Mannúðaraðstoð
Mannúðaraðstoð Íslands miðar að því að bjarga mannslífum, standa vörð um mannlega reisn og draga úr þjáningum þar sem neyðarástand hefur skapast. Íslensk stjórnvöld leggja sig fram við að virða alþjóðleg mannúðarlög og samþykktir. Framlög Íslands byggja á þeirri grundvallarsýn að mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi og sjálfstæði sé besta leiðin til að vernda almenna borgara og tryggja aðgengi þeirra að aðstoð. Ísland starfar eftir stefnumiðum á sviði mannúðaraðstoðar.
Þörfin fyrir mannúðaraðstoð fer stöðugt vaxandi. Ástæður eru einkum átök og óstöðugleiki, loftslagsbreytingar og efnahagslegar þrengingar víðs vegar um heiminn. Milljónir hafa flosnað upp af heimilum sínum og lent á vergangi eða flótta sem hefur í för með sér miklar þjáningar, þar með talið aukna áhættu á að verða fyrir kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi.
Íslensk stjórnvöld leggja hönd á plóginn til að bregðast við þessu alvarlega ástandi. Einkum er starfað með þeim stofnunum og sjóðum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) sem hafa það hlutverk að bregðast við neyðar- og mannúðarástandi og veita lífsbjargandi aðstoð og vernd (Samhæfingarskrifstofa aðgerða SÞ í mannúðarmálum (OCHA), Neyðarsjóður SÞ (CERF), Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR) og Matvælaáætlun SÞ (WFP)). Ísland starfar einnig með Alþjóðaráði Rauða krossins (ICRC) í gegnum Rauða kross Íslands. Nánar má lesa um starf Íslands með áherslustofnunum í mannúð neðst á síðunni.
Gerðir eru rammasamningar við helstu samstarfsstofnanir. Miðast slíkir samningar við ákvæði í þróunarsamvinnustefnu um að beita sér fyrir auknum og fyrirsjáanlegum framlögum til mannúðarmála í samræmi við áherslur um aukna skilvirkni og árangur.
Borgarasamtök gegna einnig mikilvægu hlutverki í mannúðaraðstoð. Utanríkisráðuneytið tekur á móti umsóknum um styrki til íslenskra borgarasamtaka skv. sérstökum verklagsreglum. Sjá nánar undir samstarf við félagasamtök.
Mannúðaraðstoð árið 2022
Íslensk stjórnvöld hafa aukið framlag sitt til mannúðaraðstoðar, einkum í samstarfi við stofnanir og sjóði Sameinuðu þjóðanna (SÞ) sem bregðast við aukinni neyð.
Gerðir hafa verið rammasamningar við lykilstofnanir á sviði mannúðarmála. Miðast slíkir samningar við ákvæði í þróunarsamvinnustefnu um að samfara hækkun mannúðarframlega verði þau fyrirsjáanleg í samræmi við bestu starfshætti og kröfur um skilvirkni og árangur.
Árið 2022 veittu íslensk stjórnvöld 1.443 milljónum kr. til mannúðaraðstoðar. Talsverður hluti fjárins fór í samningsbundin framlög til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP), Samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA), Neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (CERF) og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) en fyrrgreindar stofnanir og sjóðir eru áherslustofnanir Íslands. Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA), Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna (UNFPA), UNICEF og UN Women fengu einnig mannúðarframlög, ásamt Alþjóðaráði Rauða krossins (ICRC). Framlög til Sýrlands, Jemen, Afganistan og Mið-Sahel vógu þyngst á árinu 2022 en neyðarbeiðnum var líka svarað frá Eþíópíu, Sómalíu, Pakistan og Malaví.
Eitt af markmiðum þróunarsamvinnustefnunnar er að styrkja tengslin milli mannúðarstarfs og þróunarsamvinnu. Það kom fram í áframhaldandi samstarfi við UNICEF um uppbyggingu á sviði vatns- og skólpveitu í Norður-Úganda þar sem stórir hópar flóttafólks eiga athvarf, flestir frá Suður-Súdan. Ísland hefur samið við nokkrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna um að senda sérfræðinga á sviði mannúðar tímabundið til starfa á vettvangi. Árið 2022 starfaði einn sérfræðingur hjá UNFPA í Úganda og einn hjá UNRWA í Jerúsalem.
Metnaðarfullt alþjóðasamstarf um mannúðarmál er liður í málsvarastarfi og eftirfylgni Íslands með mannúðarframlögum. Fylgst var með árangri allra samstarfsaðila í gegnum framvindu- og úttektarskýrslur auk reglulegs samráðs með áherslu á starfsemi framkvæmdanefndar UNHCR og ráðgjafanefndar OCHA, sem Ísland er aðili að. Farið var í tvær vettvangsheimsóknir, fyrst til Palestínu og Jórdaníu og síðar til Suður-Súdan með UNHCR. Loks veitti ráðuneytið styrki til ýmissa félagasamtaka vegna neyðar- og mannúðarmála, eins og greint er frá annars staðar í skýrslunni.
Útsendir sérfræðingar
Sérstakt samkomulag (e. Standby Partnership) hefur verið gert við nokkrar mannúðarstofnanir Sameinuðu þjóðanna um ráðningu íslenskra sérfræðinga til tímabundinna starfa á vettvangi, allt frá 3 mánuðum og upp í 12 mánuði. Fjöldi, tegund og staðsetning stöðugilda fer eftir þörfum samstarfsstofnananna og áherslum Íslands. Val á útsendum sérfræðingum er í höndum viðkomandi stofnana.
Sérfræðingar sem vilja gefa kost á sér geta skráð sig á viðbragðslista íslensku friðargæslunnar.
Samhæfingarskrifstofa aðgerða SÞ í mannúðarmálum (United Nations Office for the Coordination of Humanitarian Affairs OCHA) gegnir lykilhlutverki í mannúðaraðstoð og neyðarviðbrögðum og er ein af fjórum áherslustofnunum Íslands í mannúðaraðstoð samkvæmt stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019-2023. Höfuðstöðvar OCHA eru á tveimur stöðum, New York og Genf. Einnig eru starfræktar fimm svæðaskrifstofur og 30 landaskrifstofur.
Ísland veitir árlega óeyrnamerkt kjarnaframlög til OCHA samkvæmt rammasamningi en gerð rammasamninga til alþjóðastofnana er í takt við áherslur Íslands um mikilvægi fyrirsjáanleika og sveigjanleika framlaga.
Einnig veitir Ísland fé í svæðasjóði OCHA (Country Based Pooled Funds, CBPF). Sjóðirnir gera gjafalöndum kleift að sameina framlög sín í óeyrnamerkta körfusjóði til stuðnings mannúðaraðgerða á tilteknum neyðarsvæðum. Sjóðirnir veita þannig aðstoð á skilvirkan og samþættan hátt í takt við mannúðarlög. Svæðasjóðirnir falla vel að yfirlýsingum Íslands á leiðtogafundi um mannúðarmál í Istanbúl árið 2016. Má þar nefna markmiðið að færa alla ákvarðanatöku nær haghöfum með áherslu á að aðstoða þá sem mest á þurfa að halda.
OCHA tryggir eftirlit með sjóðsframlögum og ábyrgist að þeim sé veitt til verkþátta þar sem þörfin er mest. Þetta er fyrirkomulag sem kemur sér vel fyrir Ísland vegna smæðar og fárra starfsstöðva á stríðshrjáðum svæðum.
Ísland á sæti í ráðgjafanefnd OCHA (e. OCHA Donor Support Group). Nefndin fylgir eftir málefnasviði skrifstofunnar, leggur mat á stefnumörkun og stjórnun auk fjárhagsáætlana. Aðild Íslands er mikilvægur liður í eftirfylgni með þróunarsamvinnufé Íslands.
OCHA heldur einnig utan um sérstakan viðbragðslista vegna náttúruhamfara (e. United Nations Disaster Assessment and Coordination, UNDAC). Útvaldir sérfræðingar eru kallaðir út til að meta aðstæður og samhæfa neyðaraðgerðir á vettvangi. Ísland tekur þátt í þessu verkefni í samstarfi við Slysavarnafélagið Landsbjörg (SL). SL heldur einnig utan um íslensku alþjóðarústabjörgunarsveitina en sveitin er hluti af alþjóðlegu tengslaneti rústabjörgunarsveita (e. International Search and Rescue Advisory Group, INSARAG) sem OCHA hýsir.
Neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna (Central Emergency Respone Fund, CERF) er ein af fjórum áherslustofnunum og sjóðum Íslands í mannúðaraðstoð eins og fram kemur í stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019-2023. Í stefnunni er kveðið á um aukin og fyrirsjáanleg framlög til mannúðarastoðar og í samræmi við það greiðir Ísland árleg framlög til CERF samkvæmt rammasamningi.
CERF er vistaður undir Samhæfingarskrifstofu aðgerða SÞ í mannúðarmálum (OCHA). Hlutverk sjóðsins er að veita tímanlega og áreiðanlega mannúðar- og neyðaraðstoð á stríðs- og átakasvæðum og í kjölfar náttúruhamfara. CERF leggur áherslu á snemmtækar og skilvirkar aðgerðir til að draga úr manntjóni og neyð og grípur inn í þar sem neyðin er viðvarandi og gleymd.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (Office of the United Nations High Commissioner for Refugees, UNHCR) stendur vörð um réttindi og velferð flóttamanna, einstaklinga á vergangi í heimalandi, landlausra, hælisleitenda og einstaklinga sem snúa aftur til síns heimalands. Hlutverk stofnunarinnar er að veita vernd, skjól, lífsafkomu og grunnþjónustu. Höfuðstöðvar UNHCR eru í Genf en stofnunin starfar í um 134 löndum.
UNHCR er ein af áherslustofnunum Íslands í mannúðaraðstoð samkvæmt stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019-2023. Ísland veitir árleg kjarnaframlög til UNHCR samkvæmt rammasamningi. Reglubundin og óeyrnamerkt framlög Íslands gera stofnuninni kleift að forgangsraða í þágu þeirra sem mest þurfa á að halda á hverjum tíma.
Sem liður í eftirfylgni með þróunarsamvinnufé Íslands gerðist Ísland aðili að framkvæmdanefnd UNHCR (e. Executive Committee, ExCom). Nefndin er ráðgefandi auk þess sem hún leggur mat á vinnuáætlanir UNHCR og afgreiðir fjárhagsáætlanir stofnunarinnar.
UNHCR er einnig helsta samstarfsstofnun Íslands við móttöku kvótaflóttamanna (e. refugee resettlement programme) til Íslands sem er á ábyrgð félagsmálaráðuneytisins.
Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (World Food Programme, WFP) er ein af áherslustofnunum Íslands í mannúðaraðstoð. Stofnunin sinnir bæði mannúðar- og þróunaraðstoð. Höfuðstöðvar WFP eru í Róm en stofnunin starfar auk þess með svæða- og landaskrifstofur í 83 löndum.
Íslensk stjórnvöld veita kjarnaframlög til WFP í formi mannúðaraðstoðar samkvæmt rammasamningi. Ísland svarar einnig neyðarköllum frá stofnuninni eftir föngum. Samræmist það stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019-2023 um aukin og fyrirsjáanleg framlög til mannúðaraðstoðar.
Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (United Nations Relief and Works Agency for Palestine Refugees in the Near East, UNRWA) starfar í þágu palestínskra flóttamanna á Vesturbakkanum, Gaza, Líbanon, Sýrlandi og Jórdaníu.
UNRWA veitir palestínsku flóttafólki margvíslega þjónustu, ekki síst á sviði menntunar og heilbrigðismála, bæði í flóttamannabúðum og utan þeirra. Stofnunin sinnir einnig mannúðar- og neyðaraðstoð vegna átaka í Sýrlandi, neyðarástands í Líbanon og viðvarandi óvissuástands á Gaza.
Ísland hefur stutt starf stofnunarinnar um langt skeið í formi fjárframlaga og útsendra sérfræðinga. Gengið var frá rammasamningi í byrjun árs 2018 um fyrirsjáanleg kjarnaframlög og samræmist það stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019-2023 um aukin og fyrirsjáanleg framlög til mannúðaraðstoðar.
Alþjóðaráð Rauða krossins (International Committee of the Red Cross, ICRC) er óháð og hlutlaus mannúðarstofnun með aðsetur í Genf. ICRC einbeitir sér að lagalegri vernd og aðstoð við fórnarlömb vopnaðra átaka á grundvelli mannúðarlaga. Auk þess vinnur stofnunin öflugt starf við útbreiðslu og virðingu fyrir Genfarsamningunum.
Mannúðarlög (International Humanitarian Law, IHL) sem ICRC heldur utan um, er hornsteinn mannúðaraðstoðar. Ísland fylgist því vel með málefnastarfi ICRC og veitir stofnuninni árlegt framlag. Ísland styður ICRC einnig í gegnum rammasamning utanríkisráðuneytisins og RKÍ.
Nánar má lesa um samstarf við Rauða krossinn á Íslandi undir Samstarf við félagasamtök.
Sjá einnig:
Lög
Reglugerðir
Áhugavert
Framlög
Þróunarsamvinna
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.