Hoppa yfir valmynd

Samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja

Norðurlöndin eiga í sameiginlegu samstarfi við Eystrasaltsríkin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen. NB8-samstarfið, sem svo er kallað, stendur á traustum grunni og er mikilvægur vettvangur við hlið Norðurlandasamstarfsins. Utanríkisráðherrar ríkjanna átta funda m.a. árlega og löndin skiptast á um að vera í formennsku fyrir þetta samstarf. Ísland fór síðast með formennskuna árið 2019.

Samstarf NB8-ríkjanna hefur eflst verulega á þeim þrjátíu árum sem liðin eru síðan Eistland, Lettland og Litháen endurheimtu sjálfstæði sitt. Líkt og í utanríkismálasamstarfi Norðurlanda hefur verið lögð áhersla á gagnsemi óformlegra og sveigjanlegra vinnubragða í samstarfinu við Eystrasaltsríkin. Samstarf NB8-ríkjanna nær til margra sviða og stofnana stjórnsýslu landanna og meðal málefna eru orkumál, fjármál og viðskipti, netöryggi, almannavarnir, kjarnorkuöryggi, jafnrétti kynja og lýðræðisþróun.

Undanfarin ár hefur verið unnið að enn nánara samstarfi á grundvelli tillagna sem Valdis Birkavs, fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra Lettlands, og Søren Gade, fyrrverandi varnarmálaráðherra Danmerkur, lögðu fram árið 2010. Tillögurnar ná til ýmissa þátta sem fjallað er um í tillögum Thorvalds Stoltenbergs að nánara samstarfi Norðurlandanna. Þannig var á Helsinki-fundi utanríkisráðherra NB8-ríkjanna árið 2011 undirritað rammasamkomulag um að sendifulltrúar frá NB8-ríkjum geti fengið aðstöðu í sendiskrifstofu annarra NB8-ríkja þegar viðkomandi ríki hefur ekki sendiskrifstofu á staðnum. Fá þeir jafnframt aðgang að sérfræðiþekkingu viðkomandi sendiskrifstofu og tengslaneti.

Í Birkavs/Gade-tillögunum svokölluðu er lögð áhersla á samstöðu ríkjanna á alþjóðavettvangi, innan ESB, NATO og hjá Sameinuðu þjóðunum og að ríkin tali einni röddu þar sem því er við komið. 

Síðast uppfært: 18.7.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta