Innrás Rússlands í Úkraínu - viðbrögð íslenskra stjórnvalda
Íslensk stjórnvöld fordæma ólögmæta innrás Rússlands og lýsa algjörum stuðningi við Úkraínu.
Ísland er samstíga bandalags- og samstarfsríkjum í aðgerðum til stuðnings Úkraínu og tekur fullan þátt í víðtækum þvingunaraðgerðum gagnvart Rússlandi. Stuðningur íslenskra stjórnvalda hefur meðal annars falist í framlögum til mannúðarstarfs, neyðarviðbrögðum og efnahagsaðstoð á vegum Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankans og annarra alþjóðastofnana til viðbótar við móttöku flóttafólks og varnartengdan stuðnings.
Sérstök stefna um stuðning við Úkraínu var samþykkt á Alþingi 29. apríl 2024 og miðar að því að styðja við sjálfstæði, fullveldi, friðhelgi landamæra, öryggi borgara, mannúðaraðstoð og uppbyggingarstarf í Úkraínu. Þann 31. maí 2024 undirritaði forsætisráðherra tvíhliða samning landanna um öryggissamstarf og langtímastuðning.
Heildarstuðningur Íslands við Úkraínu frá upphafi innrásarinnar í febrúar 2022 fram til loka ársins 2024 mun nema um 10 milljörðum íslenskra króna.
Þann 31. maí 2024 undirritaði forsætisráðherra tvíhliða samning ríkjanna um öryggissamstarf og langtímastuðning. Samningurinn rammar inn og formgerir þann stuðning sem Ísland hefur veitt Úkraínu og hyggst veita í samræmi við þingsályktun um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024-2028 sem samþykkt var á Alþingi 29. apríl sl. Að auki tekur hann mið af sambærilegum samningum vina- og bandalagsþjóða sem þegar hafa verið undirritaðir eða eru á samningsstigi, að teknu tilliti til sérstöðu Íslands sem herlauss ríkis.
Stefnan um stuðning Íslands við Úkraínu 2024-2028 og tvíhliða samningurinn tryggja að lágmarki fjóra milljarða á ári í beinan stuðning við Úkraínu þar sem lögð verður áhersla á eftirfarandi þætti:
- Öflugt tvíhliða samstarf og samskipti við stjórnvöld, þjóðþing, stofnanir, félagasamtök og atvinnulíf.
- Virka þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og málafylgju sem styðji við örugga, sjálfstæða, fullvalda og lýðræðislega Úkraínu í samræmi við vilja íbúa landsins, auk friðarferlis forseta Úkraínu og ábyrgðarskyldu Rússlands vegna áhrifa stríðsins.
- Stuðning við varnarbaráttu Úkraínu til að tryggja öryggi borgara og mikilvægra innviða.
- Mannúðaraðstoð við íbúa Úkraínu og vernd óbreyttra borgara í átökum.
- Viðhald grunnþjónustu og efnahags Úkraínu meðan á átökum stendur og stuðningi við endurreisn og uppbyggingu eftir að þeim lýkur.
Heildarframlög Íslands til mannúðar- og efnahagsaðstoðar fyrir Úkraínu hafa numið um 3,2 milljörðum frá því að innrás Rússa hófst 24. febrúar 2022.
Framlög til mannúðarstarfs og neyðarviðbragða á vegum Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana hafa numið tæplega 1,4 milljarði. Efnahagsleg aðstoð sem rann í sjóði Alþjóðabankans vegna Úkraínu var rúmlega 1,4 milljarður. Um 315 milljónir runnu í sérstakan alþjóðlegan sjóð sem fjármagnar sérhæfðan búnað til að framleiða rafmagn og 70 milljónum hefur verið veitt í verkefni UNDP til styrkingar á orkuinnviðum í Úkraínu. Stjórnvöld sendu einnig mat að beiðni úkraínskra stjórnvalda og styrktu stoðtækjaverkefni Össurar í landinu.
Mannúðarframlög hafa runnið til stofnana Sameinuðu þjóðanna, þ.e. Samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA), Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF). Framlög hafa jafnframt runnið til Alþjóða Rauða krossins (ICRC) og Rauða krossins á Íslandi. Miða aðgerðir þessara stofnana að því að veita lífsbjargandi aðstoð bæði innan Úkraínu sem og í nágrannaríkjum.
Efnahagsaðstoð til Úkraínu hefur verið veitt í gegnum sjóði Alþjóðabankans fyrir efnahagslega neyðaraðstoð við Úkraínu. Þá veitti Ísland fjármagni í orkusjóð fyrir Úkraínu (Ukraine Energy Support Fund) á vegum evrópsks samstarfsvettvangs um orkumál (Energy Community).
Íslensk dreifi- og veitufyrirtæki hafa, í samstarfi við utanríkisráðueytið, sent nauðsynlegan raforkubúnað af ýmsu tagi til Úkraínu, að verðmæti 60 milljón króna.
Einnig hefur utanríkisráðuneytið sent neyðarvistir í formi niðursoðinnar þorsklifur til Kharkiv héraðs í Úkraínu.
Ísland hefur stutt við varnarbaráttu Úkraínu og lagt til þess rúmlega þrjá milljarða króna í varnartengda aðstoð.
Um 520 milljónir hafa verið lagðar í sjóð Atlantshafsbandalagsins fyrir Úkraínu og tæplega 530 milljónum verið veitt í sérstakan sjóð fyrir Úkraínu (International Fund for Ukraine) sem bresk stjórnvöld settu á laggirnar. Þá studdi Ísland frumkvæði Tékklands um kaup á skotfærum fyrir Úkraínu með ríflega 300 milljóna króna framlagi.
Ísland hefur stutt og tekið þátt í þjálfunarverkefnum sem stuðla að bættri þekkingu og varnargetu Úkraínu. Áhersla hefur verið lögð á að nýta sérþekkingu Íslands á ákveðnum sviðum til samræmis við óskir Úkraínu. Þannig hefur
Ísland tekið að sér að leiða þjálfun í sprengjuleit og -eyðingu ásamt Norðurlöndunum og Litáen og tekið þátt í þjálfunarverkefni fyrir úkraínska hermenn sem Bretland leiðir og miðar að því að þjálfa leiðbeinendur í bráðameðferð fyrir særða hermenn á vígvellinum. Þá hafa úkraínskir sjóliðar fengið þjálfun hér á landi í samstarfi við Landhelgisgæsluna. Á vettvangi ríkjahóps til stuðnings Úkraínu tekur Ísland ásamt Litáen þátt í að leiða bandalag ríkja um sprengjueyðingu ásamt því að taka þátt í bandalagi ríkja sem styður Úkraínu á sviði netvarna- og upplýsingamála.
Í maí 2023 samþykkti Alþingi einróma að fela utanríkisráðherra að festa kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi fyrir Úkraínu að andvirði rúmlega eins milljarðs króna. Sjúkrahúsið samanstendur af tíu gámaeiningum sem mynda fullbúið sjúkrahús sem starfað getur sjálfstætt og án stuðnings svo dögum skiptir. Sjúkrahúsið var tekið í gagnið í Úkraínu í nóvember síðastliðnum.
Verulegt magn af vetrarbúnaði, sérstaklega ullarvörum, hefur verið sent frá Íslandi til varnarsveita Úkraínu sem var að stórum hluta afrakstur sjálfboðavinnu þúsunda Íslendinga í gegnum átakið „Sendum hlýju“. Auk þess hefur Ísland stutt kaup á búnaði fyrir konur í úkraínska hernum. Þá hefur Ísland útvegað varnarsveitum Úkraínu olíuflutningabíla, stutt kaup á eldsneyti fyrir herflugvélar og aðstoðað við flutning á hergögnum frá bandalagsríkjum til Úkraínu.
Ísland hefur tekið undir allar pólitískar yfirlýsingar Evrópusambandsins varðandi þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi vegna innrásarinnar í Úkraínu. Við höfum þannig skuldbundið okkur til þess að láta sömu reglur gilda hér á landi.
Innleiðingarferli á Íslandi
- Þvingunaraðgerðir eru innleiddar í íslenskan rétt á grundvelli laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna.
- Hér á vef stjórnarráðsins er að finna lista yfir alþjóðlegar þvingunaraðgerðir í gildi á Íslandi. Reglugerðum er sífellt bætt við eftir því sem þær eru innleiddar. T.d. má fara í landalista og velja plúsinn við Rússland eða Belarús til að sjá lista yfir reglugerðarbreytingar.
- Á vefslóðinni má skrá sig á póstlista og þá berst tölvupóstur í hvert skipti sem ný reglugerð um þvingunaraðgerðir er birt á Íslandi.
- Ísland innleiðir ESB gerðirnar og tryggir þannig einsleitni innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þannig eru efnislegar gerðir ESB birtar þýddar í viðaukum (ath. að smella þarf á PDF útgáfu skjalsins til þess að sjá viðaukana). Þegar eingöngu er um að ræða breytingar á listum yfir aðila sem sæta þvingunaraðgerðum, eða breytingar á listum yfir tækni, hluti og annað, er vísað til birtingar í Stjórnartíðindum ESB og gefin upp vefslóð í viðauka við reglugerðina.
- EU Sanctions Map sem ESB heldur úti veitir aðgengilegt yfirlit um gildandi aðgerðir, hefur krækjur á gerðir þar sem allar breytingar hafa verið felldar inn og eru þannig aðgengilegri (consolidated versions). Á þessari síðu má slá upp nöfnum á einstaklingum og lögaðilum og kanna hvort þeir séu á lista hjá ESB. Ef svo er eru mjög miklar líkur á að sá listi sé í gildi hér á landi, eða muni fljótlega taka gildi. Aðgerðirnar varða Úkraínu, Rússland og Belarús.
- Á þessum vef má einnig finna yfirlit yfir þær aðgerðir sem gripið hefur verið til vegna innrásarinnar og skjöl með algengum spurningum um túlkun og framkvæmd og svör við þeim.
Yfirlit þvingunaraðgerða gegn Rússlandi og Belarús vegna innrásar í Úkraínu
- Ferðabann og frysting fjármuna tiltekinna einstaklinga og lögaðila
- Beinast gegn 1708 einstaklingum og 422 lögaðilum og er sá listi uppfærður reglulega. Þessir aðilar hafa með einum eða öðrum hætti grafið undan landamærahelgi, sjálfstæði og fullveldi Úkraínu. Sjá lista hér.
- Þá sæta einstaklingar frystingu fjármuna sem misfarið hafa með fé úkraínska ríkisins. Sjá lista hér.
- Efnahags- og viðskiptaþvinganir
- Víðtækar þvingunaraðgerðir gilda um viðskipti við Rússland og Belarús bæði hvað varðar innflutning og útflutning og þjónustu í ákveðnum geirum. Til dæmis ná þær yfir fjármálamarkaði og bankastofnanir, ýmsa orkugjafa eins og olíu og gas, hömlur á flug- skipa- og vegasamgöngur auk vegaflutninga. Þá taka þær einnig til hernaðartengdar vara, vara með tvíþætt notagildi og þjónustu og viðskipti með hrávöru og aðra vöru.
- Útsendingarbann
- Lagt er bann við útsendingu á ákveðnum rússneskum áróðursmiðlum á ESB svæðinu þangað til árás Rússlands á Úkraínu linnir.
- Hömlur á viðskiptum við ákveðin svæði
- Settar hafa verið hömlur á viðskipti með vöru og þjónustu tengdum héruðunum Donetsk, Luhansk, Zaphorizhzhia og Kherson, sem og á Krímskaga, að undanskildum vörum sem fengið hafa upprunavottorð frá ríkisstjórn Úkraínu.
- Sjá nánari skýringar á vef ráðs Evrópusambandsins og ítarlegri upplýsingar og algengar spurningar og svör á vef framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins. Sjá nánari upplýsingar um aðgerðir gegn Belarús.
- Skýringarsíða ráðs Evrópusambandsins.
- Yfirlit aðgerða.
Allt frá upphafi allsherjarinnrásar Rússlands hafa íslensk stjórnvöld takmarkað samskipti, samstarf og fundi með fulltrúum rússneskra stjórnvalda, hvort sem er í tvíhliða, svæðisbundnu eða marghliða samstarfi. Um þetta er náið samráð við helstu samstarfs- og bandalagsríki.
Aðildarríki Norðurskautsráðsins að undanskildu ú sendu 3. mars 2022 frá sérr. Í ljósi grófra brota Rússlands á alþjóðalögum var gert tímabundið hlé á þátttöku í öllum fundum ráðsins og undirstofnana þess. Þetta allsherjarhlé tók enda í júní 2022 en þá hófst aftur vinna við rannsóknarverkefni undir ráðinu sem Rússland átti ekki aðild að. Takmarkað samstarf hófst við Rússland á sviði norðurslóðarannsókna eftir að Norðmenn tóku við formennsku í ráðinu í maí 2023. Vinnuhópum ráðsins var heimilað að hefja fjarfundi með aðild Rússlands á vormánuðum 2024. Ekkert stjórnmálasamstarf er við Rússland á vettvangi ráðsins.
Umræða um þátttöku Rússlands hefur átt sér stað á vettvangi fjölmargra annarra alþjóðastofnana sem Ísland á aðild að. Þegar hefur verið tekin ákvörðun um að meina Rússlandi þátttöku í nokkrum þeirra tímabundið, til að mynda í Evrópuráðinu, mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, Eystrasaltsráðinu (CBSS), Barentsráðinu og Norðlægu víddinni. Þá hefur Norræna ráðherranefndin ákveðið að stöðva allt samstarf við Rússland og Belarús.
Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur formlega slitið aðildarviðræðum við Rússland og meinað Rússlandi og Belarús þátttöku í verkefnum og fryst ónýttar greiðslur vegna þátttöku þeirra. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) hefur virkjað svokallað Moskvuferli sem setur á laggirnar rannsókn á vegum Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE (ODIHR) á mögulegum stríðsglæpum og öðrum mannréttindabrotum. Á vettvangi Alþjóðlegasakamáladómstólsins (ICC) var Ísland í hópi 39 ríkja sem vísuðu aðstæðum í Úkraínu til saksóknara ICC. Hann hefur hafið rannsókn á mögulegum stríðsglæpum og glæpum gegn mannúð.
Ályktun gegn stríðinu var samþykkt á neyðarfundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 2. mars 2022. Innrásin er reglulega á dagskrá funda Sameinuðu þjóðanna og Öryggis- og samvinnustofnunnar Evrópu (ÖSE).
Moskvuferli ÖSE hefur reynst afar gagnlegt til að rannsaka og staðfesta brot Rússlands á alþjóðlegum mannréttindum og mannúðarrétti í samhengi við innrás þeirra í Úkraínu. Eftir innrásina hefur Moskvuferlið verið virkjað fjórum sinnum um innrás Rússlands og einu sinni um mannréttindabrot í Rússlandi. Ísland hefur ávallt verið meðal þeirra ríkja sem að því hafa staðið.
Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin áttu einnig frumkvæði að því að svonefnt Vínarferli var virkjað vegna viðvarandi mannréttindabrota í Rússlandi, en þá var kallað eftir svörum frá rússneskum stjórnvöldum um eftirfylgni og umbætur á sviði mannréttinda og lýðræðis.
Starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu var lögð niður 1. ágúst 2023. Ákvörðunin fól ekki í sér slit á stjórnmálasambandi ríkjanna. Um leið og aðstæður leyfa verður lögð áhersla á að hefja starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu á ný.
Ísland tekur þátt í friðarferli forseta Úkraínu (Peace Formula) og sækir forsætisráðherra sérstakan leiðtogafund um frið í Úkraínu dagana 15. og 16. júní 2024.
Afnám einfaldrar meðferðar vegabréfsáritana fyrir rússneska stjórnarerindreka, viðskiptafólk, þingmenn, diplómata og tengda aðila.
Íslensk stjórnvöld ákváðu 27. febrúar 2022 að afnema einfaldari meðferð vegabréfsáritana fyrir rússneska stjórnarerindreka, viðskiptafólk, þingmenn, diplómata og tengda aðila til að sýna samstöðu með Úkraínu. Réttindin um vegabréfsáritanir til ákveðinna hópa, sem hafa nú verið afnumin, byggja á tvíhliða samningi um liprun áritunarmála á milli Íslands og Rússlands frá árinu 2008. Þetta er gert til samræmis við aðgerðir Evrópusambandsins og ríkja á Schengen-svæðinu. Almennar áritunarreglur og umsóknarferli mun því gilda fyrir alla rússneska ríkisborgara hér eftir.
Rússneskum karfaveiðiskipum óheimilt að koma til Íslands
Þann 8. mars 2022 afturkallaði matvælaráðherra undanþágu sem var í gildi fyrir rússneska togara til löndunar og umskipunar í íslenskum höfnum. Samkvæmt lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands er erlendum skipum óheimilt að koma til hafnar á Íslandi og fá hér þjónustu stundi skipið veiðar eða vinnslu á afla úr sameiginlegum nytjastofnum og íslensk stjórnvöld hafa ekki gert milliríkjasamning um nýtingu á, svo sem hagar til um karfa á Reykjaneshrygg. Heimild er í lögum til að veita undanþágu frá löndunar- og þjónustubanni vegna slíkra veiða. Rússneskir togarar hlutu slíka undanþágu frá 1999 til 2022.
Lokun íslenskrar lofthelgi fyrir umferð rússneskra loftfara
Íslensk stjórnvöld ákváðu 27. febrúar 2022 að loka íslenskri lofthelgi fyrir umferð rússneskra loftfara. Ákvörðunin meinaði flugvélum sem eru í eigu eða leigu rússneskra aðila um aðgang, brottför og/eða gegnumför um íslenska lofthelgi. Það sama gildir um flugrekendur sem starfa á grundvelli leyfa sem gefin eru út af rússneskum yfirvöldum. Rétt er að nefna að íslenskt flugstjórnarsvæði er umtalsvert stærra en íslensk lofthelgi en stjórnvöld hafa ekki heimildir að þjóðarétti til að takmarka umferð um flugstjórnarsvæðið heldur einungis í lofthelginni.
Hafnbann
Með reglugerð 532/2022 dags. 6. maí 2022 var innleitt hafnbann, með innleiðingu á 5. pakka þvingunaraðgerða ESB. Í því felst að óheimilt er að bjóða skipi sem skráð er undir fána Rússlands aðgang að höfnum á yfirráðasvæði Íslands. Skip sem falla undir bannið eru skip sem falla undir gildissvið viðeigandi alþjóðasamninga. Slík skip eru farþega- og flutningaskip yfir 500 brúttótonnum og fiskiskip sem falla undir MARPOL-samninginn, þ.e. hafa tiltekið stóra vél eða þurfa annars háttar mengunarvarnarskírteini. Þá falla skemmtiskip, skemmtibátar og snekkjur undir bannið. Frá banninu má víkja í neyðartilvikum.
Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins veitir Íslendingum í Úkraínu, mökum þeirra og börnum aðstoð eftir fremsta megni. Utanríkisþjónusta Íslands er ekki með starfsfólk á staðnum og úrræði borgaraþjónustunnar því takmörkuð.
Þeim sem eru í Úkraínu er ráðlagt að huga að ferðaskilríkjum og vottorðum, svo sem fæðingarvottorðum og/eða hjúskaparvottorði og hafa þau meðferðis. Úkraínskir ríkisborgarar eru undanþegnir skyldu til að hafa vegabréfsáritun við komu til Íslands og mega dvelja í allt að 90 daga á Schengen-svæðinu án vegabréfsáritunar.
Utanríkisráðuneytið mælir með að þeir sem eru staddir í Úkraínu fylgist vel með fréttum og fylgist með ferðaviðvörunum. Hlekki á ferðaviðvaranir nágrannaríkja Íslands má finna hér á stjórnarráðsvefnum.
Ef þú þekkir til eða ert í samskiptum við fólk á flótta sem vill leggja leið sína til Íslands er þér bent á upplýsingasíðu Útlendingastofnunar á ensku og úkraínsku. Þar koma fram nýjustu upplýsingar fyrir fólk frá Úkraínu sem hyggst koma til Íslands.
Að undangengnu samráði, innan lands sem utan, ákvað dómsmálaráðherra þann 1. febrúar 2023 að framlengja gildistíma 44. gr. útlendingalaga nr. 80/2016, vegna áframhaldandi fjöldaflótta í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Þessi ákvörðun er í samræmi við sjálfkrafa framlengingu gildistíma tilskipunar nr. 2001/55/EB um tímabundna vernd vegna fjöldaflótta. Móttaka flóttamanna hérlendis mun áfram ná til sömu skilgreindu hópa og verið hefur undanfarið ár. Þessari aðferð er fyrst og fremst beitt til þess að geta veitt þeim sem flýja Úkraínu skjóta og skilvirka aðstoð, nánar tiltekið tímabundna vernd, án þess að móttakan og aðstoðin verði verndarkerfi Íslands ofviða.
Aðstoð á Íslandi
Ísland hefur tekið á móti fjölda fólks á flótta frá Úkraínu. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið skipaði sérstakt aðgerðateymi vegna komu einstaklinga á flótta frá Úkraínu og á haustmánuðum 2022 var hlutverk teymisins útvíkkað þannig að það næði til alls flóttafólks sem leitar til landsins. Teymið hefur leitt samhæfingu aðgerða og unnið að skipulagningu á móttöku flóttamanna á Íslandi.
Flóttamannanefnd hefur fylgst náið með framvindu mála er varðar fólk á flótta frá Úkraínu, bæði í samráði við Norðurlönd, önnur Evrópuríki sem og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, auk þess að fylgjast með aðstæðum á landamærum nágrannaríkja landsins.
Fjárhagstuðningur til hjálparsamtaka
Fjöldi hjálparsamtaka hér á landi hóf neyðarsöfnun strax eftir innrásina í Úkraínu. Á vefsíðum einstakra hjálparsamtaka og félagasamtaka getur þú fundið upplýsingar um safnanirnar.
Starfstækifæri fyrir flóttafólk
Ert þú með starfstækifæri fyrir flóttafólk? Vinnumálastofnun getur aðstoðað þig. Hjá stofnuninni starfa ráðgjafar sem sinna þjónustu við flóttamenn.
Nánari upplýsingar á vef Vinnumálastofnunar
Almannavarna- og mannúðarsamhæfingardeild Evrópusambandsins
Yfirvöld hafa unnið af fullum krafti við að skipuleggja sem best allar hliðar hjálparstarfs. Ísland er aðili að Almannavarna- og mannúðarsamhæfingardeild Evrópusambandsins (The Emergency Response Coordination Centre ERCC) sem gegnir samhæfingarhlutverki neyðaraðstoðar vegna Úkraínu og nágrannaríkjanna. Lögð er mikil áhersla á að löndin veiti skipulagða aðstoð sem er vandlega forgangsraðað. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra er tengiliður Íslands við þetta samstarf og sér um samhæfingu vegna þess hér innanlands.
Sjálfstæð félagasamtök hafa jafnframt unnið af fullum krafti að því að veita liðsinni í gegnum þau skipulögðu úrræði og tengingar sem þau samtök hafa á alþjóðavísu.
- UtanríkisráðuneytiðStuðningur við Úkraínu og Belarús í brennidepli á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda31. október 2024
- ForsætisráðuneytiðFjórði leiðtogafundur Norðurlandanna og Úkraínu fór fram á Þingvöllum29. október 2024
- UtanríkisráðuneytiðVarnarmálaráðherrar Atlantshafsbandalagsins ræddu sameiginlegar varnir og Úkraínu22. október 2024
- UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna heimsóttu Úkraínu og Moldóvu17. október 2024
- UtanríkisráðuneytiðRíkjahópur um sprengjuleit og eyðingu í Úkraínu fundar í Reykjavík27. september 2024
- UtanríkisráðuneytiðEnduruppbygging Úkraínu og nýsköpun í þróunarsamvinnu í brennidepli á fundi þróunarsamvinnuráðherra Norðurlandanna18. september 2024
- DómsmálaráðuneytiðDómsmálaráðuneyti leggur til að tímabundin vernd Úkraínubúa verði framlengd10. september 2024
- Utanríkisráðuneytið, ForsætisráðuneytiðSamstaða innan Atlantshafsbandalagsins um áframhaldandi öflugan stuðning við Úkraínu11. júlí 2024
- UtanríkisráðuneytiðMálefni Mið-Austurlanda efst á baugi á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda í Stokkhólmi21. júní 2024
- UtanríkisráðuneytiðNorðurlönd og Eystrasaltsríkin sameinuð í öflugum stuðningi við Úkraínu07. júní 2024
- UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðuneytið fjármagnar sendingu stoðtækja Össurar til Úkraínu04. júní 2024
- UtanríkisráðuneytiðStuðningur við Úkraínu efst á baugi á fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins31. maí 2024
- ForsætisráðuneytiðForsætisráðherra tók þátt í leiðtogafundi Norðurlandanna með Úkraínuforseta31. maí 2024
- UtanríkisráðuneytiðÁskoranir í alþjóðamálum og 30 ára afmæli EES-samningsins í brennidepli í Brussel29. maí 2024
- Utanríkisráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið75 ára afmæli Evrópuráðsins fagnað á ráðherrafundi í Strassborg17. maí 2024
- UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðherra ávarpaði málþing í tilefni af 75 ára afmælis Atlantshafsbandalagsins14. maí 2024
- 1081 FSC, 12 June 2024 (EU Statement)12. júní 2024
- 30th Minesterial Council Meeting, 30 November - 1 December 2023 01. desember 2023
Sjá einnig:
- Aðstoð erlendis - borgaraþjónusta
- Ferðaráð og -viðvaranir
- Þvingunaraðgerðir
- EU Sanctions Map - yfirlit um gildandi þvingunaraðgerðir ESB
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.