Hoppa yfir valmynd

Stoltenbergskýrslan

Gott samstarf er milli norrænu utanríkisráðuneytanna og ráðherrar Norðurlandanna funda að jafnaði þrisvar sinnum á ári. Á reglulegum fundum sínum skiptast norrænu utanríkisráðherrarnir á skoðunum um þau alþjóðamál sem efst eru á baugi á hverjum tíma og afstöðu til þeirra. Er jafnan stefnt að því að ná fram norrænni samstöðu í sem flestum málum á alþjóðavettvangi og hjá þeim alþjóðastofnunum sem Norðurlöndin eiga aðild að.

Fastur liður í dagskrá funda utanríkisráðherra Norðurlandanna undanfarin misseri hefur verið umræða um frekari eflingu samstarfs á sviði utanríkis- og öryggismála með hliðsjón af tillögum Thorvalds Stoltenbergs, fyrrverandi varnarmála- og utanríkisráðherra Noregs, sem fram koma í skýrslu hans til ráðherranna árið 2009. Tillögurnar voru alls þrettán og snerta m.a. varnarmál en þar áttu sér stað þau tíðindi á árinu 2012 að Svíar og Finnar ákváðu að taka þátt í loftrýmiseftirliti á Íslandi í norrænu samhengi vorið 2014.

Unnið hefur verið skipulega undanfarin misseri að tillögum Stoltenbergs um aukið norrænt stjórnsýslusamstarf utanríkisráðuneytanna í rekstri og staðsetningu sendiráða. Óformlegt samstarf norrænu utanríkisráðuneytanna og sendiráða erlendis hefur átt sér stað um áratuga skeið en hefur dýpkað umtalsvert á undanförnum fáum árum með hliðsjón af tillögum Stoltenbergs. Markmiðið er að ná eins hagkvæmu og hagnýtu samstarfi og mögulegt er, innan lagaramma hvers lands. Sparnaður í rekstri, hagkvæm verkaskipting og samþætting eru þar í fyrirrúmi. Norrænu löndin eru með mjög vel skipulagt samstarf á sviði ræðis- og áritanamála, neyðarviðbragða og fasteignareksturs. Þetta samstarf verður aukið þannig að það nái einnig til öryggismála sendiskrifstofa, upplýsingatækni og mannauðsmála.

Norræn samstöðuyfirlýsing

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna staðfestu á fundi sínum í Helsinki í apríl 2011 formlega norræna samstöðuyfirlýsingu í anda tillagna Thorvalds Stoltenbergs um aukið samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála.

Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á sameiginlegt gildismat landanna þar sem stuðningur við lýðræði, alþjóðarétt, þar á meðal mannréttindi, um jafnrétti kynja og sjálfbæra þróun, er hluti af utanríkisstefnu þeirra allra. Vegna sameiginlegra hagsmuna og landfræðilegrar nálægðar hafi Norðurlöndin sammælst um að mæta áskorunum á sviði utanríkis- og öryggismála. Megininntak samstöðuyfirlýsingarinnar felst hins vegar í því að verði eitthvert norrænu landanna fyrir aðsteðjandi hættum, þar á meðal náttúruhamförum, hamförum af mannavöldum, netárásum eða hryðjuverkum, munu hin löndin koma til aðstoðar með viðeigandi hætti þegar eftir því er leitað. Þessar nýju áherslur í norrænni samvinnu eru í fullu samræmi við öryggis- og varnarhagsmuni hvers einstaks ríkis og styðja gildandi Evrópu- og Norður-Atlantshafssamvinnu.

Síðast uppfært: 30.9.2019
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta