Solvit - Lausnir á vanda vegna ESB/EES réttinda
Hlutverk SOLVIT er að finna skjótar, skilvirkar og óformlegar lausnir á vandamálum sem einstaklingar og fyrirtæki mæta þegar opinber yfirvöld innan EES brjóta á réttindum þeirra á innri markaðinum.
SOLVIT var sett á laggirnar árið 2003 og er netkerfi 30 miðstöðva sem aðildarríkin settu upp innan eigin landsbundinnar stjórnsýslu. Um er að ræða skjótvirka og óformlega leið til þess að leysa vandamál sem einstaklingar og fyrirtæki mæta þegar þau leita réttar síns á innri markaðnum, þeim að kostnaðarlausu.
Innri markaðurinn er skilgreindur sem svæði án innri landamæra þar sem tryggðir eru frjálsir vöruflutningar, frjáls för fólks, frjáls þjónustustarfsemi og frjálsir fjármagnsflutningar. Hann felur í sér mörg tækifæri fyrir einstaklinga sem vilja búa og starfa í öðru aðildarríki og fyrir fyrirtæki sem vilja færa út markaði sína. Þótt innri markaðurinn virki almennt vel koma stundum upp vandamál þegar opinber yfirvöld virða ekki lög Evrópusambandsins um innri markaðinn.
SOLVIT hefur þróast umtalsvert frá upphafi, en í dag sinnir það tíu sinnum fleiri málum en það gerði fyrir tíu árum. Þá fer það einnig með mun fjölbreyttari mál en upphaflega var ráðgert. Yfirgnæfandi meirihluti mála leysist með góðum árangri, innan níu vikna að meðaltali, sem hefur leitt til þess að ánægja mælist mikil hjá bæði einstaklingum og fyrirtækjum sem leitað hafa til SOLVIT.
SOLVIT getur hjálpað:
- Þegar vandi nær yfir landamæri.
- Þegar vandi varðar hugsanlegt brot á lögum Evrópusambandsins sem gilda um innri markaðinn.
- Þegar vandinn varðar opinbert yfirvald.
SOLVIT getur ekki hjálpað:
- Ef málarekstur er hafinn fyrir dómi.
- Ef vandi kemur upp í samskiptum fyrirtækja.
- Ef vandi kemur upp í samskiptum neytanda og fyrirtækis.
Dæmi um mál sem SOLVIT hefur fjallað um hingað til eru:
Ríkisborgarar |
Fyrirtæki |
|
|
Skilyrðið um að mál skuli ná yfir landamæri tryggir að SOLVIT-stöðvar í tveimur aðildarríkjum fari með SOLVIT-mál, sem tryggir gagnsæi og gæði niðurstaðna. Skilyrðið um að málið varði opinbert yfirvald er vegna þess að SOLVIT er hluti af landsbundinni stjórnsýslu og starfar einungis á óformlegum grundvelli.
- Hægt er að hafa samband við SOLVIT-stöðvar í gegnum gagnagrunn SOLVIT, í síma eða með tölvupósti.
- Innan einnar viku ættu kvartendur að fá fyrstu viðbrögð við máli sínu, þar með talið upplýsingar um hvort SOLVIT getur tekið að sér mál þeirra og hvort það sé hægt á grundvelli veittra upplýsinga.
- Innan eins mánaðar frá fyrsta mati, og svo fremi að ekkert vanti upp á málskjölin, ættu kvartendur að fá staðfestingu á því hvort úrlausnarstöðin samþykki mál þeirra og opnað verði SOLVIT-mál vegna þess.
- Miðað er við að málsmeðferð taki að hámarki tíu vikur frá þeim degi sem málið er opnað.
- Málsmeðferð innan SOLVIT er óformleg og kemur ekki í veg fyrir að kvartandi megi hefja formlega málsmeðferð á landsbundnum vettvangi, en það mun leiða til þess að SOLVIT-málinu verði lokað.
- Þjónusta SOLVIT er gjaldfrjáls.
Hægt er að leggja fram kvörtun með eftirfarandi hætti:
- Fylla út kvörtunareyðublað á netinu.
- Senda kvörtun eða fyrirspurn með tölvupósti.
- Koma kvörtun á framfæri símleiðis við fulltrúa SOLVIT-miðstöðvarinnar í síma 545-9900.
SOLVIT-miðstöðin á Íslandi er staðsett í utanríkisráðuneytinu og hefur netfangið: solvit [hjá]utn.stjr.is.
Evrópusamvinna
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.