Fjölþjóðlegt viðskiptasamstarf
Alþjóðaviðskiptastofnunin (World Trade Organization)
Alþjóðaviðskiptastofnunin er helsti vettvangur fyrir ríki heims til að ræða viðskipti og semja um leikreglur sem eiga að tryggja fyrirsjáanleika og úrlausn deilumála.
Stofnunin var sett á fót árið 1995 og kom í stað GATT (General Agreement on Tariffs and Trade), en GATT- samningurinn hafði verið samþykktur í kjölfar endaloka síðari heimstyrjaldarinnar. Aðildarríkjum stofnunarinnar hefur fjölgað úr 128 í 164 frá stofnun hennar.
Alþjóðaviðskiptastofnunin grundvallast á nokkrum samningum á sviði vöruviðskipta (GATT), þjónustuviðskipta (GATS) og hugverkaréttar (TRIPS). Ásamt fleiri sértækum samningum mynda þeir regluverk um alþjóðleg viðskipti og miða að því að takmarka möguleika ríkja til að hefta viðskipti sín á milli. Þar setja aðildarríkin m.a. þak á tolla sem þau hafa heimild til að beita við innflutning, svonefnda tollbindingu. Þar eru einnig settar skorður við ríkisstyrki til landbúnaðar sem skekkja samkeppnisstöðu, einkum framleiðslutengda ríkisstyrki.
Samningur um tæknilegar viðskiptahindranir (TBT) og samningur um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna (SPS) eru hluti af regluverki WTO og er þeim ætlað að stuðla að sanngjörnum viðskiptum og ryðja úr vegi óþörfum viðskiptahindrunum. Tæknilegar viðskiptahindranir felast m.a. í mismunandi regluverki sem stundum kemur í veg fyrir að vara sem er framleidd í einu landi sé gjaldgeng í öðru.
Ríkjum er frjálst að innleiða reglur og eftirlit til að tryggja heilbrigði og öryggi fólks en samningarnir miða að því að það sé gert með lágmarksáhrifum á viðskipti. Dæmi um slíkar reglur eru t.a.m. kröfur um heilbrigðisvottorð fyrir ýmis matvæli og öryggiskröfur á vélar og tæki. Alþjóðlegir staðlar auðvelda samræmingu slíkra reglna. Þá er mikilvægt að gagnsæi ríki um gildandi reglur svo að fyrirtæki sem vilja selja vörur sínar á viðkomandi markaði geti farið að þeim. Á grundvelli EES-samningsins gilda samræmdar reglur á Íslandi og í hinum EES-ríkjunum sem ryðja flestum slíkum viðskiptahindrunum úr vegi í viðskiptum ríkjanna. Stundum þarf að gera samninga um gagnkvæma viðurkenningu á reglum og eftirliti eins og Ísland hefur gert t.d. við Kína um gagnkvæma viðurkenningu heilbrigðisvottorða fyrir ákveðnar landbúnaðar- og sjávarafurðir. Dæmi um óþarfar viðskiptahindranir eru nákvæmar reglur um útlit umbúða, flókin og hæg tollafgreiðsla og kröfur um vottorð og pappírsvinnu sem eykur hvorki öryggi né gæði vara.
Alþjóðaviðskiptastofnunin heldur jafnframt utan um fyrirkomulag sem miðar að því að leysa deilumál sem koma upp í viðskiptum milli ríkja, þegar samningar stofnunarinnar eru túlkaðir á misjafnan hátt.
Ísland hefur mikla hagsmuni af því að viðhalda því gagnsæja og markaðsmiðaða regluverki alþjóðaviðskipta sem byggst hefur upp á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Með því er inn- og útflytjendum skapaður fyrirsjáanleiki í viðskiptum og möguleikar stærri aðildarríkja til að nota afl sitt gegn þeim smærri takmarkaðir. Ísland hefur því, ásamt fleiri ríkjum í sambærilegri stöðu, beitt sér fyrir því að núverandi viðskiptakerfi verði styrkt í sessi. Þá er Ísland meðal aðildarríkja sem vilja stuðla að enn opnara viðskiptaumhverfi. Þessi ríki hafa komið sér saman um að taka sérstaklega fyrir ný málefni, þ.e. rafræn viðskipti, stöðu smárra og meðalstórra fyrirtækja og að greiða fyrir fjárfestingum. Ísland hefur verið meðal ríkja sem hafa lagt áherslu á að alþjóðaviðskipti og jafnréttismál sé rædd á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þá hefur Ísland gegn leiðandi hlutverki í viðræðum um afnám skaðlegra ríkisstyrkja í sjávarútvegi.
Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA)
Aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu (European Free Trade Association, EFTA) hafa gert 29 fríverslunarsamninga sem taka til fjörtíu ríkja og ríkjasambanda utan ESB. Nánar um EFTA.
Efnahags- og framfarastofnunin (OECD)
Efnahags- og framfarastofnunin (Organization for Economic Co-operation and Development, OECD) í París hefur það markmið að bæta efnahagsþróun og hagvöxt í aðildarríkjunum, stuðla að bættum lífskjörum og vexti og þróun heimsviðskipta.
Stofnunin var sett á fót árið 1961 og var Ísland eitt af stofnaðilum stofnunarinnar. Hún var stofnuð á grunni eldri stofnunar, OEEC (Organization for European Economic Co-operation) sem hafði verið sett upp til að aðstoða við dreifingu Marshall-aðstoðarinnar til Evrópuríkja. OECD er vettvangur sem aðildarríkin nota til að bera saman árangur af opinberri stefnu, leita svara við sameiginlegum áskorunum og samþætta stefnumótun.
Aðildarríki stofnunarinnar eru 38 og flest þeirra eru hátekjulönd sem skora hátt á lífgæðamælikvarða Sameinuðu Þjóðanna (e. Human development index).
Á hverju ári gefur stofnunin út fjölda skýrslna þar sem aðildarríkin eru borin saman á ýmsum sviðum og árangur þeirra metinn. Íslensk stjórnvöld taka virkan þátt í starfsemi OECD.
Alþjóðleg viðskiptamál og jafnrétti
Utanríkisþjónustan leggur aukna áherslu á jafnréttismál í starfi sínu á sviði alþjóðaviðskipta og hefur Ísland m.a. verið í leiðandi hlutverki við að koma jafnréttismálum á dagskrá innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og á vettvangi Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA).
Sameiginleg yfirlýsing um efnahagslega valdeflingu kvenna sem utanríkisráðherra Íslands tók þátt í að hleypa of stokkunum í tengslum við ráðherrafund WTO árið 2017 lagði grunninn að því að hægt var að stofna óformlegan vinnuhóp um viðskipti og kynjajafnrétti á vettvangi WTO. Hópurinn var stofnaður haustið 2020 og leidd Ísland starf hans, ásamt El Salvador og Botsvana, til 2023 er Ísland og Botsvana létu af formennsku í hópunum. Í starfi vinnuhópsins hefur verið lögð áhersla á að deila upplýsingum um leiðir til að efla þátttöku kvenna í viðskiptum, afla og kyngreina gögn frá skrifstofu WTO, skilgreina hvernig beita megi kynjagleraugum við greiningar, ásamt því að skoða hvernig best megi horfa til kynjasjónarmiða við framkvæmd verkefnisins Aid for Trade. Til þess að afla gagna leggur Ísland staðlaðar spurningar fyrir aðildarríkin um kynjasjónarmið og viðskipti í tengslum við rýni á viðskiptastefnu ríkjanna. Skv. upplýsingum frá skrifstofu WTO hefur þetta m.a. stuðlað að því að fleiri ríki eru farin að gera grein fyrir kynjajafnrétti í skýrslum sínum til WTO.
Á ráðherrafundi WTO sem haldinn var í júní 2022 var Ísland með ríkja sem beittu sér fyrir því að ráðherrayfirlýsing fundarins innihéldi ákvæði um mikilvægi efnahagslegrar valdeflingar kvenna. Var þetta í fyrsta skipti sem samkomulag náðist á meðal aðildarríkjanna um slíkan texta í ráðherrayfirlýsingu WTO. Þetta er til marks um að vinna líkt þenkjandi ríkja um nauðsyn þess að horfa til kynjajafnréttis í viðskiptum sé smám saman að festa sig betur í sessi á vettvangi WTO.
Utanríkisþjónustan hefur einnig unnið að framgangi jafnréttismála á vettvangi EFTA. Haustið 2016, undir formennsku Íslands, samþykkti EFTA jafnréttisáætlun fyrir stofnunina. Eitt af áherslumálum íslensku formennskunnar var skoða hvort og þá hvernig taka mætti jafnréttisákvæði upp í fríverslunarsamningum samtakanna. Það var svo á ráðherrafundi EFTA í Liechtenstein í júní 2019 sem ný jafnréttisákvæði voru færð inn í samningsmódel EFTA. Samningsmódelið leggja EFTA ríkin fram við upphaf samningaviðræðna sem grundvöll fríverslunarviðræðna. Í nýrri grein við formálaskafla samningsmódelsins árétta EFTA ríkin vilja sinn til að stuðla að hagvexti sem allir njóta góðs af og sem veiti öllum jöfn tækifæri. Þá var kaflinn um sjálfbæra þróun uppfærður á þá vegu að inngangsgrein hefur verið breytt með jafnréttissjónarmið í huga og er einnig sérstakri grein bætt við sem fjallar um um jöfn tækifæri og efnahagsþróun fyrir alla.
Ísland hefur síðan beitt sér fyrir því að setja jafnréttisákvæði í viðskiptasamninga. Fríverslunarsamningur Íslands, Noregs og Liechtenstein við Bretland sem tók endanlega gildi 1. febrúar 2023, er fyrsti samningurinn sem Ísland er aðili að sem inniheldur slíkt jafnréttisákvæði. Aðildarríkin eiga reglulega fundi um þetta ákvæði samningsins og framvindu þess.
Ísland vinnur markvisst að markaðssetningu íslenskrar jafnréttisþekkingar innan Uppbyggingarsjóðs EES. Fulltrúum þeirra 15 viðtökuríkja sem fá styrki úr sjóðnum var t.a.m. boðið á ráðstefnuna Jafnrétti til útflutnings sem haldin var í samvinnu við Uppbyggingarsjóðinn, Portúgal og Noreg í Reykjavík haustið 2019. Tilgangurinn var að kynna leiðir sem íslensk, portúgölsk og norsk félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki hafa farið í jafnréttismálum, deila reynslu, lærdómi og kynna árangur þeirra. Í kjölfar ráðstefnunnar var þróaður gagnagrunnur til þess að auðvelda aðilum frá viðtökuríkjum Uppbyggingarsjóðs EES að finna samstarfsaðila á sviði jafnréttismála
Utanríkisviðskipti
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.