Hoppa yfir valmynd

Hafréttarmál

Hafréttarmál skipa ávallt mikilvægan sess í utanríkisstefnu Íslands, enda kalla hagsmunir Íslands á öflugt fyrirsvar og hagsmunagæslu á því sviði. Sameinuðu þjóðirnar eru sérstaklega mikilvægur vettvangur fyrir umræður um málefni hafsins og þróun reglna hafréttarins, ekki síst árlegar samningaviðræður um hafréttar- og fiskveiðiályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.

Áherslur Íslands á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna

Allsherjarþingið hefur á undanförnum árum lagt sífellt meiri áherslu á umfjöllun um málefni hafsins og hafréttarmál. Helgast það meðal annars af aukinni umhverfisvitund og vaxandi skilningi á margþættu mikilvægi hafsins. Til marks um þessa áherslu var stofnun óformlegs samráðsvettvangs SÞ um málefni hafsins og hafréttarmál (UNICPOLOS) árið 1999 en árlegum fundum vettvangsins er ætlað að undirbúa umfjöllun allsherjarþingsins sjálfs um málaflokkinn með virku samtali við vísindasamfélagið og hagaðila. Ísland hefur tekið virkan þátt í störfum UNICPOLOS svo og í árlegum samningaviðræðum um almenna hafréttarályktun og fiskveiðiályktun allsherjarþingsins á haustin.

Helsta áherslumál Íslands er að ríki heims virði og framfylgi ákvæðum Hafréttarsamnings SÞ og annarra alþjóðasamninga á þessu sviði. Þar að auki leggur Ísland ríka áherslu á rétt strandríkja til sjálfbærrar nýtingar lifandi auðlinda hafsins og að fiskveiðum sé stjórnað á staðbundnum eða svæðisbundnum grundvelli. Í ljósi ríkra hagsmuna leggur Ísland einnig mikla áherslu á heilbrigði hafsins og virka umhverfisvernd.

Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna

Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna (United Nations Convention on the Law of the Sea – UNCLOS) frá árinu 1982 er fyrsti og eini heildstæði alþjóðasamningurinn á sviði hafréttar og var með honum ýmist staðfestur gildandi venjuréttur eða settar nýjar reglur um öll not hafsins. Samningurinn, sem oft er vísað til sem stjórnarskrár hafsins, tekur til allra hafsvæða auk loftrýmisins yfir þeim, hafsbotnsins og botnlaganna undir þeim. Hann hefur meðal annars að geyma ákvæði um landhelgi, efnahagslögsögu, landgrunn, úthafið, alþjóðlega hafsbotnssvæðið, réttindi strandríkja og annarra ríkja til fiskveiða, annarrar auðlindanýtingar, siglinga og flugs, verndun gegn mengun hafsins og lausn deilumála. Samningurinn tók gildi 16. nóvember 1994 og í ársbyrjun 2024 voru aðildarríki hans orðin 168, auk Evrópusambandsins, en Ísland varð árið 1985 fyrsta vestræna ríkið til þess að fullgilda samninginn. Aðildarríkjafundur hafréttarsamningsins er haldinn á hverju ári. Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að í málefnum hafsins beri að vinna á grundvelli hafréttarsamningsins og samninga tengdum honum. Mikilvægt sé að þeir séu fullgiltir og ákvæðum þeirra framfylgt af ríkjum heims.

Gögn

Landgrunnsmál

Samkvæmt 76. gr. hafréttarsamningsins eiga strandríki landgrunn allt að 200 sjómílum frá grunnlínum sem víðátta landhelginnar er mæld frá. Þessu til viðbótar kunna strandríki að geta gert kröfu til landgrunns utan 200 sjómílna frá grunnlínum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Mörg ríki, þar á meðal Ísland, eiga sökum náttúrulegra aðstæðna víðáttumeiri hafsbotnsréttindi samkvæmt ákvæðum samningsins. Viðkomandi ríki skulu senda landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna (Commission on the Limits of the Continental Shelf – CLCS) ítarlega greinargerð um ytri mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna og yfirfer nefndin greinargerðina, leggur tæknilegt mat á hana og gerir tillögur um landgrunnsmörkin. Á grundvelli tillagna nefndarinnar getur strandríkið síðan ákveðið á endanlegan og bindandi hátt mörk landgrunnsins gagnvart alþjóðlega hafsbotnssvæðinu sem liggur þar fyrir utan.

Mikilvægt er að Íslendingar öðlist yfirráð yfir sem víðáttumestum landgrunnssvæðum enda má gera ráð fyrir að réttindi yfir landgrunninu muni fá aukna þýðingu í framtíðinni. Þau þrjú landgrunnssvæði, sem Ísland gerir tilkall til utan 200 sjómílna, það er Ægisdjúp, Reykjaneshryggur og Hatton Rockall-svæðið.

Þær náttúruauðlindir sem tilheyra landgrunninu eru jarðefnaauðlindir á borð við olíu, gas og málma, aðrar ólífrænar auðlindir hafsbotnsins og botnlaganna, til dæmis jarðhiti, og lífverur í flokki botnsetutegunda og erfðaefni þeirra. Réttindi strandríkisins yfir landgrunninu utan efnahagslögsögunnar hafa ekki áhrif á réttarstöðu hafsins þar fyrir ofan sem telst úthaf og ná ekki til fiskistofna né annarra auðlinda þess.

Í mars 2016 afgreiddi landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna tillögur sínar vegna hluta­greinargerðar íslenskra stjórnvalda um ytri mörk íslenska landgrunnsins utan 200 sjómílna sem skilað var til nefndarinnar í apríl 2009. Náði greinargerðin annars vegar til Ægisdjúps í suðurhluta Síldarsmugunnar og hins vegar til vestur- og suðurhluta Reykjaneshryggjar. Greinargerðin tók hvorki til hins umdeilda Hatton Rockall-svæðis, sem er hluti af íslenska landgrunninu, og Bretland, Írland og Danmörk/Færeyjar gera einnig tilkall til, né austurhluta Reykjaneshryggjar sem skarast við það svæði. Greinargerð um þessi svæði er í undirbúningi og verður skilað síðar.

Í tillögu landgrunnsnefndarinnar varðandi Ægisdjúp var fallist á kröfur Íslands í samræmi við upprunalega greinargerð þar um. Hvað Reykjaneshrygg varðar féllst landgrunns­nefndin á þá punkta sem marka hinn svokallaða hlíðarfót sem grundvallar ytri mörk landgrunns­ins, innan 350 sjómílna frá grunnlínum, en ekki þá punkta sem liggja þar fyrir utan. Taldi nefndin að fyrirliggjandi gögn væru ekki nægilega afgerandi (e. inconclusive) fyrir svæðið utan 350 sjómílna til stuðnings kröfum Íslands um að Reykjanes­hryggurinn teljist náttúrulegur hluti landgrunnsins.

Til að bregðast við niðurstöðu nefndarinnar skiluðu stjórnvöld endurskoðaðri greingargerð 30. mars 2021, en greinargerðin varðar vestur-, suður- og suðausturhluta Reykjaneshryggjar. Vinna sendinefndar Íslands með landgrunnsnefndinni, varðandi endurskoðaða greinargerð, hófst í ágúst 2023.

Tillaga landgrunnsnefndarinnar um Ægisdjúp gerir íslenskum stjórnvöldum kleift, á grundvelli 76. gr. hafréttarsamningsins, að ákveða ytri mörk landgrunns­ins á því svæði á endanlegan og bindandi hátt í samræmi við tillögur nefndarinnar.

Viðræður ríkjanna fjögurra sem gera tilkall til Hatton Rockall-svæðisins fóru áður fram með reglubundnum hætti en síðast áttu þær sér stað í Reykjavík í maí 2011. Af Íslands hálfu hefur verið lögð áhersla á að ríkin leggi sig fram við að ná samkomulagi um skiptingu landgrunnsins á milli þeirra og að þau skili í framhaldi af því sameiginlegri greinargerð til landgrunnsnefndarinnar um ytri mörk svæðisins.

Gögn

Samningur um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni utan lögsögu ríkja (BBNJ)

Hinn 20. september 2023 undirritaði utanríkisráðherra nýjan samning undir hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni í hafinu utan lögsögu ríkja (Agreement under the United Nations Convention on the Law of the Sea on the conservation and sustainable use of marine biological diversity of areas beyond national jurisdiction, BBNJ).

Um mikil tímamót var að ræða, en samningurinn, sem var formlega samþykktur innan SÞ 19. júní 2023, hefur lengi verið í bígerð. Íslensk stjórnvöld lögðu ríka áherslu á að samningurinn yrði kláraður, í ljósi mikilla hagsmuna þjóðarinnar þegar kemur að heilbrigði hafsins og virðingu fyrir hafréttarsamningnum.

Samningurinn hefur að geyma fjóra efniskafla, sem fjalla um erfðaauðlindir sjávar, svæðisbundnar ráðstafanir, þar með talin verndarsvæði á úthafi, umhverfismat á úthafi og færnisuppbyggingu og miðlun sjávartengdrar tækni.

Utanríkisráðherra hefur sett á fót starfshóp skipaðan fulltrúum viðeigandi ráðuneyta og stofnana sem vinnur að undirbúningi fullgildingar og kortlagningu nauðsynlegrar innleiðingarlöggjafar.

Samningurinn tekur gildi þegar 60 ríki hafa fullgilt hann.

Tenglar

Úthafsveiðisamningurinn

Úthafsveiðisamningur Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1995 (The United Nations Agreement for the Implementation of the Provisions of the United Nations Convention on the Law of the Sea of 10 December 1982 relating to the Conservation and Management of Straddling Fish Stocks and Highly Migratory Fish Stocks - UNFSA) kveður á um framkvæmd og útfærslu ákvæða hafréttarsamningsins um fiskistofna sem finnast bæði innan efnahagslögsögu strandríkja og á úthafinu. Samningurinn styrkir verulega ramma um samstarf strandríkja og úthafsveiðiríkja á vettvangi svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana. Hann tók gildi 11. desember 2001 og var fullgiltur af Íslands hálfu 1997. Reglulega eru haldnir fundir endurskoðunarráðstefnu samningsins til að fara yfir framkvæmd hans af hálfu ríkja og svæðisstofnana og var síðasti slíkur fundur haldinn í maí 2023.

Gögn

Hafréttarmál á vettvangi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna

Í kjölfar áskorunar allsherjarþings SÞ voru á vettvangi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, haustið 2008 samþykktar alþjóðlegar leiðbeiningarreglur um djúpsjávarveiðar og verndun viðkvæmra vistkerfa hafsins. Reglunum er ætlað að auðvelda ríkjum og svæðisbundnum fiskveiðistjórnunarstofnunum að skilgreina og auðkenna viðkvæm vistkerfi, meta hugsanleg skaðleg áhrif fiskveiða á þau og grípa til viðeigandi aðgerða. Ísland hefur tekið virkan þátt í framkvæmd þeirra, meðal annars á vettvangi svæðastofnananna NEAFC (North East Atlantic Fisheries Commission) og NAFO (Northwest Atlantic Fisheries Organisation).

Ísland hefur verið í fararbroddi í baráttunni gegn ólöglegum fiskveiðum og tóku íslensk stjórnvöld virkan þátt í samningaviðræðum á vettvangi FAO um gerð nýs alþjóðasamnings um aðgerðir hafnríkja gegn ólöglegum fiskveiðum (Agreement on Port State Measures to Prevent, Deter and Eliminate Illigal, Unreported and Unregulated Fishing). Samningurinn var samþykktur 2009 og fullgiltur af Íslands hálfu 2015. Um er að ræða fyrsta alþjóðasamning sem gerður er gagngert til að berjast gegn ólöglegum fiskveiðum og er hann afar mikilvægur þáttur í því. Samningurinn skuldbindur aðildarríki hans til að loka höfnum sínum fyrir skipum sem gerst hafa uppvís að ólöglegum fiskveiðum og synja þeim um löndun, umskipun og hvers konar þjónustu.

Svalbarðamálið

Með samningnum um Svalbarða árið 1920 voru Noregi falin fullveldisréttindi yfir Svalbarða. Aðildarríki samningsins eru 46 talsins og er Ísland þar á meðal.

Ágreiningur hefur ríkt milli Noregs annars vegar og Íslands og fjölda annarra aðildarríkja samningsins hins vegar um gildissvið Svalbarðasamningsins. Íslensk stjórnvöld líta svo á að samningurinn sé eini hugsanlegi grundvöllur fullveldisréttinda Noregs á hafsvæðunum í kringum Svalbarða, þar með talið efnahagslögsaga og landgrunn. Fullveldisréttindi Noregs eru háð mikilvægum takmörkunum sem kveðið er á um í samningnum og skiptir þar mestu máli jafnræðisregla hans. Takmarkanir þessar gilda jafnt á Svalbarða sjálfum, innan 12 mílna landhelginnar, innan 200 mílna lögsögunnar og á landgrunni Svalbarða. Augljóst er að réttindi Noregs í lögsögunni og á landgrunninu umhverfis Svalbarða geta ekki verið umfangsmeiri en réttindi Noregs á Svalbarða sjálfum sem fyrrnefndu réttindin eru leidd af.

Ísland gerðist aðili að Svalbarðasamningnum árið 1994 og hefur samkvæmt framangreindu jafnan rétt á við önnur aðildarríki samningsins til fiskveiða í lögsögu Svalbarða og nýtingar hugsanlegra auðlinda á landgrunni hans. Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að standa vörð um þessi réttindi og munu áfram gæta hagsmuna Íslands sem aðildarríkis Svalbarðasamningsins.

Síðast uppfært: 14.8.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta