heimild til að ferðast til Schengen-ríkjanna og dveljast þar í allt að 90 daga á 180 daga tímabili. Vegabréfsáritun er m.a. gefin út fyrir ferðamenn, fjölskylduheimsóknir, opinber erindi, viðskiptaheimsóknir og námsferðir. Ferðamaður sem hefur dvalarleyfi gefið út af öðru Schengen-ríki er undanþeginn áritunarskyldu.
Samræmd Schengen-áritun er gefin út af öllum ríkjum Schengen-svæðisins. Þessi áritun gildir um ferðir til allra Schengen-ríkjanna og er því ekki nauðsynlegt að sækja sérstaklega um áritun til Íslands, nema í þeim tilvikum þegar Ísland er aðaláfangastaður. Schengen-ríkin gefa út vegabréfsáritanir í sendiráðum sínum víðs vegar um heim.
Til þess að ferðast til Íslands þurfa ríkisborgarar um 126 ríkja vegbréfsáritun. Ísland hefur ekki burði til að vera með sendiráð í öllum þeim ríkjum en með þátttöku í Schengen-samstarfinu skapaðist sá möguleiki að víkka verulega út þjónustu Íslands að því er varðar útgáfu vegabréfsáritana. Fólst það í því að unnt var að semja við önnur Schengen-ríki (fyrirsvarsríki) um að gefa út áritanir fyrir Íslands hönd. Sendiráð Íslands í London, Washington D.C., Peking og Nýju-Delí annast útgáfu Schengen-áritana. Að öðru leyti hefur utanríkisþjónustan falið fyrirsvarið öðrum Schengen-samstarfsríkjum í um 120 borgum víðs vegar um heim.
Hér á eftir eru áréttuð nokkur atriði sem hafa ekki breyst með þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu og mikilvægt er að hafa í huga:
Vegabréfin alltaf meðferðis!
Þótt þeir sem ferðast innan Schengen-svæðisins sæti ekki landamæraeftirliti sem felur í sér vegabréfaskoðun er engu að síður mælt með því að fólk hafi ávallt vegabréf sitt með í för. Sú skylda er lögð á alla sem ferðast innan svæðisins að geta framvísað fullgildum persónuskilríkjum sem eru viðurkennd af öðrum Schengen-ríkjum. Sem stendur er íslenska vegabréfið í raun eina skilríkið sem vissa er fyrir að önnur ríki viðurkenni sem gild persónuskilríki. Einnig geta flugfélög á Schengen-svæðinu gert kröfu um að sjá vegabréf farþega sinna.
Schengen breytir í engu reglum um leyfi til dvalar og atvinnu í Schengen-ríkjum!
Þrátt fyrir að einstaklingar sæta ekki landamæraeftirliti þegar ferðast er á milli Schengen-ríkja, breytir það ekki gildandi reglum um að tilskilin leyfi þurfi fyrir lengri dvöl í landinu eða atvinnu. Þannig verða einstaklingar sem ætla að dvelja lengur en þrjá mánuði í Schengen-ríki að kynna sér sérstaklega þær reglur er gilda í viðkomandi ríki um lengri dvöl. Ella kunna þeir að verða ólöglega staddir í landinu eftir að þessu tímamarki lýkur.
Schengen breytir í engu tolleftirliti á landamærum á Schengen-svæðinu!
Reglur um tolleftirlit á landamærum ríkja á Schengen-svæðinu breyttust ekki við gildistöku Schengen-samningsins. Þeir sem ferðast hingað til lands frá Evrópuríki á Schengen-svæðinu gangast því undir hefðbundið tolleftirlit í Leifsstöð eða í höfn hér á landi.
Nánari upplýsingar
Eftirtalin ráðuneyti og stofnanir gefa frekari upplýsingar um Schengen-samstarfið:
Utanríkisráðuneytið - [email protected], dómsmálaráðuneytið - [email protected] og Útlendingastofnun - [email protected].
Sjá einnig:
Lög og reglugerðir
Stofnanir
Tenglar
Fréttir
Schengen
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.