Ísland og Atlantshafsbandalagið
Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu er lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur þeirrar samvinnu líkt þenkjandi ríkja sem Ísland tekur þátt í til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja.
Atlantshafsbandalaginu (NATO) var komið á fót með Atlantshafssáttmálanum sem undirritaður var í Washington 4. apríl 1949. Ísland var eitt tólf stofnríkja bandalagsins. Auk aðildar að Atlantshafsbandalaginu, er varnarsamningur Íslands við Bandaríkin frá 1951 ein meginstoð Íslands í öryggis- og varnarmálum, eins og fram kemur í 3. og 4. grein þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem samþykkt var af Alþingi árið 2016 og tók breytingum 2023.
Á þessum tíma hefur starfsemi Atlantshafsbandalagsins og þátttaka Íslands í bandalaginu gjörbreyst. Við lok kalda stríðsins dró úr áherslu á ógnir og varnarviðbúnað í Evrópu, en sjónir beindust að friðargæsluverkefnum og aðgerðum utan bandalagsríkja, meðal annars á Balkanskaga, auk þess sem barátta gegn hryðjuverkaógn og stuðningur við þjálfun, umbætur, uppbyggingu og skipulag öryggis- og varnarmála ríkja sem glímt hafa við átök, hefur verið í forgrunni.
Mörg Evrópuríki sem voru áður á áhrifasvæði gömlu Sovétríkjanna hafa á síðustu áratugum gengið til liðs við bandalagið, sem nú telur alls 32 ríki. Að auki eiga fjölmörg ríki í nánu samstarfi við Atlantshafsbandalagið, meðal annars með þátttöku í æfingum, verkefnum í friðargæslu, þjálfun og aðgerðum, pólitísku samráði og öðru samstarfi. Einnig á Atlantshafsbandalagið í virku samráði og samstarfi við stofnanir og samtök á alþjóðavísu, meðal annars Evrópusambandið, ÖSE, Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir þess, og ríkjahópa í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.
Fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu sinnir fyrirsvari og hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel, svo og í herstjórnarmiðstöð þess, SHAPE, í Mons í Belgíu. Enn fremur sendir íslenska utanríkisráðuneytið sérfræðinga til starfa í verkefnum bandalagsins, aðgerðum, friðargæslu, þjálfun og stuðningsverkefnum. Almennt eru um tíu stöður mannaðar íslenskum sérfræðingum til lengri eða skemmri tíma og eru sérfræðingar starfandi meðal annars í Eistlandi, Lettlandi og Litáen og að auki innan herstjórna í Mons (SHAPE), Northwood í Bretlandi (Allied Maritime Command), Norfolk í Bandaríkjunum (Joint Force Command Norfolk) og höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel.
Starfsemi Atlantshafsbandalagsins
Atlantshafsbandalagið er bandalag 32 ríkja í Evrópu og N-Ameríku. Það er öryggis- og varnarbandalag og starfar í samræmi við stofnsáttmála sinn, Atlantshafssáttmálann (sem einnig er kallaður Washington sáttmálinn), sem var undirritaður 4. apríl 1949 í Washington af stofnríkjum bandalagins, en Ísland er eitt þeirra. Höfuðstöðvar Atlantshafsbandalagsins eru í Brussel og tvær yfirherstjórnir bandalagsins eru staðsettar í Mons í Belgíu og Norfolk í Bandaríkjunum. Yfirherstjórnin í Mons, Allied Command Operations eða SHAPE, hefur sem meginverkefni aðgerðir og æfingar bandalagsins, en yfirherstjórnin í Norfolk, Allied Command Transformation, einblínir á umbreytingar, framtíðarógnir- og viðbúnað, þjálfun og fleira. Svæðisherstjórnir eru í Brunssum í Hollandi, Norfolk í Bandaríkjunum og Napólí á Ítalíu.
Framkvæmdastjóri bandalagsins er Mark Rutte.
Hlutverk bandalagsins er að tryggja frelsi og öryggi bandalagsríkjanna, með pólitísku samráði og hernaðargetu, í samræmi við ákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Bandalagið byggir á gildum lýðræðis, mannréttinda og lögmætis. Sameiginleg skuldbinding ríkjanna um að árás á eitt bandalagsríkjanna jafngildi árás á þau öll, hefur verið hornsteinn bandalagsins frá stofnun og er tilgreind í 5. grein Washingtonsáttmálans.
Breytt öryggisumhverfi í gegnum tíðina, fjölgun bandalagsríkja og nýjar ógnir hafa breytt áherslum bandalagsins, sem þarf á hverjum tíma að aðlaga sig og bregðast við þeim ógnum sem helst steðja að, og horfa til framtíðar varðandi hættur, ástand í alþjóðamálum, síbreytilegar aðferðir og markmið.
Síðustu áratugum starfstíma bandalagsins má ef til vill skipta í þrennt, fyrst kaldastríðstímann fram að hruni Sovétríkjanna, þá aðgerða og þátttöku í friðargæsluverkefnum utan svæðis bandalagsins, meðal annars á Balkanskaga og í Afganistan. Frá 2014 hafa bandalagsríki á ný einbeitt sér að eigin vörnum samfara vaxandi ógn frá Rússlandi, netárásum og öðrum fjölþáttaaðgerðum.
Bandalagsríki brugðust við allsherjarinnrás Rússlands í Úkraínu með fjölþættum stuðningi við Úkraínu og eflingu eigin varna, einkum á austurvæng bandalagsins í Evrópu. Á leiðtogafundi í Vilníus, 2023, staðfestu aðildarríkin áherslu á sameiginleg gildi eins og lýðræði, einstaklingsfrelsi, mannréttindi og réttarríkið. Svíar og Finnar bundu enda á langvarandi utanríkisstefnu um að standa utan bandalags og gengu í Atlantshafsbandalagið. Á 75 ára afmælinu eru því öll norrænu ríkin aðilar að Atlantshafsbandalaginu.
Æðsta ákvörðunarvald bandalagins liggur hjá Norður Atlantshafsráðinu (North Atlantic Council, NAC). Sendiherrar bandalagsríkja mynda ráðið á vikulegum fundum en einnig eru reglulegir ráðherrafundir haldnir undir merkjum ráðsins. Haldnir eru tveir utanríkisráðherrafundir á ári og varnarmálaráðherrafundir almennt um þrisvar á ári. Leiðtogafundir eru haldnir reglulega, almennt á eins til þriggja ára fresti.
Leiðtogayfirlýsingar fundanna (Communiqué) marka stefnu bandalagsins til næstu ára. Alþjóðastarfslið NATO og fulltrúar ríkja innan fastanefnda undirbúa mál í fjölmörgum nefndum og ráðum innan bandalagsins, fyrir ákvarðanatöku fastaráðsins. Þar má nefna samráðsnefnd varafastafulltrúa, nefnd um pólitísk málefni og samstarfsríki, aðgerðanefnd, fjárfestinga- og innviðanefnd, og fjármála- og fjárlaganefnd.
- Hermálanefnd (Military Committee) fjallar um hernaðarleg málefni, liðsafla og skipulag aðgerða sem bandalagið tekur ákvarðanir um. Hermálanefnd veitir ráðgjöf um málefni á þessu sviði til fastaráðsins og funda yfirmenn herafla í bandalagsríkjunum einnig reglulega á þessum vettvangi.
- Evró-Atlantshafsráðið (Euro-Atlantic partnership Council, EAPC) er umgjörð Atlantshafsbandalagsins fyrir samvinnu við öll samstarfsríkin.
- NATO-Georgíunefndin (NATO-Georgia Commission, NGC). Bandalagið á í þéttu samstarfi við Georgíu um þjálfun, uppbyggingu í varnar- og öryggismálum og umbótastarf.
- NATO–Úkraínuráðið (NATO Ukraine Council, NUC). Bandalagið á fjölþætt samstarf við Úkraínu, einkum um endurskipulagningu á sviði varnar- og öryggismála. Samstarfið hefur verið þétt enn frekar frá 2014 í kjölfar ólögmætrar innlimunar Rússlands á Krímskaga og íhlutunar Rússa í austurhéruðum Úkraínu (Donbas). Ráðið var myndað eftir leiðtogafundinn í Vilníus 2023 og tók þá við af NATO-Úkraínunefndinni og er til marks um þéttara samráð bandalagsins og Úkraínu.
- Fjölmörg samstarfsform eru til staðar við ríkjahópa, meðal annars Miðjarðarhafs-samráðið (Mediterranean Dialogue), við Egyptaland, Ísrael, Máritaníu, Marokkó, Túnis, Alsír og Jórdaníu. Samráð við Flóaríki fer fram undir merkjum Istanbul Cooperation Initiative en í því eru Kúveit, Bahrein, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Katar. Þá hafa Sádi-Arabía og Óman átt kost á þátttöku í samstarfinu.
- Þingmannasamtök NATO (NATO Parliamentary Assembly) eru vettvangur fyrir þingmenn úr röðum bandalagsríkjanna til að ræða sameiginleg hagsmunamál og áherslur. Þingmannasamtökin eru óháð bandalaginu en þau mynda þýðingarmikil tengsl á milli bandalagsins og þjóðþinga ríkja þess. Íslandsdeild þingmannanefndarinnar skipa þrír þingmenn hverju sinni.
Þátttaka Íslands í verkefnum Atlantshafsbandalagsins
Gistiríkjastuðningur
Ísland sem aðildarríki Atlantshafsbandalagsins hefur skuldbundið sig til að tryggja getu hér á landi til að taka á móti færanlegum liðsafla bandalagsríkja og veita svokallaðan gistiríkisstuðning sem felst meðal annars í því að geta boðið aðstöðu, fæði og gistingu. Slíkur stuðningur er veittur vegna loftrýmisgæslu og varnaræfinga hér við land.
Auk þess er gistiríkisstuðningur veittur vegna kafbátaeftirlits bandalagsríkja í lofti, sem farið hefur fram í auknum mæli við Ísland frá árinu 2014 vegna meiri umferðar óvinveittra kafbáta í kringum Ísland og á Atlantshafi. Aðallega er um að ræða flugsveitir frá Bandaríkjunum, en einnig frá Bretlandi, Þýskalandi og Kanada. Umfangið er talsvert þar sem tvær til fjórtán kafbátaleitarflugvélar eru gerðar út frá Íslandi á hverjum tíma eftir þörfum.
Ísland ber ábyrgð á rekstri og viðhaldi 150 varnarmannvirkja á skilgreindum öryggissvæðum. Sem dæmi má nefna flugvallarmannvirki á Keflavíkurflugvelli, stjórnstöð Atlantshafsbandalagsins á öryggissvæðinu, olíubirgðastöð og lagnakerfi í Helguvík og á flugvallarsvæðinu, ratsjár- og fjarskiptastöðvar auk ljósleiðara sem liggur í kringum Ísland. Flest þessi mannvirki eru á eignaskrá Atlantshafsbandalagsins.
Útsendir sérfræðingar
Ísland hefur um langt skeið sent borgaralega sérfræðinga til starfa innan Atlantshafsbandalagsins á starfsstöðvar sem tengjast öryggis- og varnarmálum. Þetta er hluti af framlagi Íslands til starfsemi bandalagsins. Starfsemi íslenskra sérfræðinga með sveitum bandalagsins stuðlar að uppbyggingu þekkingar innanlands á verkefnum þess og sýnir í verki að Íslandi er umhugað um að leggja sitt af mörkum á þessu sviði.
Nú eru Íslendingar við störf á vegum Atlantshafsbandalagsins í öllum Eystasaltsríkjunum, í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel, í Evrópuherstjórninni í Mons í Belgíu, hjá flotaherstjórninni í Bretlandi og herstjórninni í Norfolk í Bandaríkjunum. Auk þess er útsendur sérfræðingur við störf í höfuðstöðvum sameiginlegrar viðbragðssveitar JEF í Englandi og þá var fulltrúi utanríkisráðuneytisins sendur til starfa í Norfolk sem tengiliður við starfsstöðvar Atlantshafsbandalagsins þar og Bandaríkjaher.
Atlantshafsbandalagið á Íslandi
Loftrýmisgæsla
Framlag Íslands til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins felst fyrst og fremst í þátttöku í samþættu loftrýmiseftirliti Atlantshafsbandalagsins, loftrýmisgæslu og gistiríkjaþjónustu fyrir æfingar og aðgerðir bandalagsins og bandalagsríkja.
Með loftrýmiseftirliti er átt við eftirlit með flugumferð á skilgreindu svæði í kringum Ísland. Ratsjár- og fjarskiptastöðvar á fjórum stöðum á landinu eru búnar fullkomnum ratsjáreftirlitsbúnaði til eftirlits með flugumferð, öruggum fjarskiptabúnaði til samskipta milli stjórnstöðva á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli við herflugvélar og herskip og gagnatengingum sem einnig tengja saman stjórnstöðina við herskip og herflugvélar.
Stjórnstöðin á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli vinnur úr og miðlar upplýsingum sem annarsvegar koma úr kerfunum á ratsjár- og fjarskiptastöðvunum og hins vegar úr öðrum kerfum Atlantshafsbandalagsins. Stjórnstöðin er í þessum tilgangi í daglegum samskiptum við stjórnstöðvar Atlantshafsbandalagsins og bandalagsríkja og á að auki í samskiptum við þær stofnanir sem að verkefninu koma hér á landi.
Ísland veitir liðsafla bandalagsríkja aðstöðu og gistiríkisþjónustu og tryggir öruggan rekstur og getu varnarmannvirkja, eftirlits- og samskiptakerfa og búnaðar. Dagleg framkvæmd varnartengdra rekstrarverkefna á Íslandi er í höndum varnarmálasviðs Landhelgisgæslunnar á grundvelli þjónustusamnings við utanríkisráðuneytið. Náið daglegt samstarf er milli varnarmálasviðs Landhelgisgæslunnar og varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins varðandi skipulag og framkvæmd verkefna sem undir samninginn falla en stefnumótun og ákvörðunartökuvald er í höndum ráðuneytisins.
Frá 2008 hafa flugsveitir frá aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins sinnt reglubundinni loftrýmisgæslu bandalagsins við Ísland. Þetta er liður í að gæta að nyrðri mörkum bandalagsins með þátttöku í kerfisbundnu rauntímaeftirliti, gæslu og auðkenningu loftfara. Verkefnið er skipulagt í samvinnu utanríkisráðuneytisins og flugherstjórnar bandalagsins en starfsfólk á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli annast framkvæmdina af Íslands hálfu í umboði ráðuneytisins.
Öryggis- og varnarmál
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.