Viðskiptaþjónustan - Samstarf við Íslandsstofu
Stofnun Íslandsstofu
Íslandsstofa tók til starfa 1. júlí 2010 og sameinar starfsemi Útflutningsráðs, Fjárfestingarstofu og erlent markaðsstarf Ferðamálastofu.
Náið samstarf Viðskiptaþjónustunnar og Útflutningsráðs
Vorið 2003 var undirritaður rammasamningur um samstarf Viðskiptaþjónustunnar og Útflutningsráðs með það fyrir augum að efla samvinnu þeirra en lög um útflutningsaðstoð frá 2002 lúta að frekara samráði og betri verkaskiptingu þessara tveggja aðila.
Samningurinn leiddi til þess að þjónusta viðskiptafulltrúanna varð hluti þjónustuframboðs Útflutningsráðs, sem einnig höfðu boðið fram þjónustu svokallaðra markaðsfulltrúa.
Stýrihópur Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins og Útflutningsráðs
Helstu nýmælin í samningnum voru þau að með honum var settur á laggirnar sérstakur stýrihópur til að tryggja að markmiðum samningsins yrði náð. Hópnum er ætlað samræmingarhlutverk, svo og það hlutverk að sjá til þess að því samráði og samvinnu Útflutningsráðs og Viðskiptaþjónustunnar sem stefnt er að verði fylgt í hvívetna.
Stýrihópurinn er skipaður tveimur fulltrúum frá Útflutningsráði og tveimur frá viðskiptaþjónustunni og hittist hópurinn einu sinni í mánuði. Stýrihópurinn hefur það verkefni að tryggja samráð á milli samningsaðilanna og þróa samvinnu þeirra m.a. með því að ákveða verkaskiptingu stofnananna og starfsmanna þeirra.
Hlutverk hópsins er m.a. að leita eftir samstarfi við fjármögnunaraðila, hvetja fyrirtæki og stofnanir til að skilgreina vænleg samstarfsverkefni á sviði þróunar- og markaðsmála erlendis, leggja faglegt mat á slík samstarfsverkefni og gera tillögur um fjármögnun þeirra. Sérstaklega er kveðið á um það í samningnum að leitað skuli samstarfs við ferðaþjónustuna, þá sem vilja samvinnu um útflutning á íslenskri menningu sem og aðra þá sem vilja koma að kynningu á Íslandi eða íslenskum vörum og þjónustu á erlendri grundu.
Útflutningsráð selur þjónustu viðskiptafulltrúa Íslands erlendis
Þá var áréttað í samningnum sem lögfest var í nýju lögunum að Útflutningsráð skuli annast sölu á viðskiptaþjónustu sendiráða Íslands erlendis til íslenskra fyrirtækja en ekki viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins eins og áður var.
Útrás íslenskrar menningar
Með nýju lögunum um útflutningsaðstoð nr. 160/2002 var komið á pólitískri samráðsnefnd í stað eldri samráðsnefndar og verður þeirri nýju falið að fjalla um öll utanríkisviðskipti íslenskra aðila og útflutningsaðstoð. Þannig mun utanríkisráðherra leiða samráðið og er fyrirmyndin að þessu breytta fyrirkomulagi sótt til Írlands. Samráðsnefndinni er ætlað að uppfylla fyrirheit ríkisstjórnarinnar um sameiningu og samræmingu á starfsemi þeirra opinberu aðila og hagsmunasamtaka sem sinna alþjóðlegu kynningar- og markaðsstarfi til að ná betri árangri. Með þessu nýja fyrirkomulagi eru fleiri kallaðir til samráðs en áður, s.s. menntamálaráðuneytið og Bandalag íslenskra listamanna.
Viðskiptaþjónusta
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.